Gleðilegt nýtt ár

Kæru bloggvinir

Gleðilegt nýtt ár til allra þarna úti og takk fyrir að fylgjast með okkur hérna hinum megin.

Eins og fram hefur komið á fésbókinni var frúin svo ótrúlega heppin að mauka á sér ristinni milli jóla og nýárs. Hún hefur nú alltaf verið einstaklega lagin við að detta og meiða sig, en aldrei hefur henni tekist eins vel til og nú. Henni heppnaðist að brjóta eitthvað lítið bein inn í ristinni og rífa einhverja liðþófa úr sambandi. Það var farið í aðgerð á fimmtudaginn og allt leit í fyrstu vel út, en við nánari skoðun kom í ljós að þetta var ekki nógu vel gert. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina taldi sig nógu færan til þess, en þetta er eitthvað mjög sérstakt brot og krefst mikillar sérhæfni að laga það, og þá hæfni hafði hann sem sagt ekki. Yfirlæknirinn kom og tjáði frúnni þetta daginn eftir aðgerðina. Henni til mikillar ánægju. Það er bókuð ný aðgerð á morgun. Vonandi að það verði þá ekki píparinn sem á skurðlæknavaktinni.

Maður veit ekki hvort maður eigi að gráta eða hvað. EN það er auðvitað gott að þeir viðurkenna mistökin og vilja reyna að bæta það upp. Málið er bara að þegar ég verð skorin á morgun, þarf að skera á þremur stöðum, í staðinn fyrir einum. Það verða settir einhverjir naglar sem þarf að taka úr eftir 4-6´mánuði og það er mikil sýkingarhætta þegar það er skorið´aftur eftir svona stuttan tíma. Við erum í skýjunum yfir þessu öllu. En frúin hefur alltaf haft mikla hæfileika til að vera óheppin, svo það er víst bara hluti af að vera hún.

Hún er því búin að liggja óstarfhæf með löppina upp í loft. En hún er of bólgin geta þeir ekki skorið á morgun. Bóndinn er því búinn að hafa nóg að gera. Hann tók nú líka eina byltu milli jóla og nýárs, braut sem betur fer ekki neitt, en er búinn að vera mjög lemstraður og kvefaður í þokkabót. Þetta frí hefur því ekki alveg verið eins og planlagt, en það væri nú líka eitthvað nýtt.

FRúin er fjarri góðu gamni næstu 8 vikur, má ekkert stíga í löppina og þarf að láta hana vera hátt uppi, svo hún bólgni ekki mikið. Hvernig haldið þið að það gangi. FRúin hefur aldrei verið góð að sitja kyrr, svo þetta er virkilega stór æfing.

Við reyndum nú að halda áramótin hátíðleg í gærkvöldi, þrátt fyrir allt þetta vesen. Börnin voru næstum jafn spennt og á aðfangadag. Bóndinn stóð sveittur í eldhúsinu allan daginn og töfraði fram dýrindismat. Auður er orðin mjög spennt að fara í skólann aftur. Saknar kennarans og krakkanna.

Helga og Kristín Júlía fara heim á þriðjudag. Það verður eitthvað kvartað hér þegar þær fara. Planið er að Ágúst fari í leikskólann á morgun, svona til að létta lífið fyrir Helgu, hún er búin að vera í fullri vinnu eftir að frúin braut fótinn. Auður byrjar svo í skólanum á miðvikudaginn og þá ætti allt að komast í einhverjar skorður. Bóndinn verður að yfirtaka bæði sundæfingar og reiðnámskeið, en hann fer nú létt með það.

Jæja ætli sé ekki kominn tími á að hoppa á klósettið. Það er ekkert smá sem maður finnur fyrir harðsperrum þegar maður getur bara notað einn fót og hendur til at komast áfram. VIð fengum lánaða göngugrind á sjúkrahúsinu.

En talandi um óheppni, þá eru fleiri óheppnir en frúin. Konan sem lá við hliðina á henni á sjúkrahúsinu var að fara yfir til nágrannans í rokinu sem gekk yfir fyrir jólin. Hún tókst á loft og datt á mjöðmina og braut hana. Þvílík óheppni.

En jæja bestu nýárskveðjur frá okkur hrakfallabálkunum


Gleðileg jól

Kæru bloggvinir

Gleðileg jól kæru bloggvinir. Hér er búið að vera nóg að gera. Helga og Kristín Júlía komu í vikunni og það hefur verið mikið fjör í kringum það. Ágúst hefur nú verið eitthvað smá abbó, en Auður og Kristín ná vel saman. Ágúst og Kristín geta líka alveg leikið saman, ef enginn er að blanda sér. Helga kom færandi hendi með skötu og hangikjöt. Kalkúnninn og hamborgarahryggurinn voru keypt í Þýskalandi.

Börnin áttu dálítið erfitt með að bíða eftir jólunumm. Jólasveinninn mildaðist eitthvað eftir því sem dagarnir liðu og það komu engar kartöflur í skóinn á síðasta sprettinum. Ágústi fannst nú eitthvað svindl að jólasveinninn kæmi ekki meira. Ekki skrýtið þegar það er búið að vera gjafir á hverjum degi í marga daga. Þegar nær dró kvöldi í gær, róaðist liðið eitthvað og þegar kom að því að taka upp pakkana, þá gekk þetta nú allt saman. Þau voru mjög sátt. Bæði með smáhlutina og stærri hluti. Það voru mjög þreytt börn sem fóru í rúmið í gær.

þau sváfu nokkuð lengi í morgun og fóru svo að leika sér með dótið sem var í jólapökkunum. Það er gaman að sjá hvað þau eldast og þroskast og geta noið hlutanna meira. Það er búið að fara út alla dagana og brenna orku. Það voru ótrúlega mörg börn úti í gær, svona miðað við venjulega, en í dag var ekki mikið um að vera. Það hefur verið fínt veður báða dagana. Það komu smá þrumur og eldingar í gærkvöldi.

Í kvöld var svo gætt sér á hangikjöti og laufabrauði. Ótrúlegt hvað maturinn hefur mikið að segja þegar halda á jól.

Það er ekkert búið að plana neitt sérstakt hina jóladagana, en ætli maður finni ekki eitthvað að gera.

Jólakveðjur til allra þarna úti

Gramgengið


Jóla hvað

Kæru bloggvinir

þá er víst bara ein vika til stefnu, svo það er eins gott að maður er að verða tilbúinn.

Það var brunað til Þýskalands í gær til að klippa gengið, svo var verslað eitthvað smávegis. Það er bara eftir að renna á annan stað í Þýskalandi til að kaupa hamborgarahrygginn og kalkúninn. Við lögðum ekki í að keyra það í gær. Bóndinn getur skotist í vikunni. VIð komum við í bakaleiðinni í Tönder til að reyna að komast í meiri jólafýling. Það heppnaðist nú ekki alveg. Þetta var mest peningaplokk. Þeir eru farnir að stíla inn á barnafjölskyldur, og að ná pening af þeim fyrir alls konar bull. Við létum okkur hafa það að fara í lestarferð með svona traktorslest og hittum jólasveininn. Það var alveg nístandi kalt í gær, þó að það væri ekki frost. Það er svona hráslagakuldi hérna núna.

Á föstudaginn stóð bóndinn í ströngu við að undirbúa vinakvöldverð. VIð elduðum hamborgarahrygg með brúnuðum kartöflum og öllu saman. Þetta heppnaðist víst bara mjög vel. Allavega voru nánast engir afgangar. Þetta var  mjög huggulegt. Auður fór heim með vinkonu sinni sem er alltaf með á þessum kvöldum, svo við sáum hana ekki frá því um morguninn þar til um kvöldið. Það virtist ekki há henni mikið.

Þau systkin eru ýmist perluvinir eða miklir óvinir. Þau skilja ekkert í því að við viljum ekki hlusta á þau tuða allan daginn og þræta. Þau upplifa þetta ekki á sama hátt og við.

Helga og Kristín Júlía koma á þriðjudaginn. Það er heilmikill spenningur fyrir því og svo auðvitað fyrir jólunum og öllu sem því fylgir. Aðallega hjá Auði, en hún æsir Ágúst auðvitað upp í vitleysunni. Hann stjórnst voða mikið af henni. Hún er annaðhvort gríðarlega umhyggjusöm, eða alveg öfugt. Maður veit aldrei hvaða Auður vaknar hérna á morgnana. Hún er nú samt oftar í góðu skapi.

Það er verið að spá rauðum jólum. Það er ekki venjan að það séu hvít jól, svo við sættum okkur bara við rauð jól. Það skptir ekki öllu máli. Börnin væru eflaust til í snjó, svo maður gæti farið að renna sér, en það verður ekki á allt kosið.

Það er verið að stefna á að slaka vel á í jólafríinu. Það kemur í ljós hvernig það á eftir að ganga. Bóndinn skellti sér í að baka fleiri piparkökur í dag. Hann vildi svona gamaldags, sem eru seigar. Þetta heppnaðist alveg ljómandi vel hjá honum.

Jæja ætli sé ekki best að reyna að fara að hafa stjórn á þessum börnum.

 

Kveðja

Gramgengið

 


Jólakökubakstur

Kæru bloggvinir

hér hefur að venju verið nóg að gera. Það hefur verið heldur hlýrra undanfarna daga, en í staðinn fyrir frost, þá hefur verið meiri rigning. það er voða drungalegt flesta daga. En við höfum ekki snjó og ófærð, svo við kvörtum ekkert mikið.

Hér er nóg að gera í jólaundirbúningi. Við renndum til Haderslev í gær að leysa nokkur jólamál. Það var ekkert mjög jólalegt, kannski gerist eitthvað meira þegar nær dregur jólum. Maður hefði búist við meiri jólalegheitum. Við ætlum að fara með liðið í klippingu til Þýskalands næstu helgi og þá er hægt að koma við í Tønder, þar er reynt að gera eitthvað meira úr þessu.

Í dag var ráðist í að baka smákökur. Nágrannabörnin komu við hérna í morgun og voru í marga tíma. Það gengur nú venjulega mjög vel. Ágúst var nú eitthvað ósáttur í dag. VIð höldum kannski að allt þetta húllumhæ í kringum að jólasveinninn kemur í nótt, sé eitthvað að stressa hann. Auður er farin að skilja að ef maður er óþekkur þá fær maður kartöflu í skóinn. Hún hefur af þessu nokkrar áhyggjur. Ágúst er ekki alveg að fatta það. Frúin fór með 4 börn að versla í morgun. Frekar mikil bjartsýni. Þau voru náttúrlega ansi lífleg í búðinni, en þetta hafðist allt saman.

Börnin fengu að skreyta herbergin sín í gær, það þótti þeim mjög spennandi. Það er búið að safna smá skrauti saman sem þau mega skreyta með inni hjá sér. Svo má hlusta á jólalög og lesa jólasögur. Það hlýtur að verða léttir að mega gera allt annað en eitthvað tengt jólunum, þegar þau eru búin.

AUður er orðin mjög spennt að fá systir sína og frænku í heimsókn eftir rúma viku. Spenningurinn er alveg að fara með hana. Það er gaman að sjá hversu gaman henni finnst allt þetta jólaamstur. Hún og pabbi hennar eru mikil jólabörn og Ágúst verður það örugglega líka. Kannski verður frúin það líka á endanum.

ANnars er allt í föstum skorðum fram að jólum. Auður fær frí þriðjudaginn fyrir jól, svo hún hefur nokkra daga til að hafa það huggulegt með systir sinni. Við Ágúst fáum frí á fimmtudaginn fyrir jól. Frúin ætlar ekki að vinna á þorláksmessu. Það er alltaf nóg sem er eftir að gera, þó maður sé að reyna að dreifa þessu yfir mánuðinn.

Jæja best að reyna að slaka aðeins á, áður en maður þarf að fara í bælið.

Kveðja

Gramgengið


jólaundirbúningur

kæru bloggvinir

 

Börnin gangast mikið upp í jólaundirbúningi. Auður varð gríðarlega ánægð þegar það var opnað fyrir jólamúsíkina 1. desember. Hún var búin að bíða spennt. Við hlustum mikið á jóladiska í bílnum. Við eigum ekki svo marga,en hún kann mörg lög utanað. Ágúst er músikalskur eins og við hin og er fljótur að læra texta. Hann er víst að brillera í leikskólanum með hæfileikum sínum.

Það er búið að vera nóg að gera í dag í félagslífinu. Ágúst fékk vin sinn frá leikskólanum í heimsókn í morgun. Við fórum út að leika, sem var nú ágætt, því þessi vinur hans er ansi fjörugur. Á meðan við vorum úti, bökuðu bóndinn og Auður Elín piparkökur. Það þurfti svo að skreyta þær. Börnin misstu nú fljótlega þolinmæðina, en skreyttu nokkrar kökur. Svo gerðum við líka haframjölskökur. Það eru svona hrákökur. Gríðarlega girnilegt, en börnunum finnst þetta mjög gott. Inn á milli þessa var svo soðin rabarbarasulta fyrir jólin. Það eru engin jól án sultu sko.

Frúin er búin að ná sér í kvefdrullu, þá fyrst í vetur.Hún er búin að missa röddina, það er gríðarlega heppilegt fyrir konu í hennar starfi.  Börnin hafa sloppið nokkur vel, bæði við kvef, lús og njálg, sem gengur reglulega yfir í skóla og leikskóla.

Eftir hádegi í dag þurfti Auður að viðra sig og Ágúst fór með. Við hittum aðra vinkonu Ágúst Ægis úti á leikvelli. Það er nú ekki þannig að það séu mörg börn úti að leika, svona venjulega, svo þetta var nokkuð óvanalegt.

Við náðum rétt svo heim, áður en nágrannabörnin komu. Þau hafa greinilega ekki hreyft sig mikið um helgina, því þau hlupu hér um allt, eins og algjörir vitleysingar. Þau stoppuðu sem betur fer ekki lengi. Það er mjög mismunandi hversu mikið þau koma hingað. Yngsti strákurinn kemur nokkuð oft, en getur oft ekki stoppað, því hann saknar mömmu sinnar svo mikið. Eða svo segir hann. Það er mjög gott að þau hafi einhvern að leika við, en það væri auðveldara ef þetta dreifðist betur.

Auði fer heilmikið fram í reiðmennskunni. Hún fer þó bara fetið ennþá, en eins og með allt annað, þá byrjar hún að brokka þegar henni hentar. Það er búið að lofa henni reiðstígvélum og nýjum reiðbuxum ef hún heldur áfram að vera svona dugleg. Það veitir ekki af að æfa jafnvægið. Hún hefur því miður erft jafnvægisleysi móðir sinnar, ásamt gríðarlegum almennum lipurleika.

Það er verið að sýna íslenska sakamálaþætti, bæði í sjónvarpinu hérna og á netflix. Við erum nýbúin með seríu sem heitir morð í Reykjavík og nú eru þeir að sýna ófærð. Það er voða sniðugt að sjá þætti á móðurmálinu.

Jæja ætli sé ekki best að fara að skríða í bælið

Kveðja frá Gramgenginu


Jólasveinaöngþveiti

Kæru bloggvinir

hér hefur aldeilis verið mikið um að vera. Veðrið hefur verið mjög gott, stilla og smá kuldi, en bara fínt miðað við árstíma. Það er búið að vera mjög milt veður hingað til, en allar spár segja að það verði mjög harður vetur. Vonandi að hann vari þá bara ekki lengi.

Á föstudaginn var farið með Ágúst í 4 ára skoðun og sprautu. Hann kláraði sig mjög vel af þessu og fékk toppeinkunn hjá lækninum og sælgæti að launum. Hann var búinn að tala mikið um að hann ætlaði ekkert að gráta þegar hann fengi sprautuna, en hann gat nú ekki haldið aftur af sér. Eftir hádegið var jólaföndur í skólanum hjá Auði. VIð dunduðum okkur þar í nokkra tíma. Svo var haldið beint á jólaball hjá leikskólanum. Það var að venju einstaklega óskipulagt, en það kom allavega jólasveinn og gaf börnunum sælgæti. Það er nú víst það sem þetta gengur út á.

Í gær fórum við svo og vöktum jólasveininn í Gram. Han sefur í kastalanum hérna. Þegar það var búið að vekja hann fengu börnin að keyra í slökkviliðsbílum niður á torg. Auður og Ágúst fengu að sitja í gömlum brunabíl sem verkstæðiskarlinn okkar á. Það var víst ekki mjög leiðilegt. Verst að Gumma langaði svo með, en varð að víkja fyrir börnunum. Þegar við komum heim, komu 3 af börnunum hér við hliðina og voru hér í nokkra tíma að leika. Það voru nokkuð þreytt börn sem fóru í bólið í gær.

Í dag var svo farið að vekja jólasveininn í bænum þar sem Auður er í skóla. Þar eru börnin dregin í kerru, ein með fjórhjóli fyrir og ein með gömlum traktor. Það er keyrt í kringum bæinn og endað á verkstæði. Við vöktum jólasveininn líka þar. Það var sá skemmtilegasti jólasveinn sem við höfum séð í Danmörku. Hann var með ýmis atriði til að skemmta börnunum og sýndi þessu heilmikinn áhuga. Flestir jólasveinar sem við höfum séð, hafa verið mjög hlutlausir og óspennandi.

Síðan var okkur boðið í kaffi hjá kunningjum okkar sem eiga börn á sama aldri og Auður og Ágúst. Það var mikið fjör. Svo var haldið heim og nú er svo eftir að slaka á. Það verður alltaf eftir.

Kveðja

Gramgengið


Afmælishöld

Kæru bloggvinir

þá er enn ein helgin að verða á enda runnin. Hér hefur ekki verið slegið við slöku frekar en fyrri daginn. Við ætluðum að halda upp á afmæli Ágúst Ægis í dag, en það hentaði betur að gera það í gær, svo það var henst í að þrífa og baka og gera klárt. Auður á mjög erfitt með að höndla svona spennu, svo hún var að fara yfir um. Ágúst tók þessu nú með meiri ró, en fannst þetta nú ekkert leiðilegt. Hann fékk margar góðar gjafir og á nokkrar eftir, því við gefum honum líka pakka á miðvikudaginn. Þetta var bara svona smá þjófstart. Næstu helgi er fyrsti sunnudagur i aðventu og þá verður að fara að skreyta og svoleiðis. Það eru nú einhverjir byrjaðir að skreyta smá, en ekkert að ráði. Það er búið að hengja skraut í ljósastaurana hérna og við erum með eina skreytingu nánast fyrir utan gluggann. Það liggur við að við getum teygt okkur í hana. Það er nú sem betur fer ekkert sterkt ljós af þessu, svo þetta er bara fallegt að hafa fyrir utan gluggann.

Annars er hér allt í föstum skorðum. Nú fer að byrja alls konar jólaumstang í skólanum og leikskólanum. Á föstudaginn er fyrst jólaföndur í skólanum hjá Auði og svo jólaball hjá Ágústi. Það verður nóg að gera þann daginn.

Á föstudaginn var vinakvöldverður og það var huggulegt eins og venjulega. það er mikið sama fólkið sem kemur, svo þetta er allt saman mjög notalegt. Auði finnst þetta svo skemmtilegt að hún á erfitt með að bíða eftir að við förum af stað. Það eru alltaf einhverjir krakkar sem koma og hún þekkir og hún vill endilega leika við þá.

Við ákváðum að keyra út að sjó í dag og kíkja á ströndina. Þegar þangað var komið var svoleiðis hífandi rok og hálf kalt. En börnin hörkuðu þetta af sér og týndu tvo fulla poka af skeljum og steinum. Þetta varð hin besta skemmtun. Það var varla stætt fyrir þau á köflum. Maður kemst nú sjaldan í svona rok hérna, svo þetta var mjög góð æfing.

Í dag var ráðist í að kenna henni að spila á venjuleg spil. Maður hefur engar ömmur og afa til verksins, svo við verðum að ráðast í verkefnið sjálf. Það gekk nú bara nokkuð vel, við höldum stífum æfingum áfram. Það er nauðsynlegt að kunna að spila á spil, á þessum síðustu og verstu tímum.

Þessu mánuður byrjaði með frosti og fallegu veðri, en svo breyttist það í rigningu og rok og smá hita. Það þýðir bara að það er dumbungur hér alla daga og það verður ekki almennilega bjart allan daginn. Maður dreif sig í að henda vetrardekkjum undir þegar fór að frysta, en það hefur ekki verið mikil not fyrir það síðan. Það á nú eflaust eftir að breytast aftur.

Bóndinn er að byrja í vinnuþjálfun á þriðjudaginn. Hann verður bara nokkra tíma til að byrja með, svona til að komast í gang, en við vonum að það aukist svo smám saman. Þeir vita nú ekki alveg ennþá, hvað þeir ætla að nota hann í, en það kemur í ljós. Það verður allavega gott fyrir hann að komast út á meðal fólks svona nokkrum sinnum í viku.

Jæja ætli sé ekki komið að því að reyna að slaka eitthvað á.

Gramgengið


Músagangur framhald

Kæru bloggvinir

hér hefur verið frekar kalt en mjög fallegt veður undanfarið. Það er frost en stillt veður og lítið rok. Það er nú sjaldgæft að það séu svona stillur hérna, svo við njótum þess bara. Þeir eru eitthvað að tala um að það hlýni aftur í næstu viku. Maður vonar bara að það verði ekki eitthvað hringl á þessu, að þetta haldi þá bara áfram svona

Færslan síðast hét víst músagangur, en svo gleymdi frúin að skrifa um það. Það er annþá músagangur í ruslaskápnum. Bómdinn er búinn að setja mismunandi mat í gildrurnar, og þær virðast bara hlæja að honum. Ýta gildrunum eitthvað til og narta í matinn, án þess að gildran smelli. Kannski eru þær fluttar eitthvað annað. Það er víst nóg af húsum að búa í. Húseigandinn er allavega ekki enn búinn að koma og kíkja á málið. Maður er bara feginn að þetta eru ekki rottur. Það er verra en músagreyin. Svo lengi sem þær koma ekki inn og eru bara í ruslaskápnum, þá er þetta í lagi. VIð gætum líka fengið lánaðan kött og sett hann í smá leit. Við sjáum hvað setur.

Í gær fékk Ágúst heimsókn frá vinkonu sinni af leikskólanum og Auður fór í annan bæ hérna rétt hjá og var að gera leikfimiæfingar allan daginn. Hún var mjög þreytt í fótunum í dag, en fannst mjög gaman, svo kannski maður leyfi henni að prófa. Hún hefur suðað um þeð lengi, en við höfum verið eitthvað treg við að leyfa henni það. Hún er ótrúlega lipur eins og móðir sín og á örugglega eftir að slasa sig á þessu. Henni fer mikið fram í að lesa og skrifa og líka á reiðnámskeiðinu. Hún er nú samt ennþá bara að fara fetið og hesturinn sem hún er á, nennir heldur ekki meiru, svo það er fínt. Hún heldur vonandi áfram að fá meiri og meiri kjark og kemst þá kannski á brokk einhvern daginn.AUður hefur alltaf farið sínar leiðir með allt og maður verður bara að bíða og sjá. VIð fórum í foreldraviðtal í skólanum hennar í vikunni. Hún er mjög duglég í skólanum. Situr að mestu kyrr og hlustar. Þegar hún kemur heim, getur hún svo hvorugt, en það er sennilega algengt. Kennararnir voru allavega bara mjög ánægðir með hana og auðvitað eru foreldrarnir þá líka ánægðir.

Ágúst hefur verið á einhverju voðalegu mótþróaskeiði undanfarið. En þó hann verði mjög pirraður er hann nú alltaf fljótur að verða góður aftur. Við ætlum að halda upp á afmælið hans næstu helgi. Það koma nú ekki margir, en við reynum að halda einhverja smá veislu allavega og svo fer hann með eitthvað góðgæti í leikskólann. Hann er voða mikill bóndi í sér, svo hann vill auðvitað taka köku með sér í leikskólann, ekkert sælgæti. Hann vill líka frekar borða kjöt og kartöflur, en grænmeti. Auður er alveg öfug.

Í dag er svo búið að fara og klappa geitum. Þær voru svo ágengar að Ágúst var næstum genginn niður. Það hoppaði ein geitin upp á hann og klóraði hann fyrir neðan augað. Þær geta verið mjög ágengar.

En jæja ætli sé ekki best að fara að koma börnunum í bað og í háttinn.

Kveðja fra Gramgenginu 


Músagangur

Kæru bloggvinir

það er farið að kólna heldur og hráslagalegt veður. Það virðist vera alveg sama, hversu lengi maður býr í þessu landi, alltaf finnst manni jafn skítkalt.

Það hefur verið nóg að gera hér að vanda. Í gær var ráðist í að taka til í herbergjum barnanna. Það hefur ekki unnist tími til þess eftir við fluttum. Öllu var bara pakkað niður og enginn tími til að sortera. Það var unnið hörðum höndum og þvílíkt og annað eins drasl. Auður geymir voða marga hluti, bréfpappír og hitt og þetta, sem henni finnst mikil verðmæti í. Hún hefur aldrei leikið sér með dótið sitt, og gerir ekki enn. Það var því ákveðið að losa hana við helling af svoleiðis. Eitthvað fór upp á loft líka, sem við tímdum ekki að losa okkur við. Ágúst hefur aldrei átt svo mikið dót, svo það var ekki eins mikið mál að taka hans herbergi í gegn. En eitthvað var nú tæmt. Það var enginn smá munur að kíkja inn í herbergin eftir þessa aðgerð. Spurning, hversu lengi þetta fái að vera svona.Örugglega ekki mjög lengi.

Í gær var rennt eldsnemma til Þýskalands og drengirnir voru klipptir. Við vorum mætt 10 mín eftir opnun og það var klukkutíma bið. En þetta gekk nú allt saman og þeir feðgar voru gríðarlega fínir og ánægðir. Svo var verslað inn í leiðinni. Það var allt troðið af fólki, enda mikið að gera þegar fólk er búið að fá útborgað. 

Í dag var svo farið heljarinnar göngutúr og farið bæði og kíkt á hesta og farið á bak og svo í búðina og á bakaleiðinni fengum við kaffi hjá Evu gömlu. Hún eldist mjög hratt þessa dagana og þolir ekki eins mikið og hún hefur gert. Svo var farið í kaffihlaðborð hjá Ástu og Óla. Þar er ekki undir 17 sortum. Maður rétt náði að velta hér heim eftir þetta allt saman. Börnin voru greinilega ekki búin að fá nóga hreyfingu og þurftu að fara út að hjóla líka. Þau kvörtuðu nú mikið í morgun yfir hversu hræðilega þreytt þau voru í fótunum. Þau eru nú frekar þreytt núna og eiga örugglega eftir að detta út eftir smástund.

Frúin hefur sofið frekar órólega eftir tímabreytinguna síðustu helgi. Börnin hafa ekki fundið svo mikið fyrir því. Það er verra á vorin. Nú er svo bara bjartara á morgnana og meira myrkur seinnipartinn.

Nú fer að styttast í að það byrjí jólaskemmtanir í bæði leikskóla og skóla. Það verður nóg að gera í því.

Jæja best að fara að reyna að slaka á

Gramgengið


Hrekkjavaka

Kæru bloggvinir

Héðan er allt gott að frétta. Haustið hefur verið milt að undanförnu og þetta frost sem var búið að lofa hefur ekkert komið. Við kvörtum nú ekkert yfir því.

Hér á heimilinu er allt á fullu í undirbúningi fyrir hrekkjavöku. VIð ætlum að hitta nokkra kunningja og vini og borða saman og leyfa krökkunum að fara og sníkja nammi. Það er víst aðalmálið. Þau hafa nánast ekki getað beðið af spenningi. Auður er sérstaklega tæp á tauginni, enda hefur hún meiri skilning á því hvað er á ferðinni.

Við rifjuðum upp gamlar minningar frá Tiset á föstudaginn. Það kom óboðinn gestur í ruslaskápinn og gæddi sér á innihaldinu í ruslapokanum. Maður hélt nú að maður yrði óhultur hér á 1 hæð, en nei greinilega ekki og bóndinn búinn að pakka niður músagildrunni. Húseigandinn lofaði að kíkja eitthvað á þetta, en það er nú svo sem ekki til að vita, hvort það gerist eitthvað. Það er nú ekkert sérstaklega huggulegt að vita af svona kvikindum í húsinu, en þetta er svo algengt hérna, að þetta þykir ekkert tiltökumál.

Í gær var ráðist í að baka hrollvekjandi kökur og skreyta húsið fyrir hrekkjavökuna. Bóndinn er mjög hrifinn af þessu, svo honum finnst þetta voða gaman. Þetta er kannski bara upphitun fyrir jólaskreytingernar. Danir taka þessa nú eitthvað meira með ró. Þeir eru ekki mjög hrifnir af svona amerískum siðum.

Í nótt færðum við klukkuna, það er nú alltaf jafn pirrandi. AUður vaknaði klukkan 6 í morgun og gat alls ekki sofnað aftur. Ekki á það bætandi að hún er líka að deyja úr spenningi yfir deginum í dag. Maður verður nokkra daga að komast í rétta rútínu aftur með svefninn.

Annars er víst lítið annað héðan að frétta. Held við séum ekkert að tala um kosningarnar. Bóndinn var búin að plana að vaka í nótt yfir úrslitunum, en hann kom víst upp í um 2 leytið og var búinn að gefast upp. Ætli við komumst ekki í heimsfréttirnar fyrir þetta, eins og fyrir að fegurðardrottningin er of þybbin. Maður er nú ekki alveg að ná upp í nef sér yfir þessu bulli.

Kveðja úr Gram


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband