Afmæli

Kæru bloggvinir

þá kemur enn einn ekki sólarpistillinn hérðan úr Danaveldi. Það er ótrúlegt hvað þetta ætlar að vera erfitt í ár. Það hafa verið einhverjar sólarglætur hér í vikunni, en ekkert sérstaklega mikið og um helgina hefur verið skýjað og frekar kalt.

Í gær var haldið upp á afmæli ungfrúarinnar. Hún var alveg að rifna úr spenningi og var mjög ánægð og þreytt eftir daginn. Það komu ekki allir, en það var kannski eins gott þar sem það var ekki hægt að vera úti við og þá er ansi þröngt hérna inni. Hún fer svo með sunnudagaskólanum í ferð á fimmtudaginn og svo er vinakvöldverður á föstudagskvöld. Á laugardaginn heldur svo Auður smá partý fyrir stelpurnar í bekknum. Sem betur fer eru þær bara 5 og þær koma ekki allar. Þær verða hér í tvo tíma, sem getur bæði gengið vel og illa.

Í dag fórum við svo í heimsókn til Hildar og Tóta, sem eru í fríi í sumarbústað hérna rétt hjá. Það var mjög fyndið að heimsækja þau í Danmörku. Þau ætla svo að koma í mat í kvöld. Við förum ekki í frí fyrr en um miðjan júlí, svo við getum nú ekki verið mikið með þeim, nema um helgina.

Á morgun kemur svo Helga Rut og fjölskylda og ætlar að vera í mánuð. Þau eru svo heppin að þau fáa að passa húsið hjá Óla og Ástu vinum okkar, sem eru að fara til Bandaríkjanna. Þá verður ekki alveg eins þröngt á okkur allan tímann. Við vonum að það verði komið sumar, þegar við förum í frí. Við getum kannski fengið lánaðan sumarbústað, allavega eins viku í sumarfríinu. Það væri fínt að geta komist eitthvað í burtu. Annars er maður alltaf eitthvað að vesenast hérna heima við. Það er ekki eins og það sé hægt að finna sér eitthvað við að vera.

Ágúst er að byrja að æfa sig að pissa í kopp. Hann hefur prófað að vera bleiulaus, en gleymir ennþá að fara að klósettið. Það er eins og hann finni meira fyrir því að pissa en kúka, því hann segir oftar frá þegar hann þarf að pissa. En þetta kemur nú örugglega með æfingunni. Honum finnst líka mjög spennandi að skoða á sér spottann. Það er mikið sport.

Auður lék sér mikið við Maju vinkonu sína í gær. Það er mjög fyndið að þó þær hittist ekki svo oft, þá leika þær sér voða vel, þegar þær eru saman. Það var einhver strákur hér úr nágrenninu að eltast við þær í gær og þetta var mjög spennandi. Þeim fannst hann mjög pirrandi en líka mjög spennandi. Þær verða einhvern tíma góðar. Auður er orðin voða mikil gella eftir hún byrjaði í skólanum og dillar sér eins og stóru stelpurnar. Þetta byrjar snemma.

Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna börnum og búi

kveðja

Ragga, Gummi og restin

 

 

 


Smíðar

Kæru bloggvinir

við erum enn að bíða eftir sumrinu. Það hefur verið sæmilegt veður um helgina, en frekar mikill blástur, svo það hefur ekki verið neitt sérstaklega hlýtt. En þetta er fínt vinnuveður. Það er búið að bralla ýmislegt utandyra. Bóndinn er búinn að smíða tvö beð. Það eru komnar jarðarberjaplöntur í annað beðið og óákveðið hvað á að setja í hitt. Það hlýtur að finnast eitthvað. Við tókum niður flaggstöngina og þrifum hana og máluðum stólpann sem heldur henni. Börnin voru mjög dugleg að hjálpa til við að þrífa. Enda flest börn hrifin af að sulla með vatn. Frúin leit svo af þeim augnablik og á meðan stakk Ágúst höndunum á bólakaf í málningarfötuna. Hann var smúlaður fyrir utan húsið og varð að fara í þurr föt.

Tjaldvagninn var opnaður og loftað út. Það er reyndar aldrei neinn raki í honum. Manni langaði bara í útilegu þegar það var búið að opna hann. En það er ekki orðið nógu hlýtt á nóttinni til að sofa í honum.

Við græddum auka frídag á föstudaginn, af því það var þjóðhátíðardagur Dana. Það virðist nú ekki vera haldið hátíðlegt. En fít að fá auka frídag. Það var brunað til Þýskalands og börnin voru klippt. Það er mun ódýrara en í Danmörku. Klippikonurnar tala bara þýsku, en með handabendingum og einhverju babli hafðist þetta. Og viti menn, meðan við sátum og biðum eftir að þær hefðu tíma fyrir okkur, settist hjá okkur maður. Hann fór svo bara að tala íslensku upp úr þurru. Þetta var þá maður sem hefur búið í Danmörku í 21 ár. Alveg ótrúlegt, hvar maður hittir Íslendinga og hvað þeir eru margir.

Næstu vikurnar verður áfram nóg að gera í félagslífinu. Bæði með afmælum og hinu og þessu. Það er skrýtið hvað þetta lendir allt á sama tíma.

Við erum farin að bíða spennt eftir hversu mikla uppskeru við fáum af þessum nytjaplöntum sem við erum komin með. Í fyrra kom ekki nema ein pera á perutréð. En nú lítur út fyrir að það komi fleiri. Og líka á eplatréð.

Við fundum 3 froska hérna ofan í kjallaraglugganum, undir bunka af laufblöðum. Auður sá um að koma þeim út í skóg. Hún er mikil áhugamanneskja um flest kvikindi og safnar pöddum og ormum í fötur. Ágúst gerir auðvitað bara eins og hún.

Bóndinn er búinn að vera að setja ljósmyndir á tölvutækt form, svo þetta glatist ekki. Auður hefur mjög gaman af að skoða gamlar myndir af sér. Ótrúlegt, hvað þetta barn hefur breyst mikið.

Jæja ætli sé ekki best að safna orku fyrir næstu viku. það er aldrei þessu vant, heil vinnuvika.

Kveðja

Tisetgengið

 


Hvar er sumarið?

Kæru bloggvinir

við erum farin að halda að sumarið hafi farið framhjá Danmörku í ár. Það er ennþá hálfgert haustveður og ekkert spennandi að gerast í því samhengi. Þetta er hálfgert haustveður sem er hjá okkur núna. Þeir eru eitthvað að lofa betra veðri í næstu viku, svo við vonum það rætist úr þessu. Þetta er allavega orðið ágætt.

Það er búið að vera nóg að gera í skemmtanalífinu um helgina. Á föstudaginn var bæði sumarhátíð hjá dagmömmunni og í skólanum. Það var meiningin við deildum börnunum og strákarnir færi saman til dagmömmunnar og stelpurnar í skólann. En svo varð karlinn veikur af einhverri flensu og komst ekki úr húsi í nokkra daga. Frúin fór því með bæði börnin í skólann. Það rigndi eldi og brennisteini og var mjög óspennandi. En börnin skemmtu sér vel, svo það er víst það sem skiptir máli.

Auði er búið að dreyma svo illa undanfarið að við ákváðum að fara með hana til miðils til að reyna að losna við þessar draumfarir. Hún hefur ekki kvartað um það síðan, svo við vonum að hún hafi losnað við þetta. Næsta mánuð verður svo nóg að gera í afmælum. Auður heldur veislu fyrir fullorðna og börn, sitthvora helgina. Það verður örugglega mikið fjör. Hana hlakkar allavega mikið til. Við fórum í búð í morgun og á leiðinni heim sá hún vinkonu sína úti að labba. Hún notaði því tækifærið til að leika við hana. Við hjónin erum því bara í afslöppun. Það er víst ár og öld síðan það gerðist síðast. Það er víst best að nota tækifærið. Það er ýmislegt eftir að gera þennan mánuðinn. Það þarf að ráðast í að klippa hekkið, við reynum það sennilega næstu helgi. Ef veðrið verður sæmilegt.

Við þræluðum okkur í að setja niður nokkrar jarðarberjaplöntur hér fyrir framan í gær. Við ætluðum að henda niður nokkrum baunaplöntum líka. En vantar að finna pláss fyrir það.

Óli, Guðný og börn komu í gær. Það var pínu erfitt að hafa svona mörg börn á litlu svæði. Þau gátu lítið verið úti fyrir kulda og vosbúð. En hlupu út á milli skúra. Í dag virðist hann ætla að hanga þurr. En það er skýjað og skítkalt.

Jæja ætli við reynum ekki að fara að slaka á.

Kveðja

Tisetgengið


Hvítasunna

Kæru bloggvinir

Héðan er allt ágætt að frétta. Það er búið að vera nóg að gera í skemmtanalífinu. Við höfum ekki þurft að hafa mikið fyrir að elda matinn síðustu daga. Á fimmtudaginn var kvöldmatur í sunnudagaskólanum hjá Auði. Á föstudaginn urðum við svo að skipta okkur í stelpulið og strákalið. Stelpurnar fóru í vinakvöldverð, Auður mátti ekki missa af því. Strákarnir fóru í grillpartý með Íslendingunum í Gram. Við stelpurnar fórum svo í það partý, þegar það var búið að gera tilraun til að kristna okkur. Við sváfum svo þar, af því börnin voru orðin svo þreytt og tómt vesen að fara að troða þeim í bílinn og keyra heim. Í gærkvöldi vorum við svo heima, og horfðum á eurovision. Við vorum sammála um að það væri ansi mörg góð lög. Það er langt síðan manni hefur fundist það. Frúin vakti nú ekki yfir þessu öllu. Hún var alveg búin eftir daginn. Börnin voru með timburmenn eftir allt partýstandið og voru alls ekki á þeim buxum að hlusta á móður sína. Í dag var svo brunað til Odense. Það var voða fínt veður þar, og börnin voru úti að leika í allan dag. Það er ótrúlegt hversu mikla orku þessi blessuð börn hafa. Það er ekki mikið um rifrildi þegar þau geta verið svona mikið úti að leika. Maður fer að velta fyrir sér hvað börn léku sér með fyrir komu trambolína. Ágúst og Auður eru voða dugleg að leika sér úti, þó að það sé ekki mjög hlýtt ennþá. Þau drullumalla og róla sér næstum á hverjum degi. Og rífast ekkert mjög mikið.

Það er búið að vera stór markaður í Gram um helgina. Þar er auðvitað tívolí og við fréttum að það væri hægt að fá afsláttarmiða þar á föstudaginn. Við vissum bara ekki að það þurfti að nota þá á föstudaginn. Við urðum því að drífa okkur að nota þá, áður en við þurftum að fara í hin partýin. Börnunum fannst þetta svaka mikið fjör. Við fórum í eitthvað tæki sem snérist í marga hringi, hátt uppi í loftinu. Auði og Ágústi fannst þetta mikið fjör, en frúin er enn hálf ringluð eftir þessi ósköp. Við náðum að klára miðana og komast á næstu áfangastaði á réttum tíma. Nóg að gera.

Á morgun er svo meiningin að reyna að koma niður tómatplöntum hér fyrir utan. Það hefur verið of kalt á nóttinni til að setja þær út. Svo er bóndinn ennþá að smíða hábeð, sem hann langar að setja jarðarber og eitthvað meira í. Það kemur í ljós hvað verður sett í það. Í næstu viku er svo þjóðhátíðardagur Dana og þá eru skólar og svoleiðis lokað, svo við tökum líka frí. Ekki geta blessuð börnin verið ein heima.

Jæja ætli sé ekki best að fara að henda sér á sófann fyrir svefninn.

kveðja

Tisetgengið


Löng helgi

Kæru bloggvinir

þá er maður búinn að fá langa helgi. Það var nú ekki vanþörf á. Það var ansi margt sem hafði safnast upp og var ógert. Það er búið að vinna sig eitthvað niður úr bunkunum, en það leggst nú örugglega eitthvað til. Það er allavega gott þegar maður nær að afkasta svona miklu. Það er líka búið að fara í töluvert af heimsóknum. Það er nú ekki alltaf tími fyrir svoleiðis, svona dags daglega. Veðrið hefur nú ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Bóndinn var að smíða hábeð hér fyrir utan í dag og frúin var búin að fara margsinnis inn og bæta á sig fötum, en var samt kalt. Bóndinn þóttist mjög svalur og var á stuttbuxunum. Börnin byrjuðu líka á að vera í stuttbuxum, en Ágúst endaði nú í síðbuxum. Auður var þrjóskari og gafst ekki upp. Hún getur ekki beðið eftir að það verði nógu hlýtt til að geta sleppt einhverju af fötunum.

Í gær fórum við í heimsókn til Gunnþóru í Kolding. Við vorum ekkert búin að sjá nýjasta afkvæmið, sem er orðið 6 mánaða. Við komumst að því að við höfðum ekki hittst í 1 1/2 ár. Það er ekki nema við stórviðburði, svo sem barnsfæðingar og annað slíkt, að við hittumst. Og það fer nú að verða síðstu forvöð. Frúin er allavega fallin á tíma og Gunnþóra eitthvað farin að halla undir það síðasta. Kannski maður verði bara að reyna að hittast, þó það sé ekkert merkilegt að gerast. Auður og Maja léku sér eins og þær hefðu aldrei gert annað. Þó þær hittist nú svona sjaldan. Þær voru úti að tína snigla og hitt og þetta í dollur. Sýndu svo foreldrunum afraksturinn, mjög stoltar. Foreldrarnir voru líka gríðarlega hrifnir. Allavega meðan kvikindin voru ofan í dollunum.

Nú er svo að plana hvað á að setja í hábeðið. Það er allavega planið að setja niður jarðarber. Við höfum verið með það, en það var svo erfitt að eiga við þau, af því það safnaðist svo mikið gras í þau. Við erum búin að kaupa tómatplöntur, en ekki búin að setja þær út, af því það er enn of kalt á nóttunni. Þeir eru eitthvað að tala um að það fari að hlýna upp úr næstu helgi. Það væri nú ekkert leiðilegt.

Auður missti tönn í gær og hún var auðvitað sett undir koddann. Hún kom svo inn til okkar í morgunn, alveg miður sín, af því tannálfurinn hafði, að því hún hélt, bara tekið tönnina og skilið eftir tóman poka. Við nánari athugun kom í ljós að það voru 20 kr í pokanum. Það hjálpaði nú eitthvað upp á skapið. Þau systkin voru nú eitthvað orðin þreytt á hvort öðru hér í dag. Samt var Auður búin að vera hjá vinkonu sinni part úr degi. Þau þrófast best í föstum römmum og með leikfélaga við höndina. Annars eru þau voða góð að leika hér fyrir utan þegar veðrið er sæmilegt. Þau hafa ekki mikið úthald, þegar það er svona kalt eins og í dag.

Framundan er svo heil vinnuvika. Alveg spurning hvort maður höndli það, eftir alla þessa frídaga. Gott að það er hvítasunna næstu helgi. Annars yrði þetta hálf vonlaust. Svo er nú ekki langt í sumarfrí. Þetta verður allavega örugglega mjög fljótt að líða.

Jæja ætli þetta verði ekki látið nægja í bili.

kveðja úr vætunni og vindinum


Tívolí og traktor

Kæru bloggvinir

það hefur nú ekkert verið slegið slöku við hér um helgina, frekar en venjulega. Það rigndi helling í gær, svo það var reynt að þrífa eitthvað hér innan dyra. Við vorum sem betur fer búin að slá garðinn. Náðum því á föstudaginn. Það hefur verið eitthvað óstöðugt veður, svo það þarf að sæta lagi til að ná að slá. Annars sprettur ekki neitt rosalega ennþá, af því það vantar ennþá upp á hitann. Í dag hefur svo verið sól, en út af því að það hefur verið frekar mikið rok,þá er ekkert sérstaklega hlýtt, nema rétt meðan maður situr í sólinni. En við getum nú ekkert kvartað miðað við veðurfréttirnar frá Íslandi.Það er bara óvanalegt að það sé ekki komið meira vor á þessum tíma.

Við erum ekki ennþá búin að setja niður tómataplöntur. Það verður að reyna að ráðast í það um næstu helgi. Það væri nú ekki vanþörf á að taka gluggana í gegn líka. þeir hafa ekki fengið vatn og sápu síðan síðasta sumar, svo það er víst alveg komin tími á þá.

Auður hefur verið að leika við vinkonu sína alla helgina og var orðin verulega uppgefin þegar hún fór í dag. Þær hafa nú verið nokkuð stilltar. Ekki gert neitt rosalega mikið af sér. Krakkarnir eru voða duglegir að vera úti. Ágúst er voða spenntur fyrir að hjóla á þríhjóli og er nú bara orðinn nokkuð góður. Hann virðist hafa betra jafnvægi en bæði móðir hans og systir. Eins gott hann fari ekki bara að stinga af á hjólinu.

Í dag var svo farið á hestamarkað sem er haldinn á hverju vori. Það var nú frekar lítið um að vera. Oft verið meira. En aðalmálið var að krakkarnir vildu fara í tívolíið sem er þar. Það er ótrúlega dýrt og tækin eru hálfgert rusl. En þeim finnst þetta voða spennandi, svo það er fyrir öllu. Við stoppuðum nú ekkert lengi, það var frekar svalt í veðri. Við náðum líka að horfa á einhverja gamla traktora keyra um. Ágústi fannst það allavega mjög spennandi. Þau systkin eru orðin mjög upptekin af dúkkum, svo það var farið upp á loft og sótt dúkkudót. Ágúst er mjög umhyggjusamur og kann alveg taktana. Hann leikur svo samtímis með verkfærasett. Reynir að klippa tærnar af dúkkunum með klípitöng. Hann fylgdist áhugasamur með móður sinni sem fann gömul ónotuð gestahandklæði uppi á lofti og saumaði þvottastykki úr þeim. Hann sat og fylgdist með þessu af miklum áhuga.

Í kvöld var svo hent á grillið. Það klikkar ekki. Það er ekki orðið nógu heitt til að borða úti, en samt rosa gott að fá grillmat.

Jæja framundan er aldeilis löng vinnuvika. Alveg þrír dagar. Maður ætti nú að komast í gegnum það.

Kveðja

Ragga, Gummi og börnin


rok og rigning

Kæru bloggvinir

eitthvað er vorið að stríða okkur. Það skiptir ansi mikið skapi og maður veit aldrei hvenær maður á von á sólarglætu. Það hefur verið ansi mikið rok og svo líka rigning í dag. Það var búið að kaupa á grillið, svo bóndinn varð að standa úti í hífandi roki og rigningu og grilla. Það heppnaðist nú ágætlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hann er svoddan hetja. Búinn að prófa þetta nokkrum sinnum áður. Dönunum finnst þetta örugglega óttaleg vitleysa, því þeir grilla yfirleitt bara þegar það er svo gott veður að maður geti borðað úti. Við erum ekki búin að prófa það ennþá á þessu tímabili. En við vonumst eftir mörgum góðum grilldögum á pallinum í sumar.

Við fengum auka frídag á föstudaginn. Það er ekki haldið upp á 1. maí hérna, en við fengum bænadag í staðinn. Dagurinn var nýttur í að þrífa kofann frá toppi til táar. Í gær var svo ráðist í þrifnað utandyra. Frúin hreinsaði beðið hér fyrir framan og hamaðist eitthvað við að sópa og þrífa gangstéttina. Auði var boðið að leika við Ágústu vinkonu sína í nokkra klukkutíma. Ágúst vissi ekkert hvað hann átti af sér að gera. Hann er vanur að hafa systur sína til að skipta sér af.

Í morgun var svo farið í verslunarleiðangur til Þýskalands. Þar var nóg að gera eins og vanalega. Þetta er nú ekki skemmtilegustu túrarnir, en maður lætur sig hafa ýmislegt. Börnin höguðu sér óvenjulega vel. Það er nú ekkert sérstaklega auðvelt að vera lítið barn í búðum, þar sem sælgætið er upp um alla veggi og við hliðina á manni þegar maður stendur í biðröð á kassana.

Frúin dró fram þríhjól um helgina og leyfði Ágústi að prófa. Hann var smá stund að finna út úr þessu, en þetta gengur vonum framar. Hann þarf bara að fá smá aðstoð til að fara af stað og svoleiðis. En hann verður fljótur að ná þessu. Systir hans hefur átt í verulegum vandræðum með hjólakúnstina, móðirin á heimilinu átti við slíkt vandamál að stríða líka.

Auður er voða ánægð í skólanum. Hún prófaði að fara í sunnudagaskóla í síðustu viku. Það var heima hjá kennaranum hennar. Hún var mjög ánægð með það og vildi ekki koma heim. Hún er búin að spyrja nokkrum sinnum um hvenær hún megi fara aftur. Það getur ekki hafa verið mjög slæmt. Í næstu viku fer hún sjálf með skólabílnum í sunnudagaskólann. Hún hefur tekið þessum breytingum ótrúlega vel. Hún er rosalega þreytt og stutt í pirringin. En er samt mjög ánægð með þetta allt. Hún man mjög illa hvað er sagt við hana, svona dags daglega. En svo er hún með ótrúlegt ljósmyndaminni. Hún hafði farið einu sinni heim til kennara síns. En svo keyrðum við þar framhjá í dag og þá sagði hún að þarna byggi kennarinn hennar. Ratvísina hefur hún örugglega ekki frá móður sinni.Gott að hún fær eitthvað frá pabba sínum.

Tölvan okkar er að syngja sitt síðasta. Frúin er búin að setja bóndanum fyrir að geyma myndirnar á hörðum diski, svo þær eyðist ekki, ef tölvan gefur upp öndina. Það er spurning hvað á að gera. Það verður að skoða hvaða möguleikar eru í boði. Það hefur sennilega ekki hjálpað tölvunni að frúin hellti djúsi yfir hana um daginn. Henni hrakaði allavega töluvert eftir það.

En jæja best að fara að slaka á, framundan er heil vinnuvika. Alveg spurning hvort maður hafi þetta af.

Kveðja

Tisetgengið


Frídagar

Kæru bloggvinir

þá erum við að detta inn í tímabil þar sem vinnuvikurnar eru styttri en venjulega. Á föstudaginn er bænadagurinn, og svo þurfum við víst að vinna heila viku eftir það, en svo kemur uppstigningardagur. Það er víða orðið lokað á föstudeginum eftir uppstigningardag, allavega skólar og opinberar stofnanir. Eftir það kemur svo hvítasunnan. Nóg að gera í að halda frí. Það er auðvitað gott og blessað. Það þarf þá bara að vinna meira hina dagana.

Vorið hefur eitthvað verið í pásu síðustu daga. Það hefur verið voða misjafnt veður. Suma daga fer maður í vinnuna á morgnana og það er hálfkalt, en svo er steikjandi hiti seinnipartinn.

Það hefur verið nóg að gera um helgina. Í gær var síðasta skipti í sundi á þessari önn. Það var búið að lofa að kaupa pylsur og það var auðvitað mjög spennandi. Svo var farið í verslunarleiðangur á eftir. Það vantaði sumarskófatnað á börnin. Það fengust ekki sandalar á réttu veðri, en það verður bara að leita betur. Það var líka eitthvað djúpt á sniðugum fötum fyrir stráka. Alveg óþolandi hvað það er gert mikið upp á milli kynjanna. Það eru fleiri rekkar með dóti fyrir stelpur, en ekki einn til dæmis með sólgleraugum fyrir stráka. En það heppnaðist nú að grafa upp sólgleraugu fyrir drenginn. Hann er mjög upptekinn af að hafa gleraugu og derhúfu. Í dag vorum við svo í Odense, í 2 ára afmæli Emils Sigurðar. Þar var mikið fjör. Það rigndi, svo börnin gátu ekki farið út að leika. Það stóðu tvö trambolin fyrir utan gluggann og biðu. Það var fremar erfitt að halda þeim innan dyra. Allavega litlu gaurunum. Stelpunum var víst nokkuð sama. Þær eru búnar að vera rosa góðar að leika saman í síðustu tvö skipti. Vonandi að það haldi bara áfram.

Auður er mjög ánægð í skólanum. Hún virðist vera að aðlagast betur og suma daga hefur hún allavega einhverja að leika við. Þetta kemur allt saman. Hún fékk að keupa pylsuhorn á föstudaginn, og það var mikið sport. Hún vildi meina að öll börnin í skólanum fengju að kaupa pylsuhorn á hverjum degi og svo ætti hún ekki að þurfa að hafa rúgbrauð með sér. En ætli við höldum ekki fast í rúgbrauðið.

Jæja ætli við ættum ekki að reyna að slaka eitthvað á fyrir átök næstu viku.

Kveðja

Tisetgengið

Ætli maður verði svo ekki að fara að huga að því að kaupa tómatplöntur og það sem maður ætlar að gróðursetja í ár.


Vorhugur

Kæru bloggvinir

þá er víst tími kominn á nýtt blogg. Frúin hefur ekkert verið að standa sig í þessu. Það hefur verið í nógu að snúast síðan við komum aftur hingað út. Svo þetta hefur nú bara farist fyrir. En nú er ekki um annað að ræða en að taka sig á.

Það hefur verið mjög fallegt og gott veður í dag, en annars hefur verið frekar kalt síðan við komum út aftur. En vorið er að rembast við að koma. Það á víst að vera blíða næstu vikuna, svo þetta kemur allt saman. Börnin hafa ekki fengist inn, hvorki í gær eða í dag og það er enginn smá munur. Þeim líður mikið betur þegar þau geta verið meira úti. Óli og Guðný komu í heimsókn í gær. Það var aldeilis fjör með 5 börn undir 7 ára. Við vorum að tala um að það væri þokkalega mikið að gera ef maður ætti allan skarann sjálfur. En það kæmist nú sennilega upp í vana. Börnin voru úti í allan gærdag og léku sér, án vandræða. Auður og Arndís fóru svo upp á loft og datt það snjallræði í hug að klippa dýra jólavaxdúkinn sem var þar uppi. Þeim vantaði eitthvað til að pakka inn gjöfum. Já einmitt. Frúin var ekki hrifin. Það verður þá bara að hafa hálfan dúk á borðinu næstu jól. Þeim dettur ýmislegt í hug þessum skvísum. Ekki gott að vita hvað drengjunum dettur í hug þegar þeir verða aðeins eldri.

Í dag erum við svo búin að fara í fermingarguðsþjónustu hjá Óla og Ástu vinum okkar. Við höfum ekki prófað það fyrr. Þetta var svo sem ósköp svipað og heima á Íslandi, en full mikið gert úr því að við værum hálf ráðalausir sauðir, sem ættu eftir að upplifa ýmisskonar vandræði á lífsleiðinni. Þeir leggja mikið upp úr því að við séum syndug og þurfum að biðjast fyrirgefningar synda okkar. En já, svo var mikil veisla á eftir. Veðrið var frábært, svo það var búið að slá upp tjaldi í garðinum og börnin léku sér bara úti. Ekkert smá þægilegt. Ágúst var svo haugdrullugur, að það varð að setja hann í sturtu þegar hann kom heim. Hann fór að grafa í einu blómabeðinu, með kökugaffli. En hann skemmti sér vel. Það er fyrir öllu. Hann er algjörlega ófeimin þetta barn, og fer upp í fangið á bláókunnugu fólki. Á meðan er systir hans alveg öfug og er mjög seintekin.

Hún byrjaði í skóla á mánudaginn. Fram að sumarfríi er þetta nú bara mest leikur, en eitthvað er verið að kenna þeim stafi og svoleiðis. Frúin fór með henni í strætó fyrsta daginn, og var hjá henni í smá stund, en svo tók hún sjálf strætóínn heim. Hún hefur svo farið sjálf með strætó síðan. Þetta er strætó sem sækir börnin í skólann og keyrir þau aftur heim. Hún hefur verið mjög ánægð, en auðvitað líka mjög þreytt. Það er erfitt að byrja á nýjum stað og kynnast nýjum börnum og fullorðnum. En við vonum þetta haldi áfram á sömu braut. Þá verður hún orðin alveg þrælvön í haust, þegar þetta byrjar fyrir alvöru. Bóndinn tók fínar myndir af henni. Kannski er mögulegt að fá bóndann í að henda einhverjum af þeim inn hérna.

Þau systkin voru orðin verulega þreytt á hvort öðru eftir Íslandstúrinn, svo þau voru mjög ánægð að komast í fasta ramma aftur. Ágúst á góða vinkonu hjá dagmömmunni. Hún er aðeins yngru, en þau leika víst mjög vel saman.

Maður er nú bara búinn að vera hálfþreyttur eftir Íslandstúrinn. Þetta reynir alltaf töluvert á. En það er nú alltaf gott að koma heim og hitta fjölskyldu og vini. Maður nær auðvitað ekki alltaf að hitta alla, en það er ekkert við því að gera.

Bóndinn þarf svo að fara að slá blettinn. Það er orðin töluverð spretta, svo hann þarf að fara að kíkja eitthvað á það.

Jæja best að fara að halla sér fyrir næstu átök.

Kveðja

Tisetgengið

 

 


Ferðahugur

Kæru bloggvinir

þá er aldeilis farið að styttast í að við mætum á klakann. Af fréttum að dæma þurfum við að týna vetrarfatnaðinn út úr skápunum aftur. Við fórum í göngutúr í morgun. Það er skítkalt, en það er farið að sjást brum á trjánum, svo kannski verður farið að grænka þegar við komum til baka aftur. Það verður allavega vonandi farið að hlýna eitthvað.

Frúin þarf að vinna á morgun, en ekki mjög langt frameftir, svo það ætti að vera tími til að pakka líka. Hún var að uppgötva að evrópska sjúkrasamlagsskirteinið er útrunnið, svo það þarf að redda nýju á þriðjudagsmorguninn. Danirnir skilja ekkert í þessu kæruleysi. Ég hélt bara að þetta rynni ekkert út. Það er alltaf eitthvað vesen. En vonandi reddast þetta allt saman. Það verður nú eitthvað fjör að halda börnunum á mottunni 3 tíma í lest og 3 tíma í flugvél. Síðast var Ágúst svo lítill að hann svaf mikið af tímanum. Við erum sem betur fer með sæti í fjölskyldudeildinni í lestinni, svo það má nú eitthvað heyrast í þeim. Og flugið er að kvöldi til, svo kannski verður þetta bara allt voða rólegt.

Auður var síðasta daginn í leikskólanum sínum á föstudaginn. Hún þarf svo að fara í annan leikskóla á morgun, og svo fer hún ekki meira. Henni finnst þetta mjög skrýtið og hefur verið hálf rótlaus um helgina. Hún er nú líka orðin svo spennt að hitta alla. Hún man líka hvernig er að fara í lest og flugvél, svo hana hlakkar líka til þess.

Við reiknum með að heimsækja einhverja, en það verður eiginlega bara að ráðast, hversu mikið það verður. Börnin verða svo rugluð á öllum þessum heimsóknum. En við reynum okkar besta. Manni langar alltaf að gera voða mikið, en svo er tíminn bara svo fljótur að líða.

Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan úr sveitinni. Vonumst til að hitta sem flesta.

Kveðja

Tisetgengið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband