10.8.2009 | 12:01
Hótel Tiset
Kæru bloggvinir
það hefur verið svo mikið að gera á Hótel Tiset síðustu daga að við höfum einfaldlega ekki haft tíma til að skrifa blogg og biðjumst við innilega velvirðingar á þessu. Hildur og Tóti komu á fimmtudagskvöldið og fóru í morgun og Helga Rut fór heim á laugardaginn, svo þetta er alveg eins og á hóteli, einhver bókar sig inn og annar út. En þjónustan er sennilega örlítið betri á hótelum. En það er alltaf frábært að fá gesti að heiman. Við erum búin að fá svo mikið af fötum fyrir litlu dömuna að við þurfum örugglega ekki að kaupa neitt nema eitthvað smáræði. Svo ástarþakkir fyrir það.
Við vorum búin að láta okkur dreyma um að koma heim í lok ágúst og vera við brúðkaupið hans Enoks, og skíra þá dömuna í leiðinni. En við sjáum ekki framá að fjárhagurinn leyfi það, svo við erum búin að panta skírn fyrir hana á sunnudaginn næstkomandi. Ákváðum að drífa bara í þessu meðan tengdó væri hérna. Við erum búin að senda nafnið til sveitafélagsins, þeir þurfa nefnilega að samþykkja nafnið áður en hún er skírð. Okkur skildist að nafnið sjálft væri í lagi, en þeir þurfa eitthvað að væflast með föðurnafnið. Svo nú bíðum við spennt eftir að heyra hvort við getum skírt á sunnudag. Presturinn taldi allavega ekkert því til fyrirstöðu, ef við fengjum grænt ljós á föðurnafnið. Við vitum nú ekki alveg hvað vandamálið er. Hann taldi allavega að það giltu íslensk nafnalög fyrir börn skírð í Danmörku. Við vitum heldur ekki alveg hvaða föðurnafn hún ætti að hafa ef ekki nafnið hans Gumma. En svona er þetta bara. Hún lætur þetta annars ekkert á sig fá og stækkar bara og stækkar. Hún er voða róleg og ljúf og meðfærileg. Mamman heldur auðvitað hún hafi það frá sér! :)
Múrarinn er búinn að vera hér að setja upp eldhússkápa. Nú vantar bara hurð á annan háskápinn. Það kom í ljós þegar þeir voru búnir að setja upp tvo skápa að þetta nýja sem við keyptum í viðbót leit ekki alveg eins út og þetta gamla. Nýju skáparnir eru pínu ljósari, en það var ekki hægt að skila því þegar þeir voru búnir að setja þetta upp. Svo þetta verður að vera pínu litförótt. Það kom líka í ljós að skápurinn fyrir ísskápinn var of mjór, en múrarinn reddaði því. Frúnni hlakkar ofsalega til að geta sett allt eldhúsdótið í skápa og losnað við gamla skápræksnið sem við höfum notast við. Hún er búin að ákveða að henda því sem kemst ekki í skápana. Það getur ekki verið svo merkilegt. Það er orðið verulega pirrandi að vera með allt eldhúsdótið út um hvippinn og hvappinn.
Það er búið að breyta helling í vinnunni hjá Gumma. Hann sækir allt aðra krakka núna, en fyrir frí og hefur öðruvísi vinnudag. Hann þurfti líka að skipta um vinnubíl. Hann var búinn að leggja mikið á sig við að halda hinum hreinum og fínum, en fékk í staðinn einhvern grútdrullugan og ógeðslegan. Hann var nú frekar ósáttur við það. En það þýðir ábyggilega ekki að segja neitt af því sá sem var svona mikill sóði er farinn á eftirlaun. Bara frekar pirrandi.
Í gær fórum við svo í skírnarveislu í Kollund. Litla daman þar var skírð Karlotta Ósk. Þau lentu ekki í neinum vandræðum með að feðra barnið, svo við erum greinilega bara svona skrýtin. Þetta virðist vera mjög mismunandi eftir stöðum hvernig ferlið er þegar börn eru skírð. Það væri auðvitað auðveldara ef það væri samræmi í þessu.
Það er búið að vera svo heitt hérna síðustu daga að maður hefur orðið sveittur af að hugsa. En í dag er sem betur fer aðeins svalara. Það getur nú líka orðið of heitt.
Jæja látum þetta nægja í bili
kveðja
Starfsfólk hótel Tiset
Athugasemdir
Sæl og blessuð
Værum alveg til í það að bóka okkur á Hotel Tiset en það verður að bíða um sinn. Við erum enn að ganga frá húsinu hjá pabba en það á að afhendast um næstu mánaðarmót. Gott að heyra að daman dafnar svona vel að sjálfsögðu kemur það frá móðurinni(haha). Maður bíður spenntur næsta sunnudag eftir nafninu á prinsessunni.
Kveðja frá Garðálfunum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 13:13
Hæ hæ kæra fjölskylda.
Gaman að lesa bloggið ykkar, þú ert góður penni Ragga mín. Já það virðist flækjast fyrir dönum þessi íslensku föðurnöfn, ég veit um eitt dæmi þar sem presturinn skírði barnið föðurnafninu, þannig fór það í gegnum kerfið. Okkur finnst þetta merkilegt en svona er þetta bara.
Við förum frá Seyðisfirði 2.sept. og verðum komin til Esbjerg 5.sept. Við er ákveðin í því að kíkja á "Hótel Tiset" bara í svona 2 til 3 tíma, ef við fáum kannski kaffibolla hjá ykkur. Aðalatriðið að fá að hitta ykkur og litlu prinsessuna ykkar og auðvitað húsið ykkar.
Ég skil vel að þeir hafi skipt um bíl við Gumma, þeir hafa séð það út að þessum bíl hefur vantað þvott og tiltekt. Gummi minn eru fleirri bílar hjá fyrirtækinu þá færðu þá í hausinn líka ef þú tekur þennan svona vel í gegn, þið vitið að danir eru útsjónasamir ef þeir geta fengið hlutina gratis. Framtíðar djob hjá þér Gummi minn.....hahaha.
Gaman að heyra að daman er svona róleg og góð, hlakka til að sjá hana. Já spurning hvaðan hun hefur þessi rólegheit jú er það ekki aðeins meira í kvennlegginn eða ummmmm æi nei ég er ekki að tjá mig meira um þetta, jú ég ætla að fá inngöngu ekki bara skoða garðinn hjá ykkur :o)
Knús og kram til ykkar allra hlakka til að sjá ykkur. Hafið það sem allra best
Ragna (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 15:40
Furðulegt þetta með að föðurnafnið þurfi að fara í gegnum statsforvaltningen. Það er greinilega betra að heita Þorsteinn heldur en Guðmundur..hahahhaa.. En vonandi að þetta komist nú í gegn. Þá er bara að skíra hana Guðmundsdóttur og þvinga danina til að samþykkja nafnið á þann hátt ef þið heyrið ekkert fyrir sunnudaginn.
Þið látið heyra frá ykkur ;o)
Bestu kveðjur í kotið og enn og aftur takk fyrir okkar skvísur.
Sigrún og co
Sigrún (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.