26.7.2009 | 15:04
Þroskastökk dótturinnar
Kæru bloggvinir
Þá er farið að sjást til sólar hér aftur eftir nokkuð rysjótta tíð.
Hér hefur bóndinn verið að ganga frá ýmsu smálegu í eldhúsinu. Það er voða mikill munur að klára þetta. Frúnni finnst nú frekar erfitt að geta ekki hjálpað til eins og áður, en það breytist eins og svo margt annað þegar maður er með lítið barn á heimilinu. En hún er svo mikill gleðigjafi að hitt er bara aukaatriði. Sú stutta hefur annars verið ansi óróleg síðustu vikuna. Ekki viljað sofa og verið svo alveg útkeyrð á kvöldin. Hún hefur samt sofið vel allar nætur. Hún hefur borðað nánast stanslaust og svo hefur hún oft ælt á eftir. Hún hefur verið voða eirðarlaus og átt erfitt með að slaka á. Við höfum rætt við reyndar mæður sem hafa sagt að þetta sé nú líklega þroskastökk. Þegar við spáum í því, þá hefur hún líka þroskast ansi mikið á stuttum tíma. Hún er mikið meira vakandi og athugul. Horfir meira á dót sem hangir fyrir ofan hana og framan. Hún brosir líka orðið allan hringinn oft á dag, svo foreldrarnir eru alveg að bráðna. Hún virðist nú eitthvað vera að jafna sig á þessu núna, er allavega rólegri í dag en hún hefur verið.
Múrarinn mætti á mánudaginn, og setti útidyrahurð í. Hann hefur að eigin sögn haft voða mikið að gera. Það er rosa munur að vera komin með almennilega hurð. Við reiknum með að restin af eldhúsinnréttingunni komi á morgun og við vonum að hann fáist til að hjálpa við að setja hana upp. Við reiknum svo með að geta farið í að rústa baðherberginu í byrjun september. Við verðum að flytja út úr húsinu meðan það er gert, því það verður svo mikið múrryk og viðbjóður. En hér er nú oftast mjög hlýtt fram í október, svo það ætti að vera lítið mál að búa í skúrvagni úti í garði.
Formaðurinn í íþróttafélaginu og konan hans komu við hér eitt kvöldið í vikunni. Hún er dagmamma hér í bænum og við lögðum að sjálfsögðu inn pöntun fyrir litla stýrið. Gott að hafa þetta bara svona í túnfætinum. En það er nú ekki víst hún hafi pláss þegar að því kemur, en sveitafélaginu er skylt að finna pössun fyrir börnin. Svo ef hún er ekki með pláss, þá fáum við eitthvað annað hér í nágrenninu. Þau voru einmitt að hlægja að því að þau eru búin að búa hérna í bænum í 19 ár og eru enn álitin aðflutt. Svo við eigum ansi langt í land með að verða alvöru Tisetingar.
Við erum búin að setja inn nokkur myndbönd af ungfrúnni inn á aðra síðu. Síðan heitir youtube.com og þið sláið inn gje1965 í search gluggann, þá kemur upp listi af þeim myndböndum sem við höfum sett inn. Það væri gaman að fá viðbrögð við þeim hér inn á þessa síðu.
Kveðja úr sveitinni
Ragga, Gummi, Helga og óskírð
Athugasemdir
Var að skoða myndböndin, mjög skemmtileg :)
Hildur (IP-tala skráð) 28.7.2009 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.