Sumar í stutta stund

Kæru bloggvinir

það er búið að vera hið fínasta veður hér síðustu daga, svo við verðum víst að reyna að hrósa því, af því við erum nú búin að væla svo mikið yfir því í allt sumar.

Bóndinn hefur klárað sig nokkuð vel af því að vera orðinn svona gamall. En það er svo sem ekki komin mikil reynsla á það. Við sjáum hvernig hann vinnur úr þessu. Börnin eru ennþá að syngja afmælissönginn fyrir hann. Þau hætta því kannski þegar Ágúst á afmæli.

Auður fór með skólanum á safn, þar sem er sýnt hvernig allt var gert í gamla daga. Hún var mjög upptekin af þessu og kom heim með malað hveiti í poka. Hún hafði hjálpað til við að mala það. Það var mjög spennandi. Svo sá hún hvernig var heyjað með orfi og ljá. Þetta virtist allavega hafa fengið hana til að hugsa um ýmislegt.

Það er búið að vera nóg að gera, eins og venjulega.  Bóndinn er duglegur að finna verkefni. Það verður sennilega aldrei vöntun á þeim í þessu húsi okkar. Hann var svo heppinn að finna notaða hrífu til að draga á eftir sláttutraktornum, svo nú getur hann rakað innkeyrsluna og þarf ekki að eitra eða brenna grasið. Það má ekki eitra, af því við búum svo nálægt vatnsveitunni. Þetta ætti því að gera auðveldara að hugsa um innkeyrsluna. Hann er búin að leita að svona mjög lengi, en það er erfitt að fá þetta notað. Og þessar nýju eru frekar dýrar. Þegar við fórum að sækja þessa hrífu, fórum við á ströndina í leiðinni. Það var mjög hlýtt, en mjög mikið rok. Auður safnaði fullum poka af skeljum. Það finnst henni mjög skemmtilegt. Hún gleymir svo yfirleitt að hún á þær, en hefur gaman af að safna þeim. Svo eru þær látnar hverfa.

Næstu vikuna á að vera rigning mest allan tímann. Það hjálpar gróðrinum, en við hefðum svo sem alveg viljað hafa sól aðeins lengur. Við smökkuðum bæði nýja tómata úr eigin ræktun og epli um helgina. Það er ekkert eins og bragðið af eigin ræktun. Við höfum verið svo heppin að gömul kona sem við þekkjum, hefur gefið okkur nýjar kartöflur. Við erum að spá í að reyna að koma niður kartöflum aftur næsta ár. Bara ekki svo mikið. Allur gróður er mjög seinn í ár, út af því það hefur verið svo lítil sól. En við vonum við náum að njóta einhverrar uppskeru.

Jæja best að fara að hvíla sig

kveðja

Tisetgengið


Hálfrar aldar afmæli

Kæru bloggvinir

þá kemur bloggið loksins. Frúin var alveg búin á því í gær, svo hún valdi að geyma bloggið þar til í dag. Það hefur verið ansi mikið að gera hér síðustu daga við að undirbúa hálfrar afmæli bóndans. Það var svo haldið í gær með pompi og pragt. Það voru nokkrir gestir. Aldrei þessu vant var meirihlutinn Danir. Það voru nokkur forföll, en þetta var hinn fínasti hópur sem mætti hér. Vinkona Auðar kom með foreldrum sínum, svo þær léku sér úti og inni. Ágúst fékk líka að vera eitthvað með. Þær stúlkur klæddu sig upp í fína kjóla og léku prinsessur, en svo fóru þær út og voru að fara að kasta drullu á hvora aðra þegar þær voru stoppaðar. Þær eru alveg ótrúlega uppátækjasamar. Hver sagði að það væru bara strákarnir sem væru prakkarar.

Bóndinn fékk margar gjafakörfur, svo hann er vel byrgður af kaffi og aælgæti. Hann fékk líka pening, svo hann er að skoða, hvort hann getur fengið sér nýjan síma. Þá gæti verið að frúin erfi hans síma, svo hún geti nú verið með í tækninni. Hún er ennþá bara með gamaldags Nokia síma sem hefur hingað til alveg skilað hlutverki sínu. Bóndinn hefur tekið því nokkuð vel að verða fimmtugur og hefur ekki fengið neitt áfall yfir þessu ennþá. Enda þakkarvert að ná þessum aldri.En honum finnst samt fyndið. að þegar hann var barn, fannst honum 50 ára fólk eldgamalt.

Veðrið hefur verið eitthvað upp og niður. Það er hlýtt, en bæði rigning og rok marga daga. Í gær var skýjað, en mikil hitamolla. Það er eitthvað betra veður í kortunum næstu daga. Við vonum það gangi eftir.

Auður er mjög ánægð í skólanum. Hún er þó mjög þreytt á morgnana og er ekki altaf tilbúin að fara á fætur. En hún nær nú yfirleitt að verða eldspræk áður en hún fer af stað.

Það er ekkert stórt á dagskránni á næstunni, enda þarf maður sennilega að slaka á eftir þessa törn.

Kveðja

Tisetgengið


Sumarið er barasta mætt

Kæru bloggvinir

hér hefur verið bongóblíða síðustu daga. Við reynum bara að njóta þess eins og hægt er. Börnin hafa auðvitað notið þess. Þeir eru að spá þessu eitthvað næstu daga líka.

Auður fór í útilegu síðustu helgi. Okkur fannst nú alveg agalegt að skilja blessað barnið eftir þarna, en þetta gekk greinilega allt mjög vel, því þegar við komum að sækja hana á þriðjudeginum, þá valsaði hún þarna um allt og lét eins og hún ætti heima þarna. Það voru mörg dýr á staðnum, af öllum stærðum og gerðum. Börnin hjálpuðu til við að moka út og gefa þeim að borða og svoleiðis. Svo var auðvitað sungið mikið og leikið sér. Auður fór að hágráta þegar hún átti að fara heim og vildi vera þarna áfram. En það gengur auðvitað ekki. Svo við fengum hana loksins heim. Hún er svo búin að vera í skólavistun síðustu viku. Það hafa nú ekki verið mörg börn, en það er sennilega fínt, þá geta þau komist hægt og rólega í gang aftur.

Svo byrjar skólinn hjá dótturinni fyrir alvöru á morgun. Hún er mjög spennt. Þetta er náttúrlega alltaf mjög merkilegt. Hún fékk bréf með póstinum um helgina, frá kennaranum. Hún skrifaði bréf til þeirra sem eiga að byrja. Þetta þótti Auði auðvitað mjög spennandi. Ekki á hverjum degi sem hún fær sendibréf.

Við fórum á ströndina í dag. Vorum nú hálf efins um, hvort það væri nógu heitt. En það var mjög fínt og börnin nutu þess að drullumalla og synda. Það var hellingur af fólki. En þessi strönd er svo lítil, að það er aldrei neitt troðið þarna.

Ágúst hefur verið óskaplega þreyttur eftir að vera byrjaður hjá dagmömmunni aftur. Þau keppast um að tala sem hæst. Það er frekar erfitt að hlusta á til lengdar.

Í góða veðrinu í gær var ákveðið að slá upp tjaldi til að leyfa börnunum að prófa útilegu í garðinum. Frúin var sett í að sofa hjá þeim. Maður er nú ekkert unglamb lengur, svo þetta var ekkert sérstakt fyrir skrokkinn. Ofan á allt voru svo tónleikar inni í Gram í gær. Þó það séu 3 km þangað, þá heyrðist tónlistin hingað heim í garðinn. Svo er nú oft ansi mikil umferð hér um veginn. Frúin fékk þá snilldarhugmynd að tjalda tjaldvagningum hér á bak við og svo er planið að sofa í honum í nótt. Það ætti að fara aðeins betur um mann þar. Annars er stærsta vandamálið sennilega rakinn, sem gerir það að verkum að það er hundkalt á nóttunni.

Næstu helgi verður nú aldeilis merkisviðburður þegar bóndinn nær mikilvægum tímamótum í lífinu. Hann ætlar að bjóða nokkrum í kaffi og kökur, svo það er bara að bretta upp ermarnar og fara að baka. Þetta verður nú ekkert margmennt, en það þarf sennilega að gefa fólkinu eitthvað að borða.

Jæja ætli sé ekki best að safna kröftum fyrir nóttina.

kveðja frá útilegufólkinu


Sumarfríið búið

Kæru bloggvinir

þá er sumarfríið að renna sitt skeið. Maður er alltaf jafn hissa á, hvad þetta líður hratt. Ágúst fer til dagmömmunnar á morgun og Auður fer í skólaskjól á miðvikudaginn. Hún er að fara í útilegu frá því í dag, með fullt af krökkum. Það verður nú eitthvað undarlegt að skilja barnið eftir þar og fara svo bara. Hún er voða spennt. Hún þekkir eitthvað af bæði krökkum og fullorðnum sem verða þarna, svo hún á örugglega eftir að redda sér. Það verður örugglega verra fyrir fullorðna fólkið hérna heima. Já og Ágúst. Hann er alltaf hálf ómögulegur þegar hún er ekki nálægt til að stjórna honum.

Við fórum ekki í neina útilegu í sumar. Okkur fannst of kalt. Ef það hlýnar eitthvað í þessum mánuði, getur vel verið við hendumst einhverja helgina. Það væri voða gaman. En það er ekkert gaman, nema það sér sæmilega heitt. Það er heitara úti í dag, en hérna inni. Annars hefur verið leiðindaveður síðustu viku. Við fórum í innileikjagarð í Þýskalandi. Þar var stappað af börnum og foreldrum, enda mígandi rigning úti. Börnin skemmtu sér mjög vel, fullorðna fólkið var eitthvað þreyttara.

Í gær var svo farið í afmæli hjá Óla í Odense. Þar var mikið fjör að venju. Það var fínt veður hjá þeim, svo börnin gátu verið úti. Sem betur fer. Það er ekkert grín að hafa 5 smábörn innandyra í lengri tíma. Það er allavega ekki hollt fyrir geðheilsu frúarinnar. við vorum ekki komin heim fyrr en kl. 10 í gærkvöldi, svo börnin sváfu lengi í morgun. Það er ekki laust við að maður sé hálf slæptur í dag. Við erum ekki vön að vera svona seint á ferðinni.

Næsta mál á dagskrá er svo hálfrar aldar afmæli bóndans. Það verður allavega að gera köku fyrir karlinn. Annars er nú ekki planað neitt stórt. Kannski maður reyni að gefa honum smá pakka líka. Hann verður örugglega ánægður með það.

Ágúst og Auður verða örugglega fegin að komast inn í sína gömlu vana. Þau hafa annars verið ótrúlega dugleg að leika sér saman í fríinu. Það er mikið búið að æfa hjólreiðar og hefur það gengið vonum framar. Auður er allavega orðin mun öruggari. Hann er frekar latur við þetta. Vill mikið frekar að einhver ýti honum.

Frúin er að fara yfir um á tölvubúnaðinum á heimilinu. Hún hellti djúsi yfir ferðatölvuna, en við leystum málið með því að kaupa annað lyklaborð. Núna er það eitthvað að gefa sig, svo maður má ekki hreyfa sig, meðan maður er í tölvunni, svo þetta virki. Passar henni ekkert rosalega vel. Bóndinn er búinn að vera að skoða þráðlaus lyklaborð. Kannski maður prófi það. Tölvan sjálf er nefnilega enn í lagi.

Jæja best að hætta, áður en lyklaborðið dettur út aftur

kveðja

Tisetgengið

 


Veðrið, já á að ræða það?

Kæru bloggvinir

fyrirsögnin á þessu bloggi segir sennilega meira en orð. Það hefur sem sagt ekki mikið lagast og sennilega bara versnað, ef eitthvað er. Þeir eru að spá roki og rigningu, allavega fram í næstu viku, svo tjaldvagninn verður látinn standa óhreyfður. Það er ekki spennandi að fara í tjaldútilegu í skítaveðri. Auður er að fara í svona smá sumarbúðir næstu helgi. Og plandið er að hún sofi í tjaldi, í 2-3 nætur. Það verður eitthvað að hlýna, til að það verði spennandi. Frúin ætlaði að tjalda úti í garði eina eða tvær nætur, svo hún hefði prófað að sofa í tjaldi, áður en hún færi. Við sjáum hvernig það fer.

Í gær rigndi eldi og brennisteini, en það var ákveðið að galla alla upp og fara út. Börnin þola illa að vera úti allan daginn. Þetta tók eilífðartíma að klæða sig, en börnin skemmtu sér mjög vel. Þau hoppuðu í drullupollum og leituðu að stórum sniglum. Það þarf ekki alltaf mikið til, svo börnin skemmti sér. Frúin er sannfærð um að börnin læra meira af svona vitleysu, en að sitja og spila tölvuspil allan daginn. Enda er hún með eindæmum gamaldags og hallærisleg.! :)

En já, það þýðir ekkert að væla yfir veðrinu alla daga, það verður bara að finna út úr að gera gott úr þessu öllu saman. Börnin finna ekki fyrir þessu, ef við reynum að vera sniðug að nýta okkur þá möguleika sem eru fyrir hendi. Okkur langar að fara í svona dýragarð í næstu viku, sem er bæði með leiktækjum og dýrum. En það verður að sjá hvernig veðrið verður. Við fórum í mjög fínan dýragarð í síðustu viku. Börnin voru alveg í skýjunum og fannst þetta mjög skemmtilegt. Það er alltaf gaman að fara í dýragarða, þar sem dýrunum virðist líða vel. Þessi dýr voru mjög spök og það var hægt að komast nálægt þeim öllum.

Síðan er búið að fara til Þýskalands og kaupa föt á börnin. Það er oft ódýrara að versla föt á þau þar. Svo keypti frúin notuð föt, gegnum netið. Það var svolitið fyndið, að sú sem var að selja þau, var íslensk. Býr einhvers staðar lengst uppi á Norður-Jótlandi. Það er undarlegt hvað maður rekst á landa sína alls staðar.

Við hjónin skelltum okkur í að taka til hér á bak við hús í vikunni. Það var orðið þörf á. Svo er planið að kalka vegginn, ef það verður þurrkur til þess. Það er alltaf eitthvað hægt að finna sér að gera hérna heima við.

Við erum búin að vera mjög dugleg að baka í fríinu. Bóndinn fór í eitthvað kast í gær og varð að baka bæði jólaköku og kryddköku, svona til að rifja upp gamlar minningar úr sveitinni. Svo ætlar hann að baka hjónabandsælu í dag. Við gerðum bæði rabarbarasultu og sólberjasultu í vikunni. Brjálað að gera. Rabarbarinn fékk alveg vaxtakipp eftir við settum meiri skít á hann. Við erum hins vegar ekki viss um að tómatarnir nái að þroskast fyrir haustið. Það vantar sárlega meiri hita.
En jæja, ætli sé ekki best að fara að koma einhverjum mat á borðið.

Kveðja úr Danaveldi


Fólksfækkun

Kæru bloggvinir

sumarið hefur ekki enn komið til baka. Við bíðum spennt. Við nennum ekki að liggja í tjaldvagni þegar það er ekki heitara á nóttinni en það er núna. Kannski verður bara að fresta tjaldútilegu þar til í ágúst. Við sjáum til. Það hlýtur nú að rætast úr þessu. Örugglega þegar maður fer að vinna aftur. Það er oftast svoleiðis.

Það hefur heldur betur fækkað hér í heimilishaldinu í vikunni. Helga og fjölskylda fóru heim á miðvikudaginn. Það er alltaf voða skrýtið þegar það fækkar svona í heimili, en við höldum nú að börnunum hafi þótt ágætt að fá að hafa dótið fyrir sig. Þau eru mjög dugleg að leika sér úti, þó veðrið sé ekkert sérstakt. Það rigndi smávegis í dag og þau hlupu út á tásunum og léku sér. Þau voru óskaplega hrein á fótunum eftir það ævintýri.

Auður fékk að leika sér við vinkonu sína bæði fimmtudag og föstudag. Á fimmtudag kom vinkonan og bankaði upp á kl. 8 um morguninn og þær léku sér til kl. 18:00. ´´An þess að það væri neitt vesen. Á föstudaginn voru þær svo líka saman, en þá var eintómt vesen á þeim. Fyndið, hvað þeð getur verið mikill munur á dögum. Við erum búin að vera að vesenast mikið hérna heima. Enda af nógu að taka. Við réðumst í það í dag að flytja hellur og steina, frá einum húsveggnum. Það er planið reyna að kalka hann á næstu dögum. Þvílíkur munur að vera búin að taka til þar.

Við erum búin að fara á leiksvæði með krakkana bæði í gær og í dag. Auður er búin að vera að æfa sig að hjóla. Það er nefnilega svona stór malbikaður körfuboltavöllur, sem er gott að hjóla á. Henni hefur farið mjög mikið fram. En hún er nú ekki tilbúin að sleppa hjálpardekkjunum. En bara að hún geti hjólað, án þess að þetta sé heljarinnar mál í hvert skipti, þá erum við ánægð. Við erum að spá í að kaupa hlaupahjól handa Ágústi. Það var allavega gott fyrir Auði að æfa jafnvægið á svoleiðis.

Við erum búin að vera voða dugleg að baka, alls konar brauð og kökur. Gott að hafa nesti með, þegar maður fer á leikvelli að leika. Í gær fórum við að gefa öndum brauð. Það var svo mikið rok, að það stóð strókur upp úr vatninu. Það er búið að vera mikið rok hér í sumar. alveg óvanalega mikið. Þetta er orðið mjög þreytandi.

En jæja ekki gengur að kvarta allan daginn. Það þarf að koma mat í börnin.

 

kveðja

Tisetgengið


Sumarfrí

Kæru bloggvinir

þá er sumarið farið aftur. Það tók smá pásu. Við höldum kannski það komi aftur í næstu viku, erum allavega að vona það. Okkur finnst við ekki hafa fengið neitt sumar að viti, svo okkur finnst nú hálflélegt, ef það er farið aftur.

Frúin er komin í sumarfrí, svo nú verður hægt að anda rólega næstu 3 vikurnar. Helga og fjölskylda fara heim á miðvikudaginn, það verður nú skrýtið. Þetta hefur gengið mjög vel, en samt alltaf töluvert álag að hafa aukafjölskyldu á heimilinu.

Við fórum á leiksvæði hérna rétt hjá í morgun. Það var stærra, en það sem er hér í bænum og það þótti mjög spennandi. Þau voru mjög dugleg að leika sér þarna í þónokkurn tíma. Við förum örugglega þangað aftur. Annars er ekkert planlagt í sumarfríinu. Kannski við reynum að fara eitthvað með tjaldvagninn. En maður nennir því ekki, nema það fari eitthvað að hlýna. Það er ekkert gaman að liggja í tjaldvagninum og vera að krókna úr kulda.

Börnin hafa verið dugleg úti að leika sér. Frúin var búin að gefast upp á að láta Auði læra að hjóla, hún var engan veginn að ná jafnvægi á þessu tæki. En í dag ákváðum við að draga gripinn aftur fram. Í byrjun var hún nú eitthvað óhress með þetta, en svo hitti hún jafnaldra sinn, sem líka var á hjóli og þá þurfti hún að sýna sig fyrir honum. Það virkaði mjög vel og eftir nokkra túra hér í kring, var hún orðin mun öruggari og mjög ánægð með sig. Við vonum að þetta haldi svona áfram. Þá ætti hún að geta lært að hjóla í nánustu framtíð. Ágúst er líka orðinn mjög góður að hjóla á þríhjóli, hann á þó pínu erfitt með að halda athyglinni á veginum, það er svo margt sem þarf að hafa augun á. En svona er Auður líka. Hún á mjög erfitt með að halda athyglinni á því sem er mikilvægast.

Bóndinn var sendur út að grilla áðan í ágætis veðri, en svo byrjaði að rigna, svo hann varð að standa úti með regnhlíf.

Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan

Kveðja

Tisetgengið


sumar og sól

Kæru bloggvinir

þá er aldeilis búið að steikja okkur um helgina. Það hefur verið þvílík blíða og mikill hiti. Við fórum á ströndina í gær og börnin voru alveg í essinu sínu. Í dag vorum við svo bara heima og busluðum hérna heima. Við skruppum út á strönd og Auður og Ágúst söfnuðu skeljum í fötu. Það þótti þeim ekki leiðilegt. Svo endaði þetta nú allt saman í garðpartý, þar sem öll börnin hlupu um berrössuð og renndu sér í rennibraut út í sundlaugina. Þeim þótti þetta ekki mjög leiðilegt.

Annars bar það hæst í vikunni að frúin átti stórafmæli. Þetta leggst nú bara nokkuð vel í frúna. Það var ekkert gert neitt stórmál úr þessu. En kannski höldum við eitthvað partý seinna í sumar. Frúin fékk margar gjafir frá vinnufélögunum á fimmtudaginn. Ekki dónalegt það. Alveg spurning um að fara að eiga stórafmæli eitthvað oftar. Frúin var vakin með morgunsöng og knúsi frá börnum og bónda.

Annars er nú allt við það sama. Frúin þarf að vinna í eina viku í viðbót og svo er hún komin í frí. Það spáir góðu veðri eitthvað áfram, svo það er bara að vona að það haldist þangað til fríið skellur á.

Elli skírði prinsessuna sína í gær. Hún fékk nafnið Enika Hildur. Hún stóð sig víst mjög vel og lét lítið í sér heyra.Tómt vesen að missa af þessu.

Ágúst fer í frí hjá dagmömmunni eftir næstu viku, en Auður hefur verið í fríi síðustu 2 vikur. Hún hefur ekkert kvartað yfir að vera heima. Enda hefur vinkona hennar sem er stundum hjá pabba sínum hérna á móti, kommið hingað að leika þegar hún hefur verið í heimsókn.Þær eru fínar saman, svona yfirleitt allavega.Þau eru nú líka dugleg að leika sér við börnin hennar Helgu. Auður og Kristín Júlía eru báðar mjög ráðríkar, svo það slettist ansi oft upp á vinskapinn hjá þeim. En Auður og Guðmundur Liljar ná vel saman og Ágúst og Kristín Júlía eru oftast góð saman.

Það er búið að koma niður gulrótafræjum, svo það ættu að koma gulrætur hérna síðsumars. Við erum byrjuð að fá jarðarber. Þau eru sem betur fer undir neti, annars væru þau fljót að fara.

Jæja það er víst lítið annað að frétta héðan. Þeir eru búnir að vera að lofa þrumuveðri mest alla helgina, svo vonandi fer þetta að koma. Það er svo þungt loftið.

Kveðja úr sólinni

Tisetgengið


Sólin er mætt

Kæru bloggvinir

þá höldum við jafnvel að sólin sé komin eitthvað í bili. Það er allavega sól í dag og þeir eru að spá þessu fram í næstu viku. Það var drifið í að setja niður baunaplöntur, svo við gætum vonandi fengið strengjabaunir í sumar. Þær eru rosalega góðar og krakkarnir eru vitlausir í þetta. Bóndinn bjó til smá beð á bak við. Alveg nógu stórt fyrir okkur. Það er ekki mikill tími til að hugsa um svoleiðis, svo það er mikilvægt að sníða sér stakk eftir vexti. Kannski við hendum niður smá gulrótum líka. Þetta er fljótt að koma til, ef það fer að hlýna.

Það er mikið fjör hér á bæ með öll þessi börn. Andri og Helga eru byrjuð að vera smá í húsinu hjá Ástu og Óla, af því þau eru farin til Bandaríkjanna. Það gefur aðeins meira næði fyrir alla aðila. Börnunum finnst nú líka pínu erfitt að vera svona mikið saman. Það er ekki alltaf að samkomulagið er gott.

Auður er komin í sumarfrí í skólanum. Hún verður því bara heima hjá Helgu og þeim þangað til við förum í frí. Frúin þarf að vinna í tvær vikur enn, áður en hún kemst í frí. Vonandi að góða veðrið haldist þangað til. Ágúst fer í frí hjá dagmömmunni á sama tíma og frúin. Hann unir sér vel hjá henni, svo honum er víst nokkuð sama, hvort hann er hér heima eða þar. Það þarf svo að fara að huga að því hvenær við eigum að láta hann hætta hjá dagmömmunni og byrja í leikskóla. Það á nú sennilega ekki eftir að vera mikið mál. Hann er mjög félagslyndur og algjörlega ófeimin. En það tekur samt örugglega smá tíma að venjast á þetta allt saman.

Auður fór með skólanum í Legoland í síðustu viku. Hún var algjörlega búin á því, en fannst mjög gaman. Hún fékk einhvern pésa um Legoland í ferðinni og hefur druslast með hann út um allt. Og er alltaf að skoða hann.

Kötturinn okkar er horfinn. Hefur ekki sést síðan í afmælinu hennar Auðar. Hún hefur nú stundum verið nokkra daga í burtu, en aldrei svona lengi. Það gæti verið það hafi komið eitthvað fyrir hana. Við sjáum til, það er ekkert við því að gera.

Jæja ætli sé ekki best að reyna að nýta blíðuna.

Kveðja

Tisetgengið


Stelpupartý

Kæru bloggvinir

já þetta kemur sennilega mikið á óvart, en það er enn hálfgerður skortur á sól hér í DK. Maður er farinn að efast um þetta eigi eitthvað eftir að lagast. Það var ágætis veður í gær, allavega þegar sólin skein. Auður hélt stelpupartý, í tilefni af afmælinu sínu. Sem betur fer voru þær bara 5 í það heila. Það gekk nokkuð vel að halda stjórn á mannskapnum, þegar þær voru búnar að fá að rasa aðeins út. En mikið óskaplega var gott þegar þessu var lokið. Þá er heilt ár þangað til maður þarf að standa í þessu aftur. Og sem betur fer, er hún í litlum bekk, svo þetta er pínu auðveldara.Hún var víst nókkuð sátt eftir daginn, en óskaplega þreytt og í dag hefur hún bara viljað vera á náttfötunum.

Á mánudaginn fjölgaði heldur í heimili hjá okkur. Helga Rut og fjölskylda komu í heimsókn. Auði finnst þetta frekar erfitt, því þau vilja leika með dótið hennar og það eru oft ansi mikil læti, þegar allir eru vakandi. Á þriðjudaginn var lokahóf í sunnudagaskólanum hjá henni og við fórum í pylsur og leiki, og komum ekki heim fyrr en um kvöldið. Á fimmtudaginn fór hún svo með snúða í skólann og gaf krökkunum. Hún átti svo að fara í ferð með hinum sunnudagaskólanum, en sem betur fer var því aflýst. Á fimmtudaginn buðum bið svo Hildi æskuvinkonu frúarinnar og fjölskyldu henar í mat. Þau eru á ferðalagi í Danmörku og hún varð fertug sama dag og Auður á afmæli. Á föstudaginn var svo vinakvöldverður og við sáum um matinn. Auður fékk að vera heima úr skólanum. Hún hefur verið svo þreytt undanfarið, enda mikið um að vera. Í dag er hún svo með hálfgerða timburmenn eftir þetta allt saman. Það er vika eftir af skólanum og svo er sumarfrí. Þau fara í Legoland á fimmtudaginn, það er mikill spenningur yfir því.

Ágúst hefur verið nokkuð ánægður með heimsóknina. Hann fór í bíltúr með Helgu og þeim í gær, meðan stelpupartýið var hér. Hann er voða hrifin af Andra kærastanum hennar Helgu og vildi halda í hendina á honum allan tímann. Þau fóru að skoða dýr og gefa geitunum spagettý. Þær eru alveg óðar þegar það kemur einhver að gefa þeim og oft má maður passa sig að þær séu ekki of ágengar.

Næsta vika verður nú eitthvað rólegri hvað það félagslega varðar. Það eru ennþá 3 vikur í sumarfrí, en frúin ætlar að taka sér frí næstu föstudaga, svona til að hita upp fyrir fríið. Við vorum að vonast eftir að fá lánaðan sumarbústað í fríinum en það var allt upppantað, svo við sjáum hvað við gerum. Kannski við förum eitthvað með tjaldvagninn. Börnunum finnst það allavega mikið sport. Auður er oft að tala um að hún vilji fara í útilegu. Það er voða gaman, ef veðrið er gott. En við leggjum ekki í það, meðan það er svona kalt á nóttinni. Við fengum engan vetur, svo þetta er sennilega bara launin fyrir það.

Það voru alþingiskosningar hér í vikunni. Við megum ekki kjósa, sem var svo sem ágætt því flokkarnir höfðu lítið annað að segja, en að kasta drullu í hvern annan. Það er nú ekkert sérstaklega skemmtilegt að hlusta á það.

Jæja ætli sé ekki best að reyna að slaka eitthvað á, fyrir næstu veislu. Það er afmælisveisla hjá Óla vini okkar. Þau eru svo að fara til Ameríku að heimsækja dóttir sína og við erum að plana að láta Helgu og Andra passa húsið þeirra á meðan. Þá er ekki alveg eins þröngt hérna á okkur.

Kveðja úr kuldalandi

Tisetgengið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband