16.12.2012 | 18:48
Jólasveinn á flugi
Kæru bloggvinir
Þá er komin hláka hjá okkur og snjórinn óðum að hverfa. Í staðinn fáum við grámygluveður. En við erum nú búin að hafa snjó mestallan mánuðinn og það hefur lýst upp mesta skammdegið.
Bóndinn er búinn að missa sig í jólaskreytingum bæði innandyra og utan. Það þarf örugglega að kaupa fleiri kassa til að geyma þetta allt í, eftir jólin. Hann er meira að segja farinn að plana hvernig hann ætlar að skreyta á næsta ári.
Bóndinn dreif sig líka í að svíða 10 lambahausa á föstudaginn. Það var ansi kalt, svo hann ætlar víst ekki að svíða hausa að vetri til aftur. En nú erum við allavega vel byrgð af sviðahausum. Ungi maðurinn hefur verið eitthvað órólegur undanfarið, en það getur vel verið að hann hafi verið svangur. Við erum allavega farin að gefa honum meira að borða og það virðist hafa róað hann eitthvað. Annars er hann allur að koma til. Hann er orðinn mun meira vakandi, og pælir í hlutunum í kringum sig.
Í gær fóru þau feðgin í sund í síðasta skipti fyrir jól. Við vonum að frúin og ungi maðurinn komist með eftir áramót. VOnandi að hann verði ekki eins stressaður yfir því eins og Auður var. Hann er allavega mjög rólegur svona almennt og kippir sér ekkert upp við þó það séu læti í kringum hann. Það er allavega góð byrjun til að fíla það að vera í sundi.
Það er ótrúlegt að þó maður hafi byrjað að undirbúa jólin mjög tímanlega í ár, af því við vissum það yrði nóg að gera, þá er samt hellingur eftir. En við reiknum nú með að ná því í þessari viku. Það sem við ekki náum, verður þá bara eftir.
Í dag skelltum við okkur í jólabæ hérna rétt hjá. Þar var fljúgandi jólasveinn, og líka nokkrir labbandi. Auður fékk að fara í svona traktorslest og í hringekju. Henni þótti þetta hin besta skemmtun. Hún er alveg æst í að hlusta á jólamúsík. Það er hlustað á það á hverjum degi í bílnum. Hún kann orðið marga teksta.
Jæja best að fara að hætta þessu í bili
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og litli gaur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2012 | 16:44
Jólatrésskemmtun
Kæru bloggvinir
Hér hefur ekki verið legið á meltunni undanfarið. Það var farið í það í dag að setja upp myndir í stofunni. Það hefur ekki tekið nema 4 ár að koma því í verk. Enda var þetta ekkert smá mál. Það hefur verið mjög gott veður í dag. En undanfarið hefur verið hryllilega kalt. Upp í 11 stiga frost. Maður finnur vel fyrir því þegar það er svona kalt. Gólfin hérna eru alveg ísköld þegar svoleiðis er. Við fórum út í göngutúr í morgun. Við keyptum snjóþotu handa Auði Elínu, en hún hefur nú ekki alveg fattað hvernig á að nota hana. Vill endilega fara með hana í leikskólann á hverjum degi, en það er spurning hversu mikið hún er notuð. En þetta er nú sennilega eins og svo margt annað hjá henni. Hún gerir þetta eins og henni hentar og svo allt í einu fær hún kannski áhuga á þessu. Það er nú líka erfitt að segja hversu lengi við höfum snjó. Þetta lýsir upp skammdegið og er alveg fínt, meðan þetta er ekki að fjúka út um allt.
Ungi maðurinn dafnar vel. Hjúkrunarkonan kom og kíkti á hann í vikunni. Henni leist bara mjög vel á hann. Hann var búinn að þyngjast um 350 gr á einni viku og það telst nú bara mjög gott. Hann er voða vær. Grætur ekki nema hann sé svangur. og sefur nokkra tíma í beit á nóttinni. Frúin er nú samt pínu þreytt´ því hún er vön að sofa töluvert meira en hún gerir núna. Hún sefur ansi oft yfir sjónvarpinu á kvöldin.
Á föstudaginn var jólatrésskemmtun í leikskólanum. Það var dansað kringum jólatréð með jólasveininum. Hann var töluvert líflegri en jólasveinninn í Tiset. Krakkarnir fengu auðvitað nammipoka. Svo eru íslensku jólasveinarnir væntanlegur í vikunni. Það verður spennandi að sjá hvernig hún tekur því. Hún hefur allavega mikinn áhuga á jólasveinum þessa dagana.
Annars líða dagarnir nú alveg ótrúlega hratt. Fyrr en varir verður drengurinn kominn til dagmömmu. Frúin ætlar að vera heima tæplega eitt ár. Við vonum að hann komist til sömu dagmömmu og Auður var hjá. Það væri mjög gott. Bæði af því það er hérna rétt hjá og af því sú kona er mjög góð.
Við eigum enn eftir að fara á jólamarkað. Það næst kannski næstu helgi. Það er allavega stefnan. Svo er búið að panta skírn fyrir drenginn 6 janúar. Nafnið er fundið en það er leyndarmál þar til í kirkjunni. Svo þið getið reynt að koma með hugmyndir, svo verðum við að sjá hvort þið getið upp á því.
Bóndinn er búinn að setja inn fleiri myndir. Endilega kíkið á þær.
jæja best að fara að sinna börnum og búi.
Jólakveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og litli prins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2012 | 12:44
Jólasveinninn kemur til Tiset
Kæru bloggvinir
Þá er kominn sunnudagur með sól og snjó. Þegar við vöknuðum í morgun var allt þakið af snjó. Það er mjög fallegt veður og við mæðgur erum búnar að vera úti að leika í snjónum. Auði fannst þetta mjög spennandi. Hún er sennilega búin að gleyma hvernig snjórinn leit út síðasta vetur. Jólasveinninn kemur til TIset í dag og er auðvitað mikil spenna yfir því. Við ætlum að reyna að fara öll. Litli prinsinn er ekkert farin að fara út ennþá af því hann er ekki búin að ná fæðingarþyngdinni eftir hann kom heim af spítalanum. Honum vantar nú bara 60 gr, svo við ætlum að dúða hann vel og fara aðeins út með hann. Veðrið gæti næstum ekki verið betra, allavega.
Annars hefur fyrsta vikan hérna heima bara gengið mjög vel. Litlu prins fékk smá gulu, en er nú að verða komin yfir það. Hann sefur voða mikið, en er duglegur að drekka, bæði brjóst og pela. Hann er nú samt ekki eins æstur að sjúga eins og systir hans var á hans aldri. Hún var alltaf svöng. Hann er voða vær og góður enn sem komið er. Sefur 4-5 tíma á nóttinni og er almennt auðveldur í umgengni. Við vonum bara að það haldist. Systir hans tekur þessu nú ótrúlega vel. En tekur rokur inn á milli þar sem hún fær einhver frekjuköst.
Bóndinn er í fæðingarorlofi og fer svo í vikufrí yfir jólin. Þannig að þetta er bara algör lúksus á okkur hérna. Það er svo sem nóg að gera, svo það er fínt að við erum bæði heima. Við erum búin að panta skírn 6 janúar. Við höfðum ekki alveg orku í að láta skíra hann um jólin. Við erum búin að komast að niðurstöðu um nafnið. En það er að sjálfsögðu leyndarmál, þar til það er búið að skíra hann. Bóndinn er búinn að setja inn helling af myndum. Bæði gömlum og nýjum. Endilega kíkið á það. Sá stutti er nú alveg eins og Auður var þegar hún var lítil, svo við hefðum sennilega alveg eins getað sett inn myndir af henni og látið eins og þetta væri litli prinsinn. Það er svolítill munur að eiga barn á vetri til en að sumri, svona upp á fatnaðinn. Auður þurfti ekkert á fötum að halda fyrstu mánuðina af því það var svo heitt. Litli pirnsinn þarfmun meira af fötum.
Jólakveðjur
Gummi, Ragga, Auður og litli prins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2012 | 16:53
Storkurinn kominn til Tiset
Kæru bloggvinir
hér bar heldur betur til tíðinda í vikunni. Frúin ákvað að drífa barnsfæðingar af, svona í góðum tíma fyrir jól. Hún fór á spítalann á fimmtudagsmorgni og var send heim aftur. En fór aftur seinnipartinn og skömmu eftir miðnætti kom svo heilbrigður drengur í heiminn. Frúin mátti ekki fara heim fyrr en í dag, svo við erum búin að hafa nóg að gera. Öllum heilsast vel. Sá stutti er nú eitthvað pirraður í maganum, en það er víst ekkert meira en búast má við. Frúin hefur ekki sofið almennilega, en vonast til að það lagist þegar maður er kominn í sitt eigið rúm. Auður er voðalega spennt fyrir litlabróðurnum, en er líka pinu abbó og er eiginlega fúl út í mömmu sína fyrir að vera í burtu í svona marga daga. Það verður spennandi að sjá hvernig það þróast allt saman. Nú er svo bara að finna nafn á kappann. Það er nú alltaf pínu spennandi en getur líka verið erfitt.
Þetta verður ekki haft lengra í bili. Það þarf að fara að sinna börnum og búi.
Kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og litli kútur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2012 | 13:42
Jólahlaðborð
Kæru bloggvinir
hér hefur aldrei þessu vant verið þurrt og fallegt veður um helgina og eiginlega engin rigning. Það var ansi kalt í gær en mjög fínt veður í dag. VIð erum búin að vera töluvert utandyra að nýta okkur blíðuna. Við þurftum að fara og selja happadrættismiða fyrir íþróttafélgaið í gær. Þetta er eitt af því leiðilegasta sem maður gerir og það er reynt að draga þetta í lengstu lög. En þetta hafðist í gær, svo nú er heilt ár, þar til við þurfum að fara aftur.
Í morgun var drifið í að þrífa bílinn. Það hefur verið svo mikil drulla á vegunum undanfarið út af því það hefur rignt svo mikið og svo hafa taktorar dreift mold og drullu á vegina, svo þetta hefur verið mjög fín blanda. Nú sést allavega hvernig hann er á litinn. Það hefur ekki gerst í nokkrar vikur.
Annarss er allt við það sama hérna hjá okkur. Við erum að fara á jólahlaðborð með vinnunni hjá bóndanum í kvöld. Þetta er nú ekki eins og þeir eru vanir að halda. Þeir vildu ekki fara þangað sem þeir eru vanir, af því þeim fannst svo asnalegt að fólk færi heim upp úr miðnætti. Þess vegna var ákveðið að sleppa því alveg að fara í hefðbundið jólahlaðborð. Þetta er svona keila og matur á eftir. Frúin ætlar nú ekki að keppa í keilu, enda ekki alveg í ástandi til þess. Þetta er farið að reyna ansi mikið á grindarbotninn. Okkur finnst alveg ótrúlegt að það séu bara rúmar tvær vikur í settan dag. Tíminn líður ótrúlega hratt.
Við höfum nú eitthvað verið að spá í mögulegum nöfnum á nýja barnið, en það virðist ætla að standa eitthvað í okkur að verða sammála. Það verður apennandi að sjá hvort við endum á að draga nöfn upp úr hatti. Við vonum nú við getum komist að niðurstöðu án þess að þurfa á málamiðlara að halda. Við erum búin að kaupa næstum allar jólagjafir. Bara eftir handa stóru krökkunum. Það er nú líka alltaf það erfiðasta. En hlýtur að hafast fyrir rest. Það er spurning hvort maður eigi að reyna að baka einhverjar smákökur, bara svona til að halda í hefðina. Við borðum mjög lítið af svoleiðis, en það er ákveðin stemning að baka og eiga smákökur.
Auður er orðin pínu spennt fyrir jólunum. Hún vill horfa á jólasveina í tölvunni og syngja jólalög með. Við ætlum að prófa að gefa henni í skóinn fyrir þessi jól og erum líka búin að kaupa jóladagatal. Við ætlum að reyna að halda fast í íslenskar hefðir fyrir jólin, svo hún kynnist þeim líka.
Aðalsportið hjá henni núna er þegar leikskólinn fer með strætó út að keyra. Henni finnst þetta ótrúlega spennandi. Jólasveinninn kemur til Tiset í byrjun desember, og við ætlum nú líka að sýna henni einhverja aðra jólasveina líka.
Jæja ætli maður verði ekki að fara að gera sig kláran fyrir kvöldið. Setja rúllurnar í hárið og svona! :)
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2012 | 16:32
Heimsóknardagur
Kæru bloggvinir
Þá er runninn upp enn einn sunnudagurinn. Það hefur verið mjög fallegt veður í dag en samt dálítið kalt. En það hefur allavega verið gott að sleppa við rigningu í einn dag.
Hér hefur verið margt um manninn í dag. Í morgun fengum við danska vini okkar í amerískan morgunmat. Þegar þau voru nýfarin komu svo Óli, Guðný og Arndís. Það má búast við að Auður verði búin á því eftir allan þennan hasar. Við komumst ekki í sund í gær, af því Auður hefur verið svo kvefuð. Hún er nú samt eitthvað að lagast. Frúin hefur verið ansi kvefuð líka. Það er sennilega út af öllum þessum raka. En þetta hlýtur að ganga yfir. Við notuðum tækifærið í gær og fórum og keyptum kommóðu fyrir fötin frá nýa barninu. Það var engin hirsla til fyrir það, svo það varð að bæta úr því. Þá ætti nú að vera allt klárt fyrir komu þess. Það er voða gott að hafa þetta tilbúið, svo maður þurfi ekki að fara að leita að þessu þegar barnið er komið.
Næstu verkefni verða svo sennilega að slaka eitthvað á og gera það sem þarf að gera fyrir jólin. Maður verður að vera búin að því mesta fyrir desember. Það hlýtur nú að hafast. Við erum nú vön að vera tímanlega í þessu, til að geta sent gjafir heim til Íslands og svoleiðis.
Frúin fór í smá verslunarleiðangur í vikunni og keypti eitthvað smá af ungbarnafötum. Hún var búin að gefa frá sér meirihlutann af þessum minnstu fötum. Minnstu fötin frá Auði eru líka sumarföt, það þýðir nú ekki að klæða barnið í það um miðjan vetur. Frúin fór líka til ljósmóður í vikunni. Þetta lítur allt vel út og barnið stækkar eins og það á að gera. Maður hefur nú sennilega mestar áhyggjur af því, hvort það sé allt í lagi með barnið. En maður vonar það besta.
Á eftir verður svo borðið önd og með því. Það er hefð hér í landi að borða önd á þessum tíma til minningar um einhvern biskup. Við munum nú ekki söguna, en finnst mjög gott að borða öndina.
Bóndinn á enn eftir að henda inn myndum. Það hlýtur að hafast einhvern næstu daga.
Jæja best að fara að sinna matnum og gestunum.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2012 | 13:51
Heimsókn
Kæru bloggvinir
hér hefur verið þurrt og fallegt veður í dag, aldrei þessu vant. Við erum orðin svo vön því að það sé rigning, að Auður er alveg hissa þegar það er þurrt. Við fórum út að labba í morgun og gáfum hestunum. Það er alltaf mikið sport að gera það.
Enok og Jóhanna Bára komu í heimsókn á fimmtudaginn og fara heim á morgun. Auður og Jóhanna hafa verið rosa duglegar að leika saman. Auði á örugglega eftir að finnast hundfúlt þegar hún fer. Við pössuðum líka vinkonu hennar Auðar á föstudaginn. Mamma hennar var að vinna og barnapían klikkaði á að ná í hana. Við tókum hana því með okkur heim. Svo það er búið að vera mikið fjör hér um helgina. Enok og bóndinn eru búnir að fara í nokkra búðarleiðangra. Frúin hefur sloppið nokkuð vel við það.
Við fórum út að borða á sunnudaginn. Þetta átti að vera eitthvað voða fínt hlaðborð, en þetta var nú svo sem ekkert sérstakt. Bara allt í lagi. Svo við þurfum ekkert að prófa það aftur.
Annars er allt að verða tilbúið fyrir komu nýja barnsins. Það á reyndar eftir að setja saman barnarúmið. Við nennum því ekki, af því það er ekkert pláss fyrir það. Frúin er búin að þvo sængurföt og gera flest annað tilbúið. Svo nú er bara að bíða. Þetta skellur á fyrr en varir. Það er búið að opna fæðingardeildina sem er næst okkur, svo það lítur ekki út fyrir að við þurfum að keyra langt til að eiga barnið. Sem betur fer.
Drengirnir fengu að kíkja í einhverja nýja bílabúð áðan. Þetta var algjört ævintýraland fyrir þá. Hægt að kaupa allt milli himins og jarðar.
Frúin er að verða búin að klára flestöll verkefnin. Eitthvað smotterí eftir. Það þarf að fara að undirbúa jólin, það verður ekki mikill tími fyrir það í desember. En við erum nú ekki vön að stressa okkur mikið fyrir jólin, svo við hljótum að redda okkur líka í ár.
Auður er orðin nokkuð hress eftir kvefpestina. Hún á orðið auðveldara með að sofna á kvöldin, en vaknar ennþá of snemma á morgnana og það er engin leið að fá hana til að liggja lengur. En við verðum kannski búin að koma reglu á þetta áður en klukkunni verður breytt aftur.
Nýji kötturinn finnur upp á ýmsu undarlegu. Hann getur alls ekki drukkið vatn úr vatnskálinni. Hann var svo heppin að það lak úr sturtuhausnum fyrst eftir hann flutti. Hann gat því drukkið úr honum. En núna er búið að laga það, svo hann var að reyna að drekka úr klósettinu um daginn. Hann er mjög hrifinn af vatni og er oft að væflast í kringum sturtuna. Við héldum nú að flestir kettir væru vatnshræddir, en hann þjáist allavega ekki af því.
Jæja best að hætta þessu í bili
Kveðja
Gummi, Ragga, og Auður Elín
Jæja best að hætta þessu í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2012 | 13:22
Kvefpest
Kæru bloggvinir
Hér hefur verið mjög fallegt veður um helgina, frost og sól. Við höfum nú ekki verið mikið úti við því Auður Elín hefur verið hálflasin, svo hún hefur ekkert getað farið út. Hún var ægilega pirruð yfir þessu í gær, en er mun hressari í dag, svo hún fer nú sennilega í leikskólann á morgun.
Það er nú senilega ekkert hættulegt að taka því rólega svona eina helgi. Það er bara frekar skrýtið að vera ekki að gera neitt sérstakt. Frúin skrapp upp á loft í morgun að kíkja á barnafötin. Hún komst að því að það þarf nú eitthvað að versla fyrir nýja barnið. Auður á mest sumarföt í minnstu stærðunum, það dugar nú ekki í kuldanum hér á veturna.
Annars hefur allt verið í föstum skorðum hér síðustu vikuna. Það þarf að reyna að slá garðinn eins og einu sinni fyrir veturinn, en það hefur ekki verið hægt fyrir rigningu. Annars er nú sennilega allt að vera klárt fyrir veturinn.
Þeir voru að færa klukkuna í nótt. Við ákváðum að halda Auði vakandi aðeins lengur í gærkvöldi, til að sjá hvort hún gæti ekki sofið lengur í morgun, en nei, hún vaknaði klukkutíma á undan áætlun. Það var ekki nokkur leið að fá hana til að sofa lengur. En vonandi kemst regla á hana aftur. Hún er búin að vera mjög góð að sofa undanfarið. En við verðum bara að sjá hvernig þetta fer. Þetta er ótrúlega pirrandi að vera að rugla svona í klukkunni. Og enginn veit eiginlega af hverju maður gerir það.
Í kvöld er planið að fara út að borða. Það er hlaðborð hér inni í Gram. Við höfum lengi ætlað að fara, en ætlum að láta verða af því núna.
Gamla kisan okkar er farin að láta sig hverfa í heilu dagana. Hún er svo móðguð yfir nýja kettinum. Hún hlýtur að vera búin að finna sér einhvern stað til að vera á. Hún er varla úti í þessum kulda sem er hér á nóttunni og á morgnana.
Enok og Jóhanna Bára eru væntanleg í stutta heimsókn á fimmtudaginn. Það verður spennandi að sjá hvernig Auði finnst það. Henni finnst nú yfirleitt voða gaman að hafa gesti.
Bóndinn er búinn að vera að taka eitthvað til í ljósmyndunum í tölvunni, svo það getur verið að hann hendi inn einhverjum myndum á næstunni.
Frúin er ennþá að reyna að venjast því að vera heimavinnandi. Hún er búin að gera jólahreingerningu á hinum ýmsu stöðum innandyra. Það er eins gott að gera það núna. Það verður ekki mikill tími þegar litla barnið er komið og jólin ofan í allt saman. Það verður nú sennilega reynt að undirbúa jólin í nóvember, svo maður þurfi ekki að pæla í því í desember.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.10.2012 | 13:27
Haustverk
Kæru bloggvinir
Þá er haustfríið að verða búið hjá okkur. Bóndinn hélt hann væri í fríi, en komst svo að því að hann þurfti að vinna á morgnana og seinnipartinn. Það hefur ýmislegt verið brallað. Það er búið að taka upp rabarbara og gera sultu. Færa rabarbaraplönturnar og svo er verið að fara að gera bæði kæfu eða rúllupylsu. Það verður að klára þetta gamla kjöt úr kistunni.
Við hjónaleysin fórum á hótel í eina nótt í vikunni. Það var alveg meiriháttar að geta aðeins kúplað sig frá öllu. Auður var í pössun og hegðaði sér auðvitað alveg ótrúlega vel. Eins og alltaf þegar hún er í pössun. Við erum búin að föndra heil ósköp í fríinu. Bæði leir og mála með fingramálningu. Þetta hefur verið voða vinsælt. Svo er búið að útrétta ýmislegt sem hefur beðið lengi. Við komumst að því að maður eyðir miklu meiri pening þegar maður hefur ekki Auði með. Það er miklu meiri tími til að kíkja á hitt og þetta og láta freistast.
Svo er loksins búið að ganga frá gluggunum á húsinu. Það var alltaf eftir að kítta í kringum þá. Það er enginn smá munur, bæði á útlitinu á húsinu og líka að það er hlýrra hérna inni.
Kanínukarlinn sem var stunginn af, kom aftur í vikunni og var settur inn í búr. Það leið nú ekki langur tími þar til hann var búinn að brjótast út úr því. Hann náðist svo aftur, sennilega af því hann var orðinn svo svangur að hann vildi láta ná sér. Nú er hann svo inni í búri. Spurning hvað hann helst lengi þar.
Nýji kötturinn er orðinn mjög heimavanur og vill helst ekki fara út fyrir hússins dyr. Hann er voða kelinn og er mikil félagsvera.
Auður hefur verið mjög ánægð með að vera bara í fríi. Hún fer svo aftur á leikskólann á morgun. Hún er farin að sofa lengi á morgnana, svo hún verður nú sennilega ekki mjög hress með að þurfa að vakna snemma á morgun. Við fórum á flóamarkað áðan og pabbi hennar keypti bæði dúkku og risaeðlur handa henni. Það er erfitt að segja hvað henni finnst skemmtilegast að leika með.
Frúin er nú ekki alveg búin að átta sig á því að hún þurfi ekki að fara í vinnuna næstu mánuði. Það hlýtur að renna upp fyrir henni fljótlega. Hún finnur sér sennilega eitthvað að gera.
Jæja best að láta þetta nægja í bili.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2012 | 11:38
Rigning og aftur rigning
Kæru bloggvinir
það kemur sennilega ekki á óvart, en hér rignir ennþá flesta daga. Maður er nú orðinn hundleiður á þessu. Maður nennir ekkert að gera úti við, þegar svona viðrar. Við héldum að kanínukarlinn væri farinn á vit feðra sinna þar sem við höfum ekki séð hann ansi lengi, en hann er núna hérna í bakgarðinum. Hann vill alls ekki láta ná sér. Kann greinilega vel við að ganga lausum hala.
Frúin hætti að vinna á föstudaginn. Hún þarf svo að fara á morgun og tæma skrifstofuna og ganga frá því síðasta. Bóndinn hélt hann væri í frí, en komst svo að því að hann var það ekki, svo hann þarf að keyra snemma á morgnana og svo seinnipartinn. Við Auður verðum nú bara í slökun á meðan. Eða reynum það allavega.
Í gær var farið í heljarinnar verslunarferð í stóra verslunarmiðstöð. Þetta er nú ekki uppáhaldið okkar, en það er auðvitað kostur að geta farið á einn stað og fengið nánast allt sem manni vantar. Auður var nú alveg ótrúlega stillt meðan á þessu stóð. Hún er búin að læra ýmsar kúnstir á leikskólanum. Búin að læra ýmis orð, sem eru kannski minna hugguleg. Hún er orðin voða upptekin af að dansa og syngja, svo þau hljóta að gera töluvert af því. Annars virkar hún nú bara ánægð með að vera í leikskóla. Hún er farin að tala mikið meira, bæði á dönsku og íslensku. Það er auðvitað bara mjög gott.
Í dag er svo von á gestum. Vinafólk okkar er að koma og Auður er að deyja úr spenningi að hitta vinkonu sína, hana Arndísi. Þær eru nú ekki alltaf vinir, en svona mestallan tímann gengur þetta ágætlega.
Við mæðgurnar verðum að finna okkur eitthvað að taka okkur fyrir hendur í næstu viku. Við keyptum eitthvað nýtt dót fyrir Auði í gær, svo nú er aldeilis hægt að föndra og mála.
Kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)