27.5.2012 | 12:04
Sól, loksins sól
Kæru bloggvinir
þá er runninn upp hvítasunnudagur, bjartur og fagur. Það er búin að vera alveg rjómablíða hér síðustu vikuna og um helgina. Það var nú líka alveg komin tími á að maður fengi smá sumar.
Bóndinn er næstum búinn með skúrinn. Það vantar bara að kaupa fúavara á hann og svo er meiningin að fúaverja líka rólurnar og eitthvað annað smálegt. Þeir eru bara venjulega mjög dýrir svo við erum að bíða eftir að þeir komist á einhver tilboð. Bóndinn er búinn að fá einhvern mann til að koma og kíkja á bakgarðinn. Hann er búinn að eitra illgresið og ætlar að koma einhvern tíma á næstunni og slétta úr þarna á bak við. Það verður nú enginn smá munur. Þetta er hreinlega skammarlegt, hvernig þetta lítur út.
Í gær fórum við á markað hérna inn í Gram. Það var svo heitt og svo mikið af fólki að við drifum okkur fljótlega heim. Auður fékk að fara í nokkur tívolitæki, henni fannst það nú ekki leiðilegt. Hún fékk líka að fara á hestbak. Það er víst reiðskóli hérna rétt hjá og það kostar ekkert mjög mikið að vera í honum. En maður þarf að vera 4 ára, svo það verður að bíða þar til á næsta ári. Eftir allt þetta fórum við heim til Ástu og grilluðum og borðuðum rosa fínan mat. Eftir allt átið var svo haldið heim og horft á eurovision. Það er nú alltaf ákveðin stemning í því.
Bóndinn og nágranninn eru búnir að klippa hekkið hérna milli húsanna, hressilega niður. Þetta lítur út eins og eftir hryðjuverk. Við áttum von á því að nágranninn hinu megin fengi áfall, en hún er ekki búin að skamma okkur ennþá. Það er vonandi að þetta verði til þess að hekkið þéttist og það verði skaplegra að klippa þetta næstu ár. Það er alveg skelfilega mikil vinna að klippa hekk sem aldrei hefur verið klippt. Stofnarnir eru svo sverir að það verður að nota vélsög til að klippa það. Það var rosa fínt að fá nágrannann til að hjálpa. Hann virðist vera ansi ofvirkur, sem í þessu tilfelli kom sér bara vel fyrir okkur.
Í dag var svo aftur farið á markaðinn og í þetta skifti var keypt eitthvað smotterí. Það var ekki svo mikið af fólki, svo við nenntum meira að skoða. Það á svo að reyna að ráðast í að þrífa gluggana á eftir. Maður sér varla út orðið. Kartöflurnar og grænmetið rjúka upp núna, þegar það er farið að hlýna. Rabarbarinn er líka búinn að taka þvílíkan kipp.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
Kveðja
Tisetgengið
Það spáir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2012 | 13:56
Löng helgi
Kæru bloggvinir
þá er löng helgi að verða runnin á enda. Við erum búin að vera í fríi síðan á fimmtudag. Það er búið að vera frekar óspennandi veður, en seinnipartinn í gær og í dag er búið að vera mjög gott veður og hiti. Við höldum því í vonina um að sumarið sé á leiðinni. Við erum búin að taka plastið af kartöflunum og þær líta bara vel út. Það vantar bara almennilegan hita, þá kemur þetta allt saman.
Það hefur að sjálfsögðu ekki verið slegið slöku við, frekar en venjulega. Bóndinn er búinn að vera að vinna í skúrnum. Það er bara eitthvað smotterí eftir. Svo þurfti að slá garðinn. Í gær fengum við svo kunningja okkar til að sækja möl fyrir okkur í innkeyrsluna. Þetta er búið að standa til mjög lengi, en aldrei orðið neitt úr því. Sá sem sótti mölina gat svo sturtað henni hér í innkeyrsluna og slétt úr því versta með ámoksturstækjunum á traktornum. Þetta er enginn smá munur. Við þurfum samt að sækja pínulítið meira, bara á kerruna. Þetta var ekki alveg nóg.
Í gærkvöldi fórum við hjónaleysin í mat í boði fyrirtæki bóndans. Þeir áttu 75 ára afmæli og buðu starfsfólkinu í mat. Við máttum ekki ráða hvar við sátum, svo við lentum á borði með fólki sem við þekktum næstum ekki neitt. Konan við hliðina byrjaði kvöldið með að segja við okkur að það væru reglur í fyrirtækinu um að fólk mætti bara tala dönsku. Við vorum að tala mjög lágt saman á íslensku. Bóndinn þrætti eitthvað við hana og það sljákkaði eitthvað í henni. Þetta er mjög algengt viðhorf hér, og aðalástæðan fyrir að maður má ekki tala sitt móðursmál, er að Danir eru svo hræddir um að við séum að tala um þá. Allir útlendingar sem við sögðum frá þessu í gær, voru alveg hryllilega pirruð yfir þessu. En það er víst lítið við þessu að gera. VIð hættum allavega ekki að tala íslensku. Annars var þetta ágætt kvöld. Maturinn var fínn, en meðlætið frekar lélegt. Við fengum allavega einhver ósköp að borða og drekka.
Bóndinn er búinn að kaupa batterý í videóvélina, svo nú ætti að vera hægt að taka upp einhver video. Málið er sennilega bara að koma sér í það.
Næsta vika er svo bara venjuleg vinnuvika, en svo er hvítasunnan. Eins gott að maður þurfi ekki að vinna tvær heilar vikur í röð.
Annars er víst ekki mikið annað að frétta héðan úr sveitinni.
Kveðja
Gummi, Ragga og gengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2012 | 14:35
Heimsóknahelgi
Kæru bloggvinir
hér hefur verið fínt veður í dag, en frekar kalt og hryssingslegt í vikunni. Það er nú samt oft betra veður í miðri viku, en um helgar. En nú hlýtur vorið að fara að koma. Kartöflugrösin eru komin ágætlega upp og það er búið að bera áburð á, svo nú hlýtur uppskeran að verða rosaleg.
Annars hefur verið nóg að gera í heimsóknum um helgina. Í gær fengum við heimsókn frá íslenska vinnufélaga Gumma, sem er nýfluttur til Sönderborgar. Þau komu í kaffi, en ílengdust framyfir kvöldmat. Auður var voða hrifin af að fá leikfélaga. Þau eiga stelpu sem er ári eldri en hún. Þær ná alveg ágætlega saman. Auður er sem betur fer ekki mannafæla, svo hún var farin að skríða í fangið á fullorðna fólkinu.Í morgun var okkur svo boðið í morgunkaffi hjá kunningjum okkar. Þau eru með 4 börn í fóstri. Það minnsta er 2 mánaða. Það var hringt í þau og þau spurð hvort þau gætu sótt barnið á sjúkrahúsið eftir nokkra klukkutíma. Þau urðu því að vera snögg í snúningum og redda barnabílstól og því nauðsynlegasta. Barnsmóðirin hefur 3 mánuði til að finna út úr því, hvor hún vill hætta við að gefa barnið. Nú næst svo bara ekkert í hana, svo hún getur ekkert sagt til, hvað hún vill. En hjónin sem við heimsóttum fengu allavega að vita að þau væru of gömul til að ættleiða hann, svo þau búast við að láta hann frá sér fyrr en síðar.
Þegar við vorum búin að éta á okkur gat þarna kíktum við í kaffi hjá Ástu. Þar lentum við í franskri súkkulaðiköku og rjóma. Svo við erum allavega ekki illa haldin eftir daginn. Við mæðgurnar fórum svo í langan göngutúr eftir þetta allt saman, en bóndinn fór á fótboltaleik. Þetta verður nú bara stutt vinnuvika, því það er uppstigningardagur á fimmtudag og svo taka flestir sér frí á föstudaginn. Það má búast við að við finnum okkur eitthvað að gera þessa frídaga. Það þýðir ekki að sitja með hendur í skauti. Okkur langar voða mikið að reyna að redda okkur möl í innkeyrsluna. Það er voðalega leiðilegt að hafa þetta svona.
Hjónin hérna á móti okkur eru að skilja og konan að flytja inn til Gram með stelpurnar þeirra. Við fréttum þetta nú bara í vikunni. Ef konan hefði ekki sjálf sagt okkur þetta, hefðum við ekkert vitað. Þetta er auðvitað voðalega leiðilegt. En kannski finna þau eitthvað út úr þessu. Hann ætlar að búa áfram í húsinu, svo við þurfum allavega ekki að pæla í því strax.
Jæja það er nú mest lítið annað að frétta héðan.
Kveðja
Gummi, Ragga og Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2012 | 10:37
Bænadagurinn
Kæru bloggvinir
hér hefur verið rjómablíða alla vikuna. En um helgina hefur auðvitað verið frekar skýjað og kalt. Manni finnst þetta nú oft vera þannig, að þegar maður er í fríi, þá er ekki eins gott veður og þegar maður er í vinnunni. Bóndinn hefur eytt öllum stundum í að vinna í skúrnum og þetta er nú allt að skríða saman hjá honum. Þetta er voðalega mikil sníðavinna, hann getur örugglega lagt fyrir sig bútasaum þegar hann er búinn með þetta. Planið er svo að mála skúrinn, og þá sést vonandi ekki eins mikið hvað þetta er mismunandi.
Á föstudaginn fengum við auka frídag. Það er bænadagur hér í Danmörku. VIð munum ekki hvers vegna hann er haldinn hátíðlegur, og Danirnir muna það örugglega ekki heldur. Það skiptir svo sem ekki miklu máli. VIð erum alveg sátt við að fá auka frídag. Það eru ansi margir frídagar framundan. Uppstigningardagur er eftir rúma viku og þá taka flestir frí á föstudeginum líka, svo maður fær 4 daga helgi. Eftir það er svo hvítasunnan, og svo er víst ekki meira fyrir sumarfrí.
Í gær var verið að halda upp á 70 ára afmæli vatnsveitunnar í bænum. Það var opið hús og boðið upp á veitingar. Þetta var nú ekkert rosalega vel sótt, mest gamla fólkið í bænum sem mætti til að fá ókeypis bjór og brauð. Eftir öll þessi herlegheit var svo farið með Helgu í verslunarferð. Það þótti okkur gamla settinu nú óskaplega skemmtilegt eins og venjulega.
Í morgun fórum við svo á markað hérna rétt hjá. Það er nú venjulega mikið af básum og dýrum og hinu og þessu. En í ár var þetta mjög lélegt. Það var tívolí og Auði fannst nú ekki leiðilegt að prófa tækin. Hún vildi bara meira og meira. Við keyptum ekkert, enda ekkert spennandi á boðstólum.
Við kíktum aðeins undir plastið á kálgarðinum í gær, til að vökva. Það er aðeins farið að gægjast upp, en það hefur sennilega ekki verið nógu heitt til að þetta taki almennilega við sér.
Auður er alveg á fullu að reyna á þolrif okkar þessa dagana. Það er ómögulegt að segja hvað er að angra hana, en hún er allavega verulega pirruð á köflum. Hún hefur verið verulega svekkt yfir að barnsfaðir hennar Helgu sé farin heim. Hún fór inn í herbergið þeirra á hverjum degi og kallaði á hann. Hún skildi ekkert í þessu.
Nágranni okkar er búin að fá eina kanínuna. Það hafa verið með eina, en hún dó í vikunni og þá var nú heppilegt að við áttum nokkrar á lager. Þær hafa verið mjög ánægðar með sólina þessa vikuna og flatmagað.
Jæja ætli sé ekki best að koma sér út að gera eitthvað
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2012 | 13:15
Rok og rigning
Kæru bloggvinir
vorið ætlar eitthvað að láta á sér standa þetta árið. Það er ennþá frekar kalt í lofti og oft rok. Við erum nú samt búin að vera úti í mestallan dag. Auður er aðeins farin að geta hjólað á þríhjóli og það er voða sport. Hún er svo sjálfstæð barnið að hún vill helst ekkert að maður hjálpi, en verður svo ferlega pirruð þegar hún kemst ekki áfram. En hún hlýtur nú að læra þetta. Hún hjólar líka hjá dagmömmunni.
Bóndinn og Ísak eru búnir að vera að vinna í skúrnum alla þessa viku. Það er búið að skipta um járnið á þakinu en það er eftir að klæða hluta af honum að utan og klára allt smotteríið. En gott allavega að fá hjálp við að skipta um þakið. Bóndanum tókst nú að hrynja niður úr stiganum, þegar hann var að rífa gamla þakið af. Það var nú ekki til að bæta bakið á honum. Hann hefur verið algjörlega að farast síðan.
Í gær var ákveðið að nýta tækifærið fyrst við erum með barnapíur og við hjónaleysin fórum fyrst út að borða og svo í bíó. VIð fórum á krá hérna rétt hjá. Þar var hlaðborð með 10 mismunandi kjöttegundum. Við fengum meðal annars kengúrukjöt og dádýrakjöt. Kengúran var rosalega góð, en dádýrakjötið var nú pínulítið þurrt. Við átum á okkur gat og keyrðum svo í bíó. Það er lítið bíó á sama stað og við förum í sund. Það er nú enginn bíómenning hérna, svo það voru bara 6 hræður í bíó og við vorum þau einu sem höfðum keypt okkur popp og kók, svo manni leið bara illa þegar maður byrjaði að bryðja poppið. Það var voða notalegt að geta farið eitthvað, bara tvö. VIð höfum nú ekki gert það síðan Auður Elín fæddist, ekki nema svona þegar við höfum farið í jólahlaðborð með vinnunni og svoleiðis. Það var ákveðið að reyna að vera duglegri við þetta framvegis. Auður hagaði sér auðvitað alveg eins og engill, eins og alltaf þegar hún er í pössun. Hún er svo bara yfirleitt frekar ómöguleg daginn eftir.
Það er enn verið að reyna að finna lausn á sumarfrísvandamálinu, en vinnuveitandi bóndans er nú ekki mjög liðlegur og vill ekki koma til móts við hann. En þetta hlýtur að leysast. Annars verður frúin bara að fara í frí, viku seinna en bóndinn, þá getur hún vanið Auði á leikskólann.
Á morgun fer Ísak svo heim aftur. Auður Elín verður örugglega mjög leið yfir því. Hún er ennþá alveg með stjörnur í augum yfir manninum. Það koma ekki fleiri gestir fyrr en í sumar. Svo hún verður að hanga með okkur gamla settinu þangað til.
Bóndinn er farinn á fótboltaleik, það er allt brjálað að gera í því þessa dagana.
Annars er nú víst ekki mikið nýtt að frétta héðan.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2012 | 12:50
Kartöfluniðursetning
Kæru bloggvinir
hér hefur verið ansi mikið rok undanfarið, og frekar kalt. Í dag hefur rignt frekar mikið, en við skelltum okkur í að setja niður kartöflur, rófur og maís. Það er búið að breiða yfir þetta plast, af því það er ennþá smá næturfrost hérna, svo allur er varinn góður. Við ætlum svo að reyna að kaupa eins og eitt bréf af gulrótum og setja niður. Auði finnst þær alveg rosalega góðar og étur þær beint upp úr garðinum.
Í gær kom barnsfaðir Helgu Rutar í heimsókn, hann ætlar að vera hérna í rúma viku, svo hér er alltaf fjör. Bóndinn er eitthvað að plana að nýta hann í að skipta um járn á bílskýlinu. Auður er algjörlega ástfangin af manninum og sér ekki sólina fyrir honum. Hún segir Ísak í öðru hverju orði og eltir hann út um allt. Það verður ekkert grín þegar hann fer aftur heim. Hún tekur oft miklu ástfóstri við karlmenn sem eru svona frekar þögulir og rólegir. Hún er líka mjög hrifin af manni dagmömmunnar sem dálítið sama týpa. Hann segir ekki mikið, svona venjulega.
Í gær komu Íslendingar í heimsókn. Gamall vinnufélagi bóndans er að flytja til Danmerkur. Þau eru að flytja til Sönderborg, sem er 70 km héðan. Þau eiga stelpu sem er ári eldri en Auður Elín. Þær léku sér voða fallega saman hér í gær og kom bara nokkuð vel saman. Svona miðað við að þær voru að hittast í fyrsta skipti. Við verðum að reyna að leyfa þeim að hittast eitthvað aftur. Auði finnst voða gaman að hafa einhvern að leika við.
Við vorum að fá bréf frá leikskólanum sem Auður er að fara á. Hún getur ekki byrjað fyrr en 1 ágúst. Við vorum búin að skipuleggja sumarfríið okkar þannig að hún gæti byrjað í leikskólanum viku fyrir mánaðarmótin. Við verðum því að reyna að breyta sumarfríinu okkar, eða finna einhverja lausn á þessu. Það er alveg ótrúlegt að þeir hafi ekki getað látið okkur vita eitthvað fyrr. En svona er nú margt hérna í sveitinni. Það verður bara að reyna að leysa málið.
Annars hefur allt verið með kyrrum kjörum hér síðustu vikuna. Allt gengið sinn vanagang.
Bóndinn er búinn að setja inn myndir, bæði af fólki og nýjasta leiktækinu. Hann keypti sér sláttutraktor í síðustu viku. Hann er búin að vera að safna sér fyrir svoleiðis lengi, svo hann var mjög ánægður að geta loksins látið verða af því að kaupa hann. Það verður nú líka mikill munur að slá garðinn með þessu tryllitæki. Auði fannst þetta líka mjög áhugavert og fékk að sitja og stýra sjálf.
Jæja látum þetta nægja að sinni
Kveðja
Gummi, Ragga og restin af genginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2012 | 17:49
Vorverkin hafin
Kæru bloggvinir
hér hefur ekki verið slegið slöku við, frekar en fyrri daginn. Við erum búin að klára kanínugarðinn. Þeim var hleypt út í dag, og voru ekkert smá ánægðar með lífið. Þetta var voða munur fyrir þær. Það var heldur þröngt á þeim fyrir. Nú er bara að sjá hvort girðingin haldi þeim inni. Það á reyndar eftir að setja upp þakrennu, svo það rigni ekki niður á þær, en því verður bjargað fljótlega. Frúin reif upp jarðaberjaplönturnar og setti niður í bakka. Það verður spennandi að sjá hvort þær lifa það af. Það er ómögulegt að hafa þær í matjurtagarðinum af því þær breiða svo úr sér. Það var nú planið að setja niður maísplöntur, og setja yfir þær plast, en það vannst ekki tími til þess. Það er kannski ágætt að bíða aðeins, af því það er ennþá smá næturfrost.
Síðasta mánudag fórum við í göngutúr með íþróttafélaginu. Auður fékk að sitja í hjá vini sínum frá dagmömmunni. Henni þótti það nú ekki leiðilegt. VIð gengum rúma 5 km og það var bara mjög gaman. Eftir göngutúrinn var svo boðið upp á kaffi og kökur. Frúin bakaði tvær kökur. Auður var að leika við vin sinn. Eða hún reif í hendina á honum og dró hann út um allt. Reyndi svo að troða í hann köku, við lítinn fögnuð. Hann reyndi að mótmæla, en hún var ekki á því að gefast upp. Það verða viðbrigði þegar hún þarf að fara í leikskóla og finna sér nýja leikfélaga.
Þegar við vorum að vinna í garðinum í dag, komu krakkar sem eru að flytja hér á bak við. Þau vildu skoða kanínurnar. Ein stelpan var hjá sömu dagmömmu og Auður. Þeim fannst rosa spennandi að vera inni hjá kanínunum og tala við þær og gefa þeim gras að borða. Svo vildi Auður fara heim til krakkanna að leika. Hún var nú send í fylgd með fullorðnum. Það er vonandi að þær geti leikið eitthvað saman í sumar. Stelpan er nokkrum mánuðum eldri en Auður og álíka mikil skessa, svo þær ættu að passa vel saman. En við sjáum til. Það breytist nú sennilega mikið þegar hún byrjar í leikskóla.
Annars gengur hér allt sinn vanagang. Búðirnar í Gram opnuðu kl. 8 í gærmorgun. Við drifum okkur í eina búð á leiðinni í sund. Það vildi svo "skemmtilega" til að það var ljósmyndari á staðnum að taka myndir af þessum viðburði. Það var boðið upp á rúnstykki og kaffi og hann vildi endilega taka myndir af okkur við að borða. Við ætluðum bara að skjótast í búðina og gá að strigaskóm á Auði, en í staðinn kom mynd af okkur í dagblaði hér í sveitafélaginu. Það eru vonandi ekki allir sem hafa lesið blaðið. Það búa um 30-40.000 manns í öllu sveitafélaginu. Ekki nóg með myndina, heldur skrifaði ljósmyndarinn nöfnin okkar líka, svo maður gat ekki einu sinni verið nafnlaus. Hann klúðraði reynar nafni frúarinnar. Bóndinn skrifaði nöfnin okkar á blað og sýndi ljósmyndaranum og hann hélt að bóndinn héti Jón Erlendsson Ragnhildur Magnúsdóttir. Honum fannst það pínu langt! :). Við drifum okkur í að kaupa blaðið í morgun eftir að vinnufélagi bóndans benti honum á að hann væri í dagblaði dagsins. Við áttum ekkert von á að myndin kæmi af því ljósmyndarinn átti eftir að fara í fleiri búðir. En honum hefur sennilega þótt við svona rosalega myndarleg! :) Bóndinn ætlaði að reyna að skanna myndina inn, svo aðrir gætu notið hennar líka!. Það þarf nú líka að fara að henda inn nýjum myndum af öllum framkvæmdunum. Vonandi vinnst tími til þess í vikunnni.
Jæja ætli við látum þetta ekki duga í bili
Kveðja frá fræga fólkinu í Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2012 | 14:59
Páskafrí
Kæru bloggvinir
gleðilega páska. Hér hefur aldeilis verið tekið til hendinni um páskana. Við erum búin að girða fyrir framan húsið, svo Auður geti leikið sér sjálf. Hún hefur nú ekki nennt að leika lengi í einu. En það getur verið það komi. Í dag var svo ráðist í að gera girðingu fyrir kanínurnar. Það er ekki búið. Það þarf að loka þessu mjög vel vel, svo þær grafi sig ekki út. Við ætlum að reyna að klára þetta á morgun.
Á miðvikudaginn fórum við til Árósa að heimsækja vin okkar. Hann er nú orðinn hressari en hann hefur verið. Við keyptum líka sumarföt á bóndann. Það þurfti að kaupa smá lambakjöt til að borða í dag. Við erum búin að panta meira lambakjöt. En það kemur ekki fyrr en í lok april. Það er nú um að gera að kaupa kjöt í nýju frystikistuna.
Á fimmtudaginn var yndislegt veður, svo við vorum úti allan daginn að girða. Það lá við að maður væri sólbrunninn eftir daginn. Á föstudaginn var svo skítakuldi, svo við vorum nú ekkert að vesenast úti við. En það er nú alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera inni við. Á laugardaginn keyrðum við svo til Kolding. Helga þurfti að komast í búðir. Við þurftum líka að kaupa sumarföt fyrir Auði. Það er ekki orðið mikið eftir af öllum þeim fötum sem við höfum fengið gefins. Búðarferðin tók nú þokkalega mikið á, af því það var allt troðfullt af fólki. Það var auðvitað búið að vera lokað í búðum í tvo daga, svo fólk var orðið mjög þurfandi. Við sluppum út eftir tæpa 4 tíma. Í dag var svo farið í að girða fyrir kanínurnar og svo á að borða með Ástu og fjölskyldu í kvöld. Auður fékk páskaegg í morgun. Við fengum send nokkur egg frá Íslandi í gær. Auði fannst þetta nú spennandi til að byrja með og smakkaði eitthvað af þessu. En lét pabba sinn svo fá skálina og bað um epli í staðinn. Það er búið að vera mjög gott veður hér í dag. Vonandi helst það áfram. Það er nú samt ennþá ansi kalt, nema þegar sólin skín.
Á morgun er svo göngutúr með íþróttafélaginu. Frúin á að baka köku til að borða eftir gönguna. Svo það verður ekki mikið slakað á í þessu fríi.
Það verður að reyna að henda inn myndum af Auði og girðingunum fljótlega
Kveðja
Gummi, Ragga og restin af genginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2012 | 14:17
Frystikistuævintýri
Kæru bloggvinir
Hér hefur heldur betur verið hamagangur í öskjunni þessa vikuna. Við héldum að vorið væri komið, en það hefur verið ansi kalt um helgina og frost í nótt, svo vorið er nú víst ekki alveg komið. En við vonum bara að það verði gott veður um páskana, svo maður geti verið úti í garði.
Í miðri viku gafst frystikistan okkar upp. Hún var búin að vera eitthvað slöpp en á miðvikudaginn var henni allri lokið. Þá voru góð ráð dýr þar sem hún var full af mat. Bóndinn hringdi í vinafólk okkar sem átti auka frystikistu sem við máttum fá. Þau komu með gripinn og hann var settur í samband, en það vildi ekki betur til en að það kviknaði í henni. Hún var búin að standa töluvert lengi, ónotuð. Þá var farið á internetið að leita að notaðri frystikistu til sölu. Við viljum ekki kaupa nýja frystikistu, meðan þetta er allt svona óþétt þarna á bak við. Bóndinn fann frystikistu í bæ ca. 50 km héðan, svo hann dreif sig af stað með Óla vini sínum. Þegar þangað var komið var frystikistan svo illa farin að þeim leist ekkert á hana. Þá var hringt í einvern annan sem var að selja frystikistu. Þeir brunuðu þangað og fundu þessa fínu kistu. Henni var stungið í samband og það kviknaði í henni líka. Þeir keyrðu heim, en þegar þeir voru komnir heim hringdi maðurinn með kistuna aftur og sagði hann væri búinn að laga hana. Þeir keyrðu til baka, en kistan var ekkert komin í lag. Svo við fengum að henda matnum í kistuna hjá vinum okkar. Í gær hringdi kistumaðurinn svo aftur og sagðist vera búin að laga hana aftur. Við renndum til hans og keyptum kistuna og hún er allavega ennþá í gangi. Vonandi að hún haldi því bara áfram. Þetta var nú þokkalega mikið vesen við að kaupa eina frystikistu.
Auður er orðin alveg söngóð. Það þarf að syngja fyrir hana á hverju kvöldi. Hún hefur nú hingað til bara hlustað, en um helgina byrjaði hún að syngja með og í morgun sat hún ein í stól og söng fyrir sjálfa sig. Það hefur verið alveg ómögulegt að fá hana til að sofa, eftir að klukkunni var breytt um síðustu helgi. Hún sofnar ekki fyrr en hálftíma seinna en hún er vön. Alveg óþolandi að þeir séu að þessu hringli. Við fórum í byggingarvörubúð í morgun. Við vorum að kaupa girðingarefni, svo það sé hægt að loka garðinum hér að framan. Svo þurfti líka að kaupa girðingarefni fyrir kanínurnar. Auður sá eldri mann í byggingarvörubúðinni með mikið hvítt hár og skegg. Hún benti og benti á manninn og sagði hátt, jólasveinn, jólasveinn á dönsku. Maðurinn heyrði það, en fannst þetta sem betur fer bara skondið.
Bóndinn er kominn í páskafrí, en frúin þarf að vinna næstu tvo daga og er svo komin í frí. Það þarf nú að gera ýmislegt í fríinu, svo það verður sennilega ekki mikil afslöppun.
Kveðja frá Tisetgenginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2012 | 15:05
Vorblíða
Kæru bloggvinir
hér hefur verið rjómablíða um helgina. Það er búið að setja út sólhúsgögn og taka til í garðinum hér að framan. Það var rosa mikið af laufum og greinum eftir veturinn. Auður Elín hefur verið gríðarlega sátt við þetta og er orðin mjög dugleg við að dunda sér við að drullumalla eitthvað í húsinu sínu og sandkassanum. Hún eirði sér voða lítið við þetta síðasta sumar. En það er planið að girða hér fyrir framan um páskana, ef veður leyfir. Þá getur hún dundað sér þarna úti.
Annars er svo sem voða lítið að frétta. Hér er allt við það sama. Í gær grilluðum við með vinafólki okkar. Það var nú of kalt til að borða úti, en við nutum þess nú samt sem áður. Það er svo stefnt að því að grilla aftur í kvöld. Ekki hægt að sleppa þessu góða veðri. Við nenntum ekki einu sinni í líkamsrækt í dag, af því að veðrið var svo gott. En tókum aðeins á því í garðinum í staðinn. Frúin er nú eiginlega ákveðin í að hætta í ræktinni eftir næsta mánuð. Hún sér ekki fram á að hún nenni þegar það er orðið gott veður. Nú er bara að vona að veðrið um páskana verði svona gott. Þeir eru allavega að spá þessari blíðu eitthvað fram í næstu viku.
Kanínurnar voru settar í búr hér fyrir utan í morgun. Þær eru nú eitthvað stressaðar yfir þessu, en það hlýtur að venjast. VIð erum að reyna að finna ódýr notuð búr sem hægt er að hafa úti. Það er allavega munur að vera laus við þær héðan af ganginum. Nágranni okkar kom svo færandi hendi með hálmbagga sem hann þurfti að losna við, svo við þurfum ekki að kaupa það á næstunni. Við fengum líka gamalt búr frá öðrum nágranna, svo það er hægt að redda ýmsu án stórra vandræða.
Bóndinn er í fríi þessa 3 vinnudaga sem eru í vikunni fyrir páska. Hann átti eitthvað frí eftir, svo það er um að gera að nýta það. Frúin á ekkert frí, svo hún verður að vinna mánudag og þriðjudag og taka svo frí miðvikudag. Svo tekur hún líka frí á föstudaginn. Það er svo stuttur dagur.
Kristín Júlía varð 3 mánaða í vikunni. Hún virtist nú ekki kippa sér mikið upp við það. Tók þessu með mikilli ró. Hún fílar alveg í tætlur að fara með okkur í ungbarnasund og Auður er ekki minna hrifin. Hún er farin að kafa. VIð verðum að fara að kaupa svona sundgleraugu fyrir hana, svo hún geti séð í kafi. Hún svamlar orðið heilmikið. En missir nú stundum þolinmæðina af því þetta gengur ekki alveg nógu hratt. Hún er farin að tala mikið meiri íslensku. Sennilega hefur það áhrif að Helga er hjá okkur og við tölum meira. Hún er búin að vera mjög dugleg að föndra undanfarið hjá dagmömmunni. Hefur komið heim með alls konar páskaskraut.
Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili
Kveðja
Gummi, Ragga og restin af genginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)