Bænadagurinn

Kæru bloggvinir

við höfum haft einn extra frídag þessa helgina. Á föstudaginn var bænadagurinn. Þetta er einn af þessum helgidögum sem enginn veit af hverju er helgidagur. En það er svo sem ekki svo mikilvægt. Fínt að fá auka frídag. Við vorum allan daginn að reyna að grafa trambolínið niður. Það gekk nú eitthvað brösuglega. Við erum að spá í að kaupa aðeins notað minna trambolín og setja í holuna. Svo getum við notað núverandi trambolín sem varahluti. Það hefur verið ágætis veður, en ekkert séstaklega hlýtt. Það hefur verið næturfrost, en það er nú eitthvað að lagast. Í dag hefur svo verið sól og gott veður. En við brunuðum til Odense að sjá nýja barnið hjá Guðný og Óla. Hann er alveg glænýr. Bara 3 daga gamall. Þó það séu bara 5 mánuðir síðan við eignuðumst Ágúst Ægi, þá er maður alveg búin að gleyma hvað þessi nýfæddu börn eru lítil. Ágúst Ægir var eins og risi við hliðina á honum. Hann er reyndar búin að taka voða vaxtakipp eftir hann hætti að vera kvefaður. Hann blæs út þessa dagana. Hann er voða ánægður með að liggja á gólfinu og toga í tærnar á sér. Hann klæjar voða mikið í góminn og er stundum pínu pirraður yfir því. Hann brosir sínu blíðasta þegar hann sér systir sína og hlær að henni. Henni finnst það auðvitað voða skemmtilegt. 

Í gær var síðasti dagurinn í sundi. Við renndum svo til Þýskalands. Eftir þetta allt saman fengum við pössun fyrir börnin og fórum út að borða og í bíó. Við höfum nú ekkert farið ein, eftir að Ágúst fæddist. Það er víst hollt og gott fyrir bæði börn og foreldra að fá smá pásu frá hvort öðru og börnin virtust svo sem ekkert hafa haft slæmt af þessu.

Auður er orðin alveg ótrúlega dugleg að dunda sér ein og leika sér. Hún hefur aldrei leikið mikið með dótið sitt, en núna semur hún heilu ævintýrin og leikur alls konar leiki. Hún hefur talað voða mikið um einhvern strák sem hún leikur við í leikskólanum. Frúin kannaðist ekki við nafnið á honum, svo hún spurði fóstrurnar hvaða piltur þetta væri. Hann er þá á annarri stofu, en þau leika sér oft saman þegar þau eru úti. Hún vill sjálf meina að hann sé kærastinn hennar. Það byrjar snemma. Hún vill gjarnan vera úti að leika sjálf og það er auðvitað fínt. Það er aðallega vandamál fyrir móðurina, sem er eitthvað stressuð yfir þessu. Þetta er eflaust góð æfing fyrir okkur báðar.

Í nótt þegar frúin fór framúr að gefa Ágústi að borða, heyrði hún bremsuhljóð og rosa dynk. Það var greinilega einhver sem náði ekki beygjunni hérna fyrir ofan hjá okkur. Ekki í fyrsta skipti. Það stormaði fólk á slysstaðinn, svo frúin ákvað að vera ekkert að blanda sér í málið. Í morgun sáum við svo að það hafði bíll keyrt á skilti, örugglega oltið og stoppað rétt fyrir framan rúllubindivél. Það er alveg ótrúlegt að það sé ekki hægt að fá einhverjar úrbætur á veginum hérna í gegnum bæinn. Við höfum búið hér í næstum  5 ár og þetta er allavega í fjórða skipti sem fólk nær ekki beygjunni og keyrir á.  En það kostar sennilega of mikla peninga að gera eitthvað í þessu. Við höfum ekkert heyrt um hvort það urðu einhver slys á fólki, en það er nú ekki ólíklegt miðað við hvernig bíllinn leit út.

Við erum nú ennþá í pínu sjokki yfir kosninganiðurstöðunum að heiman og það er nokkuð ljóst að líkurnar á að við flytjum heim næstu 4 árin hafa minnkað allverulega. Það liggur við að maður skammist sín fyrir að vera Íslendingur núna. Við höfum ekkert heyrt um þetta í fréttum hér, en sáum að bæði Norðmenn og Bretar höfðu tjáð sig um málið. En við verðum að vona það besta og kannski hafa menn bætt sig og gera eitthvað gott fyrir land og þjóð.

Jæja þetta er víst það helsta af vígstöðvunum hér

kveðja

Tisetgengið


Annríki

Kæru bloggvinir

Hér er vor annan hvern dag. Í gær héldum við þetta væri alveg að koma. Við vorum úti næstum allan daginn. Við settum allt dótið hennar Auðar út og þvoðum það, ekki veitti af eftir veturinn. Hún var alsæl og fór strax að leika sér. Hún er orðin voða dugleg að leika sér og dundar sér heillengi ein. Hún setur upp heilu veislurnar og finnst þetta voða skemmtilegt. Það er rosa gaman að fylgjast með þessu. Hún er orðin mjög dugleg að benda manni á, ef henni finnst einhver ekki fylgja reglunum. Hún verður einhvern tíma góð. Maður er heppinn ef maður er ekki skammaður. Hún er með allar reglur á hreinu og man alveg hvað við höfum sagt. Svo það er eins gott að við segjum það sama. 

Í dag eru Auður og vinkona hennar frá leikskólanum búnar að leika saman. Vinkonan kom töltandi hér yfir frá pabba sínum í morgun. 

 Eftir margra ára leit erum við loksins búin að finna út hvernig við eigum að hengja gardínur á gluggana hjá okkur og höfum lengi ætlað að reyna að hengja eitthvað fyrir gluggana. Það var auðvitað ekki auðhlaupið að því og eftir að hafa baxað heillengi við að koma einni rúllugardínu upp, komumst við að því að þær væru ónýtar. Það var því ekki annað að gera en að fara og kaupa nýjar gardínur. Við tókum Auði og vinkonu hennar með. Þær voru alveg á útopnu og eins gott að maður hafi góðar taugar þegar maður fer með svona grallara í búðir.  Gott að maður á ekki fleiri börn. Þá þyrfti maður örugglega að vera á róandi. Þær eru álíka miklir grallarar og finna upp á ýmsu saman. 

VIð vorum eitthvað sein að kaupa útsæði, og þær eru því enn í spírun. Það var kannski eins gott að við vorum ekki komin lengra, því það var frost í nótt. Vonandi fer þetta nú að hætta. 

Frúin hélt hún gæti verið heima í barneignafríi fram í október, en hafði greinilega eitthvað misskilið reglurnar. Hún komst að því í vikunni og er að reyna að semja við yfirmanninn að byrja 1. ágúst og byrja á að vinna færri tíma á viku. Þá ætti þetta allt að geta gengið upp. En allt svona er voðalega mikið mál og það þarf að ræða þetta fram og aftur. Þeir eru ekki hrifnir af að fólk sé í hlutastarfi. En við vonum það besta. Það væri voða gott að þurfa ekki að vinna fulla vinnuviku til að byrja með. Það verður nú einhver sirkus að koma liðinu af stað þegar maður byrjar að vinna. En svo hlýtur þetta að komast í vana.

Ágúst Ægir er orðin voða duglegur að borða graut og kartöflumauk. Hann virðist ekki vera mjög matvandur. Tekur allavega á móti öllu sem honum er boðið, allavega ennþá. Þau systkinin eru voða dugleg að sofa á nóttinni í augnablikinu og sofa oftast alla nóttina. Það er voða munur. 

Það er stefnt að því að fara í kartöfluniðursetningu næstu helgi. Það er löng helgi af því það er bænadagur á föstudaginn. 

Jæja best að fara að koma börnunum í bólið

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og 'Agúst Ægir

 


Vor í lofti

Kæru bloggvinir

Við erum að vona að nú sé að koma smá vor. Það er allavega pínu vor í lofti í dag og á morgun eru þeir að spá 15-20 stiga hita. Það þarf allavega að fara að huga að því að pæla upp kartöflugarðinn og setja niður kartöflur. Kartöflusendingin frá Íslandi klikkaði, svo við setjum bara niður danskar i staðinn. Svo verður sett niður eitthvað annað smotterí. Auði finnst allavega mjög sniðugt að setjum niður gulrætur. Það er svo sem ekki af því okkur vantar eitthvað að gera. Það virðist alltaf vera brjálað að gera og bætist við, þó maður reyni að klára eitthvað. 

Við fórum í sund í gær. VIð höfum ekki komist lengi og það vakti mikla lukku. Það eru bara tvö skipti eftir fram að sumarfríi, svo það er um að gera að reyna að vera með. Það vinnst ekki mikill tími í að fara í sund á sumrin. Þar fyrir utan er það mjög dýrt.

Annars hefur allt verið með frið og spekt hér undanfarið. Börnin eru að jafna sig eftir kvefpestirnar og eru nánast hætt að hósta. Ágúst Ægir er að þroskast voða mikið. Hann er farin að fatta að hann getur rifið og tætt með höndunum og getur líka tosað í tásurnar á sér. Hann er farinn að rífa í hárið á systir sinni, ef hann kemst í tæri við hana. Henni finnst það nú fyndið eins og er. En ég býst við að þegar hann fer að verða sterkari, þá verði hún ekki jafn hrifin. Hann ljómar eins og sól í heiði þegar hann sér systir sína. Hún er voða dugleg að hugga hann og syngur gjarnan fyrir hann. Hún er mikill söngfugl og bullar heilu lögin upp úr sér. Stundum blandar hún saman, einhverju sem hún kann og svo einhverju bulli. 

Í dag fór hún svo í heimsókn til vinkonu sinnar og hún kom svo yfir til okkar og þær eru að leika saman núna. Það gengur nú stórslysalaust að mestu leyti. Það eru einhverjir smá árekstrar. 

Annars er bara verið að reyna að plana brúðkaup. Það er nú pínu erfitt að skipuleggja brúðkaup i öðru landi og við erum búin að komast að því að fyrirtæki a Íslandi eru langt á eftir í heimasíðugerð. Það er mjög erfitt að finna upplýsingar á íslenskum síðum. Fyrirtæki hér verða að vera með góðar heimasíður ef þau ætla að lifa af. Frúin er búin að finna kjól, svo er bara spurning hvort hun geti pantað hann. Við héldum það væri ekkert mál að panta boðskort á einhverri síðu hérna úti, það eru mörg fyrirtæki sem bjóða upp á það. En þá var ekkert fyrirtæki sem bauð upp á að gera textann á öðru tungumáli en dönsku. Svo það eru smá vandamál, en þetta leysist nú sennilega allt á endanum.

Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna börnum og búi.

 

kveðja

Tisetgengið


Snjókoma

KÆru bloggvinir

við héldum að vorið væri að koma, en það var einhver misskilningur. Það hefur verið fínt veður í vikunni, þó ennþá kalt á nóttinni. En núna snjóar, svo vorið lætur bíða eftir sér.

Risið er nú frekar lágt á mannskapnum ennþá og frúin fór með bæði börn og sjálfa sig til læknis. Það eru allir með bronkítis og Auður Elín er með eyrnabólgu, svo það eru allir komnir á pencilinkúr. Það virðist nú eitthvað vera að hjálpa til.

Bóndinn henti inn fullt af myndum í vikunni, svo það er um að gera að skoða, hvað við höfum verið að bralla. Það er búið að fjarlægja trárætur hér í bakgarðinum og af því við vorum búin að leigja litla gröfu í verkið, þá var ákveðið að nota tækifærið og grafa niður trambolín sem við fengum gefins. Þeir grófu það ekki nógu langt niður, svo bóndinn þarf að fara í að grafa það lengra niður  með handafli. Alltaf nóg að gera. Það eru nú ekki mörg tré eftir í garðinum, svo við erum nú sennilega búin með þann pakka.

Í dag renndum við til Sönderborg. Við vorum að kíkja á notaðan hornsófa, sem okkur leist vel á. Þegar við komum á staðinn var þetta nú ekki alveg eins og við áttum von á, svo við ákváðum að kaupa hann ekki. En fórum í leiðinni til Íslenskrar konu, sem við könnumst við. Hún er lærð saumakona og ætlar að laga jakkafötin fyrir bóndann. Hann á þrenn jakkaföt. Ein sem eru of stór, en of lítil og ein sem passa en eru bara gamaldags. Hún ætlar að reyna að þrengja eitthvað stóru jakkafötin. Á morgun er planið að fara til Þýskalands og sjá hvort við finnum einhvern kjól á frúnna. Það á nú eftir að vera höfuðverkur. Hún er nú ekki sú auðveldasta í fatakaupum. En kannski verður þetta bara ekkert mál.

Jæja þetta var víst það helsta héðan í bili.

kveðja

Tisetgengið

 


Boðorðið

Kæru bloggvinir

hér hefur verið sól og blíða í dag og bara pínu vor í lofti. Það er nú mál til komið, þeir eru víst að lofa þessu eitthvað áfram. Við vonum allavega að það fari eitthvað að hlýna. Okkur finnst alveg mál til komið að við fáum smá meiri hita allavega. 

Annars ber það hæst til tíðinda hér að bóndinn á heimilinu fór á skeljarnar í sumarbústaðnum og bað um hönd frúarinnar. Hún sagði auðvitað já. Hann var eitthvað búin að vera að læðupúkast með hring í vasanum á jakkanum í nokkra daga og stökk til, í hvert skipti sem frúin þurfti eitthvað að fara í jakkavasana. Nú er svo bara verið að vinna í að redda því sem þarf að redda fyrir daginn. Það er búið að finna dagsetningu og prest og stað til að gera þetta á. Við ætlum að gifta okkur í skógræktinni í Hafnarfirði og halda veislu þar á eftir. Bara grill og létt meðlæti. Við vonum auðvitað það verði gott veður, en erum nú að spá í að leigja tjald til að hafa athöfnina í, ef það skildi rigna. Maður veit aldrei hvað getur gerst á Íslandi. 

Annars hefur heilsufarið á heimilinu nú eitthvað verið dapurt eftir sumarbústaðaferðina. Við erum búin að vera kvefuð og krakkarnir líka. Svo er frúin líka búin að vera með magakveisu, svo þetta eru nú búnir að vera rólegir páskar. Við fórum í dýragarð í gær og í heimsókn til Óla og Guðnýjar í nýju íbúðina í Odense. Við tókum dóttur þeirra með í dýragarðinn og hún og Auður skemmtu sér mjög vel. Það er nú örugglega skemmtilegra að koma þarna að sumarlagi. 

Í dag var svo maulað á páskaeggjum. Það er nú alltaf sama sagan að manni  langar ægilega að borða þetta, en svo þegar maður er búinn með smávegis, þá getur maður ekki meira.  Auði fannst ægilega spennandi að opna eggið og smakka aðeins, en gafst fljólega upp. Svo það er nóg af súkkulaðiafgöngum.

Á morgun er svo planið að fjarlægja trjárætur hérna í bakgarðinum. Ef veður leyfir.

Bóndinn verður rekinn í að setja inn myndir fljótlega. Maður er greinilega duglegri að taka myndir af fyrsta barni en númer tvö. Það er nú frekar pínlegt. En við verðum að reyna að fara að taka okkur saman í andlitinu.

Kær páskakveðja

Gummi, Ragga og börn

 


Heim á ný

Kæru bloggvinir

þá erum við komin aftur í menninguna. Við erum búin að vera í sumarhúsi hérna rétt hjá í 4 daga. Það var æðislegt að komast aðeins að heiman og slappa af. Auður er búin að vera hálf slöpp, og er komin með hita og ljótan hósta. Það fylgdi sundkort með sumarbústaðnum, en vegna kvefs og slappleika notuðum við okkur það bara einu sinni. En það var mjög fínt. Við fengum ágætis veður, þó það væri ansi kalt og sérstaklega á nóttinni. Það er auðvitað ekki eytt of miklum pening í að kynda sumarbústaði hérna, svo að á nóttinni var ansi kalt. Auður kom því upp í til okkar í pínulítið rúm, svo við sváfum nú ekkert sérstaklega vel. 'Agústi var pakkað inn í teppi og sæng og með húfu á höfðinu. Á daginn var funheitt í húsinu því þá gátum við haft brenniofninn í gangi. Við nenntum ekki að vakna á tveggja tíma fresti og setja eldivið í brenniofninn. Það er rosalega huggulegt að hafa svona brenniofn. En auðvitað hellings vinna að höggva eldivið.

Í dag er svo búið að vera nóg að gera. Eftir að hafa skilað bústaðnum var haldið heim. Guðný og Óli komu í heimsókn og drengirnir eru búnir að vera að tengja alls konar raftæki og tól í dag. Bóndinn er svo að fara að vinna smá á morgun, en er svo kominn í páskafrí.  Það er ekki búið að plana hvort við gerum eitthvað meira í fríinu. Við sjáum bara til. Veðrið á víst ekki að vera svo spennandi. Það er ennþá skítkalt. 

Bóndinn verður settur í að henda inn myndum úr bústaðnum í fríinu.

Þangað til næst

kveðja

Tisetgengið


Sumarbústaður

Kæru bloggvinir

þetta verður bara stutt í dag. Við erum í sumarbústað og það er mjög óstöðugt netsamband. Við erum í góðu yfirlæti í góðu veðri. Það er kalt, en mjög fallegt veður. Við verðum hér fram á þriðjudag. Aldrei að vita nema það verði skrifað eitthvað og settar inn myndir þá.

 

bestu kveðjur

sumarbústaðagengið.


Vitlaust veður í vændum

Kæru bloggvinir

hér ræður vetur ríkjum og þeir eru að spá vitlausu veðri á morgun og hinn. Það má búast við að allt lokist vegna veðurs. Það verður spennandi að sjá hvernig það fer. Frúin er allavega fegin að hún þarf ekki að keyra í vinnuna í fyrramálið. Það er verra með bóndann sem þarf að keyra á sumardekkjunum alla daga. Manni finnst nú þeir ættu bara að hafa skólann lokaðan þegar þeir vita það spáir svona vondu veðri. Það fer allt í vitleysu hér þegar svona viðrar. Það er vonandi að eftir þetta veður þá fari vorið að koma. VIð erum búin að panta íslenskt kartöfluútsæði og er það væntanlegt til okkar um páskana. En það verður nú einhver bið á að það sé hægt að koma því í jörð. 

Síðasta mánudag snjóaði töluvert hér hjá okkur. Það var svo sem ekki í frásögur færandi, nema að það snjóaði bara á mjög litlu svæði. 10 km. hér fyrir sunnan okkur snjóaði ekki og heldur ekki fyrir austan, vestan og norðan okkur. Það var eins og þetta væri bara á litlum bletti. Vinnufélagar bóndans skildu ekkert í því hvaðan hann væri að koma með bílinn allan þakinn í snjó.

Við fórum í sund í gær og renndum svo til Þýskalands að kaupa sjónvarp. Það á að fara að setja sjónvarp í svefnherbergið. Svo geta bæði frúin og Auður horft á sjónvarp, þegar bóndinn er að horfa á fótbolta.:Það á víst að tengja þetta allt saman fljótlega og reyna að ganga betur frá öllum snúrunum.  

Ágúst Ægir er allur að hressast. Hann fór til svæðanuddara á mánudaginn og ég held að það hafi hjálpað. Hann á að fara afur á morgun. Svæðanuddarinn telur að hann þurfi að koma 3x og þá eigi þetta að vera orðið betra. Það er alveg spurning að fara með Auði líka, af því hún er svo oft kvefuð.

Annars er rhér allt með kyrrum kjörum Vinkona Auðar var í heimsókn hjá pabba sínum hérna á móti. Auður fór yfir til hennar að leika í morgun. Það gekk víst ágætlega

Í gær fórum við í ungbarnasund. Ágúst fílar það alveg í tætlur. Hann fór í kaf í fyrsta skipti. Var nú eitthvað óhress fyrst, en fannst það svo bara fínt. Hann er voða rólegur í sundinu og líka í sturtunum. Við renndum svo til Þýskalands að kaupa sjónvarpið sem á að setja upp í svefnherberginu. Í kvöld verða svo borðuð svið. Nágrannarnir eru búnir að fá tilboð um að koma í mat. En þeim finnst það víst og ógeðslegt.

Aðalfréttin hlýtur nú samt að vera að við fjölskyldan erum að koma í frí til Íslands í sumar. Frá 1-18 júlí. Svo ef einhver vill láta passa húsið sitt, þá erum við til í tuskið. Getum jafnvel skipt á okkar húsi og húsi á Íslandi.

Jæja best að fara að sinna börnum og búi.

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir

 

 

 

 

 

llllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllll


Vorið farið

Kæru bloggvinir

við héldum að vorið væri komið, en það er farið aftur. Það er búið að vera skítakuldi hér í síðustu viku og hífandi rok. Algjör ófögnuður. En einhvern tíma hlýtur þetta að snúa á betri veg. Frúin var búin að pakka vetrarfötunum niður, en það verður víst að fara að týna þetta upp úr skúffunum aftur. 

Það hefur nú allt verið með ró og spekt hér síðustu vikuna. Fastir liðir eins og venjulega. Ágúst Ægir er ennþá kvefaður en vonandi fer þetta nú að lagast. Við ætlum að prófa að fara með hann til svæðanuddara. Frúin hefur heyrt að það eigi að geta hjálpað við svona kvefi. Við fórum einu sinni með Auði til svona svæðanuddara. En hún var svo undarleg að það hjálpaði nú ekkert. Við prófum þetta og sjáum hvort það hafi eitthvað að segja.

Við fórum í sund í gær í fyrsta skipti í mjög langan tíma. VIð höfum ekkert komist fyrir veikindum. Þetta er í annað sinn en Ágúst Ægir fer í sund. Hann fílar það alveg í botn og er voða stilltur, líka í sturtunni. Auður var auðvitað alveg á útopnu og djöflaðist alveg eins og hún fengi borgað fyrir það. Vinkona hennar var í heimsókn hjá pabba sínum hérna á móti. Þær fengu að leika saman í gær og það vakti mikla lukku. Auður skilur ekkert í því að hún geti ekki farið þangað aftur í dag. En foreldrarnir eru skilin og stelpurnar eru bara hjá pabba sínum um helgar. Þær vilja ekki vera einar hjá honum, svo mamma þeirra verður að vera með þeim. Það er eins gott að þau eigi auðvelt með að umgangast hvort annað.

Ágúst hefur ekki gefið mikið frá sér af hljóðum, en hann situr oft og spriklar með löppunum, baðar út öllum öngum og hreyfir höfuðið eins og hann sé í hörkusamræðum. En undanfarið hafa verið að koma meiri hljóð. Það er rosa fyndið að fylgjast með því.  Hann er mjög félagslyndur og vill helst ekki liggja einn og dunda sér. Hann er mjög brosmildur og brosir allan hringinn þegar hann sér systur sína.

Helgin hefur verið óvenju róleg. Það er langt síðan við höfum tekið því svona rólega. Maður kann bara ekki við þetta. Við erum búin að panta okkur sumarbústað um páskana. Það hefur ekki gerst í 10 ár að við höfum farið í sumarhús. Það verður spennandi að sjá hvað börnin segja við því. Við ákváðum að leigja bústað hérna rétt hjá. Svo er stefnan tekin á að kíkja á klakann í sumar. Svo þið getið farið að baka í frystirinn. 

Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna börnum og búi.

kveðja

Tisetgengið


Fyrsti vordagur

Kæru bloggvinir

þá er vorið komið hjá okkur, allavega samkvæmt dagatalinu. Það hefur verið mjög fínt veður í gær og í dag, Vonandi að þetta haldi bara áfram. En það er nú aldrei að vita.

Hér hefur verið nóg að gera þessa helgina. Í gær fór bóndinn að hjálpa vinum okkar að flytja frá Sönderborg til Odense. Hann keyrði sem betur fer ekki með þeim til Odense. Hjálpaði bara til í Sönderborg. Við sem eftir vorum í Tiset, fórum í göngutúr og gáfum hestunum brauð. Það er orðið ansi langt síðan maður hefur farið út með Ágúst í vagni, af því hann hefur verið svo kvefaður. Hann er nú eitthvað að lagst, en hóstar ennþá ansi mikið. Annars er hann nú bara hress og heillar alla upp úr skónum.
Við fórum í vikunni og keyptum fullt af notuðum púslum og bókum handa Auði. Hún er voða dugleg að púsla þessa dagana. Þá er um að gera að kaupa svoleiðis handa henni. Það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að fá fína hluti notaða, ef maður bara nennir að leita.

Frúin keyrði til Esbjerg í vikunni og heimsótti vinnustaðinn sinn. Þar er allt við það sama. Endalaust verið að skipta um yfirmenn og breyta. Ágúst Ægir heillaði alla upp úr skónum með brosinu sínu. Hann hefur voða lítið fyrir þessu drengurinn.

Í morgun fórum við í messu. Frúin og Ágúst Ægir hafa verið með í sálmasöng á hverjum miðvikudegi og áttu að sýna hvað þau hafa verið að gera. Frúin er nú gríðarlega hrifin af að standa svona fyrir framan alla. En þetta bjargaðist nú allt og bæði börn virtust hafa gaman af þessu öllu. Auði finnst mjög huggulegt að fara í kirkju og situr voða stillt með sálmabókina í höndunum. Það er mikið gert úr að hafa börnin með í kirkjustarfinu og það er auðvitað bara mjög gott. Svo eru stundum bara venjulegar messur, þar sem ekki er svona mikið fjör eins og í dag. 

Þegar þetta var allt saman búið var svo ráðist í að fella nokkur tré í bakgarðinum. Það eru nú ekki mörg eftir. En það voru nokkur sem voru búin að pirra bóndann töluvert. Svo nágranninn kom og hjálpaði til við að fella þau. Og fékk að hirða þau í eldivið.

Með sama áframhaldi verður fljótlega hægt að fara að gera kartöflugarðinn klárann og ráðast í útiverkin.  Það er nú alltaf skemmtilegt.

Jæja best að fara að horfa á borgina.

Kveðja

Tisetgengið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband