26.1.2014 | 18:52
Kuldaboli bítur fastar
Kæru bloggvinir
við erum víst alveg örugglega farin að finna fyrir kuldanum hér í Danaveldi. Það er komið frost og rok með, sem gerir það að verkum að það er skítkalt. Enda eru Danir að leggjast í dvala. Þeir eru ekki mikið fyrir vetrarveður. Þeir eru eitthvað að spá snjókomu í vikunni og skafrenningi. Við sjáum hvað verður mikið úr því.
Annars er hér allt við það sama. Ég var víst búin að lofa að það yrðu settar inn einhverjar myndir, en bóndinn gleymir því alltaf og frúin hefur enga þolinmæði í að gera það. Svo þið þurfið að bíða eitthvað aðeins lengur. Bóndinn hefur verið að setja upp gluggalista og fengið hjálp af Óla vini sínum. Það er ótrúlegur munur að sjá gluggana. Þeir eiga reyndar eftir tvo glugga. Þeir kláruðu efnið og svo kom kuldakast, svo þeir hrökluðust inn. En stefna nú á að klára þetta í vikunni. Svo þarf bara að mála þá, en mesta vesenið er nú að sníða þetta og setja upp. Kosturinn við að þetta er búið að bíða svona lengi er að manni finnst þetta alveg ótrúlega flott þegar þetta kemur upp. Nú er svo spurning hvort frúin kemur því í verk að sauma gardínurnar úr efninu sem er búið að vera uppi á lofti í nokkur ár. Það getur líka vel verið að við bíðum bara með það í svona 3 ár í viðbót.
Ágúst er á fullu að rannsaka heiminn þessa dagana. Í síðustu viku tók hann sokka og henti ofan í klósettið. Það var svo sem allt í lagi, nema að það hafði gleymst að sturta niður, svo lyktin af sokkunum var ekkert stórkostleg. Hann reyndi svo að éta upp úr kattasandkassanum í dag. Frúnni til mikillar gleði. Auður er orðin betri að leika við hann, svona meðan hann lætur að stjórn. Hún er nú oftast mjög góð við hann og hefur miklar áhyggjur af því ef hann dettur og meiðir sig. Þau eru bæði óttalegir apakettir og klifra í öllu. Það er ótrulegt hvað það er sjaldan að þau slasa sig. Bóndinn hefur verið að reyna að fara með Auði í leikfimi en það hefur ekki verið að ganga nógu vel. Það er ekki nógu mikill agi á börnunum og þá fer í Auður alveg í baklás, svo nú held ég við reynum ekki meira. Við erum að spá í að prófa sunnudagaskóla í staðinn, sem er á fimmtudögum. Það er ekki boðið upp á sunnudagaskóla á sunnudögum hér á þessu svæði. Sennilega fæst enginn til að vinna við það um helgar. En nú sjáum við hvort hitt getur gengið upp. Mamma einnar sem er með Auði á leikskólanum er búin að bjóðast til að taka hana með, við þiggjum það kannski bara.
Í dag fórum við í heimsókn til manns sem var með Gumma í tungumálaskóla í Árósum fyrir 9 árum síðan. Við fundum gamalt jólakort frá þeim og fórum og leita að þeim á netinu. Við fundum þau og þau buðu okkur í mat í dag. Það var mjög fyndið að hittast eftir öll þessu ár. En þau hafa ekkert breyst. Bara orðin eldri.
jæja best að fara að kíkja á kassann
kveðja úr kuldanum
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2014 | 15:40
Kuldaboli
Kæru bloggvinir
hér hefur eitthvað verið að kólna. Það er ennþá hitagráður, en hífandi rok, svo það er ansi napurt. Ég veit ekki hvort þeir eru að spá þessu eitthvað áfram. Það hefur snjóað hérna fyrir norðan okkur, en við höfum sloppið ennþá. Það er nú samt aðeins farið að birta á morgnana og það hjálpar nú heilmikið. Það kemur nú varla mikill vetur úr þessu.
Annars er nú heldur lítið að frétta af okkur hérna. Allt við það sama. Börnin eru auðvitað með hor eins og venjulega og með hósta. Læknirinn skilur ekkert í þessu. Hún ætlar að senda Ágúst til einhvers sérfræðings til að sjá hvort hún finni eitthvað út úr þessu. Drengurinn er búinn að vera rauður í framan eins og lendingarljós síðustu vikurnar og voða rellinn, en ekkert bólaði á tönnunum. Við vorum alveg hætt að kíkja eftir þeim. Svo sá frúin einn daginn að það glitti í þrjá jaxla. Þeir eru ekki alveg komnir niður, en á leiðinni. Ekki skrýtið hann hafi verið eitthvað pirraður. Það er vonandi að hann drífi þetta af bara núna, svo það þurfi ekki að vesenast með þetta meira. Auður Elín fékk sína alla í röð.
Annars eru þau systkin nú mjög ólík að flestu leyti. Ágúst er prílandi upp á öllu, og dettur sjaldan. Auður prilar líka og er alltaf að detta. Hún dettur um sjálfa sig oft á dag. Þau eru bæði mjög virk og geta alls ekki verið lengi kyrr. Þau eru aðeins orðin betri til að leika saman, en það gengur nú ekki alltaf. Það er svo sem ekkert skrýtið. Auður skilur ekki alltaf að hann er óviti og eyðileggur fyrir henni.
Við höfum aldrei þessu vant tekið því bara nokkuð rólega um helgina. Fórum í vinamat á föstudaginn. Þar komu 4 kolsvartir menn frá Suður-Súdan. Ágúst var hálfsmeykur við þá. Þeir voru eitthvað að reyna að bræða hann, en hann var ekki á þeim buxunum. Hann er nú annars varnur að brosa framan í alla. En það getur verið hann venjist þessu. Þeir tóku svo lagið. Sungu sálm á einhverri afrísku. Það var mjög flott, allavega mjög öðruvísi. Við erum að spá í að syngja sama sálm næst, á íslensku. Þá geta þeir heyrt muninn. Við erum búin að plata íslensku vini okkar til að koma með okkur á þessar samkomur, svo við ættum ekki að vera mikið verri að syngja en þeir. Frúin er nú ekki mikið fyrir að troða upp, en það getur verið að hún komist ekki undan því.
Ágúst er að verða ansi frakkur og uppátækjasamur. Hann skilur ekkert í því að hann má ekki allt það sem honum dettur í hug og verður mjög móðgaður. Finnst sjálfsagt bara eðlilegt að hann megi rífa allt og tæta.
Jæja frúin er eitthvað voðalega andlaus í dag.
Kveðjur frá Roklandi
Gummi, Ragga og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2014 | 12:22
Hversdagsleiki
Kæru bloggvinir
þá er allt að færast í samt horf hérna hjá okkur. Börnin komin í pössun og vinna hjá hinum. Auður Elín var voðalega glöð að komast í leikskólann aftur. Hún er nú samt búin að vera voða lúin þessa vikuna. Það tekur á að komast í rútínu aftur. Ágúst er farinn að vakna kl. 5 á morgnana. Svo nú er verið að spá í að láta hann sofa aðeins minna á daginn. Hann er búin að staulast um hér í svolítinn tíma. Svo allt í einu fór hann bara að labba alveg sjálfur. Hann dettur nú ennþá á rassinn, en er allur að koma til og er voða montinn.
Sundið byrjaði aftur í gær og börnin voru mjög sátt við það. Auður byrjaði í leikfimi síðasta vetur. En hún var nú eitthvað stressuð yfir öllum þessum börnum svo það datt upp fyrir. Við erum að spá í að reyna að prófa aftur í ár, hún er eitthvað spennt fyrir þessu. Og hún hefur mjög gott af að hreyfa sig. Ekki af því hún hreyfi sig ekki nóg, en hún lærir alls konar æfingar og kúnstir.
Hún er nú oft ansi þreytt á bróðir sínum og finnst hann eyðileggja fyrir sér. En í gær fengum við gesti og einhvern veginn hélt hún að þau ætluðu að taka Ágúst með sér. Hún varð alveg miður sín. En tók nú fljótt gleði sína á ný þegar hann varð eftir.
Í dag er búið að taka aðeins til í skápunum og stilla matreiðslubókunum fram. Það hefur staðið til lengi, en okkur hefur vantað stað fyrir þær. Nú vantar okkur bara bókaskáp fyrir hinar bækurnar. Það verður sennilega einhver bið á því. Róm var nú ekki byggð á einum degi.
Það er planið að fara að koma inn nokkrum myndum af jólahaldinu. Það hefur bara gleymst.
Íslenski síminn er búinn að vera í ólagi, og er enn. Bóndinn er búinn að vera í sambandi við þá, en ekkert gerist enn. Þeir hafa aldrei lent í öðru eins. Það er nú samt vonandi að þeir fari eitthvað að redda þessu. Það er frekar pirrandi að geta ekki notað símann.
En það er nú víst lítið annað að frétta héðan.
kveðja
tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2014 | 14:07
Áramótablogg
Kæru bloggvinir
gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það liðna. Við erum komin nokkuð vel í gegnum jól og áramót, án stórra vandkvæða. Við vorum með vinum okkar á áramótunum, heima hjá þeim og gistum bara, af því að það var of mikið vesen að fara að rífa börnin upp úr rúmunum og keyra þau heim. Við borðuðum góðan mat og horfðum svo á íslenskt sjónvarpsefni gegnum tölvuna. Þetta var ljómandi fínt. Börnin sváfu svo auðvitað ekkert of lengi á nýársdag, svo við fórum snemma heim til okkar. Frúin fór svo í vinnuna fimmtudag og föstudag. Ákvað að það væri fínt að byrja á stuttri viku. Auður fór í leikskólann. Hennar leikskóli var lokaður, svo hún fór í annan leikskóla. Það var mjög spennandi að leika með allt nýja dót og besta vinkona hennar var þar líka, svo hún var nokkuð sátt. Hún var búin að tala um það nokkrum sinnum að hana langaði að fara í leikskólann. Hún fer svo í sinn venjulega leikskóla á morgun. Þá fer þetta nú allt að komast í rétt horf.
Í dag erum við svo búin að vera að pakka niður jólaskrautinu. Það er alltaf voðalega tómlegt að taka þetta niður, en samt einhvern veginn líka ákveðinn léttir. Nú þarf maður bara smá tíma til að venjast því að það sé ekki neitt skraut.
Hér er alltaf rigning og frekar hlýtt, svo ekki getum við sagt að veturinn hafi verið harður hingað til. En það getur nú náð að breytast. Þetta passar okkur fínt. En það væri auðvitað meiri birta, ef það væri snjór. En það lamast bara allt hérna þegar kemur snjór, svo það er best að sleppa því bara.
Ágúst er búin að fatta að hann getur hermt eftir, þegar við gerum einhver hljóð. Það er hin mesta skemmtun. Hann var víst mjög fegin að komast aftur til dagmömmunnar og fá einhverja krakka að leika við.
Við héldum að ungbarnasundið byrjaði í gær og drifum okkur af stað, en svo kom í ljós að það byrjar fyrst næsta laugardag. Við fórum því í næsta bæ og fórum í sund þar. Það var mjög fínt og ágætis laug. Börnunum fannst þetta hið besta mál allavega.
Jæja best að reyna að slaka á og safna kröftum fyrir næstu vinnuviku sem verður heil vinnuvika. Annars er nú ekki langt í að við höfum vikufrí. Það er í byrjun febrúar. Ágætt að hafa eitthvað að stefna að!
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2013 | 13:36
Partýstand
Kæru bloggvinir
hér hefur verið heilmikið að gera undanfarið. Við héldum jólin hérna heima bara 4. Það var voðalega notalegt og ekkert stress. Elduðum rosa góðan mat og átum á okkur gat. Auður var víst ekki alveg að skilja þetta með pakkana. En á aðfangadag fór hún að verða spennt yfir þessu með pakkana. Hún vildi endilega aðstoða bróðir sinn við að opna pakkana, en hann var nú ekki eins hrifinn af þeirri hugmynd. En allt gekk þetta nú átakalaust fyrir sig. Í byrjun jólafrísins vöknuðu börnin kl. 5 og 6 á hverjum morgni, en þau eru nú greinilega að komast í þjálfun því þau eru farin að sofa lengur. Auður Elín svaf til kl. 9 í morgun. Hún verður eitthvað hress að fara að vakna í leikskólann aftur á fimmtudaginn. Hún vaknaði með ekka eitt kvöldið, og sagði að það væri af því hún saknaði svo vinkonu sinnar á leikskólanum. Hún hefur svo ekki talað um það síðan. Hún er voða mikill rútínupúki og vill helst hafa allt eins alla daga.
Á annan í jólum hittumst við heima hjá öðru íslensku pari hérna rétt hjá og borðuðum saman, ásamt tveimur öðrum hjónum. Börnin borðuðu með okkur og fóru svo heim að sofa. En við urðum eftir og djömmuðum eitthvað frameftir. Eva gamla var hjá þeim. Þetta var mjög huggulegt og vonandi að það verði stemning fyrir þessu aftur á næsta ári.
Á laugardaginn var svo farið í lítið leikjaland með Auði. Henni hefur langað að fara í tívolí voða lengi. En það er allt lokað um jólin, svo þetta var sárabót. Hún var voða ánægð, en þorði nú ekki að prófa neitt sérstaklega mikið. Hún er ekki neitt óskaplega kjörkuð. Í gær renndum við svo í heimsókn til vina okkar í Odense. Bóndinn og Óli þurftu að horfa á fótbolta. Leikurinn var ekki fyrr en kl. 17:00 svo við borðuðum kvöldmat þar og keyrðum svo heim Við vorum ekki komin heim fyrr en kl. 21:00, svo þess vegna nennti frúin ekki að blogga þegar hún kom heim. Auður Elín og Arndís eru orðnar voða duglegar að leika sér saman og það heyrðist varla í þeim í gær. Hún var líka verulega þreytt. Sofnaði um leið og við komum í bílinn og svaf alla leiðina heim. Hún vildi svo endilega fara með pabba sínum og kaupa sprengjur áðan. Hún er nú hálfhrædd við eþtta, en finnst eflaust sport að vera með pabba sínum. Hún er hætt að vera alveg eins mikil mömmustelpa og hún var. Á móti kemur að Ágúst er í einhverju voða mömmustuði þessa dagana og fer að gráta í hvert skipti sem hún hverfur úr augnsýn. En ætli það vaxi ekki fljótt af honum. Hann er farinn að taka fleiri og fleiri skref óstuddur, en er eitthvað ragur við þetta ennþá. Hann vill kannski bara vera alveg viss um að hann kunni þetta, áður en hann kastar sér út í þetta fyrir alvöru.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili.
Gleðilegt ár allir saman og gangið hægt um gleðinnar dyr.
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2013 | 18:39
Jólafrí
Kæru bloggvinir
þá eru allir komnir í jólafrí hér á bæ. Auður er strax farin að tala um að hún sakni leikskólans. Hún er svoddan rútínupúki að hún vill helst hafa allt í sömu skorðum. Hún er ekkert búin að tala um pakkana og aðfangadag. Kannski er hún ekki orðin nógu gömul til að fatta hvað þetta gengur allt út á. Hún er allavega búin að finna út úr því að ef maður er óþægur þá fær maður kartöflu í skóinn. Hún þorir ekki sjálf að kíkja í skóinn á morgnana. Ætli hún haldi ekki að jólasveinninn standi bak við gardínuna. Hún fræddi okkur á því um daginn að ein stelpan á deildinni hennar væri að fara að fá nýjan pabba. Við urðum eitthvað hvumsa, en þá sagði hún að pabbi stelpunnar væri í fangelsi og hún þyrfti því að fá nýjan pabba. Hún fræddi pabba sinn á því að ef hann færi í fangelsi þá myndi mamma hennar fá sér nýjan mann. Já einmitt. Hún var nú ekki alveg með á hreinu hvað fangelsi er, en vissi nú samt að ef maður væri í fangelsi, þá væri maður langt í burtu. Hún er voða mikið að spá og spekúlera þessa dagana. Komin á hvers vegna aldurinn.
Við fórum og ætluðum að komast í jólastuð í dag í jólabæ, ekki langt hérna frá. Það gekk nú eitthvað illa. Við vorum ekki nógu vel klædd. Það stóð 7 stiga hiti á mælinum, en það var rok svo við vorum hálf loppin. Það er ekkert jólalegt hérna, rigning og rok flesta daga. Svo jólaskapið fór fyrir lítið. En Auður hitti bæði jólasveininn og jór í jólalest, svo hún var víst bara sátt við sitt. Ágúst skildi nú lítið af þessu öllu. Hann er eitthvað voða pirraður greyið, er örugglega að fá einhverja jaxla.
Við erum nú bara að verða klár fyrir jólin. Vantar að kaupa inn á morgun og svo erum við klár. Erum nokkuð svekkt yfir að fá hvorki skötu né hangikjöt í ár. En við verðum að láta okkur nægja þýskan hamborgarahrygg og nýsjálenskt lambalæri. Ekki hægt að segja annað en að við séum alþjóðleg.
En allavega ætli þetta sé ekki orðið gott í bili
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2013 | 16:02
Jólaball
KÆru bloggvinir
það er alltaf nóg að gera hér á bæ. Við fórum á jólaball í leikskólanum hjá Auði. Þar var dansað kringum jólatréð og það kom jólasveinn, sem þó hafði gleymt að fara í buxur og var bara í einhverri kápu. Þetta þótti dóttur okkar ákaflega merkilegt. Við sögðum að hann hefði týnt buxunum í rokinu um daginn. Það hafa svo komið jólasveinar hér á hverjum morgni og sett eitthvað í skóinn hennar. Í morgun fékk hún bara mandarínu og bréf frá jólasveininum. Hann var ekki alveg hress með að hún gleymdi að gegna foreldrum sínum. Hún var voða skúffuð yfir þessu og baðst afsökunar.
Á föstudaginn elduðum við mat fyrir vinakvöldmat. Það voru allir voða ánægðir og borðuðu 6 kg af kjöti og helling af grænmeti. Það er alltaf mjög huggulegt að vera með í þessu. Í gær hittumst við svo nokkrir Íslendingar og slógum upp íslensku jólaballi. Það var dansað krigum jólatréð og jólasveininn kom í heimsókn. Auður var fljót að fatta að þetta væri Óli vinur okkar. En lét ekki á neinu bera. Var bara mjög sátt við að fá nammipoka. Það var voða gaman að ganga kringum jólatréð og syngja íslensk jólalög. Það er ekki það sama og þessi dönsku jólaböll, af því maður þekkir ekki jólalögin á sama hátt. Auður hafði á því orð þegar við vorum á leiðinni heim að það hefði verið skrýtið að þessi jólasveinn í gær, hafði verið í buxum. Eins gott að hún fari ekki að tala við aðra um buxnalausa jólasveina.
Í morgun var svo farið til Kolding í brunch hjá fyrrverandi vinnufélaga frúarinnar. Það er orðið mjög langt síðan við hittumst, svo það var auðvitað voða gaman. Eftir þetta allt saman erum við svo búin að reyna að slaka aðeins á. Nú er aðeins ein vinnuvika eftir fram að jólum. Það verður fínt að fá smá frí.
Ágúst Ægir er farin að labba aðeins sjálfur, en bara nokkur skref og svo dettur hann. En þetta kemur örugglega mjög fljótlega. Það er svo sem ágætt að hann fer ekki út um allt, hann getur þá ekki tætt eins mikið.
Við erum að verða klár fyrir jólin. Vantar ennþá jólatréð, en það er verið að vinna í að redda því. Kunningar okkar eru að fara að fella tré og ætla að saga ofan af því handa okkur. Við getum nú ekki haft stórt tré. Það er nú mjög líklegt að sonur okkar tæti skrautið af því. Svo við reynum sennilega að setja ómerkilegt skraut neðst.Þetta er eins og vera með kött á heimilinu.
Kveðja
Tisetgengið sem reynir að komast í jólaskapið þrátt fyrir hita og gott veður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2013 | 15:51
Jólabakstur
Kæru bloggvinir
það er nú búið að vera mjög breytilegt veður undanfarið. Suma daga er hörkufrost og daginn eftir er hláka. Það verður að taka ákvörðun um það frá degi til dags hversu mikið þarf að klæða sig. En það er nú svo sem alltaf betra að klæða sig of mikið frekar en of lítið.
Hér er búið að vera nóg að gera að venju. Á laugardaginn var farið í sund að venju, svo var brunað til Þýskalands að kaupa í jólamatinn. Við komumst að því að þeir selja svínahamborgarahrygg með beini í kjörbúðum og helmingi ódýrari en í Danmörku. Við höfum alltaf þurft að panta þetta hjá slátrara og borga of fjár fyrir. Það getur ekki verið svo mikill munur á dönskum og norðurþýskum svínum. Svo var keyptur kalkúnn og lambalæri. Þá er jólunum reddað, hvað matinn varðar.
Í gær var svo ráðist í að baka smákökur. Það voru nú bara bakaðar tvær sortir og svo kleinur. Á síðasta ári var frúin nú baka, alveg kominn á steypirinn og fór á fæðingardeildina daginn eftir baksturinn. Gott að lenda ekki í því aftur í ár. En hún var allavega svo uppgefinn eftir baksturinn að hún steingleymdi að skrifa blogg.Það er sjaldan sem hún er svona góð að dunda sér við eitthvað. Ágúst gerði nú ekki mikið annað en að rífa og tæta og óþekkast. Hann er alveg eins og skriðdreki út um allt. Hann er aðeins byrjaður að standa sjálfur og monta sig. En vantar ennþá herslumuninn á að þora að ganga sjálfur.Það er spurning hvort það þýði eitthvað að skreyta jólatréð í ár þegar maður er með svona tætibusku á heimilinu. Við sjáum til hvernig það fer. Fyrst er nú að skaffa tré. Það er eitthvað voða vesen í ár.
Það var voða hvasst hérna á fimmtudaginn, svo frúin varð að fara fyrr heim úr vinnunni. Það voru engar almenningssamgöngur og fólk beðið um að vera heima fyrir. Það dó allavega ein kona, en einhverjir slösuðust þegar þeir fengu þaksteina í hausinn og annað laust drasl. Það losnaði sem betur fer ekkert hjá okkur. Alveg ótrúlegt að þetta haldi allt saman. En það er nú svolítið fyndið að heilt land lamast þegar það kemur rok. Það voru nokkrir skólar lokaðir bæði fimmtudag og föstudag.
Jæja best að fara að sinna börnum og búi
kveðja
Gummi, Ragga og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2013 | 16:16
Jólasveinninn kominn til Tiset
Kæru bloggvinir
þá er búið að taka á móti jólasveininum í TIset. Hann kom að venju með karamellur og nammipoka fyrir börnin. Auður var voða spennt yfir þessu, en Ágúst skilur nú ekkert í þessu umstangi. Það var byrjað að skreyta aðeins í dag. Við sáum einn lítinn strák sem er sennilega ekki meira en 2 vikna. Það er voða skrýtið að hugsa til þess að fyrir ári síðan var Ágúst svona lítill
Það er mikill spenningur yfir öllu jólastússinu. Auður fékk jóladagatal með súkkulaði og svo annað sem er tengt sjónvarpsþætti fyrir börn. Þátturinn er reyndar sýndur kl. 8 á kvöldin. Það eru nú sennilega flest börn farinn að sofa á þeim tíma. En við verðum að reyna að fylgjast með hvenær það er endursýnt. Það er strax kominn voða mikill jólaspenningur í hana, svo það verður langt að bíða til jóla. Hún er nú samt ekkert að tala um hvað hana langar í. Þó hún sé að skoða bæklinga með alls konar jóladóti, þá er hún mest að pæla í hvað öðrum langar í. Enda nógur tími til að verða spenntur yfir því. Hún leikur sér nánast aldrei með dót, svo ekki er nú þörf á að fara að versla svoleiðis.
Annars hefur nú lítið borið annað til tíðinda hér. Við erum búin að kaupa og pakka niður jólagjöfum fyrir alla nema okkar börn. Það er ágætt að geta sent pakkana snemma til Íslands. Þá er kannski minni líkur á að þeir týnist í öllu jólapakkaflóðinu. Við ætlum nú að reyna að senda einhver jólakort líka, það er nú farið að skera það niður líka, því það er svo dýrt að senda með póstinum. En manni finnst nú engin jól án jólakorta.
Ágúst er á útopnu alla daga, hann ætlar ekki að vera minna virkur en systir sín. Hann tekur framförum í að labba, en vill nú ennþá halda sér í. Hann kemst líka mun hraðar yfir skríðandi en labbandi. Hann var voða ánægður að sjá nokkrar vinkonur sínar áðan, þegar við fórum að taka á móti jólasveininum. Hann vildi endilega kyssa þær og dansa fyrir þær. Það var nú mismikil hrifning hjá þeim. Hann er voða ánægður hjá dagmömmunni, sem betur fer. Auður er líka voða ánægð í leikskólanum. Hún spyr á hverjum degi, hvort hún eigi að fara í leikskólann. Við höfum verið að bíða eftir að Ágúst fengi fleiri tennur, því hann hefur verið eldrauður í andlitinu á kvöldin undanfarið. En ekkert bólar á neinu ennþá.
Í kvöld á svo að borða sviðahausa. Það eru vist ennþá nokkrir svoleiðis í frystinum. Um að gera að borða það á veturna. Ekki svo geðslegt að borða það á sumrin. Við ætlum að prófa að kaupa hamborgarahrygginn í Þýskalandi í ár. Hann er svona ca. helmingi ódýrari en hér í Danmörku og örugglega alveg jafn góður. Það er bara erfiðara að útskýra hvað maður vill á þýsku. Það er ekkert sem við erum sérstaklega fær í hjónin. En þá er bara að bjarga sér með fingramáli.
Jæja best að fara að undirbúa matinn
kveðja úr jólabænum
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2013 | 18:43
Afmælishelgi
Kæru bloggvinir
Það er búið að vera nóg að gera hér um helgina eins og alltaf. Prinsinn á heimilinu varð eins árs og það var haldin heljarinnar veisla í dag, af því tilefni. Það komu nú ekki allir sem var boðið, en það var nú svo sem ágætt af því það er ekki svo mikið pláss hjá okkur. Ágúst skildi nú svo sem ekki mikið af því sem fram fór, en virtist mjög sáttur við athyglina. Hann fékk helling af nýju dóti, en hann er nú enginn ægilegur dótakarl. Hann verður það kannski þegar hann á orðið svona fínt dót. Auður hefur heldur aldrei leikið sér mikið með dót og gerir ekki ennþá. En hann getur nú ennþá náð að verða meira upptekinn af þessu.
Annars hefur allt gengið sinn vanagang hérna. Við fórum í samtal í leikskólanum hennar Auðar á föstudaginn. Þær voru voða ánægðar með hana. Hún er alveg með á nótunum tungumálalega séð. Hún er farin að tala voða hátt, þær eru eitthvað að reyna að vinna í því. Það er mikill niðurskurður á leikskólanum hennar af því það eru ekki svo mörg börn þar núna. Það er alls staðar verið að spara og oft eru það leikskólar og skólar sem lenda í því.
Það hefur verið mjög milt veður hérna undanfarið, en þó er komið næturfrost. Það er nú ekkert mjög spennandi að fara að skafa af bílnum á hverjum morgni. En við setjum hann nú oft í gang á morgnana og látum hann hitna og þá er ekki eins mikið að skafa. Dönum finnst þetta auðvitað svakalegt bruðl. Þeir passa sig líka á því að nota ekki miðstöðina of mikið. Örugglega af því það er of dýrt. Þeir sitja í þykkum vetrarfrökkum í bílnum og hafa slökkt á miðstöðinni. Maður þorir ekki að spyrja út í þetta af því þeir verða svo móðgaðir ef maður er að spyrja út í hvers vegna þeir gera það sem þeir gera.
Nú er svo stefnan að fara að jólsskreyta eitthvað meira. Eins gott að Ágúst kom ekki mikið seinna í heiminn. Það hefði truflað allan jólaundirbúninginn. Á þessum tíma á síðasta ári var frúin eiginlega búin að öllu og búin að baka. Það var piparkökubaksturinn sem setti fæðinguna af stað. En í ár er hún ekkert búin að gera. En þetta hefst venjulega allt saman þrátt fyrir allt.
Jæja það er víst ekki mikið meira í fréttum hér að sinni
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og afmælisbarnið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)