Færsluflokkur: Bloggar

Hitt og þetta, aðallega hitt

Heil og sæl öllsömul

jæja þá er enn ein vikan liðin. Þetta hefur nú verið heldur viðburðalítil vika. Bara allt þetta venjulega. Í gær renndum við upp til Árósa. Elli var með félögum sínum í heimsókn hjá vini sínum þar, og við notuðum tækifærið til að hitta hann. Við fórum á makkann og fengum okkur borgara. Drengurinn þurfti síðan að fara heim og safna kröftum. Við fórum hins vegar til arabavina okkar og keyptum okkur lambakjöt. Fórum síðan í heimsókn til John vinar okkar. Þar er aldrei boðið upp á minna en 17 sortir, bæði kaffi og mat. Maður fer ekki svangur þaðan. Maður fær líka nýjustu slúðurfréttirnar. Hann býr í blokkarhverfinu sem við bjuggum í áður en við fluttum hér til Suður-Jótlands. ´

Í dag höfum við svo verið að grunna herbergin niðri. Við vorum búin að fá lánaða voða fína loftheftibyssu til að festa loftið upp. Við ákváðum þó að byrja á að mála. Veggirnir drukku svo mikla málningu í sig að við gátum ekki klárað. Það fóru 10 lítrar af málningu á ca. 17 fermetra! :)VIð eigum svo eftir að velja liti í herbergin, við ætlum ekki að hafa þau hvít. Það hefur verið þannig síðustu 7 árin, svo nú er komin tími til að setja smá liti á tilveruna.

Seinnipartinn í dag var svo búið að auglýsa komu jólasveinsins hér til Tiset. Það var boðið upp á kaffi og eplaskífur hér í hesthúsi rétt hjá. Þangað skunduðum við hjónaleysin. Við komum inn og þar sat fullt af fólki. Það hefði mátt heyra saumnál detta þegar við birtumst. En svo hélt fólk áfram að drekka kaffi og borða eplaskífur. Það voru ekki nema 2 manneskjur sem yrtu á okkur. Og við höldum það hafi verið fólkið sem á heima þarna. Okkur þótti þetta nú heldur undarlegt. En við erum farin að hallast að því að þetta sé svona bær þar sem allir vita allt um nýja fólkið, en talar bara ekki svo mikið við það! ;) Og engan sáum við jólasveininn. Hann hefur sennilega verið farin til fjalla aftur.

Jæja þetta verður að duga í bili

bestu kveðjur

Ragga og Gummi

 


Betra er seint en aldrei

Kæru bloggvinir

Þeir sem nenna að lesa þetta hafa eflaust undrað sig á hvar hin vikulega færsla er. 'Astæðan fyrir þessum seinagangi er að húseigendur hér hafa verið þjakaðir af óstjórnlegri og ólæknandi þreytu. Við vorum að vinna í svefnherberginu allan sunnudaginn og í morgun var fótaferð rúmlega 4, til að fara í vinnu, svo maður er  nú orðinn ansi lúinn. Við erum búin að setja einangrun í loftið í svefnherberginu og bita (lektur) í loftið, svo það er tilbúið fyrir loftplöturnar. Reikningskunnátta okkar hjóna er gríðarleg, sem kom vel í ljós við þessar framkvæmdir. Það tók heljarinnar tíma að finna út hversu marga bita þyrfti í loftið. Og hlógum við mikið að eigin heimsku.  En allt hafðist þetta nú. VIð urðum að fá lánaða heftibyssu hjá nágrannanum, sem fylgist vel með framkvæmdum hér. Enda vissi hann nákvæmlega hvað við vorum að gera.  

Við vorum orðin ansi vonlítil um að íbúarnir hér í Tiset kæmu og gæfu okkur eitthvað í tilefni af því að við erum nú flutt í bæinn. Það birtist svo kona hér á tröppunum eitt kvöldið og henti í frúnna einni vínflösku. Hún leit mjög flóttaleg út og flýtti sér heim aftur. Enda við ekki árennileg. Mér skilst að af því henni var ekki boðið inn í kaffi, þá eigum við ekki uppreisnar von hér í bænum.

Helga Rut er flutt á klakann aftur. Henni leist ekkert á baunann. Hún flaug heim síðasta laugardag. Okkur finnst það auðvitað mjög leiðilegt. Það er voða tómt hérna hjá okkur núna. En svona gengur þetta stundum. 

Við erum ekki enn komin með heimasíma og almennilegt internet. Enda ekki nema kannski rúmar 7 vikur frá því við pöntuðum. Við erum nú orðin ansi langeygð eftir þessu. En vonandi fer eitthvað að ske í þessu.

Annars notum við mestan tíma þessa dagana í að halda á okkur hita. Það hefur kólnað hressilega hér og það finnst greinilega. Mann dreymir bara um íslenskt föðurland og lopapeysu.

Jæja við erum hálf andlaus, svo við látum þetta nægja í bili

kveðja

Gummi og Ragga

 


Loksins byrjuð á endurbótum

Kæru bloggvinir

það borgar sig greinilega að kvarta hérna inni, allavega hafa margir kvittað fyrir innlitið. Gaman að sjá hverjir kíkja hérna við. Það þarf nú ekkert að skrifa ritgerð í hvert skipti! Svo takk til þeirra sem kvitta. Við erum búin að setja nýjar myndir af framkvæmdunum, undir albúminu, november.

Vikan byrjaði ákaflega spennandi. Frúin fór út með hundinn á mánudagsmorguninn, og þá stóð hellingur af mönnum í appelsínugulum fötum í innkeyrslunni. Þeir gengu um með eitthvað málmleitartæki. Frúnni datt auðvitað fyrst í hug að þeir væru að leita að gulli, en nei þeir voru að leita að rafmagnsleiðslum. Frúin varð voða glöð og hélt að nú fengjum við loksins almennilegt internet og síma. En neinei, þetta voru auðvitað bara kaplamennirnir. Þeir lögðu kapalinn upp að húsinu og nú bíðum við svo eftir þriðja aðilanum sem á að bora gat inn í húsið og ganga frá. Guð má vita hvenær hann birtist. En allt er þetta þó í áttina.

Við fengum loksins efni í herbergin niðri í vikunni og höfum því verið að pússa og spasla um helgina. Erum líka búin að setja einangrun í loftin. Nú vantar okkur svo bita í loftið til að festa loftborðin á. En það er allavega rosa gott að vera byrjaður. Það verður ekki mikið úr verki hér í miðri viku. Frúin vinnur langt fram á kvöld og kallinn fer á fætur fyrir allar aldir af því hann þarf að keyra svo langt í vinnuna. En þetta mjakast nú allt. Mest þreytandi þegar manni vantar einhverja smáhluti og getur ekki haldið áfram.

Það hefur verið frekar óskemmtilegt veður hér undanfarið, rok og rigning og grámygla. Megum við þá heldur biðja um myrkur og kannski smá frost. Við erum búin að gleyma hvenær það var þurrt síðast.

Við erum orðin miklir sérfræðingar í brenniofnum. Þetta er alveg kúltúr út af fyrir sig. Maður þarf að láta tréð standa úti í minnst eitt ár, áður en það má nota það. Maður má ekki brenna blautt tré. Við þurfum einhvern tíma að endurbæta þennan brenniofn sem við erum með, af því hann heldur ekki nógu lengi heitu. Það eru víst ýmsir möguleikar í boði, sem við þurfum að kanna betur. Það er reyndar líka hægt að halda húsinu heitu með gasi, en við erum að reyna að spara með því að nota brenniofninn. Við vorum að pæla í að losa okkur við gashitarann, en það kostar einhverja fúlgu, svo við látum hann standa.

Köttur nágrannans er farin að gera sig býsna heimakæran hér hjá okkur, hann situr makindalega hér fyrir utan, svo okkar kettir, sem ekki eru sérstaklega kræfir, þora ekki út úr húsi. Wink

Við höldum að mýsnar hafi gefið upp öndina. Það hefur ekkert til þeirra heyrst í nokkra daga. Svo vonandi erum við laus við þann ófögnuð. Danirnir kippa sér ekkert upp við svona og finnst þetta ekkert tiltökumál.

Við renndum til Ribe í dag, sem er ekki í frásögur færandi, en við lentum á eftir bílaröð, sem er ekki algengt hér. Ástæðan var að fremsti bíllinn keyrði meira á öfugum vegarhelmingi en réttum. 'Ymist keyrði hann á 20 eða 60. Bóndanum leiddist þófið og keyrði upp að honum og flautaði af miklum krafti. Við það vaknaði bílstjórinn og við komumst framúr. Þegar við keyrðum framúr sat bílstjórinn og veifaði bjór framan í okkur. Þegar við svo komum til Ribe var löggan búin að taka hann, en hefur nú örugglega bara sagt við hann, skamm skamm og ekki gera þetta aftur. Devil

Jæja þetta var í fréttum helst

kveðja

Gummi, Ragga og Helga Rut


Hin endalausa bið

Heil og sæl

það er ef það er einhver sem les þetta. Það eru allavega ekki margir sem kvitta fyrir! Crying

Síðasta vika hefur boðið upp á margt skemmtilegtDevil. VIð erum búin að bíða eftir ýmsum hlutum. T.d. erum við enn að bíða eftir að fá internettengingu. Það virðist ætla að taka tíma sinn. Við fórum líka í byggingavörumarkað síðustu helgi og pöntuðum efni í herbergin niðri. Það átti svo að koma til okkar fljótlega eftir helgi. Á föstudag höfðum við enn ekkert heyrt, svo frúin hringdi, þá hafði pöntunarseðillinn týnst og því ekkert verið gert í málinu. Svo við þurfum enn að bíða. Eitt af þvi sem við höfum beðið eftir, gerðist líka í vikunni. Rottumaðurinn kom frá kommúnunni. Hann skoðaði alla króka og kima og fann mýs upp á lofti en engar rottur. Hann var nú samt svo almennilegur að henda eitri upp á loftið og vonandi er það nóg til að aflífa þær. Það hefur heyrst ansi mikið í þeim síðustu dagana, svo við vonum að þær séu að taka dauðakippina. Frekar óskemmtilegt að heyra í þeim skrjáfið á nóttinni.

Í ljósi þess að við höfum beðið eftir hinu og þessu til að nota hér innandyra, þá hefur húsbóndinn fengið útrás í garðinum. Hann fór og keypti sér keðjusög og nú mega trén passa sig. Það hafa farið fram fjöldamorð og bletturinn lítur út eins og eftir sprengju. Við fórum með það mesta á haugana í morgun, í slagveðri. Þetta er þó aðeins dropi í hafið. Það er þvílíkur frumskógur hér allt í kring. Með alls konar trjám sem minna á leikmynd í hryllingsmynd. Enda hefur þetta fengið að vaxa villt í fjölda ára. Það kemur líka ýmislegt rusl í ljós þegar trén eru fjarlægð. Samansafn af öllu mögulegu, gömlum þakplötum, skóm, úðabrúsum, svo fátt eitt sé nefnt. Svo það er ekki alveg á næstunni að garðurinn verður hæfur til grillveislu. Við þurfum ábyggilega bráðum að fara að borga toll fyrir allt draslið sem við komum með á haugana. GetLost

Við vonumst nú til að við sjáum brátt eitthvað af þessu efni sem við þurfum til að byrja niðri. Það væri allavega gott að geta einangrað loftið, svo það sé ekki svona kalt uppi. Við erum reyndar búin að fjárfesta í hitablásara sem hjálpar mikið til.

Það hefur verið ansi hráslagalegt og leiðilegt veður þessa vikuna. Rignt heil ósköp og ef ekki rignir þá er þoka yfir öllu. Þetta er týpískt haustveður í Danmörku.

Á eftir ætlar fjölskyldan svo að bregða undir sig betri fætinum og heimsækja góða vini, Steina og Sigrúnu í Kollund. Það hefur ekki gefist tími til þess mjög lengi að fara í heimsókn, svo nú er kominn tími til.

Jæja látum þetta gott heita í bili

kveðja

Ragga, Gummi og Helga Rut


Ekki enn orðinn bæjarstjóri

Kæru bloggvinir

Þeir sem ennþá nenna að lesa bloggið okkar eru eflaust orðnir spenntir eftir að heyra hvort frúin sé orðin bæjarstjóri í Tiset. En bara róleg. Það er engin bæjarstjóri í þessum litla bæ, svo hún verður að reyna að leita eftir öðrum mikilvægum embættum í bænum.

En allavega, frúin þrælaði sér á borgarafundinn á mánudaginn. Þar var margt um manninn, ca. 10% af bæjarbúum var mættur Wink. Meðalaldurinn var ca. 55 ár. Fyrir utan frúna, sem auðvitað er barnung, var annar ungur maður á svipuðu reki. Frúin hélt þetta yrði svona klukkutíma fundur. En neinei, þetta var 3 tíma fundur. Og við fengum heimasmurt bakkelsi og eina gos eða bjór. Já og geri aðrir betur. Það þóttist enginn vita að við værum flutt í bæinn, og stóðu alveg á gati. Sem okkur finnst mjög ótrúlegt. VIð héldum að þetta væri svona bær þar sem maður gæti ekki leyst vind án þess að allir vissu. Nú svo átti að kjósa í nýja stjórn og sem betur fer var búið að útnefna einhverja sem við svo áttum að samþykkja. En frúin var nú samt spurð hvort hún vildi ekki vera með. Hún afþakkaði pent. Cool Í lokin voru svo sýndar fínar ljósmyndir frá Úganda. Þeir voru svo tæknivæddir að þetta var sýnt gegnum tölvu. Já þeir fylgjast vel með hér í Tiset. Ég komst líka að því að meðalaldurinn í bænum er 40 ár. Og íbúafjöldinn í bænum er 120 og 200 með sveitunum í kring. Frúnni þótti nú best að hún sá loksins hinn fræga sálfræðing, (þennan með græna hárið). Sögurnar virðast ekki hafa verið mikið ýktar. Maðurinn var mjög undarlegur útlits, þó ekki með grænt hár. Það sem hann sagði var ekki minna undarlegt.

Nú annars er það að frétta að Helga er loksins búin að fá pláss í málaskóla. Reyndar bara tvo tíma tvisvar í viku. En það er betra en ekkert. Hún á að byrja á þriðjudaginn, svo það verður nú spennandi. Við erum að vinna í að finna eitthvað meira handa henni að gera. T.d svona skóla eins og hún var í, áður en við fluttum. En þetta kemur nú allt í ljós.

Í dag var svo ráðist í að rífa niður úr loftinu í hinu svefnherberginu niðri. Þar höfðu greinilega líka búið mýs og haft það gott. Mann langar ekkert að vita hvert þær eru flúnar núna. Þær hafa allavega ekki sést í eldhúsinu. Það er þannig hér í Danmörku að ef maður heldur að maður sér með rottur, þá verður einhver að koma frá sveitafélaginu og kíkja á það. Svo nú bíðum við eftir að það komi einhver vitringur/rottubani og kíki á málið. Á meðan getum við eiginlega ekkert gert. Við erum búin að panta efni í loft og gólf, svo nú er bara að sýna þolinmæði, enda gerast hlutirnir ekki hratt í Danmörku. Enda erum við orðin svo dönsk í anda að við kippum ekkert upp við að þurfa að bíða.

Við renndum til Ribe bæði á föstudaginn og í dag. Enda ekki nema korters keyrsla þangað. Þeir sem eru vel að sér í sögu vita eflaust að þetta er elsti kaupstaður í Danmörku. Mjög fallegur bær. Og fullt af gömlum og vel varðveittum húsum. Þeir hafa líka eitthvað verið að reyna að lokka til sín storka, en það hefur nú gengið eitthvað brösuglega. Í Ribe er hægt að sækja alla þjónustu, þetta er töluvert stór bær. Svo við erum nú ekki alveg á flæðiskeri stödd.

Jæja best að láta þetta duga að sinni

kveðja

Ragga, Gummi og Helga Rut


Húskaup endanlega frágengin

Kæru bloggvinir

þá er maður endanlega orðin húseigandi. Sko frúin. Bóndinn býr hérna bara og hjálpar til! :) Og borgar auðvitað leigu. Hvað annað. Nei smá spaug. Allavega gott að vera kominn með endanlegan kaupsamning í hendurnar. Þá ætti þetta nú allt að vera klappað og klárt. Bóndinn er að vinna um helgina svo það verður lítið ráðist í framkvæmdir fyrr en í næstu viku. Hann réðst nú samt í að rífa niður úr loftinu í svefnherberginu í vikunni. Hafði nú bara hugsað sér að mála yfir en réðst samt í verkið. Sem var eins gott þar sem undir loftplötunum höfðu búið mýs, þar var allt fullt af músaskít og tvær beinagrindur af einhverjum dýrum. Þannig að nú þarf sem sagt að rífa steinullina niður og skipta um þetta allt. 'Eg segi nú ekki annað en, það var gott að kallinn reif loftplötunar niður. Nú þurfum við bara að setja eitur eða eitthvað til að finna út hvort það eru fleiri félagar hérna inni. Okkur þykir stórmerkilegt að kettirnir hafi ekkert verið æstir út af þessu. Eða hundurinn. Þau virðast ekkert hafa pælt í þessu.

Við erum tíðir gestir á ruslahaugunum og bóndinn er búinn að eignast vin þar. Einn af þeim sem vinnur á haugunum byrjaði að tala við okkur þegar við komum fyrst, og nú spjallar hann alltaf þegar við komum. Hann býr líka hér í bænum. Hann vill endilega að við verðum virk í félagslífinu og bóndanum leist nú vel á það, þar sem hann er einstaklega mannblendinn. Frúin var ekki eins hrifin, þar sem hún er nú ekki sú félagslyndasta. Allavega, hún hélt nú ekki að þetta yrði neitt vandamál. Kallinn gæti þá bara tekið þátt í félagslífinu og hún verið heima. En nei nei. Við skruppum á haugana á föstudaginn og þá sagði haugamaðurinn að það væri borgarafundur í Tiset á mánudag (á morgun) og við værum auðvitað meira en velkomin. Kallinn varð strax upprifinn og vildi mæta. Komst svo að því að hann var á kvöldvakt, svo ekki gekk það nú. Varð það því að samkomulagi að frúin mætir á fundinn og keyrir með haugamanninum, af því kallinn er á bílnum í vinnunni. Jájá einmitt. Haldiði ekki það verði stuð. Allir að horfa á nýju konuna í Tiset, sem ekki nóg með að vera Íslendingur, er líka sálfræðingur. Frúin bíður spennt. Wink Þetta verður mjög menningarlegur fundur, meðal annars mun einhver kona í bænum sýna myndir frá ferð sinni til Úganda. Og eftir auglýsingunni að dæma eru þetta svona gamaldags slidemyndir, á svona litlum kubbum, sem eru settar í svona vél og varpað upp á vegg. Hehehe, það verður spennandi að sjá. Það er sem sagt líf og fjör hér í bænum.
Við fórum í smá göngutúr um bæinn í gær. Þetta er nú bara svona pínulítill bær. Mjög fyndin samsetning. Það eru nokkur hús sem er verið að gera upp, og önnur sem er vel við haldið. Svo eru nokkur inn á milli sem eru í algjörri niðurníðslu. Við höldum að það búi töluvert af gömlu fólki hérna. En það er pínu erfitt að átta sig á því af því þetta er svona bær sem er mikið keyrt í gegnum, svo maður veit ekki hvort fólk á heima hérna eða er bara að keyra til og frá vinnu.

Annars gengur lífið sinn vanagang hér. Úti er rigning eins og vanalega. Kellan þarf að fara að finna til brenni í ofninn, svo hægt sé að fá yl í kofann í kvöld. Við verðum í framtíðinni að kaupa okkur stærri brenniofn sem heldur lengur heitu. Hann nær ekki að halda öllu húsinu heitu alla nóttina. Það kemur skorsteinsmaður í næstu viku að kíkja á skorsteininn. VIð þurfum að fara að fá líf í brenniofninn sem er í stofunni. Það hjálpar örugglega til ef maður getur kveikt upp í honum líka.

Það gengur voðalega hægt að finna tungumálanám fyrir Helgu. Þetta virðist vera mjög erfitt. Sérstaklega þar sem hún er íslensk. Það er hægt að komast í skóla ef maður er Rússi eða Pólverji, en ekki Íslendingur. Svo er tungumálaskólinn í héraðinu aðeins fyrir 18 ára og eldri. En vonandi fer þetta eitthvað að leysast. 

Jæja best að koma sér að verki

kveðja á klakann

Gummi, Ragga og Helga og músafjölskyldan


Alflutt til Tiset

hæhæ allir

þá er komið að fyrstu færslunni hérna frá Tiset. Við erum bara með einhverja þráðlausa tengingu í fartölvunni og þetta er með eindæmum hægvirkt, svo við nennum nú ekki að vera mikið að skrifa hérna inni. Við vitum ekki enn hvenær við fáum tengingu í hina tölvuna. En reynslan segir okkur að við verðum bara að vopna okkur með þolinmæði og bíða.

Við erum loksins búin að skila lyklunum að gömlu íbúðinni í Stubbæk. Það er mikill munur að þurfa ekki að hugsa meira um það. Við vorum búin að vera þar öll kvöld eftir vinnu síðan um mánaðarmót að mála og þrífa. Ótrúlegt hvað 2 manneskjur geta skitið mikið út. Reyndar skíta dýrin sennilega meira út en við. Það eru hunda og kattahár út um allt.

Við erum ekkert búin að gera meira hér í Tiset. VIð erum að bíða eftir einhverjum pappírum sem allt í einu uppgötvaðist að við áttum eftir að skrifa undir, og þeir eru ekki tilbúnir. Svo við tókum bara garðinn aðeins í gegn hér í morgun. Komumst að því að sláttuvélin sem fólkið skildi eftir, virkaði með ágætum. Reyndar er bletturinn svo ósléttur að það þarf nánast að vera á fjórhjóladrifnu tæki til að komast um. En sláttuvélin er sem betur fer sjálfkeyrandi, maður myndi verða þokkalega þreyttur að ýta þessu á undan sér um þessa ófæru. Það þykir mikill lúksus hér í Danaveldi að eiga svona sláttuvél.

Það er eitt eplatré og eitt perutré í garðinum. Svo er nágranninn með 2 risastór eplatré sem teygja sig yfir í garðinn okkar. Eplin og perurnar eru eiginlega alveg dottin af og þetta var heill kerrufarmur  á haugana. Manni hefur alltaf þótt sjarmi yfir þessu að hafa epli og perur í garðinum, en sá sjarmi er farinn. Það er ekkert sjarmerandi við að týna rotin epli og perur upp af jörðinni. Þetta eru líka risastór tré svo það er ekkert auðhlaupið að því að ná þessu. Við fengum líka vel að kenna á brenninetlum í dag. Það er enginn skortur á þeim. Við fundum líka gorma úr gömlum dívan, olíubrúsa og ýmislegt fleira. Enda hefur garðurinn verið í órækt í langan tíma og verið notaður sem ruslahaugur. Svo við eigum örugglega eftir að finna marga spennandi hluti í framtíðinni.

Jæja þetta er nú það helsta sem á daga okkar hefur drifið á síðustu dögum. Við erum ansi lúin eftir flutningana og vinnuna í Stubbæk. Danirnir eru alveg rothissa á því að við höfum ekki tekið okkur neitt frí. Þeim finnst það hin mesta vitleysa! :)

Við reynum að taka fleiri myndir fljótlega og setja hérna inn. VIð erum búin að rífa veggfóður af og gólfefni. Svo þetta er svona eins og fokhelt hús núna.

Jæja baráttukveðjur í kreppuna

Tisetgengið

 

 

.


Flutningur

hæhæ bloggvinir

þá er komið að síðustu færslu hér frá Stubbæk. Við flytjum til Tiset á morgun. Erum búin að vera að vinna í húsinu alla vikuna eftir vinnu. Svo maður er orðinn vel lúinn. Þetta er nú farið að líta heldur skár út, og við getum alveg hugsað okkur að flytja inn í þetta núna. VIð flytjum bara upp á loftið og reynum svo að klára eitt herbergi í einu.

Maður verður væntanlega vel útkeyrður á mánudaginn. VIð erum ekki alveg búin að skoða nógu vel hvernig við komumst í netsamband þarna í sveitinni. Erum búin að panta nettengingu, en það þarf að leggja það inn í húsið. Og þetta tekur 4-6 vikur. VIð höfum kannski verið að pæla í að fá okkur svona þráðlausa nettengingu í fartölvuna á meðan. En við sjáum til. VIð verðum allavega símalaus næstu 4-6 vikur, það er við verðum ekki með heimasíma.

Við þurfum svo að vinna alla næstu helgi í að ganga frá hér í Stubbæk. Það er alltaf það leiðilegasta. Maður vill miklu frekar nota tímann í nýja húsinu. En svona er þetta, það verður gott þegar það er yfirstaðið allavega. Það verður spennandi að sjá hvort kettirnir hverfa þegar við flytjum. Hundurinn er þegar orðinn heimavanur.

Annars held ég láti þetta gott heita, þarf að fara að henda mér á sófann og safna kröftum fyrir morgundaginn.

Látum frá okkur heyra sem fyrst

kveðja

Gummi, Ragga og Helga


Búin að fá lyklana

hæ hæ og hó hó

jæja þá gerðist loks eitthvað spennandi hérna hjá okkur. Við fengum lyklana að húsinu okkar í gær. Við vorum svo æst að við rifum öll teppi af, áður en við tókum myndir. 'Astæðan var eiginlega að það var svo megn kattahlandsfýla og mannapissfýla, að við gátum ekki á okkur setið. Okkur langaði auðvitað líka að sjá hvað leyndist undir teppunum. Svo nú þarf að fara að planleggja hvernig við getum gert þetta íbúðahæft, áður en við flytjum út úr gömlu íbúðinni. Kallinn réðst í að rífa teppið af stiganum. Það hljómar sem eitthvað sem er lítið mál. En gamli kallinn sem bjó þarna hafði þakið stigann með smá teppabútum og neglt trilljón nagla í hvern bút. Allar stærðir og gerðir af nöglum. 'Eg held að það hafi verið minnst 100 naglar í þessum 10-15 þrepum. Þannig að þetta tók nú eitthvað lengri tíma en reiknað hafði verið með. Okkur dettur helst í hug að sá gamli hafi neglt einn nagla í stigann fyrir hvert skipti sem sú gamla hefur eitthvað verið að rífast í honum!Tounge

Gömlu hjónin skildu eftir töluvert af húsgögnum. Mest af því fer í brenniofninn. En það eru fínir borðstofustólar þarna, sem okkur hefur vantað í mörg ár. Svo ekki var það nú verra. Sonurinn hafði greinilega líka fengið einhvern helling af stólum og drasli, úthýsið hjá honum var allvega smekkfullt af drasli.

Næstu dagar fara í að rífa veggfóður af veggjum og þrífa gólfin. Ekki má gleyma naglhreinsun, bæði á veggjum og gólfi. Það voru allir veggir þaktir með plöttum og myndum. Maður getur varla beðið eftir að komast í gang. Auðvitað er kallinn að vinna um helgina, svo það verður ekkert gert fyrr en eftir vinnu á morgun. VIð reiknum með að geta flutt eitthvað af húsgögnum inn næstu helgi. Það verður svo bara að flytja upp á loftið og taka eitt herbergi í gegn í einu. Það er sæmilega snyrtilegt upp á lofti. Þarf bara að þrífa vel og vandlega. Það var mikill léttir bara að losna við teppin. Þvílíkur viðbjóður, maður er enn með pissulykt í nefinu. Það verður spennandi að koma úteftir á morgun og finna hvort lyktin hefur eitthvað minnkað. Það verður svo bara að þrífa með klór og einhverju rótsterku. Það eru fínar gamlar gólffjalir í stofunni. Þær þurfum við bara að pússa upp og lakka. Annars þarf að setja ný gólfefni í öll herbergi. En það er nú alveg hætt að flytja inn þó gólfefnin vanti.

Við rákumst á nokkrar silfurskottur í gær, þegar við rifum af veggfóður. Svo maður þarf að fara í leiðangur og finna eitthvað til að koma þeim fyrir kattanef. Ekki spennandi selskapur.

Helga fékk verðlaun í skólanum í vikunni. Hún hefur mætt alla daga og þykir það greinilega það merkilegt að hún fékk verðlaun fyrir. Við erum auðvitað svaka stolt af stelpunni.Kissing

En allavega, það koma inn einhverjar nýjar myndir á næstunni. En hugmyndin með þessari síðu var nú í upphafi að leyfa áhugasömum að fylgjast með þessu verkefni okkar.
Sem betur fer verður eitthvað rólegra hjá frúnni í vinnunni eftir næstu viku. Samstarfskonan fer til Kúbu í þrjár vikur. Svo þá getur maður allavega farið heim eitthvað fyrr suma daga.

jæja best að fara að pakka niður

kveðja

Gummi, Ragga og Helga


Sveitó eða hvað?

Kæru lesendur

ætli sé ekki best að hripa niður nokkrar línur um það sem hæst hefur borið í liðinni viku.

Vikan hefur boðið upp á margt af því sama og venjulega, þ.e. vinna, éta og sofa. Þessa vikuna hefur kallinn verið á morgunvöktum, sem þýðir að hann þarf að vakna kl. 5 á hverjum morgni. Það þýðir auðvitað að maður er ekki neitt ofur hress á kvöldin.

Helga hefur staðið sig mjög vel í að vakna á morgnana. Hún þarf þó ekki að vakna fyrr en kl. 6:30. Henni líkar vel í nýja skólanum. Búin að kynnast einhverjum krökkum, það hjálpar nú alltaf til. Við getum nú ekki endalaust verið skemmtilega hérna gömlu skötuhjúin. Verst að þegar við flytjum þá verður erfitt fyrir hana að komast í þennan skóla. En það var alltaf meiningin að hún færi í málaskóla þegar við flyttum. VIð sjáum til hvað setur. Þessi skóli sem hún er í núna átti bara að vera svona tímabundin lausn, svo hún hefði eitthvað fyrir stafni þar til við flyttum.

Í gær var dagurinn tekinn snemma og haldið upp í sveit. Heimasætan ákvað að verða eftir og sofa. Við hjónaleysin keyrðum ca. 40 km til Arnum, sem er lítill bær, rétt hjá nýja húsinu okkar. Þar var haldinn stór hesta- og dýramarkaður. Maður gat skoðað og keypt hesta, hænur, ketti, hunda, kanínur og fugla, svo fátt eitt sé nefnt. Það var auðvitað líka hægt að kaupa fatnað og ýmislegt skran. Þetta var svona ekta flóamarkaðsstemning. Manni langaði bara í Kolaportið að kaupa lakkrís!Tounge. VIð keyptum nú ekkert nema 2 gúrkur. En það var rosa gaman að skoða. Hefðum alveg getað hugsað okkur að taka með eins og einn eða tvo hesta, ketti, kanínur, hænur og hvolpa. En létum ekki freistast. Ekki í þetta skiptið allavega.
Ekki nóg með að það sé rosa gaman að skoða dýrin á svona mörkuðum. Það er ekki minna skemmtilegt að virða fyrir sér mannlífið. Það er alveg ótrúlega áhugavert fólk á svona stöðum. Allt öðruvísi en t.d. í Árósum. Við erum ekki með fordóma, en fólk getur verið alveg einstaklega sveitó. Sérstaklega á svona stöðum þar sem sama ættin hefur búið í 100 ár og ekki farið mikið út fyrir bæjarlækinn. Svona staðir finnast víða í Danmörku og má nefna kóngafjölskylduna sem dæmi. Þeir eru að vísu farnir að sækja kvonföng til útlanda núna. En áður var þetta nú ekki mikið blandað. Þetta er nú eflaust allt hið besta fólk, en bara gaman að sjá.

Húsbóndinn getur ekki beðið eftir að lifa sig inn í stílinn þarna útfrá. Er búin að ákveða að kaupa sér smekkbuxur, þykka köflótta skyrtu og tréklossa. Til að toppa þetta má svo ekki gleyma hinu mjög svo klassíska yfirvaraskeggi. Helst dálítið þunnu. Verst að það er ansi erfitt fyrir hann að fá tréklossa í sínu númeri, svo kannski verða íslensku gúmmítútturnar að duga í bili. Frúin hefur ekki íhugað hvaða stíl hún eigi að velja. En það verður líka erfitt að toppa hinn sálfræðinginn sem býr í bænum. Sá litar hárið grænt og fer í allar jarðafarir á svæðinu, til að fá frítt að borða. Skiptir þá engu, hvort hann hefur þekkt viðkomandi eða ekki. Hann klippir danska fánann í tvennt og svo mætti lengi telja. Hann lætur lyklana að húsinu sínu hanga fyrir utan, svo fólk geti notað klósettið hjá honum.  Af því það er ekkert almenningsklósett í Tiset. SidewaysAf þessu má sjá að við verðum bara talin nokkuð eðlileg þegar við flytjum uppeftir. Forstöðukonan í vinnunni hjá frúnni, býr þarna í nágrenninu og ætlar að heyra hvort það séu ekki komnar einhverja sögur um okkur. Þeir eru nú meira en lítið hugmyndasnauðir ef þeir geta ekki fundið upp á einhverju um okkur. Ekki nóg með að vera Íslendingar, konan er líka sálfræðingur. 'Eg er að pæla í að lita hárið kannski appelsínugult. Grin Svona til að falla inn í kramið.

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili

bestu kveðjur

Gummi, Ragga og Helga 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband