Afmælishald

Kæru bloggvinir

hér hefur verið sólarlítið undanfarna viku, en svo sem fínt veður. Það er mjög þurrt, en það hefur eitthvað lítið rignt.

Síðustu vikuna ber hæst afmælishald ungfrúarinnar. Hún var mjög spennt alla vikuna og spurði á hverjum degi hvað væri langt þar til hún ætti afmæli. Ekki bætti nú úr skák að hún fór með skólanum í Legoland á föstudaginn og það var mikil spenna í því samhengi líka. Hún var allan föstudaginn í Legolandi og vel þreytt þegar hún kom heim, en átti mjög góðan dag. Hún fékk svo bekkjarsystur sínar í afmælisveislu í gær. Hún var búin að hlakka svo mikið til að hún bræddi úr sér nokkrum sinnum meðan á veislunni stóð. Henni þótti eitthvað erfitt að deila dótinu með öðrum og svo var eitthvað annað að angra hana. Hún talaði nú samt um að henni hefði þótt þetta allt mjög gott og var sátt með daginn. Hún var alveg hissa á því hvað hún fékk margar gjafir. Svo fékk hún líka pening og ekki var það nú minna spennandi. Hún er ekki vön að eiga pening, svo þetta eru viðbrigði.

Ágúst fór í pössun meðan á afmælinu stóð, og var að koma heim núna rétt áðan. Hann fór bæði á 17. júní hátíð hjá Íslendingum í Sönderborg og í tjaldútilegu. Hann svaf í tjaldvagni í nótt og var mjög sáttur. Það var strákur á hans aldri með í ferðinni og þegar þeir voru hættir að vera feimnir, þá léku þeir sér víst vel saman. Nú eru þau öll að leika saman og Ágústa vinkona Auðar er í heimsókn. Það þykir þeim ekki leiðilegt.

Annars er bara verið að pakka og hamast. Þetta skríður nú allt áfram. Við erum að vona við getum flutt eitthvað næstu helgi. En þetta hlýtur allt að hafast. Við erum búin að losa okkur við mikið af alls konar dóti. En það er nú nóg samt.

Maður er farin að horfa til sumarfrís í hyllingum. Það verður gott þegar þetta er allt saman búið. Við erum að spá í að reyna að fara í sumarbústað einhverja daga, þá getur maður kannski slappað eitthvað af. Það er allavega erfiðara að slaka á þegar maður er heima.

Bóndinn fylgist spenntur með fótboltanum, svo við erum bara í sitt hvoru lagi á kvöldin. Frúin horfir á sjónvarpið inn í svefnherbergi og bóndinn í stofunni.

En þetta kemur nú allt í ljós. Best að fara að reyna að troða í nokkra kassa í viðbót, svona meðan það er friður.

Kveðja

TIsetgengið


Bloggfærslur 19. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband