Færsluflokkur: Bloggar
14.8.2011 | 16:48
Uppskera og verönd
Kæru bloggvinir
það er nú ekki mikið nýtt að frétta af veðrinu. Það hefur rignt mikið þessa vikuna. Bændurnir hér í nágrenninu eru orðnir ansi stressaðir yfir þessu, enda mikið í húfi. Við hin erum bara orðin alveg ótrúlega þreytt á þessari bleytu alltaf.
Annars gengur lífið sinn vanagang hér. Það hefur aldeilis verið tekið til hendinni hér um helgina. Það er búið að grafa fyrir verönd hérna í horninu fyrir framan, og setja sand í. Svo nú er bara eftir að setja niður hellurnar. Þetta er auðvitað heilmikil vinna, en við höfum fengið góða hjálp frá kunningja okkar hér í Tiset. Bóndinn fór svo að sækja mömmu sína á Billund í gær. Við vonum að hún hafi komið með eitthvað skárra veður með sér. En það lítur nú ekki út fyrir það akkúrat núna, það hefur nánast ekki birt til í allan dag.
Frúin dreif svo í að taka upp restina af kartöflunum og rófunum í gær. Kartöflurnar voru sumar farnar að mygla, sennilega út af allri bleytunni. Og rófurnar spruttu ekki almennilega. En það er allavega búið að sanna það að það er vel hægt að rækta íslenskar kartöflur hér í garðinum. En uppskeran er nú ekki svo mikil að við eigum nóg í útsæði fyrir næsta ár. Gulræturnar hafa ekki heldur vaxið sem skyldi, en Auður Elín er alveg vitlaus í þær og vill rífa þær beint upp úr garðinum. Nú er svo bara eftir að bíða og sjá hvort við fáum einhvern maís. Rabararinn verður sennilega ekki klár fyrr en á næsta ári. Enda höfum við svo sem nóg annað að gera en að búa til sultu.
Auði finnst voða skrýtið að amma hennar sé komin í heimsókn, en er nú mjög ánægð með það samt. Hún vill endilega vera úti að leika, þó það sé mígandi rigning. Það er náttúrlega bara fínt að hún er ekki hrædd við bleytu. Við fengum notað dót frá vinafólki okkar. Það voru meðal annars ýmsar töskur og litlir hestar. Hún er alveg ofsalega hrifin af þessu og vesenast mikið með þetta. Það stendur nú til að setja sandkassann og dúkkuhúsið hennar á hellur við hliðina á veröndina, þá er kannski meiri líkur á að hún tolli eitthvað við að leika sér þar. En það stóð nú líka til að girða hérna fyrir framan, svo hún sé ekki alltaf að hlaupa út um allt.
Það er nú víst ekki meira í fréttum héðan að sinni
Kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2011 | 11:31
Haustverkin
Kæru bloggvinir
þá er aftur kominn sunnudagur, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Það hefur nú bara gengið ágætlega að komast aftur í vinnugírinn, en maður er nú alltaf smá tíma að komast í gang. Bóndinn er að keyra morguntúr og er svo heima um miðjan daginn og keyrir aftur seinnipartinn. Við vorum búin að redda pössun fyrir Auði en sú stelpa fékk svo vinnu í bakaríinu í Gram, svo frúin hefur þurft að keyra heim fyrr en venjulega. En allt hefur þetta nú blessast. Það var smá stress á fimmtudaginn, því miðbærinn í bænum sem frúin er að vinna í, var lokaður, vegna hjólakeppni. Það þurfti því að leggja langt fyrir utan miðbæinn og reyna að brjótast út fyrir bæinn. Frúin slapp sem betur fer í gegn, áður en þetta varð eitthvað alvarlegt. En manni finnst þetta nú dálítið ýkt. Svo var fólk búið að koma sér fyrir í vegkantinum með nesti og útilegustóla, til að fylgjast með. Manni finnst þetta nú bara fyndið.
Það komu tveir mjög góðir sólardagar í síðustu viku, og svo hefur gamla rysjótta tíðin snúið aftur. Það verður víst ekki meira sumar hér.
Það er stefnan að taka upp restina af kartöflunum, rófurnar og gulræturnar í vikunni. Gulræturnar og rófurnar hafa eitthvað mislukkast. Þær hafa ekki stækkað almennilega. Við þurfum eitthvað að reyna að bæta jarðveginn þarna fyrir næsta sumar. Auði finnst æðislegt að geta bara gengið út í grænmetisgarð og fengið sér gulrætur. Henni er alveg sama þó þær séu drullugar. Maður reynir nú að þrífa versta skítinn af. Hún getur alveg hakkað þetta í sig, og er alveg sama þó þær séu ekki svo stórar.
Í gær var ráðist í að finna til fjölskyldumyndir til að hengja upp á vegg. Við fórum í lítinn bæ hérna hjá og létum grafa í svona platta, fæðingarþyngd og lengd fyrir Helgu Rut. Það fannst gamall svoleiðis heima hjá Ella, en okkur vantaði fyrir Helgu, svo því var reddað, svo nú eigum við svoleiðis fyrir þau öll. Nú þarf bara að púsla þessu upp á vegg. Það er nú mál til komið eftir næstum 3 ár hérna, að fara að hengja upp einhverjar fjölskyldumyndir. Bærinn sem við fórum í, var stútfullur af fólki, af því það var einhver bæjarhátíð. Maður gat varla þverfótað fyrir fólki. Venjulega er ekki mikið að gera í búðum.
Í morgun drifum við okkur svo í hjólatúr. Við rugluðumst eitthvað og fórum miklu lengri hring en við erum vön, en við komumst nú heim, heil á höldnu. Manni verður sennilega illt í afturendanum á morgun. Á leiðinni heim hittum við bónda sem við þekkjum. Hann var að tína plómur af tré og bauð okkur að tína líka. Það getur vel verið að við kíkjum á það.
Rabarbarinn tók allt í einu þvílíkt við sér í rigningunni og það þarf að færa hann á næsta ári. Jarðarberin eru líka að breiða úr sér, svo það þarf að reyna að stoppa það.
Það er stefnan að kaupa möl í innkeyrsluna í vikunni. Það fer eiginlega mest eftir því, hvenær við getum fengið gamla nágrannann okkar til að hjálpa okkur að sækja hana.
Auður hefur verið mjög þreytt þessa vikuna, enda líka erfitt fyrir hana að komast í gang aftur. Dagmamman er voða jákvæð núna, sennilega af því hún hefur verið í fríi. Það er nýbyrjaður strákur hjá henni, svo nú eru ekki bara stelpur, það er nú sennilega mjög hollt. Auður er alltaf að reyna að apa eftir manni orðin, og gerir það víst líka hjá dagmömmunni, hún hefur allavega haft orð á því að hún sé farin að tala meira. Þetta kemur allt saman.
Það var fjárfest í kolagrilli hérna í síðustu viku. Það er afmælisgjöfin okkar í ár. Þetta er rosa fínn gripur og bóndinn alveg gríðarlega ánægður með hann. Það á að grilla í kvöld, þó svo veðrið sé eitthvað breytilegt.
Fótboltatímabilið var svo að byrja aftur í gær og bóndinn fór á fótboltaleik. Það var víst rosa fjör. Það eru tveir Íslendingar að spila í liðinu sem hann heldur með og það skemmir nú víst ekki fyrir að hafa þá með.
Það eru nýjar myndir í albúminu " sumar 2011"
kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.7.2011 | 10:37
Hversdagsleikinn snýr aftur
Kæru bloggvinir
þá er komið að því, sumarfríið er búið og hversdagsleikinn snýr aftur. Það er alveg ótrúlegt, hvað þetta er alltaf fljótt að líða og við náðum ekki að gera allt sem við ætluðum. En svona er þetta víst alltaf. Við höfum nú verið ansi virk en erum samt búin að taka því rólega í gær og stefnan er tekin á að gera það sama í dag. Það hafa komið nokkrir góðir sólardagar í síðustu viku. Við settum vatn í litla sundlaug fyrir Auði og það sló í gegn. Henni finnst rosa gaman að busla og sulla vatni út um allt.
Það var drifið í að svíða lambahausa hér á bak við í byrjun vikunnar. Þegar Auður sá hausana byrjaði hún bara að jarma, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Rollurnar hér í Danmörku eru miklu loðnari í andlitinu en þessar íslensku, svo þetta tekur nú alltaf svolítinn tíma að svíða hausana. Þar fyrir utan eru gaskútarnir með einhverjum stýribúnaði, svo það er ekki eins mikill kraftur á þeim og var í gamla daga. En allt hafðist þetta nú og það er búið að koma hausunum í frystinn. Þeir verða borðaðir í vetur einhvern tíma.
Helga Rut og Unnar fóru heim á miðvikudagsmorgun. Það hefur verið voða tómlegt síðan. Það er alltaf voða erfitt þegar gestirnir fara. Auður hefur verið voðalega pirruð, og skilur ekkert í því að hún eigi að vera ein með okkur gamla settinu. Hún verður örugglega fegin að komast til dagmömmunnar á morgun. Við fórum á landbúnaðamarkað á föstudaginn, þar var verið að sýna kýr, hesta og rollur og selja. Það voru miklar tilfæringar við þetta. Beljurnar voru kembdar eins og hestar og sprautað einhverju glansefni á klaufarnar. Auði fannst þetta meiriháttar skemmtilegt. Ekki skemmdi nú fyrir að það var verið að sýna og selja traktora, garðsláttuvélar, fjórhjól og fleira. Hún prófaði að setjast upp í nokkur tæki og var alsæl með þetta. Það hefur svo verið mikil umferð af traktorum og vélum framhjá húsinu undanfarið, af því bændurnir hafa verið að reyna að þreskja korn og hirða. Það hefur ekki viðrað vel til þess, fyrr en núna. Auði finnst þetta mjög áhugavert og snýr sér við til að kíkja hvern einasta traktor sem fer framhjá. Hún er greinilega með bensín í blóðinu. Það hefur hún ekki frá mömmu sinni.
Nú er svo pása á gestagangi í hálfan mánuð. En þá kemur tengdó og verður í hálfan mánuð. Svo eigum við ekki von á fleiri gestum þetta sumarið, en það getur svo sem alltaf breyst.
Jæja best að fara að nýta síðasta daginn í sumarfríinu
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2011 | 14:36
IKEA ferð
Kæru bloggvinir
Þá er runninn upp enn einn rigningardagurinn hér í Danaveldi. Það hefur rignt mest alla vikuna, en oft hangið þurrt part úr degi. Þetta er nú orðið verulega þreytandi, en það er víst ekkert betra veður í kortunum. Þetta stefnir því allt í að verða sumar eins og síðasta sumar. En samkvæmt fréttunum að heiman er góða veðrið allt þar.
Við skelltum okkur í IKEA í byrjun vikunnar. Þetta var nú ein skásta ferð okkar þangað. Ekki mikið að gera og það tók ekki langan tíma að finna það sem okkur vantaði. Auður Elín hagaði sér mjög vel. Síðan hefur vikan farið í ýmsar smáútréttingar og stúss. Við keyptum geisladiskaskápa í IKEA og þeir voru settir upp í dag. Þetta kemur voða vel út. Þetta er nú bara í fyrsta skipti síðan við byrjuðum að búa saman, að við erum að verða búin að koma öllu fyrir. Það er nú samt smotterí eftir. Maður veit ekki hvað maður á að gera við allt þetta skápapláss.
Við erum að velta fyrir okkur að að taka upp kartöflurnar fljótlega. Grösin á dönsku kartöflunum eru fallin. Við vitum nú ekki alveg hvers vegna, en það hefur verið mjög kalt á nóttinni, svo kannski hafa þær ekki þolað það. En það eru mjög fínar kartöflur undir þeim. Við erum líka búin að smakka gulræturnar, þær eru nú frekar litlar ennþá, en fínar á bragðið. Það er líka búið að smakka rófurnar og þær eru mjög bragðgóðar. Svo það stefnir allt í það, að við reynum að hafa grænmetisræktun á næsta ári líka.
Á föstudaginn fórum við á stóran útimarkað. Það var svo mikið af alls konar dóti, að maður náði nú ekki að skoða nema helminginn af því. Við höfum ekki prófað að fara á þennan markað áður, enda er hann bara á föstudögum og þá erum við auðvitað að vinna. Það hefur farið lítið fyrir afslöppun ennþá, en það er ennþá vika eftir af fríinu, svo kannski náum við því á lokasprettinum.
Það hékk þurrt einn dag í vikunni, svo við drifum okkur í að mála sökkulinn á húsinu. Það er enginn smá munur að sjá þetta núna. Það er bara verst að núna líta tröppurnar enn verr út, þegar sökkullinn er svona fínn. Við erum líka búin að þrífa flaggstöngina og frúin lét eftir bóndanum að kaupa einhverja danska veifu til að flagga með. Frúin er svo mikill Íslendingur í sér að þetta var dálítið erfitt, en þetta lítur nú bara vel út. Það má ekki flagga með íslenska fánanum svo það er alveg eins gott að nota fánastöngina eitthvað.
Krakkarnir hafa verið duglegir að vera úti, þrátt fyrir leiðilega veðráttu. Auður Elín verður ferlega pirruð ef hún fer ekki út á hverjum degi. Henni hefur farið mjög mikið fram með að tala í fríinu. Segir orðið fleiri orð og mun skýrar en áður. Hún apar allt eftir manni. Það verður spennandi að sjá hvernig hún verður hjá dagmömmunni, hvort hún reynir að tala íslensku þar, eða dönsku. Hún verður örugglega ferlega svekkt þegar Helga og Unnar fara heim á miðvikudaginn. Hún sér ekki sólina fyrir Unnari og kallar á hann á morgnana ef hann er ekki vaknaður. Hún er orðin mun betri að kúra og vill knúsa mann og kyssa reglulega. Hún sefur líka orðið betur á nóttinni. Svona yfirleitt allavega.
Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2011 | 14:47
Sumarið kemur og fer
Kæru bloggvinir
einmitt þegar við héldum að sumarið væri komið, þá kom brjáluð rok og rigning. Það fór allt á flot og kartöflugrösin lögðust á hliðina. Það er voða breytilegt veður. Suma daga er fínt sumarveður, en aðra er skýjað og rok. Við erum eiginlega hætt að vonast eftir að sumrið láti sjá sig almennilega.
Hér hefur ýmislegt verið brallað. Við sendum Ella heim á mánudaginn, daginn eftir gekk Auður að stiganum upp á loft og kallaði á hann. Hún er ennþá að kalla á hann og skilur ekkert í þessu. Hún er nú samt mjög ánægð með að hafa Helgu og Unnar. Þau hafa verið mjög dugleg að finna froska. Það er allt morandi í litlum froskum í garðinum. Auði finnst þetta mjög spennandi en er samt pínu smeyk við þá. Hún er mjög upptekin af naflanum á sér þessa dagana og skoðar hann mikið.
Það er að mestu leyti búið að ganga frá frammi í anddyri. Bara eftir að ná í einhverja lista kringum útidyrahurðina.
Börnunum var hleypt í búðir í vikunni, það þótti þeim gríðarlega spennandi. Allavega Helgu. Við fórum í stóra verslunarmiðstöð, það var óvanalega lítið af fólki, enda margir í sumarfríi, einhvers staðar í útlöndum. Þannig að það var bara þolanlegt að vera þarna. Það er svo planið að fara til Áróasa í næstu viku og kannski kíkja eitthvað annað. Það var líka planið að mála sökkulinn á húsinu og svo var alltaf eftir að fá möl í innkeyrsluna.
Við héldum að gestagangurinn væri búinn þetta sumarið, þegar Helga og Unnar fara heim, en þá ákvað tengdó að koma. Hún kemur um miðjan ágúst. Það er rosa fínt og gaman að hún ætli að skella sér til okkar.
Í morgun kom fyrrverandi vinnufélagi frúarinnar og hennar maður í brunch. Það var mjög fínt. Við vorum með ýmisskonar tilraunir með að gera eggjaköku í ofninum og grillaða tómata og baka brauð. Þetta heppnaðist allt mjög vel og allir fóru saddir heim.
Við erum alltaf að plana að slaka eitthvað á, en af einhverjum ástæðum verður ekkert úr því, en við verðum að reyna að gera eitthvað í því.
Bóndinn er búin að vera að taka myndir af anddyrinu á ýmsum stigum og ætlar hann að setja inn nýjustu myndirnar núna.
Kveðja
Gengið á Skovvej 4
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2011 | 13:45
Stórframkvæmdir
Kæru bloggvinir
Þá er runninn upp sólríkur sunnudagur. Sumarið er eitthvað að rembast við að koma. Það er búið að vera fínt veður síðustu daga. Svo vonandi er þetta eitthvað að breytast.
Þeir feðgar hafa haft nóg að gera síðustu daga. Þeir eru að mestu leyti búnir með anddyrið. Það vantar bara einhverja smálista og svoleiðis. Þetta er orðið svo fínt að maður bara skilur ekkert í þessu. Þetta er búið að líta svo illa út lengi. Þegar þetta verkefni var búið, var svo ráðist í annað stórverkefni. Það var að klippa hekkið kringum húsið. Það er nú ekkert smá mikil vinna. Það hefur ekki verið klippt almennilega í mörg ár, og þess vegna eru trén orðin svo kræklótt og leiðileg. En allt hafðist þetta nú. Þetta verður vonandi auðveldara á næsta ári, þegar þetta er komið í viðráðanlega hæð.
Auður Elín nýtur þess í botn að það sé svona mikið af fólki hér. Alltaf einhver að leika við. Hún er búin að vera með eitthvað kyssiæði í dag. Vill kyssa alla á munninn. Hún tekur mjög miklum framförum í að tala þessa dagana. Er alltaf að segja ný orð. Það má nú eflaust deila um, hvort þau eru íslensk eða dönsk eða einhver blanda. En við finnum nú yfirleitt út úr þessu. Hún er farin að geta opnað útidyrahurðina, sem er nú ekkert mjög sniðugt. Hún er orðin mjög dugleg að pissa í koppinn þegar hún er sett á hann, en er ekki enn farin að koma sjálf og segja að hún þurfi að pissa. En þetta hlýtur nú allt að koma.
Það var svo ákveðið að hafa amerískt þema hér í dag. Feðgarnir eru að baka einhverja rosa flotta ameríska köku (Missisippi mud pie) og svo einhverjar samlokur með banana og hnetusmjöri eins og Elvis borðaði. Það á svo að hafa amerískan morgunmat í fyrramálið. Elli er að fara heim á morgun. Við hefðum nú alveg viljað hafa hann lengur. En það er víst ekki hægt. Auður verður allavega sár, hún er svo hrifin af honum.
Við fórum í búð í morgun og á leiðinni heim keyrðum við fram á sálfræðinginn. Hann var að labba heim, héldum við. En svo komumst við að því að hann er orðinn heimilislaus, hann fær engar bætur frá sveitarfélaginu lengur og hefur því ekki efni á að borga leigu. Hann býr því í tjaldi einhvers staðar úti á túni. Hann er nú eflaust ekki mjög samvinnuþýður við sveitarfélagið og þess vegna hefur honum verið hent út. Það verður ekki gaman hjá honum í vetur þegar það verður orðið kalt.
Það verður svo að taka myndir af fínheitunum hér fram á gangi og setja inn í vikunni.
kær kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.7.2011 | 11:44
Moldvarpan snýr aftur
Kæru bloggvinir
hér er enn ansi kalt miðað við árstíma. Frúin er komin í sokka aftur og það gerist nú ekki nema brýna nauðsyn beri til. Bóndinn var nú ekki mjög hrifin þegar hann kom fram í morgun. Það var komin ný moldvörpuhola í garðinn. Þeir feðgar fóru út í morgun að reyna að setja gildru upp fyrir kvikindið.
Þeir feðgar eru búnir að vera á fullu að vinna í anddyrinu síðustu vikuna. Þetta er allt að skríða saman hjá þeim. Þeir eru búnir að legga flísar á gólfið, sparsla veggina og laga kringum útidyrahurðina. Næsta verkefni er að setja veggfóður á veggina og mála. Svo fer þetta nú allt að verða búið. En það eru nú víst einhver fleiri verkefni eftir. Það er um að gera að nýta Ella meðan hann er hérna. Svo eru Helga og Unnar að koma í nótt. Það varð að leigja bíl til að ná í þau, svo frúin komist í vinnuna í fyrramálið. En þetta reddast nú sennilega allt. Það verður því fullt hús hér næstu vikuna. Bóndinn og Auður Elín eru komin í sumarfrí en frúin þarf að vinna næstu viku.
Dagurinn var tekinn snemma og skellt í eina köku, það dugar ekkert minna þegar frúin á afmæli. Það er einhver tilraunastarfsemi í gangi. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Annars er nú ekki búið að plana neina stórhátíð í dag. Bara taka því rólega og slappa af. Kannski kíkjum við á útimarkað á eftir þegar Auður vaknar og svo ætlum við hjónaleysin að skella okkur tvö út að borða í kvöld, og Elli ætlar að passa systur sína.
Auður Elín er eitthvað voða pirruð þessa dagana, hún er annaðhvort að fá einhverja endajaxla, því hún slefar svo mikið, eða hún er með hálsbólgu. Hún bendir á hálsinn á sér og segir óó. Hún er voða mikið að reyna að tala þessa dagana. Er með æði fyrir dýrum og æsist öll upp þegar hún sér dýr á beit. Henni finnst líka voða sniðugt að herma eftir okkur fullorðna fólkinu. Dagmamman bauð upp á kaffi og snúða á föstudaginn, af því það var ein stelpa að hætta hjá henni. Það er spurning hvort hún fái annað barn í staðinn. Þeim veitti allavega ekki af að fá strák, því það eru bara stelpur hjá henni. Það er örugglega oft ansi mikil valdabarátta milli þeirra.
Bóndinn ætlar að henda inn nokkrum myndum á eftir, af framkvæmdunum og einhverju fleiru.
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og Elli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2011 | 11:26
Hversdagsleiki
Kæru bloggvinir
hér lætur sumarið ennþá bíða eitthvað eftir sér. Það er svo sem ekkert vont veður, en hitastigið er ennþá ansi lágt á nóttinni. Held bara að við höfum ekki upplifað svona kaldan júní síðan við fluttum hingað. En það sprettur nú allt þrátt fyrir það.
Feðgarnir hafa verið á fullu að vinna í anddyrinu alla vikuna. Þetta skríður nú vel áfram hjá þeim. Það tekur oft mestan tíma að finna það efni sem maður þarf að nota. Það er töluvert vesen að fá veggina kringum útidyrahurðina til að líta sæmilega út. Svo vantar okkur plastlista kringum hurðina. Þeir fylgja yfirleitt með hurðunum, en af því við keyptum okkar í Þýskalandi, þá fylgdi það ekki með. Þegar þetta vesen er allt saman búið, þá ætti restin nú að ganga eitthvað fljótar fyrir sig.
Annars hefur nú allt gengið sinn vanagang. Bóndinn á ekki nema viku eftir í sumarfrí, en frúin þarf að vinna tvær vikur. Dagmamman hennar Auðar er allavega orðin voðalega þreytt, en hún fær nú sem betur fer frí á föstudaginn.
Á föstudaginn fórum við hjónaleysin út að borða og í keilu með vinnufélögum bóndans. Það var mjög góður matur og fínt að komast aðeins að heiman. Auður var eitthvað óþekk við Ella og Kristínu, vildi ekki sofna. En það hafðist nú að lokum. Hún er voða misjöfn að sofna á kvöldin, en yfirleitt gengur þetta nú betur. Hún sefur líka flestar nætur. Hún á að fara til eyrnalæknisins á fimmtudaginn til að skoða, hvort þetta sé ekki allt í lagi í eyrunum á henni. Við vonum auðvitað að þetta sé bara allt í lagi. Auður fer í frí á föstudaginn og verður með pabba sínum í fríi. Svo koma Helga Rut og Unnar Ernir á mánudaginn eftir viku. Það verður nú fínt að fá meiri hjálp til að hafa ofan af fyrir ungfrúnni. Henni á eftir að bregða við, þegar við verðum bara orðin 3 aftur.
Annars er nýjasta æðið að reka upp einhvern rosa gervihlátur og herma eftir svipbrigðum. Hana langar voða mikið að geta blikkað augunum, en það vefst nú eitthvað fyrir henni. Svo geiflar hún munninn og gerir alls konar kúnstir. Hún er voða dugleg að leika sér sjálf. Getur dundað sér heillengi við að leggja á borð og gefa kaffi og mat.
Jæja það er víst ekki mikið meira í fréttum héðan að sinni
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og Elli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2011 | 12:18
2 ára afmæli
Kæru bloggvinir
Það er nú bara komið haust hérna hjá okkur, í gær rigndi eldi og brennisteini og í dag er rok og frekar kalt. En það hlýtur nú að koma sumar einhvern tíma. Við hjónaleysin drifum okkur nú samt í hjólatúr í morgun. Það lá við að maður þyrfti að hafa húfu og vettlinga.
Það er búið að vera brjálað að gera hér síðustu vikuna. Á miðvikudaginn fór Auður Elín í eyrnaaðgerðina. Hún lá alveg grafkyrr meðan læknirin svæfði hana og eftir korter var þetta búið. Hún var voða leið þegar hún vaknaði og var mjög lítil í sér þann dag og daginn eftir. Hún sofnaði nú vel um kvöldið sem aðgerðin var gerð, en nóttina á eftir svaf hún nánast ekki neitt. En svo um helgina hefur hún sofið alla nóttina og í morgun svaf hún til kl. 8. Það hefur nú bara ekki gerst síðan hún var pínulítil. Svo vonandi hjálpar þessi aðgerð eitthvað með nætursvefninn. Auður hefur líka verið minna pirruð síðan þetta var gert.
Á föstudaginn var svo verið að baka og undirbúa. Í miðju kafi komu svo tvenn íslensk hjón í heimsókn. Við þekktum nú bara önnur hjónin. En þau voru öll á fótboltamóti hérna í Danmörku. Það var voða gaman að hitta þau. Þegar þau voru farin var svo sameiginlegur matur hér í Tiset, af því það hefur verið bæjarhátíð. Við röltum nú heim um 9 leytið. Alveg búin að fá nóg. Ungfrúin var nú víst líka alveg búin að fá nóg. Henni finnst rosa gaman að vera þar sem er partý. Gengur á milli fólks og lætur það halda á sér. Fólki sem ekki þekkir hana finnst þetta nú pínu skrýtið. Um daginn vorum við niður á íþróttasvæði að hjálpa til og þá gekk hún milli karlanna og vildi láta þá halda á sér. Þeir urðu bara kjánalegir og vissu ekkert hvað þeir áttu að gera.
Í gær byrjaði dagurinn svo með ókeypis rúnstykkjum á íþróttasvæðinu hér í Tiset. Svo bauð restin af morgninum upp á bakstur og tiltekt. Auður var rosa ánægð með alla athyglina og alla pakkana. Hún var nú samt orðin hálfringluð á þessu öllu saman. Þegar gestirnir voru farnir var svo haldið niður á íþróttasvæði aftur og grillað og borðað meira. Það var nú hálf lágt risið á mannskapnum, enda voru flestir þar búnir að vera vakandi mest alla nóttina.
Við gáfum Auði matar- og kaffistel í afmælisgjöf og henni finnst ekkert smá mikið stuð að leika með það. Gefur manni kaffi og spælegg eins og hún fái borgað fyrir það.
Það er búið að setja inn nýjar myndir úr afmælinu og líka af uppskerunni úr grænmetisgarðinum. Albúmin heita Auður Elín 24 mánaða, afmælisveisla AEG og svo eru nokkrar nýjar myndir í albúminu kartöflugarðurinn.
Jæja best að fara að slappa af, eftir allan hamaganginn.
Kveðja
Gummi, Ragga og co
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2011 | 11:48
Nýjar kartöflur
Kæru bloggvinir
Þá er runnin hvítasunnudagur með sól og blíðu. Það er búið að vera rosa blíða í gær og í dag, svo það er nú ekkert hægt að kvarta yfir því. Í gær sáum við storka spóka sig úti á túni. Það er í fyrsta skipti sem við sjáum þá svona nálægt. Það er mjög sjaldgæft að storkar setist að í mannabyggð, það er ýmislegt reynt til að lokka þá til. Þannig að okkur fannst þetta nú mjög merkilegt.
Nýjasta æðið hjá ungfrúnni á heimilinu eru traktorar. Hún er mjög upptekin af þessu, og sér traktora í hverju horni. Það er búið að fjárfesta í litlum traktor, gröfu og vörubíl fyrir barnið. Hún hefur sofið án truflana síðustu tvær nætur og það hefur nú bara ekki gerst í háa herrans tíð. Maður er orðin svo vanur því að vakna að maður gerir það, þó hún sofi. Hún er orðin ástfangin af bróðir sínum og allt sem hann gerir er ofsalega fyndið. Það verður erfitt að toppa það þegar hann fer heim.
Í gær var farið í að kíkja undir kartöflugrösin, það voru komnar nokkrar kartöflur, en þær eru nú frekar smáar ennþá. En þær smökkuðust mjög vel. Það er orðið heil eilífð síðan maður fékk nýjar kartöflur. Við prófuðum fyrst dönsku kartöflurnar og í dag prófuðum við svo þessar íslensku. Þessar íslensku eru nú milku betri á bragðið. Við klipptum svo ofan af kartöflugrösunum í morgun því þau voru orðin svo há. Spekingarnir segja að það komi minna undir, ef grösin eru há. Svo nú á að prófa þetta. Svo vorum við líka að prófa vorlaukinn. Það smakkast allt mikið betur sem maður hefur ræktað sjálfur.
Í gær kom svo kærastan hans Ella. Svo nú er að verða fullt á Tiset bed and breadfast, allavega í bili. Auði finnst þetta alveg stórmerkilegt allt saman. Auður fór með dagmömmunni í tívolí á föstudaginn, það var víst rosa mikið fjör. Við ætlum svo kannski að kíkja á það á eftir. Það er svona stór markaður hér í Gram um helgina, bæði með tívolí og mörgum sölubásum.
Feðgarnir fóru í það í morgun að höggva niður eitt tré hér á bak við. Það var hálfdautt, því það var á milli tveggja annarra stórra trjáa. Elli fékk að höggva það niður með öxi. Það birti nú bara til í garðinum þegar við losnuðum við það.
Næstu helgi er svo mikið um að vera, afmæli ungfrúarinnar og bæjarhátíð í Tiset. Svo næsta vika verður nú sennilega uppbókuð. Auður Elín á líka að fara í aðgerðina á miðvikudaginn, við vonum að hún verði orðin hress fyrir afmælið. Börn eiga nú að ná sér á einum degi eftir svona.
Kveðja frá Tiset bed and breakfast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)