Rigningarvika

Kæru bloggvinir

þá er enn ein rigningarvikan að líða undir lok. Manni finnst nú alveg þeir mættu skipta þessu meira jafnt. Fyrst rigndi ekki svo vikum skipti og núna er búið að rigna í næstum mánuð. Það virðist nú ætla að hanga þurrt í dag. Frúin er í stökustu vandræðum með þvottinn. Það er erfitt að þurrka hann þegar það rignir svona mikið. Hitinn er heldur ekkert sérstaklega mikill, svo þetta gengur eitthvað illa. Við verðum bara að reyna að laumast í þurrkara hjá einhverjum sem við þekkjum.

Við vorum nú búin að vera að spá í að fara i allavega eina útilegu ennþá, en það er ekkert spennandi þegar það rignir svona rosalega og svo er skítkalt á nóttinni. Við erum farin að kynda húsið. Það var ekki undan því komist lengur. Við erum vön að geta geymt það, þar til í byrjun september. Við höfum heyrt spekingana segja að það hlýni aftur í september. Við vonum að það standist. 

Auður Elín er mikið að þroskast þessa dagana. Hún er voða mikið að spá í strákana á leikskólanum. Hún á kærasta, og hann á aðra kærustu. Það er víst ekkert mál. Hún er sannfærð um að stelpur kyssi ekki neina nema kærstann sinn. Við mægðurnar fórum í sirkus um daginn og það var talað um það í marga daga á eftir og hún er oft að biðja um að fara aftur. En það koma sennilega ekki fleiri sirkusar í sumar.

Það er búið að vera nóg að gera í félagslífinu um helgina. Á föstudaginn var vinakvöldverður. Það var mjög huggulegt. Auður var búin að spyrja á hverjum degi, hvort við værum ekki bráðum að fara í hann. Svo í gær var okkur boðið í grillveislu hjá þeim sem sjá um sunnudagaskólann sem hún er í. Sunnudagaskólinn byrjar á fimmtudaginn. Það verður nú eitthvað skemmtilegt. 

Ágúst talar voða mikið. Það er nú ekki margt sem við skiljum. En hann er allavega farinn að segja nei og það verður sennilega bara verra og verra. Hann er farin að taka upp á því að vakna eldsnemma á morgnana, gjarnan um 5 leytið, hann skilur ekkert í því að við séum ekki til í eitthvað geim á þeim tíma. Auður er hins vegar orðin mjög morgunsvæf og það tekur langan tíma að koma henni á lappir á morgnana. Þau eru eitthvað byrjuð að læra um bókstafina og tölurnar í leikskólanum. Það er kannski svona erfitt að hún þarf að sofa meira.

Ágúst fór í klippingu í gær. Hann var orðinn eins og illa rúin rolla. Hann var rosa duglegur. Sat alveg kyrr og stilltur. Hingað til hefur hann ekki verið hrifin af því. Enda er hann svaka vel klipptur núna og lítur orðið út eins og hálffullorðinn maður. Hann hefur lengst alveg helling, svo við vorum að versla vetrarföt á hann í gær. Fengum skó og kuldagalla ásamt fleira dóti á góðu veðri. Hann veit alveg hvernig hann á að snúa fólki um fingur sér og fá það sem hann vill. 

Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili

Kveðja úr Tiset

 

 


Afmæli

Kæru bloggvinir

veðrið er aldeilis búið að skipta um ham hérna. Það er búið að vera meira og minna rigning hér síðustu viku. Það lítur út fyrir að Helga og fjölskylda hafi farið heim með sólina og við fengum rigningu í staðinn. Það er svoleiðis búið að mígrigna hér. Það var svo sem ekki vanþörf á því. Búið að vera þurrt í mjög langan tíma. Við fórum út að labba í morgun í rigningunni. Bóndinn er loksins búinn að eignast regngalla, svo öll fjölskyldan og hundurinn voru drifin af stað í göngutúr. Það var nú bara mjög hressandi. Allir voru vel blautir þegar heim var komið. Við komum við hjá kunningjum okkar, sem eiga líka hund. Nonni og hann voru nú bara rólegir, kannski þeim eigi bara eftir að líka ágætlega við hvorn annan. Nonni er allur að venjast að vera hérna. Hann er ennþá hræddur við kettina og vill helst ekki vera nálægt þeim, en er nú farin að geta verið hjá okkur í stofunni á kvöldin og svona. Hann sefur inni í svefnherbergi hjá okkur á nóttunni, svo þetta er nú sennilega allt að koma. Hann er voðalega rólegur og kippir sér ekki upp við. Börnin eru óskapleg ánægð með nýjasta fjölskyldumeðliminn. Nonni tekur þessu með mikilli ró. Hann er nú vanur börnum.

Börnin og já við líka höfum nú verið með hálfgerða timburmenn síðan gestirnir fóru. Það eru mikil viðbrigði. Það var óskaplega hljótt hérna fyrstu dagana. En við erum nú að venjast þessu. Elli ætlar svo að koma núna um miðjan september, en hann verður nú bara í 6 daga. Mest alla þessa viku höfum við svo haft gesti í mat á kvöldin. Við erum því bara að trappa út hægt og rólega. Við tókum stóra hreingerningu í gær, en það er nú ennþá eftir að taka til á loftinu. Það hlýtur að vinnast tími til þess, allavega ef það heldur áfram að rigna svona. Bóndinn sætti lagi í gær og sló garðinn, hann hefur ekki þurft að slá garðinn í 5 vikur. Það er mjög óvanalegt. Á góðu sumri þarf að slá 2x í viku. Okkur langaði nú að fara í eina útilegu í viðbót, en við sjáum til, við nennum ekki í svona mikilli rigningu. 

Bíllinn er farin á haugana, svo nú þurfum við að koma okkur saman um hinn bílinn. Þetta er búið að vera mjög þægilegt að hafa tvo, en það er eiginlega lúksus að eiga tvo bíla hérna í Danmörku. En kannski meira algengt hérna úti á landi en inni í bæjunum. Það er nánast ómögulegt að nýta sér almenningssamgöngur. Það er búið að skera svo mikið niður. 

Núna þarf svo bara að fara að versla vetrargallana á krakkana. Við vorum svo heppin að Ásta vinkona okkar er að vinna í skólaskjóli og kom með heilan ruslapoka af fötum, sem börnin hafa skilið eftir í skólanum og ekkert vitjað um. Það er ótrúlegt að fólk sé ekkert að pæla í að krakkana vantar fínar úlpur og alls konar vel með farin föt. En við græðum á því. Margt er of stórt ennþá, en það geymist.

Í gær átti bóndinn svo afmæli, hann er farin að nálgast hálfrar aldar afmælið, en við héldum smá veislu fyrir hann í gær og bökuðum bollur og pönnukökur. Það var mjög fínt. Svo átti að gæða sér á hrossakjöti í gærkvöldi, en frúin gat ekki hugsað sér að borða það eftir að hafa borðað rjómapönnukökur og bollur. Við borðuðum það bara í kvöld í staðinn. Börnin borðuðu þetta með bestu lyst, enda algjör herramannsmatur.

Jæja best að fara að slaka á, fyrir átök næstu viku. Frúin er búin með barneignarfríið, svo nú þarf hún að fara að vinna meira og fara í vinnuna á föstudögum líka. 

kveðja úr kotinu

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


Fólksfækkun

Kæru bloggvinir

þá er fólk að flýja héðan af gistiheimilinu. Helga og börnin fara í flug á morgun. Það verður nú ansi tómlegt, en börnin okkar verða nú örugglega fegin að allt kemst í samt far. Það er búið að reyna töluvert á þau að hafa alltaf gesti.
Það er búið að vera sólarlaust og frekar mikið rok um helgina, kannski það sé bara að fara að hausta. Það er nú alltaf pínu leiðilegt þegar fer að hausta, en við erum nú búin að hafa svo gott sumar að við getum ekkert kvartað. 

Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur. Enok þurfti að losna við hundinn sinn og bóndinn tók við honum. Þetta er 4 ára gamall blendingshundur. Börnin hafa tekið mjög vel á móti honum, þau hafa nú alltaf verið hrædd við hunda, en virðast vera eitthvað að læknast af því. Kötturinn okkar var ekki alveg jafn hrifinn. Hún setti upp kryppu og hvæsti og hvæsti. Kettlingarnir hurfu upp á loft og þorðu ekki niður fyrr en löngu seinna. En þetta hlýtur nú allt að komast í samt lag. Dýrin eru vön að finna út úr þessu. 

Við erum búin að vera með tvo bíla í nokkra mánuði, en nú þurfum við að losa okkur við annan. Hann á á að fara í skoðun og það borgar sig ekki að gera við hann. Svo við verðum að finna eitthvað út úr því að nota einn bíl. Það ætti nú alveg að vera möguleiki. Bara meira vesen. Frúin getur tekið lestina frá Ribe, en þá þarf að koma henni þangað. Bóndinn er að pæla í að kaupa vespu, svo hann geti ferðast hér í nágrenninu. Það er mjög algengt að fólk sé með svoleiðis hérna. 

Annars þarf að fara að huga að að finna skóla fyrir ungfrúnna. Við ætlum að tala við tvo skóla og sjá hvað þeir segja. Það er voða erfitt að gera upp á milli, svo maður verður bara að fara á staðinn og fá tilfinningu fyrir þessu. Það er einn venjulegur grunnskóli, en þar er alltaf verið að skipta um skólastjóra, svo við vitum ekki hvort það sé svo gott. Þetta hlýtur allt að skýrast. Besta vinkona hennar fer í venjulegan skóla, en svo er hægt að velja einkarekna skóla. Þetta var nú einfaldara í gamla daga þegar það voru bara venjulegir skólar og ekki svo margir einkareknir. Þá var ekki svo mikið að velja á milli. 

Jæja best að fara að hjálpa til við að pakka niður

kveðja

Tisetgengið


útilega

Kæru bloggvinir

þá er hversdagsleikinn tekinn við, börnin byrjuð í leikskóla og hjá dagmömmu. Við höldum þau hafi verið mjög fegin að komast aftur í fasta ramma. En þau hafa verið ansi þreytt eftir daginn og verið fljót að sofna. Blíðan hefur haldið áfram, svo við renndum í útilegu í gær og sváfum eina nótt. Það var mjög gott veður, en ekki alveg eins heitt og verið hefur. Við drifum okkur svo bara að pakka tjaldvagninum saman í morgun og náðum því rétt áður en það kom úrhellisrigning. Það hafði svo ekkert rignt hérna heima. En það lítur nú út fyrir að það gæti rignt i dag. Það væri allavega þörf á því. Grasið er orðið gult í garðinum og það sprettur ansi lítið. En kosturinn við það er auðvitað að það þarf ekki að slá svo oft.

Frúin er farin að vinna aftur. Það er nú alltaf erfitt að komast í gírinn aftur eftir frí og það er eins í ár. En þetta færist allt í samt horf með tímanum. Börnin hafa ekkert sofið lengi í sumarfríinu, en þegar þau áttu að byrja aftur á stofnun eftir fríi þá sváfu það auðvitað á sínu græna eyra.

Ágúst og Guðmundur Liljar sitja oft saman og láta eins og þeir séu að tala saman á einhverju bablmáli. Það er mjög fyndið. VIð höfum verið að spá í hvort það sé einhver mening í því sem þeir segja, en það er ekki gott að vita. 

Það er algjör flugnaplága hérna núna og þær ætla okkur alveg lifandi að éta. Það var mjög mikið af geitungum í útilegunni, en það hefur ekki verið svo mikið hérna heima. Hins vegar eru húsflugur í stórum skömmtum og þær ætla mann alveg lifandi að éta. Auður var stunginn af geitungi í gær, en hún var víst búin að vera að ergja hann eitthvað. Annars erum við mjög sjaldan stungin af geitungum, sem betur fer. Við pössuðum barnabörnin í gær, meðan Helga og Andri fóru í verslunarferð til Þýskalands. Það gekk bara mjög vel, en maður þakkar sínum sæla yfir að eiga ekki svona mörg börn. Það er alveg nóg að vera með tvö börn sem gegna ekki nema endrum og eins. Okkar börn eru farið að finnast ansi erfitt að hafa gesti alltaf. Það er svo sem ekkert undarlegt við það. Þau fara heim eftir viku. Kristín Júlía er orðin algjör afastelpa og er ægilega glöð þegar hún sér hann. Það verður erfitt þegar þau fara heim aftur.

Jæja ætli þetta sé ekki að verða gott í bili

kveðja

Tisetgengið


Síðasta vika í sumarfríi

Kæru bloggvinir

það virðist engin enda ætla að taka, öll þessi rjómablíða. Maður kemur varla inn fyrir dyr og það hefur allavega mjög lítið verið gert hreint hér í sumarfríinu. Það hlýtur að vinnast tími til þess þegar það kemur vetur. 

Við höfum reynt að vera eins mikið úti og hægt er. Við fórum í tjaldútilegu í vikunni, bara gamla settið og börnin. Það var orðið ansi mikil valdabarátta hér meðal ungviðsins, svo við ákváðum að skilja þau að í smá tíma. Það var rosa fínt í útilegunni og mikið buslað í bæði sjó og sundlaug. Ágúst var pínu smeykur í sundinu, vitum ekki hvort það hafi haft eitthvað að gera með að sundlaugarnar eru svo kaldar hér. Kannski var honum bara hálfkalt. Við erum vön að vera í ungbarnasundi, þar sem eru upphitaðar sundlaugar. Hann hefur vaðið út í sjó eins og ekkert sé. Kannski hefur hann bara verið eitthvað illa upplagður. Hann hefur allavega verið allt annað en vatnshræddur, svo við vonum þetta hafi verið eitthvað tilfallandi. Auður var voða dugleg að fara sjálf á rólóinn sem var rétt hjá tjaldvagninum og síðasta daginn var hún búin að finna stelpu að leika við. Hún er oft voða lengi að komast í samband við önnur börn, og var því frekar svekkt þegar við þurftum að fara heim. Hún hefur nefnt það nokkrum sinnum síðan, hvort við förum ekki aftur í útilegu.Ágúst virtist líka vera mjög sáttur með þetta. Hann hefur verið ansi ergilegur yfir öllum gestaganginum og það hefur bitnað á Kristínu Júlíu, hún hefur fengið rosaleg bitför eftir hann. Hann réðst líka á systir sína einn daginn. 

Vonandi kemst einhver ró á þetta þegar þau byrja aftur í leikskóla og hjá dagmömmu á morgun. Þau verða örugglega fegin að komast í fasta ramma og rútínu aftur og að hitta vini sína aftur. Ágúst fékk mynd frá dagmömmunni sinni, af börnunum sem eru með honum þar. Honum finnst voða gaman að skoða myndina og benda á krakkana. Hann er farinn að reyna að tala meira og stundum skilur maður hann og stundum ekki. Það er pínu flókið þegar maður þarf að reyna að geta hvort hann sé að tala dönsku eða íslensku og svo hvað hann er að reyna að segja. En hann er mjög góður að gefa til kynna hvað hann vill, ef maður spyr hann. Hann er voðalega mikil hermikráka og þarf að gera allt sem Auður gerir. Ef hún þarf að pissa úti, þá vill hann líka og verður alveg brjálaður ef hann fær ekki það sem hann vill. Hann vantar ekki ákveðnina blessuðum.
Vinkona Auðar kom hérna í gær og þær léku saman í smá tíma. Það voru miklir fagnaðarfundir. Þær voru greinilega farnar að sakna hvor annarar. Það er erfitt að hittast í sumarfríinu því fólk er á ferðalögum og á mismunandi tímum í fríi.

Auður fékk einhverja hitavellu í gærkvöldi og svaf nánast ekkert í nótt. Hún hefur verið hressari í dag, en var komin með smá hita aftur í kvöld. Hún verður vonandi nógu hress til að fara í leikskólann á morgun, hún hefur verið mjög spennt eftir að byrja aftur. Hún er að fara á síðustu deildina, áður en hún byrjar í skóla og það er mjög stórt mál. Hún er oft að tala um að hún sé að verða gult barn, en deildin sem fer á núna heitir Gula deildin. Það er vonandi að hún verði ekki fyrir vonbrigðum með skiptin.

Kettlingarnir eru orðnir voða stórir og það er búíð að hleypa þeim úr boxinu sem þau voru í. Þeir voru mjög fegnir að fá meira frelsi og hlaupa út um allt og djöflast. 

Jæja ætli sé skki komin tími á að sinna börnum og búi.

kveðja

Tisetgengið


Vika 2 í sumarfríi

Kæru bloggvinir

Það hefur verið þvílík rjómablíða hérna síðustu vikuna. Við erum orðin vel útitekin og það eru þreytt og sæl börn sem fara í háttinn hérna á kvöldin. Við erum búin að fara oft á ströndina. Erum búin að finna mjög góða og barnvænlega strönd hérna ekki langt frá. Þetta er stöðuvatn sem búið er að gera voða fína aðstöðu við. Yfirleitt fer maður á ströndina við sjóinn, en það er bæði kaldara og meiri öldugangur, svo maður er skíthræddur um að krakkarnir fari í sjóinn. Það sem er kosturinn við svoleiðis strendur er að þar er hægt að finna margar skeljar og um daginn fundum við marga litla krabba, bæði lifandi og dána. Það vakti mikla athygli. 

Börnin hafa tekið nokkra túra með afbrýðisemi. Kristín Júlía er með rosa marblett á handleggnum eftir að Ágúst setti tennurnar í hana. Auður er svo farin að ráðast á bróðir sinn og bíta hann líka. Sá eini sem ekki virðist finna fyrir þessu er Guðmundur Liljar. Hann er svo lítill ennþá. Hann og Ágúst sitja stundum saman og blaðra eitthvað, sem enginn okkar skilur. Það er mjög fyndið að horfa á þá. Kristín Júlía og Auður hafa nú eitthvað verið að keppast um athyglina, en í dag og í gær hafa þær verið voða góðar að leika saman. Það er spennandi að sjá hvort það endist eitthvað. Sumir sem hafa séð stórfjölskylduna úti að ganga, hafa eflaust verið að spá í hvernig þetta hangi allt saman. Frúin má segja að hún sé nú alveg sátt við að barnabörnin bara eru til láns. Það væri aldeilis mikil vinna að vera með 4 börn með svo litlum aldursmun. 

Við hjónakornin erum svo að spá í að fara í smá tjaldútilegu núna í vikunni. Svona til að bæði við og börnin fái smá frí. Frúin fer svo að vinna eftir næstu viku.

Við erum búin að vera mikið á rólónum hérna í bænum. Við förum alltaf með eitthvað smá að borða og það er voðalega mikið sport. Spurning hvað er mest spennandi, að leika þar eða borða nestið.

Jæja þetta var nú víst það helsta héðan úr sveitinni.

Kveðja

Tisetgengið 


Gestagangur

Kæru bloggvinir

Þá er víst aftur kominn sunnudagur og fyrsta vikan í sumarfríi er liðin. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram. Það er ýmislegt búið að bralla. Það hefur verið mjög gott veður síðustu viku og við höfum verið mikið úti við. Það eru því mjög þreytt börn sem eru lögð í rúmið hér á kvöldin. Í dag hefur verið skýjað og það er eitthvað verið að spá því áfram. Við erum búin að fara á ströndina tvisvar sinnum. Við prófuðum nýja strönd sem er mjög barnavænleg. Það var rosa gaman. Viðprófuðum líka aðra strönd sem ekki var alveg eins spennandi.

Við hjónin fengum frí frá barnaamstri í gær og í nótt og gistum í sumarhúsi sem kunningjar okkar eiga. Það var nú eiginlega í tilefni af því að á morgun eigum við 1 árs brúðkaupsafmæli. Það var mjög notalegt að fá smá frí frá amstri hversdagsins. Auður spurði hvort við þyrftum að fá frið frá suðinu í þeim. Hún hefur nú tekið það vel út í dag og suðað fyrir allan peninginn. Það gengur nú upp og niður að fá börnin til að vera sátt. Ágúst beit Kristínu Júlíu rosalega í hendina í gær og Auður hefur stundum alveg fengið  nóg af þessu öllu. En oft leika þau nú bara vel saman. Það eru nú ansi mikil viðbrigði fyrir alla, bæði börn og fullorðna, að vera svona mörg saman, en þetta hlýtur að koma. Það er allavega mjög gaman að geta verið með börnunum og barnabörnunum. Guðmundur Liljar er kominn með mikla matarást á afa sínum og horfir á hann löngunaraugum þegar hann er við matarborðið. Kristínu Júlíu finnst amma sín mjög ströng og er nú ekki alltaf sátt, en kannski venst hún hvað hún er mikil gribba.

Á morgun er svo planað að fara til Þýskalands og versla í matinn. Það þarf nú töluvert til þegar við erum svo mörg og kjötið er allavega töluvert ódýrara en í Danmörku. 

Annars er ekkert búið að plana neitt sérstakt í sumarfríinu. Það er verið að spá í að fara í Legoland, en það er rosalega dýrt. Svo það er eitthvað verið að spá í málin. Það er örugglega nóg hægt að finna sér að gera hérna heima við, en við erum nú að reyna að nýta tímann líka í að slappa af. 

Það er svo síðasti fótboltaleikurinn í kvöld í þessari lotu. Frúnni til mikillar ánægju. Henni hefur nú fundist þetta fullmikið á köflum. En svo er víst mánuður í næstu lotu. Sem betur fer horfir bóndinn nú ekki líka á hjólakeppnir eða aðrar íþróttir. Sumir taka sér nú frí á sumrin til að horfa á eitthvað sport. Við erum sem betur fer laus við slíkt hér á heimilinu.

Jæja best að fara að slaka á

Kveðja

Gummi, Ragga og gengið


Gistiheimili

Kæru bloggvinir

jæja þá er heimili okkar tímabundið búið að breytast í gistiheimili. Helga og fjölskylda komu hérna aðfaranótt föstudags, svo það er aldeilis fjör á bænum. Enn sem komið er hefur þetta gengið stórslysalaust. Börnin þurfa auðvitað að finna út úr þessu, en þetta gengur bara nokkuð vel.

Það er búið að taka rosalega á því í garðinum og búið að klippa limgerðið í kringum húsið. Þetta er geðveikt mikil og erfið vinna, en er nú auðveldara nú en fyrst þegar við fluttum. Nágrannarnir hljóta að vera ánægðir að við klippum þetta á hverju ári. Það er búið að vera mjög skýjað í dag, en mjög heitt. Í gær var mjög fínt veður. Börnin voru úti að busla í vaðlauginni og dunduðu sér utandyra. Frúin er komin í sumarfrí, svo það verður kannski reynt að kíkja eitthvað í smá bíltúra meðan krakkarnir eru í heimsókn. Frúnni finnst alltaf jafn notalegt að komast í frí, meðal annars af því að þá þarf ekki að smyrja nesti. 

Auður var ótrúlega spennt að hitta systir sína og hefur ekki slitið sig frá henni. Hún sefur hjá henni uppi á lofti og hafði miklar áhyggjur af því fyrsta kvöldið, hvort hún mætti það. Hún sefur allavega lengur á morgnana þegar hún sefur þarna uppi. Í nótt vaknaði hún og ældi. Kristín Júlía ældi líka en svo virtist þetta rjátla af þeim. Sem betur fer. Það er ansi mikill þvottur þegar svona er og það hefur ekki verið stöðugur þurrkur. En þetta hefst nú örugglega allt saman. Við vonum allavega að það sé ekki meira æla á leiðinni. 

Ágúst er voða mikið að þroskast. Hann vill endilega gera hlutina sjálfur, og verður pirraður þegar það gengur ekki. Hann reynir mikið að klæða sig sjálfur, en það er ennþá of erfitt.

Jæja best að fara að slaka á eftir púlið

kveðja

Tisetgengið


Þakviðgerðir

Kæru bloggvinir

hér hefur verið ansi breytilegt veður síðustu daga. Suma daga hefur verið sól og gott veður, en oft er svolítið rok. Það er allavega sjaldan sem er gott veður fleiri daga í röð.

Óli kunningi okkar kom á föstudaginn og þeir félagar eru búnir að vera uppi á skúrþaki að reyna að laga það, svo það rigni ekki inn. Planið er að reyna að gera þetta fokhelt svo að það sé kannski hægt að hafa þvottavélina og þvottasnúrurnar þarna frammi.En við sjáum til hvernig þetta endar. Það er nú ansi kalt þarna frammi á veturna, svo kannski verður þetta ekki hægt. En allavega verður gott að hafa ekki allt á floti í vatni þarna frammi. Frúin hélt þetta yrði bara róleg helgi, svona miðað við síðustu helgar. En aldeilis ekki, hún er búin að standa á kafi í eldhússtörfum. Það verður að vera eitthvað að borða þegar menn eru í hörkuvinnu. Ætli þeir reyni ekki að klippa trén líka, þó það sé nú víst orðið fullseint að dönskum tíma. En betra en ekki að gera það. Þetta er svo mikil vinna, að það verða helst að vera tveir við þetta. 

Eftir næstu viku er svo komið að sumarfríi í 3 vikur. Það verður nú alveg ágætt að komast í frí. Helga Rut og fjölskylda koma á aðfaranótt föstudagsins og verða hjá okkur í 5 vikur. Það verður nú aldeilis fjör með 4 börn. Vonandi verður gott veður, svo við getum verið sem mest úti. Það getur orðið erfitt fyrir blessuð börnin að hanga innandyra alla daga. Auður hefur verið svo heppin að geta leikið við vinkonu sína bæði í gær og í dag. Hún er oft voðalega friðlaus um helgar, ef hún hefur ekki einhvern að leika við. Svo vonandi geta þær Kristín Júlía leikið saman, þá verður ekki eins erfitt að vera í fríi í 3 vikur. VIð ætlum nú að reyna að fara eins og í eina útileigu með tjaldvagninn. Það er ansi dýrt að fara á tjaldstæði hérna. Sérstaklega yfir sumartímann. Svo er búið að bjóða okkur að fá lánaðan sumarbústað, svona yfir helgi kannski, svo við hjónin getum fengið smá frí frá barnastússi. Það ætti nú að finnast tími í það. Annars verður nú að reyna að fara í einhverja skemmtigarða líka með börnin, þó það sé geðveikt dýrt. Auður er oft að suða um að fara í Legoland, svo ætli maður verði ekki að láta það eftir henni. Það eru ábyggilega margir sem hún þekkir sem hafa farið þangað og eru að tala um það í leikskólanum. Okkur foreldrunum finnst Legoland nú ekki það mest spennandi, en við hljótum að lifa það af.

Elli Jón hefur verið að tala um að koma síðast í júlí, svo það verður aldeilis fullt hús ef af því verður. 

Annars eru flest kvöld á heimilinu undirlögð í fótboltaglápi, frúnni til mikillar gleði. Gott þetta er bara á fjögurra ára fresti. 

Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan í bili

kveðja

Tisetgengið


Stelpuafmæli

Kæru bloggvinir

þá er enn og aftur komin sunnudagur. Það er búið að vera frekar mikið rok í dag og frekar kalt. Við drifum okkur út að leika í morgun, með nesti og nýja skó. Við hrökkluðumst nú eiginlega bara inn aftur eftir svolítinn tíma.
Hér er búið að vera mikið fjör um helgina. Á föstudaginn sáum við um matinn í vinamatnum sem við förum í, svona einu sinni í mánuði. Síðast gerðum við saltjöt og baunir og svið. Í þetta skiptið ákváðum við að gera þetta meira svona alþjóðlegt. Gerðum kjúkling með indversku kryddi og skyrtertu í eftirrétt. Þetta vakti víst allt saman mikla lukku. Í gær var svo haldið stelpuafmæli fyrir Auði. Það komu 4 stelpur. Ein kom en vildi svo ekki verða eftir án mömmu sinnar, svo hún fór heim aftur. Þetta var nú ansi skrautlegt. Þær eru nú allar ákveðnar ungar dömur sem hlusta ekki alltaf á það sem maður segir. En þegar frúin var búin að byrsta sig nægilega, þá gekk þetta nú stórslysalaust. Það voru bæði þreytt afmælisstelpa og ekki minna þreyttir foreldrar sem fóru í háttinn hér í gærkvöldi. Gott að það er hálft ár í næsta afmæli. Það verður nú ekki gert eins mikið úr því. Hann hefur ekki svo mikið vit á þessu, að honum nægir alveg að halda veislu fyrir fullorðna fólkið.
Auður er búin að halda upp á afmælið þrisvar sinnum. Um síðustu helgi kom fullorðna fólkið. Á afmælisdaginn fór hún með ís í leikskólann og sama dag fór hún með sunnudagaskólanum í smá bíltúr. Hún kom ekki heim fyrr en kl. 19:00 og var orðin ansi þreytt. Hún skildi ekkert orðið í þessu. þegar hún svo átti að halda afmælið líka í gær. 

Ágúst var í pössun meðan píurnar voru hér í gær, og bræddi nokkrar konur upp úr skónum, svona eins og honum er lagið. Hann er voða mikið að reyna að blaðra eitthvað. Við skiljum nú ekki mikið nema mig, meira, kyrrt, kex og bless. En þetta hlýtur allt að koma. Hann reynir nú stundum á þolrifin á manni þar sem hann er óskaplega forvitinn og vill fikta í öllu og helst því sem ekki má. Auður lagði hann upp í rúmið sitt áðan og vildi leika að hann væri að fara að sofa. Hún fór svo með faðir vorið fyrir hann. Ég heyrði nú ekki hvort hún mundi það allt, en allavega byrjunina.

Nú eru bara 2 vikur í sumarfrí og að Helga Rut komi með alla hersinguna. Það verður nú eitthvað fjör. 

Næstu viku verður nú eitthvað rólegra, það er víst ekki annað á dagskrá en að vinna og sofa. En alveg ágætt að slaka aðeins á, eftir svona törn. Það er reyndar alltaf mikið að gera í vinnunni hjá frúnni, það er alltaf mikið að gera svona rétt fyrir sumarfrí. Það er eins og allir verði stressaðir þegar kemur að fríi.

Jæja best að fara að undirbúa kvöldmatinn, það er stefnt í að grilla, þrátt fyrir rok og kulda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband