2.11.2014 | 19:00
Laufregn
Kæru bloggvinir
þá er farið að rigna laufblöðum. Það segir bóndinn allavega. Frúin er sannfærð um að það kom skúr í dag, en bóndinn vill meina að það hafi bara rignt laufblöðum. Hann fór allavega út að slá garðinn í dag, og þvotturinn sem frúin henti út í dag náði að þorna. Það tekur langan tíma að þurrka þvottinn núna, við erum að reyna að hætta að þurrka inni, af því það kemur svo mikill raki, það er ekkert sérstaklega hollt fyrir fjölskylduna, þar sem flestir eru með lungnavesen. Við höldum allavega að það hjálpi, svo börnin séu ekki alltaf svo kvefuð.
Hér hefur ekki verið slegið slöku við, frekar en fyrri daginn. Við ætluðum að hafa rólega helgi, en erum nú samt búin að gera alveg helling. Frúin náði samt að leggja sig í smá tíma í gær og það hefur nú ekki gerst í 100 ár. Á föstudagskvöldið var vinakvöldverður. Það var mjög fínt eins og venjulega. Frúin tók vinkonu Auðar með, þær voru svo óþekkar að það er spurning hvort okkur verður ekki bara vísað út næst. Alveg ótrúlegt hvað börn geta æst hvert annað upp.
Ágúst hefur verið eitthvað lélegur að borða, við fundum svo út að hann var með sveppasýkingu í munninum svo það var ekkert skrýtið hann vildi ekki borða. Hann er búinn að fá eitthvað lyf og er orðinn góður aftur. Hann svaf illa á nóttunni af því hann gat ekki sogið snuðið almennilega. En þetta er nú allt í áttina núna. Frúnni þykir allavega mjög ánægjulegt að fá að sofa á nóttunni. Annars er hún ansi geðvond.
Í gær var svo bakað brauð og farið í göngutúr. Í morgun var drifið í að skera út grasker og setja út. Það er nú kannski fullseint, en betra er seint en aldrei. Auði fannst þetta mjög spennandi en Ágúst missti fljótlega áhugann. Hann er mun betri að dunda sér og leika með dót en Auður. Hún er reyndar orðin góð í að púsla og teikna og perla og svoleiðis. En Ágúst er betri að leika með dót og er alveg sama þó hann sé einn inni í herbergi. Þau eru bæði alveg ótrúlegir fiktarar og þurfa að gramsa í öllu. Alveg ótrúleg árátta, sem frúin er sannfærð um kemur frá föðurnum.
Í dag var svo farið í kaffi hjá Ástu og Óla. Það var kökuhlaðborð eins og venjulega. Frúin var búin að hamast við að taka til uppi á lofti. Auður leikur sér stundum þarna uppi þegar hún er með vinkonur í heimsókn. Það virðist ganga út á að rusla mikið til og svo hendast og gera eitthvað annað. Það er allavega ekki mikið verið að leika með það sem er búið að rusla fram. En þetta hlýtur að lagast með aldrinum.
Jæja best að fara að glápa á kassann
kveðja
Gummi, Ragga og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2014 | 16:52
Haustannir
Kæru bloggvinir
það hafa verið miklar annir hér undanfarið. Gott að við vorum ekki líka í að taka upp kartöflur og taka slátur og svoleiðis. Frúin var á námskeiði mestalla síðustu viku og var lengi í vinnunni þrjá daga. Það tekur nú alveg sinn toll. Í gær var svo farið í sund eins og venjulega. Frúin fann skógarmítil sem hafði sogað sig fastan á Ágúst Ægi. Hún náði honum af og hann virðist ekkert finna fyrir þessu. Svo þegar heim var komið tróð drengurinn hendinni milli stafs og hurðar og sat fastur. Það náðist að losa hann og hann meiddi sig sem betur fer ekkert alvarlega. Það var sennilega meira við konurnar í húsinu sem voru meira í sjokki yfir þessu. Í gær var svo stóri bökunardagurinn. Þegar maður er á sérfæði þarf að baka allt brauð og brauðmeti, svo mest allur dagurinn í gær fór í það.
Í gær áttum við svo að breyta tímanum, en gleymdum því. Svo þegar við vöknuðum í morgun uppgötvaðist þetta. Bóndinn var þá farinn á fætur kl. 5:30 í staðinn fyrir 6:30. Þau eiga sennilega eftir að sofna fljótt í kvöld. Í morgun var svo farið á strönd hérna svolítið frá. Við vorum að tala um það í vikunni að það væri erfitt að búa svona inn í miðju landi og sjá ekki til sjávar nema keyra eftir því. Frúin sér reyndar alltaf sjóinn þegar hún fer í vinnuna. Við fórum með alla fjölskylduna og hundinn. Allir skemmtu sér konunglega og Auður týndi margar skeljar og steina. Það var frekar mikið rok og skítakuldi. En við létum það ekki á okkur fá. Það var bara hressandi að fá smá rok á sig. Og svo vorum við nú heldur ekkert mjög lengi.
Nú er svo búið að klára að taka inn grænmetisuppskeruna. Við áttum eftir að skera niður chili og papriku. Frúin er búin að prófa að sjóða einskonar grænmetismauk, sem á að vera hægt að nota eins og sultu. VIð ætlum svo að þurrka eitthvað chili og svo verðum við sjá hvað við gerum við afganginn. Það kom hellings uppskera, bæði af papriku og chili. Næsta ár verðum við bara að setja þetta niður fyrr.
Auður er búin að vera að leika við vinkonu sína bæði í gær og í dag. Nóg að gera hjá henni.
Næsta vika verður nú sennilega eitthvað rólegri vinnulega séð allavega. En við finnum okkur örugglega eitthvað að gera. Það er alltaf verið að plana að slaka á, en það virðist vera mjög erfitt að koma því í verk.
Jæja best að fara að elda matinn og hátta börnin.
kveðja
Önnum kafna fjölskyldan í Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2014 | 19:27
Tannálfurinn
Kæru bloggvinir
þá er haustfríið að renna sitt skeið. Það hefur auðvitað ekki verið setið auðum höndum hér frekar en vanalega. Það er búið að vera ágætis veður, rigning og suma daga frekar kalt. En ágætis haustveður. Það er búið að fara og versla ný föt fyrir ungfrúnna á bænum. Hún er að vaxa mikið núna, svo buxurnar eru orðnar of stuttar. Svo er búið að fara í Legoland. Það var gjörsamlega troðið af fólki, og biðraðir í öll tæki, en börnin skemmtu sér konunglega og kvörtuðu ekki einu sinni yfir að þurfa að bíða í allt af 45 mínútur eftir að komast í sum tækin. Þau hafa svo sem ekki prófað að fara á svona stað áður, svo þau vita ekki hvernig þetta er venjulega. Það voru því dauðuppgefin en glöð börn sem komu heim hér á fimmudaginn. Þau suðuðu ekkert allan daginn, en fengu ís áður en við fórum heim. Það er annars ekki vandamál að eyða peningunum í Legolandi. Það er ótrúlegt hvað þetta fyrirtæki smyr á allt. Við vorum algjörlega að missa okkur yfir okrinu þarna. En það þýðir ekkert að tala um það. Svona er þetta bara og maður verður að reyna að halda fast í veskið þarna inni.
Svo var haldið til Odense í gær að kíkja á nýja prinsinn þar. Hann er ekkert smá lítinn og krúttlegur. Frúin fékk að máta hann. Alveg ótrúlegt, hvað maður er fljótur að gleyma hvað nýfædd börn eru lítil. Það eru nú ekki nema tvö ár síðan Ágúst kom í heiminn og maður er alveg búin að gleyma þessu. Ágúst var óskaplega spenntur yfir drengnum og vildi ólmur halda á honum. Hann fékk að prófa og fannst þetta allt mjög spennandi. Auður fékk líka að prófa að halda á honum, en var annars ekkert svo spennt yfir þessu. Hún vildi frekar leika við Arndísi.
Auður var búin að vera mjög spennt yfir að missa fyrstu tönnina og var búin að tala um það lengi að hún vildi fá lausa tönn. Við vorum að reyna að segja henni að það væri nú erfitt að stjórna því. En svo nýlega byrjuðu framtennurnar að losna og á föstudaginn náði hún svo sjálf að rífa eina framtönnina úr. Hún setti hana undir koddann og fékk pening frá tannálfinum í staðinn. Hún hefur verið mjög upptekin af þessu öllu og hlakkar óskaplega til að fara í leikskólann á morgun og segja frá þessu. Já það þarf ekki alltaf mikið, til að gera þessi börn glöð. Á föstudaginn gistu Auður og Ágúst svo hjá vinafólki okkar svo við gætum sofið út. Við nýttum tímann til að keyra næstum til Árósa til að kaupa notuð vetrardekk og fórum svo út að borða á leiðinni heim. Það var ekkert smá góður matur. Við smökkuðum bæði krókódílakjöt og kengúrukjöt. Okkur fannst það nú ekkert spes. En þeir voru líka með ótrúlega gott lambakjöt. Eitthvað sem Danir eru annars ekkert góðir í.
Í dag hefur svo bara verið nóg að gera að fá allt í réttar skorður aftur, áður en það skellur á venjuleg vinnuvika í næstu viku. Frúin er að vinna lengi alla daga, því hún er að fara á námskeið. Það er ágætt að vera búin að vera í fríi nokkra daga til að hvíla sig fyrir þessi átök. Við fengum svo Óla og Ástu og tvö af börnunum þeirra í mat í kvöld. Svo það er víst fyrst núna sem maður nær að slaka eitthvað smá á. En svona er þetta bara. Við ættum að vera farin að þekkja rútínuna. Frúin er líka búin að ná að baka brauð. Kannski það dugi út vikuna.
Jæja best að slaka á, fyrst maður er kominn í sófann.
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2014 | 19:58
Haustfrí
Kæru bloggvinir
þá er frúin smituð af þessari haustflensu. Hún er þó ekki eins slæm og strákarnir. Allavega ekki ennþá. Auður hefur sloppið hingað til. Næstu vikuna er haustfrí í skólunum hér. Í gamla daga áttu börnin að hjálpa til við að taka upp kartöflurnar. En það er víst búið, svo blessuð börnin ættu að geta slakað á.
Það hefur verið nóg að gera hér eins og venjulega. Í gær var farið í að taka saman sólhúsgögnin og hreinsa til hér úti á verönd. Það er nú alltaf pínu sorglegt að taka þetta saman, þá veit maður að það er langt þar til maður getur setið úti og borðað aftur. En þetta er nú líka mjög fínt og hreint núna. Bóndinn sló garðinn í gær. Við vonum nú að það fari að fækka sláttuferðunum. Það er allavega ekki eins hröð spretta og hefur verið. Það er farið að hausta ansi mikið og laufin farin að fjúka um allt.
Í dag var svo haldið í heimsókn til vina okkar í Odense. Þar er fjölgunarvon og getur krílið komið hvenær sem er. Stelpurnar eru voða duglegar að leika sér og strákarnir eru eitthvað að æfa sig. Þeir eru nú ekki alveg búnir að finna út hver ræður. En þeir finna nú örugglega út úr því. Stelpur eru nú oft með meira vesen í svona löguðu.
Í næstu viku er svo frúin að vinna einhverja daga og Auður fer í leikskólann. Dagmamman hans Ágúst er í fríi, svo hann verður heima með pabba sínum. Hann er ennþá með ljótan hósta. Frúin fór með hann til læknis á föstudaginn, en hann er bara kvefaður og ekki mikið við því að gera, en að bíða og sjá hvað verður. Bóndinn er ekki eins slæmur og hann hefur verið, svo þetta er að ganga yfir vonum við. Auður hefur ekki enn fengið þetta. Við vonum bara hún sleppi. Hún fær sjaldan kvef nú orðið. Hefur seennilega tekið þetta út þegar hún var yngri.
Við erum búin að kaupa miða í Legoland í fríinu. Auður er búin að suða um þetta lengi, svo nú var látið verða af því. Við verðum að velja einhvern dag í næstu viku þegar það er sæmilegt veður. Það verður nú örugglega troðið af fólki, en það verður bara að taka það með í reikninginn. Ætli hún verði nú ekki svo ringluð af þessu öllu að það verði nóg fyrir hana bara að sjá þetta í fyrsta skipti. Hún er voða mikið að spá og spekúlera þessa dagana og oft kemur eitthvað fyndið út úr henni. Hún tekur oft upp á að tala um eitthvað sem hefur gerst fyrir löngu síðan. Hún er að læra stafina í leikskólanum og er mjög upptekin af því. Arndís vinkona hennar er byrjuð í skóla og þetta er allt saman mjög spennandi.
Ágústi fer mjög mikið fram í að tala og er farin að tengja saman tvö og tvö orð. Hann er mjög ákveðinn ungur maður og ef maður skilur hann ekki, þá er hann góður að koma manni í skilning um hvað hann meinar. Hann er voða stríðinn og fær systir hans oft að finna fyrir því. Hún er hins vegar ekkert að tvínóna við það og lætur hann finna fyrir því ef hún er pirruð á honum. Það verður einhvern tíma stuð þegar hann fer að krefja meira af sömu hlutum og hún. Núna fær hún oft að ráða. En það gengur nú ekki lengi.
Jæja best að fara að koma sér í bælið svo maður geti vaknað í vinnu í fyrramálið.
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2014 | 11:22
Haustflensa
Kæru bloggvinir
það hefur verið mjög milt veður hér um helgina, en maður finnur samt vel að það er komið haust í loftið. Það er farið að rigna laufblöðum, svo bráðum verður garðurinn fullur af laufi.
Bóndinn hefur verið með einhverja flensu, það hlýtur að vera haustflensan. Ágúst hefur verið kvefaður, en ekki með hita. Við vonum að það sé nóg á þessu hausti og við stelpurnar verðum ekki kvefaðar líka. En það er nú ekki víst við sleppum svo vel. Það hefur ekki borið á lúsunum aftur, svo við reiknum með við höfum náð að slátra þeim. Það er nú örugglega ekki fyrsta skipti sem við fáum lús og ekki í síðasta skipti. Þetta er landlægt hérna og virðist ekki hægt að stoppa þetta.
Ágúst er búin að vera eitthvað stúrinn þessa vikuna. Manni bregður nú við af því hann er venjulega mjög hress, en síðustu vikuna er hann búinn að vera eitthvað rellinn og algjörlega mömmusjúkur. Frúin heldur að hann sé að komast í 2 ára þvermóðskuna. Hann vill gera allt sjálfur og verður mjög pirraður ef maður reynir að hjálpa honum. Hann er orðinn voða duglegur að fara sjálfur í föt, og reynir líka að klæða sig úr. Hann og hinn strákurinn hjá dagmömmunni eru voða miklir félagar og sá litli skríkir af gleði þegar Ágúst kemur á morgnana. Það er voða gaman að sjá.
Við fórum í sund í gær eins og venjulega. Svo fórum við á basar í skólanum sem Auður á að fara í. Henni fannst það mjög spennandi og hitti vinkonu sína þar. Það er mikill spenningur fyrir að fara í skólann. Þau eru aðeins farin að læra stafi og svoleiðis og það er auðvitað mjög spennandi. Það er alltaf verið að skera niður í leikskólanum hjá henni og fækka starfsfólki. En það eru ekki mjög mörg börn í leikskólanum, svo það virðist ekki ennþá allavega hafa mikil áhrif. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir hversu mikið er hægt að spara. Vinkona hennar kom í heimsókn til hennar á föstudaginn. Það var auðvitað mikið fjör. Þær eru að verða duglegri að leika sér og ekki bara rusla til og gera eitthvað af sér.
Í dag fór bóndinn í leiðangur að kaupa vespu. Við erum búin að vera með eina í láni, en vorum búin að leita að annarri. Svo nú ætti hann að geta orðið vel keyrandi. Það er hægt að komast um á vespu hérna í nágrenninu, en auðvitað ekki ef það verður mikill snjór og hálka.
Kötturinn er farinn að fara aðeins út. Hann er nú ekki mikið fyrir að vera lengi úti. En honum finnst mjög skemmtilegt að hlaupa upp í tréð hérna fyrir framan. Það er frekar fyndið að sjá. Við tímum ekki að láta hann, hann er voða skemmtilegur. Mamman er ekki hrifin af því að hafa hann hér, því hann er voða mikið að djöflast í henni. En hún er farin að vera ákveðnari við hann og slá hann frá sér. Þau finna nú örugglega út úr þessu. Hundurinn er búinn að uppgötva að maður getur nagað greinar í skóginum. Hann hefur sennilega ekki verið mikið úti í skógi á Íslandi. Honum finnst þetta hin besta skemmtun.
Jæja það er víst ekki svo mikið meira í tíðindum hérna
Kveðja
tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2014 | 14:56
Lýsnar mættar á svæðið
Kæru bloggvinir
það er ekki bara haustið sem er komið hér í sveitinni. Við fundum lýs á dótturinni í morgun, svo fyrripartur dagsins hefur farið í að hreinsa höfuðið á henni og þvo sængurföt og allt sem þessu fylgir. Frúin var með eina lús, en hún hefur nú sennilega bara hoppað á hana þegar hún var að kemba Auði. Hinir í fjölskyldunni hafa sloppið, allavega enn sem komið er. Vonandi höfum við komist fyrir þetta í bili. Það hefur annars ekki verið mikið um lús upp á síðkastið, en þetta kemur alltaf í svona lotum.
Annars er búið að vera nóg að gera eins og venjulega. Auður fór í sunnudagaskólann á fimmtudaginn og heim með vinkonu sinni á föstudaginn. Svo var farið í sund í gær og frúin og Auður fóru í verslunarleiðangur til Þýskalands. Bóndinn hafði þá afsökun að hann þurfti að horfa á fótbolta, svo hann komst ekki með, en Ásta vinkona okkar kom með. Aðalerindið var að kaupa sundboli á frúrnar og það heppnaðist nokkuð vel. Fengum tvo sundboli fyrir minna verð en einn í Danmörku. Ekki slæmt það. Vonandi að þeir endist eitthvað. Þeir setja alveg rosalega mikinn klór í laugarnar hérna, svo það fer nú ekkert mjög vel með sundfötin.
Í dag fór Auður svo með pabba sínum í sirkus. Hún var búin að bjóða tveimur vinkonum sínum með, en þær gátu ekki, svo hún bauð Charlottu hennar Ástu með. Hún var ótrúlega spennt yfir þessu. Bankinn okkar gefur krökkunum miða einu sinni á sumri, af því þau eru með reikning í bankanum. En það má bara fara einn fullorðinn með og frúin hefur farið tvisvar sinnum, svo bóndinn fékk að fara núna.
Í kvöld kemur svo staðgönguamman í mat til okkar. Hún fór í leikskólann til Auðar um daginn, þegar það var ömmu og afadagur. Konurnar á leikskólanum sögðu að það hefði verið eins og hún væri alvöru amma hennar, af því henni fórst þetta svo vel úr hendi. Það er voða gott að hafa svona ömmu í nágrenninu, þegar ekta ömmurnar eru fjarri góðu gamni. Það kemur náttúrulega ekkert í staðinn fyrir ekta vöruna.
Ágúst talar meira og meira. Við skiljum nú ekki allt, en hann er mjög duglegur að gera sig skiljanlega. Hann er að verða voða upptekinn af því að gera allt sjálfur og verður frekar pirraður þegar maður reynir að hjálpa. Hann var til dæmis frekar súr þegar frúin vildi ekki leyfa honum að renna sjálfur í sundrennibrautinni í gær. Hún er frekar stór og löng. En hann vildi meina að hann gæti þetta alveg sjálfur. Það eru sem sagt spennandi tímar framundan. Við lifðum þetta af með Auði, svo við reiknum með þetta hafist allt saman. Það er líka voða gaman að þessum tilburðum í þeim. Hann pissaði á gólfið í búningsklefanum í sundlauginni í gær. Hann fór eitthvað að spá í tillann á sér í því samhengi. Svo þurfti hann auðvitað að kíkja uppundir hjá mömmu sinni til að sjá hvers konar tæki hún væri með. Sem betur fer réðst hann ekki á einhverjar ókunnugar konur.
Jæja best að fara að elda matinn
Kveðja
Tisetgengið og lúsablesarnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2014 | 11:39
Haustið heldur innreið sína
Kæru bloggvinir
Þá höldum við að haustið sé komið. Það er mjög fallegt veður, en það er farið að kólna heldur í veðri og sérstaklega á nóttinni. Það er líka farið að dimma fyrr á kvöldin. Svo þetta er sennilega allt að hellast yfir okkur.
Það hefur verið nóg um að vera hér síðustu daga. Það slitnaði kúplingsbarki í bílnum sem við vorum að fá, svo við erum búin að vera í tómum vandræðum. En með hjálp góðra vina hefur þetta nú allt reddast. Hann fer á verkstæði á morgun og við fáum lánabíl á meðan. Alltaf jafm heppin, eða kannski er þetta svona fall er fararheill. við vonum það. Höfum ekki efni á að gera mikið við bílinn. Það varð uppi fótur og fit á leikskólanum í vikunni, þegar bóndinn hafði beðið vinkonu okkar að sækja Auði, en hann hafði gleymt að láta leikskólann vita. Leikskólastjórinn hringdi í frúnna, sem kom alveg af fjöllum. Leikskólastjórinn gat ekki sagt hvað hún hét, svo þetta endaði með því að frúin varð að fá að tala við þennan leynigest, sem reyndist svo bara vera Ásta vinkona okkar. En allavega gott þeir láta ekki börnin manns til ókunnugs fólks.Auður skildi ekkert í öllu þessu umstangi.
Við fórum að skoða skóla á föstudaginn. Einn er einkarekinn og annar almennur skóli. Það var tekin ákvörðun um að Auður færi í einkarekna skólann. Það er svona lítinn skóli. Það eru ekki svo mörg börn í bekk og allt er svona meira öruggt. Í hinum eru mörg börn og okkur fannst skólastjórinn frekar hrokafull og leiðileg. Auður virðist vera sátt við valið. Sú sem hefur verið besta vinkona hennar fer í annan skóla, en ætli hún finni ekki aðra krakka að leika við. Það var svo huggulegt í litla skólanum að frúnna langaði bara aftur að fara í barnaskóla. En það væri nú sennilega ekki leyft. Það er allavega mjög gott að vera búin að ákveða þetta.
Á föstudagskvöldið var svo vinakvöldverður. Það var voða notalegt eins og venjulega. Og svo var sundið í gær. Það gubbaði enginn í þetta skiptið.Auður fór í fyrsta skipti ein í rennibrautina og frúin fór með Ágúst. Það er stór munur á kjarkinum í þeim systkinum. Ágúst er nú reyndar að verða eitthvað kjarkminni. En Auður hefur alltaf verið með mjög lítin kjark. Ágúst er að verða alveg eins og hún var á þessum aldri, að því leyti að þegar við erum úti, þá þarf hann að skoða allt mjög vandlega og helst koma við alla steina og tré. Það getur því tekið töluverðan tíma að komast á leiðarenda.
Annars er bara allt við það sama. Við tókum upp rabarbara í gær. Það hefur ekki verið nein rosaleg uppskera þetta sumarið, en alveg nóg fyrir okkur. Bóndinn er að rækta chilipipar í stórum stíl. Það er alveg spurning hvað á að gera við þetta allt saman. Ætli maður verði ekki bara að reyna að sjóða chilisultu úr einhverju af þessu.
Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2014 | 07:35
Og enn rignir
Kæru bloggvinir
það er nú ennþá töluvert vætusamt hjá okkur, en það var þurrt í gær og frekar hlýtt. En ætli það fari ekki að kólna meira núna þegar við komum lengra inn í haustið.
Næsta föstudag ætlar Elli og kærastan hans að koma í heimsókn í nokkra daga. Það verður nú örugglega kátt í kotinu þá. Það hefur verið frekar tómlegt eftir að Helga fór.
Auður er mikið að spá og spekulera þessa dagana. Hún er voða mikið að spá í bókstafi. Þau eru greinilega að tala um það í leikskólanum. Hún er voða upptekin af tunglinu og um daginn komst hún að því að tunglið hlyti að heita himinsson af því það er á himninum. Já stundum skilur maður nú ekki alltaf hvaðan börnin fá þessar hugmyndir. Hún mjög upptekin af hvar hún eigi að fara í skóla. Við erum að fara í viðtal í einum skóla á föstudaginn, til að heyra hvernig hann er. Það eru ansi mörg börn í hverjum bekk, svo það er nú eiginlega frekar mikill ókostur. Hinn skólinn sem við erum að spá í er einkarekinn, og það eru fá börn í hverjum bekk. Það skiptir auðvitað líka miklu máli hvort það sé einhver sem reynir að hafa stjórn á börnunum.
Kettlingurinn hefur vakið gríðarlega lukku þar sem hann fór. Hann er orðinn mjög kelinn og allir eru mjög hrifnir af honum. Krakkarnir í götunni hjá honum eru alltaf að koma og tékka og annar strákurinn á heimilinu vildi ekki fara í skólann eftir helgina af því hann var ekki viss um að pabbi hans gæti klappað kettinum rétt. Já þetta er ekki einfalt.
Í gær var farið í sund. Við urðum að fara upp úr lauginni fyrir tímann af því einhver gubbaði í hana og það varð að hreinsa hana. Þeir eru voða stressaðir yfir svona löguðu. Maður má bara vera í 15 mín í einu í heitu pottunum, svo þarf að hreinsa hann. Við höfum aldrei skilið þetta almennilega. En þetta er örugglega vísindalega rannsakað.
Ágúst oft með ansi mikil tilþrif þegar hann fær ekki það sem hann vill. Hann setur í axlirnar og setur upp einhverja svipi. Hann getur tekið ægileg dramaköst, en er nú mjög fljótur að jafna sig.
Við erum enn að velta fyrir okkur hvernig við getum fengið meira pláss fyrir krakkana. Nýjasta hugmyndin er að hengja rúm upp undir lofti. Þá fær maður allavega meira gólfpláss. En þetta er enn allt á hönnunarstigi.
Við erum ennþá með hinn kettlinginn, ætli hann verði ekki bara hjá okkur. Hann er voða mikill kelikarl og vill allavega gjarnan vera hjá pabba sínum á kvöldin.
Leiðin heldur svo til Odense í dag að heimsækja vini okkar. Það verður spennandi að sjá hvernig nýji bíllinn stendur sig á hraðbrautinni. Ætli allir verði ekki orðnir brjálaðir á okkur af því við keyrum svo hægt.
Kveðja
Gummi, Ragga og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2014 | 12:38
Rigning með smá uppstyttu
Kæru bloggvinir
það varð nú ekki langvinnur þurrkurinn sem var búið að lofa okkur í síðustu viku. Það voru nokkrir mjög fínir dagar, en svo hefur rignt frekar mikið í dag. En það er nú heldur hlýrra en hefur verið. Svo einhverjir kostir eru nú með þessu.
Bóndinn fór og náði í nýja bílinn á mánudaginn. Þetta er nýjasti bíllinn sem við höfum fjárfest í síðan við fluttum. Hann er ekki nema 9 ára gamall. Það er vonandi að hann endist í samræmi við það. Það er mjög fínt að keyra hann, en hann er nú ekki kraftmikill. Það er ódýrast að eiga sparneytna bíla, með litlum mótorum. Annars borgar maður svo mikinn þungaskatt. Svo nú lítur maður út eins og amma gamla og keyrir eins og slík.
Í gær byrjaði ungbarnasundið aftur. Það var voða mikið stuð. Ágúst hefur orðið eitthvað smeykur við vatn í sumar. Hann var mjög mikið í sundi og lenti oft á bólakafi. Svo fannst honum vatnið nú örugglega líka of kalt. En í ungbarnasundinu er vatnið upphitað, svo það er ekki vandamálið. Hann var nú orðinn nokkuð sáttur þegar við vorum búin. Við losnuðum við annan kettlinginn í gær. Hann var gefinn í afmælisgjöf til íslenskrar konu hérna ekki langt frá. Það var búið að ganga úr skugga um að enginn væri með bráðaofnæmi eða slíkt og svo var hann sendur af stað. Hana var víst búið að langa í kettling í einhvern tíma, svo það var nú aldeilis heppilegt. Við vissum ekkert um það. Kattamömmunni virðist vera nokkuð sama. En hinn kettlingurinn hefur nú verið eitthvað hissa á þessu. Það var nú búið að lofa honum til fólks sem við þekkjum, en bóndinn er eitthvað að fá kalda fætur. Kettlingurinn er orðinn svo mikill kúrikall. En við sjáum hvað setur.
Frúin hefur verið að hugsa mikið um hvernig hægt er að gefa börnunum hvert sitt herbergi. Það eru fleiri lausnir í boði, en bóndinn er að sofa á þessu. Þau vekja hvort annað á morgnana. Ágúst vaknar oft um 5 leytið, en Auður vill gjarnan sofa eitthvað lengur. Hún er sérstaklega erfið að fara á fætur á virkum dögum. Það hafa verið einhver niðurskurður í leikskólanum. Þeir hafa orðið að fækka starfsfólki, af því að það eru ekki sérstaklega mörg börn. Það hefur verið frekar erfitt fyrir hana. Hún á voða erfitt með allar breytingar. Það er nú sennilega líka erfiðara að ná sambandi við fóstrurnar, þegar þær eru færri. Vinkona hennar kom í heimsókn í gær og þær léku sér í marga klukkutíma. Þau eru búin að vera að læra um slökkviliðsbíla og hvenær á að hringja á 112. Hún hafði nú eitthvað misskilið það, því hún sá mynd af rútu í sjónvarpinu og vildi meina að svoleiðis bíll kæmi ef maður hringdi í 112. Það þurfti aðeins að leiðrétta það. En hún hafði greinilega fylgst vel með, því hún kom heim á hverjum degi og fræddi okkur um eitthvað.
Ágúst spyr á nokkurra mínútna fresti "hvað er þetta". Og aftur og aftur um það sama. Það hlýtur einhvern tíma að setja sig fast í höfðinu á honum.Hann er ótrúlega þolinmóður við systur sína, en við reiknum nú ekki með því að það verði lengi. Hann hlýtur að enda með því að svara fyrir sig.
Jæja það er víst ekki mikið meira að frétta héðan í bili
kveðja
Gummi, Ragga og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2014 | 17:42
Og enn rignir
Kæru bloggvinir
Þá er enn ein rigningarvikan á enda. Það hafa reyndar komið smá uppstyttur á milli, en ekkert stórkostlegt. Það hefur heldur hlýnað aftur. Og þeir eru að lofa einhverju rosa góðu veðri um miðja næstu viku. Við vonum að það standist, svo það sé allavega hægt að slá garðinn. Það verður að sæta lagi. Og að þurrka þvott er hin mesta kvöl. Það fer alveg að líða að því að maður verði að fjárfesta í þurrkara. Eða vonast eftir þurrki.
Það hefur að venju verið nóg að sýsla hér undanfarna vikuna. Maður skilur ekki alltaf í hvað tíminn fer, en allavega þá líða flestir dagar án þess að maður nái að setjast á afturendann. Bóndinn er búinn að vera að leita að öðrum bíl handa okkur. Sá gamli er orðinn ansi slitinn. Við erum búin að finna einn og fórum að skoða hann í gær. Bóndinn fer svo á morgun og nær í hann. Það er nefnilega ekki hægt að millifæra pening um helgar. Svo er víst ekki hægt að taka út pening í öllum bönkum heldur, svo bóndinn þarf að finna einhvern stóran banka á morgun og sjá hvort það sé hægt að fá pening. Það er nefnilega líka þannig að ef maður millifærir pening milli mismunandi banka, þá tekur það líka einhverja daga. Alveg ótrúlega flott kerfi. En allavega vonum við þetta gangi upp. Við erum að fjárfesta í alvöru fjölskyldubíl. Citroen Berlingo. Hann er víst 6 manna, en við þurfum kannski ekki alveg svo mörg sæti. En fjölskyldan þarf orðið töluvert pláss þegar það eru tvö börn og hundur. Við ætlum svo að kaupa tengdamömmubox, og þá ætti að vera hægt að koma draslinu fyrir. Við ætlum að svo að reyna að selja gamla hrakið og kaupa vespu í staðinn. Svo bóndinn sé nú ekki alveg lens hérna heima.
Sunnudagaskólinn byrjaði aftur hjá Auði í vikunni. Hún var mjög sátt við það. Henni finnst svo gaman að vera þar. Svo byrjar sundið aftur á laugardaginn, þau verða nú örugglega ekki ósátt við það. Þá fer allt að verða komið í rútínu aftur eftir sumarfríið.
Við erum búin að koma öðrum kettlingnum á heimili. Hann verður bara svona fjósaköttur sem á að veiða mýs og svoleiðis. Það er mjög mikið um slík kvikindi hér. Það þarf svo bara að finna stað fyrir hinn. Það hlýtur að hafast. Annars er alltaf verra að koma læðum frá sér. En vonandi gengur þetta allt saman. Það er allavega gott ef við losnum við þá, það er óttalegur óþrifnaður af þessu. Þeir gera stukkin sín í kattabakkann, en það þarf að hreinsa hann ansi oft þegar það eru þrír kettir sem nota hann. Svo voru þeir búnir að vera að gera stykki sín hérna undir sófann. Það þótti okkur nú ekki nógu gott, en við vonum að þeir séu hættir þeirri vitleysu.
Jæja það er best að slaka aðeins á fyrir átök næstu viku.
Kveðja úr rigningarlandi
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)