Sumarið komið aftur

Kæru bloggvinir

sumarið hefur komið aðeins aftur hérna í síðustu viku. Það er auðvitað bara fínt, kvörtum ekki yfir því.

Annars hefur vikan verið heldur viðburðalítil. Við gátum reddað peningamálunum svo baðherbergisniðurrif eru aftur komin á dagskrá. Múrarinn og félagi hans komu því aftur og skipulögðu verkið. Við stefnum á að rífa allt út næstu viku og helgi og svo geti þeir byrjað eftir næstu helgi. Þá taka þeir bæði klósett og gang í einu og setja gólfhita. Þannig að það verður spennandi. Við erum búin að ákveða að flytja bara rúmin inn í stofu og sofa þar. Það er svo kalt að sofa út í garði og líka vesen að sofa upp á lofti. Nágranni okkar sem er fluttur var svo hér í gær og bóndinn fékk lánaðan aðgang að klósetti og baði hjá honum. Það verður nú skrýtið að geta ekki farið á klósettið í sínu eigin húsi. Þýðir allavega ekki að bíða þar til maður er alveg í spreng! Bóndinn er líka búinn að redda stórum vagni til að flytja múrsteinana og ruslið. Hann er búinn að semja við karlinn á ruslahaugunum um að fá að henda þessu öllu á haugana án þess að borga fyrir það. Það eru auðvitað reglur um að ef maður er með meira en x kíló rusl, þá þarf maður að borga fyrir það á haugunum. Bóndinn er búinn að taka nokkrar myndir af stofunni og eldhúsinu, hann hendir þeim inn fljótlega. Hann tók líka nokkrar myndir af ungfrúnni á heimilinu. Frúin stefnir að því að sauma gardínur fyrir gluggana þegar við erum búin með baðherbergið og það allt. Það voru bara keyptar bráðabirgðarúllugardínur núna, af því við eigum eftir að skipta um glugga. Þegar baðherbergið er búið er kannski hægt að flytja inn hérna svona almennilega. Og hætta að flytja allt fram og aftur.

Auður Elín hefur verið eitthvað treg að borða undanfarið, en við höldum að þetta sé allt að koma núna. Hún hefur sofið í burðarrúminu sínu ofan í rimlarúminu frá því við komum heim af spítalanum. En svo var hún orðin of stór í burðarrúmið svo það varð að breyta því. Vandamálið er bara að nú sparkar hún sænginni alltaf ofan af sér og vaknar hálffrosin. En frúin dó ekki ráðalaus og klæddi barnið í íslenskan ullarbol og lagði ullarteppi undir hana og hefur það breytt heilmiklu. En hún er samt pínu kvefuð, hún lætur það þó ekki mikið á sig fá. Við vorum einmitt að pæla í því fyrir stuttu að hún grætur eiginlega aldrei, nema þegar hún er svöng. Svo ef hún grætur, og er ekki svöng, þá verðum við bara alveg hissa og vitum ekkert hvað við eigum að gera! :)Hún lá á gólfinu að leika sér um daginn og svo allt í einu þá skellti hún upp úr. Hún var búin að færa sig á teppinu og var komin í sjálfheldu. Hún hló svo aftur hjá pabba sínum í morgun. Ferlega fyndið að heyra í henni. Við fórum aftur í ungbarnasund í gær og hún var heldur rólegri, svo þetta hlýtur allt að koma.

Kveðja frá Tiset

Familien


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gaman að fá fréttir úr Danaveldi. Nóg að gera hjá ykkur varðandi húsið, dáist að ykkur!

Ætlum að senda smápakka handa ungfrúnni á heimilinu svo hvert er heimilisfangið og póstnúmer og svoleiðis svo hann berist nú til hennar.

Kveðja úr Kjóalandinu.

Gunna (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband