Færsluflokkur: Bloggar

Nýjar myndir

Kæru bloggvinir

þá eru loksins komnar nýjar myndir inn. Endilega kíkið á allar framkvæmdirnar.


Gluggaskipti partur 3

Kæru bloggvinir

Jæja þá eru karlarnir farnir að vinna í að koma síðustu gluggunum í. Þeir eru að setja klósettgluggann í núna, svo það er ansi kuldalegt að fara á klóið. Það er búið að vera mjög fallegt veður um helgina, en ansi kalt. Svo það er vonandi að þeir nái að klára þetta núna í dag eða næstu daga. Bóndinn fór í það í gær að þétta útidyrahurðina hér á bak við og það er þvílíkur munur. Það verður bara að fara að lækka á gólfhitanum núna. Annars verður allt of heitt. Maður finnur vel muninn á að vera búinn að fá almennilega glugga.

Annars hefur nú allt gengið sinn vanagang hér undanfarið. Frúin tók sig til í gær og þreif versta skítinn hérna inni og bakaði bæði bollur og köku. Það hefur ekki verið tími til þess í fleiri vikur. Enda allt annað líf að vera hérna inni núna. Svo var mæðrahópur hér í morgun. Ein af mömmunum á 4 mánaða gamlar tvíburastelpur. Mamma þeirra er mjög gjafmild á þær og við hinar fáum gjarnan að halda á þeim og gefa þeim pela. Það er voða gaman. Auður Elín er voða spennt fyrir þessu, en er nú samt pínu afbrigðisöm. Hún er ekki alveg tilbúin að leyfa einhverjum svona krílum að sitja hjá mömmu sinni. Hún er að þroskast mjög mikið þessa dagana. Hún var að leika sér með dúkkur í gær og fór að leika að þær væru að gráta og svo þurfti að hugga þær. Það kom sjúkraþjálfi að kíkja á hana í vikunni. Frúin vildi láta kíkja á fæturna á henni af því hún dettur svolitið oft. Hún var mjög hrifin af barninu og sagði að hún væri mjög þroskuð miðað við aldur en það væri greinilegt að hún ætti mjög erfitt með að slappa af, og ætlar að kenna okkur að gera einhverjar æfingar með henni, svo hún eigi auðveldara með það. Henni fannst henni líka mjög dugleg að tala og fannst alveg sjálfsagt mál að við töluðum við hana íslensku. Það var auðvitað mjög gott að heyra það.

Ungfrúin er annars ansi kvefuð í augnablikinu. Við fórum ekki í sund í gær og héldum henni innan dyra. Við vonum að hún verði fljót að hrista þetta af sér. Hún verður bara 3 daga hjá dagmömmunni í næstu viku. Það er frí í skólunum og frúin tekur sér frí fimmtudag og föstudag. Það verður ágætt, vonandi að geta slakað aðeins á. Það hefur verið svo brjálað að gera hér síðan í vor. Maður hefur nú bara ekki slakað á í fleiri mánuði.

En annars er búið að versla flugmiða til Íslands um jólin. Það er von á barnabarni, svo það er nú eins gott að mæta á svæðið. Eins gott að barnið komi á réttum tíma. Við erum væntanleg 22 desember og verðum fram yfir áramót. Það verður munur að fljúga heim núna og hafa sér sæti fyrir Auði, svo maður þurfi ekki að vera alveg í kremju. VIð keyptum miða frá Billund. Það var ódýrara en að fljúga frá Kaupmannahöfn. Það var nú samt töluvert dýrara að fljúga núna en það hefur verið. En það er ekkert við því að gera.  Svo ef einhver veit um húsnæði sem er á lausu á Suðurnesjunum milli jóla og nýárs, þá viljum við gjarnan heyra um það. Annars getum við nú eiginlega ekki skipulagt þetta neitt fyrr en barnið er komið.

Jæja best að fara að hjálpa til eða þvælast fyrir

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Gluggaskipti partur 2

Kæru bloggvinir

Þá er komið sunnudagskvöld og frúin loks sest að skrifum. Það hefur allt verið á fullu hér í dag í að ganga frá gluggunum í stofunni. Þetta er nú hið mesta púsluspil og tekur heilmikinn tíma að fá þetta til að passa. Það er ennþá eftir að setja tvo glugga í. En þeir stefna á að klára þetta næstu helgi eða vikuna eftir það. Það er frí í skólunum í þarnæstu viku, svo bóndinn er bara að keyra á morgnana og seinnipartinn. Það er vonandi að hafist að klára þetta þá, þá getur maður farið að þrífa almennilega hérna.

Auður Elín er búin að vera hjá nýju dagmömmunni síðust vikuna. Hún er miklu ánægðari þegar hún kemur heim. Hún er voða þreytt, enda eru þau meira úti. Hún er miklu fljótari að sofna á kvöldin. Sennilega af því hún er búin að vera að djöflast úti. Það er rosa munur að þurfa ekki að vera að slást við hana á kvöldin. Við héldum að hún væri komin með í eyrun aftur, en sem betur fer var það nú ekki. Hún var farin að vera svo óróleg á nóttinni. En það hefur verið eitthvað annað. Hún er orðin mikið duglegri að tala. Er farin að setja tvö og fleiri orð saman og apar allt eftir manni. Það er sennilega líka af því nýja dagmamman talar meira við börnin en hin gerði.

Annars er nú allt við það sama hér í sveitinni. Það var mjög kalt í nótt og sennilega var næturfrost. Svo sumarið kemur sennilega ekki aftur. Eða þetta litla sumar sem við höfðum.

Við prófuðum um daginn að kaupa grasker frá nágrönnum okkar og gera úr því súpu. Þetta var þvílíkt gott, svo við fórum og keyptum 2 grasker í viðbót og suðum og maukuðum, svo það er tilbúið í súpu. Svo frystum við þetta bara. Það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Það er ekki hægt að kaupa grasker nema á þessum árstíma, svo það er eins gott að byrgja sig upp núna.

Bóndinn náði að slá blettinn í gær. Það hefur ekki verið hægt vegna bleytu. Það er gríðarleg spretta í grasinu, þó það sé ekki hlýtt. En það hlýtur nú eitthvað að fara að hægja á þessu núna, ef það fer að koma næturfrost.

Við vorum búin að reikna með að bíllinn ætti að fara í skoðun í vor, en svo kom bréf í gær, um að hann ætti að fara í skoðun innan 2 mánaða. Það var ekki alveg það sem vantaði. Það verður ekki alveg ókeypis. Við vorum búin að bíða með að skipta um framrúðu, af því við héldum að það væri ekki skoðun fyrr en í vor. Bílarnir hér eru skoðaðir á tveggja ára fresti hér, svo þeir eru víst voða strangir, sérstaklega á eldri bíla. Við höfum nú bara einu sinni átt bíl hér, sem hefur þurft að fara í skoðun, svo við höfum ekki mikla reynslu af þessu. Vonum bara það besta. Þetta hefði nú alveg mátt bíða fram á vor.

Það er orðið svo hlýtt hérna inni eftir að nýju gluggarnir eru komnir í að við þurfum að fara að venja okkur á að opna glugga til að lofta út. Það hefur aldrei þurft áður, því gluggarnir voru svo óþéttir að það blés í gegn. Vonandi verður líka ódýrara að kynda núna þegar við erum komin með þéttari glugga.

Jæja best að láta þetta nægja að sinni.

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 


Gluggaskipti

Kæru bloggvinir

fyrst og fremst viljum við biðja dygga lesendur afsökunar á að færslan ekki kom í gær. Það hefur bara allt verið á haus hér um helgina af því við vorum að setja glugga í. Við vonum að okkur verði fyrirgefið! Ekki nóg með að það hafi allt verið á haus í gluggavinnu um helgina, sumarið kom heldur betur. Það var 25 stiga hiti á laugardag og aðeins kaldara í gær, en alveg frábært veður. Það hefði varla getað verið betra. Nú vantar svo að setja 2 glugga í og ganga frá gluggakistum og svoleiðis. Það er ótrúlegt hvað þetta er mikill munur, bæði í útliti og hitastigi hér inni. Bóndinn varð að lofta út þegar hann kom heim í dag. Það hefur aldrei gerst áður, enda höfum við verið með náttúrulega útloftun, af því gluggarnir voru svo óþéttir.
Það var nú ansi skrautlegt að ná gömlu gluggunum úr. Sumir voru ekkert festir, aðrir voru svo fastir að það var næstum ekki hægt að koma þeim úr. En allt gekk þetta stórslysalaust fyrir sig. Planið er allavega að halda áfram næstu helgi og þá ætti maður nú að komast langt með þetta.

Frúin mætti í kaffi hjá dagmömmunni á föstudaginn. Það var svona kveðjukaffi fyrir Auði. Þetta var nú voða sérstakt og hún var nú ekki mikið að hrósa Auði. En nefndi svona í lokin að við ættum nú endilega að kíkja í kaffi einhvern tíma. Auður fór svo til nýju dagmömmunnar í morgun. Hún var nú frekar óhress og grét. En hún jafnaði sig fljótt og var bara ánægð eftir daginn.

Frúin lenti nú í vandræðum í morgun. Bíllinn vildi ekki fara í gang, svo frúin varð að hringja eftir aðstoð. Hann barði eitthvað í startarann og bíllinn rauk í gang. Hann fór svo beint á verkstæði og frúin í vinnuna. En það náðist ekki að klára að gera við hann í dag, svo frúin lenti í hálfgerðum vandræðum að komast heim. Það er nánast vonlaust að komast heim, ef maður hefur ekki bíl. En sem betur fer var einn vinnufélaginn að fara heim, og nennti að skutla frúnni restina af leiðinni. Í fyrramálið verður frúin svo að keyra með bóndanum inn til Gram og taka rútuna þaðan til Ribe og þaðan svo með öðrum vinnufélaga restina af leiðinni. Vonandi verður bíllinn svo tilbúinn á morgun. Manni er bara farið að kvíða fyrir að sjá reikninginn. Sem betur fer var Auður byrjuð hjá nýju dagmömmunni. Það væri meira vesen að þurfa að koma sér til Gram með hana bíllaus.

Dóttirin hefur sofið ansi órólega undanfarið, og hagar sér eins og áður en hún fékk rör í eyrun, svo frúin fékk tíma hjá eyrnalækninum á fimmtudaginn, til að kíkja á þetta. Vonandi er þetta ekkert alvarlegt.

Annars er nú lítið meira að frétta. Við reynum að standa okkur betur í bloggskrifum næstu helgi.

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Sólin mætt á svæðið

Kæru bloggvinir

látið nú ekki líða yfir ykkur. Haldið ekki bara að sólin hafi skinið á okkur hérna um helgina. Auður hefur verið eins og kálfar á vorin, ekki vitað hvað hún ætti að leika sér með. Það hefur loksins verið hægt að setja sand í sandkassann og sitja úti á verönd. Manni fer að hlakka til næsta sumar að geta nýtt þetta meira. Það spáir nú víst sól eitthvað í næstu viku líka. Það væri nú ekki leiðilegt ef það rættist.

Annars er allt í föstum skorðum hérna. Við vorum búin að plana að setja gluggana í um helgina, en fólkið sem ætlaði að hjálpa þurfti að hirða gras, meðan það er þurrt. Þau eru með nokkra hesta og það hefur varla viðrað til að hirða fyrr en núna. En þau eru búin að lofa að koma næstu helgi, svo við vonum það standist. Þegar gluggarnir eru komnir í, ætti að fara að hægjast eitthvað um í framkvæmdum. Það er enn eftir að mála vegginn við veröndina. Bóndinn hefur verið svo slæmur í bakinu um helgina að það hefur ekki verið hægt að ráðast í slíkar stórframkvæmdir. Hann á nú bágt með að gera ekki neitt, svo hann hefur eitthvað verið að taka til og laga þakrennur og svoleiðis. Annars hefur þetta verið mesta rólegheitahelgi lengi. VIð verðum að trappa smám saman niður, annars leggjumst við sennilega bara í bælið.

Auður Elín er ennþá mjög ákveðin í að gera okkur foreldrana gráhærða. Hún er ótrúlega þrjósk þetta barn. Það er auðvitað mjög gott að hún vill gera hlutina sjálf, en stundum getur hún bara ekki gert allt, og þá er pínu erfitt að fá að hjálpa. En hún er ótrúlega dugleg að hjálpa til og manni kemur stundum á óvart að hún skilji hvað maður sé að biðja um.

Hún á ekki nema viku eftir hjá dagmömmunni og við getum ekki sagt við eigum eftir að sakna hennar. Hún er hætt að reyna að fela það eitthvað að hún nenni ekki að vinna vinnuna sína. Hún var inni þegar ég sótti Auði á föstudaginn og 3 stelpur úti að leika einar. Maður veit svo sem ekki hvað þær voru lengi einar úti, en okkur finnst þetta nú ansi mikið kæruleysi. Manni finnst nú eiginlega alveg ótrúlegt að enginn hafi kvartað yfir þessu, því þetta er ekkert í fyrsta skipti sem þetta gerist.

Það á svo að nýta síðustu sólargeilslana og grilla og borða úti á verönd. Það er ekki hægt að pakka sólhúsgögnunum niður án þess að hafa notað þau allavega einu sinni.

Jæja enn hefur ekki komist í verk að setja inn myndir en það verður rekið á eftir því aftur núna.

Kveðja úr sólinni

Gummi, Ragga og Auður Elín


Og enn rignir

Kæru bloggvinir

já það kemur sennilega ekki á óvart, en það rignir enn hér í Danaveldi. Ég held allir séu búnir að gefa upp vonina um að það létti eitthvað til.

Bóndinn og félagi hans settu upp þakrennur á skúrinn í gær, svo nú er ekki lengur hætta á að veröndin fljóti í burtu í allri rigningunni. Það hefur nú varla viðrað til að tylla sér niður á veröndinnni ennþá. En það hlýtur að koma, allavega næsta vor. Við ætluðum svo að reyna að festa niður dúkkuhúsið hennar Auðar og sandkassann, svo þetta sé ekki alltaf á hreyfingu. Svo væri nú gott að geta klínt smá málningu á skúrinn. Það veitti allavega ekki af. Það hefur þurft að sæta lagi til að geta slegið garðinn. En á föstudaginn tókst að gera það í einni umferð. Hann var nú bara nokkuð ánægður með það. Honum til mikillar ánægju eru aftur komnar moldvörpur í garðinn og eru búnar að gera 4 stórar holur.

Í gær skaust frúin í smá kaffisamsæti hjá fyrrverandi vinnufélögum. Það er alltaf hressandi að hitta þær. Verst að við búum frekar langt frá hver annarri, svo við hittumst ekki mjög oft. Í dag átti bóndinn svo að fara með vinnufélögunum á skotsvæðið hérna í Tiset. En hann er hálfslappur og kvefaður, svo við fórum bara og fengum okkur rúnstykki í morgun og svo fór hann áðan að fá sér grillmat. Barnapían gat ekki passað, svo þetta varð að vera svona í þetta skiptið. En það er nú svo sem ekki mikið varið í að vera úti að skjóta leirdúfur í mígandi rigningu. Ungfrúin er orðin kvefuð líka, en hún er ekki eins slæm og pabbinn.

Dagmamman er alveg gríðarlega hress þessa dagana. Hún er örugglega svona fegin að vera að losna við Auði. Annars er það uppáhalds skemmtun dótturinnar þessa dagana að rífa sig úr fötunum og stundum að klæða sig í þau líka. En örugglega ekki þegar hún er beðin um það. Hún brjálast ef hún fær ekki að gera það sem hún vill. Manni finnst nú ekkert skemmtilegt að hún standi á orginu út í búð og svoleiðis. En þetta hlýtur að ganga yfir. Þetta reynir vel á þolinmæðina. Það er nú samt mjög fyndið að hún brjálast líka, ef hún fær ekki að hjálpa til, við að fara út með ruslið til dæmis. Svo þetta er nú ekki bara neikvætt.

Á eftir ætlaði vinnufélagi bóndans og maðurinn hennar að kíkja í kaffi. Maðurinn er búinn að lofa að hjálpa til við að skipta um glugga. Svo við vonum að það geti farið að gerast. Það er nú betra að gera það áður en það fer að verða mikið kaldara í veðri.  En það er nú ekkert hægt að reka á eftir fólki, þegar það er að gera þetta í sjálfboðavinnu. Svo við vonum það besta.

Það hefur ekki enn komist í verk að setja inn myndir, en það verður að reyna að vinna eitthvað í því.

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Sjálfstæðisbarátta

Kæru bloggvinir

héðan er nú ekki mikið að frétta, allavega ekki hvað veðrið varðar. Það rignir flesta daga, en í gær og í dag hefur nú verið sól á köflum allavega. Í nótt var alveg brjálað þrumuveður. Maður hefur nú sjaldan upplifað annan eins gauragang. En þetta gekk hratt yfir, sem betur fer. En það er allavega ekki hægt að segja að manni leiðist í þessu breytilega veðri. Alltaf nóg að gerast.

Hér er ekki hægt að opna hvorki útvarp né sjónvarp þessa dagana. Það eru kosningar um næstu helgi og það er allt undirlagt í umræðum um það. Við megum heldur ekki kjósa, svo maður nennir nú enn síður að fylgjast með. Almennt virðast vinnufélagarnir nú heldur ekki vera neitt spenntir yfir þessu. Það virðist ekki skipta miklu máli hver er við stjórn, það er alltaf verið að skera niður í barnapössun og umönnun aldraðra og fatlaðra. Og fólk virðist nú ekkert vera að æsa sig yfir því.

Auður Elín er alveg að rifna úr sjálfstæðisbaráttu þessa dagana. Hún vill fá að gera allt sjálf, en getur það auðvitað ekki alltaf, en það er ekki að ræða það að hjálpa henni. Svo hún verður að fá að prófa sjálf og svo getur maður fengið að hjálpa henni eftir smástund. Hún er alltaf að bæta við orðaforðann, og apar voða mikið eftir manni. Við höfum nú lúmskt gaman að þessari ákveðni í henni, þó þetta geti auðvitað líka reynt á þolinmæðina.

Það er ennþá eftir að setja upp þakrennurnar, svo veröndin er ekki alveg klár ennþá. Enda hefur heldur ekkert verið veður til að sitja úti undanfarið.

Við fórum í ungbarnasund í gær, ungfrúin fór í stóru laugina, með kút og svamlaði um. Hún var nú ekki alveg að fíla þetta til að byrja með, en svo fannst henni þetta mjög spennandi. Það varð svo auðvitað líka spennandi að stinga af upp á bakkann og hlaupa þar um.  

Í gær var ráðist í að taka upp rabarbarann. Það var nú bara ágæt uppskera af þessum tveimur hnausum. En ekki nóg til að gera sultu, svo það var skellt í rabarbaragraut áðan og hann var alveg rosalega góður. Held bara að við höfum ekki fengið rabarbaragraut síðan við fluttum hingað út. Það er hellings rabarbari eftir, en hann er bara ekki nógu þroskaður ennþá. Svo það er eftir að finna út, hvað við gerum við hann. Það tókst líka að slá garðinn í gær, það hefur ekki verið hægt fyrir bleytu í minnsta kosti mánuð.

Bóndinn ætlar að skella sér á fótboltaleik á eftir. Það tímabil er að byrja aftur, honum til mikillar ánægju.

Jæja það er nú víst lítið meira að frétta í bili. Það verður nú að reyna að henda inn myndum fljótlega, af fólki og mannvirkjum.

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Verandavinna

Kæru bloggvinir

Það kemur sennilega mikið á óvart en það hefur rignt meira og minna síðustu viku. Í gær var reyndar þurrt og heitt og í dag er mjög heitt, en það gengur á með skúrum. Karlarnir hafa verið að vinna í veröndinni um helgina og þetta er allt að taka mynd. Þetta verður flottasta veröndin í bænum. Maður kann ekki alveg við þetta, því við höfum aldrei haft svona fína verönd og svona fín sólhúsgögn. Það er nú heldur ekki hægt að sitja mikið kyrr, því Auður Elín er alltaf á einhverju flandri. En þegar það verður búið að girða fyrir hornið, ætti maður að geta notið þess betur að sitja hérna úti.

Gluggarnir komu svo í vikunni. Nú er bara að bíða eftir að sá sem ætlaði að hjálpa okkur við það, hafi tíma. Hann er sjálfur að skipta út gluggunum í húsinu sínu, og ætlaði að klára það um helgina.

Auður fór til nýju dagmömmunnar að prófa, á mánudaginn, og það gekk bara mjög vel. Hún var svo hjá gestadagmömmu restina af vikunni af því okkar venjulega er í fríi. Það er greinilega mjög mikil samkeppni milli þeirra dagmæðra sem vinna hjá bænum og þeirra sem eru sjálfstæðar. Þessar hjá bænum þola allavega ekki að þessar sjálfstæðu séu að sanka að sér börnum. Gamla dagmamman kemur úr fríi á morgun, það verður spennandi að sjá í hvaða skapi hún verður.

Annars gengur allt sinn vanagang. Tíminn flýgur áfram og manni finnst maður ekki ná nema helmingnum af því sem maður ætlar sér.

Frúin skellti sér í mæðrahóp í morgun. Hún hefur ekki nennt lengi, en ákvað að skella sér. Það var mjög fínt. Ein í hópnum var að eignast tvíbura. Það er ekkert smá skrýtið að halda á svona pínulitlum börnum. Maður er alveg búin að gleyma að Auður Elín var svipað lítil einu sinni. Auður var nú voða forviitin að kíkja á þær og var nokkuð stillt í kringum þær. Svona miðað við að hún hefur aldrei séð svona lítil börn áður. Hún var heldur ekkert mjög afbrýðisöm, þó mamman hjálpaði til við að gefa þeim pela. Hún vildi auðvitað fá að smakka pelann og þótti þetta allt mjög merkilegt.

Jæja best að fara að láta hendur standa fram úr ermum

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 


Ein í kotinu

Kæru bloggvinir

þá erum við orðin ein í kotinu aftur eftir nánast stanslausan gestagang i 3 mánuði. Það liggur við að maður sé í hálfgerðu spennufalli. Það á örugglega eftir að taka smá tíma að venjast þessu. Tengdamamma fór heim í gær. Svo nú þarf maður bara sjálfur að fara að brjóta saman þvottinn og taka til. Það er nú vonandi að maður muni ennþá hvernig á að gera þetta.

Það hefur annars bara rignt eldi og brennisteini hér undanfarið. Það hefur líka verið mikið þrumuveður. Það hefur annars ekki verið mikið af því í sumar. Það hefur því ekki enn tekist að prófa að sitja á nýju veröndinni. Það er enn eftir að leggja síðustu flísarnar, en það hlýtur að koma. Bóndinn dreif allavega í því í vikunni að grafa fyrir veröndinni, þá er það ekki eftir.

Á föstudagskvöldið var grill fyrir bæjarbúa í Tiset. Það var mjög gott veður allan daginn, en svo þegar átti að fara að grilla, þá fór að rigna og það komu þrumur og eldingar. En sem betur fer stytti upp og þetta varð bara mjög vel heppnað. Við vorum auðvitað ekki mjög lengi frameftir, því Auður Elín þurfti að fara að sofa. Maður er nú ennþá, eftir 3 ár í bænum, svona hálfpartinn út úr. Þetta er voðalega mikill klíkuskapur. Alveg furðuleg samsetning af fólki í svona litlum bæ.

Við héldum nú svona hjálfpartinn að verandamaðurinn kæmi að hjálpa okkur í dag, en það lítur ekki út fyrir það. Auður Elín er mjög svekkt yfir að vera búin að missa sandkasan sinn. Hún er orðin alveg skæð í að klæða sig sjálf í stígvél og hlaupa svo í burtu. Hún hefur stungið af oftar en einu sinni síðustu vikuna. Frúin sagði dagmömmunni frá því á mánudaginn að Auður myndi hætta eftir næsta mánuð. Hún virtist ekki taka það sérstaklega nærri sér, hún hefur allavega ekki látið neitt í ljós að hún eigi eftir að sakna Auðar. Hún er líka farin í fýlu út í dagmömmuna, sem Auður er að fara til. Þær hafa verið vinkonur hingað til. En hún hlýtur nú að koma til. Hún er farin í frí núna, og kemur ekki fyrr en eftir næstu viku. Á morgun ætlar Auður að fara til nýju dagmömmunnar, bara til að prófa. VIð eigum nú ekki von á því að það verði neitt vandamál. Það er það yfirleitt ekki.

Við höldum nú enn í vonina um að það komi smá sumar. Það væri allavega  voða gaman að geta viðrað sólhúsgögnin aðeins. Við keyptum þessi fínu húsgögn á tilboði í vor, en það er fyrst núna verið að setja þau saman og fúaverja þau.

Jæja það er víst lítið annað að frétta héðan

Kveðja

GUmmi, Ragga og Auður Elín

 


Sólin lætur sjá sig

Kæru bloggvinir

Hér hefur verið blíðskaparveður um helgina og sólin meira að segja látið sjá sig. Það liggur við að maður hafi fengið áfall. Það er búið að vera mikil umferð af traktorum hér framhjá, enda bændurnir að reyna að ná einhverju inn af uppskerunni. Þeir hafa nú sumir lent í vandræðum og setið fastir á túnunum, af því það er svo mikil bleyta í jörðinni. Það er vonandi að við fáum nokkra góða síðsumardaga núna á næstunni.

Hér hefur verið hamast alla helgina að leggja verönd. Það er búið að leggja hana núna. Þetta er rosa flott. Núna er bara eftir að setja hellur undir dúkkuhúsið hennar Auðar og undir sandkassann hennar. Svo það sér nú fyrir endann á þessu. VIð vorum boðin í svona eftirfermingarveislu í gærmorgun. Það hefur verið til siðs hér að þeim sem gefa fermingargjafir, en er ekki boðið í sjálfa fermingarveisluna, er boðið í svona eftirfermingarveislu. Það var mjög fínt. Auði finnst svona partý náttúrulega ekkert sérstaklega spennandi. En hegðaði sér nú ágætlega. Það er allt fullt af traktorum fyrir utan húsið sem við vorum í og henni fannst þeir meira spennandi en sjálf veislan.

Við erum búin að ákveða að færa Auði til annarrar dagmömmu. Sú sem er dagmamma hér í Tiset er með laust pláss og það er mikið auðveldara að ná í hana hérna, nokkrum húsum frá, en að þurfa alltaf að keyra inn til Gram. Hún er líka með sveigjanlegri opnunartíma, svo Gummi þarf ekki að vera í stresskasti að ná í hana seinnipartinn.  Það verður allavega voða munur í vetur þegar fer að verða eitthvað að veðrinu. Það er svo bara eftir að finna út úr því, hvernig núverandi dagmamman tekur í að Auður hætti hjá henni. En við höfum nú alltaf verið frekar óánægð með hana, svo við eigum ekki eftir að sakna hennar. Þessi nýja hefur verið dagmamma í 3 ár og er bara með 3 börn og hefur ennþá áhuga á börnum. Svo þetta getur allavega ekki orðið verra. Það versta er að Auður leikur voða vel við eina stelpu hjá dagmömmunni sem hún er hjá núna, en sú hættir í vor, svo það breytir kannski ekki svo miklu.

Hún er annars orðin voða spennt fyrir að leika með dúkkur aftur. Hún er voða mömmuleg og druslast með dúkkurnar út um allt, svæfir þær og gefur þeim að borða. Maður fer að velta því fyrir sér hvort þetta sé meðfætt að leika svona með dúkkur. Hún hefur allavega ekki lært þetta af mömmu sinni.

Jæja best að láta þetta nægja í bili

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband