22.3.2009 | 15:39
Afslöppun
Kæru bloggvinir
Hér er aldrei þessu vant afslöppun. Það kemur nú ekki til af góðu, bóndinn er lagstur í flensu. Hann hefur verið drullukvefaður síðan um síðustu helgi og svo í gærkvöldi fékk hann hita og liggur flatur núna.
Bóndinn var annars ansi afkastamikill í vikunni. Hann fékk lánaða sleggju hjá nágrannanum og braut niður vegginn milli stofunnar og eldhússins. Hann dreif í þessu í einni morgunpásunni. Þegar frúin kom heim seinnipartinn lá svo haugur af múrsteinum í garðinum. Það er af þessum ástæðum endalaust ryk frammi. En gott að veggurinn er kominn niður. Þetta verður rosa munur sérstaklega þegar strompurinn er líka farinn. Við erum annars stopp í framkvæmdum þar til fasteignasalan hefur fundið út hversu mikla peninga við getum leyst út fyrir herbergin sem við erum búin með. En það er nú samt ágætt að geta slappað aðeins af. Það er víst þörf á því líka. Bóndinn tók nokkrar myndir af framkvæmdunum í stofunni og setti inn hér á síðuna, undir mars. Ekki vera feimin við að kíkja á þetta og segja hvað ykkur finnst. Þegar við erum búin að fá pening verður svo ráðist í að koma upp eldhúsinu. Það verður að gera þetta allt eftir einhverjum settum reglum.
Frúin var svo lokkuð til að sýna bumbuna fyrir framan myndavélina, árangurinn er hægt að sjá í myndaalbúminu. Barnið er lítið fyrir að hreyfa sig þegar pabbinn er að reyna að finna hreyfingarnar. Sennilega hefur hann svona róandi áhrif. Við vonum að hann hafi það áfram þegar barnið er komið í heiminn. Blóðsykurprófið kom vel út, það var auðvitað léttir að vita. Frúin er farin að safna að sér barnadóti. Það er hægt að fá hitt og þetta fyrir lítinn pening, ef maður hefur augu og eyru opin. Vinir okkar eru líka duglegir að finna það sem vantar. Við erum búin að fá slatta af fötum, og svo er verið að vinna í að finna barnavagn og skiptiborð. Við reiknum með að kaupa barnarúm í IKEA. Þeir hafa fín rúm. Frúin hættir að vinna núna seinast í apríl. Hún á rétt á að hætta tveimur mánuðum fyrir settan dag, en það verður sennilega ekki nema einn og hálfur mánuður. Það verður mjög skrýtið ekki að fara í vinnuna á hverjum degi. En maður er nú farinn að finna vel fyrir því að maður er ekki fullur af orku eins og maður er þegar maður er ekki óléttur! :) Þetta verður sennilega mjög fljótt að líða og maður nær ekki að gera allt sem maður ætlar sér áður en krílið kemur.´
Hér hefur verið hífandi rok í allan dag. Það hefur verið rosa fínt veður hérna undanfarið, allt upp í 10 stiga hiti á daginn, en næturfrost. Það á svo eitthvað að kólna meira núna í næstu viku. Við sem héldum að vorið væri komið.
Jæja látum þetta gott heita í bili
Ragga og Gummi
Athugasemdir
Þetta eru svakalegar myndir, maður hóstar bara og hóstar. Það er von að bóndinn sé kvefaður. Minnir dálítið á gamla tíma í Urðarfelli. En þetta verður frábært hjá ykkur þegar allt er búið. Gangi ykkur vel og heilsist bóndanum vel.
Kveðja frá öllum.
Gunna (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 22:40
Þetta eru heljarinnar breytingar sem þið standið í. En þetta verður örugglega æðislegt þegar þetta verður allt saman búið. Vona að Gummi nái sér fljótt, því fátt er leiðinlegra en að liggja veikur uppí rúmi. hafið það sem allra best. Kveðjur úr hafnarfirðinum
Bryndís (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 20:47
Æ er Gummi lagstur í flensuna..púff. En vonandi að hann nái bata sem fyrst.
Þetta er ansi mikið múrverk sem þið eruð í....og ekki eruð þið öfundsverð af rykinu. Gangi ykkur bara þrusuvel í þessu og vonandi fáið þið nú pening fljótlega svo þið getið haldið áfram. Allt er þetta jú tímafrekt og kríli á næsta leyti.
Heyrumst
Sigrún og co Kollund
Sigrún (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:34
Flott bumba - ekki flott ryk!
Kata (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 02:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.