12.3.2017 | 13:07
Vor í lofti
Kæru bloggvinir
hér er eitthvað smá vor í loftinu. Börnin heimtuðu að fara út að hjóla í gær og var drifið í því. Það var eins og kúnum væri hleypt út.
Á föstudaginn fórum við í vinakvöldverð. Þar var mikill fjöldi fólks. Mikið af flóttamönnum frá Sýrlandi. Þeir eru nú ýmist kristnir eða múslimar. En okkur kemur nú öllum ágætlega samaan fyrir því. Börnin eru mjög dugleg að leika sér saman. Það skiptir engu máli, hvernig maður er á litinn þegar maður er barn. Fordómarnir koma ekki fyrr en seinna.
Frúin fór í vinnuna á föstudaginn, í fyrsta skipti síðan eftir brotið. Það voru heilmikil viðbrigði. Mesta málið er að komast í vinnuna. Það þarf að semja við vinnufélagana að sækja hana á lestarstöðina. Allavega þar til hún er farin að geta labbað meira án verkja. Það er hálfgert neyðarástand í teyminu sem frúin er í. VIð erum bara tvær og hin er að hætta eftir 1 1/2 viku. Yfirmaðurinn er frekar stressuð yfir þessu. Hún er vön að hafa annan sálfræðing undir sér, sem sér um að vinna vinnuna hennar. En sú er í veikindaleyfi. Hún var því ekki upp á marga fiska þegar frúin mætti aftur. En hún finnur kannski annan sálfræðing til að vinna vinnuna sína.
Það er smátt og smátt verið að losa sig við hluti sem eru ekki notaðir meira. Börnin eiga nánast ekkert eftir af dóti og var því farið í leiðangur í dag að kaupa eitthvað smá í sárabætur. Það þarf að koma útidótinu frá sér líka. Það ætti nú að vera mögulegt.
Það er búið að fá tilboð í gám og verið að vinna í að finna dagsetningu til að fá hann og eitthvað fólk til að hjálpa. Það er alveg glatað að þegar við þyrftum að fá hann, þá er helgidagur hér, föstudagurin 12. maí er stóri bænadagur og frídagur hjá mörgum héfyrsr.
Við erum sennilega búin að fá tvo bændur til að hjálpa við að taka dótið hér niður af svölunum og hífa upp í gáminn. Það léttir þetta nú heilmikið. Við fórum í spagettýmessu á fimmtudaginn og fengum einn bónda í lið með okkur. VIð höfum ekki prófað svona áður. Það er farið í kirkju fyrst og presturinn var klæddur upp sem Jóhannes Skírari, með hárkollu og í gömlum fötum. Síðan var farið í samkomuhúsið og borðað spagettý. Börnunum þótti þetta mjög skemmtilegt, og þá er árangrinum náð. VIð förum greinilega ekki oft í messu, því Ágúst var alltaf að bíða eftir jólasveininum. Presturinn bregður sér stundum í gervi jólasveins líka.
Annars er nú lítið meira að frétta héðan úr sveitinni. VIð vonum að vorið haldi áfram að koma, um að njóta þess, áður en maður kemur heim.
Kveðja frá Baunalandi
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2017 | 15:01
Frelsi
Kæru bloggvinir
hér ræður grámyglan ríkjum. Frekar þreytandi veður, svona fyrir andlegu hliðina. Það ætti að vera farið að vora, svona samkvæmt dagatalinu, en það er ennþá verið að spá næturfrosti og það er ennþá hálfgerður vatnskuldi.
Í gær var farið í verslunarleiðangur og keyptir bæði kuldaskór og sumarskór fyrir börnin. Við eigum von á að það sé ódýrara að versla þetta hérna núna, á útsölu, en að kaupa þetta heima. Svo það er verið að fylla gáminn. Ekki eins og við eigum ekki nóg. Við erum nú samt byrjuð að grisja eitthvað út, sérstaklega í dótinu hjá krökkunum. Þau nota það ekki svo mikið. Auður Elín er orðin mjög spennt fyrir að hugsa um gömlu dúkku frúarinnar, Auði Ösp. Við fórum að kaupa ný föt á hana um daginn og það kveikti einhvern áhuga. Það er ekki gott að vita hversu lengi það varir, en gott meðan það varir.
Í gær fórum við í heimsókn til Guðný og Óla. Það var söngvakeppni í sjónvarpinu, þar sem börn syngja og dansa. Þetta er svona eftirherma af fullorðins júróvision. Þær voru mjög spenntar fyrir þessu og fengu að kaupa snakk og nammi og svo var dansað og djammað. AUður var orðin svo þreytt um 21:30 að hún vildi fá að sofa. En það tókst að láta hana halda sér vakandi þangað til úrslitin voru kunn. Við gistum í Munkebo af því við nenntum ekki að fara að keyra heim kl. 22 í gærkvöldi. Bóndinn gat ekki sofið í svefnsófanum með frúnni, svo hann svaf við hliðina á Ágústi og var allur marinn og blár eftir spörk og slög. Ágúst fór i nokkra hringi meðan hann svaf. Ótrúlegt hvað börn eru mikið á hreyfingu í svefni. Börnunum fannst þetta mjög skemmtilegt, sérstaklega líka að fá að gista. Við keyrðum svo heim í grenjandi rigningu, eins skemmtilegt og það nú er að keyra á hraðbrautinni í svoleiðis veðri. Það er alltaf verið að framleiða sparneytnari bíla hérna og á sumum þarf að kveikja sérstaklega afturljósin. SUmir gleyma því og það getur verið mjög óþæginlegt á hraðbrautinni allavega. Alveg spurning hversu mikið maður sparar á, ekki að kveikja ljósin.
FRúin er orðin meira hreyfanleg, en því fylgir auðvitað að manni er meira illt og þetta verður fljótt bólgið, sérstaklega þegar maður er í skóm. En það er nú erfitt að vera berfættur úti á þessum árstíma.
Jæja best að fara að slaka á eftir átök helgarinnar.
Kveðja frá Gramgenginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2017 | 11:23
Vika 8
KÆru bloggvinir
Hér hefur verið lofað snjó, en eitthvað orðið lítið úr honum. Af myndum að heiman að dæma hafið þið fengið okkar skammt. Það hefur verið slydda hér, en ekkert sem hefur fest á jörðinni.
Frúin fór til læknis á fimmtudaginn. Það var sá sem gerði aðgerðina. Honum leist mjög vel á handverkið sitt og fannst þetta líta óvenjulega vel út. Ekki leiðilegt að fá svoleiðis fréttir. Svo er aftur skoðun eftir 6 vikur og þá þarf að taka afstöðu til, hvenær þeir taka úr skrúfuna sem heldur þessu öllu saman. Vonandi næst að gera það áður en maður flytur heim. Annars er þetta víst bara lítil aðgerð. Kannski maður geti bara reddað þessu sjálfur. Sennilega er best að láta fagmennina um þetta. Frúin hefur ekki ráðið sér fyrir kæti og þrammar út um allt. Það er nú sennilega skynsamlegt ekki að ofgera sér, en það er erfitt að sitja kyrr þegar maður hefur ekki gert annað í 8 vikur. Þetta er aumt ennþá og fóturinn bólgnar fljótt við notkun. En það er allt eðlilegt.
Á föstudaginn fór Auður og gisti með skátunum í skátaheimilinu. Það var rosa fjör. Við fórum svo í gærmorgun og sóttum hana og svo var öskudagsskemmtun. Hún fór að hágráta í gærkvöldi þegar hún átti að fara að sofa og vildi sofa hjá skátunum. En hún lagðist nú samt út af og sofnaði á sömu sekúndunni og hún lagðist upp í.
Í morgun var svo ráðist í að baka vatnsdeigsbollur í tilefni dagsins. Það er öskudagur hér í dag. Krakkarnir fengu að labba ein á leikskólaleiksvæðið. Það er í fyrsta skipti sem þau fá að labba svona ein eitthvað að ráði. Auður fékk það verkefni að fylgjast með Ágústi og vini hans. Hún tók það mjög alvarlega. Ágúst er svo komin heim, en Auður er ennþá hjá nágrannanum. Það er nú eitthvað erfitt að fá á hreint hvað þau gerðu meðan þau voru úti. Það verður kannski meiri möguleiki á að fá einhver svör þegar Auður kemur heim.
ANnars er ekki mikið annað á dagskránni í dag. Kannski kemur einhver í bollukaffi. Það er aldrei að vita. Annars borðar maður bara extra skammt á morgun. Við vorum að prófa nýja uppskrift og vorum smeyk um að hún myndi ekki heppnast. þess vegna gerðum við aukabollur.
Frúin fer í samtal í vinnunni í þarnæstu viku. Þá á að ákveða hvenær hún snýr til baka til starfa. Læknirinn mælti með að næstu 4 vikurnar yrðu eitthvað rólegar, en það er ekki víst að vinnuveitandinn sætti sig við það. Það er ekki nógu góð afsökun að vera í veikindaleyfi, ef maður er fótbrotinn. Við sjáum hvað setur. Samstarfskona frúarinnar er að hætta í næsta mánuði, svo það má búast við að það verði pressað á að ég komi tilbaka. Það er örugglega komin góður biðlisti eftir samtölum.
Jæja best að fara að skoða bollurnar.
Kveðjur úr grámyglulandi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2017 | 12:37
Vetrarfrí
Kæru bloggvinir
þá er vika 7 liðin. VOnandi á frúin bara eftir að vera í spelku í eina viku í viðbót. Hún fer til læknis á fimmtudaginn og vonast eftir að fá leyfi til að fara að tylla eitthvað í fótinn. Það myndi verða töluverður léttir. Það er orðið verulega þreytandi að hoppa um allt á einni löpp. Maður er búinn að fá innsýn í hvernig er að vera í hjólastól og hversu erfitt er að komast um. Það virðist ekki oft vera spáð í hvernig fatlað fólk eigi að komast inn í búðir og svoleiðis. Klósett sem eru merkt með fatlaðamerki eru nú heldur ekki alltaf þau bestu. Kannski maður fari að berjast fyrir betra aðgengi.
Ágúst var í leikskólanum frá mánudegi til miðvikudags. Hann fór í annan leikskóla en hann er vanur og fannst alveg rosalega gaman. Hann var eiginlega bara fúll yfir því að fá ekki að fara á fimmtudeginum líka. Þau áttu að gera pizzu. Það eru færri börn þegar það eru frí í skólanum og sennilega hægt að gera aðra hluti en þegar það er bara venjulegir dagar. Arndís fékk að heimsækja Auði og gista í tvær nætur. Þær skemmtu sér mjög vel og voru rosalega duglegar að leika saman. Auður var voða leið yfir að hún fór og grét hástöfum. En það jafnaði sig nú sem betur fer fljótt. Þau feðgin fóru svo í sund á föstudeginum og Ágúst fékk einn vin sinn frá leikskólanum í heimsókn. Í gær var svo brugðið undir sig fæti og keyrt til KOlding. Það var ákveðið að bjóða börnunum út að borða. Ágúst hefur eiginlega aldrei prófað svoleiðis, svo hann var mjög upptekinn af því sem var að gerast í kringum hann og mátti eiginlega ekki vera að því að borða. þeim fannst þetta gríðarleg upplifun. Foreldrunum líka, þar til þau fengu reikninginn. Drykkjarvörurnar kostuðu næstum meira en maturinn. Það er á svona dögum sem maður ætti að drekka áfengi. Það er mikið ódýrara en gos. Það er gott maður fer ekki svo oft út að borða.
Þegar heim var komið horfðum við á bíómynd og borðuðum popp og nammi. Það kostar hálfan handlegg að fara í bíó, svo það var ákveðið að taka bara heimabíó í staðinn. Held að þeim hafi bara fundist það mjög gott.
Í dag var svo ráðist í að taka til í herbergjunum þeirra. Það var hent töluvert af rusli og svo þarf að tékka hvort við getum selt eitthvað smá dót. Þau eiga nú ekki mikið, en það sem þau eiga, er alltaf út um allt. Þeim finnst rosalega gaman þegar maður er búinn að taka til og hafa verið inni í herbergi að leika sér, síðan við tókum til. Það er svo annað mál, hvort þeim tekst að halda því í lagi. Það er mjög ólíklegt. Þau taka stundum góða spretti og leika saman, en stundum ofbýður Ágústi stjórnsemi systur sinnar og gefst upp.
Frúin er að vonast eftir að geta farið að vinna eitthvað eftir svona 2 vikur. Þetta er orðið alveg ágætt, en það tekur tíma að komast í gang aftur. Yfirmaðurinn (sem er kona) er víst alveg að ná því að maður jafnar sig ekki alveg á núll komma fimm. Það er orðið svo stíf veikindapólitík í vinnunni, maður þarf nánast að vera dauður til að fá að vera heima. Þeir reka fólk í vinnu, ef það er bara með brotinn fót eða handlegg. Þetta er alveg rosalega manneskjulegt eða þannig og þeir eiga ekkert eftir að fá þetta í bakið.
Það er verið að vinna á fullu í að finna íbúð. Það skýrist vonandi fljótlega hvort okkur verður eitthvað ágengt í þeim málum. Það er lítið annað hægt að gera, fyrr en maður er kominn með þak yfir höfuðið.
Jæja best að fara að taka smá sunnudagsafslöppun
kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2017 | 14:33
Vika 6
Kæru bloggvinir
þá er vonandi að fara að sjá fyrir endann á þessu fótaveseni á frúnni. Hún er orðin verulega þreytt á að hoppa um og allt er eitthvað svo snúið. Það er búið að boða hana í skoðun eftir 1 og hálfa viku og þá er vonandi að maður fái grænt ljós á að fara að nota löppina eitthvað meira. Yfirmaðurinn í vinnunni er farinn að vera mjög óþolinmóð að fá frúnna til baka. Hún var tilbúin að borga leigubíl frá lestarstöðinni í vinnuna. En svo kom í ljós að sveitarfélagið var búin að spara svo mikið að þeir geta ekki borgað fyrir svoleiðis. Það má segja að það borgi sig ekki alltaf að spara.
Annars hefur vikan verið heldur í viðburðarríkari kantinum. Frúin sótti um nokkur störf á Íslandi og fékk eitt af þeim. Hún var búin að fá tvö bréf um að hún hefði ekki verið valin og svo kom það síðasta sem hún fékk, og það sem hana langaði mest að fá. Það er ´vist ekki hægt annað en að vera ánægður með það. Það þurfti aldeilis að fara á stúfana og reyna að fara að undirbúa þetta allt saman. Það sem virðist verða stærsti höfuðverkurinn er að finna húsnæði á Suðurnesjum. Það er greinilega ekki auðhlaupið að því. Við vorum svo grunlaus að við héldum það yrði nú minnsta málið.
VIð erum ekki enn búin að segja krökkunum frá þessu. Auður á eftir að verða svo spennt að hún á ekki eftir að geta beðið. Hún á líka eftir að sakna skólans mikið. Það er vikufrí núna og hún var voða leið í gær yfir að hún sæi ekki kennarann sinn í heila viku. En það vegur á móti að hún fær að flytja í nágrenni við systur sína, sem hún saknar óskaplega mikið. Við erum mjög spennt, en þetta er auðvitað líka frekar stressandi.
Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn. Þar stóð upp kolbikasvartur maður frá Kongó, sem hefur verið í Danmörku í 7 ár, en flúði einn frá Kongó fyrir 7 árum. Han á konu og 6 börn. Eða átti. Fyrir 5 árum síðan komst hann loks í samband við konuna, sem hann skildi eftir. En 4 af börnunum hans eru horfin. Einhver af þeim hafa hugsanlega verið tekin og gerð að barnahermönnum. Hann stóð þarna og sagði frá þessu öllu, en gat samt sem áður séð ýmislegt jákvætt í lífinu. Hann er mjög trúaður og það er sennilega það sem hefur haldið honum gangandi. Hann fékk líka samband við danska fjölskyldu, sem hefur greinilega hjálpað honum mikið. Það var mjög skrýtið að heyra hann segja að þegar hann kom, vissi hann til dæmis ekkert hvernig ætti að elda á eldavél, eða hita upp húsið. Í Kongó er dimmt á nóttinni og bjart á daginn, svo maður þarf ekki úr. Hér er dimmt á daginn og bjart á nóttinni. Þetta var náttúrlega alveg fáránlegt. Hann kunni ekki á klukku. Þurfti ekki á því að halda í Kongó. Manni finnst svo margt alveg sjálfsagt sem er alveg framandi fyrir þetta fólk.
Það er ennþá sama grámygluveðrið og kuldi. Þeir eru eitthvað að lofa hlýjari vindum næstu dagana. Vonandi að það gangi eftir.
Jæja best að fara að reyna að stjórna mannskapnum.
kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2017 | 11:10
Vika 5
Kæru bloggvinir
þá er vika 5 að renna sitt skeið. Vonandi að þær verði ekki fleiri en 8. Það er ekki víst að þolinmæði frúarinnar og geðheilsatil bóndans haldi þetta út mikið lengur.
Hér er skítakuldi, en ekki frost, bara þessi ógeðslegi raki kuldi. Þeir eru að spá einhverjum vetri í næstu viku. Við sjáum til hvað verður mikið úr því.
Annars hefur allt verið með kyrrum kjörum hér þessa vikuna. Allt í föstum skorðum. Í gær keyrðum við í boltaland með börnin. Frúin er orðin ótrúlega spræk að fara upp og niður tröppurnar. Það krefst nú töluverðrar orku, svo hún hleypur nú ekkert svona að óþörfu.
Í morgun var svo vaknað snemma til að fara í eina búð sem var með tilboð á fötum fyrir krakkana. Þau eru nú annars orðin betri að sofa lengur um helgar. En það var ekki í boði í morgun. Ef maður ætlar að kaupa eitthvað á svona tilboðum, þá er um að gera að vera snemma á fótum. Það er ótrúlega fyndið, hvað voru komnir margir í búðina kl. 8;30 á sunnudagsmorgni. Það hefur örugglega verið komið fólk þegar búðin opnaði kl. 8. En við þurftum að keyra smá eftir þessu, svo við vorum ekki alveg komin á snerilinn svona snemma.
Það er von á Óla og Guðný og börnum. VIð höfum ekkert séð þau síðan fyrir jól. Auður getur varla beðið eftir að hitta Arndísi vinkonu sína. Það var meiningin að heimsækja þau milli jóla og nýárs, en fótbrot frúarinnar kom í veg fyrir það.
Við tókum okkur til og framkölluðum helling af myndum af krökkunum. Það er engin smá vinna að sortera þetta allt. En þetta er ágætlega á veg komið. Við erum komin ársins 2013.Þetta eru um 1200 myndir. Við erum bara búin að framkalla helminginn af þeim. Hitt er í vinnslu. Það er ágætt að fá þetta í smá skömmtum. Það er bara miklu skemmtilegra að hafa þetta í albúmi og Auði þykir rosalega gaman að skoða þetta.
Auður fékk að skipta um hest í reiðskólanum og síðast þorði hún að láta hana brokka. Það hefur hún ekki fengist til meðan hún var á hinum hestinum. Það er vonandi að þetta eigi eftir að hjálpa henni. Henni finnst þetta mjög gaman.
Svo er bara ein vika eftir í skóla núna og svo er vetrarfrí. Auður verður í fríi ala vikuna en Ágúst fer í leikskólann í nokkra daga. Hann er svo mikill félagsmálapúki að það þýðir ekkert að halda honum heima í heila viku, ef það er ekkert sérstakt prógramm. Við erum ekki að fara að gera neitt sérstakt. Etir tvær vikur fer frúin svo í skoðun á spítalanaum og vonandi lítur þetta vel út, svo hún megi fara að styðja eitthvað smávegis á fótinn og komast í vinnuna. Hún getur nú ekki keyrt til að byrja með, en það verður að finna einhverja lausn á því. Þeir eru orðnir þreyttir á að vanta manneskju í vinnunni.
Jæja ætli sé ekki best að fara að gera klárt fyrir gesti.
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2017 | 10:42
Vika 4
Kæru bloggvinir
Þá er vika 4 að renna sitt skeið. Frúin telur niður í vikum. Þetta er eins og fangarnir sem eru að afplána í fangelsunum. Núna má frúin fara að gera smá æfingar, svo fóturinn verði fljótari að jafna sig. En það má ekki stíga í hann fyrr en eftir 8 vikur.
Ágúst er orðinn betri af kvefinu, en í gær varð Auður lasin. Hún er með hita og kvef. Blessað barnið hefur ekki verið kvefað í mörg ár, svo hún kann ekki á þetta. Finnst hún þurfa að gubba þegar hún þarf að hósta. Það er örugglega ekki mjög algengt að börn séu svona sjaldan veik eins og okkar. Við erum ótrúlega heppin. En viðbrigðin eru líka töluverð, þegar þau svo eru veik. Þetta þýðir auðvitað að bóndinn þarf að keppast við að hugsa um alla lasarusana. Ætli hann fari ekki bara í sjúkraliðaskólann eftir þetta allt saman. Verst að hann er sjálfur hálf slappur þessa dagana. Rakinn fer ekki vel í lungun á honum. Frúin hlýtur að fara að fá þetta kvef líka bráðum. Best að ljúka því bara af.
Við drifum okkur aðeins út að leika í gær. Frúin var að verða geðveik á að hanga alltaf inni. Henni var bara ýtt um í hjólastól og börnin léku sér. Þau skilja ekki alveg ennþá að mamma getur ekki ýtt þeim í rólunum, eða vegað salt með þeim. Þau eru vön því að hún sé á fullu alla daga. Þau rífast óspart um hver megi sitja hjá henni í sófanum. Kannski maður fari bara að gera skema.
Annars hefur nú lítið gerst hér í vikunni. Frúin tók sig til og sendi fullt af myndum af börnunum í framköllun. Svo er bara eftir að raða þeim í albúm. Þær koma vonandi fljótlega. Það er töluvert púsluspil að raða þeim í rétta tímaröð. Auði finnst mjög gaman að skoða myndir af sér frá því hún var lítil og frúnni finnst mjög leiðilegt að skoða myndir í tölvunni, svo þess vegna var ráðist í að framkalla myndir á gamla mátann. Svona er að vera gamaldags. Það er til eitt albúm af Auði, en ekkert af Ágústi og finnst honum það frekar leiðilegt.
Það er frekar erfitt að skemmta börnunum heila helgi þegar maður getur ekki komist svo mikið um, en þau læra kannski þá að slaka bara á. Þau eru allavega orðin betri að sofa á morgnana. Í morgun vöknuðu þau ekki fyrr en kl. rúmlega 9. Það er enginn smá lúxus. Svo eru þau heldur ekki eins pirruð, ef þau ná að sofa lengur. Vonandi halda þau þessu bara áfram.
Í gær var smá frost og mjög fallegt veður, annars hefur verið mjög breytilegt veður. Suma daga frost og fallegt, en flesta daga smá hiti og grámyglulegt veður. það er ekki neitt sérstaklega upplífgandi, en sem betur fer er dagana farið að lengja og það hjálpar mikið.
Jæja best að halda áfram að slaka á ! :)
kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2017 | 11:36
Afslöppun
Kæru bloggvinir
þá er vika þrjú í gifsi að renna sitt skeið. Þolinmæði frúarinnar er alvarlega í prófun. Það er búið að era mildara veður þessa vikuna, en voða mikið grámygluveður. Ágúst er orðin voða kvefaður, hann hefur ekki verið að síðan hann var pínulítill, svo hann er ekki alveg að fatta þetta.
Frúin er búin að fara út nokkrum sinnum í vikunni. Það er stærra verkefni að koma henni út, upp og niður tröppur og út í bíl. En mjög gott að komast út í ferskt loft.
Bóndinn og Auður renndu til Þýskalands í verslunarleiðangur í gær. Það vra ekki svo leiðilegt að sleppa við það. Einn af fáum kostum þess að vera í gifsi.
Annars gengur hér allt sinn vanagang. Auður er ennþá í reiðskóla. Við ákváðum að tala við kennarana og heyra hvort að Auður gæti fengið að prófa annan hest. Þessi sem hún var á, var alls ekki að gera sig. Hún fékk að prófa annan hest á fimmtudaginn og það gekk allavega mikið betur. Þetta eru almennt hálfgerðar truntur. Það er kannski ekki auðvelt að fá hesta í svona störf. Við vonum að þetta eigi eftir að skila meiri árangri.
Síðustu jólagjafirnar bárust í vikunni. Það olli nú einhverjum ruglingi. Auður vildi vita, hvenær að kæmu jól aftur. Skildi ekki alveg í þessu.
Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn. Frúin var dregin með, það er eins og hafa lítið barn með, það þarf að hafa hjólastól og hækjur með. Það þarf þó ekki að hafa skiptitösku með bleium og svoleiðis. Sem betur fer.
Við fórum líka í samtal í leikskólanum í vikunni. Ágúst fékk mikið hrós. Hann er rosalega góður að leika, bæði við stráka og stelpur og hugsar vel um þá sem eru eitthvað leiðir. Stundum á hann erfitt með að þegja. Hann á nú líka frekar erfitt með það hérna heima. En það er nú senniega ekki mjög stórt vandamál. Hann er eldfljótur að læra söngva og það sem þau annars eru að læra. Ekki leiðilegt að fá svona góð meðmæli með drengnum.
Jæja ætli sé eki best að fara að fara að sinna börnum og búi. Frúin getur nú lítið annað en að fjarstýra því frá sófanum, með mjög misjöfnum árangri.
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2017 | 10:38
Vetrarveður
Kæru bloggvinir
þá kom fyrsti snjórinn hjá okkur. Það kom smá föl í nótt. Það birtir allavega til þegar það er smá snjór. Þeir eru að spá áframhaldandi kulda, en það er ekki víst að það fylgi því mikill snjór. Þetta er fínt svona.
Frúin er eitthvað aðeins að skríða saman. Hefur nú ekki mikla orku, en það er allavega ekki eins miklir verkir og hún hleypur ekki á klósettið í tíma og ótíma. Það er nú samt ansi mikið verkefni fyrir hana að vera svona ósjálfbjarga. Krakkarnir skilja ekkert í því að hún komi ekki hlaupandi þegar þau eru búin á klósettinu, eða almennt þegar þeim vantar eitthvað. Þau hafa annars verið mjög dugleg að hjálpa til. það er auðvitað mikill munur. Bóndinn fór með þau út núna að viðra þau. Auður spurði í gær, hvort við ætluðum ekki að fara út og viðra þau. Það hafði nú enginn fullorðinn á heimilinu orku í það, en við fengum dóttur vinahjóna okkar til þess. Það voru allir dúðaðir, en þau komu inn eftir 15 mínútur. Það er spurning um, hverjum var kalt. Eða hvort þau nenntu ekki að vera úti. Þau eru vön að fara út á hverjum degi, svo þeim bregður við. Frúin hefur heldur ekki farið út úr húsi. Það eru ansi mikil viðbrigði. Þetta reynir ekki minna á andlegu heilsuna, en þá líkamlegu, að vera svona farlama.
Vinnufélagi frúarinnar kom við hér á föstudaginn með blóm. Þeim finnst víst bara fínt að ég sé ekki í vinnunni. Það eru víst svo mikil læti í mér.
Annars er nú lítið spennandi í fréttum héðan. Auður byrjaði allt í einu í vikunni að spá í, hvernig maður segði mismunandi hluti á íslensku. Ágúst apar svo auðvitað eftir henni. Það eru voða dugleg að æfa sig við matarborðið að biðja um ýmsa hluti á íslensku. Þetta hljómar bara nokkuð vel hjá þeim. Það er auðvitað erfitt fyrir þau að segja til dæmis r og þ, en þetta kemur allt ef áhuginn er fyrir hendi. Það er aldrei að vita hvenær hann rennur út, svo það er mjög mikilvægt að ´nýta þetta tækifæri.
Jæja ætli það sé ekki best að reyna að fara að gera eitthvað að viti.
Kveðja úr kuldabolalandi
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.1.2017 | 12:24
Lipurtá
Kæru bloggvinir
það hefur verið fimbulkuldi hér í nokkra daga og við höfum fundið fyrir því að gluggarnir hér eru ekki mjög einangraðir. Eftir öll þessi ár í Danmörku kemur þetta svo sem ekki á óvart, en er nú frekar þreytandi. Eftir 15 stiga frost einn daginn rauk hitamælirinn upp á við aftur og svo hefur verið hlýrra síðustu daga. Frekar mikil skipti í veðrinu.
Frúin var skorin aftur á mánudag og það var sjálfur yfirlæknirinn sem gerði aðgerðina. Það virkar eins og honum hafi tekist betur til. Lýsingarnar í útskriftarbréfinu eru miður fallegar, Það hljómar eins og það hafi nánast ekki verið heilt bein eftir í fætinum. Frúin fékk að liggja þarna inni um nóttina, enda ekki mjög hress eftir svæfinguna. Á þriðjudeginum fékk hún svo að fara heim og sama dag fóru Helga og Kristín Júlía´líka heim. Það var nóg að gera hjá bóndanum þann daginn. Hann þarf örugglega að leggjast inn á heilsubælið eftir næstu 8 vikur. Frúin getur ekki mikið annað en að sitja á rassinum með löppina upp í loft. Hún kemst ekki út og er almennt til lítils gagns. Hann verður því að sinna öllu heimilishaldi. En hann er nú öflugur maður og reddar þessu nú örugglega eins og öðru.
Frúin hefur verið ansi þjökuð af verkjum í fætinum og þegar hún hélt þetta væri að lagst, byrjaði að koma rosa mar og bólga á ökklanum, sem nuddast í spelkuna í hvert skipti sem hún hreyfir sig. Fyrir utan það, fékk hún svo blöðrubólgu svo það þýðir klósettferðir á klukkutíma fresti, líka á nóttinni. Það er ekkert verið að taka þetta með neinum vettlingatökum. Frúin varð síðast mikið veik fyrir 16 árum, svo kannski tekur maður þetta bara með trompi, þegar maður gerir það. Kannski væri gáfulegra að gera þetta meira jafnt.
Krakkarnir hafa átt voðalega erfitt að finna út úr því að mamma þeir vra hafi verið í burtu í nokkra daga. Ágúst kom heim úr leikskólanum tvo daga í síðustu viku með illt í maganum, sem hvarf um leið og pabbi hans sótti hann. Við hringdum í leikskólann og útskýrðum málið og vonandi hefur þetta bara verið mömmusýki.
Auður var orðin mjög spennt fyrir að byrja í skólanum aftur. Hún saknaði hans svo mikið og líka kennarans síns. Það er spurning hversu lengi það varir. En gott meðan það er.
Vonandi hafa aðrir komist betur inn í nýja árið en við. Þetta hlýtur að fara upp á við héðan í frá.
Kveðja frá Gram
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)