25.10.2009 | 10:17
Komin með innanhússklósett
Kæru bloggvinir
Héðan er nú allt gott að frétta. Við erum farin að geta farið á klósettið innandyra. Að vísu er ekki komin hiti á húsið, svo það er ansi kalt að fara á náðhúsið. En betra en að paufast út í garð í svartamyrkri.Við fengum gefins klósett frá vinum okkar, og ætluðum auðvitað að nota það. En þá kom í ljós að það var sprunga í því svo við verðum að kaupa nýtt. Frekar pirrandi, en ekkert við því að gera. Við vonumst eftir að fá hita á húsið á morgun eða hinn. Við erum líka búin að fá voða fína sturtu, svo þetta er allt að skríða saman. Nokkur smáverkefni eftir. Múrarinn okkar geðgóði er ekkert sérstaklega öflugur í slíkum verkefnum, svo það verður spennandi að sjá hversu mikið verður eftir þegar hann telur sig búinn. Rafvirkinn kemur svo á morgun og setur upp einhver ljós. Allavega eitthvað til bráðabirgða. Við verðum að bíða aðeins með að setja upp endanleg ljós, það er svo dýrt. Og þetta er nú orðið mun umfangsmeira og dýrara verkefni en við höfðum reiknað með í upphafi. En það er nú allt í lagi að bíða með eitthvað smotterí. Okkur er farið að hlakka voða mikið til að geta flutt endanlega inn í húsið eftir að hafa búið í þessu hálfkláruðu í heilt ár. Ótrúlegt að við séum búin að búa hér í meira en eitt ár. Við hjónaleysin vorum að tala um það um daginn að við erum nú búin að búa saman í 9 ár á ótrúlega mörgum stöðum og við höfum aldrei haft baðinnréttingu, svo það var nú komin tími á það! :)
Auður Elín hefur nú verið heldur hressari þessa vikuna. Hún er nú samt eitthvað pirruð í munninum ennþá. Hún vaknar ennþá á nóttinni mömmu sinni til mikillar gleði. Hún er farin að fá graut á kvöldin, bara þunnan graut í pelann. Hún er nú ekkert ofurhrifin af því, en lætur sig oftast hafa það. Hún hlýtur að venjast því. Frúin er að fara í mömmuhóp á morgun. Hún er jafnvel að pæla í að þræla sér í leikfimi líka. Við sjáum nú til hvort hún hefur sig í það. Það er boðið upp á einhverja leikfimi fyrir mæður og börn, svo það hljómar nú ekkert vitlaust. Við erum búin að fara 5 sinnum í ungbarnasund og ungfrúin er nú eitthvað að sættast við þetta. Henni er enn voða illa við ef það eru of mikil læti og hún er ekkert hrifin af neinum buslugangi. En við höldum nú hún venjist þessu smátt og smátt. Konurnar sem stjórna sundinu segja að það sé mjög misjafnt hvernig börn taka þessu, svo þær halda líka að hún venjist þessu bara. Það gengur allavega betur ef hún er búin að ná að leggja sig aðeins og borða áður en við förum af stað. Hún er voða mikið að prófa að búa til hljóð með tungunni. Eins og hún sé að reyna að puðra. Henni finnst þetta voða fyndið og skellihlær að vitleysunni í sjálfri sér. Hún er voða lítið fyrir að vera kyrr, vill alltaf vera á iði. Alveg óð í að standa upp, svo foreldrarnir eru orðnir ansi sterkir í upphandleggjunum af að halda við hana.
Við vonumst nú til að geta farið að setja inn fleiri videó af dótturinni þegar við komumst inn í tölvuherbergið aftur. Það er víst mikið auðveldara að setja þau inn í gegnum þá tölvu en fartölvuna. Við vorum svo að breyta klukkunni í nótt svo nú er bara klukkutímamunur á milli landanna.
Bóndinn ætlar að reyna að setja inn nýjar myndir af ungfrúnni í dag. Svo þið sjáið eitthvað annað en bara klósettmyndir alltaf.
Jæja látum þetta nægja í bili
kveðjur frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Ekki spurning með leikfimina, auðvitað skellið þið mæðgur ykkur í leikfimi :D Ekki veitir af að ná sér í orku þegar að þið eruð að vakna svona á nóttunni og besta leiðin sem ég veit til þess er að hreyfa sig! Já og ungbarnasund er málið - og einmitt að hafa dömuna sadda og sæla áður en farið er útí, a.m.k. var það málið með mín börn:D
Kata (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.