Týndi múrarinn

Kæru bloggvinir

jæja þá er vikan liðin enn einu sinni. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram. Litla skvísan orðin 4 vikna. Alveg ótrúlegt. Hún hefur verið pínu óvær á daginn og vill ekki sofa svo mikið. En hún sefur vel á nóttinni svo við getum ekkert kvartað. Hún er farin að liggja á teppi á gólfinu og leika með dót. Það finnst henni mjög skemmtilegt. Hún fór til læknis í 5 vikna skoðun á föstudaginn. Læknirinn var að fara í frí svo hún kíkti á hana þótt hún væri bara 4 vikna. Henni leist bara vel á hana. Læknirinn okkar er reyndar oft svolítið stressuð, svo hún virkar stundum svolítið truntuleg. En hún gerir hlutina mjög vel og er mjög athugul, svo við erum bara nokkuð ánægð með þetta. Litla skvísan var nývöknuð þegar við fórum til læknisins, svo hún var voða róleg. Eiginlega einum of. Hún sýndi ekkert af hæfileikum sínum. Hún heldur til dæmis oft höfði og flytur sig úr stað á skiptiborðinu. Pabbi hennar æfir hana á hverjum degi í svoleiðis leikfimi. Hún er svo búin að fá einhverja sveppasýkingu á tunguna. En við erum búin að fá einhver lyf við því. Hún á pínu erfitt með að drekka, en annars er hún víst ekki mjög þjökuð af því. Þetta er víst mjög algengt hjá smábörnum. Við erum búin að gera nokkrar tilraunir til að gefa henni snuð, en hún vill ekki sjá það. Spýtir því bara út úr sér og setur upp vandlætingarsvip. Svo hún verður sennilega ekkert snuddubarn. Lumar einhver á góðum ráðum til að kenna börnum að nota snuddu? Hún hefur mikla sogþörf svo það væri mjög gott að hún gæti notað snuð til að hughreysta sig.

Múrarinn okkar hefur ekkert sést þessa vikuna. Hann sagðist ætla að koma á mánudag, en kom ekki og lét ekkert vita. Þetta er eitthvað nýtt. Hann hefur alltaf staðið við allt sem hann hefur sagt. VIð höfum grun um að hann sé lagstur í einhverja bleytu. Það er stundum pínu svoleiðis lykt af honum. En hann hringdi svo á miðvikudaginn og kom við í dag. Hann segist ætla að setja hurðina í á morgun, svo nú sjáum við til. Hann fékk borgað helling í dag, svo hann ætti að vera ánægður. Við höfum eiginlega verið stopp í framkvæmdum þar sem hann hefur ekkert komið. En nú vonum við að það komist gangur í þetta aftur.

Við renndum til Árósa í vikunni í IKEA. Við vorum komin nokkuð snemma, en auðvitað var allt fullt út úr dyrum. Enda er IKEA einn vinsælasti skemmtigarður í Danmörku. Við héldum að þetta tæki nú ekki langan tíma, af því við þurfum bara að panta 2 háskápa og tvo lága. En nei. Þetta tók heila eilífð og við vorum send fram og til baka. Við vorum þarna inni í 5 tíma en enduðum allavega á að fá þetta sem okkur vantaði. Eða það verður sent til okkar í næstu viku. Fjölskyldan var orðin vel pirruð, fyrir utan litlu dömuna, hún svaf bara í gegnum þetta. Henni var gefið brjóst á miðjum gangi. Það er mjög viðkvæmt mál í Danmörku að gefa brjóst á almannafæri, svo frúin reyndi nú að skýla sér bak við kallinn, vonum allavega að enginn hafi fengið hjartaáfall.

Nágranni okkar, sem er sonur hjónanna sem við keyptum húsið af er að fara að flytja. Hann hefur aldrei búið annars staðar en hér í götunni, svo þetta verða nú viðbrigði fyrir hann. Við höfum líka fengið góða hjálp frá honum. Svo nú verðum við bara að fara að bjarga okkur sjálf.

Jæja ætli þetta sé ekki orðið nokkuð gott í bili. Ef það eru einhverjir sem lesa þetta blogg, þá væri nú indælt ef þið sæuð ykkur fært að hripa niður eins og eina línu, svo við sjáum hvort einhver lesi þetta. 

Kær kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að allt gengur vel, er sko reglulegur gestur hér á síðunni þótt ég standi mig ekki vel i kvitti :)

kveðja

Hildur

Hildur (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 20:30

2 identicon

Bíð spennt á hverjum sunnudegi eftir bloggi frá ykkur. Gaman að lesa um framfarir litlu dömunnar og framkvæmdir í húsinu. Svo endilega haldið áfram. Kveðja úr Garðinum.

Gunna (IP-tala skráð) 20.7.2009 kl. 09:52

3 identicon

Snudduráð... stundum er gott að halda á krílunum í fanginu og setja snudduna upp í þau og rugga þeim aðeins. Enginn að segja að það virki en þá finna þau öryggið frá mömmu eða pabba.

Knús í kotið

Sigrún og co.

Sigrún (IP-tala skráð) 20.7.2009 kl. 10:55

4 identicon

Ráð vegna snuddu.

 Við höfðum sama vandamál með Ísak. Ég lét Elías sjá um þetta enda lyktaði ég of vel af mjólk ;), eftir nokkur skipti gekk það upp. Ég keypti líka stærri snuddur en 0-3 mánaða, enda eru þær ætlaðar fyrirburum, sögðu þær á sjúkrahúsinu. Prufaðu að kaupa snuddur sem stendur á 3-36 mánaða og kannski mismunandi gerðir. Þar að segja bæði flatar og hringlóttar. Skoðið heimasíðuna www.navnesutten.dk

Knus fra mejrup

Dísa og Co

Elias Kristjansson (IP-tala skráð) 20.7.2009 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband