1.6.2009 | 09:37
Bongóblíða
Kæru bloggvinir
við biðjumst velvirðingar á því að færslan kom ekki á réttum tíma þessa vikuna. Við vorum svo dösuð eftir hitann í gær, að það var ekki séns að við hefðum orku í að skrifa neitt að viti. Við vorum úti í sólinni í mest allan gærdag með góðum gestum frá Mejrup, sem er lítill bær langt norður á Jótlandi. Frúin sólbrann hressilega, svo það er víst best að halda sig innandyra í dag. Það er brjáluð blíða í dag líka. Á laugardaginn fórum við að skjóta leirdúfur með vinnunni hjá bóndanum. Frúin vildi ekki skjóta en var látin telja stig í staðinn. Bóndinn er orðinn bitinn af skotvopnum og þótti þetta mjög skemmtilegt. Ekki spillti nú fyrir að hann fékk þriðju verðlaun fyrir skotfimi sína. Hann var vel aumur í öxlinni í gær og í dag.
Við höfum lítið getað unnið í húsinu í vikunni. Erum að bíða eftir rafvirkja og manni til að hjálpa okkur við að setja upp veggfóður. VIð getum ekki málað beint á veggina af því þeir eru svo ósléttir, en hann er búinn að lofa að koma á föstudaginn, svo þetta skríður nú allt í rétta átt. Elli Jón er væntanlegur til Danaveldis á morgun að hjálpa pabba sínum. Það verður nú ekki leiðilegt. Hann verður hér í mánuð. Helga kemur svo seinna, hún er að fara að vinna í unglingavinnunni. Enda allt í lagi að það séu ekki allir hér í einu. Við neyddumst til að kaupa nýja sláttuvél í vikunni. Það fylgdi ein með húsinu en hún hékk varla saman, og nú er bensíntankurinn dottinn af, svo það þýðir víst lítið að púkka upp á hana. Það sprettur alveg rosalega hérna núna, svo það var ekki um annað að ræða en að kaupa aðra vél. Bóndinn er að vígja hana á blettinum í dag. Fyrst þurfti nú að setja hana alla saman og ég segi ekki annað en að leiðbeiningarnar frá IKEA eru barnaleikur miðað við þessar. En þetta virðist hafa heppnast, ég heyri allavega að hún gengur.
Frúin fór í skoðun hjá ljósmóðurinni á mánudaginn og var hún bara ánægð með þetta allt saman. Hún skaut á að barnið væri um 3 kíló sem er eðlileg stærð hér í Danmörku allavega. Barnið er búið að snúa sér en ekki búið að skorða sig, svo frúin á að fara í síðasta tékk í þarnæstu viku. Svo nú eru bara tvær vikur til stefnu, það er mjög skrýtið að spá í það. Það er nú búið að skaffa flest það nauðsynlegasta, ef það vantar eitthvað, þá kemur það í ljós. Barnið hefur allavega rúm að sofa í og sæng að sofa með. Frúin er svo hagsýn að hún keypti fullorðinssæng og klippti hana i sundur og saumaði, svo hún fékk 2 ungbarnasængur og eina stærri út úr því. Já maður er seigur þó maður hafi ekki verið i húsmæðraskóla! :)
Við renndum til Horsens í vikunni og keyptum annan bíl. Bóndinn var búin að vera að skoða bíla á netinu í svolítinn tíma og fann svo einn sem við vonum að eigi eftir að endast í allavega tvö ár. Hann er nýskoðaður, Mazda 626 og frá 1993. Gæinn sem við keyptum af tók gamla bílinn okkar upp í. Hann er í einhverju bílabraski. VIð ætluðum annars að keyra hann á haugana. Maður fær nefnilega pening fyrir það. En bílakallinn borgaði jafn mikið og haugarnir, svo þá sluppum við við að keyra hann heim aftur. Það er nú pínu eftirsjá í Audinum. Þó þetta hafi nú verið gamall bíll þá var hann allavega stabíll. Það er ferlega fyndið að keyra bíl aftur með vökvastýri og öllum græjum. En þessi nýji er meira praktískur fyrir barnafjölskyldu. Við vildum heldur ekki eyða pening í að reyna að fá Audiinn skoðaðan aftur. Það hefði ekki borgað sig. Hér eru bílar skoðaðir á 2 ára fresti, svo margir skipta um bíla á tveggja ára fresti. Það er að segja þeir sem eru að kaupa gamla bíla. Nýi bíllinn ætti líka að vera töluvert sparneytnari og keyrir á ódýrara bensíni.
Jæja ætli sé ekki best að fara að athuga hvernig bóndanum gengur með sláttinn. Maður ætti kannski að færa honum kaffi og með því í slægjuna! :)
kveðja úr sólinni
Gummi og Ragga
Athugasemdir
Mikið er þetta spennandi - barnið fer alveg að koma í heiminn! Hlakka til að fylgjast með, bestu kveðjur Lilja
Lilja (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.