23.10.2016 | 14:06
Hausthrollur
Kæru bloggvinir
þá er komið klassískt danskt haustveður. Skítakuldi og rigning. Þeir eru eitthvað að tala um að það eigi að frysta í nótt. En sennilega er það nú ekkert mjög mikið. Það er allavega ennþá hitatölur á daginn. Það þarf sennilega að fara að huga að því að fá vetrardekkin undir bílinn.
Auður er búin að vera heima alla vikuna í fríi. Við tókum Arndísi með okkur frá Odense á sunnudaginn og hún var sótt aftur á fimmtudaginn. Þær voru voða góðar saman. Það slettist auðvitað eitthvað upp á vinskapinn, en ekkert sem orð var á hafandi. Bóndinn skildi þær meira að segja eftir einar heima í smátíma. Það þótti þeim ekkert mál. Það er rosa munur að hafa svona vinkonur sem geta leikið og leikið, án þess að það sé eitthvað rosa vesen.
Frúin fór svo í frí á fimmtudaginn. Það var voða gott að fá smá auka frí. Það er alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera. Á föstudaginn fékk Ágúst heimsókn frá einum vini sínum af leikskólanum og Auður fór í sund með pabba sinum. Hún saknar þess pínu að vera ekki í sundi, en það er ekki hægt að vera í öllu. Það er rosa þægilegt að hafa svona viku þar sem það er ekkert að gerast í frístundum eða skóla. Þá er hægt að plana daginn í allt mögulegt annað.
Auður fékk svo Ágústu vinkonu sína í heimsókn í gær. Þær hafa lítið hist eftir að við fluttum frá Tiset. Það var nú samt eins og þær hefðu engu gleymt.
Í dag fór Ágúst svo og lék við vinkonu sína af leikskólanum. Hann var þar megnið úr deginum. Það er aldeilis munur að hafa svona ókeypis barnapössun. Ágúst virðist geta leikið við marga krakka, á meðan þetta er eitthvað meira vesen hjá Auði. Það er kannski bara af því hún er stelpa og þær eru oft með meira vesen.Hún er farin að reyna að vera eitthvað sætari við bróðir sinn. Hún er sennilega búin að finna út að það borgar sig, svo hann nenni að leika við hana. annars finna þau nú upp á ýmissi vitleysu.
Svo er bara heil vinnuvika framundan. Það er bæði gott og slæmt. Það er gott, því þá er meiri tími til að gera það sem þarf í vinnunni, en það er nú samt voða gott að hafa smá tíma hérna heima. En það væru sennilega ekki feit launaumslögin, ef maður væri heima alla daga og sennilega yrði það þreytandi til lengdar.
Annars er ekki mikið annað í fréttum héðan.
Kveðja Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2016 | 15:48
Blaðafall
Kæru bloggvinir
það er farið að sjá ansi mikið á trjánum hérna og laufin farin að falla. Það er þó ekki eins mikið laufafargan hér og var í Tiset. VIð vorum einmitt að tala um það í gær að við færum orðið mjög sjaldan á ruslahaugana eftir við fluttum. VIð vorum þar nánast hverja helgi, meðan við bjuggum í Tiset, en núna erum við þar mjög sjaldan. Það er mikill munur ekki að þurfa að spá í garði og svoleiðis. Það þarf nú sennilega eitthvað að taka til hérna á bak við fyrir haustið, en það fer að blása eitthvað meira.
Á föstudaginn fórum við í vinakvöldverð. Það hefur verið í sumarfríi. En það var nú næstum sama fólkið sem var mætt. Það er sami kjarninn sem mætir. Svo hjálpuðum við Evu gömlu að hreinsa til í garðinum og keyra drasli á haugana. Börnin og frúin fóru svo í leiðangur og ætluðum að gefa öndunum brauð, en það voru engar endur. Við fundum hnetur og kastaníuhnetur í staðinn.
Í dag var svo brunað til Odense, Sigvaldi hélt smá afmælisveislu. Hann varð tveggja ára. Við tókum svo Arndísi með heim. Þær eru í fríi í skólanum og alveg upplagt að leyfa þeim að vera meira saman. Annars myndi Auði bara leiðast. Ágúst fer í leikskólann fram á miðvikudag og svo tökum við smá frí fram yfir helgi. Kannski við reynum að láta verða af því að fara í bíó. Það er voða lítil menning fyrir leikhúsferðum fyrir börn, annars væri meður alveg til í það. En það verður að bíða betri tíma. Börnunum finnst allavega mikið sport að fara í bíó. Þau fást nú ekki til að sitja kyrr hérna heima og horfa á heila mynd. Þá þarf allavega að vera stanslaust eitthvað að borða. EN það er sennilega auðveldara að fá þau til að sitja kyrr í bíó
Maður finnur vel fyrir því hér að það er meiri gólfkuldi. VIð vorum orðin svo góðu vön með gólfhita í öllu húsinu. En á móti kemur að húsið sem við búum í núna er betur einangrað og heldur betur hita. Það verður bara að snara sér í ullarsokka þá.
Jæja best að fara að gefa börnunum að borða
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2016 | 10:46
Haustveður
Kæru bloggvinir
Í dag skín sólin, en það blæs og er frekar kalt. En mjög fallegt haustveður. Þeir eru að spá næturfrosti bráðum. Svo maður getur farið að undirbúa sig.
Í gær var basar í skólanum hennar Auðar. Það var hægt að taka þátt í alls konar leikjum og kaupa kökur og allt mögulegt. Það var fullt af fólki og mikið um að vera.
Í dag er Auður svo með skátunum allan daginn að leika sér. Hún er orðin mjög ánægð með að vera þar. Foreldrarnir eru nú ennþá frekar pirraðir yfir stjórnendunum,. en það er ekkert við því að gera. Aðalmálið er að hún sé ánægð. Henni fer fram í reiðmennskunni, en hesturinn sem hún er á, lætur illa að stjórn. Það eru allir búnir að gefast upp á honum. SPurning um að við kvörtum líka og sjáum hvort það hjálpar eitthvað. Það er nú mikilvægt að komast vel í gang, þegar maður er að prófa svona í fyrsta skipti. Og Auður er bara þannig, að hún hefur ekki mikið sjálfstraust og það þarf að hjálpa henni í gang. En við sjáum til, hvort frúin geti ekki byrst sig eitthvað næst og kannski virkar það.
Húseigandinn kom í fyrsta skipti hér inn í síðustu viku. Það hefur verið töluvert mál að ná tali af honum, en hann lofaði öllu fögru. Það verður gaman að sjá, hvernig gengur að gera það sem hann er búinn að lofa.Hann lætur kannski gera við það sem getur skemmt húsið, ef ekkert er að gert. Hann er kannski bara svona upptekinn blessaður maðurinn.
Það er orðið nóg að gera að fylgjast með sjónvarpsþáttum núna. Það eru að byrja allar þáttaraðirnar sem við höfum verið að fylgjast með. Þá hefur maður afsökun fyrir að sitja eins og klessa fyrir framan sjónvarpið á kvöldin.
Eftir næstu viku er frí í skólanum í eina viku. Frúin er að vinna helminginn af vikunni, en Auður er í fríi með pabba sínum.
Jæja það er hálfgerð gúrkutíð hérna núna
kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2016 | 15:13
Veðraskipti
Kloggvinir
Eins og við vorum búin að spá, þá skipti veðrið úr sumri í haust á einni nóttu. Það gerðist í síðustu viku. Það er reyndar mjög milt haust ennþá. En það er byrjað að vera meira rok. Það fylgir oft haustinu,
Hér er búið að vera nóg að gera um helgina eins og venjulega. Í gær var brunað til Kolding með síma frúarinnar í viðgerð. Hann er nú frekar nýr, en þeir eru ekki svo endingargóðir þessir nýju símar. Svo var farið í kaffi til Gunnþóru. Auði var búið að langa í lengri tíma að leika við Maju Elísabet og var því orðið við því. Gunnþóra er kominn alveg á steypirinn. Það er skrýtið hvað maður gleymir fljótt hversu stór maður er, svona rétt áður en maður eignast börnin.
Þegar heim var komið var farið á fullt í að skipuleggja 50 ára afmæli Rannveigar, sem býr hér í bænum. Hún var alveg grunlaus og kom úr verslunarferð og við tókum á móti henni. Þetta var mjög skemmtilegt og hún var mjög sátt við þetta, svona þegar hún var búin að átta sig á þessu öllu saman. Frúin hefur aldrei verið með í svona partýstandi áður, en það er gaman að prófa. Börnin voru í pössun á meðan og það gekk víst bara vel. Það er alltaf gott að komast aðeins að heiman.
Í dag var Ágúst svo búin að bjóða einni frá leikskólanum að koma að leika. Mamma hennar er frá Eistlandi en gift Dana. Þau eru mjög góð að leika saman. Við fórum út í góða veðrið. Það var búið að rigna frekar mikið í morgun, svo börnin fóru í regngalla og út að hoppa í pollum. Þau urðu rennandi blaut frá toppi til táar. En þeim fannst þetta örugglega hin besta skemmtun.
Annars er víst allt við það sama hérna megin.
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2016 | 16:55
Haustsól
Kæru bloggvinir
við höfum verið mjög heppin með veðrið síðasta mánuðinn. Það er ennþá sól og frekar heitt, svona miðað við árstíma. En það er samt byrjaðir að koma dagar með grámygluveðri, svo við eigum nú von á að það fari að hausta fljótlega. Þetta skiptir sennilega bara allt í einu, eins og það skipti frá vetri í vor. Við njótum sólarinnar meðan hún er hér. Við fórum með börnin í hjólatúr í morgun. Auður er ennþá óörugg að hjóla í kringum bíla, þau eru bæði með svo mikinn athyglisbrest að þau eiga erfitt með að einbeita sér að því sem þau eiga að gera.
Í gær fórum við í heimsókn til Óla og Guðnýjar. Við fórum á einhvern risa flóamarkað. Það var ótrúlega mikið af alls konar drasli til sölu. Við keyptum nú ekki neitt, en svo var tívolí líka og börnin fengu að prófa nokkur tæki. Í dag var svo farið í hina árlegu sirkusferð. Bankinn sem krakkarnir eiga reikning í, bíður börnunum í sirkus, einu sinni á sumrin. Það er alltaf gaman að fara í sirkus. Maður er hálfstressaður yfir þessum kúnstum sem er verið að gera hátt uppi í loftinu. Það voru ekki mjög mörg dýr með í ár. Það er mjög mismunandi, hversu mikið er af því. Krökkunum finnst það nú sennilega skemmtilegast. Frúnni hefur alltaf þótt mjög áhugavert af hverju það þarf alltaf að vera með hálfberar stelpur að glenna sig á sviðinu. Kannski er það svo að pabbarnir vilji koma með.
Annars hefur nú allt verið í föstum skorðum í vikunni. Börnin erum komin á fullt skrið í leikskóla og skóla og frúin í vinnunni. Það er alltaf nóg að gera. Auði fer helling fram að lesa, en er nú bara í léttum bókum ennþá. Þetta kemur smá saman og svo er hún að læra ensku. Það er ótrúlega fyndið hvað krakkar eru fljótir að tileinka sér ný tungumál.
Það hefur verið að ganga einhver magapest. Auður gubbaði á mánudaginn og svo ekki meir. Þá tók bóndinn við og svo frúin. Ágúst hefur sloppið hingað til. FRúin varð að taka sér frí úr vinnunni. Það hefur nú ekki gerst nema tvisvar sinnum á þeim sex árum sem hún hefur verið í þessari vinnu. Það telst nú sennilega nokkuð gott.
En jæja best að fara að slaka á fyrir svefninn.
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2016 | 18:04
Og enn skín sólin
Kæru bloggvinir
það hefur verið hið besta veður hér síðustu viku. En nú er eitthvað að kólna, það er sennilega að hausta. Það er farið að verða fyrr dimmt á kvöldin, svo þetta er sennilega allt að skella á. En það er nú ekki við öðru að búast.
Dóttirin á heimilinu hafði á orði við kvöldmatinn að þetta hefði verið góð helgi. Í gær vorum við með kristna fólkinu allan daginn. Það var farið í leiki og auðvitað líka hlustað á Guðs orð. Það fór nú kannski eitthvað fyrir ofan garð og neðan. En börnin léku við aðra krakka og skemmtu sér hið besta. Við komum ekki heim fyrr en kl. 22 í gærkvöldi og börnin duttu út eins og skotin.
Svo í dag var farið á opið hús á sveitabæ. Það voru skoðaðar kýr og kálfar og traktorar. Þetta finnst börnunum alltaf mjög gaman. Við prófuðum að keyra með hestvagni. Það var mjög gaman að prófa. Við förum yfirleitt einu sinni á ári á svoleiðis. Oftast verður nú fyrir valinu að fara á kúabýli, en það væri kannsi sniðugt að skoða svínabú. En við sjáum til hvað við gerum næst. Það er svo svakalega vond lykt af svínaskítnum að maður leggur varla í það.
Á föstudaginn fór Ágúst heim með stelpu úr leikskólanum. Það var mikið stuð. Hann spilaði á flautu og hitt og þetta. Greinilega mjög spennandi. Svo er helgin bara búin og maður skilur ekki í því að maður nái ekki að koma meiru í verk. Alveg spurning að sleppa því að sofa, þá næði meður meiru. Ágúst vaknaði kl. 6 í gærmorgun og skildi ekkert í því að við vorum ekki ofurhress. Þau skilja svo auðvitað ekkert í því að þau eru geðveikt þreytt allan daginn.
Auður er orðin öruggari á hestbaki en vill nú ekkert fara mjög hratt ennþá. Við förum bara fetið enda er hesturinn sem hún er á, alveg ótrúlega latur og hreyfist nánast ekki úr stað. En það er kannski ágætt meðan hún er að læra þetta. Bóndinn fór með Ágúst í sund í vikunni og hann var svakalega ánægður með það. Það er engin stjórn á hlutunum og börnin eru alveg tjúlluð. En það virðist vera mjög erfitt að fá sjálfboðaliða til að vera með í þessu. En Ágúst er ekki svo viðkvæmur fyrir því. Hann djöflast bara eitthvað. Auður er mun viðkvæmari fyrir svona stjórnleysi.
Það er full vinna að hjálpa henni við heimalærdóminn. Maður fer nú að hafa áhyggjur af því hvernig þetta verður þegar hún verður eldri. En koma tímar, koma ráð.
Jæja best að fara að hirfa á sjónvarpið og reyna að slaka á.
Kveðja Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2016 | 14:29
Takk fyrir að senda okkur sól
Kæru bloggvinir
takk fyrir að senda okkur smá sól. Það er búið að vera mjög fínt veður síðustu viku og á víst að vera eitthvað fram í næstu viku líka. Alveg ágætt að fá smá sumarauka. Það er alltaf nóg að gera á þessu heimili, þó maður sé ekki lengur húseigandi. Það er svo sem ágætt að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því öllum stundum. Þau sem keyptu húsið af okkur eru búin að setja nýtt þak á. Það er mjög skrýtið að sjá húsið með svörtu þaki. En það er mikið flottara, maður þarf bara að venja sig á það. VIð keyrum þarna framhjá þegar Auður fer í skátana á föstudögum. Hún er orðin sátt við að vera það. Það er víst bara við foreldrarnir sem erum eitthvað hissa á þessum dauðyflishætti þarna alltaf. En það skiptir mestu máli að hún sé ánægð.
Við fórum á ströndina í gær. Það fara að verða síðustu forvöð. Það var nú ansi kalt vatnið, en fínt að vera að leika á ströndinni. Ágúst hitti stelpu frá leikskólanum sem hann var voða góður að leika við. Þau búa hérna rétt hjá. Mamma hennar er frá Eistlandi, en gift dönskum manni. Það er nokkuð um konur hér frá annaðhvort Lettlandi eða Litháen, en ekki svo margar frá Eistlandi.
Í dag er svo búið að hjóla mikið. Auður gerir hlutina alltaf á sinn hátt. Þegar hún byrjaði að læra að hjóla, gerði hún ekki annað en að bremsa, en núna kann hún alls ekki að bremsa. Ágúst lærir þetta á annan hátt. Hann kann að bremsa og komast af stað sjálfur. AUður kann að hjóla, en ekki bremsa og ekki komast af stað. En svona er hún bara, það er auðvitað ekki mjög 0ruggt, en svo allt í einu gerir hún þetta bara. Við foreldrarnir verðum bara að taka róandi á meðan.
Síðustu helgi var poki með kartöflum á tröppunum. Eftir nokkur heilabrot fundum við hver hafði lagt þær á tröppurnar. Svo var kominn annar poki í morgun. Það verður aldeilis að fara að borða kartöflur. Svo getum við líka fengið epli. Það er mikið um epli svona á haustin. Það eru mikil trúarbrögð í kringum eplin, eins og jarðarberin. Sumir geta alls ekki borðað innflutt epli. Við finnum ekki mikinn mun, en höfum sennilega ekkert vit á þessu.
Frúin fór á opinn foreldrafund fyrir forldra barna í 1. bekk í vikunni. Þar var hún frædd um það að nýjustu rannsóknir sýna að til að börn læri að lesa fljótt, sé gott að kenna þeim að skrifa fyrst og það skiptir ekki máli hvort þau skrifi rétt, bara þau skrifi. Við hjónin erum ekki alveg að skilja þessa speki og Auður ekki heldur. En við reynum að gera heimavinnuna eftir settum reglum. En svo skiptir miklu máli að þau skrifi tölustafina rétt. Við verðum bara að reyna að fylgja reglunum og vona það besta. Það var nú svolítið fyndið að foreldrar strákanna í bekknum höfðu ekkert heyrt um að þeir ættu að lesa og skrifa heima, en foreldrar stelpnanna voru búin að heyra það. Greinilegt að strákarnir hugsuðu með sér að það væri best að segja ekkert, þá slyppu þeir við heimavinnnuna.
Jæja best að fara að slaka aðeins á. Það vill gleymast á þessum bæ.
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2016 | 14:21
Sendið sólina til okkar strax
Kæru bloggvinir
er ekki kominn tími á að við fáum eitthvað af allri þessari sól sem þið eruð búin að hafa í allt sumar. VIð vorum farin að vona að við fengjum gott síðsumar, en neinei, það rignir allavega eldi og brennisteini í dag. Það hefur aðeins sést til sólar í vikunni, en þá er maður í vinnunni og nýtur þess ekki.
Í gær fórum við á dagskrá í bænum sem skólinn hennar Auðar er. Þar var boðið upp á að skoða kýr og kálfa, ríða á hesti og margt fleira. Það var nóg að gera fyrir krakkana, svo þetta var ódýr skemmtun fyrir þau. Og við fengum pásu á meðan.
VIð komumst að því í morgun að þakið fyrir ofan svefnherbergið okkar hjónanna er óþétt og það lekur inn í svefnherbergi þegar það rignir mikið. Fyrst héldum við að krakkarnir hefðu hellt vatni á gólfið, en svo sáum við í morgun að það kom vatn úr loftinu, svo það var sett fata á gólfið. Sem betur fer lekur það ekki akkúrat þar sem rúmið er, en niður á gólfið. Það væri nú fallegt að fá vatn í hausinn á hverri nóttu. Húseigandinn er í fríi, svo við verðum að vona að það slakni eitthvað á rigningunni á næstunni. Við komumst ekki inn á loftið fyrir ofan herbergið. Það er eitthvað voða skrýtið. Það er annars risaloft hérna og maður getur staðið uppréttur.
Annars hefur ekki margt boðið til tíðinda. Við erum fairn að fá smá tómatauppskeru. Við fengum að geyma tómatana okkar hjá Evu og svo fáum við kannski líka grasker. ANnað hefur ekki vaxið almennilega í sumar. Þeir sulta graskerin og borða ofan á rúgbrauð. Það er mjög gott. Svo er auðvitað líka hægt að gera bæði súpu og ýmislegt úr graskerjum.
Það var ömmu og afadagur í leikskólanum hjá Ágústi á föstudaginn. Við réðum Evu í að vera amma. Þau sýndu víst einhvern dans og elduðu brauð á báli. Þetta var víst hin besta skemmtun. Ágúst er nú ekki smeykur við að stilla sér upp fyrir framan aðra og sýna danstaktana.
Í gærmorgun var brunað til Þýskalands til að fá klippingu fyrir karlana. Það var komin heilmikil biðröð, 10 mínútum áður en þær opnuðu. VIð þurftum að bíða í klukkutíma. En það kostar líka bara 1000 karl íslenskar að fá klippingu. Maður er orðinn rosa góður að útskýra karlaklippingu á þýsku. Og svo blaðra þær alveg stanslaust á þýsku og maður skilur ekki baun. En þeim virðist ekki skipta það neinu máli.
Jæja best að fara að huga að kvöldmatnum. Kannski verður hægt að koma einhverju á grillið, svona á milli skúra.
Kveðja
Gramgengið
En jæja best að fara að huga að kvöldmat
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2016 | 11:45
Hvert fór sumarið
Kæru bloggvinir
suma
Sumarið sýndi sig hér í nokkra daga en er farið aftur. Það er ausandi rigning i´dag og það voru víst þrumur og eldingar í nótt og líka í morgun. Aldeilis sumarlegt það. VIð fórum út að labba í morgun og lentum í þessari líka úrhellis rigningu. Það var ekki þurr þráður á okkur á eftir. Í gær var mjög gott veður og við vorum úti við mest allan daginn. Ágúst er búinn að fá tvíhjól og er að byrja að æfa sig að hjóla. Frúin skellti sér á bak líka og við fórum smá túr. Verst hvað maður verður alltaf aumur í afturendanum eftir svona túra. En hún kann þetta ennþá. Börnin eru ekki vön að fara upp og niður brekkur og virðast alltaf gleyma hvenrig á að bremsa, svo maður er nú með lífið í lúkunum að þau renni ekki út á götu. Það er töluverð traffík hérna í kring. Þau gleyma nú líka oft umferðareglunum. En þetta hlýtur að koma.
Auður fór á fimmtudaginn í prufutíma í reiðskólanum. Hún fékk einhvern hest sem var alls ekki á þeim buxunum að hreyfa sig, svo þetta var nú frekar rólegt, en hún var mjög ánægð og vildi endilega halda áfram. Svo við verðum eð fylgja með. Það er vonandi að hún verði ánægð með þetta. Það voru allavega ekki mjög mörg börn á fimmtudaginn, svo það ætti að vera nægur tími að venjast hestunum og svoleiðis.
Svo var nú nóg að gera hjá henni á föstudaginn. Hún fór í skólann og svo beint í afmælisveislu hjá bekkjarbróður sínum. Þau eru að hennar sögn hálfkærustupar. Veit ekki hvað það þýðir, en það er örugglega betra en að vera alkærestar. Svo var henni keyrt beint úr afmæli í skátana. Það var ekki mikið eftir af henni um kvöldið og heldur ekki í gær.
Ágúst leikur voða mikið við eina stelpu í leikskólanum, það er spurning hvenær þau tilkynna að þau séu kærustupar. Þetta gerist allt saman mjög snemma nú á tímum. Minnist þess ekki að maður hafi spáð í þetta á þessum aldri. En það er auðvitað fyrir mestu að þau hafi einhvern að leika við.
Auði gengur illa að finna einhverja vinkonu hérna nálægt. Þær sem hún hefur verið með, eru annað hvort alltaf uppteknar eða veikar. Það viriðist ekki vera mikið spáð í að hvetja krakkana til að leika. það sést heldur nánast aldrei neinn utandyra. Ekki nema við og einhverjir aðrir útlendningar.
Nú fer allt að færast í venjulegar skorður. Sundið fer að byrja og allt fer á fullan gang í sjónvarpsþáttaröðum og svoleiðis. Það er gott að það sé einhver rútína.
Jæja best að fara að kíkja á hvort börnin séu búin að rústa húsinu.
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2016 | 15:03
Skorkvikindaævintýri
Kæru bloggvinir
Sumarið hefur greinilega bara ákveðið að vera hjá ykkur í sumar. Það er eitthvað voðalega óstöðugt veður hér. Þeir eru að lofa rjómablíðu síðast í þessari viku, en við erum eitthvað að efast um það. Það væri auðvitað mjög gaman að fá gott veður.
Auður er orðin mjög dugleg að æfa sig að lesa, vuð lesum næstum á hverjum degi og skrifum smávegis líka. Þetta reynir töluvert á uppeldisgenin í frúnnil. Það er ástæða fyrir því að hún varð sálfræðingur en ekki uppeldisfræðingur. Það er vonandi að börnin verði ekki fyrir allt of miklum skaða. Hana vantar voða mikið vinkonur að leika við. En í dag fór hún til stelpu sem býr hérna nokkrum húsum frá og við vonum að það geti gengið upp. En það er erfitt að segja. Það virðist voða mikið fár í kringum hvern börnin leika við og sumir vilja ekki að börnin leiki við einhver ákveðin börn og svo framvegis. Svo eru bara mjög mörg börn aðeins eldri en Auður sem leika ekki lengur með dót. Þau sitja sennilega bara í tölvum eða einhverju svoleiðis. Það finnst manni nú ansi snemmt að hætta að leika sér. SVo vesalings börnin okkar eiga hvorki síma eða spjaldtölvu. VIð reynum að fara út með þau þegar við erum í fríi og láta þau leika sér.
Bóndinn er búin að vera að sanka að sér græjum og plötuspilara fyrir afmælispeninginn. Nú er maður alveg á fullu að hlusta á tónlist. Það er orðið langt síðan við höfum haft almennilegar græjur. Nú er svo búið að draga fram plötur og verið að hlusta á eldgamla tónlist. En mikið rosalega hefur maður saknað þess. Það er ekki fyrr en maður fær tækifæri til þess aftur að maður fattar, hvað manni hefur vantað þetta mikið.
Á fimmtudaginn fórum við að skoða reiðskóla hérna rétt hjá. Auði langar voða mikið að prófa. Henni leist mjög vel á og við ætlum að fara í prufutíma á fimmtudaginn. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Við stóðum og vorum að horfa á hesta og þða kom geitungur og stakk frúnna á milli brjóstanna. Maður hélt nú að þetta væri ýkt, hvað þetta væri vont, en að er það víst ekki. Þetta er ennþá aumt, eftir 3 daga. En maður varð nú að halda andlitinu og spila svaka hetju, svo börnin yrðu ekki hrædd. VIð segjum þeim alltaf að þeir ráðist ekki á mann, nema maður geri þeim eitthvað og að þetta sé ekkert svo vont! :) En þetta var fyrsta stungan eftir 16 ár hér í landinu. Svo var frúin eitthvað að státa sig á því að hafa heldur ekki fengið mýbit. Á föstudaginn fórum við Auður í skátana og fórum út í móa að leita að brómberjum og urðum svoleiðis étin upp til agna. Maður á aldrei að vera að monta sig af svona.
Í kvöld verður svo boðið upp á kjötsúpu. Bóndinn´er á kafi í pottunum. Það verður aldeilis veisla og svo næstu daga líka, því það er alltaf svo mikill afgangur.
´Bóndinn átti nefnilega afmæli í vikunni og var búinn að spyrja Ástu og Óla vini okkar hvort þau ættu lambakjöt. Við fengum nokkra poka af kjöti. Meirihlutinn var nautakjöt, svo í staðinn fyrir kjöt í karrý á afmælisdaginn fékk bóndinn nautasteik og svo verður lambakjötið í kvöld. Hann er víst alveg sáttur með það.
Jæja best að fara að hjálpa honum
Kveðja
Gramgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)