Fríið búið

Kæru bloggvinir

Þá er komið að því, bóndinn fer að vinna á morgun eftir 5 vikna frí. Þetta verða ansi mikil viðbrigði bæði fyrir hann og okkur hérna heima. Hann vinnur næstu viku í bænum sem hann var að vinna áður en við fluttum hingað. Svo byrjar hann að keyra fötluðu börnin aftur eftir það. Þannig að næstu viku þarf hann að keyra klukkutíma til að komast í vinnuna. Ekkert sérstaklega spennandi. En það verður gaman fyrir hann að hitta gömlu vinnufélagana, ef þeir eru ekki allir hættir.

Dóttirin dafnar vel. Hjúkrunarkonan kom og kíkti á hana í vikunni. Henni leist ofsa vel á hana. Enda daman komin með góða undirhöku og góðar fellingar. Hún er orðin 5250 gr og liggur fyrir ofan meðallag á danskan mælikvarða allavega. Hún er farin að halda höfði meira og meira og spjallar og brosir eins og hún fái borgað fyrir það. Foreldrunum auðvitað til mikillar ánægju. Hún virðist eitthvað vera að róast aftur. Ekki svona óróleg eins og hún var. Við fengum einhverja magadropa handa henni og þeir virðast slá á verstu krampana á kvöldin.

Annars höfum við bara verið að slappa af í vikunni. Bóndinn hefur verið að klára ýmislegt smálegt í eldhúsinu. Við fengum skápana frá IKEA á mánudaginn, en þeir sendu okkur vitlausa skápa, svo bóndinn renndi með þetta til Árósa og fékk rétta skápa í staðinn. Það vantar svo bara eina hurð, sem þeir verða að senda okkur seinna. Það var auðvitað sama geðveikin og vanalega í IKEA, en bóndinn var kominn tímanlega, svo þetta hafðist allt á mettíma. Frúin var heima með þá stuttu, enda ekki hægt að leggja svona ferð á hana aftur.

Í nótt kom svo tengdó í heimsókn og ætlar að vera í 3 vikur, svo það er nóg að gera á hótelinu. Hún kom auðvitað færandi hendi með góðar gjafir.

Við erum að vonast eftir að múrarinn komi og hjálpi okkur að setja upp eldhússkápana. Hann er nú ekkert sérstaklega hrifin af að setja saman IKEA eldhús, en við sjáum til. Hann hlýtur að vilja fá peninga allavega. Hann er búinn að setja nýja útidyrahurð, svo núna líta gluggarnir bara enn verr út. En svona er þetta, maður lagar eitt og eitthvað annað stingur í stúf í staðinn.

Við þurfum svo að fara að taka nýjar myndir af prinsessunni, hún breytist voða mikið þessa dagana.

Nóg í bili

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl öll sömul

Gaman að heyra frá ykkur að venju. Flott hvað daman dafnar vel en á hún ekki að fara fá nafn. Já það verða viðbrigði fyrir ykkur þegar Gummi verður farinn að vinna aftur en það venst líka. Héðan er allt fínt að frétta og allir biðja að heilsa.

Gunna (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband