18.3.2012 | 16:15
Vorveður
Kæru bloggvinir
Þá er komið að hinni vikulegu bloggfærslu. Hér hefur verið smá vorlegt um helgina. Það er nú ekkert sérstaklega hlýtt ennþá, en þetta er allt að koma. Það er allavega kominn vorhugur í mann og við erum farin að spá í hvað eigi að setja niður grænmeti og svoleiðis í sumar. Það er hægt að sá einhverju af því í næsta mánuði. Það er nú oft um páskana að það fer að vora fyrir alvöru.
Hér hefur verið nóg að gera eins og venjulega. Maður kemur ekki nema broti af því í verk sem maður ætlar sér. Annars er Helga nú voða dugleg að taka það versta dags daglega. Það er voða munur.
Í gær var farið í allsherjar hreingerningu innandyra. Það var ekki orðið vanþörf á því. Ekki unnist tími til að gera þetta almennilega lengi. Það fylgir nú líka alltaf vorinu að vilja fara út og þvo gluggana. En ætli maður láti það nú ekki bíða eitthvað. Það er planið að reyna að jafna eitthvað lóðina hér á bak við, svo það sé hægt að slá þetta almennilega. Bóndann dreymir um að kaupa sér svona sláttutraktor, sem maður situr á, það er töluvert minna mál að slá garðinn með því, en með venjulegri sláttuvél. Það tekur heila eilífð að slá hann núna.
Í gær gerðist nokkuð stórmerkilegt. Frúin smakkaði sushi í fyrsta skipti. Hún hefur annars talað um það lengi að hún ætlaði aldrei að láta það inn fyrir sínar varir. En hún lét til leiðast og smakkaði það. Þetta var nú ekki eins slæmt og hún hélt. Tilhugsunin um að borða hráan fisk hefur hingað til verið óskaplega óaðlaðandi. En nú er maður búinn að prófa það og lifði það af. Bóndinn skellti sér svo út í gærkvöldi og grillaði kjöt í kvöldmatinn. Það var nú ansi napurt, en hann lét sig hafa það.
Í dag var svo farið í ræktina eins og venjulega. Við erum eitthvað að pæla í að vera þarna fram í næsta mánuð og fara svo bara út að labba og hjóla. Þetta er ansi dýrt og þegar það er komið betra veður, þá vill maður frekar nota tímann úti við. Við fórum svo aðeins út að labba með Auði. Hún finnur sér nú alltaf eitthvað spennandi að skoða. Það vantar allavega ekkert hugmyndaflugið í hana. Hún hefur annars verið ansi pirruð undanfarið. Sennilega hefur það eitthvað að gera með að hún fær ekki alla athyglina, hvorki hér né hjá dagmömmunni. Dagmamman hefur bara verið með tvö börn, en er núna með 4. Það hefur sjálfsagt líka áhrif. Auður er alveg heilluð af Helgu Rut og hermir eftir henni. Það er nú kannski ekki alltaf svo heppilegt.
Bóndinn og Helga eru búnar að setja inn fullt af myndum, bæði af Kristínu Júlíu og Auði Elínu.
Jæja það er víst ekki meira að frétta hér í bili
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2012 | 17:15
Bakstur
Kæru bloggvinir
Þá er runninn upp enn einn sunnudagurinn. Alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Það hefur verið heldur hryssingslegt veður í vikunni, hífandi rok og oft ansi napurt. En þeir eru nú eitthvað að tala um að það eigi að fara að vora. Svo við treystum því.
Annars hefur vikan verið mjög hefðbundin hjá okkur. Í gær var farið í verslunarleiðangur. Það var nú aðallega Helga Rut sem þurfti eitthvað að komast í búðir. Við hjónaleysin vorum nú hálfslöpp í þessu. Enda ekki það skemmtilegasta sem við gerum að vera að versla. Það er ekki gert nema brýna nauðsyn beri til. Í gærkvöldi buðum við íslensku vinum okkar í svið. Það var restin úr frystinum. Tókum auðvitað myndir af gjörningnum og vinir okkar settu þetta inn á facebook. VIðbrögðin létu auðvitað ekki á sér standa. Dönum finnst þetta óskaplega skrýtinn siður.
Í dag fór svo bóndinn með félaga sínum til Þýskalands að kaupa gos og kattamat og ýmislegt fleira. Það borgar sig orðið að kaupa ýmsar vörur í Þýskalandi af því vöruverð hefur hækkað mjög mikið hér undanfarið. Frúin fór út að viðra dótturina. Planið var nú eiginlega að fara niður á leiksvæðið, en við fórum gegnum skóginn og það var nú ævintýri út af fyrir sig. Auður þarf alltaf að rannsaka alla hluti gríðarlega vel og velta öllum steinum á leiðinni. Göngutúr sem tekur venjulega 5 mínútur, tók því næstum því 45 mínútur og þegar við komum á leiksvæðið vildi hún frekar safna könglum en að leika í leiktækjunum. Það getur nú tekið á þolinmæðina að fara út með barnið, þar sem hún tekur sinn tíma í þetta. En það er alveg þess virði.
Eftir þetta allt saman fórum við svo í líkamsrækt og komum svo heim og bökuðum pönnsur og bananaköku. Ekki veitti af að bæta á sig eftir að hafa spriklað svona mikið.
Við höfum verið að taka kanínurnar aðeins inn til skiptis. Frúin stóð fyrir því einu sinni í vikunni og ætlaði aldrei að ná henni aftur, til að setja í búrið. Þær eiga nú sennilega eftir að venjast þessu betur. Þær eru alveg eins og beljur á svelli þegar þær eru að reyna að fóta sig á parketinu hérna inni. Bóndinn er ekki enn búinn að setja inn myndirnar, en ætlar að gera það í vikunni.
Auður Elín er í miklum mótþróa þessa dagana. Foreldrum sínum til mikillar skemmtunar. Þetta kemur sem betur fer í tímabilum svo hún hegðar sér vel inn á milli.
Fyrstu pantanirnar í gistingu á Hótel Tiset, fyrir sumarið eru að koma í hús. Það er von á Braga bróðir Gumma og konunni hans, í byrjun júlí. Svo ef einhverjir aðrir eru að hugsa um að panta gistingu, þá er um að gera að fara að gera það! :).
Kristín Júlía er alveg eins og engill, borðar og sefur og það heyrist nánast ekki í barninu. Hún sefur allar nætur og er almennt óskaplega meðfærileg.
Og svo að lokum, það væri nú fínt ef fólk nennti að kvitta hérna inni svona einstaka sinnum, svo við vitum að einhverjir aðrir en Bragi og Gunna lesi bloggið okkar! :)
Jæja ætli við látum þetta ekki duga í bili
Kveðja
Ragga, Gummi, og restin af genginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2012 | 11:41
Kanínuævintýri
Kæru bloggvinir
Héðan er allt gott að frétta. Það hefur verið milt veður hér síðustu viku. Í dag er reyndar mjög kalt. Þeir voru búnir að tala um að það ætti að fara að snjóa, en það hefur nú ekki gerst ennþá. Vonandi að hann sleppi því bara.
Bíllinn fór á verkstæði á mánudaginn og frúin fékk lánaðan bíl á meðan. Þetta var nú sem betur fer ekki alvarlegra en að vatnsdælan var farin. Þetta varð því ekki neitt rosalega dýrt. En nóg samt. Vonandi bara að bíllinn verði til friðs í einhvern tíma.
Annars hefur verið nóg að gera hér undanfarið að sinna börnum og búi. Auður er nú eitthvað farin að bregðast við því að hafa fengið litlu frænku sína í heimsókn. Hún er allavega búin að vera mjög öfugsnúin um helgina. En við reiknum nú með að það líði hjá. Við erum að gera tilraun með að láta hana sofa inni núna um miðjan daginn. Hún er ekki að skilja þetta og vill alls ekki gefa sig. Hún er orðin of stór til að sofa í barnavagninum. Þetta verður eflaust eitthvað skrautlegt. Hún vaknaði kl. 5:30 í morgun, svo hún ætti nú að vera orðin þreytt. Við drifum hana út að leika í morgun, til að brenna orku.
Við fórum í ungbarnasund í gær og Helga Rut og Kristín Júlía komu með. Kristín Júlía var alveg að fýla sig í tætlur. Ekkert smeyk við öll þessi læti.
Í dag er svo planið að sækja kanínurnar sem kunningjar okkar eru að losa sig við. Bóndinn ætlaði nú fyrst bara að fá ungana, en svo ákvað hann að taka bara bæði fullorðnu kanínurnar og ungana. Það verður nú eitthvað skrautlegt, allavega ef þær fara að fjölga sér meira. En þær eru voða sætar greyin. VIð erum búin að gera pláss fyrir þær hér á bak við hjá okkur og í sumar geta þær verið úti í garði. Auði finnst þær voða krúttlegar. Við erum byrjuð að safna matarafgöngum handa þeim, svo það verður bara veisla þegar þær koma í dag.
Það var voða fallegt veður hér í gær og mann kitlaði í puttana að fara að gera eitthvað úti við, en þetta var nú meira svona gluggaveður, það var nú ansi kalt. En það voru nú einhverjir sem fóru að moldvarpast eitthvað í görðunum hjá sér.
Það er búið að taka nokkrar myndir af bæði Auði og Kristínu Júlíu, það er aldrei að vita nema þeim verði hent inn hér á næstu dögum.
Jæja það er víst ekki mikið annað hér að frétta í bili
Kveðja
GUmmi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2012 | 15:33
Bolludagshátíð
Kæru bloggvinir
Þá er búið að slá köttinn úr tunnunni hér í Tiset. Það var mikið af fólki í margs konar búningum. Auður var nú pínu smeyk við alla þessar kynjaverur. Hún hitti vin sinn sem er hjá dagmömmunni í Tiset og þau voru voða mikið að knúsast og haldast í hendur.
Það er að verða eitthvað vorlegra hjá okkur. Það er nú samt pínu kalt ennþá.
Það er búið að vera mikið um að vera hér um helgina. Á föstudaginn fórum við í keilu, Auði fannst þetta mjög spennandi, sérstaklega af því að það voru diskóljós og há tónlist. Þegar við ætluðum að fara heim fór að rjúka úr bílnum, svo við komumst ekki á honum heim, en íslensku vinir okkar skutluðu okkur heim og ýttu bílnum okkar heim til sín. Það var nú ekki beint það sem okkur vantaði að hann færi að bila aftur núna. Hann er nýbúinn að vera á verkstæði. Við verðum að henda honum aftur inn á verkstæði á morgun og sjá hvað hann segir. Frúin þarf sem betur fer ekki að fara að vinna fyrr en um hádegi á morgun, svo hún þarf ekki að stressast yfir því. Það er algjörlega óþolandi að vera svona háð því að eiga bíl. En við vorum svo heppin um helgina að fá lánaðan bílinn frá Íslendingunum.
Í gær fórum við svo að sækja Helgu Rut og Kristínu Júlíu í lestina. Sú stutta var bara búin að standa sig eins og hetja í gegnum flugferðina og lestarferðina. Auði leist nú bara nokkuð vel á frænku sína og vill gjarnan sitja hjá henni og gefa henni snudduna og hjálpa henni. Það er ekki víst að henni lítist eins vel á þetta þegar hún áttar sig á því að hún er ekkert að fara heim alveg strax. Okkur gömlu hjónaleysunum þótti auðvitað mjög gaman af að sjá þær mæðgur. Áður en þær komu var farið upp á loft að sækja sængur og svoleiðis. Við skildum ekkert í því að það var svo vond lykt uppi á lofti. VIð tókum nokkrar sængur með okkur niður og von bráðar fór allt húsið að lykta. Það var farið upp á loft að reyna að finna hvaðan lyktin kæmi. Þá fannst dauð mús undir svefnsófanum. Þvílíkur viðbjóður.
Í dag var svo byrjað á að fara í morgunkaffi hjá gömlum vinnufélaga frúarinnar og svo var farið að slá köttinn úr tunnunni eftir hádegi. AUður Elín var klædd í búning og fékk 3 verðlaun fyrir. Hún fékk 50 kr. Síðan er bóndinn og Óli farnir til Kolding að horfa á einhvern stórmerkilegan fótboltaleik. Hann er ekki sýndur í sjónvarpinu, svo þeir urðu að fara að horfa á hann á stórskjá á einhverjum bar.
Jæja ætli þetta sé ekki það sem hefur verið merkilegast hér í vikunni.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2012 | 18:52
Bolludagur
Kæru bloggfélagar
Þá ættum við að geta hætt að væla yfir frosti og kulda, þar sem það hefur verið heldur hlýrra hér undanfarið. Við kvörtum nú ekki yfir því.
Bóndinn er búinn að vera í vikufríi. Fyrstu tvo dagana var Auður Elín hjá dagmömmunni. Hún vildi endilega fá hana, svo hin tvö börnin hefðu einhvern að leika við. Hún virtist nú bara nokkuð sátt við það. Hún var ekki eins lengi á daginn og hún er vön, svo það hefur nú örugglega hjálpað til. Annars ætlaði bóndinn nú að reyna að skipta út hurðunum á herberginu hjá okkur og hjá Auði. Það er langt síðan við keyptum hurðarnar, en þær pössuðu ekki í götin. Hann fékk því Óla félaga sinn til að reyna að hjálpa. Þeir gátu mixað hurðina inn í Auðar herbergi í, en hurðagatið í okkar herbergi er svo skakkt að það er ekki hægt að setja hurðina í þar. Það verður einhvern tíma að reyna að laga það. En það var nú mikilvægara að koma hurð í herbergið hennar Auðar, svo Helga Rut geti lokað inn til sín þegar hún kemur. Við erum svo heppin að ein kona sem við könnumst við, er að flytja, svo hún er að losa sig við bæði skrifborð og kommóðu. Hún ætlaði bara að henda þessu, svo það var mjög gott við gátum nýtt þetta.
Á föstudaginn var frúin í fríi. Vinkona hennar kom fyrripartinn. Seinnipartinn var svo farið í ræktina og við enduðum í kvöldmat hjá Ástu og Óla. Í gær var brunað til Árósa að heimsækja kunningja okkar. Við skelltum okkur í risastóran markað, svona svipað og Hagkaup, bara 10 sinnum stærra. Það var sem betur fer lítið af fólki, svo þetta var ekki eins slæmt og oft áður. Kosturinn við svona markaði er að þarna fær maður næstum hvað sem manni vantar, frá smurolíu til smjörs. Við gátum keypt fullt af dóti sem okkur vantaði. Síðan var okkur boðið í mat hjá kunningja okkar. Hann gerði í því að láta okkur fá alls konar dót, sem hann telur sig ekki þurfa að nota lengur. Við græddum nýja ferðatösku, bóndinn fékk nýjar buxur og svo fengum við ýmislegt annað smálegt. Í morgun var svo farið í langan göngutúr og hestunum gefið brauð. Auður er farin að þora að gefa þeim sjálf. Hingað til hefur hún helst bara viljað horfa á. Síðan var farið í líkamsrækt og endað í bollubakstri. Það er bolludagur hér í Danmörku í dag. Auður Elín er búin að fá lánaða 2 grímubúninga. Það er einhver öskudagsskemmtun hjá dagmömmunni á þriðjudaginn. Hún skilur nú ekki mikið af þessu ennþá. En finnst voða spennandi að klæða sig í búning. Hún er orðin hrædd við hina og þessa hluti. Það er erfitt að segja hvað það er sem hún er hrædd við, en allt í einu getur hún komið og sagt að hún sé hrædd. Það er kannski bara einhvað tímabil. Hún hefur nú aldrei verið hrædd við neitt. En kannski verða börn meira hrædd, þegar þau byrja að skilja meira. Hún er oft voða pirruð yfir að maður skilur ekki hvað hún er að segja. Hún blandar saman íslensku og dönsku, svo þetta er nú oft ansi fyndið.
Á morgun tekur svo bara við ný vinnuvika. Frúin þarf að reyna að koma bílnum á verkstæði, það eru að fara í honum bremsurnar og við erum ansi smeyk um að það sé að fara undan honum púströrið líka. Það er alltaf eitthvað, en það er svo sem ekki skrýtið þegar bíllin er keyrður svona mikið. Bensínverðið er að slá öll met hérna núna. Maður er heppin ef maður nær að fylla fyrir minna en 13 kr líterinn, (ca. 273 íslenskar). Þetta er algjört brjálæði.
Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili.
Kveðja
Ragga, Gummi og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2012 | 17:02
Áframhaldandi frosthörkur
Kæru bloggvinir
Hér hafa verið miklar frosthörkur undanfarið. Kuldinn hefur farið niður í 18-20 gráðu frost. Það er eins gott við vorum búin að skipta um glugga í húsinu. Annars hefði okkur nú orðið ansi kalt. En það er búið að vera heldur hlýrra um helgina.
Það hefur verið voða mikið að gera hér í dag. Við fengum gesti í morgunmat. Það voru danskir kunningjar okkar. Þau fengu bæði rúnstykki og hákarl á eftir. Þeim fannst nú hákarlinn ekki spennandi. En fengu líka harðfisk og fannst það víst allt í lagi. Flestir Danir guggna nú á að smakka hákarlinn, en þau voru ekki hrædd við þetta. Þegar gestirnir voru farnir drifum við okkur í líkamsrækt. Svo var svo gott veður að við ákváðum að skella okkur aðeins út að labba. Uppáhaldsleiksvæði dótturinnar er traktorasalan hér við hliðina. Svo það var kíkt á það. Svo komum við við hjá fólki sem er að gera upp hús hérna á bak við okkur. Það hefur staðið autt lengi. En svo var fólk í bænum sem keypti það. Dóttir þeirra var hjá sömu dagmömmu og Auður Elín, svo hún getur kannski fengið einhvern að leika við þegar þau flytja. Auður er annars orðin voða dugleg að sitja inn í herbergi og "lesa" og syngja. Hún situr og flettir bókum og blaðrar eitthvað eða syngur. Þetta er nú frekar fyndið en líka mjög krúttlegt.
Annars er að fjölga hér á heimilinu, allavega tímabundið. Helga og Kristín Júlía litla eru að koma hérna út í lok febrúar og verða í einhvern tíma. Það verður spennandi. Það er spurning hvað Auður segir við því að fá svona litla skvísu á heimilið. Henni finnst það nú sennilega pínu skrýtið.
Það var meiningin að hún yrði heima hjá pabba sínum næstu viku, því það er frí í skólanum. En dagmamman spurði hvort hún mætti ekki koma, svo hin stelpan sem hún er með hefði einhvern að leika við. Svo hún fer til dagmömmu allavega á morgun. Bóndinn ætlar sennilega að reyna eitthvað að gera við hérna inni. Það er alltaf eitthvað smotterí eftir.
Frúin ætlar að halda einn frídag í næstu viku og svo á að kíkja til Árósa á laugardaginn. Það er orðið ansi langt síðan við höfum rennt til Árósa. Félagi okkar er orðinn svo mikill sjúklingur að við höfum ekki getað heimsótt hann. En við vonum það heppist að kíkja á hann núna.
Jæja munið að kíkja á myndirnar frá Íslandi
Kveðja frá kuldabolalandi
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2012 | 16:04
Þorrablót
Kæru bloggvinir
þá er veturinn heldur betur búinn að bíta sig fast hérna hjá okkur. Það hafa verið þvílíkar frosthörkur hér síðustu viku. Til að byrja með fylgdi þessu líka mikið rok, sem gerði það að verkum að það var ennþá kaldara. Um helgina hefur verið mjög fallegt veður, en upp undir 20 stiga frost. Þetta er mjög óalgengt hér. Og þeir lofa þessu eitthvað áfram næstu daga.
Við skelltum okkur á þorrablót með Íslendingunum í gær. Það var haldið í bæ ca. 70 km hér frá. Við þekktum nú enga aðra, en þetta var mjög skemmtilegt. Maturinn var fengin frá Íslandi og bragðaðist alveg ljómandi vel. Það var töluvert af dönsku fólk þarna líka. Það var nú víst ekki eins hrifið af súrmatnum og Íslendingarnir. Við vorum komin heim fyrir miðnætti. Við höfum aldrei prófað að fara á þorrablót hérna og bjuggumst kannski ekki við miklu, en þetta var mjög fínt og við reynum örugglega að fara á næsta ári, ef þetta verður haldið aftur. Það eru mjög margir Íslendingar á þessu svæði, við vissum ekkert um það. En það er samt ekkert Íslendingafélag. Við vorum svo heppin að vinna í happadrætti á blótinu og fengum bæði íslenskt konfekt og súkkulaði með heim. Tókum svo ekstra hákarl og eitthvað af súrmat og rosalega góðum harðfisk með heim. Við leyfðum Auði að smakka hákarl í morgun. Hún japlaði nú aðeins á honum, en spýtti honum svo út. En harðfiskurinn rann niður án vandræða.
Í dag er svo búið að taka á því í ræktinni og fara í gufubað á eftir.
Auður Elín er búin að vera að æfa sig að vera ekki með neina snuddu, nema þegar hún sefur. Þetta hefur gengið framar öllum vonum. Suma daga spyr hún ekki einu sinni um snudduna. Hún hefur alltaf verið rosa mikið snuddubarn, svo maður hefði nú búist við þetta yrði meira vesen. Hún blaðrar orðið mikið meira, sumt skilur maður auðvitað ekki. En það kemur. Hún var byrjuð að æfa sig að vera bleiulaus og það gekk fínt til að byrja með, en svo var eins og hún gleymdi sér alltaf og pissaði bara á sig, í staðinn fyrir að fara á klósettið. Svo við bíðum aðeins með að taka af henni bleiuna.
Bóndinn er búinn að setja inn myndir frá Íslandi úr skírninni hennar Kristínar Júlíu og fleira.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2012 | 16:35
Snjór
Kæru bloggvinir
Þá fengum við snjó. Sumir eru auðvitað mjög ánægðir með það, meðan aðrir eru að væla yfir því. En þetta er nú bara smá föl ennþá. Vonandi verður það ekki meira. Okkur litist ekkert á að fá allan snjóinn sem við höfum heyrt að sé á Íslandi núna. Það færi nú allt í vaskinn ef við fengjum það hingað.
Héðan er annars lítið nýtt að frétta. Allt við það sama. Bóndinn náði sér í kvef í síðustu viku og nú er frúin svo orðin þrælkvefuð. Alveg óskaplega skemmtilegt. Ungfrúin hefur sloppið nokkuð vel hingað til. VIð drifum okkur út í snjóinn í morgun. Við löbbuðum og gáfum hestunum brauð. Þeir voru voða ánægðir að fá smá bita í kuldanum.
Í gær komu Íslendingarnir í heimsókn. Karlanir sátu og horfðu á fótbolta, meðan við kerlurnar bökuðum einhver ósköp af ýmsu góðgæti. Þetta var heilmikið fjör og hamagangur í eldhúsinu. Það er búið að fylla frystinn af brauði og kökum. Dagurinn endaði svo á að borða kjötsúpu. VIð vorum ekki svöng eftir þann daginn. Maður var nú hálflúinn eftir þetta. Enda ekki vanur að standa svona mikið upp á endann og baka og elda. En allt hafðist þetta nú.
Við erum búin að fá fullt af myndum úr skírninni hennar Kristínar Júlíu og eitthvað fleira frá Íslandi. Bóndinn verður að reyna að setja þetta inn í vikunni. Hann er orðinn svo æstur í að fara í líkamsræktina að hann ætlar víst að fara að mæta á morgnana líka. Við erum bæði orðin betri í skrokknum, svo eitthvað gagn hlýtur þetta að gera. Við höfum svo aðeins verið að prófa að fara í gufubað á eftir ræktina á sunnudögum og það er voða notalegt. Maður er þvílíkt slakur á eftir.
Næstu helgi á svo að prófa að fara á þorrablót með Íslendingunum. Við höfum ekki gert þetta áður, svo þetta verður spennandi. Við þekkjum örugglega engan, en bóndann langar mikið í súra punga og annað góðgæti. Hann verður örugglega sáttur ef hann fær nóg af svoleiðis.
Jæja það er víst lítið annað til tíðinda í bili
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2012 | 18:44
Veðurblíða
Kæru bloggvinir
hér hefur allt verið á fullu í dag, svo það er fyrst núna tími til að blogga. Við vorum úti að spila fótbolta við Auði í morgun. Það hefur verið mjög milt og fínt veður undanfarið. Við erum bara mjög ánægð með það. Við kíktum svo á skrifborð, sem var verið að bjóða okkur að hirða. Ein sem er með bóndanum í íþróttafélaginu er að flytja heim til kærastans, sem býr líka hér í bænum. Hún er því að losa sig við ýmislegt. Gott að geta nýtt sér það.
Við erum búin að vera voða dugleg að fara í líkamsrækt. Þetta verður nú pínu auðveldara, eftir því sem maður fer oftar. Auður Elín er voða ánægð með barnapíuna og er alveg sama, þó við skreppum í burtu. Það er komin önnur stelpa til dagmömmunnar og önnur á leiðinni. Hún hefur nú eitthvað verið ósátt við að hafa ekki eins mikla athygli, en það hlýtur að venjast. Hún á að byrja á leikskóla í sumar. Planið er að venja hana við í lok júlí, þegar við erum búin með sumarfríið okkar. Það er ómögulegt að láta hana byrja, rétt áður en við förum í sumarfrí. Svo frúin verður bara að taka eina viku extra í sumar. Vonandi tekur hún þessu nú vel. Það verða allavega viðbrigði að vera með svona mörgum börnum allan daginn.
Auði fer mikið fram í að tala þessa dagana. Hún er líka að æfa sig að vera minna með snudduna. Það er nú ekki nauðsynlega mjög vinsælt. En hún gleymir sér nú oft. Hún talar orðið meiri íslensku hérna heima og apar allt eftir manni.
Bóndinn fór á fund hjá íþróttafélaginu í vikunni. Það á að reyna að sameina félögin hér í bænum, en þetta er nú ekkert sem maður anar að. Þeir reikna með að það verði hægt að sameina þetta á þessu ári, þannig að þetta verði orðið eitt félag í janúar 2013. Manni finnst nú fyndið hvað er hægt að gera mikið mál úr svona hlutum. En þetta hlýtur að verða voðalega gott fyrir vikið.
Annars hefur nú allt verið með kyrrum kjörum hér í vikunni. Við vorum orðin smeyk um að hinn sálfræðingurinn í bænum væri fluttur. Við höfum ekki séð hann síðan við komum frá Íslandi. En við sáum hann í morgun, svo hann sefur einhvers staðar hér í grenndinni.
Við hittum gömlu dagmömmuna hennar Auðar í líkamsræktinni í morgun. Hún var eins og draugur og heilsaði varla. Frúin sat svo við hliðina á henni og náði að toga upp úr henni nokkur orð. Hún spurði nú ekkert um Auði, en bað svo að heilsa henni, svona þegar ég var búin að nefna hana eitthvað. Hún á greinilega erfitt konugreyið.
JÆja ætli við látum þetta ekki nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2012 | 18:44
Allt á fullu
Kæru bloggvinir
það hefur bara verið allt á fullu hér í dag, svo það er fyrst tími til að blogga núna. Vonandi er fólk ekki búið að gefast upp á að bíða! :) Hér er enn milt veður, þó hefur verið næturfrost í gær og í dag, en mjög fallegt veður. Það er vonandi að það haldist bara áfram.
Við hjónaleysin höfum verið óskaplega þreytt á morgnana undanfarið og Auður líka. Hún hefur nú verið pínu slöpp þessa vikuna, en er öll að koma til. Það var nú samt ákveðið að drífa loksins í að fara í líkamsrækt. Við erum búin að fá stelpu til að passa, og förum með Íslendingunum sem við erum búin að kynnast. Þau eru búin að vera í ræktinni í svolítinn tíma, svo þau kunna á þetta allt saman. VIð stefnum allavega á að reyna að vera svolítið hress í þessu. Enda ekki vanþörf á. Það er nú alltaf erfitt að komast í gang, þegar maður hefur ekki verið að hreyfa sig mikið í langan tíma, en það þýðir ekki annað en að vera harður og harka þetta af sér.
Við fórum út að labba í morgun. Við ákváðum að breyta til og fara inn til Gram og labba kringum gömlu konungshöllina. Við höfðum nú alltaf haldið þetta væri bara einhver pínulítill garður, en komumst að því að þetta er rosa stórt svæði og mjög fallegt að labba þarna. Ekki skemmdi fyrir að það var mikið af öndum, sem Auði þótti nú ekki leiðilegt að kíkja á. Hún er búin að vera með flug á heilanum síðan við komum heim. Það fyrsta sem hún sagði í morgun þegar hún vaknaði, var "fljúga". Henni finnst skrýtið að við getum ekki bara skellt okkur í flugvél hvenær sem er.
Við erum búin að lofa að skella okkur á þorrablót hjá Íslendingafélagi í bæ hérna, ca. hálftíma keyrslu héðan. Íslendingarnir sem við erum búin að kynnast ætla að fara og við ákváðum að skella okkur líka. Bóndanum hlakkar allavega til að geta borðað þorramat. VIð höfum aldrei prófað að fara á þorrablót hérna, svo það er kannski kominn tími til. Þetta verður í byrjun febrúar, svo þangað til verður maður bara að taka á því í líkamsræktinni, svo maður líti vel út á blótinu.
Það er ekki hægt að kveikja á sjónvarpi hér þessa dagana, þar sem það eina sem er í því eru myndir í sambandi við 40 ára embættisafmæli drottningarinnar. Hún er víst ekkert að spá í að fara frá. Ætlar sér víst að deyja í embætti. Maður skilur náttúrlega ekki öll þessi læti í kringum þetta.
Jæja það er víst ekki meira að frétta héðan í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)