Sól í heiði

Kæru bloggvinir
hér skín sólin í dag. En í gær mígrigndi mestallan daginn. Það er búið að vera ansi blandað veður síðustu vikuna. En maður er nú svo sem ánægður þegar það sést aðeins til sólar.

Það er auðvitað búið að nýta tímann vel síðustu viku. Bóndinn hefur bara verið að vinna á morgnana og svo seinnipartinn, svo maður hefur nýtt tímann miðjuna úr deginum. Auður fór í smá heimsókn á leikskólann á þriðjudaginn. Henni leist nú bara mjög vel á, en fannst þetta nú samt eitthvað skrýtið. Á miðvikudaginn var hún svo skilin eftir í nokkra tíma. Það gekk stórslysalaust. Hún var svo aðeins lengur fimmtudag og föstudag. Hún er nú ennþá pínu óörugg, og heldur sig nálægt starfsfólkinu. Á morgun byrjar frúin svo að vinna aftur og ungfrúin þarf að vera heilan dag á leikskólanum. En það á nú örugglega eftir að ganga fínt. Starfsfólkið virkar mjög almennilegt, svo við vonum það haldist bara. Það eru ennþá mjög margir krakkar í sumarfríi, svo það er nú frekar rólegt þarna núna. Það er fínt, svona til að byrja með.

Í gær voru Gummi og Óli vinur hans allan daginn að vinna í að klára að setja þakið á skúrinn og kláruðu það og settu líka upp útidyraljós. Aldeilis munur að hafa loksins almennilega lýsingu hér fyrir utan. Það er líka rosa munur eftir þeir löguðu skúrinn og settu nýja hurð. Bóndinn setur kannski nýjar myndir af herlegheitunum inn fljótlega. Auður hafði leikfélaga í allan gærdag og er því alveg búin á því í dag. Þær stöllur voru voða duglegar að leika sér saman. Það slettist nú samt eitthvað upp á vinskapinn nokkrum sinnum, en ekkert alvarlegt. Þeim tókst að krota á vegginn inni hjá ungfrúnni, við mikla hrifningu móðurinnar.

Stefnan er svo að taka því rólega það sem eftir er dags. Ekki seinna vænna en að taka því rólega, svona rétt áður en hversdagsleikinn bankar upp á aftur.

Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín


Bongóblíða

Kæru bloggvinir
hér hafa verið nokkrir frábærir sólardagar undanfarið. En í dag og í gær hefur nú verið skýjað og þeir spá því eitthvað áfram. Það er búið að nýta vel sólina og gera ýmislegt skemmtilegt. Á fimmtudaginn fórum við til vina okkar í Sönderborg og fórum á ströndina, Auður var alveg að fíla það í botn og sofnaði nánast um leið og hún lagðist á koddann um kvöldið. Í gær var farið með vinum okkar í leikjagarð í Þýskalandi. Þar voru alls konar leiktæki og Auður og Arndís voru alveg á útopnu. Í dag eru bóndinn og Óli vinur hans svo að smíða umgjörð fyrir nýja hurð á geymsluna. Við þurfum svo að kaupa þakplötur á það og svo ætti það að halda vatni og vindum. Fyrir utan nú að þetta lítur mun betur út þegar það er búið að lappa upp á þetta.
Auður verður örugglega alveg ómöguleg þegar hún verður bara ein með mömmu sinni og pabba á morgun með engan að leika við. Hún byrjar svo í leikskólanum á miðvikudaginn. Það verður nú spennandi að vita hvernig það gengur. Hún hitti gömlu dagmömmuna sína í vikunni og það voru nú fagnaðarfundir. Hún er sennilega ekki búin að fatta alveg að hún á ekki að vera hjá henni meira.
Það er búið að ná að gera margt af því sem var á dagskránni í fríinu, En það er nú alltaf eitthvað eftir. Við verðum senilega seint atvinnulaus hérna í sveitinni.

Það var auglýst grillkvöld hér í Tiset á fimmtudaginn. Við héldum þetta væri svona kvöld, þar sem maður kemur með mat og grillar á stóru grilli. Þegar við komum á staðinn var þetta mest eldra fólkið í bænum sem var að spila einhverja boltaleiki og svo átti að grilla pylsur seint um kvöldið. Við létum okkur því bara hverfa aftur, því Auður þurfti að fara í rúmið.

Elli er farinn frá okkur. Hann hefur verið rosa duglegur að hjálpa pabba sínum. Enginn smá munur að fá svona hjálp. Það er ansi tómlegt núna þegar hann er farinn.
Bóndinn er svo að byrja að vinna aftur á morgun, en frúin verður heima í næstu viku til að geta vanið Auði á leikskólann.

Frúin fór í skoðun hjá ljósmóður í síðustu viku. Hún fékk svo sem ekki mikið út úr því annað en að þetta var allt eðlilegt. Næsta skoðun er svo eftir 4 vikur. Frúin komst að því að fæðingardeildin sem hún ætlaði að fæða er að loka, svo hún þarf að finna sér annan stað að fæða á. Það þýðir auðvitað að maður þarf að keyra minnst í 45 mínútur til að komast á sjúkrahús. Í staðinn fyrir að keyra í hálftíma. Það þarf því að finna út úr því hvert maður á að fara. Allavega gott að hafa tíma til að pæla í því, í staðinn fyrir að komast að því þegar maður á að fæða. En við þurfum auðvitað líka að pæla í að hafa einhvern til að passa Auði. Ef maður þarf að fara á sjúkrahúsið um miðjan virkan dag, þá er fólk náttúrlega í vinnu. En við verðum eitthvað að reyna að finna út úr því.

Jæja best að fara að sinna gestunum.

kveðja
Gummi, Ragga og AUður Elín


Sólin sýnir sig

KÆru bloggvinir

þá er runninn upp sólríkur sunnudagur. Það er nú eitthvað smá skýjað á köflum, en við erum bara sátt ef hann hangir þurr. Það er búið að vera sæmilegt veður hér siðustu viku. Ekki mjög mikil rigning. Það hefur allavega verið reynt að drífa sig út alla daga.

Karlarnir eru búnir að vera á fullu alla vikuna. Þeir klæddu brenniskúrinn með bárujárni og það er enginn smá munur. Síðan réðust þeir í að tæma loftið inn í geymslu. Loftið var hrunið undan öllu draslinu sem var þarna uppi. Þetta var þvílíkt ógeðslegt. Allt fullt af hálmi og ryki. Þeir fóru víst ekki færri en 7 ferðir á haugana með stútfulla kerrur. Nú er búið að setja upp ljós þarna úti og hreinsa hressilega til, svo það er möguleiki að nota geymsluna eitthvað.
Bóndinn er svo búinn að vera að henda inn fullt af myndum frá hinum ýmsu atburðum. Það var víst orðið ansi langt síðan það var gert. Svo endilega kíkið á það.
Næst á dagskrá er víst bara að klára að klæða skúrinn og ganga frá ýmsu smáræði. Elli greyið verður nú að fá að slaka eitthvað á líka.

Á föstudaginn fengum við vini okkar, Óla og Guðný í heimsókn og Auður var ekkert smá ánægð að hitta dóttur þeirra, hana Arndísi . Hún var nú eitthvað harðhent við hana, en þær voru nú ekki lengi að sættast. Arndís vildi allavega alls ekki fara heim og Auður Elín hefur ekki talað um annað en að heimsækja hana síðan. Svo þetta hefur nú sennilega ekki verið mjög slæmt. Í gær var svo bara slakað á, ég held það hafi ekki gerst i marga mánuði að við höfum legið í leti í næstum heilan dag. Í morgun var svo ákveðið að skella sér í sund. Við fórum í aðra laug en venjulega og í byrjun var Auður Elín nú eitthvað óhress, en svo jafnaði hún sig og vildi alls ekki fara heim aftur. Þessi sundlaug er mun barnavænni en hin sem við erum vön að fara í, svo það var gaman að prófa.

Frúin kastaði sér út í að prófa að nota rabarbarann í eitthvað annað en sultu. Hún bjó til einhverja rabarbaraböku og hún var bara alveg ljómandi góð. Grænmetið í garðinum hefur tekið vel við sér undanfarið og kartöflurnar eru orðnar vel stórar. Rófurnar og gulræturnar hafa líka tekist mun betur í ár en á síðasta ári.

Veðurspáin lítur vel út fyrir næstu viku, svo við vonum það gangi eftir.

Kveðja
Gummi og gengið


Túristar

Kæru bloggvinir

þá er fyrsta vika í sumarfríi búin. Það er búið að vera nóg að gera með að keyra um landið og sýna gestunum hitt og þetta. Við erum búin að skoða ýmsa staði og fara í búðir. Veðrið hefur nú ekkert verið neitt sérstaklega gott, þó að gestirnir hafi lofað að koma með góða veðrið með sér frá Íslandi.
Í gær fórum við í stórt fiskasafn í Esbjerg. Auður Elín var alveg á útopnu að skoða alla þessa fiska. Maður gat snert skötu og Auði fannst það alveg rosalega spennandi. Svo sá hún líka seli sem fengu mat. Hún var algjörlega búin á því þegar við vorum búin að kíkja á þetta allt.
Í dag fórum við svo í langa ökuferð og skoðuðum herminjasafn og ýmislegt fleira. Það heufr nú verið ágætis veður í dag. En það er ekkert sumar í kortunum, svo sennilega verður þetta svona eitthvað áfram.

Auður er alltaf að pæla í hvenær hún á að fara í leikskólann. Hún skilur víst ekki alveg að maður þarf að vera í sumarfríi. Hún hefur verið nokkuð sátt við nýja rúmið, en er hins vegar farin að koma upp í hjá okkur á hverri nóttu. Það þarf að taka á þessu næstu vikurnar. Hún hefur nú verið mishrifin af þessum flækingi á okkur, en oftast er hún nú mjög ánægð. Hún var óskaplega hrifin af Braga frænda, þangað til Elli bróðir kom, þá var hann aðalstjarnan og er enn. Hún sér ekki sólina fyrir honum. Það verður ekki gaman þegar hann fer heim. En þá er stutt hún fari í leikskólann, svo það verður nóg að gera hjá henni.
Það væri nú mjög gott ef það héngi eitthvað þurrt meðan Elli er hér, því það þarf að mála skúrinn og klæða brenniskúrinn að utan. Það er alltaf nóg að gera hér í sveitinni.

Bragi og Gunna fara heim á morgun, svo þá verður nú ansi tómlegt í kotinu, en Elli verður lengur, svo þetta verður ekki eins slæmt. Það á að nýta veðurblíðuna í dag og grilla. Karlarnir hafa annars grillað í rigningunni, men hafa bara staðið undir sólhlífinni. Sólhlífin hefur því fengið nýtt hlutverk, sem regnhlíf! :) Dönunum finnst við örugglega rugluð að standa í þessu.

Jæja ætli þetta sé ekki komið gott í bili.

Kveðja
Tisetgengið


Sól og sumarfrí

Kæru bloggvinir

þá er maður kominn í sumarfrí og sólin skín, allavega á köflum. Við biðjum nú ekkert um meira. Það hefur verið alveg prýðilegt veður um helgina. Í gær fórum við í svaka leiðangur. Við þurftum að skila vinnubíl bóndans, svo hann þurfti að fara á´einn stað. Svo keyrðum við til Þýskalands að sækja gos og kanínufóður og svo enduðum við í heimsókn hjá íslensku vinum okkar sem eru nýflutt til Sönderborg. Þar var heldur betur fjör. EKki minnst fyrir Auði Elínu, því hún gat leikið við dóttur þeirra sem er ári eldri. Þeim kemur alveg ótrúlega vel saman. Auðvitað slettist eitthvað upp á vinskapinn, en það er nú ekki við öðru að búast.

Við fórum á markað og í tívolí og það vakti nú mikla lukku. Dömurnar fengu líka að fara á hestbak. Svo það var algjörlega uppgefin ung stúlka sem fór í rúmið í gærkvöldi. Hún svaf líka lengi í morgun. Svo eitthvað hefur þetta nú tekið á. Auður vildi strax fara aftur í heimsókn í dag. En það er nú ekkert á dagskránni. Þau búa ca. 70 km héðan, svo maður skreppur nú ekkert bara í heimsókn. En voða gott fyrir hana að hafa einhvern leikfélaga.

Síðasti dagurinn hjá dagmömmunni var á fimmtudaginn. Hún var leyst út með fullt af gjöfum. Þetta verður nú voða skrýtið, ekki að fara þangað eftir sumarfrí. AUður er alltaf að tala um leikskólann. Það verður spennandi að sjá hvernig hún bregst við þegar hún svo loksins byrjar í byrjun ágúst.

Annars er nú bara verið að slaka aðeins á í dag, það verður að búa sig undir næstu gestalotu. Bragi og Gunna koma á morgun og svo kemur Elli Jón á fimmtudaginn. Það er nú ýmislegt sem á að gera í sumarfríinu, svona eins og venjulega. Það verður að koma í ljós hversu mikið við náum að koma í verk. Við vonum allavega við fáum sæmilegt veður. OKkur finnst nú alveg tími kominn á að við fáum smá sól eftir þetta hundleiðilega vor. 

Jæja látum þetta gott heita í bili. Það verður kannski hent inn einhverjum myndum fljótlega

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Tiset bed and breakfast

Kæru bloggvinir

Það hefur nú aðeins sést til sólar hér um helgina og verið bara ágætlega hlýtt. Við vonum að það sé eitthvað að rætast úr veðrinu. Það væri allavega ágætt að fá eitthvað betra veður þegar við förum í sumarfrí. Nú er bara eftir að vinna í eina viku og svo er maður komin í frí.

Sumarfrí þýðir líka að það fara að koma gestir í stríðum straumum. Bragi og Gunna koma næsta mánudag og svo kemur Elli líka í næstu viku. Það var ráðist í að taka til á loftinu í morgun, svo gestirnir fengju ekki áfall yfir öllu draslinu. Þetta er orðið boðlegt núna. Það er líka eins gott að það hlýni eitthvað því annars er ansi kalt að liggja þarna uppi.

Við fórum í leiðangur í síðustu viku og keyptum notað rúm handa Auði Elínu. Þetta er svona pínu hátt, en hún hlýtur að geta vanist því. Það á að reyna að venja hana á að sofna sjálfa, í sumarfríinu. Það verður nú spennandi hvernig það á eftir að ganga. Henni á allavega örugglega eftir að þykja gaman að leika sér undir rúminu.

Bóndinn á að keyra bæjarstrætó í næstu viku. Það verður nú spennandi. Þeir töldu nú óþarfa að kenna honum á leiðarnar. Hann gæti bara spurt farþegana, hvert hann ætti að fara. Hann fékk nú í gegn með hörku að fá einhverjar leiðbeiningar, svo þetta ætti að ganga upp.

Í gær réðst bóndinn í að skera upp rabarbarann. Hann hefur þvílíkt tekið við sér. Við skárum ekki allt, en þetta voru samt rúmlega 5 kíló. Svo er líka búið að taka upp nokkrar kartöflur og vorlauk. Kartöflurnar eru nú ennþá smáar, en mjög bragðgóðar. Við höfum víst sett þær of þétt, en við sjáum til hvernig þetta kemur út. Það er voða huggulegt að geta farið út í garð og tekið upp í matinn og það liggur ekki mikil vinna í að hugsa um þetta. Restin af hekkinu var líka klippt niður, svo nú lítur þetta allt saman orðið betur út.

Svo er þetta síðasta vikan hennar Auðar hjá dagmömmunni. Það verður nú skrýtið að fara ekki með hana þangað eftir sumarfrí. Auður er sjálf alveg tilbúin í að fara í leikskólann. Hún er mjög spennt yfir þessu og talar oft um það. Vonandi bara að það gangi jafn vel þegar á hólminn er kominn. Hún var í fríi hjá dagmömmunni á fimmtudaginn og þá fórum við á fund hjá leikskólanum. Þetta leit mjög vel út. Mjög stór garður fyrir börnin og svo eru þau með hænur. Sama dag fór frúin svo með dótturina í 3 ára skoðun. Hún stóðst víst allar kröfur og er töluvert hærri en jafnaldrar sínir, 103 cn og 15 kg. Það var engin sprauta í þetta skiptið, sem betur fer. Það verður í næstu skoðun þegar hún verður 4 ára.

Jæja ætli maður ætti ekki að reyna að nýta sér að það er ekki ausandi rigning og fara út í góða veðrið.

Kveðja
Tisetgengið


Tiltekt

Kæru bloggvinir

Eins og venjulega er rigning hér hjá okkur. Það er búið að rigna mestalla helgina. En það voru nokkrir ágætir dagar í síðustu viku. Maður nýtur þess bara ekki þegar maður er ekki í fríi.

Annars er ansi tómlegt hérna núna. Helga og Kristín Júlía fóru heim til Íslands á fimmtudaginn. Auður er búin að vera að tala um að hún vilji fara að fljúga síðan. Hún skilur ekkert í því að við erum ekki til í að senda hana eina til Íslands.

Rigningartíðin hefur verið nýtt til að taka til. Við þurftum að flytja Auði aftur inn í sitt herbergi og svo urðum við að kaupa nýja tölvu, af því hin var að gefa upp öndina. VIð keyptum fartölvu og þurfum því ekki að hafa tölvuborð og stól hérna inni í stofu. Það var engin smá munur að losna við þetta. Tölvuborðið og stóllinn fékk að fjúka á haugana, enda búið að endast ansi vel. Það ætti að verða auðveldara að þrífa í kringum sig núna. Svo er eftir að ráðast í að taka til uppi á lofti. Það er einhvern veginn þannig að draslinu er bara hent þar upp og svo er ekki tekið til. En nú þarf að fara að gera eitthvað í þessu áður en næstu gestir koma. Það eru nú alveg 3 vikur í það.

Auður er alveg að tapa sér í sjálfstæðisbaráttu. Hún vill gera allt sjálf og maður má helst ekki koma nálægt henni. Henni gengur voða vel að vera bleiulaus. Hún sefur ennþá með bleiu og auðvitað gerast stundum slys, en samt ótrúlega lítið. Hún skildi ekkert í því að hún átti að fara að sofa í sínu herbergi í gær og var sennilega ekki eins hrifin og við fullorðna fólkið. Hún neitar að láta lesa fyrir sig núna. Hún situr sjálf, flettir bókum og blaðrar eitthvað. Bóndinn þarf að setja inn myndir og video af henni á næstu dögum. Auður þarf að vera heima á morgun og á fimmtudaginn af því að dagmamman er í fríi. Henni finnst það nú örugglega ekkert spennandi að þurfa að hanga með okkur. Við förum oft með hana niður á leikvöllinn hérna rétt hjá, en á föstudaginn réðust hundarnir á horninu á fullorðna konu og bitu hana. Sem betur fer kom einhver að þessu og gat bjargað henni. Hún slasaðist sem betur fer ekkert alvarlega. En við ætlum allavega ekki að hætta á að þeir hoppi aftur yfir girðinguna og bíti okkur. Vonandi verður þeim lógað. Það er nú samt ólíklegt.

Við skelltum okkur í sund í morgun. Auður elskar að synda, svo við erum að reyna að fara svona nokkrum sinnum. Það er bara mjög dýrt að fara í sund hérna, af því það er svo dýrt að hita vatnið.

Jæja man ekki meira í bili

kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín


Afmælishelgi

Kæru bloggvinir

gleðilegan þjóðhátíðardag. Hér hefur nú verið heldur betur verið tekið á því í veisluhöldum um helgina. Við héldum nú ekkert upp á þjóðhátíðardaginn, en það voru settar út íslenskar veifur í tilefni afmælis ungfrúarinnar. Það verður látið duga í ár.

Veisluhöldin byrjuðu á föstudaginn þegar við grilluðum fyrir íslensku vini okkar, sem voru að fara í frí til Íslands í gær, og gátu því ekki verið með í dag. Í gær komu svo kunningjar okkar í morgunkaffi, þau voru líka upptekin í dag. Í dag kom svo restin af fólkinu. Auður er ekkert mjög ósátt við að fá pakka 3 daga í röð. Hún hefur tekið þessu ótrúlega vel og er búin að vera í rosa stuði. Það komu nokkrar stelpur í afmælið hjá henni í dag og þær léku sér nánast alveg án vandræða. Það var ekkert hægt að vera úti, af því það rigndi töluvert. Það er alveg spurning um að næsta afmæli verði annaðhvort haldið í tjaldi úti í garði, eða í samkomuhúsinu hérna í bænum. Það er ekki nóg pláss fyrir allt þetta fólk, ef það á að koma sama daginn. Á morgun verður svo fjórði dagur í afmæli, því þá heldur dagmamman smá afmælisveislu fyrir hana og hin börnin. Hún ætti að vera búin að fá nóg af veisluhaldi eftir þetta allt saman. Foreldrarnir eru allavega orðnir lúnir eftir öll þessi veisluhöld. 

Auður er orðin voða dugleg að vera bleiulaus. Við höfum verið að reyna nokkuð lengi, en hún hefur sennilega bara ekki verið tilbúin. Þetta er allavega farið að ganga stórslysalaust. Það er aðallega þegar hún er úti að hún gleymir að pissa. Eða þegar hún er upptekin af að leika sér. Hún er orðin voða hrifin af að leika með dúkkurnar sínar. Hún hefur aldrei viljað sofa með dúkkur eða bangsa, en núna sefur hún alltaf með dúkku. Hún getur helst ekki farið út úr húsi án þess að vera með dúkku. Hún vill nú ekki skíra hana og þær mega ekki vera í fötum.

Það er farið að styttast í að við komumst í sumarfrí. Þurfum að vinna 3 vikur og svo er maður kominn í 3.vikna sumarfrí. Það verður nú ekki lengi tómt hérna á hótelinu hjá okkur. Helga og Kristín Júlía fara heim á fimmtudaginn, og svo verður pása í 3 vikur. Þá kemur bróðir Gumma og konan hans og Elli Jón kemur líka á svipuðum tíma. Þeim verður öllum hent upp á loft. Það er nú bara hálf kalt þar uppi, þó það sé komið sumar. Við erum ennþá að kynda húsið, sem er mjög óvanalegt. Það er vonandi að sumarið láti sjá sig þegar við förum í frí.

Kartöflugrösin hjá okkur rjúka upp. VIð fengum að vita hjá einum kunningja okkar að við hefðum sett þau of þétt niður, en við verðum að sjá til, hvað kemur út úr þessu. Við verðum þá bara að hafa meira bil á milli á næsta ári. Maður lærir bara af þessu. Þetta er nú ekki svo stór garður að það sé neitt mikið í húfi ef þetta misheppnast. Rófugrösin eru meira að segja líka farin að taka kipp, þau komust aldrei almennilega í gang á síðasta ári.

Jæja ætli sé ekki best að reyna að fleygja sér í sófann smástund.

Kveðja

Gummi, Ragga og gengið


Grillpartý

Kæru bloggvinir

Hér er ennþá bara leiðindaveður, skýjað og rigning svona á köflum.Við erum orðin ansi langeygð eftir að fá almennilegt sumar. Við erum nú samt ekki búin að missa vonina ennþá. Það er þó eitt jákvætt við þessa vætu. Kartöflugrösin hafa rokið upp, það er vonandi góð spretta undir þeim líka.

Það hefur verið mikið að gera í íþróttafélaginu um helgina. Á föstudagskvöldið var grill fyrir bæjarbúana. Það var mjög vel mætt og ágætis veður, til tilbreytingar. Auður hitti nokkra vini sína frá dagmömmunni og fannst það auðvitað mjög skemmtilegt. Gamla fólkið í bænum varð alveg dauðadrukkið og var víst í vandræðum með að komast heim Í morgun var svo verið að vinna á leiksvæðinu og hreinsa til. Það er nú ekkert venjulega erfitt að finna tíma, ef á að gera eitthvað saman. Fólk virðist vera alveg gríðarlega upptekið.

Við vorum svo heppin að fá notað rúm fyrir Auði Elínu. Hún þarf að fara að sofa í stærra rúmi. Við erum búin að fá svona rúm, sem er pínu hátt og með geymslu undir. Það verður nú spennandi að sjá hvort hún vill sofa í því. En það verður ekkert sett upp fyrr en Helga Rut er farin heim.

Það er nóg að gera í fundahaldi hjá bóndanum. Hann er að fara á fund í íþróttafélaginu á morgun og svo aðalfundur í vinnunni hjá honum á þriðjudaginn. Danir eru óskaplega hrifnir af að halda fundi um allt mögulegt.

Það er loksins búið að fá nýtt batterí í videóvélina, svo við erum að reyna að muna að taka video. Frúin tók video af ungfrúnni um daginn, þegar hún var að syngja með pabba sínum. Hún var nú eitthvað feimin við myndavélina og byrjaði að vera með einhver kjánalæti. Kannski hún venjist þessu.

Jæja það er víst lítið annað að frétta héðan

kveðja

Tisetgengið


Storkurinn kemur til Tiset

Kæru bloggvinir

Héðan er allt gott að frétta. Það hefur kólnað í veðri aftur, við vorum búin að slökkva á kyndingunni í húsinu, en neyddumst til að kveikja á henni aftur, því það var svo kalt hérna á nóttinni. Það er vonandi að við fáum bráðum eitthvað meira sumar. Af fréttum að dæma heiman frá Íslandi er veðurblíðan hjá ykkur. Þið megið alveg senda okkur smá þegar þið eruð búin að nota hana.

Annars eru nú sennilega stærstu fréttirnar héðan þær að storkurinn er væntanlegur til Tiset í byrjun desember. Við vildum ekkert segja frá þessu fyrr en við værum búin að fara í sónar eftir 12 vikur. Við fórum í það á föstudaginn. Við þurftum að keyra alla leið til Sönderborg, sem er klukkutíma keyrsla. Þeir vildu endilega láta lækni kíkja á frúnna, við vitum eiginlega ekki af hverju, kannski bara af því hún er orðin svo gömul. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, en frúin fékk að vita að hún ætti að drekka 1/2 líter af vatni klukkutíma fyrir skoðun og mátti ekki pissa þvi. Það var nú allt í lagi, nema af því að það var rúmlega klukkutíma bið eftir að komast í skoðunina, svo frúin var búin að halda í sér í tvo tíma. Þegar hún svo loksins komst í skoðunina, þá var pissublaðran allt of full, svo ljósmóðirin sá ekki nógu vel. Svo frúin þurfti að pissa helmingnum af innihaldi blöðrunnar. Já einmitt, það er mjög auðvelt! :) En þetta gekk allt saman vel og krakkinn var mjög sprækur. Gat alls ekki verið kyrr, meðan það var verið að skoða hann. Snéri svo bara rassinum í okkur í lokin. Það er svo aftur skoðun eftir 6 vikur og svo er ekki fleiri sónarskoðanir, nema eitthvað sé að.

Annars hefur allt gengið sinn vanagang hér. Það verður nú erfitt að fara að vinna heila vinnuviku eftir alla þessa helgidagatörn undanfarið. En það er svo sem ekki langt þangað til við förum í sumarfrí, svo við hljótum að lifa þetta af. Bóndinn er byrjaður að smíða kanínubúr. Þau eru frekar dýr ef maður ætlar að kaupa það tilbúin, svo hann vill frekar reyna að smíða þetta sjálfur. Kartöflugrösin og grænmetið ríkur upp núna, eftir að sólin er farin að skína meira. En þetta virðist nú vera seinna á ferðinni en síðustu ár.

Næst á dagskrá er svo að undirbúa afmæli ungfrúarinnar. Það er stefnt á að halda upp á það þarnæstu helgi. Hún skilur sennilega ekki alveg út á hvað það gengur, en verður örugglega ánægð með athyglina og pakkana. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig hún tekur því að eignast lítið systkini. Hún er nú vön að vera mjög frek á mömmu sína, svo það verða mikil viðbrigði fyrir hana. En hún hlýtur að komast í gegnum þetta eins og öll önnur börn sem eignast systkini.

Svo fer nú að styttast í að Helga og Kristín Júlía fari til Íslands. Það verður nú voða skrýtið að hafa þær ekki hérna.

Jæja ætli sé ekki best að fara að koma einhverju í verk hér á bæ

Kveðja

Tisetgengið og bumbubúinn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband