11.1.2015 | 18:16
Hversdagsleiki
Kæru bloggvinir
þessa vikuna höfum við verið að reyna að fá hversdagsleikann aftur í gang. Ágúst hefur verið annað hvort heima eða í pössun. Hann hefur verið ansi ringlaður á þessu. Dagmamman reiknar með að geta byrjað aftur að vinna á fimmtudaginn. Við vonum að það passi. Hann er farin að hafa þörf fyrir að komast inn í rútínu aftur. Auði finnst heldur ekkert sniðugt að fara í leikskólann þegar hún veit hann er ekki að fara til dagmömmunnar. Hún er eitthvað voða leið á að fara í leikskólann þessa dagana og er óskaplega þreytt. Hún spurði á hverjum morgni í síðustu viku, hvenær kæmi helgi og hún gæti sofið út. Á laugardaginn vaknaði hún svo kl. 5:30 og gat ekkert sofið meira. Hún verður örugglega ekkert sérstaklega spræk á morgun.
Við ætlum að reyna að fá hana til að byrja í sundi, á sama stað þar sem við höfum verið í ungbarnasundi. Við fórum þangað á þriðjudaginn. Það var svona prufutími. Það gekk alveg ágætlega. Það er erfitt að reikna út, hvernig það gengur í næstu viku. Hún er óútreiknanleg þegar kemur að því að prófa eitthvað nýtt.
Við erum byrjuð á fullu í mataraðhaldi aftur og byrjuð að hreyfa okkur aftur. Frúin var reyndar nokkuð dugleg að fara út að labba í jólafríinu. Það er auðvitað alltaf erfitt að komast í gang aftur, en maður finnur vel fyrir því að vera búin að borða brauð og sykur í hálfan mánuð.
Bóndinn er búinn að taka niður allt jólaskrautið úti. Það er heljarinnar vinna, en fínt að klára það. Það hafa verið óveður síðan á föstudaginn. Það er eitthvað að róast núna. Það hefur verið mikið rok og rigning. Það voru hús sem stóðu hérna úti á vesturströndinni sem ultu í sjóinn. Það var svo mikill sjógangur að sjórinn braut niður jarðveginn undir húsunum. Það hlýtur að vera dálítið undarlegt að sjá húsið sitt velta í sjóinn. Það fauk ekkert hjá okkur, enda bóndinn búinn að setja dótið inn.
Kötturinn sem við tókum að okkur er ennþá hjá okkur, en fær ekki að koma inn, af því hann kann ekkert á kattabakkann. Við ætlum að reyna að koma honum út á sveitabæ hérna rétt hjá. Sennilega hefur hann verið fjósaköttur fyrir.Annars getur hann nú svo sem verið hérna á bak við.
Við Ágúst fórum svo í ungbarnasund í gær. Honum fannst það mikið fjör og fór margar ferðir í rennibrautina. Það er mjög fyndið að fylgjast með hvernig margir hlutir eru auðveldari fyrir hann af því hann á eldra systkini. Hann lærir mikið af systur sinni, bæði gott og slæmt.
Bilanaveikin er ennþá að angra okkur. Á mánudaginn byrjaði öll ljós í mælaborðinu á bílnum að blikka og hann vildi ekki keyra lengra. Það lagaðist svo eftir smá stund. Það er sennilega alternatorinn sem er að gefa sig. En við ætlum að sjá hversu lengi við getum keyrt hann án þess að setja hann í viðgerð. Það er alltaf mjög dýrt að setja bílinn á verkstæði. Svo í gær var eins og pillubrenniofninn hjá okkur væri að bila. Bóndinn las sér eitthvað til um málið og hreinsaði einhverja skynjara, og það hefur virkað síðan. Við vitum ekki hvort það hafi verið nóg, eða það þurfi meira til. Vonandi hefur þetta verið nóg.
Jæja ætli sé ekki best að fara að koma börnunum í bólið.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2015 | 19:02
Gleðilegt ár
Kæru bloggvinir
Gleðilegt ár og takk kærlega fyrir þau liðnu. Hér er búið að fagna áramótum og nýja árinu með góðum mat og líka smá sprengjum. Það var nú samt ekki mikið í ár. Börnin eru hálfhrædd við þetta. Þau fengu nú að halda á stjörnuljósum. Aðal spenningurinn var að sprengja borðsprengjur hérna inni. Auður er farin að skilja mikið meira af hvað þetta gengur út á og pælir mikið í þessu,
Helga Rut og Kristín Júlía fóru heim í gær. Það er því heldur tómlegt hérna hjá okkur núna. Börnin voru samt orðin pínu þreytt á að vera saman allan daginn og deila leikföngunum. Á morgun fer Auður svo í leikskólann. Ágúst ætti svo líka að fara til dagmömmunnar, en hún braut viðbeinið í fríinu, svo hún er óvinnufær, allavega næstu viku. Það er því verið að reyna að finna lausnir á því máli. Hann verður örugglega fegin að komast í fasta ramma aftur, þegar hún er vinnufær aftur. Hann tók upp á því að segja jebb núna í jólafríinu og sagði það óspart í nokkra daga. Við vitum ekki hvar hann heyrði það, en þótti það mjög fyndið.
Við erum annars bara búin að taka lífinu með ró og njóta þess að þurfa ekki að stressa sig á morgnana til að komast af stað og allt sem þessu fylgir. Það verður nú samt ágætt að allt komist í samt hoft aftur. Börnin verða örugglega fegin.
Á morgun á svo að byrja í nýju átaki. Við erum búin að sukka svolítið matarlega séð um jólin og já það hefur verið þess virði. En maður finnur samt að þetta gengur ekki til lengdar, svo að á morgun verður tekið á þessu aftur. Það er alltaf erfitt til að byrja með, en svo kemst þetta í vana.
Annar kötturinn okkar týndist milli jóla og nýárs. Við sáum svo verið að auglýsa kött sem fannst hérna rétt hjá. Við fórum að skoða hann, til að sjá hvort þetta væri okkar köttur, en það var það ekki. Þau sem höfðu fundið hann gátu ekki haft hann, svo við buðumst til að taka hann. Hann byrjaði á að þakka fyrir sig með að skíta á gólfið og míga í sófann, svo nú er hann hérna á bak við, og fær að borða. Við verðum að sjá til, hvort hann stingur af, eða vill vera hérna hjá okkur. Kettir fara nú alltaf sínar leiðir.
En ætli þetta sé ekki nóg í bili. Nú eru allir framhaldsþættirnir að byrja í sjónvarpinu aftur, svo það verður nóg að gera að horfa á kassann.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2014 | 11:37
Gleðileg jól
Kæru bloggvinir
gleðileg jól. VIð vonum að allir hafi komist gegnum hátíðarnar án þess að hljóta skaða af. Við erum búin að hafa það mjög náðugt og borða góðan mat. Börnin voru ótrúlega góð að bíða á aðfangadag og voru ekki mikið að fikta í jólatrénu eða pökkunum. Það var mikill hamagangur í öskjunni þegar pakkarnir voru teknir upp. Vð fullorðna fólkið biðum með að opna okkar pakka þar til börnin voru sofnuð. Það er nú ekki svo mikilvægt að fá pakka þegar maður er orðinn fullorðinn. Það er svo skemmtilegt að fylgjast með gleði barnanna þegar þau opna sína pakka, að það er alveg nóg.
Síðan er bara búið að vera afslöppun og göngutúrar á dagskránni. Það er búið að vera mjög fallegt veður um jólin, bjart og smá hrímað. Gæti ekki verið betra. Moldvarpan sem er flutt hér inn í garðinn fyrir framan, er ekki enn lögst í dvala, bóndanum til mikillar ánægju. Hún fer nú kannski í frí núna þegar það er komið frost.
Börnin hafa verið dugleg að leika með dótið sem þau fengu í jólagjöf. Auður hefur aldrei verið neitt sérstaklega góð í að leika með leikföng, en í ár höfum við greinilega hitt í mark með það dót sem hún fékk. Hún leikur sér töluvert með það. Það er spurning hversu lengi það verður. Það hafa nú verið einhverjir bardagar um hver á að leika með hvað, en það er nú bara eðlilegt þegar börn eru saman. Þau hafa annars verið ótrúlega friðsæl, miðað við aðstæður. Við höfum nú líka reynt að fara út á hverjum degi og viðra þau.
Í dag er svo jólaball í sunnudagaskólanum hjá Auði. Við ætlum að kíkja á það, svona til að klára jólin almennilega. Það er mikil stemning í að klæða sig í fín föt og dansa kringum jólatréð. Þær frænkur eru miklar pæjur og keppast um að vera fínar. Þær verða einhvern tíma góðar.
Í gær héldum við jólaboð með nokkrum íslenskum fjölskyldum hérna inni í Gram. Við gerðum þetta líka í fyrra. Hver kom með sinn mat og svo borðuðum við saman og sátum svo fram eftir kvöldi og spjölluðum. Helga var heima og leit eftir börnunum. Það er mikill munur að hafa ókeypis barnapíu.
Jæja ætli sé ekki best að fara að henda sér í sófann í smá stund fyrir næstu átök.
jólakveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2014 | 19:27
Rigning og rok
Kæru bloggvinir
hér hefur verið rigning og rok í töluverðan tíma. Eitthvað annað en snjórinn sem þið fáið þarna heima. Það er frekar hlýtt ennþá, en auðvitað finnst manni kaldara þegar það er rok. Þeir eru að spá þessu eitthvað áfram, svo við fáum örugglega ekki hvít jól.
Hér hefur verið mikið um að vera að venju. Í gær var skrópað í sundi og Auður og bóndinn fóru að sækja Helgu Rut og Kristínu Júlíu á flugvöllinn. Auður var búin að bíða svo spennt eftir þessu og það varð því hálfgert spennufall hjá henni í gær, þegar þær loksins komu. Það hefur nú verið einhver rígur á milli þeirra frænkna, en Ágúst virðist eitthvað taka þessu meira rólega. Það var svo haldið smá íslenskt jólaball í dag, hérna í Tiset. Það komu nokkrar íslenskar fjölskyldur og við dönsuðum kringum jólatréð og sungum íslensk jólalög. Þetta var mikil stemning og alltaf gaman að geta sungið á íslensku. Ótrúlegt hvað maður man þessi íslensku jólalög og alla textana. Krakkarnir skemmtu sér mjög vel. Jólasveinninn kom líka í heimsókn og gaf þeim nammi í poka. Það þótti þeim nú ekki leiðilegt.
Hér er allt að vera klárt fyrir jólin. Frúin þarf að vinna á morgun og Ágúst fer til dagmömmunnar. Það verða nú ekki mörg börn, svo þau geta slakað vel á fyrir jólaátökin. Auður verður bara heima, það voru svo fá börn sem áttu að vera í pössun í leikskólanum, að hún verður bara heima.
Við hjónin fórum í sálmasöng í kirkjunni í vikunni. Við höfum ekki prófað þetta áður. Það fengu allir sálmabók og svo voru sungnir margir fallegir jólasálmar. Við þekktum nú mörg lög, en textarnir voru auðvitað á dönsku. En það er lítið mál að setja sig inn í þeð. Þetta var mjög gaman. OKkur finnst svo gaman að syngja.
Helga Rut kom með skötu og hangikjöt með sér, svo við fáum nú aldeilis jól með íslensku ívafi. Ekki dónalegt það.
Frúin var við það að hrökka upp af í vikunni. Hana vantaði getnaðarvarnarpillu fyrir köttinn og ætlaði nú að reyna að hringja í dýralækni til að bjarga þessu. Hún hringdi á fyrsta staðinn, þar var ekki hægt að fá þetta, nema koma með köttinn. Á hinum staðnum var henni tjáð hún gæti fengið þetta, en það þyrfti að borga 3500 krónur, bara fyrir að fá lyfseðil. Manni blöskrar nú algjörlega. En það verður að finna einhverja lausn á þessu. Ekki er minna mál að fá fleiri kettlinga.
Það verða ekki send nein jólakort í ár, þar sem okkur blöskrar svo rosalega bréfburðargjaldið. Það er planið að setja inn mynd af börnunum á facebook.
Jæja best að fara að koma sér í sófann og taka því rólega
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2014 | 18:36
Jólaklipping
Kæru bloggvinir
hér hefur enn ekki sést mikið til vetrar. Fyrstu merki þess það væri eitthvað vetrarlegt, kom í vikunni. Það var nálægt frostmarki og smá hálka einn morguninn. Annars hefur mest verið rok og rigning. Danirnir kvarta mikið yfir að þeir vilji fá frost, svo þegar kemur frost, fer allt í stress og vitleysu. Annars væri ágætt að fá smá frost, það er moldvarpa í garðinum, sem er að verða búin að grafa upp allan garðinn. Það gæti verið hún legðist í dvala, ef það kæmi almennilegt frost.
Ungfrúin á heimilinu tók upp á því í vikunni að fara inn á klósett í leikskólanum og klippa á vinkonu sinni hárið. Vinkonan snyrti líka hressilega á Auði hárið, svo það þarf að fara með hana í klippingu fyrir jólin og reyna að laga þetta. Auður vill auðvitað meina að hún sé alveg saklaus, en við trúum því nú ekki alveg. En lán í óláni að það var ekki klippt styttra en þetta.
Það er allt að verða klárt fyrir jólin. Bóndinn tók sig til í vikunni og skellti í sörur. Þá er bara eftir að kaupa síðustu jólagjafirnar og jólamatinn og jólatréð. Þá er þetta komið. Manni finnst nú hálfskrýtið að jólin séu að koma. Maður er einhvern veginn aldrei tilbúinn í það. Frúin þarf að vinna næstu viku og mánudaginn í vikunni á eftir. Svo er hún komin í jólafrí. Helga Rut og Kristín Júlía koma á laugardaginn. Það er mikil tilhlökkun á heimilinu. Auður segir oft á dag að hún sakni systir sinnar og fer að gráta. Það verða sennilega miklir fagnaðarfundir þegar hún kemur loksins.
Í gær fórum við í sund eins og venjulega. Ágúst og pabbi hans voru að djöflast eitthvað, sem endaði með því að Ágúst gubbaði yfir sig og móðir sína og það varð að ríma sundlaugina og loka henni á eftir. Ekki skemmtilegt það. En svo sem ekki von á öðru þegar það er verið að hamast of mikið. Í dag renndum við svo til Odense í kaffi. Auður var búin að tala mikið um að hún saknaði Arndísar vinkonu sinnar. Þær voru voða duglegar að leika.
Jæja best að fara að henda sér í sófann og slaka á.
kveðja frá Tiset
Gummi og co
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.12.2014 | 18:43
Jólabakstur
Kæru bloggvinir
þá er baksturshelgin mikla yfirstaðin. Það er búið að baka kleinur, randalínu, brúnköku og fleira. Nóg að gera. Bóndinn er að spá í að skella í sörur líka. Við megum nú svo sem ekkert borða sætindi, en höfum ákveðið að láta lögmálin lönd og leið í desember og taka á því í ræktinni og fara aftur í strangt aðhald í janúar. Jólin koma nú bara einu sinni á ári.
Við hjónin fórum á kórtónleika á fimmtudaginn. Við höfum nú ekki brugðið okkur af bæ saman ansi lengi. Þetta var mjög fínn kór og skemmtileg tónlist, þó hún væri nú ekkert sérstaklega jólaleg. Ágúst fór að skreyta jólatré í vinnuvélabúðinni hér í Tiset, með dagmömmunni. Þar hitti hann enn einn jólasveininn, sem gaf börnunum endurskinsvesti. Honum finnst hann mikill töffari í þessu. Um að gera að venja hann við að vera í svoleiðis, áður en honum fer að finnast þetta eitthvað hallærislegt. Við erum búin að fara og gefa hestunum brauð og viðra börnin í leiðinni. Nonna er meinilla við hestana og reynir að ráðast á þá.
Í morgun fórum við í fjölskyldumessu. Það var mjög fínt og börnin voru ótrúlega stillt. Svo var tekið á móti Íslendingum í kaffi og seinna um daginn komu svo kunningjar okkar, sem búa rétt hjá okkur. Þau hafa verið ein af þeim fáu sem hafa talað eitthvað við okkur, síðan við fluttum hingað.
Það hefur verið óvenju hlýtt haust hérna. Það kom smá kuldakafli um daginn, en núna er aftur orðið hlýtt. Þetta er ansi flókið, en auðvitað fínt að hafa gott veður. Það er nú samt frekar mikil grámygla og rigning. En heldur það, en snjó og hálku.
Bóndinn hefur verið mjög öflugur að skreyta og finnst Dönunum þetta örugglega mikil óráðsía að hafa öll þessi ljós í öllum gluggum og í garðinum. Þeir sjá örugglega ofsjónum yfir þessu öllu.
En það er best að fara að slaka aðeins á eftir átök helgarinnar.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2014 | 18:55
Jólasveinninn kemur til Tiset
Kæru bloggvinir
Hér hefur heldur betur verið tekið á því í jólatrésskemmtunum. Á fimmtudaginn var jólatrésskemmtun í sunnudagaskólanum. Á föstudaginn var svo jólatrésskemmtun í leikskólanum. Þar kom jólasveinn með nammipoka. Í fyrra kom jólasveinninn, en hann var ekki í neinum buxum. Auður var mjög undrandi á því að jólasveinninn í ár hafði munað eftir að fara í buxur. Henni fannst það nú víst betra. Þetta var mjög fínt. Dansað í kringum jólatréð og sungin nokkur lög.Frúin hitti tvær stelpur sem voru með henni í mæðrahóp, þegar Auður var lítil. Við vorum 4 í hópnum. Tvö af börnunum sem voru í hópnum eiga að fara í sama skóla og Auður. Það er nú svolitið sérstakt. Þau muna auðvitað ekkert eftir hvert öðru. Við hættum að hittast þegar þau voru árs gömul. Á jólaskemmtuninni í leikskólanum sungu elstu krakkarnir jólalag og komu öll inn í einni röð. Þetta var óskaplega fallegt. Frúin sagði við Auði að henni fannst þetta svo fallegt að hún var næstum farin að gráta. Auður skildi það nú ekki alveg og hélt að ég hefði meitt mig eitthvað, fyrst ég var að fara að gráta.
Í gær komu svo Óli og Guðný í heimsókn með allan krakkahópinn. Auður var ekkert smá glöð að hitta Arndísi vinkonu sína. Hún hefur talað mikið um að hún sakni hennar. Þær léku sér allan daginn í gær, án þess að rífast. Það var þreytt stúlka sem fór í rúmið í gærkvöldi og ekki minna þreytt í dag. Í morgun fór hún með pabba sínum til Þýskalands. Þau hlustuðu á jólalög í bílnum. Það hefur Auður talað um lengi og hlakkað mikið til að mega hlusta á það. Svo fór hún að leika við vinkonu sína hérna á móti og eftir það fórum við að taka á móti jólasveininum í Tiset. Það var breytt út af venjunni í ár og gengið í kringum jólatré og allt mögulegt. Þetta var mjög fínt og krökkunum fannst þetta mjög sniðugt. Nú ættum við að vera búin að hitta nógu marga jólasveina í bili. Ágúst var nú smeykur við jólasveininn sem hann hitti á föstudaginn, en í dag var hann ekkert smeykur. Auður vildi endilega halda í hendina á honum í dag og var mjög sátt við það.
Bóndinn var að byrja að skreyta hérna fyrir utan í dag. Það er búið að vera alveg ótrúlega kalt, þó það hafi ekki verið frost. Það hefur verið rok og það hefur verið alveg nístingskalt. En það er allavega ekki snjór eða slíkt ennþá.
Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á.
kveðja
Gummi, Ragga og barnaskarinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2014 | 17:46
Afmæli
Kæru bloggvinir
þá er runninn upp afmælisdagur prinsins á heimilinu. Það er ótrúlegt að það séu liðin tvö ár síðan frúin stóð upp á endann í heilan dag og bakaði piparkökur, með þeim afleiðingum að fæðingin fór af stað. Af því tilefni voru að sjálfsögðu bakaðar piparkökur. Hann man að vísu ekkert eftir því þegar hann kom í heiminn að það voru nýbakaðar piparkökur á borðum, en hann fær nú örugglega að heyra þá sögu nokkru sinnum. Það var haldin fín veisla fyrir hann í dag. Að vísu voru nokkur forföll. Gunnþóra vinkona er nýbúin að eignast litla stelpu, svo hún var fjarri góðu gamni. Guðný og Óli eru líka með lítinn nýfæddan, sem hefur verið voða kvefaður, svo þau voru líka heima. En þetta var annars mjög fínt. Bóndinn var búinn að standa sveittur við baksturinn og tókst bara vel upp. Prinsinn var mjög ánægður með alla athyglina og naut þess að fá gjafir. Auði fannst þetta ekki alveg eins skemmtilegt. En hún fékk nú vinkonu sína í heimsókn í morgun, svo hún fékk nú líka eitthvað skemmtilegt að gera.
Næstu helgi verður ekki minna að gera. Það er jólaball í sunnudagaskólanum á fimmtudaginn, í leikskólanum á föstudaginn og jólasveinninn kemur til Tiset á sunnudaginn. Það verður eitthvað fjör með alla þessa jólasveina.
Frúin er búin að gefast upp á að þurrka þvottinn úti, í þessum raka og verður að gefa eftir og finna þurrkara. Það hefur aldrei verið efst á óskalistanum, en það þýðir ekkert að tala um það. Ekki getum við verið í blautum fötum og við erum mikið minna kvefuð eftir að við hættum að þurrka þvottinn hérna inni. Auður hefur verið með smá hósta í svolítinn tíma, en það er að lagast.
Ágústi fer mikið fram að tala og talar frá því hann vaknar á morgnana, þar til hann sofnar á kvöldin. Við gáfum honum einhvern traktor með dýrum á í afmælisgjöf og það eru einhver hljóð í. Þetta er alveg gríðarlega skemmtilegt leikfang fyrir hann, foreldrarnir eru kannski ekki eins hrifnir. Hann getur líka keyrt sjálfur, í fyrstu var Ágúst hálf smeykur við þetta tryllitæki, en er orðinn sáttur við hann núna. Við höfum verið að sýna honum og Auði myndir af þeim þegar þau voru pínulítil. Það þykir mjög spennandi.
Auði er farið að hlakka mikið til að fá systir sína í heimsókn um jólin og talar oft um það.
Jæja best að fara að slappa af eftir amstur dagsins.
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2014 | 13:28
Rok og rigning
Kæru bloggvinir
Hér er búið að vera rok og rigning um helgina og ekkert mjög spennandi útiveður. Laufin eru smám saman að verða fokin af trjánum. En það er einhver reitingur eftir. Það er mjög mikill raki, svo að það virkar frekar kalt.
Á föstudaginn var nóg að gera. Bóndinn og börnin fóru í vinakvöldmat og við bökuðum pizzu til að gefa fólkinu að borða. Það var ægilega hrifið af þessu. Við gerðum líka kokteilsósu og íslenskt hvítkálssalat. Þetta var allt étið af bestu lyst. Frúnni var boðið í fyrirlestur á föstudagskvöldið. Þetta var eitthvað svona konukvöld. Frúin var nú ekkert hrifin af fyrirlesaranum, en þetta var mjög huggulegt. Maturinn heppnaðist líka mjög vel hjá bóndanum og honum mikið hrósað.
Í gær var svo brunað í sund eins og venjulega. Þau eru bæði óttalegir vatnshundar og finnst þetta rosa skemmtilegt. Þegar við komum heim var nóg að gera og við vorum ekki alveg með augun á syni okkar. Það kom svo í ljós að hann sat á skammeli og var búin að ná í málningartúbu. hann sat á stólnum og kreisti allt úr henni. Þegar pabbi hans spurði hvað hann væri að gera, þá sagði hann sem satt var, að hann væri að mála. Það var hellings verk að ná þessu öllu úr og spurning hvort maður hafi náð þessu öllu úr. Hann er að verða ansi uppátækjasamur eins og pabbi hans var á yngri árum. Þá held ég nú við þurfum að fá róandi ef hann verður eins.
Við fengum gamla nágranna okkar til að raka innkeyrsluna með traktor og stórri hrífu. það tókst ekki betur til en svo að hann rispaði sökkulinn á húsinu á mörgum stöðum. Braut þakrennu og reif internettenginguna úr veggnum og sleit hana í sundur. Það var því allt sjónvarpslaust og internetlaust i tvo daga. Það varð þó til þess að bóndinn tók til í öllum ljósmyndunum okkar og setti í tímaröð. Þetta er búið að vera á dagskrá mjög lengi. Það getur verið að þetta verði til þess að það komi aftur inn myndir hér á síðuna.
Í vikunni gaf uppþvottavélin líka upp öndina. Okkur til mikillar mæðu. Við fundum svo notaða vél hér í nágrenninu, sem bóndinn fór og sótti í gær. Svo nú krossum við fingur fyrir að það bili ekki fleiri stór tæki á næstunni. Þetta er orðið alveg ágætt. Og svona rétt fyrir jól.
Næstu helgi verður svo haldið upp á afmæli unga mannsins á heimilinu. Hann skilur nú víst lítið í umstanginu, en það verður nú samt að halda upp á afmælið hans.
Jæja best að fara að sinna börnum og búi.
Kveðja
Gummi, Ragga og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2014 | 19:00
Haustkuldi
Kæru bloggvinir
þá er farið að kólna heldur hjá okkur. Það er nú samt ennþá hitatölur á daginn og það fer ekki niður fyrir frostmark á nóttunni. En það er svo mikill raki að það virkar eins og það sé kaldara. Frúin ætlaði varla að treysta sér í göngutúr á föstudagskvöldið, en lét sig hafa það samt.
Hér hefur ýmislegt verið brallað eins og venjulega. Það var farið í sund í gær, alveg ómissandi ef maður spyr börnin allavega. Bóndinn var heima og bakaði og þreif allt hátt og lágt á meðan. Ekki amalegt það. Svo komu gestir og það var horft á fótbolta. Auður fékk vinkonu sína í heimsókn og fór líka í heimsókn til hennar. Þær ætluðu að leika uppi á lofti, en hrökkluðust niður aftur, þeim fannst svo kalt uppi. Það er enginn hiti þar, svo það er kannski ekkert skrýtið.
Auður er oft eitthvað að pæla og það koma ótrúlegustu hlutir upp úr henni. Hún spurði pabba sinn um daginn hvenær hún gæti átt barn. Þær eru örugglega eitthvað að pæla í því í leikskólanum. Hún er búin að eiga nokkra kærasta og það virðist vera sem þær deili þeim á milli sín. Hún er búin að vera hálf ómöguleg undanfarið. Við vitum ekki alveg af hverju.
Ágúst er farin að þykjast vera í rosa fýlu og snýr baki í mann og er ægilega móðgaður. Hann er nú samt yfirleitt fljótur að taka gleði sína á ný. Hann er voða rokkari og á laugardögum hlustum við á Bylgjuna meðan við borðum kvöldmatinn. Hann dansar voða mikið við og finnst þetta rosa fyndið. Það var að byrja ný stelpa hjá dagmömmunni, hann hefur nú verið í einhverju dramakasti út af því og var farin að bíta eitthvað frá sér þar. En hann hefur ekki gert það hérna heima, svo þetta hlýtur að líða hjá. Hann er voða knúsari og knúsar alla hjá dagmömmunni í bak og fyrir. Hann blaðrar stanslaust allan daginn. Maður skilur nú ekki allt, en getur nú yfirleitt giskað á hvað hann er að meina.
Í dag var svo planið að fara í morgunmat hjá fyrrverandi starfsfélaga frúarinnar, en því var frestað þar sem gestgjafinn var veikur. Við fórum út í göngutúr í staðinn og svo var farið í afmæli hjá hundi nágrannans. Hann varð 9 ára. Það var boðið upp á eplaköku og fínerí.
Svo tekur hversdagsleikinn við aftur á morgun. Alveg ótrúlegt hvað þessar helgar líða hratt og maður nær ekki helmingnum af því sem maður ætlar sér.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)