22.11.2009 | 16:36
Auður Elín 5 mánaða
Kæru bloggvinir
hér hefur rignt eldi og brennisteini undanfarna daga, og verið rok líka. Sem sagt skítaveður. En það er ekki við öðru að búast í nóvember. Þeir eru farnir að setja upp jólaskreytingar í bæjunum, okkur finnst það nú fullsnemmt, en þeir taka nú líka jólaskrautið niður fyrr en við heima á Íslandi, sumir henda jólatrjánum út á jóladag. Við vitum nú ekki hversu mikið við nennum að skreyta, litla fjölskyldan er nefnilega á leiðinni heim til Íslands um jólin. Það á nú eftir að verða spennandi að sjá hvernig Auður Elín bregst við því öllu.
Við fórum með stúlkuna í 5 mánaða skoðun í vikunni, og hún fékk aftur sprautu í bæði lærin. Hún brjálaðist auðvitað, en sofnaði svo bara og svaf í 3 tíma. Hún var svo með einhverja hitavellu um kvöldið og var eitthvað pirruð, en svaf sem betur fer mest alla nóttina. Hún er voða mikið að æfa sig í að gera alls konar hljóð þessa dagana. Stundum veit maður ekki hvort hún er eitthvað leið eða hvort hún er bara eitthvað að rífast við dótið sitt. Hún hefur tekið ástfóstri við einhvern forljótan bangsa sem við fengum gefins í einhverri byggingarvörubúð. Hennar uppáhaldsiðja þessa dagana er að velta sér af bakinu á magann. Málið vandast svo bara þegar hún er búinn að velta sér, því hún nennir ekki að liggja of lengi á maganum og hún er ekki búin að fatta hvernig hún veltir sér til baka. Hún liggur því bara á maganum og vælir og er ferlega pirruð. Við prófuðum að gefa henni að drekka af glasi í vikunni og henni fannst það nú bara fyndið. Finnst foreldrar sínir ábyggilega ótrúlega skrýtnir.
Af framkvæmdum er það að frétta að rafvirkinn er búinn að setja upp alla tengla, en múrarinn hefur ekkert látið sjá sig. Hann á nokkur smáverkefni eftir. Það er spennandi að sjá hvenær hann lætur sjá sig. Það er annars bara svo frábært að geta tekið til og gert hreint hérna inni eftir allan þennan tíma að það er ekkert venjulegt. Frúin tók smá ajaxtörn í dag enda ekki vanþörf á. Það er líka mömmuhópur hér á morgun svo það er eins gott að allt sé hreint og fínt. Þær eru nú flestar að spá í að fá sér hreingerningarkonu þegar þær fara að vinna aftur. Manni finnst þetta nú svolítið skrýtið að ungar konur með eitt barn séu að pæla í þessu. En þetta er mjög almennt hérna. Ég held ég þrífi nú bara minn skít sjálf, þó mér finnist það ömurlega leiðilegt.
Það hefur ekki orðið neitt úr að taka myndir af ungfrúnni. Við verðum að reyna að bæta úr því.
kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Hæ, hæ
Gaman að þið séuð að koma heim um jólin þá getur maður kannski hitt á ykkur og séð litlu dömuna. Þið eruð að sjálfsögðu boðin í kaffi eða mat hjá okkur. Hvað ætlið þið að stoppa lengi ? Gott að framkvæmdirnar eru að taka enda í bili.
Kveðja úr Garðinum
Gunna (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 16:48
bara að kvitta - keep the updates coming :) xoxo
Sigga, 22.11.2009 kl. 17:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.