Jólasveinaöngþveiti

Kæru bloggvinir

hér hefur aldeilis verið mikið um að vera. Veðrið hefur verið mjög gott, stilla og smá kuldi, en bara fínt miðað við árstíma. Það er búið að vera mjög milt veður hingað til, en allar spár segja að það verði mjög harður vetur. Vonandi að hann vari þá bara ekki lengi.

Á föstudaginn var farið með Ágúst í 4 ára skoðun og sprautu. Hann kláraði sig mjög vel af þessu og fékk toppeinkunn hjá lækninum og sælgæti að launum. Hann var búinn að tala mikið um að hann ætlaði ekkert að gráta þegar hann fengi sprautuna, en hann gat nú ekki haldið aftur af sér. Eftir hádegið var jólaföndur í skólanum hjá Auði. VIð dunduðum okkur þar í nokkra tíma. Svo var haldið beint á jólaball hjá leikskólanum. Það var að venju einstaklega óskipulagt, en það kom allavega jólasveinn og gaf börnunum sælgæti. Það er nú víst það sem þetta gengur út á.

Í gær fórum við svo og vöktum jólasveininn í Gram. Han sefur í kastalanum hérna. Þegar það var búið að vekja hann fengu börnin að keyra í slökkviliðsbílum niður á torg. Auður og Ágúst fengu að sitja í gömlum brunabíl sem verkstæðiskarlinn okkar á. Það var víst ekki mjög leiðilegt. Verst að Gumma langaði svo með, en varð að víkja fyrir börnunum. Þegar við komum heim, komu 3 af börnunum hér við hliðina og voru hér í nokkra tíma að leika. Það voru nokkuð þreytt börn sem fóru í bólið í gær.

Í dag var svo farið að vekja jólasveininn í bænum þar sem Auður er í skóla. Þar eru börnin dregin í kerru, ein með fjórhjóli fyrir og ein með gömlum traktor. Það er keyrt í kringum bæinn og endað á verkstæði. Við vöktum jólasveininn líka þar. Það var sá skemmtilegasti jólasveinn sem við höfum séð í Danmörku. Hann var með ýmis atriði til að skemmta börnunum og sýndi þessu heilmikinn áhuga. Flestir jólasveinar sem við höfum séð, hafa verið mjög hlutlausir og óspennandi.

Síðan var okkur boðið í kaffi hjá kunningjum okkar sem eiga börn á sama aldri og Auður og Ágúst. Það var mikið fjör. Svo var haldið heim og nú er svo eftir að slaka á. Það verður alltaf eftir.

Kveðja

Gramgengið


Bloggfærslur 27. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband