Jólasveinninn kemur til Tiset

Kæru bloggvinir

þá er nú farið að kólna í Danaveldi, það var frost hér í nótt. Annars hefur bara verið endalaus rigning í nóvember. Manni finnst nú meira passandi fyrir árstímann að það sé stilla og kalt. En þetta fer nú örugglega að breytast núna. Þeir eru búnir að setja upp jólaljósin í Tiset. Þeir hengja upp í ljósastaurana svona stjörnu með greni og inn í er hjarta sem er með ljósi í. Þetta er mjög smekklegt og lýsir skemmtilega upp skammdegið hérna, sem annars er frekar grátt og leiðilegt.

Í dag kom svo jólasveinninn til Tiset, þá er gengið með jólasveininum í gegnum bæinn og börn sem eru að hætta með snuð, gefa honum snuðin sín og fá eitthvað sniðugt í staðinn. Jólasveinninn var nú frekar þögull og frekar slappur eitthvað. Húsbóndinn er að pæla í að bjóða sig fram í hlutverkið á næsta ári. Þegar við vorum búin að labba gegnum bæinn var svo farið inn í hlöðu og drukkið kaffi og borðaðar eplaskífur. Eins og glöggir lesendur kannski muna, tókum við þátt í þessum viðburði síðasta ár og þá talaði enginn við okkur. Þetta gekk nú eitthvað betur í ár, enda þekkjum við orðið nokkrar hræður. En það er voða mikið þannig hérna að maður verður að vera með í einhverri klíku til að vera ekki bara einn út í horni. VIð erum að verða komin pínulítið inn í íþróttafélagsklíkuna svo við fengum að sitja hjá þeim. Það á alveg örugglega eftir að taka langan tíma að kynnast einhverjum öðrum hérna í bænum. Auður Elín svaf þetta nú eiginlega allt af sér.

Hún er farin að sofa svo vel í vagninum allt í einu að mamma hennar skilur bara ekkert í þessu. Hún þarf heldur ekki lengur að fara út að labba með vagninn til að hún sofni. Nóg að rugga bara aðeins og þá er hún sofnuð. Hún er líka farin að vera duglegri að borða bæði grænmeti og graut. Kannski þess vegna sem hún sefur betur. Þetta breyttist bara allt í einu, ferlega fyndið. En mamman er nú voða fegin. Veit ekki hvort hún á að halda að þetta verði svona áfram eða hvort þetta er bara eitthvað tilfallandi. Hún er orðin rosalega dugleg í sundi og fílar það alveg í botn. Er alveg búin á því á eftir og sefur í 3-4 klukkutíma.

Við þurftum að fá tímabundinn passa fyrir ungfrúnna áður en við komum heim. Það þurfti að keyra um 80 km til að komast á næstu ræðismannaskrifstofu. Það er önnur skrifstofa aðeins nær, en ræðismaðurinn er í veikindafríi. Það hefur sennilega verið svona erfitt að sinna Íslendingunum að hún hefur ekki þolað það. En við fengum passa og þurfum svo bara að sækja um annan þegar við komum heim. Það voru teknar voða fínar passamyndir af henni. Gekk ótrúlega vel. Enda er stúlkan yfirleitt óskaplega meðfærileg.

Við fórum svo á föstudaginn og sóttum kassa sem við höfum haft í geymslu. Það voru um 20 stórir kassar eftir. Við vorum búin að ákveða að taka hressilega til í þeim og henda því sem við ekki notuðum. Frúin hefur nú verið svolítið góð í að geyma allt mögulegt, bóndanum fannst það voða fyndið. En nú voru hendur látnar standa fram úr ermum og ég held að kössunum hafi fækkað um helming allavega. Svo er bara eftir að fara í gegnum kassana upp á lofti og henda úr þeim. Það hefur bara verið þannig síðan við fluttum til DK að maður er alltaf að flytja og ætlar alltaf að taka til í kössunum en þetta safnast bara saman og það verður ekkert úr því að maður hendi neinu.

Okkur hlakkar orðið voða mikð til að koma heim um jólin. Þetta nálgast nú óðfluga. Bóndinn setti inn nokkrar myndir af Auði Elínu sem voru teknar núna þegar hún varð 5 mánaða. Endilega kíkið á þær.

kveðja frá jólabænum Tiset

Ragga, Gummi og Auður Elín

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ

Hér hefur nú rignt líka síðan í september held ég. En þegar maður vaknaði í morgun var allt orðið hvítt og verið var að ryðja göturnar hérna í Garðinum. Þetta var alveg passlegur jólasnjór, kemur bara heldur snemma og verður sjálfsagt horfinn fyrir jól. Flottar myndir af litlu dömunni, hún stækkar og stækkar.

Kveðja úr Garðinum.

Gunna (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 19:32

2 identicon

Hún er orðin er svo stór!! Hlakka til að sjá hana aftur :)

Hildur (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband