22.3.2015 | 13:13
Gluggaveður
Kæru bloggvinir
hér er hálfgert gluggaveður í dag. Við fórum að skoða dýr í dag, það var skítkalt, en það lagaðist aðeins þegar sólin skein. Við vorum því ekkert lengi, en geiturnar voru svo gráðugar að þær voru að éta okkur upp til agna. Þær réðust svoleiðis á krakkana að þau voru næstum oltin um koll. Auði stóð ekki á sama, en Ágúst var meira frakkur. Þeim finnst mjög gaman að dýrum, svo við reynum að leyfa þeim að fara þar sem eru einhver. Við náðum líka að kaupa sumarskó á Ágúst. Hann á bara kuldaskó og það fer að verða of mikið að vera í svoleiðis. Það er allavega of mikið ef maður er að fara eitthvað í bíl. Frúin fór á loftið í gær og fann einhver föt á börnin, það vakti mikla lukku. Annars er að verða ansi þunnt í skápunum. Það var mikið meira áður fyrr. Það er sérstaklega lítið af fötum á drenginn. Það þarf að fara að huga að því að kaupa stuttbuxur og sumarföt. Það er alltaf mikið auðveldara að fá föt á stelpur en stráka.
Annars er allt hér við það sama. Auður á eftir að vera eina viku í leikskólanum og svo hættir hún. Það er verst að leikskólakennarinn sem hefur verið mest með hana er í veikindaleyfi og verður fram yfir páska. Hún nær því ekki að segja bless við hana. En við verðum bara að fara seinna. Og svo á Ágúst eftir að vera í sama leikskóla, svo við hittum hana nú aftur. Dóttir hennar, sem er bara 12 ára, var að greinast með liðagigt og því þurfti konan að fá frí í vinnunni. Það hlýtur að vera sjaldgæft að svona ung börn fái liðagigt og örugglega ekki auðvelt að eiga við. Það verður voða skrýtið að Auður fari bara í skóla þegar hún kemur aftur til Danmerkur. Ótrúlegt að hún sé orðin svona stór. Það verður spennandi að sjá hvernig hún tekur þessum breytingum. Hún er allavega orðin mjög spennt og nennir alls ekki af stað á morgnana.
Auður var að leika við vinkonu sína mest allan gærdaginn og hefur verið ansi þreytt í dag. Þær urðu óvinkonur mörgum sinnum en voru fljótar að jafna sig aftur. Það er voða misjafnt hversu vel þetta gengur hjá þeim. Þær eru farnar að vera meira jafnt hjá bæði okkur og pabba vinkonunnar. Áður voru þær næstum bara hérna. Það var ansi þreytandi. En pabbinn er greinilega farin að eiga auðveldara með að stjórna þeim.
Manni er nú farið að kitla í fingurna að komast út og gera eitthvað, þegar sólin skín svona, en það er enn of kalt og ennþá næturfrost, sumar nætur. Það voru margir búnir að undirbúa sig fyrir sólmyrkvann á föstudaginn, en það var svo skýjað, að ég held að enginn hafi séð neitt. Við urðum allavega ekki vör við neitt.
Við fórum í vikunni og fengum tímabundna framlengingu á vegabréfin, svo við ættum að komast gegnum flugvöllinn. Við verðum svo að reyna að fá nýja passa meðan við erum heima. Það verða töluverð útgjöld, en ekkert við því að gera. Annars þurfum við að fara til Kaupmannahafnar, og ekki er það minna vesen. Við ætlum að reyna að taka sólina með okkur til Íslands. Það veitir ekki af að hlýja ykkur eitthvað smá. En við viljum gjarnan fá eitthvað smá með okkur til baka aftur. Við hljótum að geta deilt þessu á milli okkar. Það verður allavega gott að komast í smá frí.
Jæja best að fara að gera eitthvað sniðugt, eins og að þrífa bakaraofninn!
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2015 | 12:11
Vor í lofti
Kæru bloggvinir
það er nú varla maður þori að skrifa um veðrið í þessari færslu. Miðað við fréttirnar að heiman, þá erum við víst bara mjög heppin. Það er nú vonandi að þessu fari eitthvað að linna hjá ykkur. Þetta hlýtur að fara að verða gott. Við getum reynt að koma með eitthvað smá betra veður með okkur þegar við komum um páskana. En við viljum nú gjarnan taka það með okkur til baka aftur. Frúin fór út með Ágúst og hundinn í morgun. Ágúst er að líkjast systir sinni meira og meira, allavega að því leyti að hann er mikill gaufari. Hann fékk plastpoka á göngunni og byrjaði að tína alls konar blöð og sand í pokann. Hún gerir þetta ennþá. En auðvitað bara gott að þau geta dundað sér við svona lagað og finnst þetta spennandi. Nonna finnst líka blöðin sem fjúka um í garðinum, gríðarlega spennandi.
Ágúst er mjög duglegur að blaðra. Hann er duglegur að syngja og er farin að geta talið og kann einhverja liti. Hann lærir mikið af systur sinni. Þess vegna er hann sennilega eitthvað fljótari að læra hlutina.
Við drifum í að finna lausn á öllum yfirhöfnunum sem fljóta út um allt hérna fram á gangi. Það er mikill munur að þurfa ekki að vaða í gegnum haug af dóti þegar maður ætlar þarna fram. Við gætum alveg notað meira pláss þarna frammi, en það er nú ekki svo einfalt.
Annars gengur allt sinn vanagang hér á bæ. Börnin eru óskaplega þreytt á að vakna morgnana, nema um helgar. Þá vaknar sonur okkar í síðasta lagi kl. 5 og finnst hann alveg ofurhress. Foreldrarnir eru ekki alveg sammála. Auður er nú farin að geta sofið eitthvað lengur, en vaknar oft við bróðir sinn og sofnar ekki aftur. Bóndinn var því sendur framúr í morgun.
Frúin uppgötvaði sér til mikillar hrellingar að passinn hennar og Auðar runnu út í fyrra. Það þurfti því að finna leið til að endurnýja þá, svo við kæmumst til Íslands. Það tókst eftir töluvert vesen að ná sambandi við ræðismann hér í nágrenninu og við förum til hans á þriðjudaginn. Hann er með aðsetur í Sönderborg, ca. klukkutíma keyrslu héðan. Það er alltaf verið að loka sendiráðum hér. Sennilega verið að spara, eða það er svona erfitt að vera ræðismaður fyrir Íslendinga. Þeir eru nú yfirleitt með þetta í tengingu við einhverja aðra starfsemi, svo þeir eru nú sennilega ekki mjög þjakaðir af álagi. Við náum að fá einhverja bráðabirgðaframlengingu. Það er hægt ef passinn er ekki kominn meira en eitt ár fram yfir tímann. Passi frúarinnar rann út 31 mars í fyrra, daginn sem við fljúgum til Íslands.
Auður er orðinn mjög spennt og hlakkar mikið til. Ágúst veit ekki alveg út á hvað þetta gengur, svo hann á örugglega eftir að verða spenntur þegar hann fer í lestina og flugvélina. Við ætlum svo rétt að vona að veðrið verði eitthvað skárra, svo við þurfum ekki að bíða í marga klukkutíma á flugvellinum, eins og gerðist um daginn í einhverju óveðrinu. Það er greinilega mikið fréttaefni, hvernig veðrið á Íslandi hefur verið, því það rataði í dönsku veðurfréttirnar um daginn. Það gerist nú mjög sjaldan.
Jæja best að fara að klára helgarverkin
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2015 | 13:10
Gluggaveður
Kæru bloggvinir
Það er vor í lofti í dag. Sól og ágætlega heitt, meðan maður er í sólinni. Þetta er því hálfgert gluggaveður. En gerir samt heilmiið fyrir geðheilsuna. Það var gott veður síðustu helgi, en svo skipti aftur í gráveður þangað til í dag. Við fórum í göngutúr inn í Gram í dag og gáfum öndunum. Þær eru nú sennilega ekki vanar að vera fóðraðar, því þær voru eitthvað styggar. En börnunum og Ágústi fannst þetta mjög spennandi.
Auður og vinkona hennar eru búnar að vera saman mestalla helgina. Það hefur gengið upp og niður, en aðallega vel. Þær eru oftast góðar saman. Auður fékk að taka hana með sér heim á föstudaginn, það var allt ómögulegt. Auður vildi ekki leyfa henni að gera neitt, hún var ekkert nema mótþróinn, sennilega bara þreytt eftir langa viku. Síðan voru þær saman mest allan daginn í gær, án þess að gera annað af sér en að rusla heilmikið til. Þær voru nú settar í að taka til eftir sig, þrátt fyrir heilmikil andmæli. Vinkona Auðar er ekki vön að gegna, svo hún spyr í hvert skipti sem hún er beðin um eitthvað, af hverju. Auður á örugglega eftir að sakna hennar þegar hún kemur til Íslands um helgina. Hún er annars mikið að spá og spekulera þessa dagana. Það voru sviðnir og hreinsaðir 12 lambahausar hér í gær, og bakgarðurinn hjá okkur líktist sláturhúsi. Hún sá þetta allt saman en sagði nú ekki mikið. Hún sagði svo seinna í gær að hún vorkenndi lömbunum mikið að fá þessa meðferð. Svo útskýrðum við fyrir henni að við borðuðum dýrin, og töldum upp kýr og kindur og líka hesta. Þá var henni nú alveg lokið. Maður gæti nú ekki borðað svo sæt dýr.
Ágúst er voða mikið að fullorðnast í útliti núna. Hann er að lengjast og grennast. Það kostar auðvitað að það þarf að versla ný föt fyrir barnið. En svona er það. Hann hefur nú þegar skoðun á því hvaða fötum hann vill vera í. Ég setti hann í einhverja peysu í gær, sem honum þótti greinilega ekki við hæfi, því hann sótti sér aðra. Hann er mjög duglegur að reyna að klæða sig, gefst nú oft upp, en reynir allavega. Hann er að verða of langur til að sofa í barnavagninum en það er hálfgerð synd að láta hann hætta að sofa í honum, hann sefur svo vel. Við verðum að sjá hvað hægt er að finna. Hann hættir allavega að sofa í vagni þegar hann fer í leikskólann. Hann blaðrar mjög mikið, mest á dönsku, en kemur með íslensk orð á milli. Hann apar allt upp eftir systir sinni.
Jæja best að njóta friðarins. Ágúst er sofandi úti í vagni og Auður er hjá vinkonu sinni.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2015 | 12:13
Vor í lofti
Kæru bloggvinir
það er búið aðð vera vor í lofti hér í dag og í gær. En það er nú ennþá ansi kalt, svo þetta er meira svona gluggaveður. En það munar miklu þegar sólin skín. Það hefur verið hálf grámyglulegt veður hér í mestallan vetur. En frúin hefur svo sem verið fegin að það hafi ekki verið snjór. Það er svo mikið vesen þegar það snjóar. Þá fer allt í vitleysu. Það getur nú náð að koma eitthvað hret ennþá, en líkurnar verða minni og minni. Það er farið að birta heilmikið á morgnana og á kvöldin. Það er heljarinnar mál að fá Auði til að vera í fötum. Hún vill helst vera á nærbuxum einum fata alla daga. En það gengur nú ekki. Það er barist hér á hverjum morgni um hversu mikið hún á að klæða sig. Það verður óskaplega gott þegar hún getur farið að vera á tásunum og eitthvað léttklæddari.
Hún var að leika með vinkonu sinni í mestallan gærdag. Það var heima hjá vinkonunni. Þegar frúin kom að sækja hana fóru þær báðar að hágráta. Það varð því að semja um að þær mættu fara saman á enn eina öskudagsskemmtunina í dag. Svo ætti þetta nú að vera búið í ár. Það verður eitthvað harmakvein þegar Auður hættir í leikskólanum eftir þennan mánuð. Hún á að byrja í aðlögun fyrir skólann. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Maður skilur þetta varla. Og litli ormurinn fer í leikskóla í haust. Það þarf bráðum að fara að huga að fermingu, með þessu áframhaldi.
Svo er mikil tilhlökkun hér á heimilinu þar sem fjölskyldan er væntanleg á klakann um páskana. Auður telur dagana niður. Hún saknar systur sinnar óskaplega mikið. Ágúst skilur nú ekki svo mikið af þessu ennþá. En honum á nú örugglega eftir að finnast þetta mjög spennandi. Okkur vantar stað að vera, svo ef einhver veit um hús sem þarf að passa um páskana, þá erum við mjög áreiðanlegir húsapassarar. Þegar við komum til baka til DK, þá byrjar Auður í aðlögun í skólanum. Hún er rosalega spennt fyrir þessu. Hún á nú örugglega líka eftir að sakna krakkana í leikskólanum. En hún kynnist auðvitað líka nýjum börnum. Það byrja 8 börn í aðlögun á sama tíma og hún og þau verða 11 í allt. Við erum mjög ánægð með að þetta er svona lítill hópur.
Ágúst er alveg milljón þessa dagana. Hann svarar oft alveg rosalega spaugilega fyrir sig. Og nýtur auðvitað athyglinnar í botn. Hann veit alveg hvernig hann á að fá athygli. Pabbi hans spurði hann um daginn hvort hann væri með njálg. Hann horfði hneykslaður á hann og svaraði, nei. Svipbrigðin hjá honum eru óborganleg. Það er oft erfitt að halda andlitinu.
Annars er allt með frið og spekt hérna. Frúin var að uppgötva að passinn hennar og Auðar er útrunninn fyrir ári síðan. Það verður því að reyna að ná í eitthvað til að redda því. Maður pælir ekki mikið í þessu dags daglega. En maður þarf að vera með passa þegar maður fer til Þýskalands, svo það var gott það var ekki búið að stoppa okkur.
Jæja best að fara að koma sér á öskudagsskemmtun.
Kveðja frá Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2015 | 15:55
Öskudagur
Kæru bloggvinir
þá er búið að slá köttinn úr tunnunni. Ágúst var klæddur út sem ljón og Auður sem prinsessa. Ágúst var valinn einn af þremur best klæddu og fékk 50 kr danskar í verðlaun. Hann skildi nú víst ekki alveg allt umstangið, en fannst athyglin ekkert leiðileg. Þau fengu fullt af sælgæti, svo þau verða hress í kvöld. Það eru víst ekki fleiri öskudagsskemmtanir á þessu ári, enda komið alveg nóg í bili. Bóndinn bakaði vatnsdeigsbollur í gær og þær voru borðaðar með bestu lyst. Óli og Guðný komu í heimsókn í gær, svo Auður fékk bæði Arndísi að leika við og svo var vinkona hennar hérna á móti, líka hérna í mest allan gærdag. Þær voru nú nokkuð stilltar, svona miðað við hvernig þær geta verið. Það var ruslað vel til, en þær eru nú nokkuð góðar að taka til. Auði finnst oft gaman að taka til. Gaman að vita hvernig það eldist af henni.
Annars er allt að verða komið í fastar skorður aftur, eftir vetrarfrí. Börnin hafa verið hraust þessa vikuna, gott að það hefur ekki verið neitt veikindavesen. Það er víst búið að vera mjög mikið um veikindi almennt hjá börnum. Enda búið að vera mikill loftraki. Það er skítakuldi með þessu. En sem betur fer ekki mjög mikið rok.
Við fórum í vinakvöldmat á föstudaginn. Það var fólk frá Sýrlandi sem eldaði matinn. Það var eitthvað sem líktist þangi, með kjúklingi í. kartöflur sem voru fylltar með kjöti og salat. Það tekur nú sennilega tíma sinn að taka innan úr kartöflum og setja fyllingu í. Þetta var mjög huggulegt eins og venjulega.
Auður er farin að fara í sund á þriðjudögum. Hún er eitthvað að sættast við að vera ekki með okkur á laugardögum, eins og hún er vön. Hún fer ein ofan í laugina, og það hefur eitthvað verið að standa í henni. Ágúst fer með móður sinni á laugardögum og finnst það mjög gaman. Þau eru nú bæði hrifnust af því að vera í heitu lauginni, en kannski geta þau vanist venjulegu lauginni. Hin börnin virðast allavega geta það.
Annars hefur vikan liðið ofurhratt eins og allar aðrar og maður skilur ekkert í því að það sé að koma mars. Bráðum ætti að fara að vora hérna hjá okkur. Það verður nú ekki leiðilegt. Við værum allavega alveg til í að sleppa við veturinn. Það hefur ekki verið harður vetur enn sem komið er og vonandi verður þetta bara áfram svona.
Jæja það hefur víst ekki mikið annað gerst hér í þessari viku.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2015 | 13:05
Vetrarfrí
Kæru bloggvinir
Þá er vetrarfríið á enda. Frúin ætlaði nú að vinna mánudag til miðvikudag, en drengurinn var svo lasinn að hún var heima með hann og Auði líka. Hún átti að vera í leikskólanum, en það var ekki hægt að senda hana af stað þegar Ágúst var heima. Hann var mun meira veikur en Auður. Hann svaf ekkert eina nóttina og fékk bólur út um allan maga og bakið líka. Hann var voða lítill í sér í nokkra daga. Hann gat voða lítið borðað því hann var líka með bólur í munninum. En hann er búinn að vera hress síðustu daga, svo hann fer aftur til dagmömmunar á morgun. Þau verða eflaust fegin að komast í rútínu aftur. Annars eru þau búin að vera voða róleg, miðað við að við höfum ekki getað farið út eða gert neitt sérstakt. Það er skítakuldi hérna núna. Ekki frost, en af því það er svo mikill raki og rok, þá virkar þetta mikið kaldara.
Við fórum í heimsókn til vina okkar í Odense í gær. Auður og Arndís voru voða duglegar að leika sér í herberginu hennar Arndísar. Eða það héldum við. Þangað til þær komu út úr herberginu allar útkrassaðar í túss. Það vakti ekki mikla hrifningu hjá foreldrunum, en þeim þótti þetta nú mjög smekklegt. Það verður að setja barnið í bað í kvöld og sjá hvort maður nái þessu ekki af. Það er búið að nudda það versta úr andlitinu.
Frúin fór á föstudaginn og hjálpaði fyrrverandi nágrannakonu sinni að þrífa. Þau voru að flytja og hún var bara ein að þrífa og flytja. Og þetta er ekkert venjulegt fólk. Þau eru svo rosalegir sóðar, að annað eins hefur varla sést. Við þurftum að fara í önnur föt þegar við komum heim, þau voru svo skítug. En gott að geta hjálpað, þau hafa alltaf verið mjög góð að hjálpa okkur. Þau voru að flytja í húsið við hliðina, svo þetta var bara borið yfir veginn. Þægilegt. Við keyptum af þeim koju og settum inn í herbergið hjá krökkunum. Þá var hægt að setja bæði rúmið hennar Auðar og Ágústs upp á loft. Það er orðið hellings pláss í herberginu þeirra núna. Auður er búin að vera inni í herbergi að leika síðan við breyttum þessu. Hún hefur aldrei viljað leika þar inni. Það er spurning hversu lengi það verður. En er á meðan er.
Það eru öskudagshátíðar hér flesta daga. Þeim finnst það nú ekki leiðilegt. Það er öskudagshátið í sunnudagaskólanum á morgun. Svo er örugglega líka eitthvað hjá dagmömmunni líka í næstu viku og á sunnudaginn er svo öskudagshátíð í Tiset. Nóg að gera í þeim málum. Jæja ætli sé ekki ráð að fara að njóta síðasta dagsins í fríinu. Vonandi er þessu veikindastandi hjá börnunum lokið. Þau hafa nú aldrei verið mikið veik, svo þetta eru töluverð viðbrigði.
Kveðja úr kuldanum
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2015 | 11:57
Hlaupabóla taka tvö
Kæru bloggvinir
þá er hlaupabólan mætt aftur í hús. Þegar frúin var að skipta á syninum í morgun sá hún nokkrar bólur á honum, svo hann fer víst ekki til dagmömmunnar þessa vikuna. En það er búið að bjarga því. Það er sem betur fer skólafrí í næstu viku, svo það er auðveldara að fá pössun. Við vonum svo bara að hann fái ekki meira en systir sín. Hún fékk ekkert svo mikið. Ekki miðað við marga aðra sem við höfum séð.
Það er mjög fallegt veður hér í dag. En það er nú lítið hægt að nýta sér það, þegar maður er með barn með hlaupabólu. Við verðum bara að vera inni í dag. Það verður bara að horfa á DVD myndir og leika. Ágúst er nú nokkuð góður í því. Þau eru bæði orðin alveg þrælkvefuð aftur. Það er búið að vera heitt og kalt til skiptis undanfarið, svo það er sennilega ekki mjög gott fyrir lungun. Þeir eru að lofa kulda aftur í næstu viku. Frúin þarf að vinna mánudag og þriðjudag, og kannski miðvikudag. Þannig að þetta verður auðveld vika. Það er ekki búið að plana neitt sérstakt í tilefni þess að það er frí. En það verður að reyna að gera eitthvað, fyrst það er frí. Það verður að planleggja það þegar maður sér hversu veikur Ágúst verður.
Annars er allt við það sama hér. Það er farið að birta töluvert bæði á morgnana og seinnipartinn. Það er stór hjálp í því.
Þau systkin eru með algjört æði fyrir að kubba. Það er verst að það eru ekki til svo margir, svo þau eru nú stundum að rífast. stundum geta þau kubbað saman, en það fer eftir því hvort Ágúst gerir eins og systir hans segir. Hún er ansi stjórnsöm. Hún byrjar í svona skólaundirbúning um miðjan apríl. Hún hættir þá í leikskólanum. Það verður nú pínu skrýtið. Hún er orðin voða spennt að byrja. Hún veit nú sennilega ekki alveg út á hvað það gengur, og að þær stelpur sem hún hefur leikið mest við síðustu ár, fara í annan skóla, svo hún þarf að finna nýja leikfélaga. En ætli hún finni nú ekki eitthvað út úr þessu með tímanum.
Við fórum í sund í gær. Auður skellti sér í köldu laugina og synti nokkrar ferðir, með kút og kork. Við urðum samt að fara upp úr, af því Ágústi fannst laugin svo köld. Frúnni fannst hún nú ekkert sérstaklega heit, en það venst svo sem. Frúin fer venjulega með Auði í sund á þriðjudögum. Hún er að vera meira frökk. Hún þarf að venjast þessu og svo erum við að vona hún vilji synda í stóru sundalauginni með tímanum. Hitastigið í sundlaugunum hérna er nú ekki það ssma og heima á Íslandi. En Dönunum finnst þetta líka hálfkalt, þó þeir séu vanir þessu.
Nýjasta áhugamálið hjá Auði er að horfa á mynd um sirkus. Hún vill gjarnan vera sirkusprinsessa þegar hún verður stór. Hún er alltaf að spyrja hvenær við förum aftur í sirkus. Hún er enn að syngja jólalögin, þó við séum nú alltaf að reyna að telja henni trú um að jólin séu búin. Bróðir hennar apar allt upp eftir henni. Hún hefur róast mikið undanfarið og þroskast.
Jæja ætli sé ekki málið að fara að slaka á, fyrir næstu törn. Það þarf að gera pizzu fyrir kvöldið. Það átti að gera þær í gær, En þá vorum við svo heppin að vera boðið í mat hjá vinafólki okkar.
Kveðja frá Tiset og hlaupabólunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2015 | 15:23
Snjórinn kominn aftur
Kæru bloggvinir
hér er búið að vera fallegt vetrarveður um helgina. Smá snjór og kuldi. Ekta vetrarveður. En það er ómögulegt að vita hvað svo verður. Það er frekar mikið hringl á veðrinu. En við erum mjög ánægð meðan það snjóar ekki of mikið. Það skapar svo mikil vandamál í umferðinni.
Við höldum jafnvel við séum að fá nýja nágranna. Húsið hér við hliðina hefur staðið autt í svolítinn tíma, en það hefur verið einhver hreyfing þar í dag. Það er alltaf nýtt fólk að flytja þarna inn. Það er nú frekar þreytandi, en ekkert að gera við því. Það eru nú ekki endilega guðs bestu börn sem flytja hérna til Tiset, svo það er nú kamnski ekki á góðu von.
Þetta hefur verið hálfgerð veikindavika. Auður var heima mánudag og þriðjudag með hlaupabólu og Ágúst var heima fimmtudag og föstudag með lungnabólgu. Gríðarlegt fjör. Við höldum nú þau séu að skríða saman og að Ágúst fari til dagmömmunnar á morgun. Það var víst mjög fámennt hjá henni í síðustu viku. Margir veikir. Við vonum þetta sé búið. Við erum nú ekki vön að vera mikið heima með veik börn, sem betur fer.
Frúin komst að því að það er ekki svo gott að hella djúsi yfir lyklaborðið á fartölvunni. Það hafði allavega ekkert sérstaklega góð áhrif á tölvuna okkar. En hún er ennþá nothæf, með öðru lyklaborði.
Í gærmorgun var brunað til Þýskalands. Við höfum nú ekki farið þangað lengi, svo það var orðið þörf á. Síðan var farið á einhverja heimakynnningu hjá vinafólki okkar. Það var verið að kynna eitthvað svakalega góð vítamín og bætiefti. Allra meina bót. Og verðið eftir því. Fólkið sem var með kynninguna hefur örugglega verið orðið þreytt á okkur, því við vorum ekki alveg að hoppa á þetta. En þau náðu nú samt að selja einhvern slatta.
Í morgun fórum við svo í göngutúr með hundinn. Við mæltum okkur mót með öðrum Íslendingum og fórum að labba í skógi hérna rétt hjá. Hundunum fannst þetta mjög gamam og það var mjög hressandi fyrir okkur hin að labba í kuldanum. VIð skoðuðum svo hænurækt hjá gestgjöfunum. Þau eru með nokkrar hænur. Það hefur nú alltaf verið draumur hjá bóndanum að eignast hænur. Spurning hvort það verði eitthvað úr því.
Jæja best að fara að sinna börnum og búi
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2015 | 18:52
Snjórinn kominn
Kæru bloggvinir
þá varð loksins af því við fengjum snjóinn sem þeir hafa verið að lofa. Það kastaði smá éli í gær og veðrið hefur verið mjög fallegt. Þetta er nú bara eitthvað smotterí og það á víst að byrja að rigna í vikunni, svo vetur konungur gerir víst bara stutt stopp í þetta skiptið. Auður greyið fékk hlaupabólu á föstudaginn og hefur ekkert getað farið út, en frúin fór út með Ágúst og Nonna og við bjuggum til tvo litla snjókarla, sem Nonni svo eyðilagði. En þeim fannst þetta víst báðum mjög skemmtilegt. Í dag var svo farið í leiðangur að versla öskudagsbúninga. Við höfum nú alltaf fengið þetta lánað, en nú er ungfrúin farin að hafa ákveðnar skoðanir á þessu, svo það varð að kaupa galla á þau bæði.
Ungfrúin hefur verið voða aum og er illt í bólunum. Hún hefur nú verið hressari í dag. Hún verður allavega heima á morgun og ætli hún fari svo ekki í leikskólann á þriðjudaginn. Ágúst er ekki enn kominn með þetta, en það kemur kannski seinna. Eða kannski sleppur hann. Aldrei að vita. Hann hefur verið að uppgötva spottann á milli fótanna á sér. Það er mjög spennandi og hann reynir að toga í þetta. Hann sér hann nú ekki af því hann er með bumbu. En ferlega fyndið að fylgjast með þessu.
Við fórum svo í smá heimsókn hjá fólki hérna rétt hjá, sem eru með kúabú. Við létum þau hafa köttinn sem við tókum að okkur. Svo er bara að sjá hvort hann verður þar, eða hvort hann stingur af. Það ætti allavega að vera nóg að éta. Það hljóta að vera einhverjar mýs í fjósinu. Þetta eru nú engin smá fjós sem þeir eru með. Þetta er ekkert mjög stórt bú, en þau eru með 200 kýr og svo kálfa og svoleiðis. Þau eiga ekki minna en 5 stráka og svo fengu þau stelpu, sem er jafngömul og Auður. Þær fara í sama skóla í haust.
Frúin fór nú að hugsa um daginn að það liði ekki á löngu áður en stóra stelpan á heimilinu fari í skóla og litli prinsinn í leikskóla. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Auður getur byrjað í einskonar aðlögun að skólanum núna í apríl. Þá er hún bara svona að kynnast skólanum og börnunum. Svo byrjar skólinn fyrir alvöru í haust. Maður þarf auðvitað að fara í sér verslunarferð til að versla skólatösku og allt sem tilheyrir. Það verður nú eitthvað spennandi.
Annars er nú allt við það sama hérna í kotinu. Það er eitthvað aðeins farið að birta, en það gengur nú hægt. En allavega gott að veðrið er ekki að stríða of mikið, þegar maður þarf að keyra svona langt í vinnuna á hverjum degi. Danirnir eru nú alltaf eitthvað að væla yfir að það sé ekki neinn snjór. Ef hann svo kæmi, þá yrði það allt ómögulegt.
Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á fyrir næstu vinnuviku.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2015 | 11:52
fastir liðir eins og venjulega
Kæru bloggvinir
hér bólar ekki mikið á vetrinum ennþá. Þeir eru nú eitthvað að lofa meiri kulda og veseni í næstu viku. Við sjáum til hversu slæmt það verður. Stundum er þetta ýkt of mikið. Í dag er rigning.
Ágúst fór til dagmömmunnar á fimmtudaginn. Það voru miklir fagnaaðarfundir. Hann er orðinn ansi frekur og vill helst ikke gera það sem hann er beðinn um. Það er víst eðlilegt á þessum aldri. Þau syskinin geta verið voða góð að leika sér. Oftast gengur það fínt ef Auður fær að ráða ferðinni. Stundum nennir hún ekki að hafa hann með. Það er víst ósköp eðlilegt. Henni var boðið í bíó í dag með vinkonu sinni. Hún hefur bara einu sinni farið í bíó og það var á sama stað og við förum í sund. Hún hefur því ekki alveg verið að skilja að hún á að fara á annan stað í dag og þar er ekki sundlaug. Hún var ótrúlega spennt. Hún var meira og minna vakandi aðfaranótt mánudagsins. Hún sparkaði og slóst, og sparkaði svoleiðis í pabba sinn að hann var haltur daginn eftir. Hún fór því ekki í leikskólann á mánudaginn. Það er nú ekki oft sem hún hefur verið veik og ekki komist í leikskólann. Við fórum með hana til læknis og hún missti næstum andlitið þegar hún leit inn í eyrun á barninu. Það var víst ekki mjög fallegt. Hún fékk pencilín og er öll að koma til. Við vonum þetta hafi bara verið í þetta eina skipti. Hún hefur ekkert fengið eyrnabólgu síðan hún fékk rörin í eyrun. Þau eru löngu dottin út og hún hefur ekki verið með eyrnabólgu fyrr en núna. Þau eru greinilega bæði mikil jólabörn, því þau syngja ennþá jólalög og tala mikið um jólasveina og svoleiðis.
Frúin og Ágúst fóru í sund í gær. Við ætluðum að fara í rennibrautina, en þegar við vorum komin ca hálfa leið, þá varð allt svart. Þá var ekkert ljós inni í henni og við urðum að ýta okkur út í birtuna. Ágúst er sem betur fer ekki stresaður yfir svona hlutum, svo hann pældi ekkert í þessu. Hann er að verða mjög duglegur að prófa að synda með kúta. Hann er mun frakkari en systir hans var. Enda er hann allt önnur týpa. Ótrúlegt hvað systkin geta verið ólík
Annars er víst allt eins og venjulega. Í gær var stóri bökunardagur. Hér var bakað og þrifið á fullu. Auður var pínu sár yfir ekki að fá að fara með í sund í gær. En svo stakk hún upp á því að hún og pabbi hennar gætu tekið til á meðan ég og Ágúst færu í sund. Þegar við komum heim var allt hreint og fínt. Aldeilis munur.
Jæja það er víst ekki meira markvert héðan í bili
Kveðja frá Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)