Dugnaðarforkar

Kæru bloggvinir

þá er kominn sunnudagur, og það er best að reyna að vera á réttum tíma með færsluna þessa vikuna. Hér kastaði éli í morgun, en það er nú mest allt farið aftur. Þeir eru að spá einhverri snjókomu þessa vikuna. Það á líka að kólna allhressilega. Það er mjög fjölbreytt veður hérna þessa dagana. Næstu viku er frí í skólunum hér. Bóndinn fer því og keyrir í Sønderborg, þar sem hann var áður.

Við gleymdum að segja að þegar herramennirnir voru að vesenast í ofnunum síðustu helgi, þá var svo mikill þrýstingur á kerfinu að það spíttist svört drulla á nýmálaða veggina í barnaherberginu. Það þarf því að renna yfir einn vegginn aftur. Það er vonlaust að þrífa þetta af. Bóndinn var svo að tappa af lofti af ofninum í svefnherberginu okkar í vikunni og lenti í rosa ævintýri. Hann losaði tappann aðeins of mikið og tappinn spíttist úr ofninum og það frussaðist svört drulla út um allt. Hann var einn heima, með aðra hendina í ofninum og hina að reyna að ná tappanum. Honum heppnaðist nú sem betur fer að koma tappanum í áður en mikill skaði varð. En við verðum að mála yfir aftur í kringum ofninn í því herbergi. Já, við erum ekkert seinheppin! :) 'Við ætlum ekkert að mála yfir þetta fyrr en það er búið að breyta brenniofninum. Því að það er von á að það komi meira loft inn á ofnana þegar við förum í það. Svo þá er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Í gær kláraði bóndinn svo að mála gluggann í barnaherberginu og í dag drifum við okkur í að leggja parket á gólfið. Við vorum nú alveg á nálum hvort þetta myndi duga á herbergið. En með mikilli útsjónarsemi hafðist þetta. Það var hálf parketspýta eftir! Við vorum reynslunni ríkari frá því að við lögðum á svefnherbergið. Við vorum því heldur röskari við þetta núna. Það verður samt eitthvað vesen með að finna gólflista. Veggirnir eru svo rosalega skakkir að við verðum að sjá til hvernig við leysum það. Annars verðum við bara að gera eins og í hinu herberginu og setja tvöfalda lista. Allavega er mikill léttir að vera búin að koma gólfinu á.

Í gær renndum við til Gunnþóru og Mogens og skoðuðum litlu pæjuna hana Mæju Elísabet í Kolding. Við höfðum ekki séð litlu skvísuna síðan hún var alveg glæný. Hún er nú næstum 5 mánaða og er algjör dúlla. Við gæddum okkur á íslenskum lambahrygg, sem var bara algjör snilld. Við höfum ekki smakkað svoleiðis síðan síðasta sumar. Svo þetta var bara algjört æði.

Í síðustu viku kom hér maður sem var að leita að meðlimum í stjórn íþróttafélagsins í Tiset. Já það er í 200 manna samfélagi bæði borgarasamtök og íþróttafélag. Borgarasamtökin vilja ekki sameinast íþróttafélaginu, svo þess vegna er þetta svona. Nú en þar sem bóndinn er svo einstaklega félagslyndur ákvað hann að slá til og ganga til liðs við íþróttafélagið. Sem hefur reyndar ekkert að með íþróttir að gera . Þeir sjá um hátíðarhöld í bænum og eitthvað fleira. Það er aðalfundur núna um miðjan mánuð og þá fáum við nú eitthvað meira að vita. Þetta hljómaði allavega mjög vel. Svo kallinn er á hraðri leið í borgarstjórastólinn hér í Tiset.

Í síðustu viku lenti kötturinn okkar líka í hremmingum aftur. Hún fékk risa sár á bakið um daginn. Það var nýgróið þegar það kom einhver villiköttur og réðist á hana hérna inn í garði. Hún veinaði og veinaði þar til bóndinn rak köttinn á flótta. Okkar köttur var svo skelkaður að hún hvarf og kom ekki heim fyrr en eftir marga klukkutíma. Hún hafði þá orðið svo hrædd að hún hafði skitið langt upp á bak. En var nú ekki sködduð að öðru leyti. Hún er bara í áfalli ennþá. Svo það er ekkert grín að vera köttur hér í Tiset.

Bóndinn lenti líka í svaka ævintýri í vinnunni í vikunni. Einn guttinn, svona 11 ára bað hann að stoppa af því hann þurfti að pissa. Svo það var stoppað út í kanti. Skipti engum togum að drengurinn girti allt niðrum sig, dró jakkann og peysuna upp að brjósti og sprændi svo út í guðs grænni náttúrunni. Það þótti víst engum í rútunni þetta neitt athugavert nema auðvitað bóndanum.

Jæja þá eru fréttabrunnarnir orðnir þurrir í bili.

 kveðja

Gummi, Ragga og gengið

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

HAHAHA sé Gumma alveg fyrir mér horfa á strákinn pissa með undrunaraugaum. Skondið atvik og ég held flestir hefðu orðið undrandi.

Leiðinlegt að heyra þetta með kisuna, hvurslag dýr búa þarna í Tiset? Algerir níðingar svei mér þá miðað við lýsingarnar. Púff.

Gangi ykkur vel með málningarvinnuna sem framundan er....fúlt að lenda í svona.

Sjáumst fyrr en seinna

Sigrún og co Kollund

Sigrún (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 19:10

2 identicon

Þetta líst mér á Sannur ungmennafélagsandi sem svífur yfir honum Gumma. Ég hlakka mjög mikið til að heyra meira af þessari starfsemi íþróttafélagsins og hversu hratt Gumma gengur að klifra upp metorðastigann og gerast bæjarfótgeti

Það er nú annars meira hversu frjósamir þessir Íslendingar eru orðnir þarna í Danmörkunni. Bjarki bróðir og Julie eiga von á sínu öðru barni saman í ágúst svo að það er nú farið að safnast saman góðar og gildar ástæður til að kíkja til DK í heimsókn

Bestu kveðjur, Kata og Co.

Kata (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband