4.10.2009 | 15:38
Framkvæmdagleði
Kæru bloggvinir
Það hefur verið hundfúlt veður hér um helgina. Það var svo hvasst í nótt að glugginn í svefnherberginu fauk upp, og einn þakglugginn í skúrnum fauk úr. Bóndinn vaknaði við lætin og fór út að safna saman lausamunum. Sólhlífin var flogin af stað og plast og pappi fauk út um allt. Frúin svaf á sínu græna á meðan á þessu gekk. Dagurinn var svo tekinn snemma. Bóndinn fór í að setja einangrun í loftið á baðherberginu og svo þurfti að rífa niður síðustu flísarnar af veggjunum og ýmislegt smálegt. Múrarinn hefur verið ansi iðinn þessa vikuna. Hann er búinn að setja upp veggi, svo þetta er farið að líkjast baðherbergi aftur. Okkur finnst þeir reyndar hafa gert það heldur mjótt, en það er ekkert hægt að breyta því héðan af. Það er nú líka pínu erfitt að átta sig á þessu meðan ekkert er inn í herbergjunum. Við vonum svo bara að þetta haldi áfram að ganga svona vel. Það er allavega ekki gaman að sitja út í skúr að pissa þegar það er svona hvasst. Frúin hélt hún myndi takast á loft í gær í rokinu. Við vorum búin að sjá auglýsta baðinnréttingu á rosa tilboði í bæ hérna 65 km frá. Hún var svo uppseld þegar við komum þangað svo stelpan hringdi út um allt og fann loks innréttingu í Árósum, svo það var ekki annað að gera en renna þangað. Enda þessi innrétting minnsta kosti 5000 dkr ódýrari en aðrar hér í Danaveldi. Svo verður bara að sjá hversu lengi hún endist. Hún lítur allavega mjög vel út og ekkert veiklegri en aðrar innréttingar sem við höfum séð. Við vorum svo búin að kaupa handklæðaofn og áttum klósett svo þetta er allt að koma.
Auður Elín hefur nú tekið öllum þessum látum hér með stóískri ró. Við vorum í ungbarnasundi í gær í þriðja skipti. Hún er nú ennþá pínu smeyk við þetta allt saman. En er nú farin að þora að sprikla meira. Svo þetta er allt í áttina. Það er planið að frúin fari í svona mömmuhóp á föstudaginn. Við eigum að vera 4 í hóp. 3 sem eiga bara eitt barn og svo ein sem var að eiga annað barn. Það verður spennandi að sjá hvernig það verður. Frúin er allavega orðin þreytt á að hanga alltaf heima. Sérstaklega þegar allt er á rú og stúi og ekkert hægt að taka almennilega til.
Við erum búin að fá nýjan nágranna í húsið þar sem við fengum að nota klósettið. Það er víst þýsk kona með einn stálpaðan strák. Við höfum ekki séð hana ennþá, en bara heyrt um hana hjá þeim sem leigja út húsið.
Bóndinn er búinn að setja inn myndir af baðherberginu eins og það lítur út núna. Albúmið heitir baðherbergi sept-okt
kveðja frá vindblásna fólkinu í Tiset.
Athugasemdir
Gaman að heyra að þetta gangi svona hratt með baðherbergið. Það væri nú ekki gaman að fá fréttir af konu fljúgandi um á klósetti yfir Jótlandi. Gott hjá þér Ragga að komast eitthvað út á meðal fólks, ómögulegt að hitta bara karlinn heilu dagana. Ég gekk einmitt í tónlistarfélagið og kvenfélagið þegar ég var heimavinnandi.
Kveðja úr Garðinum
Gunna
Gunna (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 20:09
Gaman að sjá breytingarnar á baðinu, þetta verður svakalega fínt hjá ykkur. En mikið skil ég vel að það sé ekki spennandi að fara út á klóið!!
Bið að heilsa
Hildur og Tóti
Hildur (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 21:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.