Haustveður

Kæru bloggvinir

héðan af vígvöllunum er allt ágætt að frétta, svona miðað við aðstæður. Við fluttum í sumarbústað síðasta mánudag. Þetta er voða fínn bústaður og okkur skortir ekkert. Bústaðurinn er ca. 18 km frá Tiset, svo þetta gefur meiri keyrslu, en við því er ekkert að gera. Þeir eru ekkert byrjaðir að gera í húsinu. Frúin talaði við verkstjórann á föstudaginn og hann talaði um að þeir færu að gera eitthvað í þessari viku, svo við vonum það besta. Við erum búin að fá lán í bankanum til að steypa og einangra gólfið og kannski setja gólfhita. Það var nú á dagskránni að gera þetta allt, svo það er um að gera að nýta tækifærið. Ef við getum gert þetta ættum við líka að fá betur einangrað hús, svo við spörum í hita. Maður verður að reyna að líta á björtu hliðarnar.

Við fórum í dag og sóttum meira af leikföngunum hennar Auðar. Hún hefur haft orð á því nokkrum sinnum að hún sakni þess að hafa ekki neitt, og er hún því himinlifandi. Ágúst hefur ekki eins miklar áhyggjur af þessu og er bara endalaust að pirra systur sína, henni til mikillar ánægju. Hann er alltaf að standa upp við allt og reyna að komast eitthvað áfram. Hann er nú ekki búinn að ná tækninni ennþá, en þetta er allt að koma. Hann er algjör skæruliði og rífur allt og tætir sem hann kemst í tæri við.

Annars er veðrið farið að líkjast haustveðri. Það er farið að kólna og byrjað að vera meiri rigning. Það er ótrúlegt hvað þetta sumar líður alltaf hratt. Maður nær aldrei nema helmingnum af því sem maður vill gera. Kartöflugarðurinn er orðinn fullur af illgresi. Við höfum ekki lent í þessu áður, en verðum sennilega að prófa að eitra í hann núna í haust og sjá hvort það hjálpar ekki eitthvað. Hann er allavega mjög óspennandi núna. 

Frúin er búin að biðja bóndann að henda inn einhverjum myndum af fína húsinu okkar og einhverju fleiru. Það kemur sennilega á næstunni. Við erum komin með netsamband hér í bústaðinn, en ekki heimasíma, bara gsm.

Bestu kveðjur

Flóttamennirnir


Update frá vígvellinum

Kæru bloggvinir

ákvað að gera smá update á lífinu hér í Tiset. Það hefur verið ansi mikið að gera síðan við komum frá Íslandi. Frúin byrjaði að vinna aftur og þó hún sé ekki í fullri vinnu, þá er auðvitað heilmikil vinna að fá þetta allt til að ganga upp. Bóndinn er kominn með nýtt vaktaplan, sem þýðir að við höfum verið að vakna klukkan 5 á hverjum morgni, og hann hefur farið í vinnuna rétt fyrir 6. Frúin hefur því séð um að koma börnunum á fætur og í pössun. Það kemst svo sem upp í vana, en erfitt þegar maður er svona góðu vanur. Við keyptum fljótlega eftir komuna til DK, tjaldvagn og erum búin að fara í 2 útilegur. Það hefur nú bara gengið mjög vel. En það var ansi kalt á nóttinni í seinna skiptið, svo við þurfum að fá okkur einhvern rafmagsnofn eða eitthvað. Vandamálið er svo bara að Danir eru ekki hrifnir af að maður noti of mikið rafmagn, en við prófum kannski ef við förum í aðra útilegu fyrir veturinn. 

Annað sem ekki er alveg eins skemmtilegt er að þegar við komum heim byrjaði gólfið í eldhúsinu að gefa eftir. Gummi reif gólfið upp og þá kom í ljós að það var vatnsleki undir vaskinum og gólfið var byrjað að molna. Tryggingarfélagið mætti og reif eldhúsið út, og byrjuðu að rífa gólfið upp. Þá kom í ljós að það var kominn einhver sveppur í gólfið, sem var búinn að breiða sig um mestallt gólf. Þá hófst rekistefna hjá Tryggingarfélaginu og á meðan fengum við eldhúsvagn í innkeyrsluna. Þetta var nú frekar mikið vesen að sofa í húsinu og elda í innkeyrslunni, svo við fengum að flytja inn til vinafólks okkar. Nú er svo búið að rífa gólfið upp og næst á dagskrá er svo að byggja upp nýtt gólf. VIð erum að vona við getum látið steypa plötu undir, svo við lendum ekki í þessum svepp aftur. En annars erum við tryggð svoleiðis að þeir eitra fyrir sveppinum og setja aftur gólf. Bara spurning hvernig gólfið verður. Það var á dagskránni að safna fyrir því að rífa gólfið upp og steypa undir og setja gólfhita. 

Ágúst Ægir byrjaði hjá dagmömmu í byrjun ágúst. Hann hefur tekið þessu með mikilli ró. Er alveg sama þó mamma hans skilji hann eftir og er alveg að bræða dagmömmuna. Auður er himinlifandi yfir að vera byrjuð í leikskólanum aftur og vill helst fara þangað kl. 7 á morgnana og vera þar, þar til lokar. Ágúst er orðinn voða duglegur að skríða og stendur upp við allt og reynir að feta sig áfram.

Auður er orðin rosa dugleg að teikna og mála og þetta er farið að líkjast einhverju. Ekki bara eitthvað krass. 

Á morgun flytjum við svo í sumarhús ca. 15 km fyrir sunnan okkur. Það verður pínu vesen að þurfa að keyra lengra til að komast í vinnu, en frábært að fá hús til að búa í og geta verið út af fyrir okkur. 

Jæja best að láta þetta nægja af hrakföllum okkar. Veit ekki hvernig tölvusambandið er í sumarbústaðnum, svo ég veit ekki hversu mikið við verðum í samskiptum við umheiminn. 

kveðja

Tisetgengið


Sumarfrí

Kæru bloggvinir

 sökum anna hefur frúin ákveðið að bloggið taki sumarfrí. Við mætum til Íslands næsta mánudag, og vonandi hittum við sem flesta meðan á dvöl okkar stendur. En af reynslu vitum við að tíminn líður mjög hratt og það vinnst ekki tími til að heimsækja alla. 

Vonandi hefur frúin tíma til að setjast niður og skrifa þegar við komum heim frá Íslandi.

 

kveðja

Gummi, Ragga og börn


Afmæli

Kæru bloggvinir

hér kemur bloggfærsla vikunnar, örlítið seint á ferðinni. Við héldum upp á afmæli dótturinnar í gær og frúin var eiginlega orðin dálítið þreytt eftir daginn. Ungfrúin var alsæl með daginn. Hún lék við nokkrar vinkonur sínar og var auðvitað mjög sæl með allar gjafirnar. Þetta er nú eiginlega í fyrsta skipti sem hún er spennt yfir þessu. Veðrið hefði nú alveg getað verið betra. Það voru skúrir og frekar napurt veður. En skvísurnar voru nú samt eitthvað úti að djöflast og hoppa á trambolíninu og drullumalla. Það voru því blaut og skítug börn sem fóru heim til sín í gær. Ágúst Ægir naut góðs af gestaganginum, hann fékk auðvitað töluverða athygli. Akkúrat núna er frúin mjög sátt við að það er svo langt á milli afmæla barnanna. 

Annars er allt við það sama. Ágúst er voða pirraður í munninum, og þar fyrir utan er hann kominn með bronkítis aftur. Það er nú samt ekki eins slæmt og í fyrsta skipti. Hann er orðin duglegri að hreyfa sig þegar hann liggur á gólfinu. Getur snúið sér í hring og finnst það auðvitað mjög skemmtilegt. Hann er orðin mjög duglegur að sitja sjálfur. Hann veltur nú stundum. En er ekkert að væla of mikið yfir því.

Auður fór í 4 ára skoðun í síðustu viku. Hún stóð sig mjög vel og gerði allt sem læknirinn bað um og tók því eins og hetja þegar hún þurfti að fá sprautu í upphandlegginn. Læknirinn átti von á að hún myndi fara að gráta, en Auður sagði bara, á þetta var vont, og svo var það búið.

Veðrið hefur verið hálf rysjótt undanfarið. Nokkrir góðir dagar með hita og sól en líka nokkrir með roki og kulda. Það er því ekki neitt svakalega sumarlegt. Það hefur rignt töluvert, sem er reyndar mjög gott, því það var allt orðið svo þurrt. Grasið var farið að gulna í garðinum hjá okkur. Kartöflurnar og rófurnar hafa tekið rosa kipp eftir vætuna. Svo er búið að setja niður gúrkuplöntu og tómatplöntur. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili

kveðja

Tisetgengið


Hvíldardagur

Kæru bloggvinir

hér skiptast ekki á skin og skúrir, heldur hiti og kuldi. Það hefur ekki rignt hér í mánuð og það er allt að skrælna. Bændurnir verða að vökva túnin svo það skrælni ekki allt, því það er mjög heitt hér á köflum. Í dag er hins vegar skýjað og frekar kalt. Þetta er ávísun á að börnin verði kvefuð og sérstaklega Ágúst Ægir hefur verið kvefaður. Hann hefur því verið pínu rellinn undanfarið. Við fundum svo tönn í fyrradag, sem eflaust hefur ekki hjálpað upp á. Hann sefur frekar órólega, en er svo sem ekkert að væla. 

Á miðvikudaginn var þjóðhátíðardagur Dana og bóndinn var í fríi og leikskólinn var lokaður. Við höfðum ekkert búist við að bóndinn yrði í fríi svo við vorum ekki búin að plana neitt. Það var því lítið gert þann daginn, annað en að sleikja sólina. Það var alveg rosalega gott veður þann daginn og mjög heitt. Við vorum greinilega ekki búin að átta okkur á hitanum og Auður fékk ekki nóg að drekka þann daginn. Hún vaknaði því á 2 tíma fresti um nóttina og vildi fá að drekka. Ágúst vaknaði svipað oft því hann var svo stíflaður í nefinu að hann var alltaf að vakna. Skemmtileg nótt það. Frúin prísar sínum sæla fyrir að það eru ekki margar svoleiðis nætur. Auður er að venja sig af að sofa með bleiu á nóttinni og það gengur bara nokkuð vel. Bara verið nokkur óhöpp. Nú er svo bara eftir að hætta með snudduna á nóttinni. Hún er sjálf mjög upptekin af því að hætta þessu, svo þetta á nú sennilega allt eftir að heppnast.

Á föstudaginn fór frúin í vinnupartý. Það var mjög huggulegt, en frúin er hins vegar ekkert mjög spennt fyrir að þurfa að fara að stressa af stað á morgnana til að koma börnunum í pössun og svo í vinnu. En það er líklegt að þetta hafist allt saman. Maður þarf bara að komast inn í rútínu aftur.

Í gær var ráðist í að klippa hekkið í garðinum. Þetta er nú orðið auðveldara eftir að hekkin voru klippt niður í viðráðanlegri hæð. En þetta er nú samt alltaf töluverð vinna. Bóndinn er allavega búinn á því í skrokknum í dag, svo við ætlum nú bara að taka því rólega í dag. Eða svona eins og hægt er. Bóndinn á nú frekar erfitt með það, svo við finnum örugglega eitthvað að dunda okkur við. 

Þetta er nú víst um það bil það sem á daga okkur hefur drifið síðustu vikuna. Það er allt að verða klárt fyrir brúðkaupið. Óli vinur okkar sem býr hér í Danmörku en er á Íslandi að vinna núna, hefur verið mjög duglegur að redda fólki í hin ýmsu verkefni. Það verður nú örugglega eitthvað eftir þegar við komum heim. Þetta er allt að skella á. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt.

Jæja best að fara að hvíla sig! :)

kveðja

Tisetgengið


Hjólaæfingar

Kæru bloggvinir

Hér er vorið eitthvað að rembast við að koma. En það er oft voða mikið rok. Það hefur verið þannig hér síðustu árin. En það er allavega eitthvað að hlýna. Frúin var farin að vera áhyggjufull um að kartöflugrösin myndu ekkert koma upp, en það virðist eitthvað vera að rætast úr þessu. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu.

Hér hefur verið nóg að gera síðustu daga eins og venjulega. Í gær fórum við í smá verslunarleiðangur. Bóndann vantaði skyrtu og bindi. Það er búið að redda því. Frúin er búin að kaupa sér spennitreyju, til að vera í, undir kjólnum, svo hana vantar ekkert. Búin að fá kjólinn og hann er voða fínn. Börnin eru búin að fá sín föt. Það rann upp fyrir frúnni að þetta er bara alveg að skella á, svo það gaf smá stress. En þetta hlýtur nú allt að reddast. Við þurfum að fara á morgun og fá tímabundinn passa fyrir Ágúst. Við þurfum að keyra ansi langt eftir því, því það er búið að loka sendiráðunum sem voru næst okkur. En það er sennilega verið að spara þar eins og annars staðar. Það er allavega gott að þurfa ekki að keyra lengra.

Í dag var svo ráðist í að klára að grafa trambolínið niður. Þetta var nú ekki eins mikið mál og við höfðum reiknað með og allavega gott að vera búin að þessu. Nú þarf svo bara að fá lánaða litla gröfu til að jafna út moldina sem er eftir og þá er hægt að slétta blettinn í leiðinni. Það er alveg ótrúlegt hvað það kemur mikið rusl upp úr garðinum. Við erum búin að gefast upp á að hirða þetta allt, svo við grófum nú bara eitthvað af því niður aftur.

Auður Elín kemur oft með mjög skemmtilegar athugasemdir þessa dagana. Hún sá blóm í potti um daginn og spurði hvort frúnni fyndist þau ekki smart. Frúin átti nú bágt með sig. Hún tilkynnti líka um daginn að hún væri ástfangin. Það byrjar snemma. En það er víst allt búið. Fljótt skipast veður í lofti. Hún tilkynnti um daginn að hún vildi hætta að leggja sig í leikskólanum, hætta með snuddu og bleiu á nóttinni. Hún er hætt að leggja sig og það gengur bara fínt. Hún sefur alla nóttina og er farin að sofa til kl. 7 á morgnana í staðinn fyrir kl. 6. Hún svaf sína fyrstu nótt í nótt án bleiu og pissaði undir. En það verður bara að prófa áfram og sjá hvort þetta gengur ekki upp. Þá er bara snuddan eftir. Það verður sennilega það versta.

Ágúst er farin í megrun eftir að hann fékk að vita að hann væri orðinn of búttaður. Hann er aðeins farin að fá kjöt, en er voðalega mikill gikkur. Hann verður ægilega pirraður ef það eru einhverjir kekkir í matnum. Við hlægjum nú stundum að honum þegar hann tekur aríur. Hann er nú oftast í góðu skapi og brosir óspart.

Frúin tók upp á því í vikunni að hjóla inn til Gram og sækja Auði í leikskólann. Þetta eru 3 km, og töluvert upp í móti á okkar mælikvarða. Það er því ansi strembið. En þetta hlýtur að venjast. Börnunum líkar þetta allavega vel.

Jæja best að fara að slaka á eftir erfiði dagsins

kveðja

Moldvörpurnar


Síðbúin bloggfærsla

Kæru bloggvinir

það er búið að vera brjálað að gera, svo þess vegna kemur bloggfærslan fyrst núna. Var líka að tékka hvort einhver myndi kvarta! :)

Á föstudaginn fórum við í bíltúr og keyptum okkur notað rúm. OKkar var orðið svo rosalega lélegt. Okkur var boðið í kaffi og ég veit ekki hvað og hvað. Það kom svo í ljós að fólkið sem við keyptum rúmið af, þekkti strákinn sem var að leysa frúnna af í barneignafríinu. Fyndið hvað heimurinn er lítill. 

Á laugardaginn komu svo gestir í morgunmat og eftir hádegi komu nýju nágrannarnir að heilsa upp á okkur. Það verður spennandi að sjá hvernig það á eftir að ganga. Það fara ekkert allt of góðar sögur af þeim. Konan á barn með íslenskum manni og er sjállf sígauni. Það hljómar spennandi. Þessi nýju nágrannar þekkja gömlu nágranna okkar og eru óvinir þeirra. Aldeilis skemmtilegt að lenda mitt í einhverju svona. En vonandi fer þetta allt saman vel. Við náðum svo að henda rúminu saman rétt fyrir háttatíma. VIð þorðum varla að hreyfa okkur fyrstu nóttina af því við vorum hrædd um að rúmið myndi ekki þola það. En það virðist sterkara en það lítur út fyrir. 

Á sunnudaginn var frúin svo sjálfboðaliði á garðasýningu hér í Gram. Það var á vegum íþróttafélagsins í Tiset. Það kom alveg hellingur af fólki og þetta var ágætt, þó að frúin sé nú ekkert sérstaklega góð í að vera kurteis og brosandi framan í fólk sem hún þekkir ekki neitt. En allt gekk þetta nú upp.

Nýjasta verkefnið er svo að reyna að fá einhvert skipulag á myndirnar hér á heimilinu. Þetta er nú engin smá vinna. En vonandi kemst eitthvað lag á þetta hjá okkur.

Börnin eru hress og kát. Hjúkrunarkonunni sem kemur og skoðar Ágúst Ægi fannst hann vera orðin full búttaður, svo hann á að fá meiri mat og minni pela. Hann er nú ekki alveg á sömu skoðun. En við verðum að reyna að fá hann til að borða meira. Það mætti halda að hann hafi heyrt hvað hjúkrunarkonan sagði því hann hefur verið frekar erfiður að borða síðan hún var hérna. 

Auður Elin var að leika við vinkonu sína á sunnudaginn og bóndin fór með þær í búð. Þær voru nú dálítið óþægar, og létu sig hverfa. Hann heyrði ekkert í þeim, svo hann fór að gá að þeim. Þær voru þá búnar að taka kexpakka úr hillunni, opna hann og voru að maula innihaldið. Þær fengu skömm í hattinn, en samt pínu fyndið hvað þær geta fundið upp á.

Jæja best að fara að gera eitthvað áður en Ágúst vaknar af hádegisblundinum

kveðja

Tisetgengið


Fastir liðir eins og venjulega

Kæru bloggvinir

Hér hefur allt gengið sinn vanagang. Það hefur verið mjög heitt nokkra daga í síðustu viku, og aðra daga heldur kalt. En vorið virðist vera komið til að vera.

Á föstudagskvöldið fórum við í kvöldmat í bæ hér í nágrenninu. Þetta er skipulagt fyrir útlendinga í nágrenninu, en við vorum nú einu útlendingarnir. Þetta var þó mjög huggulegt og við förum örugglega aftur. Þetta er einu sinni í mánuði. Auður skemmti sér konunglega og lék við einhverjar stelpur allan tímann. Hún er allt í einu hætt að vera feimin við önnur börn og fer yfirleitt bara beint til barna og spyr hvort þau vilji leika. Það er engin smá breyting. Hún hefur verið hálfhrædd við ókunnug börn hingað til. Hún er voða ánægð með að geta leikið við bestu vinkonu sína þegar hún er hjá pabba sínum hérna á móti. Vinkonan er alveg viðþolslaus að fá að leika við Auði þegar hún kemur til pabba síns. Þá  skiptir engu máli hvort klukkan er 9 að kvöldi eða 7 að morgni á laugardegi.

Í gær fórum við á markað hér inn í Gram. Það var allt troðið af fólki, en við vorum bara að leita að ákveðnum hlutum, svo við vorum snögg og fórum nú aðallega til að leyfa Auði að prófa tívolítækin sem voru þarna. Henni finnst það alveg rosalega gaman. Það er nú sennilega bið á að það komi svona tívolí aftur hér í nágrennið. En spurningin er hvort við verðum ekki að fara í einhvern skemmtigarð með hana í sumar. 

Í dag var svo tekið til hendinni og tekið til hér á ganginum á bak við. Það hefur lengi staðið til, en maður nennir því ekki þegar það er svona kalt. Við komum kanínunni okkar á annað heimili þar sem eru fleiri kanínur. Hann hélst ekki heima, svo það var orðið voða vesen að hafa hann. Hann er víst voða ánægður með nýju heimkynnin. Það er ótrúlegt hvað það að taka til gerir mikið fyrir sálina. Þetta var búið að fara verulega í taugarnar á manni að geta ekki gengið almennilega um. Svo er stefnt á að reyna að skipta um þak á ganginum í sumar. Við erum búin að fá gefins plötur, svona bara til að gera þetta vatnsþétt. Þá er hægt að nýta þetta betur. Núna er þetta hálflekt og opið. 

Eftir hádegið var okkur svo boðið í kaffi hjá bónusömmu krakkana. Hún hefur aðgang að stóru hestabýli hérna rétt hjá. Svo Auður fékk bæði að sjá hesta og pínulitla hvolpa. Það þótti henni nú ekki slæmt. Ágúst hefur verið frekar pirraður undanfarið. Frúin heldur alltaf að það séu að koma tennur, en ekkert bólar á þeim ennþá. 

Jæja þetta var víst það helsta úr liðinni viku.

kveðja

Tisetgengið


Frídagar

Kæru bloggvinir

Þá er enn ein löng helgin liðin. Það var uppstigningardagur á fimmtudaginn og svo voru margir í fríi á föstudaginn. Bankarnir eru byrjaðir að hafa lokað á þeim degi. Manni finnst það nú kannski fullgróft. En þeir eru að þessu til að fá fleiri samliggjandi frídaga. Bóndinn var reyndar ekki í fríi á föstudaginn. En hefði nú sennilega alveg getað það ef fyrirtækið væri betra að skipuleggja sig. En það gerist nú sennilega ekki í bráð.

Annars hefur kólnað aftur. Það voru nokkrir dagar með brjálaðri blíðu, og maður svitnaði bara við að hugsa. En við þoldum greinilega ekki of mikið af því. Við erum eins og venjulega búin að hafa nóg að gera í ýmsum útréttingum. Við þurftum að fá annan bílstól fyrir Ágúst af því hinn var orðinn fulllítill. Það er hægt að fá þá leigða í nokkra mánuði, sem betur fer, af því maður þarf að kaupa stærri stól þegar hann er 9 mánaða. Annars verður það nú sennilega eitthvað fyrr því hann bara stækkar og stækkar. Hann er rosalega duglegur að borða og vill fá matinn og engar refjar. 

Í dag fórum við svo til Odense í heimsókn. Við keyptum annað trambolín í leiðinni af því það var svo dýrt að laga það gamla. Svo nú þurfum við að taka gamla trambolínið upp úr holunni, setja nýja trambolínið saman og koma því niður í jörðina. Þá ætti nú að vera hægt að hoppa meira. Auði finnst það voða skemmtilegt. Hún er orðin voða dugleg að leika úti, bæði í leikskólanum og hérna heima. Hún getur alveg dundað sér ein og búið til heilu ævintýrin. Hún er voða dugleg að syngja og er alltaf að semja einhverja texta. Hún verður einhvern tíma efnileg. 

Ágúst dafnar eins og blóm í eggi. Hann er mjög athugull og fylgist vel með öllu í kringum sig. Hann er ekki nærri eins duglegur að hreyfa sig og systir hans var á sama aldri, en á móti kemur að hann er meira að spá og spekúlera. Hann er voða pirraður í munninum, en ekkert bólar á tönnunum ennþá. Þetta mætti nú alveg fara að koma.

Brúðkaupsundirbúningurinn gengur hægt og rólega. Jakkafötin bóndans eru næstum tilbúin, og frúin er búin að panta sér kjól. Þá vantar hana bara skó. Auður Elín er búin að fá lánaðan voða fínan kjól og vantar líka bara skó. Þetta er nú einn stærsti höfuðverkurinn svo það verður gott þegar þetta er komið á hreint. Þetta verður voða spennandi.

Jæja best að fara að henda sér í sófann.

Kveðja

Gummi, Ragga og gengið


Sól í heiði

Kæru bloggvinir

hér er sólin eitthvað að rembast við að kíkja gegnum skýin. Það er búið að vera sólríkt síðustu daga, en oft ansi mikið rok og þar af leiðandi frekar kalt. Trén eru loksins að laufgast eitthvað smá, svo þetta hlýtur nú allt að fara að koma. Það tókst að henda niður kartöflum í gær og rófum, rauðrófum og gulrótum. Þetta er heilmikil vinna að undirbúa garðinn, minnsta málið er sennilega að setja niður í hann. Það er hins vegar mjög huggulegt að geta svo farið út á sumrin og sótt grænmeti í sinn eigin garð. 

Í gær var farið á stóran útimarkað hér rétt hjá. Þar var óttalega lítið merkilegt. En frúin fékk smá notuð barnaföt á börnin. Annars er þetta óttalegt drasl. Aðalástæðan fyrir að við fórum var að leyfa Auði að prófa tívolí sem var þarna. Henni fannst það voða gaman, en er nú frekar hrædd við stóru tækin. Sem er kannski eins gott því ekki myndi mamman þora að fara með henni í þau. Maður verður svo lífhræddur þegar maður eignast börn, að maður þorir bókstaflega engu.

Annars var voða mikið að gera hjá ungfrúnni í gær. Í gærmorgun kom vinur hennar í óvænta heimsókn. Þau voru saman hjá dagmömmunni og náðu voðalega vel saman. Þau hittast ekkert oft, en þegar þau hittast eru þau voða dugleg að leika. Seinnipartinn kom svo vinkona Auðar sem var í heimsókn hjá pabba sínum hérna á móti.  Hún var því orðin ansi þreytt þegar kom að kvöldmat og var fljót að sofna. 

Í morgun fórum við svo og keyptum tvíhjól handa henni með hjálpardekkjum. Hún var voða spennt yfir þessu, en svo þegar átti að fara að hjóla fór allt í baklás. Það er voða oft þannig með hana þegar hún á að prófa eitthvað nýtt, að hún þarf tíma til að finna út úr því á sinn hátt og við getum gleymt því að reyna að ýta eitthvað á það. Við vorum nú reyndar að pæla í að senda hana kannski með hjólið í leikskólann, hún getur kannski lært að hjóla þar. 

Frúin er eitthvað að reyna að taka sig á í að taka myndir af börnunum. Næsti höfuðverkur er svo að fá þær inn á netið. Það verður að fara að vinna í því.

Jæja best að fara að sinna börnum og búi.

kveðja

Tisetgengið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband