Afmælisveisla

Kæru bloggvinir

Þá er loksins tími til að setjast niður og skrifa blogg. Hér hefur verið haldið prinsessuafmæli í dag, í blíðskaparveðri. Þetta heppnaðist bara alveg prýðilega og ungfrúin var mjög sátt með daginn. Hún fékk barbíhest og dúkku og fór alsæl að sofa með það í kvöld. Það tók hana ekki margar mínutur að sofna enda alveg búin á því. Hún var búin að vera svo spennt. Það var ekki laust við að foreldrarnir væru örlítið lúnir líka. Þau fóru í koparbrúðkaup í gærkvöldi. Það voru fyrrverandi nágrannar okkar sem héldu það. Það var ágætt, en við vorum nú ekkert lengi. Þau voru að til klukkan 3 í nótt. Þau voru því ekki mjög upprifin í veislunni í dag. 

Svo á miðvikudaginn er hún að fara til Ribe með klúbbnum sem hún er í. Þau fara víst einu sinni á ári eitthvað út að keyra. Það hittist svo bara svoleiðis á að það er á afmælisdaginn hennar. En við ákváðum að það væri betra að hún færi með í það en að vera heima hjá okkur. Hún á alveg örugglega eftir að njóta þess vel. Á laugardaginn er hún svo búin að bjóða stelpunum á deildinni í leikskólanum í partý. Það verður örugglega heilmikið stuð, sérstaklega fyrir foreldrana, að halda stjórn á svona skjátum.  Þær eru nú sem betur fer ekki margar.

Bóndinn er búin að setja niður tómataplöntur hér fyrir framan og svo er hann að ráðast í mikla chiliræktun. Hann fékk fræ frá konu sem hann kannast við og ætlar að prófa að sjá hvort það nái að spíra. Ágúst á pínu erfitt með að láta þetta í friði. Honum finnst allt spennandi sem ekki má. Hann skemmti sér nú mjög vel í dag líka. Var allavega alveg á útopnu og lék við lítinn strák sem var hérna. Það er ótrúlega mikill munur á þeim systkinum í því samhengi. Auður er oft voða feimin og þarf smá tíma til að tala við önnur börn, en Ágúst veður í alla og virðist vera alveg sama. Það getur nú breyst, Auður var svoleiðis líka þegar hún var minni. Hann er óttalegur prakkari og mjög stríðinn. Það er alveg óborganlegur svipur á barninu þegar hann er að stríða. 

Annars þarf frúin að fara að finna sér einhverja tómstundaiðju næstu vikurnar. Bóndinn er búinn að hertaka sjónvarpið og ætlar að horfa á fótbolta. Hún getur auðvitað líka lagst inn í rúm og horft á sjónvarpið þar, en þá er nú hætt við hún steinsofni.

Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
Sumarkveðja

Tisetgengið


Fjölgun í fjölskyldunni

Kæru bloggvinir

hér hefur verið prýðisveður undanfarið, en oft bæði rigning og hiti sama dag. Það voru miklar þrumur og eldingar hér í morgun. En það er í fyrsta skipti í sumar sem maður verður var við það. Það er örugglega ekki í síðasta skipti. Það hefur verið mjög heitt hérna seinnipartinn í dag, þeir voru búnir að lofa hitabylgju um hvítasunnuna, en það hefur nú ekki alveg orðið svo heitt eins og þeir lofuðu. Það er kannski ágætt, það er ekkert sérstakt, ef það verður allt of heitt.

ANnars hefur allt verið með frið og spekt hér. Það er byrjað að undirbúa afmæli ungfrúarinnar. Það verður haldið fullorðinsafmæli næstu helgi og stelpuafmæli helgina þar á eftir. Hún er orðin mjög spennt. Það er gert heilmikið úr því á leikskólanum þegar einhver á afmæli. Fáninn dreginn að hún og leikskólinn gefur börnunum gjöf. Svo syngja allir og þetta er víst mjög huggulegt. 

Þau systkin eru nú alveg kostuleg þessa dagana. Ágúst verður að gera allt eins og systir hans. Hún pissar stundum úti, ef hún nennir ekki inn. Hann er alveg óður í að rífa sig úr fötunum svo hann geti gert eins. Henni finnst hann nú ansi oft þreytandi, og er mjög upptekin af því að hann fái ekki meira en hún. Henni finnst vera gert mikið upp á milli. Við erum stundum að hlægja að því að þau verði alveg eins og Helga Rut og Elli. Það var hægt að metast um allt þegar þau voru lítil. 

Læðan okkar tók upp á því á fimmtudagskvöldið að eiga kettlinga. Hún var búin að vera að fitna undanfarið og spenarnir voru orðnir stórir. En okkur fannst hún búin að vera svona svo lengi að þetta gæti ekki verið af því hún væri kettlingafull. En á fimmtudaginn byrjaði hún að vera eitthvað undarleg og lagðist svo upp í sófa og eignaðist tvo kettlinga. Hún er mjög stygg, svo okkur fannst stórmerkilegt að hún skyldi ekki fara eitthvað í burtu til að eignast kettlingana. Hún er búin að vera mjög mömmuleg. En í morgun byrjaði hún að reyna að bera kettlingana upp í rúm til Auðar og upp í sófa. Hún hefur sennilega verið smeyk við þrumurnar. Það verður spennandi að fylgjast með þessum litlu krílum. Hvort hún nái að koma þeim á legg. Hún er mjög undarlegur köttur. Það er ekki hægt að fara fram á barnameðlög því við vitum ekki hver faðirinn er. Okkur grunar að það geti verið rauður köttur sem heldur mikið til hér í garðinum. 

Þegar þessi helgi er búin eru víst ekki fleiri aukafrídagar fyrr en í sumarfríinu í byrjun júlí. En það er ekki svo langt að bíða, svo þetta hlýtur nú að bjargast. Frúin er farin að labba og hjóla nokkrum sinnum í viku. Í kvöld fór hún í smá göngu, og kom heim eftir 1 og 1/2 tíma. Hún villtist eitthvað og var farin að halda að hún þyrfti að ræsa björgunarsveitina. Það hefði allavega ekki hjálpað að hringja í bóndann því hún hefði ekki getað útskýrt hvar hún var. En þetta bjargaðist allt saman. Best að halda sig bara á stígunum sem eru í almannaleið.

Jæja best að fara að slappa af eftir hrakfarirnar.

Kveðja

Tisetgengið


Uppstigningarfrí

Kæru bloggvinir

við erum búin að vera í fríi síðustu 4 daga og það hefur ekkert verið mjög slæmt. Veðrið hefur nú verið frekar óstöðugt, bæði kuldi og hiti og sól. Þetta minnir óskaplega mikið á veðrið hér í maí í fyrra. En svo fór að hlýna þegar leið á sumarið. Við vonum að það gerist allavega.

Það er búið að taka til hendinni hér bæði utandyra og innan. Vi' hentum meira að segja gömlu gróðurhúsi sem við tókum niður heima hjá vinum okkar fyrir 4 árum. Við höfðum aldrei tíma til að púsla því saman aftur, svo það endaði því miður á haugunum. Ásamt mörgu öðru. Í gær fórum við og keyptum okkur tómataplöntur sem við erum búin að setja niður. Við keyptum þrenns konar tómata núna. Tvær af sortunum gefa svarta tómata. Það verður spennandi að sjá. Spurning hvort Ágúst geti látið þá í friði, hann er alveg vitlaus í tómata. Svo er búið að setja olíu á sólarhúsgögnin, ekki af því við getum notað þau svo mikið. En það hlýtur að koma að því. 

Frúin fór í mikinn hjólatúr eitt kvöldið í vikunni. Það blés hressilega, en hún hélt nú ekki það væri mikið mál og ákvað að fara extra langan túr. Hún lenti svo í beljandi roki og í mótvind upp ansi langa brekku. Það endaði með að hún dró hjólið upp brekkuna og komst sem betur fer heim. Já og sá sem sagði að Danmörk væri flöt, hefur örugglega eitthvað ruglast. Hann hefur allavega ekki verið á hjóli. 

Í gær var farið í dádýragarð hérna rétt hjá. Við sáum stóra hjörð af villtum dádýrum. Bóndinn lagði svo í göngu og við gengum okkur upp að öxlum. Aumingja Auður sagði ekki neitt, en þegar við vorum komin heim var hún alveg ægilega aum í löppunum og er líka í dag.

Þau systkin geta verið alveg kostuleg. Auður er voða mikil stórasystir og er alltaf eitthvað að skipta sér af bróðir sínum. Þau taka einstaka sinnum upp á því að leika sér saman, en annars rífast þau ansi mikið. Við fórum í grillpartý hjá dagmömmunum í Tiset, daginn fyrir fríið. Þar var  hellingur af börnum og foreldrum þeirra. Krökkunum þótti það mjög skemmtilegt. Okku fullorðna fólkinu fannst þetta ekki alveg jafn spennandi. Ágúst er búin að vakna milli kl. 5 og 6 alla morgna í fríinu, foreldrum hans til mikillar ánægju. Við keyptum svona sundlaug til að hafa í garðinum. Héldum þetta væri bara svona lítil laug, en nei, þetta reyndist vera eitthvað svaka flykki. En það er þá allavega nóg pláss fyrir börnin í þessu. Ágúst er alveg ótrúlega sjálfstæður og ákveðinn ungur maður. Hann brjálast alveg ef hann fær ekki að borða sjálfur og vill alls ekki hjálp. Hann stendur á orginu ef maður ætlar að hjálpa honum. Hann er búinn að læra nokkur orð. Meira, nei og kyrrt. Maður spyr sig af hverju þessi orð! :) 

Næsta fimmtudag er svo þjóðhátíðardagur Dana. Börnin eru í fríi eftir hádegi, en frúin þarf að vinna allan daginn. Óttalegt óréttlæti alveg. En þau verða þá bara heima með pabba sínum. Svo er frúin að fara í eitthvert sumarpartý með vinnunni á föstudaginn. Það verður nú bara um miðjan daginn, svo hún verður nú ekki langt fram á kvöld. Það er alveg brjálað að gera. 

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili

kveðja

Tisetgengið

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

00000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000


Sólarhelgi

Kæru bloggvinir

hér hefur verið blíðskaparveður um helgina og því hefur fjölskyldan nánast ekki komið inn fyrir dyr. Það er búið að sulla í vatni og drullumalla og margt fleira. Frúin hefur farið í hjólatúra með börnin í aftanívagninum. Það er nú víst mest hún sem erfiðar, en þeim finnst þetta mjög gaman. Það er loksins búið að koma reiðhjólinu í gagnið eftir ansi mikla byrjunarerfiðleika. Frúin ætlaði í smá hjólatúr eitt kvöldið eftir að börnin voru komin í háttinn. Hún náði að hjóla svona ca. 3 metra þá hvellsprakk. Bóndinn var nýbúinn að gera við gripinn. Svo það varð að fjárfesta í nýju dekki og slöngu. Þetta er vonandi svona, fall er fararheill. En frúin fór nú bara í göngutúr í staðinn fyrir hjólatúr og það var mjög fínt. Bóndinn er alveg orðinn óður að fara í líkamsrækt og fer oft í viku. Það er þvílíkur kraftur í okkur þessa dagana. Er á meðan er. Bóndinn er allavega búinn að vera á fullu í 12 vikur, svo hann ætti nú að vera kominn í góða þjálfun. Við ætluðum öll að fara að hjóla í gær, en Auður er engan veginn að sættast við hjólið sitt og fer alveg í baklás, svo við erum búin að gefa það upp á bátinn í bili. 

Ágúst er voðalega mikið að herma eftir öllu sem við fullorðna fólkið gerum, greinilega mjög athugull ungur maður þar á ferð. Hann segir orðið nokkur orð, bæði á íslensku og dönsku. Um daginn lærði hann orðið kyrrt. Sennilega af því það var búið að segja það við hann 100 sinnum sama daginn. En hann er svo mikill hjartabræðari að það er voða erfitt að vera pirraður mjög lengi út í hann. Hann er mikill áhugamaður um skó og getur dundað sér heillengi við að vesenast með skóna frammi á gangi. Hann vill líka gjarnan ganga í allt of stórum skóm og klæða sig í föt af systir sinni. Hann er líka mjög hrifinn af því að leika sér með teygjurnar hennar og hárspennurnar. 

Auður Elín hefur verið í algjöru kjólaæði lengi, en núna er það eitthvað að minnka. Hún vill bara vera í leggins og bol. Endilega ekki of mikið af fötum. Hún vill helst vera sem minnst klædd.  Hann vill nú líka helst vera á samfellunni og engu öðru. Hún tekur sig oft til og vill hjálpa bróðir sínum að klæða sig og svoleiðis. Hann hefur nú ekki alltaf þolinmæði í það. En hún gefst yfirleitt ekki upp. Þau eru bæði alveg með eindæmum þrjósk þegar þau bíta eitthvað í sig. Þau sofna yfirleitt um leið og þau leggjast á koddann, þessa dagana, enda eru þau mikið úti við. Auður svaf til kl. 8:30 í morgun. Það hefur aldrei gerst fyrr. Ágúst var hins vegar ekkert að sofa of lengi. Í gær vaknaði hann kl. 5 og í morgun vaknaði hann kl. 6. Ekki verið að eyða tímanum í of mikinn svefn. 

Næsta vika verður nú ekki löng vinnulega séð. Þrír vinnudagar. Leikskólinn og dagmamman eru með lokað á föstudaginn, svo börnin verða heima í 4 daga. Þau verða örugglega orðin þurfandi fyrir leikfélaga þegar það er liðið.

Jæja best að fara að slaka á.

Sólarkveðja

Tisetgengið


Fuglaat

Kæru bloggvinir

hér hefur sólin skinið sínu blíðasta síðustu daga. Við erum farin að halda að það sé að koma sumar. Við höfum verið mikið utandyra að njóta veðursins. Í gær fórum við í tívolí hérna rétt hjá. Auður prófaði nokkur tæki. Hún dró móður sína í parísarhjól, henni til mikillar hrifningar. Einstaklega aðlaðandi að hanga í einhverju búri hátt uppi í loftinu og dingla. En við lifðum þetta af og Auður var ekkert smeyk. Ágúst er nú enn of lítill fyrir svona vitleysu, svo hann fylgdist bara með af athygli. Toppurinn á ferðinni var svo að við keyptum ís. Það þykir mikið sport hér á bæ. Í gærkvöldi grilluðum við svo með vinum okkar og borðuðum úti í blíðunni. Það voru ansi þreytt börn sem fóru í rúmið í gærkvöldi og sofnuðu um leið og þau komu upp í. 

Annars hefur verið mikill hasar hér undanfarið. Við vorum farin að heyra ýmis hljóð ofan af lofti. Við höfðum séð að það var fugl búinn að gera sér hreiður í þakskegginu, því hann týnir orma hér fyrir framan. Við vorum farin að heyra ansi mikið í fuglsungum og stundum var eins og þeir væru bara uppi í herbergi. Bóndinn fór því upp í gær að athuga málið. Við vorum farin að halda það væri kominn dýragarður miðað við öll lætin. En hann fann þrjá unga á gólfinu upp í herbergi. Þeir höfðu dottið fram úr hreiðrinu. Það er enn opið upp á loft síðan við tókum skorsteininn, svo það er lítið mál fyrir ungana að detta fram af brúninni og lenda niður í herbergi. Við erum farin að heyra unga hlaupa uppi aftur, svo við þurfum að fara að veiða fleiri. Þeir eru ekki alveg fleygir ennþá, svo það líður einhver tími þar til þeir fljúga úr hreiðrinu og svo eignast fuglarnir örugglega fleiri unga. Það verða því stórar fuglaframkvæmdir framundan.

Annars hefur fjölskyldan verið með magakveisu í vikunni. Ágúst byrjaði og var heima á þriðjudaginn, svo fékk frúin pestina en drattaðist samt í vinnuna. Dagmamman hans Ágúst fékk þetta svo á miðvikudaginn svo hún var með lokað á fimmtudaginn. Auður og bóndinn hafa verið eitthvað slöpp í maganum líka. Svo þetta er búin að vera hin huggulegasta vika. Sem betur fer höfum við þó ekki verið gubbandi, það hefur líka verið að ganga. Ég vill frekar hitt.

Auður er að farast úr spenningi því hún er að fara að hitta vinkonu sína og leika. Það hefur verið ansi erfitt að bíða. 

Jæja ætli maður verði ekki að fara að kíkja á loftið og sjá hvort að unginn sé einhvers staðar þar sem næst í hann. Vonandi að hann fari ekki einhvers staðar milli þilja svo maður heyri fuglagarg hér innan dyra allan daginn.

Sólarkveðja

Tisetgengið


Rigningartíð

Kæru bloggvinir

hér er nú eiginlega bara haustveður. Rigning og rok, en samt ágætlega hlýtt. Þetta er svo sem ekkert óvenjulegt hér. Það byrjar oft að vora í kringum páskana og þá heldur maður að það sé að koma sumar, svo koma einhverjir umhleypingar á eftir. Það hlýtur að koma sumar á endanum. Maður er í vandræðum með hvaða föt maður á að fara í á morgnana, hvort maður eigi að fara í sumarfötum eða dúða sig meira. En þetta leysist nú alltaf einhvern veginn.

Það hefur verið hálfgert pestarstand hér um helgina. Ágúst kom heim frá dagmömmunni á fimmtudaginn og var kominn með hita og hósta. Hann var svo nokkuð hress á föstudaginn, en ferlega slappur í gær. Hann hefur bæði verið með hósta og uppköst og niðurgang. Hann hefur verið heldur hressari í dag og hitalaus, svo vonandi fer þetta að koma. Auður og við hin hafa sloppið við þennan ófögnuð allavega ennþá. Ágúst er annars voða mikið að æfa sig í sjálfstæði. Hann vill helst ekki borða nema fá að troða upp í sig sjálfur með gaffli. Hann vill hjálpa til við að klæða sig bæði í og úr. Hann þarf nú auðvitað smá aðstoð, en það líður nú ekki á löngu áður en hann reddar þessu sjálfur.

Auður er i vaxtakipp núna. Hún er að lengjast voða mikið og borðar alveg eins og fullorðinn. Hún er nú ekki alltaf dugleg að borða, svo nú er bara að njóta þess. Ágúst hefur alltaf verið meira matargat. Það er að togna úr honum líka og hann er að leggja af. Við höfum verið að reyna að fá Auði til að hjóla á nýja hjólinu, en það gengur nú eitthvað illa. Ætli maður verði ekki bara að bíða þar til hún vill þetta sjálf. Þannig er það yfirleitt. Hún verður vonandi ekki eins og móðir sín sem var tvö ár að ná jafnvægi á járnhestinum. Hún hefur aldrei náð almennilega tökum á þessari kúnst.

Við fáum aukafrídag í komandi viku. Það er bænadagurinn, sem enginn vet af hverju er haldinn. Það er nóg að gera í frídögum hér á næstunni. Uppstigningardagur og hvítasunnan. Maður nær varla að gera mikið í vinnunni með þessu áframhaldi.

Það hefur verið mikið stress hér á heimilinu undanfarið vegna fótboltaleikja. Það var svo síðasti leikur í dag og bóndinn getur sennilega farið að taka þessu rólega. Þetta er meiriháttar álag að vera aðdáandi fótbolta. Það verður kannski fljótlega veður til að fara í útilegu. Það má gjarnan verða hlýrra áður en maður leggur í hann.
Við förum sennilega ekki langt í sumarfríinu. Helga Rut og fjölskylda koma til okkar og verða í 5 vikur. Auður Elín er voðalega spennt og hlakkar mikið til. Og okkur hin hlakkar auðvitað líka til. Við sjáum svo til hvort fleiri vilji leggja leið sína til Tiset í sumar.

Jæja það er víst ekki meira að frétta héðan í bili

kveðja

Tisetgengið


Sólin sem hvarf

Kæru bloggvinir

sólin sem við vorum orðin vön að hafa hjá okkur er horfin og það er bara hálf hryssingslegt hérna núna. Við fórum út að labba í morgun og maður var bara hálfloppin þegar maður kom heim. Það er vonandi að það fari eitthvað að hlýna aftur. Maður nennir ekki að hafa svona veður hér á vorin.

Annars er hér allt við það sama. Við erum ekkert byrjuð á vorverkunum meðan veðrið er svona óstöðugt. Bóndinn er búinn að slá gras nokkrum sinnum. Það virðist spretta fínt. Enda búið að vera hlýtt í svolítinn tíma.

Ágúst tók allt í einu upp á að garga úr frekju. Hann er ekkert að spara það. Verður óskaplega misboðið oft á dag. Hann er mun skapstærri en systir hans og lætur óspart í sér heyra. En hann er nú oftast fljótur að jafna sig. Við fórum í sund í gær í síðasta skipti í vetur. Hann varð alveg brjálaður í sturtunni og var algjörlega óhuggandi í meira en hálftíma. Það hefur nú bara ekki gerst áður. Hann er mjög athugull og var skipað að setja fötin sín í þvottinn í gær, hann tölti með þetta og henti í þvottakörfuna. Þau eru bæði óskaplega hrifin af tuskum og vilja gjarnan þurrka af. Spurning hvernig þetta verður þegar þau verða eldri. Þau eru ákaflega árrisul um helgar en það þarf að vekja þau á virkum dögum. Þau eru nú oftast góðir vinir, en Ágúst getur pirrað hana stundum og þá lemur hún hann.

Auður er að fara með leikskólanum í leiðangur á morgun, út í einhvern skóg. Það þykir henni nú mjög spennandi, sérstaklega að fara í rútu og borða nestið úti. Hún er oft að suða í okkur að borða úti, en við erum nú hálflöt við það. Finnst það ekkert mjög spennandi.Hún er farin að hafa mjög sjálfstæðar skoðanir á öllu og gegnir ekki þegjandi og hljóðalaust. Hún þarf oft að fá að vita af hverju hún á að gera þetta og hitt. Frúin var að naglalakka hana í gær og Ágúst vildi endilega fá líka. Frúin er nú svo gamaldags að hún vildi ekki leyfa honum það. Þetta hefur sennilega mjög slæm áhrif á þroska hans. Það er margt sem maður hefur á samviskunni. Hann veit auðvitað ekkert hvað þetta er, en vill bara fá allt það sama og systir hans. Hann verður greinilega fyrir áhrifum hjá dagmömmunni því hann leikur sér mikið með dúkkur. Hann gengur um með þær og gefur þeim pela osfrv. Hann er með 4 stelpum hjá dagmömmunni. Dagmamman segir að hún sé með fullt af strákadóti, en hann líti ekki við því. Fyndið hvað börn hafa mikil áhrif á hvert annað.

Jæja það er nú mest lítið annað að frétta héðan núna

Kveðja

Tisetgengið

 

 

 

rrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr


Sumar og sól

Kæru bloggvinir

hér skín sólin og það er mjög fínt veður. Við eigum víst að hafa þetta eitthvað fram í næstu viku. Svo á að fara að rigna. Við erum vongóð um að vorið sé að koma. Það lítur allavega þannig út. Góða veðrið var notað síðustu helgi til að þrífa bíla og í dag var svo ráðist í að þrífa gluggana. Það var nú ekki vanþörf á. Nú þarf svo bara að þrífa þá að innan. Það er alltaf nóg að gera. Það er komin heilmikil spretta í garðinn, svo það þarf að slá 1-2 í viku. Annars er dagurinn planaður fyrir bóndann allavega. Hann ætlar að sitja inni og horfa á fótbolta með Óla félaga sínum. Liðið þeirra er víst að gera það mjög gott þessa dagana og spennan gríðarleg. Frúin tekur þessu nú með ró, en svolítið fyndið að fylgjast með látunum í þeim yfir einhverjum fótbolta.

Ágúst hefur verið ansi pirraður um helgina. Hann hefur verið að fá tennur, svo það er sennilega það sem er að angra hann, á sama tíma er hann líka að þroskast og ég held svei mér þá að hann sé að byrja á tveggja ára frekjunni. Hann er allavega alveg ótrúlega ákveðinn, og verður mjög ósáttur ef við gerum ekki allt sem honum hentar. Systir hans hefur verið ansi hress líka. Hún er á einhverjum mótþróa. Sem betur fer kom vinkona hennar í heimsókn í gær og þær léku sér saman í smá tíma. Hún er voðalega upptekin af því að það sé að koma sumar og hlakkar til að geta verið í sumarfötum. Þau eru bæði þannig að þau vilja sem minnst hafa af fötum. Auður vildi líka fá sundlaug í garðinn í gær. Okkur fannst það nú fullsnemmt. Það má alveg verða heitara áður en það verður fjárfest í svoleiðis. Þau eru búin að vera að safna rusli í leikskólanum og hún hefur verið mjög upptekin af að maður megi ekki henda rusli í náttúrunni. Það er nú fínt að kenna börnunum að ganga vel um. Ekki vanþörf á, fólk pælir ekki mikið í svoleiðis hérna. 

Annars er nú ekki mikið að frétta héðan úr blíðunni. Það eru ansi margir frídagar í þessum mánuði, það er nú alltaf ágætt. Börnin myndu nú sennilega alveg vilja sleppa við það. Þeim finnst best að hafa allt í föstum römmum. Og svo sakna þau líka að leika við einhvern. Auður er nú ekki alltaf jafn hrifin af bróður sínum. Stundum er hún voða góð og vill endilega hugga hann, líka þegar hann er bara með frekju. Hún skilur ekki alveg að stundum á bara að láta hann eiga sig. Hún blés sápukúlur um daginn fyrir hann og það var ótrúlega fyndið að sjá. Hann varð hálf hissa á þessum kúlum sem flugu út um allt. 

Jæja best að fara út í góða veðrið

Kveðja

Tisetgengið


Páskafrí

Kæru bloggvinir

gleðilega páska. Hér skín sólin og það er víst 16 stiga hiti, en það er pínu rok svo það virkar aðeins kaldara. En ekkert til að kvarta yfir. Það hefur verið eitthvað rysjótt veður hér um páskana, en í gær og í dag hefur verið prýðilegt veður. 

Þetta eru sennilega með þeim rólegustu páskum hér lengi. Bóndinn er ennþá með einhvern kverkaskít og ekki á toppnum, svo við höfum bara tekið lífinu með ró. Við fórum í dýragarð í gær. Það vakti mikla ánægju. Auður var alveg á útopnu og gat varla stoppað hjá dýrunum því það var svo margt að skoða. Þetta er einn skásti dýragarður sem við höfum farið í. Dýrin virtust róleg og vel hugsað um þau. Við höfum nokkrum sinnum prófað að fara í garða sem var illa hirt um dýrin og þau voru nánast að deyja.

Börnin hafa verið nokkuð hress í fríinu. Eftir við skiptum yfir á sumartímann vill Ágúst ekki sofa á kvöldin og Auður er alveg ómöguleg og öfugsnúin. Hún getur sofið, en þetta fer voðalega í skapið á henni. Það er hreinlega ekki þess virði að vera að rugla svona í klukkunni. Algjörlega óþolandi. Þau eru bæði að þroskast voða mikið núna. Ágúst heldur vökulu auga með öllu sem systir hans fær og heimtar að fá það sama, hvort sem honum líkar þeð eða ekki. 

VIð erum búin að vera mikið utandyra og höfum líka farið í nokkrar búðir. Drengnum vantaði nýja skó og það var nú ekkert léttaverk að finna það. Við enduðum á að kaupa einhverja rándýra sandala handa honum. Konan í búðinni taldi þá vera mjög ódýra. Þeir voru á einhverju rosa tilboði. Við krossuðum okkur bara og borguðum. Það er víst eins gott að venja sig við að kaupa svona dýra skó, þar sem það er ekkert annað sem passar. 

Í kvöld á svo að borða lambalæri. Við keyptum að einhverjum bónda sem við höfum ekki prófað áður. Það var rosalega gott, ekki síðra en það sem við kaupum venjulega.Svo hér er tilhlökkun.

Börnin fengu bæði páskaegg og páskakanínur í morgun. Þau ættu að vera búin að fá nóg af sykri. Við hjónakornin smökkuðum aðeins á herlegheitunum. Ágúst smakkaði mörg stykki og spítti því út úr sér aftur. Það er gott að páskarnir eru bara einu sinni á ári.

Við erum búin að vera að reyna að fá Auði til að hjóla á stærra hjóli. VIð höldum að hún læri aldrei að hjóla. Hún hefur ótrúlega lítið jafnvægi barnið. En frúin hefur nú aldrei verið góð í að halda jafnvægi, svo við verðum að vona það besta. Við erum að pæla í að senda hana með hjólið í leikskólann og sjá hvort þeir geta ekki kennt henni þetta. VIð hjónin erum ekki alveg þau þolinmóðustu í þessu og Auður er heldur ekki lengi að gefast upp þegar eitthvað gengur á afturfótunum. Hún er með vovða mikið þrifæði. Vill gjarnan fá klút og hreinsa til. VIð erum að spá í að taka nóg af myndum af henni og sýna henni svo þegar hún verður unglingur og vill ekkert þrifa í kringum sig. Ágúst virðist eitthvað hafa erft af þessu líka. Hann vill gjarnan hafa allt í röð og reglu. Hvaðan skildu börnin hafa þetta.

Bílinn var eitthvað búinn að vera að stríða okkur og vildi ekki læsast og þá er ekki hægt að starta honum. Frúin var farinn að hafa miklar áhyggjur af að það væri ekki hægt að nota hann meira, því nýr lykill kostar einhver ósköp og meira en bíllinn er virði. En haldið þið ekki að bóndinn hafi dregið fram lóðboltann og reddaði málunum, allavega í bili. Frúin var nú eitthvað efins um að þetta mundi virka, en mjög ánægð með að það gerði það. Við erum búin að spyrja fleiri fróða menn hvort það sé að taka úr sambandi þetta drasl sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að starta bílnum, en enginn þykist vita neitt um það. Ætli það sé ekki ólöglegt og þess vegna enginn sem vill gera það. Við vonum að þessi viðgerð haldi bara þar til bíllinn eyðilegst endanlega.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á.

Kveðja

Gummi, Ragga og páskabörnin


Blástur

Kæru bloggvinir

Hér blæs hressilega í dag. Það er því frekar kuldalegt. En það hlýtur nú að fara að hlýna eitthvað. Það hefur verið næturfrost hingað til. 

Annars er hér allt við það sama. Bóndinn var búinn að vera eitthvað slappur og var rekinn til læknis á mánudaginn. Það kom þá í ljós að hann var kominn með lungnabólgu. Hann er nú eitthvað að hressast. Krakkarnir eru kvefaðir til skiftis. Það lagast ekki núna þegar þau fara að vera meira úti og kannski gleyma að klæða sig almennilega. Auður Elín er allavega ekki neitt sérstaklega góð að muna að klæða sig. Við fórum í það í gær að taka til hér á bak við og gera klárt á leiksvæðinu. Hún fór aðeins að hjóla, en hún hefur ekki þolinmæði í að finna út úr því. Frúin ætlaði líka að fara að hjóla, en það finnst hvergi lykillinn að lásnum á hjólinu, svo hún komst hvorki lönd né strönd. Ágúst var búinn að koma sér fyrir í barnastólnum og var tilbúinn. Hann var frekar óhress með ekki að komast út að hjóla. Lyklarnir eru algjörlega gufaðir upp, svo í versta falli verður að saga lásinn. Auður fýlar vel að geta verið meira úti, en hún er nú ekkert sérstaklega góð að leika ein úti. Hún er orðin duglegri að dunda sér í herberginu sínu. Og það er náttúrlega bara gott.

Moldvarpan, vinkona okkar hefur eitthvað verið að færa sig til. Við höldum kannski að hún sé að flytja. Það væri allavega sársaukalaust af okkar hálfu. Það er ekki farið að spretta mikið, enda vantar meiri hita til þess. 

Frúin þarf að vinna á morgun og hinn og börnin fara í pössun. Við eigum ekkert frí inni, svo þá er ekki annað að gera en að vinna. En það reddast nú sennilega.

Í morgun var opið hús á bóndabæ hérna rétt hjá og við fórum að kíkja. Það var mjög spennandi. Auður fór að hoppa í hálmböggum og fannst það nú ekki leiðilegt. Það var hægt að klappa kálfum og kíkja á kusurnar. Það átti svo að hleypa beljunum út um hádegið. Við drifum okkur nú heim áður en það gerðist því það var orðið svo troðið af fólki. Auður er heldur ekkert sérstaklega hrifin af því þegar það eru mikil læti, svo okkur þótti best að fara bara heim. 

Jæja best að fara að sinna börnum og búi

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband