6.9.2009 | 19:33
Haustveður
Kæru bloggvinir
hér hefur verið hálfgert skítaveður undanfarið, rignt eldi og brennisteini og verið rok og skítakuldi. En það er víst bara komið haust. Frúin hefur nú verið treg að viðurkenna að hún þurfi að fara að vera í sokkum, en það er víst ekki hægt að komast hjá því mikið lengur.
Við höfum verið að gera ýmislegt smálegt í eldhúsinu og stofunni, það vantaði að setja upp ljós og gardínur og það er búið að því núna. Allt annað líf. Við fórum og keyptum ljós í eldhús og stofu. Frúin hefur nú aldrei keypt ný ljós á öllum þeim stöðum sem hún hefur búið, svo þetta var ansi stórt skref í lífi hennar:) Nú er bara eitthvað smotterí eftir og þá er stofan og eldhúsið tilbúið. Við erum enn að vinna í að fá pening til að laga baðherbergið, við vonum að það heppnist svo við getum drifið í þessu. En þetta kemur í ljós mjög fljótlega. Við þurftum líka að klæða loftið í herberginu þar sem brenniofninn er. Það verður að hafa gifsplötir í loftinu, eitthvað út af eldvörnum. Svo þurfum við að setja stiga upp á þakið svo skorsteinsfægjarinn komist til að hreinsa skorsteininn. Áður fyrr sáu þeir um það sjálfir að koma með stiga, en svo var ákveðið að það væri allt of erfitt og slítandi fyrir þá að bera stiga, svo nú þurfa húseigendur að skaffa stiga upp á þakið. Okkur finnst þetta nú pínu fyndið. En ennþá fyndnara að í vikunni var bréf á ruslatunnunni okkar. Þar stóð að framvegis yrðum við að snúa ruslatunnunum öðruvísi, svo það væri auðveldara fyrir ruslamennina að taka þær. Það væri nú ekki mikið vandamál ef þeir gengju frá tunnunum þegar þeir væru búnir að tæma þær. Þeir skilja tunnurnar alltaf eftir mitt í innkeyrslunni, svo bóndinn þarf að færa þær, svo hann geti keyrt inn í innkeyrsluna. En skítt með það við verðum bara að gera eins og okkur er sagt.
Frúín fór með Auði Elínu til læknis í vikunni þar sem hún var ennþá eitthvað pirruð í munninum. Hún vildi meina að hún væri enn með sveppasýkingu í munninum, svo hún fékk lyf með heim og þetta er nú eitthvað að lagast, sem betur fer. Hún fór með foreldrum sínum í ungbarnasund í gær. Hún var nú hálf skelkuð yfir öllu þessu fólki og nýju umhverfi. En við vorum nú ekki lengi. Auður svaf svo mest allan daginn. Þær sem stjórna þessu segja að það sé mjög eðlilegt að börnin séu uppgefin eftir sundið. En það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast. Þetta er á hverjum laugardegi í klukkutíma. Sundlaugin er extra heit og öll aðstaða mjög góð.
látum þetta gott heita í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Mér finnst haustið svo yndislegt alltaf, hægt að kveikja á kertum og hafa kósí og svona :) Líst vel á ykkur með gardínur og ljós-nú vantar bara myndir af herlegheitunum!! Og talandi um myndir, á ekki fara að setja inn nýjar myndir af Auði Elínu?
Hildur (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.