Baðherbergismartröð

Kæru bloggvinir

við erum ekki búin að gleyma ykkur, ónei. En ástæðan fyrir því að færslan kemur fyrst núna er að bóndinn og Steini vinur okkar voru að brjóta út úr baðherberginu um helgina og þurftu að grafa 40 cm niður í grunninn. Við það slitu þeir rafmagnsleiðslu, svo tölvukerfið fór allt í vitleysu. En bóndinn er búinn að redda þessu í bili. Þeir eru langt komnir með að moka út úr grunninum, en það er smá stykki eftir. Við héldum að veggirnir væru svo þunnir að þeir þyrftu bara rétt að anda á þá. En neinei það kom í ljós útveggur inn í miðju baðherbergi og gólfið var steypt í mörgum lögum. Ekki nóg með þetta. Þeir fundu líka 2 rottuhreiður og helling af rottuungum. Enda kom í ljós að klóakið var opið og öll vatnsrör undir gólfinu voru ryðguð og hefðu ekki haldið mikið lengur. Svo það var fínt að við fórum í að brjóta bæði baðherbergi og ganginn upp. VIð vonum að píparinn geti lagað þessi rör fljótlega svo við fáum heitt vatn.  Múrarinn geðgóði kom svo í gær, ekki mjög hress með að við værum ekki búin. Hann glopraði því út úr sér að við yrðum að vera búin á morgun, annars þyrftum við að bíða í minnst hálfan mánuð með að komast í gang. Þannig að það verður bara að vinna í akkorði þar til þetta er búið. Maður getur ekki verið klósettlaus í svo langan tíma. Frúnni finnst þetta allavega frekar þreytandi ekki að geta farið á klósettið í eigin húsi.  Hún hefur oft óskað þess að geta pissað standandi, en aldrei eins heitt og núna. Þá gæti maður bara hlaupið út í garð. Nágranninn er svo búinn að leigja út húsið sitt frá 1. okt, svo við þurfum þá að leigja einhvern klósettvagn. Þetta er nú allt í lagi meðan það er enn svona tiltölulega hlýtt miðað við árstíma. Verður verra þegar það verður komið næturfrost.

Auður Elín fór í þriggja mánaða bólusetningu í vikunni. Nóttina eftir var hún voða óróleg og svaf lítið. Þetta er nú eiginlega bara í fyrsta skipti frá því hún fæddist sem hún sefur ekki á nóttinni. Hún hefur svo verið hálf lítil í sér. En það er nú víst mjög eðlilegt. Hjúkrunarkonan kemur svo á morgun og erum við mjög spennt að heyra hvað hún hefur stækkað mikið síðan síðast. Sveppasýkingin í munninum er að verða betri svo henni gengur betur að borða. Sem betur fer.  

Þetta er nú það sem við munum eftir að sinni.

kveðja frá klósettlausa húsinu

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Einarsson

Meira vesenið hjá ykkur, elskurnar mínar! Ég lennti í svipuðum hremmingum, samt heyrist mér þær vera hátíð miðað við raunir ykkar. Það fór heitavatnsrör á Lyngbrautinni og eyðilagði nýja parketið sem ég var búinn að leggja í fyrrahaust, varla ársgamalt. Það þurfti að saga úr veggjum til að losa blautar spónarplötur og skoða hvernig ástandið var á bakvið. Sem betur fer virðist timbur vera í lagi, þó rakt sé, en það þarf að skipta um einangrun og þurrka allt vel og vandlega. Píparinn er búinn að vera hjá mér í tvo daga að leggja nýja lögn úr þvottahúsinu og inná klósett. Ég ætla að láta hann leggja nýja lögn í eldhúsið í leiðinni. Sem betur fer fór þetta áður en ég var búinn að selja, það hefði verið meiri hamagangurinn ef svo hefði verið! Leigjendurnir sýna umburðarlyndi, enda ekkert hægt að gera annað en að loka svefniherberginu og fara í sturtu í sundlauginni.

En húsið verður þó komið með nýja vatnslögn ef ég sel það. Ég er einnig að hugsa um að skipta út útidyrahurðinni og flísleggja anddyrið. Þá ætti þetta að vera orðið í lagi.
Leigjendurnir eru að bera á allt timburverk á húsinu og sleppa í staðin við að borga leigu fyrir september í staðin.

Heyri í ykkur seinna, dúllurnar.

Bragi Einarsson, 22.9.2009 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband