Færsluflokkur: Bloggar
14.9.2008 | 08:48
Aftur og nýbúinn
Kæru bloggvinir
þá er aftur kominn sunnudagur. Maður er alltaf jafn hissa á hvað tíminn líður hratt. Það fer vonandi að styttast í að við fáum húsið afhent. Allavega í síðasta lagi 1. október. Við erum hætt að vonast eftir að það verði eitthvað fyrr, úr því sem komið er.
Við renndum til Árósa í gær, til að fara í IKEA. Það er bara á einum stað á Jótlandi. Og jesús pétur, það var ekkert smá mikið af fólki. VIð ætluðum aldrei að finna bílastæði, enda ekkert um neitt sérstaklega mörg að velja. Það er víst bara ætlast til að maður komi á hjóli. Enda voru þónokkur hjól fyrir utan. Þrátt fyrir að þetta væri ekki árennilegt, þá réðumst við nú inn í búðina. Enda búin að keyra 150 km. Við fórum aðallega til að kíkja á eldhúsinnréttingar. Þær eru víst mjög fínar í IKEA og á góðu verði. Við sáum nokkrar sem okkur leist bara vel á. Svo nú þarf bara að mæla eldhúsið betur upp og svo panta. Það tekur nú ábyggilega 3 mánuði að fá eina innréttingu. Það er svona staðallinn hérna ef maður kaupir eitthvað stærri hluti. Ég er hrædd um að Íslendingum þætti þetta heldur lélegt. Enda held ég við séum almennt frekar æst fólk. Við höfum oft lent í að vera ferlega æst yfir einhverju sem Jótarnir bara hrista hausinn yfir.
Við notuðum svo tækifærið og kíktum í kaffi hjá góðum vini okkar í Árósum. Þar er aldrei boðið upp á minna en 17 sortir og hann verður móðgaður ef maður getur ekki étið nógu mikið. Hann býr í sama íbúðahverfi og við bjuggum í, áður en við fluttum til Suður-Jótlands. Svo það er nú alltaf gaman að koma á gamlar slóðir. Þó við séum búin að vera hér fyrir sunnan í 2 ár, þá finnst manni maður alltaf vera komin heim, þegar maður kemur til Árósa. Þessi tilfinning minnkar nú samt með tímanum. Maður er allavega feginn að sleppa úr trafíkinni og fólksfjöldanum. Það er allt svo rólegt hérna suðurfrá.
Svo nú er bara að taka endanlega ákvörðun um hvaða eldhúsinnréttingu eigi að velja og í hvaða lit. Svo þarf bráðlega að fara að velja flísar og gólfefni. Við þurfum líka að kaupa allt nýtt inn á baðið. Þetta verður rosa spennandi, en auðvitað líka strembið. En við hlökkum nú bara til að takast á við það.
Jæja við þurfum að fara í eggjaleiðangur. Kaupum egg af hænsnabónda hérna rétt hjá. Það er ótrúlegur munur á að kaupa fersk egg beint frá hænunni, heldur en að kaupa þau út í búð. Og eggin hjá bóndanum eru líka ódýrari. Og eins og sönnum Suður-Jótum/Íslendingum finnst okkur alltaf gott að geta sparað.
kær kveðja
Gummi, Ragga og Helga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.9.2008 | 14:55
Sunnudagur til afslöppunar
Kæru lesendur
hér kemur pistill vikunnar. Þetta hefur nú ekki verið sérlega viðburðarík vika. Bara það sama og venjulega. Vinna, éta og sofa. Það er sérstaklega vinsælt að sofa fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Það má eiginlega segja að það sé kominn metnaður í hversu lengi maður nái að halda sér vakandi. Húsfreyjan hefur einstaka hæfileika á þessu sviði og sama hversu spennandi sjónvarpsefnið er, hún getur alltaf sofnað. Húsbóndinn á þetta til líka, en hann vill aldrei viðurkenna að hann sé sofandi, heldur þrætir fram í rauðan dauðann.
Helga byrjaði í öðrum skóla á föstudaginn. Hann er ekki svo langt hér frá. Skólinn er fyrir krakka sem vita ekki alveg hvað þau vilja læra. Þau geta valið sér verksvið og vinna svo við það. Helga valdi að fara í eldhúsið, og þá á hún að hjálpa til við matargerð og húsverk almennt. Þau fá einhvern smápening fyrir og fá mat á hverjum degi. Hún getur verið þarna þangað til við flytjum. Þá ætti hún að geta farið í málaskóla. Það tekur því ekki fyrir hana að byrja á því hérna, þegar við þurfum að flytja í annað sveitafélag. Og reglurnar eru þannig að hún kemst ekki í málaskólann fyrr en hún hefur lögheimili í sveitafélaginu. Já stundum eru reglurnar hérna merkilegar!
Það kólnaði snögglega í vikunni, sem þýddi að húsbóndinn kvefaðist og liggur hálfónýtur á sófanum. Ekki bætti úr skák að hann var farinn að taka íslenskt lýsi, og var hraustur sem fíll. Síðan kláraðist flaskan og við höfum ekki fundið lýsið aftur. Það er selt í mjög fáum búðum hérna úti. En núna erum við búin að sjá aðra búð sem selur það, svo það er um að gera að fá sér birgðir. Smá auglýsing fyrir íslenskt lýsi hérna.
Það kom í ljós í vikunni að einn af fastakúnnunum í strætó hjá honum er íslensk. Hún hafði heyrt hann tala íslensku í símann og fór að tala við hann. Það er ótrúlega mikið af Íslendingum í Sönderborg. Svo það þýðir allavega ekki að vera að segja eitthvað miður fallegt. Maður veit aldrei hvort einhver skilur það.
Eins og heyra má er vikan búin að vera ansi venjuleg. Enda erfitt að toppa allt fjölmiðlafárið sem hefur verið undanfarið!
Bestu kveðjur
Familien i Stubbæk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.8.2008 | 12:21
Loksins SÓL og sumar
Góðir hálsar
þá er komið að vikulegu bloggi okkar, og eflaust einhverjir orðnir langeygðir eftir því! :) Annars er það helst í fréttum að sólin hefur skinið bæði í gær og í dag. Húsbóndinn fór því í það að slá garðinn í morgun. Það hefur aldrei verið önnur eins grasspretta. Maður hefði getað fóðrað heilan hest á þessu. Lýsingar þessar gætu fengið fólk til að halda að við værum með risastóra lóð, en hún er nú sennilega ekki meira en 50 fermetrar.
Það er ekkert nýtt að frétta af húsamálum. Svo við bíðum bara. Frekar pirrandi að þurfa að bíða svona. Við viljum bara komast í gang. Svo maður þurfi ekki að vera í algjöru stressi að skila núverandi húsnæði af sér og flytja á nýja staðinn. En það endar nú sennilega með því.
Húsfreyjan var aftur á síðum staðarblaðanna í vikunni. Gríðarlega góð grein!! Þeir sem eru sleipir í dönskunni geta fundið hana á slóðinni http://www.e-pages.dk/bgmonline_hu/105/. Greinin er á blaðsíðu 6. Líklega er fjölmiðlafárinu þá lokið í bili. Það verður erfitt að vera bara hvunndagshetja eftir að hafa verið svona mikið í sviðsljósinu.
Heldur hefur verið lát á dýrafárinu hérna á heimilinu síðustu vikuna. Aðeins ein mús hefur fundist, dauð undir rúmi. Svo það telst nú víst mjög gott.
Helga hætti í skólanum. Kennararnir áttu eitthvað erfitt með að skilja að hún talaði ekki dönsku. En yfirkennarinn var búin að segja að þetta yrði ekkert mál. Þau myndu bara tala ensku til að byrja með. Kennararnir neituðu svo bara að tala ensku við hana og voru bara með einhverja stæla. Þetta kemur nú svo sem ekki á óvart þar sem Danir virðast margir halda að danska sé okkar annað móðurmál. Við erum svo búin að tala við einhvern námsráðgjafa sem er að reyna að fá pláss fyrir hana í málaskóla og einhverjum verknámsskóla. Það er mánaðarferli að komast inn í málaskóla, svo hún getur kannski farið í verknámsskóla á meðan. En þetta kemur nú allt í ljós. Sá skóli er allavega nær okkur en hinn. Við vonum bara það besta.
Maðurinn sem yfirtekur íbúðina okkar hér í Aabenraa kom við í vikunni. Hann vildi nú ekkert kíkja á herlegheitin, vildi bara vita hvað kostaði að kynda og fara í bað. Hann á nú ekki eftir að borga nema brot af því sem við höfum gert. VIð spreðum auðvitað vatni eins og hver annar Íslendingur. Við höfum lært með árunum að spara pínu. En það er peanuts í augum Suður-Jóta.
Jæja látum þetta nægja að sinni. Börnin í hverfinu eru komin út að leika, það gerist aðeins þegar hitinn fer yfir 20 gráður.
Kveðja
Ragga, Gummi, Helga og dýrin í skóginum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2008 | 10:54
Ísland í öðru sæti á OL
Kæru Íslendingar nær og fjær. Til hamingju með silfrið. Maður er nú bara dálítið stoltur af sínum mönnum. Ekki það að handbolti segi mér neitt (Ragga), en maður verður nú frekar hrærður yfir svona árangri. Okkur þótti einnig mjög skemmtilegt að Danirnir urðu í 7. sæti. Þeir eru á köflum full ánægðir með sjálfa sig, svo það er mjög gott að litla Ísland skaut þeim ref fyrir rass.
Af húsamálum er það að frétta að við reiknuðum með að geta flutt inn í byrjun september, en það dregst sennilega um mánuð. Fólkið sem er að flytja út, þarf að mála og gera klárt í nýja húsinu sínu. Og Suður-Jótar taka nú lífinu með ró, ekki svona æstir eins og við Íslendingar. Ekki alveg það sem við þurftum á að halda. En það verður að taka því. Það er frekar lýjandi fyrir Helgu að keyra héðan í skólann. En við vonum hún haldi það út næsta mánuðinn. Hún hefur allavega staðið sig frábærlega hingað til Ekki hægt að segja að það sé spennandi að fara á fætur kl. 5:00 á hverjum morgni og vera kominn heim kl. 15:00. Annars er það mjög almennur fótaferðatími hér hjá Dönunum. Þeir vakna óhuggulega snemma, enda fara þeir í bað á morgnana, og taka langan tíma í að gera sig kláran. Við getum varla beðið eftir að fá smá meira pláss. Svona svo maður sé ekki með allt svona troðið eins og það er núna. Maður er orðinn verulega þreyttur á að færa allt fram og til baka. Eini ókosturinn er auðvitað að maður þarf að þrífa stærra hús! Ekki nema maður fái sér hreingerningakonu. Það er mjög algengt hér að fólk, sem bara þénar meðallaun, sé með hreingerningakonu, og það þykir bara nokkuð venjulegt. Aldrei að vita nema maður verði einhvern tíma svo frægur að fá sér eina slíka.
Maður er búinn að komast að því að það eru margir kostir við að hafa bloggsíðu. Ekki síst af því að maður heldur íslenskunni allavega við. Það er ótrúlegt hvað maður er farinn að ryðga. Þannig að ef færslurnar hafa danskan hreim, þá vonum við að það verði fyrirgefið. Við vonum líka að fólk sætti sig við að lesa um líf okkar hér, og að við slökum þá aðeins á í tölvupóstskrifum. Ekki það að við höfum verið þjökuð af því . Við höfum nú víst ekki verið svo virk í því.
Af veðrinu er ekkert nýtt að frétta. Ekkert sláttuveður verið i 2 vikur. Svo hundurinn getur varla pissað lengur fyrir grasi. Maður er orðinn pínu þreyttur á þessari vætu. Eini kostuinn er að rigningin heldur geitungunum í skefjum. Þeir eru búnir að vera algjör plága.
Vikan hefur hins vegar boðið upp á músafaraldur. Húsfreyjan fann illa lykt í fataskápnum, og versnaði hún mjög snarlega. Var húsbóndinn settur í að kanna málið. Fann hann þá dauða mús bak við kattamatinn. Hún var greinilega búinn að hafa heimili þarna í nokkurn tíma. Alveg óskiljanlegt að hvorki kettirnir eða hundurinn hafi tekið eftir þessu. En það var allt þrifið úr fataskápnum og ekki orðið vart við mýs í skápnum síðan. Kettirnir hafa hins vegar verið ansi iðnir við að færa okkur mýs og moldvörpur. Bæði lifandi og dauðar. Við mikla hrifningu fjölskyldunnar. Maður þarf að tékka undir rúminu á hverjum degi. Það er vinsælasti staðurinn í húsinu til að geyma aflann. En það verður fínt að hafa kettina þegar við flytjum. Það má búast við að það verði eitthvað af músum í útihúsunum. Þannig að við vonum að þær haldi þeim eitthvað í skefjum. Það væri ekkert verra ef þær myndi halda þeim utandyra.
Látum þetta gott heita í bili
kveðja frá DK
Ragga, Gummi og Helga og öll dýrin stór og smá, lifandi og dauð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.8.2008 | 09:37
Nýjustu fréttir
Jæja, það er víst liðin vika frá síðasta bloggi, og einhverjir farnir að halda að við séum lögst í dvala (Kalli ). En við erum bara svona róleg í tíðinni. OKkur finnst skemmtilegra að skrifa sjaldnar og hafa þá meira að segja.
Aldrei þessu vant er sól hjá okkur í dag, þetta er búið að vera mikið rigningarsumar, reyndar eins og síðasta sumar líka. En við trúum enn að það geti ræst úr þessu. Maður verður verulega þunglyndur á þessari grámyglu hérna.
Við vorum að skrifa undir síðustu pappírana í sambandi við húsið í vikunni. Svo nú fer vonandi að styttast í að við getum flutt. Það hefur ekkert heyrst ennþá frá fólkinu sem er að flytja út. Þetta er mjög gamalt fólk sem á óhuggulega mikið af húsgögnum og öllu mögulegu. Þannig að það á eftir að taka tíma að flytja það allt. Sonur þeirra býr við hliðina og hann ætlar víst að fá þetta allt saman. Við föluðumst eftir að kaupa nokkra gamla antikskápa, en hann gaf ekki mikið út á það. Við fáum gamla bensínsláttuvél, en annað var ekki til umræðu. Menn passa vel upp á aurinn hérna á Suður-Jótlandi. Hann á risastórt hús, og vantar eflaust einhverjar mublur í það. Gamla fólkið var með olíukyndingu á tímabili og höfðu risastóran olíutank í garðinum. Hann er kolryðgaður og götóttur, en hann stendur í innkeyrslunni hjá syninum núna ! Við höldum kannski að sonurinn þjáist af sama vandamáli og pabbinn, að það megi ekki henda neinu.
Helga byrjaði í skóla í Vojens í vikunni. Það er frekar mikið vesen fyrir hana að komast í skólann héðan frá, en það verður lítið mál þegar við erum flutt. Henni fannst frekar súrt að þurfa að hjóla 6 km til að komast í strætó. En hún tók þessu öllu mjög vel. Það verður að segjast eins og er að rútusamgöngur hér frá Stubbæk eru vægast sagt ömurlegar. En fyrsta daginn var hún svo heppin að einn kennarinn tók hana með frá Aabenraa. Annars tekur túrinn hana um klukkutíma.
Það eru 98 nemendur í þessum skóla, en hann er bara fyrir 10. bekk. 10 bekkur er ekki skylda hérna, svo þetta eru krakkar frá mörgum stöðum. Hún skyldi nú ekki mikið það sem var sagt fyrsta daginn, en þetta kemur nú allt með tímanum. Maður lærir ekki dönsku á einum degi. Hún er allavega jákvæð og það skiptir mestu máli.
Sá gamli (Gummi) átti svo afmæli í gær. Við nefnum engar tölur, enda eru þær svo háarVið tókum daginn með ró, þar sem kappinn var lasinn. Hann er nú eitthvað að hressast, svo kannski hefur þetta verið aldurinn sem hefur lagt hann í rúmið.
Sú gamla (Ragga) var á síðum staðarblaðsins í Haderslev í vikunni. Haderslev er bærinn þar sem hún vinnur. Blaðið birti grein um verkefnið sem hún vinnur við. Vakti mikla lukku, enda konan einstaklega hrifin af að láta taka af sér myndir En meiningin var nú að kynna verkefnið, og það tókst mjög vel. Svo tilganginum er nú líklega náð. Verkefnið gengur út á að vinna með börn og unglinga, sem eiga erfitt. Til dæmis skilnaðarbörn og börn með kvíða. Við vinnum líka með börn sem alast upp hjá geðsjúkum foreldrum. Þetta er mjög gefandi og spennandi vinna.
Þá fara nú tíðindabrunnarnir að vera uppþornaðir. Enda þetta verið óvenjuviðburðarík vika.
Vonum að einhver hafi gaman af að lesa þennan pistil. Reiknum með að það heyrist frá okkur aftur næstu helgi.
Kveðja frá DK
Gummi, Ragga og Helga Rut
Ozzy, Snælda og Snoppa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.8.2008 | 11:46
Fyrsta bloggið
Jæja þá er maður bara orðinn menningarlegur eftir 7 ár í Danmörku. Bara kominn med blogg. Ætlum að reyna að vera með fréttir hérna frá útlandinu.
Aðalástæðan fyrir að við köstuðum okkur út í að verða bloggarar, er að við erum búin að kaupa okkur hús hérna úti. Húsið er í litlum bæ hérna á Suður-Jótlandi, sem heitir Tiset, fyrir utan bæ sem heitir Gram. Gatan heitir Skovvej.
Við vonumst til að geta flutt inn í byrjun september, og byrjað að taka húsið allt í gegn að innan. Svo ef einhvern langar að koma til Danmerkur, endilega kíkja við, og kannski fáið þið að mála smá, eða eitthvað! :)
Við stefnum að því að taka myndir fyrir og eftir, svona svo fólk geti nú séð hvernig verkinu skríður fram.
Húsið er 156 fermetrar, rautt múrsteinshús á tveimur hæðum. Það er byggt árið 1934. Svo var byggt við það 1984 og sett á það nýtt þak.
Það eru ógeðsleg teppi á öllu og mörg lög af veggfóðri. En ekkert sem ekki er hægt að breyta. Eldhúsið er frekar lítið, svo við þurfum einhvern tíma að stækka það. Klósettið er líka frekar lítið, svo það þarf líka að stækka það. En við byrjum nú bara á að gera þetta íbúðahæft.
Það er 1500 fermetra garður, svo það er nóg ´pláss fyrir kartöflugarð og rabarbara. Okkur langar líka að hafa hænur og gæsir. Það væri jafnvel hægt að hafa geitur! . Það er epla- og perutré í garðunum og mikið af öðrum trjám. Sem við erum nú kannski að spá í að fjarlægja með tímanum.
En það er ekki alveg á dagskránni til að byrja með.
Svo er Helga Rut flutt hérna út til okkar. Við erum auðvitað rosa ánægð með það. Enda er hún svo mikið krútt! Það verður mikill munur að fá meira pláss. Við erum vel pökkuð hérna í okkar 65 fermetrum.
Við ætlum að reyna að skrifa inn hérna, svona vikulega. Það koma svo myndir þegar við erum búin að fá húsið afhent.
Skellum nokkrum myndum núna.
Endilega skrifa í gestabókina
kveðja frá DK
Gummi. Ragga og Helga Rut
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)