Gleðilegt nýtt ár

Kæru bloggvinir

Gleðilegt nýtt ár til allra þarna úti og takk fyrir að fylgjast með okkur hérna hinum megin.

Eins og fram hefur komið á fésbókinni var frúin svo ótrúlega heppin að mauka á sér ristinni milli jóla og nýárs. Hún hefur nú alltaf verið einstaklega lagin við að detta og meiða sig, en aldrei hefur henni tekist eins vel til og nú. Henni heppnaðist að brjóta eitthvað lítið bein inn í ristinni og rífa einhverja liðþófa úr sambandi. Það var farið í aðgerð á fimmtudaginn og allt leit í fyrstu vel út, en við nánari skoðun kom í ljós að þetta var ekki nógu vel gert. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina taldi sig nógu færan til þess, en þetta er eitthvað mjög sérstakt brot og krefst mikillar sérhæfni að laga það, og þá hæfni hafði hann sem sagt ekki. Yfirlæknirinn kom og tjáði frúnni þetta daginn eftir aðgerðina. Henni til mikillar ánægju. Það er bókuð ný aðgerð á morgun. Vonandi að það verði þá ekki píparinn sem á skurðlæknavaktinni.

Maður veit ekki hvort maður eigi að gráta eða hvað. EN það er auðvitað gott að þeir viðurkenna mistökin og vilja reyna að bæta það upp. Málið er bara að þegar ég verð skorin á morgun, þarf að skera á þremur stöðum, í staðinn fyrir einum. Það verða settir einhverjir naglar sem þarf að taka úr eftir 4-6´mánuði og það er mikil sýkingarhætta þegar það er skorið´aftur eftir svona stuttan tíma. Við erum í skýjunum yfir þessu öllu. En frúin hefur alltaf haft mikla hæfileika til að vera óheppin, svo það er víst bara hluti af að vera hún.

Hún er því búin að liggja óstarfhæf með löppina upp í loft. En hún er of bólgin geta þeir ekki skorið á morgun. Bóndinn er því búinn að hafa nóg að gera. Hann tók nú líka eina byltu milli jóla og nýárs, braut sem betur fer ekki neitt, en er búinn að vera mjög lemstraður og kvefaður í þokkabót. Þetta frí hefur því ekki alveg verið eins og planlagt, en það væri nú líka eitthvað nýtt.

FRúin er fjarri góðu gamni næstu 8 vikur, má ekkert stíga í löppina og þarf að láta hana vera hátt uppi, svo hún bólgni ekki mikið. Hvernig haldið þið að það gangi. FRúin hefur aldrei verið góð að sitja kyrr, svo þetta er virkilega stór æfing.

Við reyndum nú að halda áramótin hátíðleg í gærkvöldi, þrátt fyrir allt þetta vesen. Börnin voru næstum jafn spennt og á aðfangadag. Bóndinn stóð sveittur í eldhúsinu allan daginn og töfraði fram dýrindismat. Auður er orðin mjög spennt að fara í skólann aftur. Saknar kennarans og krakkanna.

Helga og Kristín Júlía fara heim á þriðjudag. Það verður eitthvað kvartað hér þegar þær fara. Planið er að Ágúst fari í leikskólann á morgun, svona til að létta lífið fyrir Helgu, hún er búin að vera í fullri vinnu eftir að frúin braut fótinn. Auður byrjar svo í skólanum á miðvikudaginn og þá ætti allt að komast í einhverjar skorður. Bóndinn verður að yfirtaka bæði sundæfingar og reiðnámskeið, en hann fer nú létt með það.

Jæja ætli sé ekki kominn tími á að hoppa á klósettið. Það er ekkert smá sem maður finnur fyrir harðsperrum þegar maður getur bara notað einn fót og hendur til at komast áfram. VIð fengum lánaða göngugrind á sjúkrahúsinu.

En talandi um óheppni, þá eru fleiri óheppnir en frúin. Konan sem lá við hliðina á henni á sjúkrahúsinu var að fara yfir til nágrannans í rokinu sem gekk yfir fyrir jólin. Hún tókst á loft og datt á mjöðmina og braut hana. Þvílík óheppni.

En jæja bestu nýárskveðjur frá okkur hrakfallabálkunum


Bloggfærslur 1. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband