Þá fékk litla skutlan loksins nafn

Kæru bloggvinir

Hér hefur verið mikið að gera síðustu viku við að undirbúa skírn ungfrúarinnar. Presturinn kom hér á mánudaginn og við ákváðum hvaða sálma ætti að syngja og svoleiðis. Hann var voða almennilegur. Er víst voða vel liðinn hér í sveitinni. Við áttum von á að þetta væri einhver gamall karl, en þetta er nú bara maður á besta aldri. Skírnin fór svo fram í kirkjunni í Gram, sem er næsti stóri bær við okkur, (þar sem Gram frystikisturnar voru einu sinni framleiddar). Þetta var gert í miðri sunnudagsmessu og full kirkja af fólki. Það er víst oft 50-60 manns í kirkju hér á sunnudögum. Svolítið betri kirkjusókn en heima á Íslandi. Stúlkan var algjörlega til fyrirmyndar og svaf allan tímann í kirkjunni. Líka meðan presturinn aus vatni á hana. Það er voða mikið mál hér í Danaveldi að fá að taka myndir í kirkjum. Það er eiginlega alveg bannað. En við vorum búin að spyrja prestinn og hann sagði það væri í lagi. Hann var svo eitthvað að draga það í land í dag og var eitthvað voða hræddur við að einhver myndi klaga ef við tækjum video. En Gummi lét ekki segjast og fékk að taka upp sjálfa skírnina. En það er enginn sem getur sagt hvers vegna maður má ekki taka myndir, það er bara bannað. Alveg ótrúlega hallærislegt. En daman fékk nafnið Auður Elín. Auðar nafnið var nú ákveðið fyrir löngu, enda nærtækt fyrir frúnna og ekki dónalegir íslenskir skörungar sem hafa borið þetta nafn. Við vorum svo að velta fyrir okkur hvort hún ætti að heita Elín eða Anna að millinafni, en enduðum á Elínu, okkur finnst það passa betur við hana. Það er voða skrýtið að mega segja nafnið upphátt. Við erum búin að vera tilbúin með nafnið síðan á fæðingardeildinni, en vildum ekki opinbera það fyrr en í kirkjunni. Það verður spennandi að heyra danina spreyta sig á Auðar nafninu. Við erum nú búin að sanna að þeir geta alveg sagt það, en þurfa að æfa sig svolítið. Þeir eru heldur ekki alveg að fatta að Elín er millinafn, ekki eftirnafn. En þetta hlýtur allt að hafast. Við héldum svo smá kaffiboð heima í Tiset eftir messuna. Við áttum frábæran dag með góðu fólki. Veðrið var frábært. Þeir voru búnir að spá svaka rigningu og eldingum, en sólin skein og það var fínt veður. Það eru ansi lúnir en ánægðir foreldrar sem fara í bólið í kvöld.

Við vorum svo bjartsýn að við fórum ekki að gá að kjól á dömuna fyrr en í gær. Héldum að það gæti nú ekki verið erfitt að fá sparikjól á svona skvísu. En þar skjátlaðist okkur. Það er nefnilega ekki rétti tíminn til að kaupa sparikjóla núna, bara sumarkjóla. En við fundum mjög sætan bleikan kjól og Auður var bara mjög fín.

Við eigum von á síðustu hurðinni á eldhúsinnréttinguna á morgun, vonum að það standist, svo það sé hægt að klára þetta. Eldhúsið er orðið voða fínt og maður skilur ekki hvernig við gátum lifað með þetta eins og þetta var.

Það er hálf tómlegt hérna núna, við urðum að láta lóga hundinum á föstudaginn. Bæði var hann orðinn gamall og svo var hann komin með hjartavandamál og blöðruhálsvandamál. Svo það var lítið annað að gera en að láta hann fara. Það er voða skrýtið að hafa engan hund, enda búin að hafa hann í rúm 7 ár.

kveðja frá Tiset

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega til hamingju með fallega nafnið!

Lilja (IP-tala skráð) 18.8.2009 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband