Hverdagsleikinn snýr aftur

Kæru bloggvinir

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Þá er hverdagsleikinn snúinn aftur hér í Tiset. Ferðin til Danmerkur gekk fínt. Auður Elín varð lasin kvöldið áður en við flugum og svaf alla leiðina í fluginu. Hún var með háan hita þegar við komum heim. Frúin fór með hana til læknis á fimmtudaginn og hún er komin með lungnabólgu. Hún fékk sýklalyf og hefur verið hitalaus í gær og í dag. Hún hóstar ennþá svolítið. Það fyrsta sem hún sagði þegar við komum til Tiset var nafnið á dagmömmunni. Hún verður örugglega ánægð að sjá hana á morgun. Það er komin ný 2 ára stelpa til hennar, svo þá hefur Auður einhvern að leika við. Það verður nú örugglega einhver smá afbrýðisemi til að byrja með. Auði finnst henni nú eiga heilmikið í dagmömmunni.

Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt þegar maður er í heimsókn á Íslandi. Manni finnst maður nýkominn þegar það er kominn tími til að fara til baka. En þetta var mjög fínt og æðislegt að fá að vera með í skírninni hjá litla barnabarninu henni Krístínu Júlíu. Hún hefur verið voða óvær undanfarið, en það er víst eitthvað að lagast. Auður var pínu afbrýðisöm út í hana, en fannst hún mjög spennandi.

Það hefur verið mjög milt veður síðan við komum hingað í Danaveldi. Það var víst mjög fínt yfir jólin líka. Það kom pínu frost í síðustu viku, en svo skipti aftur yfir í rigningu og grátt veður.

Á föstudaginn var okkur boðið í mat hjá Íslendingunum sem við kynntumst fyrir jólin. Það var rosa fínt.

Við höfum annars bara verið hálfslöpp og þreytt eftir Íslandsferðina. VIð höfum sofið lengi fram eftir um helgina. Það hefur nú bara ekki skeð í mörg ár að við höfum öll sofið frameftir. Svo við hljótum að hafa verið þurfandi.

Það voru teknar slatti af myndum heima á Íslandi, en flestar á myndavélina hennar Helgu, svo þær koma ekki inn strax. Það verður að reyna að vinna í því.

Við drifum jólaskrautið niður í kassa í gær. Það er nú alltaf pínu tómlegt þegar maður er búinn að taka það niður, en að sama skapi er maður orðin pínu þreyttur á að horfa á það.

Jæja ætli þetta verði ekki látið duga í bili

Kveðja

Ragga, Gummi og Auður Elín


Jólaslydda

Kæru bloggvinir

Veðrið sýnir sig frá öllum hliðum þessa dagana. Núna er sól og mígandi rigning. Annars hefur þetta verið svona bland í poka. Það var smá slydda í morgun, en enginn alvöru snjór. Danirnir væla mikið yfir því að hafa ekki fengið snjó. Svo er alveg klárt að ef það kæmi snjór, þá yrði allt vitlaust.

Það hefur annars verið ansi rólegt hérna síðustu daga. Í morgun renndum við í bæ, ca. 70 km héðan, af því bóndinn þurfti að fá tímabundna framlengingu á vegabréfið, svo hann komist nú heim. Sú sem er sendiherra þar er að hætta, svo við þurfum að finna okkur nýjan. Hún virtist nú vera eitthvað þreytt á Íslendingum. Fannst þeir greinilega vera með allt á síðustu stundu. En miðað við húsið sem hún bjó í, þá fær hún nú sennilega vel borgað. Hún bjó í einhverju rosa flottri villu. Á bakaleiðinni var stoppað í búð, svo bóndinn gæti keypt meira jólaskraut. Það er komið á útsölu, svo það er um að gera að kaupa það núna á hálfvirði. Hann er víst orðinn nokkuð sáttur við hvernig þetta lítur út núna.

Í gær komu Íslendingarnir í heimsókn. Það var mjög huggulegt. Það vill svo vel til að maðurinn í fjölskyldunni heldur með sama fótboltaliði og bóndinn, svo loksins hefur hann einhvern að glápa á boltann með.

Annars bíðum við bara spennt eftir að það komi fréttir af fæðingu barnabarnsins heima á Íslandi. Helga Rut er inn á Landspítala núna og þeir ætluðu að fara að setja hana af stað, af því það er búið að vera eitthvað blóðþrýstingsvesen á henni síðustu daga. Hún er auðvitað stressuð yfir þessu, en er nú sennilega farin að hlakka til að komast í gegnum þetta.

Okkur er farið að hlakka voða mikið til að koma heim, við erum að pæla í að fá kunningja okkar til að keyra okkur á flugvöllinn og láta bílinn svo standa hérna heima. En það kemur allt í ljós.

Auður Elín er blaðrandi alla daga. Hún fékk að hitta jólasvein með dagmömmunni í vikunni og var alveg heilluð. Hélt í höndina á honum og brosti allan hringinn. Hún er orðin rosa dugleg að fara á koppinn og biður um það sjálf. Hún gleymir sér nú stundum, en er farin að prófa að vera aðeins bleiulaus.

Okkur til mikillar ánægju er þvottavélin okkar alveg að syngja sitt síðasta. Það eru engin smá læti þegar hún er að vinda. Maður bíður eftir hún springi. Stundum eru engin læti og stundum alveg rosaleg. Það verður víst að fara í það eftir áramót að kíkja á nýja.

Bóndinn henti inn nokkrum myndum í vikunni. Svo þið getið séð nýjustu útgáfuna af barninu, áður en við komum heim.

Jólakveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Messuferð

Kæru bloggvinir

Hér er unnið að því að komast í jólaskapið, en eitthvað lætur það nú á sér standa. Það er ekkert jólalegt hér. Reyndar mjög kalt, en engin snjór. Það hefur verið mjög hvasst hérna í síðustu viku og verið smá slydda. Annars er bara svona vatnskuldi, sem nístir gegnum merg og bein. Sem betur fer er komin almennilegur hiti á hérna inni, svo manni er ekki kalt. Frúin er þó í smá vandræðum í vinnunni, þar er verið að spara hitann, svo hún er alltaf hálfloppin þar.

Annars hefur verið nóg að gera í félagsmálunum þessa helgina. Það var jólahlaðborð á föstudaginn, með íþróttafélaginu. Það var pantaður matur og svo sátum við bara saman og borðuðum. Það var mjög fínt. VIð gátum ekki fengið pössun fyrir Auði, svo hún var bara með. Henni fannst þetta mjög spennandi, en var nú orðin ansi þreytt. Við fórum heim um 21:00 leytið og hún var ekki lengi að sofna. Það var nú svolítið fyndið að þegar við vorum í búðinni á föstudaginn, þá vorum við bara að spjalla, eins og venjulega, og svo heyrðum við allt í einu einhvern svara okkur á íslensku. Þá var íslenskur maður í búðinni líka. Við höfum aldrei hitt hann, en hann býr í Gram og hefur gert í 7 mánuði. Hann spjallaði voða mikið og bauð okkur að koma í kaffi einhvern tíma. Konan hans er auðvitað af Suðurnesjunum, týpískt að það hittist svoleiðis á.

Í morgun var svo ákveðið að kíkja í fjölskyldumessu inn í Gram. VIð erum nú ekki iðin við kirkjusókn, en það er yfirleitt smá stemning í að fara í kirkju á aðventunni. Þetta var nú alveg ágætt. En alveg ótrúlega formlegt. Þó þetta ætti að vera fjölskyldumessa. Það er reyndar alltaf að koma okkur á óvart, hvað allt er formlegt hérna. Auður skemmti sér alveg rosalega vel og finnst alveg æðislegt að syngja. Hún er orðin alveg æst í að láta syngja fyrir sig á kvöldin þegar hún að fara að sofa, þá vill hún að maður syngji fyrir sig. VIð erum að pæla í að reyna að finna einhvern sunnudagaskóla fyrir hana eftir áramót.

Á eftir er svo stefnt á að kíkja á íslendinginn sem við hittum á föstudaginn og fjölskylduna hans. Það verður örugglega eitthvað skrautlegt, eins og alltaf þegar Íslendingar eru annars vegar.

Frúin er að fara á ráðstefnu í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn. Það þýðir að hún fer með lestinni á þriðjudaginn og kemur aftur heim á miðvikudaginn. Það verður nú ansi undarlegt að vera í burtu frá Auði svona yfir nótt. Bóndinn hefur miklar áhyggjur af því að hann á að sofa einn. Frúin gistir hjá vinnufélaga sínum, sem býr í Kaupmannahöfn. Það er nú sennilega smá munur á að sofa í rólegheitunum í Tiset og í umferðinni í Kaupmannahöfn. En ætli þetta bjargist nú ekki allt saman.

Það hefur ekkert heyrst í músinni á loftinu í nokkra daga, svo við vonum hún sé farin á vit feðra sinna.

Til að reyna að bæta jólastemninguna hérna heima er svo búið að setja upp aðeins meira skraut og fleiri seríur, það hjálpar allt til. Svo er búið að pakka inn öllum jólagjöfunum og kortin bíða eftir að komast í póst. Það verður ekki mikið jólastress hér.

Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín


Jólasnjórinn kominn

Kæru bloggvinir

Þá geta jólin komið. Jólasnjórinn kom í morgun. Það var nú reyndar bara smá slydda og þetta er allt farið núna. En þeir eru að spá þessu eitthvað næstu daga. Ekkert allt of spennandi.

VIð fórum að taka á móti jólasveininum síðasta sunnudag. Það var jafn kjánalegt og venjulega. Fólk er svo formlegt hérna, að þegar maður er búin að ræða um veðrið, þá er ekki mikið annað eftir að ræða. En Auði fannst jólasveinninn mjög spennandi. Hún fékk poka með bæði sælgæti og ávöxtum í. Það var auðvitað mjög spennandi, en hún var búin að gleyma honum þegar hún kom heim aftur. Hún fór svo með dagmömmunni og öðrum dagmömmum og börnum og skreytti jólatré í vélasölunni hérna á horninu. Þar hitti hún annan jólasvein. Hún var ekkert smeyk við hann, leiddi hann og fékk að prófa traktor með honum. Hún og húsbóndinn hafa annars verið ansi kvefuð undanfarið. Það hefur verið mjög breytilegt hitastig undanfarið og sennilega er það ástæðan fyrir kvefinu. Það eru mjög margir kvefaðir í kringum okkur.

Það var jólahlaðborð í vinnunni hjá frúnni á föstudaginn. Það var pantaður matur og svo var sungið og leikið sér. Það var fínt. Það var skrýtið að koma svona seint heim á föstudegi. Venjulega er maður komin heim um 3 leytið, en það dróst til klukkan 6 síðasta föstudag. Í morgun komu svo kunningjar okkar í morgunmat. Bóndinn keyrir fósturbarn þeirra í skóla. Þau eru með þrjú börn í fóstri og þau komu öll með. Það er ekki hægt að fá hvern sem er til at passa, svo þau eru nú víst oft með. Auði fannst þetta óskaplega skemmtilegt, sérstaklega af því ein stelpan var dugleg að leika við hana. Auður er almennt mjög heilluð af svona stórum börnum og horfir á þau með aðdáun.

Það hefur gengið á með rosalegum rigningarskúrum í nótt og í morgun. Það voru þrumur og eldingar í nótt og það vaknaði Auður við. Það buldi á öllu.

Við héldum að við værum laus við mýsnar á loftinu, en það var nú bara í stutta stund. Það er allt komið á fullt þarna uppi aftur. Það á að reyna að eitra fyrir þeim aftur og sjá hvort það hjálpar eitthvað.

Við fórum í gær að kaupa eitthvað smá jólapunt í gluggana. Það hefur aldrei verið keypt mikið af svoleiðis, svo nú var ákveðið að kaupa eitthvað til að setja í nýju gluggana. Það er nú pínu erfitt að skreyta þá, af því það er kross í miðjunni. En það reddast nú.

Annars er jólaundirbúningurinn vel á veg kominn. Flestar jólagjafir eru komnar í hús, og búið að kaupa jólakortin. Bara eftir að skrifa á þau. Svo hér verður nú ekki mikið jólastress. Frúin komst að því fyrir tilviljun að passinn hans Gumma er útrunninn. Við þurfum því að fara í bæ sem er 70 km héðan og fá einhvern bráðabirgðapassa og svo verður hann að endurnýja hann heima.

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili

Kveðja

GUmmi, Ragga og Auður Elín

 

 


Jólasveinninn kemur til Tiset

Kæru bloggvinir

það er nú akkúrat ekkert jólalegt hérna núna, þó það sé fyrsti sunnudagur í aðventu. Það er hífandi rok og það koma hellidembur inn á milli. Við fórum út að labba í morgun og það lá við, við blésum bara í burtu. Auði fannst þetta nú heilmikið fjör, var ekkert að stressa sig á þessu. En jólasveinninn kemur til Tiset í dag, það er spurning, hvort hann treysti sér í þessu veðri. En hann hlýtur allavega að geta komið inn í hlöðuna, þar sem þetta er venjulega haldið. Það verður spennandi að sjá hvernig Auður bregst við að hitta hann. Hún er voða upptekin af jólasveinum þessa dagana og finnst mjög spennandi að skoða myndir af jólasveinum og syngja jólalög. En það er nú ekki þar með sagt að henni líki við hann, svona í nærmynd.

Það er annars búið að vera voða mikið að gera í félagslífinu hér í Tiset þessa helgina. Á föstudaginn var okkur boðið í reisugilli hér í bænum. Kona sem er með Gumma í íþróttafélaginu, náði sér í nýjan mann. En hún á þrjá unglinga, og það var ekki pláss fyrir þau í húsinu hjá nýja manninum, svo þau ákváðu að bæta við húsið. Við erum nú alltaf pínu útundan í svona samkomum. Held við séum búin að komast að því að vandamálið er sennilega að við erum ekki eins miklar kjaftakellingar og hinir hér í bænum. Það vita allir allt um alla, en við fréttum aldrei neitt. En við höfum nú ekki hugsað okkur að gera neitt í því, það er að segja að verða meiri kjaftakerlingar.

Í gærkvöldi var svo jólahlaðborð í vinnunni hjá bóndanum. Það var setið og borðað, nánast stanslaust frá kl. 19:00-22:00. Bóndinn hafði lofað að vera þar til þetta væri búið og keyra fólk heim. En þurfti svo ekki að gera það, sem betur fer. Annars hefði hann komið heim seint í nótt. Við vorum komin heim fyrir miðnætti. Við sátum hjá fólki sem talar nánast ekki, svo þetta var nú ekkert ofurspennandi, en fínn matur. Það er alveg spurning, hvort við nennum að vera með næsta ár. Við gætum alveg hugsað okkur að fara bara tvö út að borða, á einhvern fínan stað. En við sjáum til. Við fengum stelpu til að passa, sem er vön að passa, og Auður hagaði sér víst bara nokkuð vel. Hún svaf allavega til kl. 7:30 í morgun. Hún vaknar venjulega kl. 6:00.

Við prófuðum í fyrsta skipti að kaupa kálfakjöt, beint af bóndanum. Við fengum tæp 40 kg, gróft niðursagað. Gummi stóð svo sveittur við það á fimmtudaginn að deila þessu niður. Við höfum aldrei í okkar tíð hér í Danmörku átt svona fínt kjöt. VIð erum búin að prófa hakkið og það var mjög fínt. Það eru allavega mun meiri gæði í svona kjöti, en því sem maður kaupir út í búð. Þar er oft verið að svindla og selja gamalt kjöt og blanda einhverju rusli í það.

Auður Elín er orðin voða dugleg að dunda sér, við að púsla og teikna. Hún föndrar voða mikið hjá nýju dagmömmunni og hún er örugglega búin að föndra meira hjá henni, síðan í byrjun október, en hún föndraði allan tímann sem hún var hjá hinni dagmömmunni.

kveðja úr sveitinni

Gummi, Ragga og Auður Elín


Músagangur

Kæru bloggvinir

Þá er upp runninn sunnudagur, það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram. Ekki nema rúmur mánuður fram að jólum. Það hefur verið ansi kalt hér síðustu viku, en núna um helgina, hefur verið mjög fallegt veður, þó það hafi verið pínu kalt. Það hefur verið heilmikil þoka, en það er mjög algengt á þessum árstíma. Þó manni finnist þokan leiðileg, vill maður hana nú frekar en snjókomu og hálku.

Bóndinn fór í músaleiðangur í gær. Hann ætlaði að rífa upp gólfið upp á lofti, en það var nú hægara sagt en gert, svo það var ákveðið að hugsa málið. Hann fann svo aðra leið til að koma eitrinu undir gólfið uppi, svo er vonandi að maður nái að farga þeim með þessu, áður en þær fara að fjölga sér þarna uppi. Þegar við vorum að rífa veggi og gólf í sundur í gær, sáum við að það var meiri einangrun en við reiknuðum með, í þakinu. En það þarf að einangra þetta allt mikið betur og loka öllum götum.

Í gær var okkur boðið í kaffi hjá vinnufélaga Gumma og manninum sem hjálpaði okkur að setja gluggana í. Þau búa úti í sveit. Þau eru með 2 hunda, fullt af köttum og nokkra hesta. Auði fannst þetta nú ekki leiðilegt. Annar hundurinn var þó ansi uppáþrengjandi, og henni þótti hann ekki spennandi til að byrja með, en svo kom þetta nú allt.

Í dag var svo drifið í að taka jólamyndina af ungfrúnni. Það á að skella í nokkur jólakort og kannski eitthvað meira. Hún er nú ekki á besta aldrinum til að láta taka af sér myndir. En það tókst að ná af henni þokkalegum myndum. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út. Eftir að það var búið að festa prinsessuna á filmu fórum við á svona náttúruleiksvæði inn í Gram. Þar eru leiktækin öll úr tré, ekki úr plasti eins og á flestum öðrum stöðum. Henni fannst þetta mjög skemmtilegt.

Auður er búin að vera að prófa að sofa með sérstaka sæng. Hún svaf alla nóttina fyrstu næturnar, en fór svo að vakna rétt eftir miðnætti og sparka sænginni af sér. En hún er líka orðin svolítið kvefuð, svo það hefur kannski angrað hana eitthvað. SJúkraþjálfinn kemur aftur á miðvikudaginn, og þá finnum við kannski út, hvort við eigum að gera eitthvað meira, til að hún slaki betur á. Hún er samt orðin mikið betri en hún var. Það er ekki sömu slagsmál við hana á kvöldin þegar hún á að sofa.

Bóndinn reynir kannski að muna að henda inn myndum í vikunni.

Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín


Kuldaboli

Kæru bloggvinir

héðan er allt gott að frétta. Hér er mjög fallegt veður, en svolítið kalt. Við skelltum okkur í göngutúr í morgun og gáfum hestunum brauð. Auður er alveg yfir sig hrifin af hestum og þótti þetta mjög skemmtilegt. Það voru líka töluvert margir kettir á leið okkar og ekki spillti það fyrir.

Annars er hér allt í svipuðu horfi. Auður er alveg yfir sig ánægð hjá nýju dagmömmunni. Hún hendist til hennar á morgnana og vill ekki sjá að koma heim seinnipartinn. Hún knúsar bæði dagmömmuna og litla strákinn sem er hjá henni. Honum finnst nú víst nóg um stundum. Hún hefur verið dálítið erfið að sofa undanfarið. En við erum búin að fá svona sérstaka sæng, sem á að hjálpa henni að sofa. Hún svaf med hana í nótt og svaf alla nóttina. Hvort það er eitthvað tilfallandi veit ég ekki, en vona að þetta hjálpi.

Hún er að æfa sig í að púsla og kubba og finnst það mjög sniðugt. Dagmamman er svo víst að æfa hana i að teikna. Þær eru nú líka alltaf að æfa sig að tala og henni fer mjög mikið fram. Hún er farin að setja tvö og tvö orð saman.

Við komumst að því í vikunni að það eru komnir óboðnir gestir á loftið. Það eru komnar mýs milli loftsins og gólfsins. Maður heyrir þær hlaupa eftir loftinu þegar maður liggur í svefnherberginu. Það er nú ekki eins og mann langi eitthvað að hafa svona kvikindi, en það er erfitt að losna við þær. Þegar það var verið að skipta um glugga, fundu karlarnir hauskúpur af músum í einangruninni. Við verðum að reyna að finna út hvar þær fara inn og kannski henda einhverju eitri fyrir þær. Þeim finnst sennilega svona fínt að búa hérna núna, af því það er orðið svo heitt hérna inni. Við höfum ekki orðið vör við mýs síðan fyrsta árið sem við bjuggum hérna.

Í kvöld koma svo dagmamman og maðurinn hennar í mat. Hann hjálpaði svo mikið til að leggja veröndina í sumar að við vorum búin að lofa honum mat í staðinn. En það hefur bara ekki komist í verk að bjóða þeim fyrr en núna.

Jæja það er víst lítið meira að frétta héðan í billi

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Póstkassaævintýri

Kæru bloggvinir

hér er alltaf nóg að gera, það vinnst allavega sjaldan tími til að slappa af. Það hefur verið mjög gott veður um helgina, þó það hafi verið pínu kalt.

Það var ákveðið að ráðast í að færa póstkassann, áður en það kæmi frost í jörð. Það koma nýjar reglur hér um áramótin, svo maður þarf að flytja póstkassann út að gangstétt. Þetta tók nú hellings tíma, því þetta þurfti allt að passa bæði á hæð og lengd frá gangstétt. Það er vonandi að það verði eitthvað ódýrara að senda bréf þegar það er búið að breyta þessu. Það hlýtur allavega að vera fljótlegra að dreifa póstinum núna.

Í morgun fórum við á það sem við héldum að væri jólamarkaður í kastala hér inn í Gram. Þetta var svo alls ekki jólamarkaður, en einhver sölusýning. Það var ótrúlega mikið af fólki þarna. Það var maður í jólasveinabúning. Auði leist nú ekkert á hann. Hápunktur ferðarinnar var svo að frúin og ungfrúin fóru stuttan túr í hestvagni. Auður fór að gráta þegar við þurftum að fara úr honum. Svo kíktum við í hesthúsið og þar voru, auk hesta, líka margir kettir. Henni fannst það mjög áhugavert.
Hún er orðin rosa dugleg að púsla og kubba. Dagmamman er alltaf að æfa hana. Hún er líka orðin betri að segja fleiri orð í setningu. Dagmamman er víst líka að æfa hana í því. Við hittum gömlu dagmömmuna á markaðnum í morgun. Hún var alveg jafn upprifin og venjulega. Auður hafði engan sérstakan áhuga á að tala við hana.

Í dag var svo ráðist í að pæla upp matjurtagarðinn. Það á að færa jarðaberin í vor, því þau breiða úr sér út um allt. Annars á bara að vera með eitthvað svipað og síðasta ár. Kannski fleiri kartöflur. VIð sjáum til. Það er allavega gott að vera búin að stinga upp beðið, þá þarf bara að henda skít í þetta í vor og pæla þetta aftur.

Frúin er búin að vera í voða veseni alla vikuna. Bíllinn er búin að vera á verkstæði og hún hefur þurft að fá lánaða bíla á verkstæðinu. Það hefur svo sem verið fínt, nema á þriðjudaginn. Þá fékk hún lánaðan bíl til að fara á fund. EKki vildi nú betur til en það að hún varð bensínlaus út í bæ og varð að hringja á verkstæðið og fá þá til að koma með bensín. Henni datt nú ekki í hug að maður yrði sendur af stað bensínlaus. En þetta reddaðist nú allt og bíllinn okkar komst í gegnum skoðun á föstudag. Nú vonum við að bíllinn verði til friðs í einhvern tíma. Þetta er nú ekki alveg ókeypis.

Í dag brugðum við okkur í smá göngutúr. Við lentum í miklum svaðilförum. Yfir tún og ruðninga og inn á hlað hjá fólki. Við gengum framhjá húsi sem er nýbúið að gera upp. Eigandinn stóð fyrir utan og vildi endilega sýna okkur húsið. Þetta er pínulítið hús og það er mjög lágt til lofts. En mjög huggulegt. Hann ætlar víst að reyna að selja það.

Jæja ætli þetta verði ekki látið nægja að sinni

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Haustveður

Kæru bloggvinir

þá er víst óhætt að segja að haustið sé komið. Laufblöðin eru farin að fljúga út um allt og það er orðið ansi hryssingslegt veður. Við vonum nú samt að snjórinn láti bíða eftir sér. Það er búið að pakka saman sólhúsgögnunum, það er nú alltaf pínu leiðilegt, þegar maður gerir það.

Annars er nú allt búið að vera með kyrrum kjörum hér. Það er enn verið að leggja síðustu hönd á gluggana, nú vantar bara að klára þá innandyra og setja fúga í að utan. Það þarf víst að fá fagmann í það, svo það verði gert almennilega. Það er alveg ótrúlegur munur á húsinu, bæði að innan og utan.

Í gær var verið að vígja göngustíg hér í nágrenninu. Við skelltum okkur, þó svo að þetta væri stígur sem ekki er gerður fyrir barnakerrur. Auður Elín fékk að sitja í hjá strák sem er hjá sömu dagmömmu. Þau sátu þarna steinþegjandi hlið við hlið, yfir holur og hæðir og skemmtu sér konunglega. Svo voru borðaðar pylsur á eftir. Það finnst nú mörgum undarlegt að eyða svo miklum pening í að gera brú yfir árnar þarna en ekki gera ráð fyrir að fólk með börn geti gengið þarna um með góðu móti. En þetta er mjög falleg leið og manni hefði ekki grunað að það gæti verið svona fallegt hérna rétt hjá. Svo nú er að bíða eftir að sjá hvort það þorni ekki eitthvað til, því karlarnir lentu í vatni og drullu upp að hnjám þarna í gær, þegar þeir voru að reyna að komast með barnakerrurnar yfir.

Í morgun var okkur svo boðið í morgunmat hjá fólki sem bóndinn keyrir fyrir í vinnunni. Þau búa hérna rétt hjá. Þau eru með dádýr, hunda hesta og kýr og Auður Elín var að fara yfirum af spenningi. Þau átti líka lítið fjórhjól og ýmislegt spennandi. Auður Elín fékk kókómjólk í fyrsta skipti og ýmislegt fleira sem hún ekki fær hérna heima hjá sér, svo hún var víst bara mjög sátt. Hún vaknaði annars klukkan 5 í morgun. Við vorum að breyta klukkunni í nótt, svo nú erum við klukkutíma á eftir Íslandi. Auður hefur eitthvað gleymt að reikna með því. Frúin var nú ekki hrifin af að þurfa að fara svo snemma á fætur. En það er ekkert við því að gera. Vonandi bara að svefnmynstrið fari ekki í algjört rugl. Það gerði það í vor þegar við breyttum klukkunni. Þeir eru nú alltaf að tala um að fara að hætta þessu. En það verður aldrei neitt úr því.

Auður er annars er alveg yfir sig ánægð hjá nýju dagmömmunni. Talar ekki um annað þegar hún er hérna heima, en að fara til Helle. Manni fer nú að finnast maður vera hálf útundan. Það er náttúrlega frábært að henni líður svona vel. Hún er voða dugleg að syngja. Man nú ekki nema brot af tekstanum, en kann lögin, svo hún getur raulað restina. Hún er orðin alveg brjáluð í að horfa á sjónvarpið. Hún hefur sérstaklega gaman að myndum með söng í.

Frúin er búin að vera með aðra löppina á bílaverkstæði þessa vikuna. Fyrst var skipt um framrúðu og svo var ætlunin að láta kíkja á bílinn og undirbúa fyrir skoðun. Þegar frúin kom að sækja bílinn, munaði nú litlu að hún fengi taugaáfall. Það var ýmislegt sem var að og hún mátti ekki keyra í bílnum heim, því bremsurörin voru ónýt. Þetta var ansi dýrt spaug, svo frúin fékk lánaðan bíl á verkstæðinu og keyrði heim til að hugsa málið. Það var ákveðið að það borgaði sig að gera við þennan bíl og koma honum í gegnum skoðun. Svo nú á hann að fara á morgun inn á verkstæði og frúin keyrir svo vonandi heim í honum seinnipartinn. Svona verður þetta í nokkra daga. Það er náttúrlega frekar pirrandi að vera svona háður bílnum, en svo sem ekkert við því að gera. Sem betur fer er verkstæðismaðurinn skilningsríkur og reddar hlutunum fyrir mann.

Kær kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 


Gluggavinna lokakafli

Kæru bloggvinir

Þá er gluggavinnan kominn inn á lokastig. Bóndinn og aðstoðarmaðurinn hafa verið að ganga frá gluggakistum í dag. Svo er bara eftir að setja lista utan um og ýmislegt smotterí. Það er frábært að þetta er komið svona langt. En þetta er líka búið að vera rosalega mikil vinna.

Það hefur verið mjög fallegt veður um helgina, en líka mjög kalt. En það er allavega kostur að það er búið að vera þurrt. Við skelltum vetrardekkjunum undir bílinn í gær. Það hefur verið mjög nálægt frostmarki síðustu nætur, svo það er ekki langt í að það fari að vera eitthvað meira vetrarlegt hérna hjá okkur. Allavega betra að vera við öllu búinn. Eitt sumardekkið var líka orðið svo slitið að það var ekki þorandi að keyra á því lengur.

Frúin og ungfrúin eru búnar að vera heima síðustu fjóra daga. Það var nú meiningin að slaka eitthvað á, en eitthvað fór það nú úrskeiðis eins og venjulega. VIð erum búin að vera mikið úti. Það er alveg nauðsynlegt. En önnur börn hér í bænum virðast ekki þurfa að viðra sig. Það er sjaldan að maður sér börn úti á haustin og veturna. Auður Elín er orðin alveg sjúk í að horfa á sjónvarpið. Hún hefur alls ekki fengist til að glápa á kassann áður. En núna þarf að stoppa hana af. Hún hefur reyndar ekki þolinmæði í að sitja mjög lengi í einu. Hún er líka orðin alveg brjáluð í að fara í bað. Hún fór alltaf í bað í bala með svona sæti ofan í. Sætið var orðið of lítið, svo við hentum því. Hún fór næstum yfir um út af því. En núna finnst henni þetta ofsa mikið sport að setjast bara ofan í balann. Hlær alveg eins og vitleysingur og skvettir vatni út um allt. Sem betur fer gerðum við stóran sturtuklefa, svo það er nóg pláss til að skvetta.

VIð ákváðum að fara í smá fjölskylduferð í gær. Það hefur nú ekki gerst mjög lengi. VIð fórum í lítinn dýragarð hérna rétt hjá. Auður hefur einu sinni áður farið í svona garð, en þá var hún bara pínulítil. Hún var svo spennt að hún var komin á yfirsnúning. Hún heilsaði bæði fólki og dýrum. Fannst þetta alveg gríðarlega spennandi. Við enduðum svo á að gefa geitum að borða og ekki þótti henni það nú leiðilegt. Hún varð pínu smeyk ef þær voru of ágengar, en það er nú eðlilegt. VIð gleymdum videovélinni. Annars hefði verið gaman að taka upp hvernig hún var þarna inni. Það er alveg pottþétt að það verður að fara með hana aftur í svona garð næsta sumar. Það er ekki opið nema á sumrin og í skólafríum. Það var skólafrí í síðustu viku.

Eftir við fengum nýju gluggana fæst Auður alls ekki til að vera í fötum innandyra. Hún var aðeins byrjuð á því í sumar að rífa sig úr fötunum. En núna er hún alveg skæð. Hún er oftast á bleiu og bol hérna inni. Sem betur fer er enn hægt að troða henni í föt ef hún er að fara út. Og hún hleypur ekki út á bleiunni. Henni gæti nú alveg dottið það í hug.

Jæja það er víst ekki svo mikið annað nýtt að frétta héðan úr sveitinni. Endilega kikið á myndir af framkvæmdunum. Bóndinn skellti þeim inn í síðustu viku.

Já og svo man ég ekki hvort ég var búin að segja að fjölskyldan kemur á klakann um jólin. Við megum ekki missa af nýja barnabarninu sem er væntanlegt rétt fyrir jól. Eins gott að það komi á réttum tíma!

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband