7.10.2012 | 09:18
Laufrigning
Kæru bloggvinir
það er ekki nóg með að það rigni hér eldi og brennisteini nánast alla daga, heldur er farið að rigna laufblöðum líka. Við fengum reyndar gott veður í gær en næsta vika bíður ekki upp á mikið annað en rigningu. Maður kemst ekki einu sinni í að klára að gera það sem þarf að gera fyrir veturinn. Við ætluðum að reyna að færa rabarbarann og ganga frá útidótinu, en það er erfitt að komast í það í þessari tíð.
Kanínan hafði ekki sést í nokkra daga þegar hún birtist allt í einu hér í garðinum í síðustu viku. Hún heldur sig mikið hjá nágranna okkar. Það er nú dálítið furðulegt, því þau eiga stóran hund sem er alltaf að elta bæði kanínuna og kettina okkar. En kanínan er allavega ekki á þeim buxunum að flytja heim aftur. Hún verður kannski til í það þegar fer að kólna meira. Það var farið með köttinn i geldingu í vikunni. Það er nú ekki gefið. En nauðsynlegt ef maður vill halda honum heima við og sleppa við að hann geri læðuna okkar kettlingafulla. Hann tók þessu nú eins og maður og var orðinn hress daginn eftir. Hann er búinn að fá að fara út og virðist nú ekkert fara mjög langt. Hann er voða kelinn og skemmtilegur.
Í gær var nóg að gera. Við stelpurnar fórum í sund og bóndinn fór að laga hurðina á bílnum, svo nú er hægt að loka henni. Það er nú frekar nauðsynlegt að geta lokað bílstjórahurðinni! Svo fór bóndinn á fótboltaleik seinnipartinn, svo við sáum nú ekki mikið af honum í gær. Í dag er svo búið að bjóða okkur í afmælisveislu hjá íslenskum vinum okkar. Það verður eflaust almennilegt kaffiborð.
Nú á frúin bara eftir að vinna í eina viku. Það er nú bæði gleðiefni og líka pínu skrýtið. Skrýtið af því frúin er nú ekki sú besta að slaka á, svo það verður spennandi að sjá hvernig það á eftir að ganga. Það er nú heldur ekki allir sjúklingarnir í vinnunni jafn hrifnir af þessu uppátæki. En þetta gengur nú venjulega allt ágætlega.
Jæja best að fara að kíkja til veðurs.
Kveðja úr regnlandi
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2012 | 11:50
Framhaldssaga um kanínur
Kæru bloggvinir
Hér er farið að hausta ansi mikið og maður er orðin úrkula vonar um að veðrið verði eitthvað skaplegt. Við verðum bara að vona að veturinn verði sæmilegur. Við hljótum nú að eiga það skilið eftir þetta sumar.
Annars er hér allt í svipuðum skorðum. Frúin á eftir að vinna í tvær vikur, áður en hún fer í barneignafrí, svo það er meira en nóg að gera. Við erum búin að panta okkur hótel í eina nótt, eftir tvær vikur. Okkur finnst við alveg eiga það inni að komast aðeins í burtu og reyna að slaka aðeins á. Vinafólk okkar er búið að bjóðast til að passa Auði Elínu, svo við förum bara tvö af stað.
Það gengur orðið betur á leikskólanum. Auður Elín virðist eitthvað vera að sættast við þetta allt saman. Hún er hins vegar orðin mun óhlýðnari hér heima. Hún hlýtur að hafa lært það á leikskólanum. Hún þekkir marga krakkana á leikskólanum með nafni, allavega krakkana á sinni deild. Þegar maður spyr hana hvort hún vilji eignast lítinn bróðir eða litla systur, þá svarar hún venjulega að hún vilji eignast lítinn bróðir. Hún skilur þetta nú samt ekki alveg ennþá.
Það eru allir búnir að vera hálfkvefaðir hér undanfarið, en það er nú eitthvað að lagast, nema bóndinn er ennþá hálfslappur.
Kanínuævintýrið er nú orðið hálfgerð hryllingssaga. Það ar bara ein kanína eftir, og við getum ekki haldið henni innan girðingar. Hún kemst alltaf út aftur. Svo hún labbar bara um eins og hún fái borgað fyrir það. Kötturinn er að verða meira heimavanur. Við höfum ekki þorað að sleppa honum út, af því hann er ógeldur. Við þurfum að fara að koma honum í það. Gamla kettinum okkar er ennþá alveg meinilla við hann. Hún hvæsir bara í hvert skipti sem hann kemur nálægt henni. Hann skilur ekkert í þessu.
Nú er svo búið að leggja lambakjöt í salt. Það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Það er orðið ansi langt síðan við höfum gert það.
Jæja ætli þetta verði ekki látið nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2012 | 17:15
Framhaldssaga um ketti og kanínur
Kæru bloggvinir
það er verulega farið að hausta hér hjá okkur, en það hefur verið mjög sólríkt og fallegt veður hér í dag. Bóndinn fór í það með nágrannanum að klippa hekkið. Svo nú er það allavega búið. Þeir eru búnir að laga þetta heilmikið til, svo þetta er nú að verða eins og eðlilegt hekk, og því minni vinna að halda þessu við. En það þarf nú samt að gera það.
Annars hefur kanínuævintýrið okkar haldið áfram. Við vorum búin að setja net yfir kanínugirðinguna og það virtist hafa haldið kánínuræningjunum frá í nokkra daga. Í vikunni hurfu svo tvær kanínur og því bara ein eftir. Ein af þeim dúkkaði svo upp í garðinum eftir nokkra daga. Hún hefur sennilega sloppið úr klóm ræningjans. Sú kanína gengur ennþá laus og hin sem er inn í girðingunni fær bara að sofa í húsinu sínu. Kötturinn sem hvarf hefur ekki sést hér í nágrenninu, og köttur nágrannanna er líka horfinn. Þetta er að verða ansi skrautlegt.
Við erum öll búin að ná okkur í einhverja kvefpest. En það er nú ekkert óvanalegt á þessum árstíma. Við slepptum því að fara í sund í gær, af því Auður Elín hóstaði svo mikið. Hún er mjög upptekin af því þessa dagana að það komi alls konar dýr inn í herbergið hennar og taki hana. Hú skilur ekkert í því að það gangi ekki um ljón og önnur óargadýr hér í sveitinni. Henni finnst rosa sport að telja, það heppnast nú ekki alltaf. En oft nær hún að telja upp að 10. Í dag fórum við mæðgur svo í sirkus. Hún hefur ekki prófað það áður og stóð sig mjög vel í öllum þessum látum. Hún var nú samt orðin ansi þreytt efit r2 tíma. Það verður alveg örugglega farið aftur á næsta ári.
Jæja ætli þetta verði ekki látið nægja í bili af dýrum og mönnum
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2012 | 17:35
Katta og kanínuævintýri
Kæru bloggvinir
Þá er runninn upp enn einn vætusamur sunnudagurinn. Síðasta vika hefur boðið upp á hressilegt haustveður, bæði með rok og rigningu. En við erum orðin öllu vön, svo við kippum okkur ekkert mikið upp við þetta. Það sem verra er, að það er farið að dimma ansi mikiið, bæði á morgnana og kvöldin.
Það hefur ýmislegt gengið á í vikunni og um helgina. Bóndanum hefur lengi langað í grábröndóttan fresskött, og var búin að spyrja nágrannana, hvort þeir þekktu einhvern sem þyrfti að losna við svoleiðis. Þau komu svo og voru búin að finna tvo fressketti sem voru að leita að nýju heimili, af því foreldrarnir voru að flytja í blokk, þar sem maður mátti ekki vera með ketti. Við fórum því á miðvikudaginn og kíktum á þá og tókum með okkur heim. Okkur var sagt að annar væri mjög kelinn og hinn frekar styggur. Kötturinn sem átti að vera gæfur, settist upp í glugga hjá okkur og sat þar í heilan sólarhring, án þess að borða eða pissa eða neitt. Daginn eftir var hann búinn að pissa smá á gólfið. Honum var nuddað upp úr pissinu og héldum við að vandinn væri leystur, en daginn eftir var hann búin að pissa allt út í einu horninu og lá svo sjálfur í sínu eigin hlandi. Honum var hent út og hefur ekki sést síðan. Hann var greinilega eitthvað skrýtinn, en auðvitað er ekkert gaman að týna kisunni svona. Hinn kötturinn virðist vera að aðlagast ágætlega. Hann og læðan okkar eru nú ekkert ofurgóðir vinir, en það hlýtur að koma. Vvandið höfum svo líka verið í vandræðum með kanínurnar. Þær hafa verið að týnast. Sennilega hefur refur eða eitthvað dýr hoppað yfir girðinguna og hirt þær. Það sést hvorki tangur né tetur eftir af þeim. Svo í staðinn fyrir að hafa 6 kanínur eru núna eftir 3. Við erum búin að breiða net yfir girðinguna hjá þeim og það virðist halda óargadýrunum frá, allavega ennþá.Vonum það gangi upp.
Á föstudaginn var farið og sótt lambakjöt hjá bóndanum sem við verslum af. Það ætti því að vera nóg til af lambakjöti næstu mánuðina. Á laugardaginn var farið í sund um morguninn og eftir hádegi fórum við í heimsókn til vina okkar í Sönderborg. Þau voru líka að fá lambakjöt, svo við renndum með það til þeirra. Í morgun var svo farið á stóran markað hérna rétt hjá. Bóndinn er búin að slíta upp klossunum sínum og búin að bíða allt sumarið eftir að komast á markaðinn og kaupa nýja. Það var algjör fýluferð, því þeir áttu ekki skó í hans stærð. En Auður Elín fékk að prófa nokkur tívolítæki og var hæstánægð. Eftir hádegi var svo farið í afmæli hjá Maju Elísabet í Kolding. Það var mjög fínt. Þannig að það má segja að við höfum ekki legið í sófanum þessa helgina! :)
Jæja best að prófa sófann
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2012 | 11:52
Fastir liðir eins og venjulega
Kæru bloggvinir
þá er lífið að færast í samt horf aftur eftir annasamt sumar. Það þýðir nú ekki að við sitjum með hendur í skauti. Það er nú víst lítil hætta á því.
Auður Elín er orðin sáttari í leikskólanum, en er búin að vera voða dugleg að pissa í buxurnar í síðustu viku. Það er erfitt að segja hvort það sé út af einhverju í leikskólanum, eða út af einhverju öðru. En það er nú eitthvað að lagst aftur, svo við vonum að þetta hafi bara verið út af því að hún gleymdi sér. Hún er búin að læra að telja upp á 10. En ruglast nú ennþá smá. Í gær byrjaði sundið aftur og henni þótti það nú alls ekki leiðilegt. Var hoppandi og skoppandi út um allt eins og brjálæðingur.
Í dag er svo Guðný, Óli og Arndís í heimsókn. Auður var alveg að rifna úr spenningu yfir því í morgun. Þær eru búnar að vera eins og venjulega bæði óvinir og vinir. En jafna sig nú yfirleitt fljótt. Karlanir eru að laga ryð í bílunum og bletta það. Það er nú búið að standa til lengi, en sennilega verið eitt af þeim verkefnum sem hefur verið látið sitja á hakanum.
Þeir eru að spá einhverri voða blíðu hér á morgun, það hefur annars verið frekar vætusamt hér síðustu viku.
Frúnni er nú farið að hlakka töluvert til að hætta að vinna. Það er ansi erfitt að vera í vinnu svona langt í burtu og svo að vera með eitt barn heima. En þetta er nú að styttast. Það er stefnt á að hætta að vinna eftir 6 vikur. Þær verða nú væntanlega fljótar að líða.
Bóndinn og ungfrúin eru í fríi á morgun og ætla að keyra ömmu á flugvöllinn. Þá er gestagangurinn búinn í bili. Enda búin að vera ansi löng vertíð.
Jæja best að láta þetta nægja í bili
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2012 | 10:54
Haustverkin hafin
Kæru bloggvinir
Þá er haustið víst mætt á svæðið. Það er ennþá ágætlega heitt á daginn, en frekar kalt á nóttunni og á morgnana. Það er greinilega haust í lofti.
Bóndinn réðist í það í gær að mála skúrinn sem hann var að klæða í sumar. Það náðist ekki alveg að klára það, þar sem málningin kláraðist. Sumt af timbrinu sem er á skúrnum er mjög gamalt og sýgur alveg rosalega mikla málningu í sig. En það versta er allavega búið.
Bóndinn er búinn að setja inn myndir af hinu og þessu. Endilega kíkið á það. Frúin dreif í að taka upp kartöflurnar í gær. Það var nú ekki mikið eftir, en frúin komst að því að þetta var pínu erfitt þegar maður er óléttur. Það endaði því með því að hún sat á rassgatinu og tók upp. Það voru víst líka teknar myndir af þeim adförum. Það er ekki ví st að frúin sé mjög stolt af því, en gott að vera búin að þessu. Uppskeran var nú ekkert gríðarleg, en þær kartöflur sem við fengum voru mjög fínar.
Í morgun var okkur svo boðið í morgunkaffi hjá vinafólki okkar. Þau er líka búin að lofa að passa Auði þegar við förum á fæðingardeildina. Þau eru alltaf heims, svo þau geta tekið hana hvenær sem er sólarhringsins.
Nú eru flest stórverkefni sumarsins að verða búin, en það er nú mjög líklegt að bóndinn finni eitthvað að gera. Hann fer varla að sitja aðgerðalaus.
Auður Elín er að verða meira örugg og ánægð í leikskólanum. Hún virðist bara þurfa tíma til að venja sig við þetta. þau fóru með strætó til Ribe á föstudaginn og það var víst rosalega mikið sport. Hún hefur aldrei farið í svona stóra rútu, bara lest og flugvél.
Planið er svo að slappa af í dag, af því það hefur nú nánast ekki gerst í langan tíma.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.8.2012 | 11:22
Nýjar myndir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2012 | 12:23
Bæjarhátíð
Kæru bloggvinir
hér hefur rignt eldi og brennisteini mestalla helgina. Það er því búið að vera ansi vætusamt á bæjarhátíðinni. Það virðist nú eitthvað vera að rofa til núna, en það er spurning hversu lengi það helst.
Bóndinn er búinn að vera að undirbúa þetta flest kvöld í síðustu viku og svo er ýmislegt búið að vera í gangi síðustu daga. Það er nú mjög misjafnt hversu vel það er sótt og sérstaklega hefur vantað fólk þegar mest hefur rignt. En það er svo sem ekki við öðru að búast.
Í gær komu Óli og Guðný og Arndís og við vorum eiginlega allan daginn niður á íþróttavelli. Þær stöllur urðu algjörlega gegndrepa, en það virtist nú ekki mikið há þeim. Við grilluðum svo þarna niður frá í gær. Auður var á fullu bæði föstudag og laugardag og var algjörlega búin á því á kvöldin. Það tók hana örugglega ekki meira en 5 mínútur að sofna. En henni hefur fundist þetta rosa skemmtilegt og verið dugleg að leika við krakkana.
Föðuramma hennar kom í heimsókn í vikunni og það hefur ungfrúnni ekki þótt mjög leiðilegt. Það var ömmu og afadagur í leikskólanum á föstudaginn, svo amman var dregin með að sækja dömuna og hún fékk að sjá stofuna henner og svoleiðis. Það er náttúrlega voða sniðugt að hafa svona, en leiðilegt fyrir þau börn sem annaðhvort ekki eiga ömmu og afa í nágrenninu eða hafa ekki samband við þau. En Dönunum finnst þetta rosalega sniðugt.
Við létum verða af því að kaupa okkur nýja myndavél í afmælisgjöf. Sú sem við áttum fyrir var orðin 9 ára gömul og eiginlega búín að gera skyldu sína. Skjárinn á henni var líka orðinn svo lítill að bóndinn var eiginlega hættur að sjá á hann. Það er eitthvað búið að vera að taka myndir, en þær eru ekki komnar lengra.
Það er strax farið að koma gras í bakgarðinn, sem við sáðum í um daginn. Það hefur allavega ekki þurft að vökva mikið, eins og það hefur rignt undanfarið. Það hefur samt verið nokkuð hlýtt.
Jæja best að láta þetta nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2012 | 08:35
Sumarið lætur sjá sig
Kæru bloggvinir
hér hefur sumarið eitthvað verið að sýna sig í gær og í dag. Það er brjáluð blíða og við erum búin að vera að pæla í því í allan morgun, hvernig eigi að nýta daginn. Eftir ansi annasama mánuði hefur verið ákveðið að taka því rólega. Spurning hvort það takist.
Í gær var heldur betur tekið á því hér í bakgarðinum. Gummi fékk hjálp frá nágrannanum og Óla. Svo var ráðist í að fræsa upp garðinn. Það var ótrúlega mikið rusl sem kom upp. Það virðist vera endalaust rusl í jörðinni hérna. Það kemur manni svo sem ekkert a óvart lengur. En nágrönnum okkar fannst þetta nú full mikið af því góða. Nú eru þeir félagar búnir að fræsa, sá grasfræi og valta yfir. Nú er svo verið að vökva. Það er spennandi að sjá hvort það kemur eitthvað grasfræ upp úr þessu.
Ungfrúin er búin að vera á fullu í leikskólanum þessa viku. Hún var nú ansi þreytt í gær og eftir sig eftir vikuna. Þetta reynir tölivert á að venjast öllu þessu nýja. En hún virðist nú vera orðinn sáttari við þetta allt saman.
Bóndinn átti afmæli í vikunni og er planið að fara út að borða í dag í tilefni þess. Það var ekki tími til þess í síðustu viku.
Annars er lífið nú bara að færast í samt horf aftur eftir sumarfrí. Í næstu viku kemur svo tengdó. Hún lendir um miðja nótt, svo bóndinn er búin að fá frí í vinnunni daginn eftir. Annars væri hann nú ekki upp á mikla fiska. Við erum svo heppin að hafa ömmu á staðnum, því á föstudaginn er ömmu og afadagur í leikskólanum. Þá eiga börnin að koma með ömmu sína og afa og það er einhver dagskrá. Þetta er náttúrlega sniðugt, en samt frekar leiðilegt, fyrir þau börn sem annað hvort ekki eiga ömmu og afa eða eiga ömmu og afa sem búa langt í burtu. Við sjáum til hvort Helga amma er fáanleg tli að taka þátt í þessu. Það er ekki víst að við verðum svo heppin að hafa ömmu til að taka þátt í þessu næstu árin.
Það voru teknar einhverjar myndir af framkvæmdunum í gær. Það verður að reyna að koma þeim í tölvutækt form fljótlega.
Jæja ætli sé ekki best að fara að viðra sig
KVeðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2012 | 18:18
jarðvinna
Kæru bloggvinir
þá er enn á ný kominn sunnudagur og fyrstu vinnuviku frúarinnar eftir frí er lokið. Ungfrúin er búin að vera heila viku á leikskólanum og það hefur nú bara gengið ágætlega. Hún er nú ennþá pínu lítil í sér þegar maður skilar henni af sér en er víst mjög ánægð þegar hún er hjá þeim. Það var eitthvað jólaþema í bænum á föstudaginn og hún var nú eitthvað undrandi á að það væri jólasveinn um mitt sumar.
Í gær var aldeilis tekið til hendinni í garðinum hér á bak við. Nágranninn hjálpaði til, og þeir leigðu hjólaskóflu til að jafna þetta allt út. Sá sem við vorum búin að fá til að gera þetta hefur ekki sést síðan í vor, svo við erum búin að gefast upp á að biða. Nú þarf svo að leigja fræsara og sá svo grasi. Það á að ráðast í það næstu helgi. Þegar við vorum búin að þessu hjálpuðum við til við að henda helling af brennivið upp á vagn.
Með sólinni hefur komið hellingur af flugum sem er alveg að gera mann geðveikan. Þær geta hvergi annars staðar verið en á manni. Það er ekki hægt að sofa fyrir þessu.
Í morgun keyrðum við svo til vina okkar í Sönderborg og fórum á´ströndina, það var mjög gott veður. Stelpurnar skemmtu sér konunglega við að busla í sjónum og vesenast eitthvað. Það var nú eitthvað erfiðara að vera sammála þegar heim var komið. En Auður vildi alls ekki fara heim, svo alslæmt hefur þetta ekki verið.
Þeir eru að spá einhverri rosa blíðu í næstu viku. Það er auðvitað týpískt þegar maður er farin að vinna á fullu aftur. Bóndinn þarf að fara keyra meira seinnipartinn, en það er sem betur fer bara tvo daga í viku til að byrja með. Svo þetta reddast allt. Þegar frúin fer í barneignafrí breytist þetta eitthvað aftur.
Jæja ætli þetta sé ekki komið gott í bili.
Kveðja
GUmmi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)