11.10.2009 | 17:49
Rófuleiðangur
Kæru bloggvinir
Þá er kominn bloggdagur. Síðasta vika hefur nú verið frekar viðburðalítil, bara allt þetta venjulega. Múrarinn hefur verið ansi duglegur þessa vikuna og er búinn að pússa veggina og setja flísar í sturtuhornið. Píparinn er búinn að gera allt klárt til að tengja vask og klósett og handklæðaofn. Hann er svo í fríi næstu viku en kemur vonandi í byrjun þarnæstu viku og tengir þetta fyrir okkur. Það er frí í skólunum þessa vikuna og bóndinn er í fríi. Það á að nota tímann til að leysa ýmis smáverkefni sem setið hafa á hakanum undanfarið. Það er alltaf gott að klára það sem setið hefur á hakanum.
Frúin átti að mæta í mömmuhóp á föstudaginn en því var aflýst af því mamman sem átti að halda það var með veik börn, svo það verður núna á þriðjudaginn í staðinn. Svo kemur hjúkrunarkonan á fimmtudaginn. Við ætlum að fara að prófa að gefa ungfrúnni smá graut eða velling. Hún verður 4 mánaða á sunnudaginn. Þeir fróðu segja að það sé ekki æskilegt að gefa þeim neitt annað en mjólk fyrir þann tíma. Svo við sjáum hvernig hún bregst við því. Annars er hún stillt og prúð og kippir sér ekkert upp við vesenið á foreldrum sínum. Enda sennilega eins gott fyrir hana að venja sig við það strax!
Frúin hitti hinn sálfræðinginn í bænum í einum af göngutúrunum í vikunni. Hann hefur nú aldrei talað við mig, en hann bætti um betur í þetta skiptið. Hann talaði og talaði allavega í hálftíma. Hann flutti til Tiset frá Kaupmannahöfn til að leita uppruna síns. Hann er voða mikið að grúska í ættfræði og sagði mér að hann ætti ættingja á Íslandi. Hann var á Íslandi 1972 hjá Sveinbirni Beinteinssyni allsherjargoða, sem var víst eitthvað skyldur honum líka. Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt samtal.
Við erum búin að vera að safna að okkur því sem vantar á baðherbergið. Við fórum í dag að kaupa málningu, svo nú vantar bara málningu á ganginn. Það er orðið ansi erfitt að bíða eftir að fá að klára þetta og innrétta baðið. En það sér nú fyrir endann á þessu. Við verðum að henda inn myndum af þessu í vikunni.
Frúin fann reykt folaldakjöt í frystikistunni nýlega, það átti að vera í matinn í dag. Okkur vantaði bara rófur til að hafa með. Það er ekkert auðhlaupið að því að fá rófur hér í Danaveldi, þar sem það er álitið svínafóður. Bóndinn hafði séð rófur til sölu einhvers staðar út í sveit svo við fórum í leiðangur í dag að leita að því. Þetta varð nú eitthvað lengri bíltúr en ætlað var, en svona er þetta nú stundum hjá okkur. Dönunum finnst við ábyggilega verulega biluð að nenna að eltast við þetta. Við enduðum í bæ sem heitir Tønder ca 50 km hér frá. Þetta er mjög fallegt svæði og mjög mörg falleg hús. En þetta er alveg út á hjara veraldar, svo það er ekki mjög heillandi að búa þarna.
Það er búið að vera ansi kalt hérna undanfarið og þar sem við erum ekki með neinn hita á húsinu meðan þeir eru að vinna í baðherberginu þá hefur okkur nú verið ansi kalt. En svo fengum við lánaðan extra ofn, og það er bara allt annað líf.
Kveðjur úr kuldanum
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Alltaf gaman að lesa fréttir af ykkur og gott að heyra að vel gengur með þá litlu og allar framkvæmdirnar!
Vonandi funduð þið rófur með kjötinu - bon appetit!
Bestu kveðjur úr rokinu á Íslandi!
Lilja Eygerður (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 08:15
je dúdde mía segi ég nú bara, hlakka til að sjá myndirnar af baðherberginu fullbúnu, manni stóð nú ekki á sama að sjá myndirnar! ég kalla ykkur góð að standa hreinlega í þessu með nýfætt krútt - segi ég nú bara!
annars allt ok að frétta af mér - hef sagt upp vinnunni minni, en örvæntið ei, hef fengið aðra vinnu og byrjar þar í byrjun nóv (hætti á hótelinu í lok þessa mánaðar!)
knús og kossar, látið ykkur ekki verða kalt (það verður nú barn úr þessu kuldakasti!!!!) :) xxx
Sigga, 17.10.2009 kl. 21:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.