Rigning og skítaveður

Kæru bloggvinir

þá er aldeilis búið að breytast veðrið. Íslendingar búnir að fá góða veðrið og við búin að fá rigningu í staðinn. Og það er engin uppstytta í bráð.

Við höfum annars verið á voða miklu flakki alla vikuna. Það hefur þurft að útrétta ýmislegt. Við þurftum að finna útidyrahurð og enduðum á að kaupa hana í Þýskalandi. Það var helmingi ódýrara en í Danmörku. Við vonum bara að það verði ekki mikið mál að koma henni í. Múrarinn okkar ætlar að gera það. Hann hefur annars verið í fríi eftir að hann hrundi í gegnum hurðina hjá okkur. En hann ætlar að koma á morgun. Það er svolítið fyndið með hann að hann er alveg rosalega pirraður fram undir hádegi, þá þiðnar hann aðeins. Það fæst varla orð upp úr honum fyrir þann tíma. En svo er hann mjög hress. Ungfrúin hefur verið með okkur á þvælingi og hefur haft gaman að. Hún steinsefur alltaf í bílnum, svo það er ekkert mál að hafa hana með. Vonum bara að það haldi áfram.

Hjúkrunarkonan kom aftur á miðvikudaginn og leist mjög vel á litlu skvísuna. Hún hefur þyngst um 500 gr á einni viku og er núna 4300 gr. Svo við getum ekki verið annað en ánægð með það. Hún hefur reyndar verið eitthvað ergileg seinnipartinn þessa vikuna og tekur alltaf smá grátrispur á kvöldin. En svo sefur hún yfirleitt 5 tíma.

Við reiknum nú með að bretta upp ermarnar og halda áfram að vinna í húsinu þessa vikuna. Það hefur verið smá hlé á framkvæmdunum enda bóndinn orðinn þreyttur eftir mikla vinnu undanfarið. Svo hefur hann líka langað að njóta þess að vera með dætrum sínum, meðan hann er í fríi. Helga Rut hefur legið í lestri, hún hefur bráðum ekki meira að lesa. Enda flestar bækurnar okkar í kössum einhvers staðar í geymslu.

Við erum búin að setja inn fleiri myndir af krökkunum og hinu og þessu. Við erum líka búin að taka upp fullt af videomyndum. Bóndinn ætlaði að reyna að koma þeim á internetið. Það hefur ekki orðið úr því ennþá, en stendur til bóta.

Jæja þá er ekki fleira í fréttum hér úr rigningunni

kveðja

Gummi, Ragga, Helga og óskírð

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ þið öll

Alltaf gaman að lesa fréttir af ykkur og myndirnar ekki síðri. Er nokkuð búið að ákveða nafn á þá stuttu eða er það ekki gefið upp.  Steinunn Björk verður á einhveju flakki í vikunni. Hún er að fara í sumarbústað rétt við Haderslev. Er það ekki rétt hjá ykkur? Kveðja frá okkur í Garðinum.

Gunna (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband