5.6.2016 | 12:48
Sumar og sól
Kæru bloggvinir
það er þvílíkt búið að vera veðurblíða hér síðustu dagana. Maður hefur varla þolað við, hvorki innan dyra né utan. Það er alveg rosalega rakt og mikill þrúgandi hiti. En börnin kvarta allavega ekki og hafa varla komið inn hér síðustu daga. Í gær komu Óli og Guðný í heimsókn og það var sett upp sundlaug hérna úti í garði. Það sló algjörlega í gegn og þau komu ekki inn fyrr en seinnipartinn í gær, og voru þá alveg búin á því. Maður var rosalega dasaður eftir allan hitann. Það er heldur meira skýjað í dag, en samt mjög heitt
Við fórum í 60 ára afmæli hérna á næsta bæ, hjá bóndanum sem selur okkur trépillur. Konan hans varð 60 ára. Hann var nýbúin að innrétta bílskúrinn sem veislusal, svo þetta var voða fínt, en það bergmálaði svo mikið þar inni að það var nánast ekki líft þar inni. Það var að byrja mikil ræðuhöld, svo við drifum okkur heim.
Það er mikið búið að taka til hérna undanfarið. Henda einhverjum ósköpum af drasli og einhverju sem hefur safnast upp síðustu árin. Það virðist vera mjög auðvelt að safna að sér alls konar drasli þegar maður hefur mikið pláss til að geyma það á. En þá er auðvitað mjög gott að losa sig við það sem maður hefur ekki notað lengi. Það er mikið að gerast hjá okkur. Við erum búin að selja húsið og ætlum að byrja á að flytja inn til Gram. Það er nú ekki auðvelt að fá hús, því það er svo mikið af flóttamönnum sem þurfa á húsnæði að halda. Ef allt fer að óskum þá flytjum við um næstu mánaðarmót, svo það er nóg að gera. Það verða viðbrigði að flytja eitthvað annað þegar maður er loksins búin að koma sér sæmilega fyrir hérna. En við fáum allavega meira pláss og það er nú ekki leiðilegt. Þá geta krakkarnir fengið sitt hvort herbergið og verða nú örugglega ánægð með það.
Annars er nú ekki mikið annað að frétta héðan. Það er nóg að gera í allskonar lokahófum í skólanum og leikskólanum og hinu og þessu. Sumarfríið er ekki fyrr en um miðjan júlí. Það verður nú sennilega notað í að slaka á og koma sér fyrir á nýjum stað.
Jæja ætli sé ekki best að fara að sjá til þess að börnin fari sér ekki að voða í sundlauginni.
kveðja frá Tisetgenginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2016 | 15:06
Tiltekt
Kæru bloggvinir
það lítur út fyrir að sumarið sé eitthvað að láta sjá sig meira. Það hafa verið fínir dagar undanfarið, en í dag þó frekar skýjað. Við erum búin að vera að taka til bæði uppi á lofti og í geymslunum. Það er ótrúlegt hvað maður safnar að sér miklu drasli, þó maður sé alltaf að reyna að henda. VIð erum allavega mjög tiðir gestir á ruslahaugunum. Gott maður þarf ekki að borga fyrir að henda rusli hérna, eins og heima á Íslandi.
Við erum búin að grilla í gær og ætlum að grilla í kvöld. Í gærkvöldi borðuðum við úti í fyrsta skipti og það er alltaf mjög huggulegt. Krökkunum finnst það rosalega skemmtilegt. Þau eru búin að vera úti í mest allan gærdag og líka í dag. Þau sofna líka mjög fljótt á kvöldin. Þau eru mikið úti í skóla og leikskóla líka. AUður fór á landbúnaðarsýningu á föstudaginn, með skólanum. Það var víst mjög skemmtilegt. Svo var opið hús hjá skátunum á föstudagskvöldið og það var grillaður kjúklingur og grænmeti. Það er óskaplega lítil stjórn á þessum skátum og þeir sem eiga að stjórna eiga eitthvað mjög erfitt með það. Það virðist vera mjög oft þannig í sjálfboðastarfi hérna í Danmörku. Það má sennilega ekki skamma blessuð börnin og láta þau hlýða.
Annars er her allt komið í fasta ramma eftir fríið á Íslandi. Það tekur alltaf smá tíma að komast í samt far aftur, en allt hefst þetta nú að lokum. Auður fær ekki sumarfrí í skólanum fyrr en eftir mánuð, en það er víst ekki svo alvarlegt það sem þau gera þessa dagana.
Bóndanum og okkur var boðið í afmæli, bóndinn hélt það væri í dag, svo við ætluðum bara að rölta þangað. Okkur leist ekki á blikuna þegar við sáum ekki fánann dreginn að húni, það var enginn heima, en við komumst svo að því að afmælið er ekki fyrr en næsta sunnudag. Bóndinn hafði bara misskilið málið. Við eigum þá bara afmælisveislu til góða.
Jæja það er víst ekki svo mikið annað að frétta núna.
Kveðja frá Tisetgenginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2016 | 12:57
Aftur í gamla horfið
Kæru bloggvinir
við tókum frí frá skriftum hér inni meðan við vorum á Íslandi, enda nóg annað að gera en að blogga. Tíminn líður alltaf alltof hratt meðan maður er heima og áður en við er litið, er kominn tími á að fara heim aftur. Heimferðin gekk ótrúlega vel, þrátt fyrir að lestinni sem við áttum að fara með hafi verið aflýst og við vorum hrædd um að við kæmumst ekki frá Kaupmannahöfn. Það eru ekkert allt of margar ferðir svo seint á kvöldin, svo þetta var nú ekkert rosalega skemmtilegt. En allt hafðist þetta. Inn og út af lestum og öðrum faratækjum með töskur og börn. Við vorum ekki komin heim fyrr en kl. 3 um nóttina. Fólk hefur því verið með töluverða timburmenn hér síðustu viku og líka núna um helgina. Það bætti nú heldur ekki úr að maður færði klukkuna aftur þegar við komum hingað út.
Börnin voru voða fegin að komast aftur í skóla og leikskóla. Í gær vorum við á leiksvæði með bekknum hennar Auðar. Það var mjög fínt og börnin skemmtu sér rosalega vel. Veðrið var allt í lagi, en engin sól. Það er mjög óstöðugt veður hérna. Ekki beint vorveður, en ekki samt slæmt veður. Áður en við fórum til Íslands var gróðurinn aðeins farinn að taka við sér, en eftir við komum heim var allt komið á kaf, svo við fórum í það í dag að reyna að ráða bót á því. Rabarbarinn var orðinn rosa mikill um sig, svo það var grisjað aðeins úr honum. Jarðarberin hafa líka tekið mikinn kipp, svo kannski verður rosa uppskera í sumar.
Frúin er búin að lofa að taka þátt í að syngja með einhverju nokkrum öðrum konum á miðaldahátíð í Ribe. Fyrsta æfing var meðan frúin var á Íslandi, svo það er mæting í næstu viku. Spurning, hvort það sé hægt að nota svona týpu eins og mig. Það kemur í ljós. Það er sennilega aðalmálið að maður haldi lagi.
Annars erum við bara að reyna að komast í gír, maður verður víst að vinna alla daga núna, þar til það kemur sumarfrí. Það ætti nú að hafast.
Jæja best að fara út i góða veðrið aftur og slaka á.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2016 | 15:41
Sól og blíða
Kæru bloggvinir
Hér hefur verið rosa blíða í dag. Svo nú vonum við að góða veðrið sé að koma. Það væri auðvitað týpískt að það yrði svaka blíða hérna meðan við erum á Íslandi. Það er allavega vonandi að það fari að verða meira stöðugt veður.
Börnin hafa verið úti í næstum allan dag. Við erum búin að hjálpa Evu gömlu að setja net yfir jarðarberin, svo fuglarnir borði nú ekki öll berin. Gróðurinn ætti að fara að taka við sér þegar það hlýnar. En það er ennþá frost á nóttinni.
Annars er allt við það sama hér. Við fórum í 75 ára afmæli á föstudaginn. Það var mjög fínt. Mest allur bærinn, þar sem Auður er í skóla var á staðnum. Maðurinn sem átti afmæli býr í þeim bæ og það þekkja allir alla í þessum litla bæ.
Það er verið að grafa í sundur allar götur í bænum, það er frekar ógirnilegt að hafa allt í bleytu og drullu hér fyrir utan. En kosturinn er að það er engin umferð um götuna hérna.
Auður fór með skólanum í heimsókn hjá skátunum í vikunni og vildi endilega prófa að vera með. Frúin fór því með henni á föstudagskvöldið og stóð úti í skítakulda og blés sápukúlur og söng bálsöngva. Auður vill endilega prófa að vera með, svo ætli maður verði ekki að reyna að leyfa henni það. Sundið er búið, svo hún hefur ekki svo mikið við að vera eftir skóla. Svo er nú mjög gott fyrir börnin að vera úti og leika sér. Annars eru okkar börn nú mjög dugleg við það. Ágúst er sérstaklega duglegur að dunda sér úti, líka þegar hann er bara einn.
Í gær fórum við til Haderslev og Auður fékk að heimsækja Ágústu, bestu vinkonu sína, sem er flutt þangað. Við fórum á meðan og versluðum smávegis. Það voru hermenn úti að labba með allan útbúnað og byssur líka. Ágústi stóð ekki á sama, en fékkst til að láta taka mynd af sér með einum þeirra og halda á stórri byssu.
Svo er bara að fara að pakka niður fyrir Íslandsferðina, það er nú ekki langt í hana. Þetta líður svo hratt að við verðum komin og farin aftur, áður en við er litið.
Jæja best að fara að leggja börnin í bleyti og þrífa af þeim skítinn.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2016 | 12:16
Stóri bænadagur
Kæru bloggvinir
þá er helgin að verða búin. Við fengum einn auka frídag á föstudaginn. Það er stóri bænadagur. Hann á að nota til að fasta og biðjast fyrirgefninga syndanna. Við klikkuðum nú eitthvað á því, en nutum þess bara að hafa frídag. Við renndum til Odense í heimsókn og sátum úti á verönd og urðum sólbrennd og sæl. Það var eiginlega fyrsti dagurinn sem var veður til að sitja og sóla sig. Það var ansi notalegt. En Adam var nú ekki lengi í Paradís því í gær var bæði gott veður og svo kom rosalegt haglél seinnipartinn. Í morgun var frost á rúðunum á bílnum. Þetta ætlar að vera rosalega lífseigt þetta næturfrost. Við leggjum ekki í að planta neinu út fyrr en það er frostlaust. Ætli við reynum ekki að setja tómatplöntur í kassa og svo eitthvað smotterí.
Í gær var farið að versla strigaskó á börnin. Það var orðið heldur heitt að vera í kuldaskóm. Það er hins vegar ekki ennþá hægt að kaupa sandala. Það er sennilega ekki fyrr en það kemur meira vor. Nú er allavega búið að bjarga fótbúnaði eitthvað fram á vor. Svo verður að fylgjast með hvenær sandalarnir koma í verslanir. Miðað við veðrið síðustu daga gerir það sennilega ekki mikið til. Bóndinn þrjóskast við að vera í stuttbuxum flesta daga og við hin erum kappklædd.
Ágúst hefur verið eitthvað voða slappur um helgina. Hann er voða kvefaður og með ljótan hósta. Það lítur út fyrir að hann verði heima á morgun. Maður er svo óvanur að hafa veik börn, að það er varla maður kunni á það. EN vonandi gengur þetta fljótt yfir. Við fórum að hugsa tilbaka og við munum ekki eftir því hvenær Auður Elín var síðast veik. Það gerist nánast aldrei. Það er ótrúlega mikil heppni að eiga svona hraust börn. Sum börn í kringum okkur eru alltaf lasin.
Það eru allir orðnir voða spenntir að koma til Íslandnnars. Það er ekki víst þeim finnist jafn skemmtilegt að komast þangað. Við þurfum að fara með strætó eitthvað að leiðinni af því það er verið að gera við lestarteinana. Það er auðvitað alveg týpískt. En við ætlum að láta keyra okkur til Odense, þá tekur þetta ekki alveg jafn langan tíma. EN þessar flugvélar eru alltaf á hálf asnalegum tíma, svo við komum til Íslands seint að kvöldi og komum til Danmerkur aftur seint að kvöldi. Svo við verðum ekki komin heim fyrr en seint að nóttu. En sem betur fer er frí á mánudeginum, það er annar í hvítasunnu. Maður biði ekki í að fara í vinnu eftir svona slæping.
Annars er víst lítið meira að frétta héðan í bili.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2016 | 13:25
Vegavinnu lokið
Kæru bloggvinir
Við höfum heyrt í fréttum frá Íslandi í dag að það sé vonskuveður og snjókoma á Íslandi. Við getum því ekki mikið kvartað. Okkur finnst nú samt vorið eitthvað vera seint á ferðinni. Þegar Auður byrjaði í skólaundirbúningnum í fyrra, á sama tíma, var allavega hlýrra í veðri. En þetta hlýtur að koma.
Við fórum í morgun og sáum kúnnum hleypt út, hérna rétt hjá. Þær voru mjög ánægðar með að komast út. Það er alltaf gaman að fara með börnunum og sýna þeim svona sveitalíf. Þá komast þau allavega að því hvernig mjólkin og allt hitt verður til. Það er líka mikilvægt að þau séu ekki hrædd við hinar og þessar skepnur. Þrátt fyrir hálfgerðan hráslaga fórum við aðeins út í gær og komum niður nokkrum hindberjaplöntum í viðbót og rökuðum til í hinum beðunum. Það fer að koma að því að slá garðinn. Það hefur rignt aðeins í vikunni og hlýnað aðeins, svo gróðurinn er eitthvað að taka við sér.
Þeir kláruðu loksins að vinna í veginum hérna fyrir framan í vikunni. Það er reyndar búið að grafa risa holu hérna við hliðina á innkeyrslunni okkar. En það er allavega hægt að koma bílnum í innkeyrsluna og við komumst loksins á ruslahaugana í morgun. Það var orðið þörf á því.
Það var vinakvöldverður á föstudaginn. Bóndinn eldaði matinn og það vakti mikla lukku. VIð fórum allavega ekki heim með mikla afganga. Það er svo sem ágætt. Næstu viku eru svo bara fjórir vinnudagar. Það er stóri bænadagur á föstudaginn og við græðum því einn auka frídag.
Við erum væntanleg á klakann í byrjun maí. Við verðum í 10 daga. Við þurfum að tæma húsið hjá ömmu Auði og ef einhver hefur laust geymslupláss fyrir nokkur húsgögn, þá viljum við endilega heyra um það. Það er ansi dýrt að leigja sér svoleiðis. Það er líka eitt stykki píanó, sem vantar heimili, þangað til við flytjum heim aftur. Hvenær sem það nú verður. Það er ómögulegt að segja hvað tekur langan tíma að losna við húsið hérna. Bankarnir eru tregir að lána fólki pening til að kaupa sér hús hérna úti á landsbyggðinni. Við vonum að veðrið verði orðið eitthvað betra þegar við komum heim.
Jæja best að fara að gæða sér á pönnukökunum sem bóndinn var að baka. Börnin eru orðin eitthvað óþolinmóð.
Kveðja frá tisetgenginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2016 | 13:03
Vegavinna
Kæru bloggvinir
þá er víst aftur kominn sunnudagur. Hvert fara þessir dagar eiginlega? Við héldum að vorið væri komið, en það var þvílíkt él hérna á fimmtudagsmorguninn. Frúin þurti að fara eldsnemma með lest til Holstebro, þriggja tíma lestarferð. Hún var að fara á tveggja daga námskeið. Eina sem Auður og pabbi hennar hafa áhyggjur af þegar svoleiðis er, er hver á að greiða og setja eitthvað í hárið á prinsessunni. Hún er reyndar orðin mjög dugleg að greiða sér sjálf, en getur ekki sjálf sett teygju í. Það er örugglega ekkEn þei langt í að hún fari líka að geta það. Þetta þarf allt að vera eftir settum reglum. En einhvern veginn hafðist þetta nú hjá þeim. Það var vorhátíð í skólanum hjá henni á föstudaginn. Þau sungu og sumir dönsuðu, eða léku leikrit.Þetta var rosa flott og vel af sér vikið hjá krökkunum að kunna þetta allt utan að. Í þriðja bekk byrja öll börn að læra á blokkflautu. Okkur hlakkar óskaplega mikið til þess. Blokkflauta er eitthvað það skelfilegasta hljóðfæri sem hefur verið fundið upp. En þetta slapp allt saman núna, þau voru greinilega búin að æfa sig vel. Auður var búin að vera rosa spennt ogo gat varla beðið með að sýna okkur hvað hún var búin að æfa. Henni fannst þetta rosa skemmtilegt. Frúin var næstum búin að missa af þessu öllu. Hún þurfti að drífa sig af námskeiðinu með lest og átti að skipta einu sinni. Fyrsta lestin var of sein, svo það voru ekki nema 2 mínútur til að hlaupa á aðra teina og komast í næstu lest. Sem betur fer hitti hún lestarvörð sem gat sagt henni til, annars hefði hún ekki komist. Það mátti ekki tæpara standa. En þetta er nú voða týpískt þegar maður er að drífa sig.
Við höfum verið eitthvað löt í vorverkunum, en frúin druslaðist út í gær og gerði eitthvað smá. Það hefur eiginlega ekki verið neitt sérstaklega hlýtt, nema rétt á meðan sólin skín. Börnin eru mjög dugleg að leika sér úti við. Þau fara stundum alveg óvart að leika sér með vatn og gera eitthvað sem þau mega ekki.
Gatan er ennþá öll sundurgrafin. Við vorum að vona að þeir myndu loka henni fyrir þessa helgi, en það hefur voða lítið gerst. Alveg ótrúlega pirrandi. En það hefur sem betur fer ekki rignt svo mikið síðustu daga, svo það er ekki eins mikill sand- og drulluburður hér inn.
Við renndum til Ribe áðan og fórum að skoða dýr og svo varð að renna við og kaupa sokkabuxur á ungfrúnna. Stórutærnar á henni eiga það til að kíkja gegnum efnið. Hún ætti að vera orðin birgð upp fram á sumar. Þá fer hún bara í legginsbuxur. Hún getur ekki beðið eftir að mega vera á tásunum. Helst myndi hún nú vilja vera sem minnst klædd.
Þau systkin eru orðin betri að leika sér saman, þau elska hvort annað, svona þegar vel gengur, en það slettist líka fljótt upp á vinskapinn og þá verða þau ægilega pirruð, en geta samt ekki án hvors annars verið.
Ágúst er mjög ánægður á leikskólanum og vefur þeim víst um fingur sér. Það er hans sérgrein. Hann veit alveg á hvaða hnappa hann á að ýta. En hann er mjög umhyggjusamur og vill að allir hafi einhvern að vera með. Hann er eins og systir sín, mjög fljótur að læra söngtexta og glöggur á staðsetningar. Þau muna ótrúlega vel, hvort þau hafi verið einhvers staðar áður. Þau hafa það alveg örugglega ekki frá móður sinni.
Jæja ætli við látum þetta ekki gott heita í bili
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2016 | 16:34
Vor í lofti
Kæru bloggvinir
það virðist vera að vora meira hjá okkur. Það er orðið nokkuð hlýtt á daginn, en frúin þurfti samt að skafa ís af bílrúðunum í vikunni. Börnin njóta þess að það sé komið hlýrra veður og vilja gjarnan vera úti að leika. Það er búið að draga fram hjól og ýmislegt til að leika með utandyra. Það er um að gera að hafa nóg fyrir stafni. Enda eru þetta mjög virk börn sem við eigum. Þau geta búið til leiki úr´ótrúlegustu hlutum. Í dag fórum við á leiksvæði inn í Gram, þau höfðu engan áhuga á leiktækjunum, en fóru að safna sprekum og steinum og gera eitthvað með þeim. Þau hafa verið betri að leika sér saman undanfarið. Það slettist auðvitað stundum upp á vinskapinn, en gott ef þau geta skemmt hvort öðru. Það búa engir vinir þeirra hérna nálægt.
Það er búið að grafa götuna hérna fyrir framan upp, svo við þurfum að leggja bílnum smá spöl hérna frá. Vonandi að þeir verði ekki mjög lengi að þessu. Það verður eitthvað skemmtilegt þegar þeir loka aðalveginum hérna gegnum bæinn. Það er þó stór kostur við þetta, við sleppum við alla umferðina á meðan gatan er lokuð. Börnin geta hjólað hérna um, án þess maður sé dauðhræddur við að það komi eitthvað fyrir.
Í gær var rennt til Þýskalands til að klippa drengina. Það er opnað kl. 8 á morgnana og við vorum komin 5 mínútum fyrr, það voru þegar komnir 5 í röð að bíða. Þetta er mjög ódýr klipping, svo þetta er mjög vinsælt. Þetta tekur ekki langan tíma, svo við skelltum okkur í eina búð líka. Það er hægt að spara pening á sumum hlutum ef maður kaupir það í Þýskalandi og þegar meður er kominn á staðinn er um að gera að nýta sér það.
Bóndinn er enn lélegur til heilsunnar. Hann hóstar ennþá mikið, svo það er spurning um að kíkja aftur til læknis.
FRúin er að fara á námskeið aftur á fimmtudaginn og verður í tvo daga. Það verður fínt að komast í smá orlof. Hún gistir á hóteli og fær morgunmat og allt saman. Ekki á hverjum degi sem maður kemst í svo feitt.
Bóndinn tók sig til í gær og steikti ástarpunga. Við höfum ekki prófað þetta áður, en hann sá matreiðsluþátt í sjónvarpinu þar sem Danir voru að gera eitthvað sem líktist ástarpungum, svo hann vildi endilega prófa. Hann gerði báðar sortir. Þessir íslensku voru nú betri. EN það er kannski bara af því maður þekkir þá.
Ágúst er orðinn alveg eins og systir hans var á þessum aldri. Hann þarf að gaufa í öllu og óttalegt vesen á honum þegar hann er úti. Hann hjólar af stað, en verður svo að skoða allt mögulegt á leiðinni. En þetta er auðvitað mikilvægt að prófa allt vel og vandlega, svo maður verður bara að sýna þolinmæði.
Við fórum í dag í minidýragarðinn í Gram og skoðuðum litlu nýfæddi lömbin, þau voru auðvitað óskaplega krúttleg.
Jæja best að fara að veiða soninn upp úr baðinu. Þau voru svo skítug eftir daginn, svo þeim var hent í bleyti.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2016 | 15:37
Páskafrí
Kæru bloggvinir
þá er páskafríið að verða búið. Það er ýmislegt búið að bralla. Veðrið hefur verið eitthvað mismunandi, en allavega ekkert vetrarveður. Það er búið að rigna frekar mikið í dag, en nú skín sólin. Það er ennþá frost á nóttinni, en annars hefur veturinn verið mjög mildur. Það verður sennilega ekki mikið úr þessu héðan af. Við fluttum klukkuna í nótt. Alveg óþolandi þetta hringl með klukkuna.
Börnin hafa ekkert verið mjög góð að sofa lengi í fríinu. Ágúst hefur vaknað í síðasta lagi kl. 6 á morgnana, en síðustu daga hefur hann sofið lengur. En á hefur Auður vaknað kl. 6. Það er alveg bókað að á þriðjudaginn verður alls ekki hægt að fá þau á fætur. Ágúst hefur neitað að sofa á daginn. En hann hefur sennilega ennþá þörf fyrir það í leikskólanum. Við erum búin að vera mikið úti að leika og krakkarnir hafa líka verið mikið úti í garði, þegar það hefur verið sól. Þau nenna ekki að vera úti þegar það er rigning. Við fórum samt út í morgun í ausandi slagveðri. Það ar geðveikt gaman að hoppa í pollunum. Þau renndu sér á rassinum í bleytunni og voru gegndrepa. En þau skemmtu sér alveg konunglega.
Pabbi þeirra gerði fjársjóðskort fyrir páskaeggjaleit í morgun. Það var mikil stemning að leita að þeim í morgun. Það var rosa gott að fá íslensk páskaegg og málshætti. Eftir því sem árin líða finnst manni nú erfiðara að skilja þessa málshætti.
Bóndinn var orðinn ansi kvefaður þegar páskafríið byrjaði. Það endaði með að hann var kominn með svo mikið tak í bakið af að hósta, að hann gat hvorki lagst eða staðið upp. Það endaði því með að við keyrðum til vagtlæknis og það kom í ljós að hann var kominn með lungnabólgu og tognaður í vöðva. Það var eins gott að maður fór og lét athuga þetta.
Rottan sem við héldum að væri komin aftur, var víst bara einhver draugarotta. Það hefur allavega ekki sést meira til hennar. Sem betur fer.
Þeir eru byrjaðir að grafa upp götuna hérna fyrir framan. Þeir eru farnir að nálgast okkur, en þetta tekur nú allt sinn tíma. Ágústi finnst rosa spennandi að fylgjast með þessum stóru vinnuvélum.
Jæja ætli sé ekki best að fara að huga að kvöldmatnum.
Kveðja frá Tisetgenginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2016 | 18:47
Rottan genginn aftur
Kæru bloggvinir
það hefur verið fallegt veður undanfarið, en ennþá svolítið kalt. Börnin eru alltaf úti að leika allan daginn. Við erum öll komin í páskafrí. Það verður sennilega reynt að slaka á. Börnin þurfa allavega á því að halda. Og sennl að ilega foreldrarnir líka.
Bóndinn heldur að rottan sé snúin aftur. Það er verið að grafa í sundur veginn hérna fyrir utan og þær eru sennilega á flótta. Það á að breyta skólpinu og þá þarf að grafa alla götuna upp. Þegar rignir þá fer allt á flot, svo þeir eru að breyta þessu eitthvað til að taka við öllu vatninu. Vonandi að það hjálpi. Það verður ekki skemmtilegt að hafa götuna alla sundurgrafna í langan tíma og þurfa að leggja bílnum langt í burtu. En þetta hlýtur að reddast.
Ágúst er búinn að vera að suða um í svolítinn tíma að fá að heimsækja dagmömmuna. Ég var svo heppin að hitta hana í búð í gær og fékk leyfi til að koma með Ágúst á þriðjudaginn. Hann var voða glaður. Hana vantar börn, svo hún verður kannski að hætta. Það er ekki mikil endurnýjun í fólki hér í bænum og þess vegna ekki lítil börn. En vonandi koma börn einhvers staðar annars staðar frá.
Annars hefur allt verið í sömu skorðum. Við fórum í heimsókn til Odense í dag. Börnin voru úti að leika mestallan tímann. Það var voða gott veður meðan sólin skein. En fljótt að kólna þegar sólin fór.
Ætli maður reyni ekki að taka til hérna í fríinu. Bóndinn þreif gluggana að utan og innan í vikunni. Maður áttaði sig ekki á hvað þeir voru skítugir fyrr en þeir voru orðnir hreinir. Maður sér orðið út í garð aftur. Það er ótrúlegt hvað maður getur vanið sig á.
Við erum búin að vera að horfa á íslenska sakamálaþáttinn ófærð. Við eigum einn þátt eftir. Það er voða gaman að sjá myndir frá Íslandi. Dönum þætti nú eitthvað glæfralegt að þeir keyra um án þess að hreinsa snjóinn af bílunum og aðalleikarinn alltaf hálfber í snjókomunni.
Jæja ætli sé ekki best að fara að kíkja á kassann.
kveðjur úr Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)