Vorstemning

Kæru bloggvinir

vorið hefur eithvað verið að sýna sig um helgina. Börnin hafa ekki fengist til at koma inn, þau hafa verið eins og kálfarnir á vorin. Það er náttúrlega rosa gott að þau nenni að vera úti.

Á föstudaginn var nóg að gera í fundarhöldum. Það var byrjað á fundi í leikskólanum. Þær eru rosalega ánægðar með Ágúst og finnst hann mjög duglegur. Hann leikur við alla og spáir í að enginn sé útundan. Hann er eitthvað latur við að klæða sig sjálfur. Sennilega áhugaleysi og of mikil þjónusta heima. En það ætti nú ekki að vera erfitt að ráða bót á því. Það er auðvitað rosa gott að heyra að honum gangi svona vel. Það skiptir öllu máli. Eftir þetta fór frúin til læknis og svo þurftum við að fara á enn einn fundinn. Síðan var frúnni boðið út að borða á einhvern sushiveitingastað. Það er sjaldan sem maður fær svoleiðis, af því það er enginn svoleiðis staður hér í nágrenninu.

Í gær var svo farið í leiðangur til Ribe. Við þurftum að láta skoða sjónina. VIð bjuggumst við að þurfa að blæða í ný gleraugu, en sluppum sem betur fer við það. Frúin þurfti bara ný sólgleraugu. Þetta varð því ekki eins dýrt og maður hélt. Þeir eru komnir með einhverja nýja tækni þar sem þeir geta tekið mynd inni í auganu. Þeir hafa víst bæði fundið sykursýki hjá fólki og ung stelpa fékk að vita að hún væri með æzli. Það er nánast óhuggulegt að það sé hægt að sjá svoleiðis í gleraugnabúðinni. Hér fer maður ekki til augnlæknis nema í mjög sérstökum tilfellum.

Seinnipartinn í gær var okkur svo boðið í kaffi til Evu gömlu. Hún vildi endilega sitja úti í garði, það var einhver smá sólarglæta. Danir eru alveg óðir að sitja úti um leið og það Þsést til sólar. Þó maður sitji úti og sé skítkalt, þá finnst þeim þetta óskaplega huggulegt.

Í morgun kom nágranni okkar með 4 rósir sem hann var víst búinn að lofa bóndanum að fá. Hann þurfti að losna við þær. Það varð því að finna stað fyrir þær og koma þeim í jörðina í flýti. Þetta hafðist allt saman. Svo er bara vika eftir í páskafrí. Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur alltaf áfram.

Rottan lét lífið stuttu eftir síðustu færslu. Bóndinn las á netinu að þær væru sólgnar í rúsínur, svo hann lét rúsínu í gildruna og viti menn, stuttu seinna lá hún í valnum. Frekar ókræsilegt.

Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili

kveðja

Tisetgengið 


Óboðinn gestur

Kæru bloggvinir

Vorið er ekkert að flýta sér að koma. Það er voðalegur vatsnkuldi ennþá og frost á nóttinni. En það er sennilega of snemmt að ætlast til þess að það komi alveg strax. Bara að það sé ekki snjór þá er þetta fínt.

Frúin hitti rottu hérna á bakganginum um daginn. Það var hringt í rottumanninn sem kom og setti upp tvær gildrur. Eina eins og er alltaf í teiknimyndunum, þar sem er einhver matur og svo skellur járn á músina eða rottuna. Fyrsta daginn eftir hún var sett upp, þá var búið að taka matinn og gildran var lokuð, en engin var rottan. Næsta dag var búið að færa gildruna til. Henni finnst við ábyggilega bara mjög fyndin ð vera að reyna þetta. Hún hefur grafið helling af holum og það er ekkert smá sem hún mokar upp. Siðustu tvo daga hefur hún ekki mikið látið á sér kræla. En hún er kannski bara að sækja fjölskylduna og svo flytja þau öll inn. Moldvarpan er komin á fullt aftur eftir smá pásu. Þær flytja kannski saman. Þetta er hálfgerður ófögnuður. En vonsndi er hægt að losna við rottuna allavega. MOldvarpan er þó bara úti í garði.

Auður Elín fór í afmæli hjá bekkjarsystur sinni í gær. Það var víst mjög mikið fjör. Hún vildi allavega alls ekki koma heim aftur. Þær voru bara 5 stelpur. Strákunum var ekki boðið. Það væri gott að vera búin að þessu, en það verður látið bíða þar til í sumar. Auður vill ekki bjóða strákunum, nema kannski einum þeirra. En það verður að bjóða öllum af sama kyni. Svo vonandi sleppum við með að bjóða bara stelpunum. Annars erum við nú heppin, af því að venjulega eru bekkirnir miklu stærri og þar af leiðandi miklu fleiri krakkar.

Á meðan Auður var í afmæli, fór restin af fjölskyldunni til Þýskalands. Það er alltaf ágætt að fara í búðir þegar maður er bara með eitt barn. Ágúst er voða ánægður í leikskólanum, hann leikur við marga krakka. Og virðist ekkert vera að pæla í hvort þau séu eldri eða yngri. Hann má varla vera að því að kveðja mann á morgnana. Honum finnst nú svolítið svindl að Auður sé að fara í partý og fá nammi og kökur. En hann fær nú líka að prófa það seinna. Þau eru bæði rosalega dugleg í sundi. Auði fer mikið fram eftir hún fór að vera með eldri krökkum.Krakkar hér fara bara í skólasund í eitt ár. Sennilega í 3ja bekk. Okkur finnst það nú ekki alveg nóg. Svo við reynum að halda þeim eitthvað lengur í sundi. Auði langar mikið að æfa fimleika, svo kannski við reynum það næsta vetur. Hún hefði allavega gott af því að æfa jafnvægi og svoleiðis. Hún líkist því miður móðir sinni að því leyti. En sennilega getur hún orðið betri ef hún æfir sig svona ung.  

Í morgun fórum við út að leika og skoða dýr. Við fundum lítinn dýragarð hérna rétt hjá. Það þótti mjög spennandi.

Í kvöld er svo stefnt á að hara saltkjöt og baunir. Við erum búin að salta lambakjöt og vonum það verði gott.

Kveðja

TIsetgengið og rottan


Vor í lofti

Kæru bloggvinir

það hefur verið hálfgert vor í loftinu undanfarið. Það er frost á nóttunni og kalt á morgnana, en svo kemur sól og er mestan hluta dags. Það er farið að birta helling, svo við erum bara nokkuð sátt. Það munar allavega svakalega miklu þegar það fer að birta meira.

Það er verið að byrja að grafa í sundur allar götur hér í bænum. Það á að breyta skólpkerfinu, svo regnvatnið og skólpið renni ekki saman. Klóakið ræður ekki við það. Þetta eru hellings útgjöld og maður liggur nú ekki inni með peninga fyrir svona löguðu.

Það er alltaf nóg að gera hér á bænum. Börnin eru mjög ánægð í leikskóla og skóla og það skiptir miklu máli. Auður labbar orðið sjálf til og frá skólabílnum og finnst það ekkert tiltökumál. Þau hafa bæði verið voðalega þreytt eftir vetrarfríið. Sennilega af því við höfðum svo mikið að gera á stuttum tíma.

Í morgun var okkur boðið í brunch hjá Evu íhlaupaömmu barnanna. Þar var mjög margt um manninn og mjög fínt að vera. Við þekkjum nú orðið ansi mikið af þessu fólki, en það er alltaf einhverjir sem við þekkjum ekki. Börnin skemmtu sér mjög vel og léku sér. Það voru ekki mörg önnur börn, en þau fundu sér eitthvað að gera. Þegar við komum heim fengum við svo skilaboð frá mömmu vinkonu hennar Auðar, og hún vildi endilega fara að leika. Ágúst var eitthvað voða pirraður og lagðist á gólfið og var eitthvað að leika sér og svo allt í einu var hann sofnaður. Það er nú ekki oft sem það gerist. Hann vill helst ekki leggja sig hérna heima eftir hádegið. Honum finnst hann örugglega orðin svona fullorðinn. Hann leggur sig ennþá í leikskólanum. Hann varð eitthvað voða lítill í sér í vikunni og vildi fá snudduna sína, en annars hefur hann ekki spurt eftir þeim. Í gær fórum við á bókasafnið þar sem hann hafði hengt þær og hann horfði á þær og vildi fá þær með heim, en það var ekkert mál að við tókum þær ekki með.

Svo er planið að reyna bara að slaka á það sem eftir er dags. Kannski maður kíki út í góða veðrið.

Jæja við látum þetta nægja í bili

kveðja frá Tisetgenginu


Vetrarfrí

Kæru bloggvinir að

þá er vetrarfríið að verða búið og börnin fara í leikskóla og skóla á morgun. Ágúst fór að gráta í gær og sagðist sakna leikskólans. Gott að við tókum ekki lengra frí. Það er búið að vera nóg að gera. Á fimmtudaginn fórum við í bíó. Ágúst hefur aldrei prófað það en Auður hefur farið einu sinni. Þetta var því mjög spennandi. Hann gat nú ekki setið kyrr allan tímann, en það voru svo fáir í bíó að það gerði ekki mikið til að hann var að þvælast út um allt.

Á föstudaginn fórum við svo á göngugötuna í Haderslev og börnin fengu að kaupa sér fyrir peninga sem þau voru búin að safna sér. Það er heldur ekki neitt sem gerist mjög oft, svo það var mjög spennandi líka. Ágúst fékk peningaverðlaun fyrir öskudagsbúninginn sinn síðasta sunnudag, svo hann átti smá aukapening. Það er búið að vera mjög fallegt en kalt veður. Það er svo eitthvað að breytast núna. Þeir eru að spá meiri hlýindum. Óli og Guðný komu svo við á föstudaginn og Arndís fékk að gista hjá Auði. Þær voru smá óþekkar að fara að sofa, en annars var þetta ekkert mál. Í gær var svo keyrt til Odense til að fara í einhvern risastóran innileikjagarð. Þau hlupu þar um í nokkra klukkutíma og svo fórum við heim til Óla og Guðnýjar. Börnin voru vel þreytt. Þegar við komum heim fengu þau að horfa á söngvakeppni fyrir börn. Það er svipað og Eurovision, bara fyrir börn. Auður fór ekki að sofa fyrr en kl. 22:00. Þau eru líka ansi þreytt og pirruð í dag. Það verður því ekki gert neitt mjög mikið í dag.

Við sömdum við Ágúst að hann myndi hætta með snuddu og fá bangsa í staðinn. á föstudaginn var hann svo þreyttur um kvöldið að hann rotaðist strax. Í gærkvöldi var þetta eitthvað erfiðara af því hann var yfir sað eig þreyttur og hann heyrði að Auður var ennþá vakandki. En þetta hafðit allt saman. Hann hefur ekkert spurt um snudduna og það finnst okkur alveg stórmerkilegt. Hann hefur reyndar ekki verið eins háður henni og Auður var. En samt. Við fórum svo og hengdum snuddurnar hans á tré sem stendur inni á bókasafninu hérna í Gram. Þetta var heilmikil athöfn. Það er ótrúlegt ef þetta verður ekki meira mál en þetta. Við krossum fingur að þetta gangi upp.

Við erum búin að vera dugleg að leika úti. Börnin eru almennt hrifin af því. Auður þó ekki eins mikið og Ágúst. Þau fengu bæði að kaupa sér smá föt á föstudaginn og hlakka mikið til að sýna vinum sínum það á morgun. Ágúst og Emil er farnir að leika sér aðeins meira saman. Þeir eru svipað gamlir og Auður og Arndís, þegar þau fluttu hingað. Það verður spennandi að fylgjast með, hvernig sambandið þeirra þróast. Stelpurnar voru í byrjun oft ósáttar og þetta gekk ekki alltaf stórslysalaust. En núna eru þær rosa góðar vinkonur. VOnandi að þetta þróist svona hjá strákunum líka.

En jæja best að fara að hætta þessu núna. Ágúst er að leika við sjálfan sig og leikur öll hlutverk í leiknum. Auður er úti að leika við Ágústu vinkonu sína. Það er þá smá friður hér á meðan. Við ætlum að prófa að borða hjartarsteik í kvöld, sem við fengum gefins hjá kunningjum okkar. Það verður spennandi.  

Kveðja

Tisetgengið


Áframhaldandi öskudagshátíðarhöld


Kæru bloggvinir

Það er eitthvað aðeins að byrja að snjóa hér, en við vonum það verði bara eitthvað smáræði. Óttalegt vesen ef það snjóar mjög mikið.

Það er öskudagshátíð hérna í TIset í dag. Ætli maður reyni ekki að mæta þar. Börnin eru allavega ekki tilbúin að sleppa því. Svo ætti öskudagspartýin að vera búin þetta árið.
Í næstu viku er svo vetrarfrí í skólanum. Auður fer í skólaskjól á morgun. Það eru nú ekki mörg börn, svo þau verða heima hjá fóstrunni. Það á að fara með þau í sund, svo það verður nú eitthvað spennandi.

Annars er nú allt í sama farinu hér. Börnin eru stundum alveg ótrúlega þreytt á hvort öðru. Það er eins og þau þurfi alltaf að vera að leika með sama dótið. Við erum alltaf að reyna að skipta dótinu á milli þeirra. En það virðist ekkert hjálpa. Ef Ágúst er með eitthvað dót, þá er eins og Auður þurfi alltaf að fá það. Þó hún hafi ekki haft neinn áhuga á því áður en Ágúst fór að leika með það. En það er nú sennilega mjög algengt milli systkina.
Í gær vorum við allan daginn í stórum íþróttasal, þar sem var ýmislegt verið að gea. Auður og bóndinn bökuðu saman kökur og við Ágúst vorum eitthvað að hoppa. Svo voru lesnar og leiknar sögur úr biblíunni. Auður sat og hlustaði af mikilli athygli og bauð sig svo fram til að fara að hjálpa konunni sem var að segja sögurnar. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu mikið hún hefur þroskast við að fara í skóla. Hún er mikið frakkari og framfærnari. Hún talar við fleiri krakka og er almennt meira til í að prófa nýja hluti. Ágúst er allt önnur týpa. Hann reifst og skammaðist í miklu eldri krökkum í gær, honum er alveg sama. Það er fyndið að það sé svona mikill munur á þeim.
Það voru ansi þreytt börn sem komu heim hér seinnipartinn í gær. Þau hafa líka verið ansi þreytt hér í morgun. Við drifum okkur út að leika og fórum svo í heimsókn til Evu gömlu.

Það er ekki alveg búið að plana frídagana í næstu viku, en það hlýtur að finnast eitthvað sem við getum gert. Það er lengi búið að standa til að fara í bíó með börnin og það er kannski kominn tímí á það. Svo reynir maður kannski að heimsækja Óla og Guðný í Odense. Það vinnst ekki mikill tími til þess, svona dags daglega.

Síðasta föstudag hringdi eitthvað fólk allt í einu sem vildi kaupa veggflísar sem við erum búin að hafa til sölu í hálft ár. Þau vildu keyra alla leið frá Fjóni, ca. 1 1/2 tíma til að kaupa 15 fermetra af flísum. Það er svolítið fyndið að þau reyndu ekkert að prútta um verðið, en það gera allir hér á Suður-Jótlandi. Þetta er víst sérstaklega slæmt hérna á þessu svæði. En við vorum bara ánægð að losna við þetta og fá smá aur fyrir. Það er þá hægt að gera eitthvað skemmtilegt í fríinu.

Jæja ætli sé ekki best að fara að gera klárt fyrir öskudagspartýið.

Kveðja
TIsetgengið
Sendt fra Mail til Windows 10


Öskudagshasar

Kæru bloggvinir

hér er ýmisskonar veður þessa dagana. Það er frekar hlýtt miðað við árstíma, en oft rok eða rigning. Snjóinn höfum við ekkert séð síðan þarna um daginn. Snjóþoturnar bíða samt hérna á bak við. Maður veit ekki nema það komi eitthvað smávegis föl aftur.

Það er búið að vera nóg að gera í öskudagsundirbúningi. Ágúst var á öskudagsskemmtun á föstudaginn í leikskólanum. Hann vaknaði með þvílíkan hálsríg að hann gat ekki rétt almennilega úr hausnum. En hann vildi ekki heyra á það minnst að vera heima. Hann fékk að kaupa sér löggubúning og var alveg svakalegur töffari. Hann er nú eitthvað að lagast í hálsinum, en samt ekki alveg góður. VIð höfum verið að reyna að láta hann sitja með hitapúða, en hann hefur ekki alveg þolinmæði í það.

Auði langaði að vera bílaviðgerðarstelpa, sem hún horfir oft á í sjónvarpinu, en það var svo mikið vesen að skaffa galla fyrir hana að hún ákvað að vera bara norn. Hún átti galla í það. Hún slær köttinn úr tunnunni á morgun í skólanum. Hún er ógurlega spennt og var mjög svekkt yfir því að Ágúst fékk að fara í búning á föstudaginn. Svo er öskudagsskemmtun hér í Tiset á sunnudaginn. Við ættum því að vera búin að fá nóg eftir það. Krökkunum finnst þetta rosalega spennandi. Þau hafa mikið pælt í því hvort við ætlum ekki að vera í búning líka, en það hefur nú víst lítið farið fyrir því að við klæddum okkur upp.

Bíllinn fór á verkstæði á mánudaginn og fékk skipt um bremsur. Eins gott að hafa það í lagi. Svo var vespan hjá bóndanum eitthvað illa haldinn eftir að hafa staðið í nokkurn tíma hreyfingarlaus. Hún var því frögtuð á verkstæðið á föstudaginn. VOnandi að það sé ekkert alvarlegt, kannski þarf bara eitthvað að smyrja. Það er allavega mikill munur að hafa annað faratæki þegar maður býr utan almenningssamgangna.

Í dag var ráðist í að baka öskudagsbollur. Bæði vatnsdeigsbollur og danskar bollur. Krökkunum þótti mjög spennandi að fá að skreyta þessar dönsku og þær brögðuðust lygilega vel. Kannski af því við bjuggumst ekki við neinu. Þeir baka oftast gerbollur, stundum með fyllingu inn í og glassúr ofan á.Það er ágætt að prófa eitthvað annað en maður er vanur. Það er ágætt að það er bara bolludagur einu sinni á ári. Þetta er rosalega gott, en maður getur ekki borðað mikið.
Svo er illt í efni með saltkjötið. Við höfum ekki náð að salta, en ætlum að reyna að ráðast í það næstu daga svo maður nái að gera baunasúpu. Það verður að hafa það, þó það sé ekki á sjálfan sprengidaginn. Þeir halda bara upp á bolludag. En borða baunasúpu á öllum mögulegum tímum.

Jæja ætli sé ekki ráð að fara að slaka á fyrir næstu vinnuviku. Vikan eftir það, er svo vetrarfrí í skólunum. Frúin ætlar að vinna  daga og taka svo frí og börnin gera það sama. Maður verður svo að reyna að gera eitthvað skemmtilegt þessa frídaga. Svo er stutt í páskafrí, svo maður er ekkert að ofreyna sig í vinnunni.

Öskudagskveðja

TIsetgengið


Bleyta

Kæru bloggvinir

þá er búið að skifta um veður einu sinni enn. Það hefur verið hiti í þessari viku, en af því að það er svo mikill raki, þá er ekkert sérstaklega hlýtt. Það rignir töluvert og í dag hefur verið éljagangur. VIð prófum sitt lítið af hverju. En það er sennilega ekki við öðru að búast á þessum árstíma.

Fjölskyldan hefur verið ansi kvefuð. Börnin hósta frekar mikið og við gamla settið erum eitthvað að smitast af þessu. Danir eru alveg óskaplega viðkvæmir fyrir hori og þola alls ekki að maður sjúgi upp í nefið á almannafæri. Þeim finnst skárra að maður snýti sér fyrir framan alla, eins og það sé eitthvað skárra.

Frúin fór á námskeið á fimmtudag og föstudag. Það var langt héðan, svo hún varð að gista. Ágúst fékk að gista hjá Óla og Ástu og Auður svaf hjá pabba sínum. Það var víst ágætt fyrir þau að fá smá pásu fra mömmu sinni. Hún gerir þau víst svo óþekk. Það er oft auðveldara að hafa þau sitt í hvoru lagi. Auður er ansi ráðrík og bróðir hennar nennir ekki alltaf að hlusta á það. Námskeiðið var mjög gott og alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt. Það var einn vinnufélagi með, svo frúin þurfti ekki að tala við ókunnugt fólk. Það þótti henni nú ekki svo slæmt. Hún er ekki sú félagslyndasta.

Nú stefnir svo bara í venjulega vinnuviku. Bíllinn þarf að fara á verkstæði á morgun og láta kíkja á bremsurnar. Við erum nýbúin að borga síðustu viðgerð.Það er alltaf eitthvað.

Í gær renndum við til Ribe að kaupa vaxdúk á eldhúsborðið. Við fundum í leiðinni bráðskemmtilegan leikvöll. Hann er byggður í víkingastíl, enda er Ribe víkingabær. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og börnunum fannst þetta mjög spennandi. Það er nú það sem skiptir mestu máli. Ágúst vildi svo fara aftur út að leika seinnipartinn í gær svo frúin lét sig hafa það að fara aftur út. Auður er að verða svo mikil gelgja að hún er ekki eins viljug að vera úti. Enda alveg fínt að hafa þau sitt í hvoru lagi einstöku sinnum.

Bóndinn fór á fyrirlestur í vikunni með einhverjum dösnkum eldfjallafræðingi sem hefur mikinn áhuga á Heklu og er búin að stúdera það eitthvað voða mikið. Þetta var víst mjög fínt og hann visse alveg helling. Það hlýtur nú að vera skrýtið að vera eldfjallafræðingur í landi þar sem eru engin fjöll og alls ekki eldfjöll.En hann virtist mikill áhugamaður um þetta og það var víst hellingur af fólki.

Næst á dagskrá er að fara í kaffi til Evu aukaömmu. Hún var ekki heima í morgun þegar við reyndum að hitta á hana. Hún hafði farið í messu. En hún lofaði að vera heima núna, svo við látum á það reyna.

Jæja héðan er víst ekki mikið meira að frétta.

kveðja

Tisetgengið

 

 


Snóþotuævintýri

Kæru bloggvinir

Hér snjóaði töluvert á föstudag og það eru ennþá smá leyfar eftir. Það er sjaldan sem það kemur svo mikill snjór að hann hangi í nokkra daga. Það varð því að fara og reyna að kenna börnunum að renna á snjóþotu. Ágúst átti ekki snjóþotu, svo það varð að bæta úr því. Þau kunna ekkert almennilega á þetta, og verða örugglega búin að gleyma því, næst þegar kemur snjór. Það er allavega komin hláka núna, og við höfum ekki heyrt hvenær það kemur aftur snjór. En þá eru græjurnar allavega tilbúnar.

Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn. Það voru ekki margir, en þetta var mjög huggulegt. Börnin eru gríðarlega hrifin af þessu. Auður fékk að taka vinkonu sína með heim úr skólanum á föstudaginn. Þær voru voða góðar að leika sér saman. Það er svolítið fyndið að þær voru saman í svona ungbarnahóp þegar þær voru nýfæddar. VIð verðum að sjá hvort við finnum myndir af þeim síðan þá, það væri fyndið að sjá. Í gær og í dag hefur svo Ágústa vinkona hennar Auðar verið mikið hér. Hún er í heimsókn hjá pabba sínum þessa helgi.

Við erum búin að vera mikið úti og fundum ágætis brekku hérna inni í skógi sem þau gátu rennt sér á. Alveg nógu bratta fyrir svona byrjendur. Ágúst er aðeins kjarkaðri en systir hans, en þau eru nú hvorugt sérstaklega kjörkuð. Það er stundum ágætt, þá slasast þau ekki eins oft.

Hundurinn hefur verið mjög sáttur við snjóinn. Honum finnst hann sennilega vera kominn heim. Hann saknar örugglega stundum íslenska veðurfarsins. Það er mjög gott að hafa smá snjó, þá verður bjartara. Bara að hann fari ekki að blása út um allt. EN það gerist mjög sjaldan hér.

Ágúst er orðinn sáttari í leikskólanum. Það er ekki minna en 3 mismunandu sjúkdómar í gangi núna. Hlaupabóla, njálgur og eitthvað sem við þekkjum ekki. En örugglega eitthvað bráðsmitandi. Hins vegar er langt síðan við höfum haft lús. Ekki að við söknum þess. En þetta gengur alltaf yfir nokkrum sinnum á ári. Kannski þola þær ekki kuldann. MOldvarpan í garðinum hefur allavega hægt eitthvað á sér.

Ágúst heimtaði einn daginn að standa þegar hann pissar. Hingað til hefur hann setið. Frúin var nú ekki mjög hrifin af því hún hefur reynslu af því að karlmenn eigi erfitt með að stjórna þessu tóli og það vill slettast út um allt. En hann er voða montinn af þessu og ómögulegt að eyðileggja það fyrir honum. Kannski er kostur að hann læri þetta svona fljótt, þá eru kannski meiri líkur hann hitti á réttan stað.

Það gengur eitthvað illa að finna þorrablót að komast á. Það eru nókkur hérna á Jótlandi, en frekar langt í burtu. Það er nú alltaf stemning að fara á þorrablót, en alveg spurning um hversu langt maður nennir að keyra eftir því.

Jæja það er víst ekki mikið meira títt héðan úr sveitinni. Eitthvað rólegt þessa dagana. Eða kannski bara allt svo hversdagslegt, eitthvað sem maður nennir ekki að skrifa um.

Kveðja

Tisetgengið


Kuldaboli

Kæru bloggvinir

Þá er veturinn víst eitthvað að reyna að sýna klærnar. Það er mjög rólegt veður, en um helgina hefur verið svolítið mikið frost. Það hefur verið upp undir 15 stiga frost á nóttinni. Það er svo mjög fallegt veður yfir daginn. VIð fórum í verslunarleiðangur í gær og keyptum meðal annars kuldaskó á frúnna. Við fórum svo og keyptum okkur ís og stóðum fyrir utan búðina og sleiktum hann. Öll börnin sem gengu framhjá fóru að suða um ís, en foreldrarnir voru ekki par hrifnir af þeirri hugmynd. Þeim finnst örugglega mjög heimskulegt að borða ís á veturna.

Annars er allt að falla í samt horf hér eftir fríið. Allt komið á fullt í skólanum hjá Auði og Ágústi í leikskólanum. Þau eru bæði mjög ánægð og það skiptir öllu máli. Þau hafa nú eitthvað átt erfitt með að þola hvort annað undanfarið. Það er kannski bara af því þau eru búin að vera svo mikið saman. Eða þetta er almennur systkinapirringur. Auður er óskaplega stjórnsöm þegar hún er að leika við hann og skilur ekkert í því að hann nenni ekki alltaf að vera með. Þegar við vorum búin að versla í gær, fórum við á stórt leiksvæði rétt hjá göngugötunni. Það fannst þeim rosa gaman. Svo kom stelpa, svona 10 ára og spurði, hvaðan við kæmum. Við vorum að tala íslensku við krakkana. Hún sagðist vera hálfur Íslendingur. En alinn upp í Danmörku. Henni fannst hún kannast eitthvað við tungumálið.

Nú fer að koma í mann þorrablótafílingur. En það er ekkert þorrablót hérna í nágrenninu í ár, svo það verður sennilega ekki mikið borðað af þorramat hér. Það er nú erfiðast fyrir bóndann. Frúin hefur ekkert mikinn söknuð eftir þessu. En auðvitað gaman að fá þetta öðru hvoru. Við höfum nú stundum gert saltkjöt, en það hefur ekki komist í verk í ár. Við keyptum lambaskrokk fyrir jólin, en það var vso litið af súpukjöti að við áttum ekki nóg til að setja í salt. Það hefst kannski seinna á árinu. Við erum ekkert svo upptekin af því að borða saltkjöt á ákveðnum tíma árs. Það er ekki hægt að spá í svoleiðis, þegar maður getur ekki bara farið út í búð og keypt þetta tilbúið. Við höfum stundum gert baunasúpu eins og Danirnir gera, með bacon. Það er líka alveg ljómandi gott.

jæja best að njóta þess að það er friður í kotinu. Ágúst er að leggja sig og Auður fór að leika við vinkonu sína. Hún er því miður að fara að flytja til Haderslev. Það er ca. hálttíma keyrsla. En pabbi hennar býr ennþá hér á móti og þá geta þær eitthvað hist áfram. Svo verðum við bara að keyra þær fram og tilbaka.

Jæja best að henda sér í sófann

kveðja Tisetgengið


Síðbúinn jólasnjór

Kæru bloggvinir

þá kom jólasnjórinn loksins til okkar. Börnin voru mjög sátt við þetta og Ágúst var ekkert smá spenntur að fá að fara með snjóhanskana í leikskólann. Það var dregin fram snjóþota og engu til sparað. Síðan hefur þetta nú að mestu rignt í burtu. Þeir eru að spá einhverjum umhleypingum á næstunni, svo þetta er spennandi. Það er nú alltaf ágætt með smá snjó, svona til að birta upp daginn. Það hefur verið mjög mikil grámygla hér í vetur og sjaldan heiðskírt. En það er óttalegt vesen ef það fer að snjóa mikið og skafa.

Það var ansi erfitt að komast í gang aftur eftir frí. Börnin voru víst bara fegin að komast aftur í fasta ramma. En þau eru búin að vera voða þreytt og Ágúst hefur verið frekar lítill í sér. Þegar frúin sótti hann á föstudaginn var hann hvergi sjáanlegur. Hann fannst inni í eldhúsi. Þá voru einhverjir gaurar búnir að skrúfa frá vatni og það var vatn út um allt gólf. Og enginn af starfsfólkinu hafði tekið eftir því. Það má auðvitað ekki hafa lokað inn í eldhús. Það á allt að vera svo frjálst. Sonurinn stóð þarna á miðju eldhúsgólfi, blautur upp fyrir haus og skildi ekkert í þessu. En það er svo sem ekki mikið hægt að skamma barnið, það er auðvitað á ábyrgð starfsfólksins að koma í veg fyrir svona lagað. Þær tóku þessu nú bara vel. Það eru óvanalega mörg börn á deildinni hjá Ágústi, en það er verið að bæta við fólki og þeim er skift upp í minni hópa, svo þau séu ekki alltaf svona mörg saman. En það er alltaf verið að spara, svo það er ekkert allt of mikið af starfsfólki.

Auður var mjög ánægð að komast í skólann aftur. Hún saknaði kennarans síns svo mikið og auðvitað líka krakkanna. Hún pælir voða mikið í bókstöfum og tölum þessa dagana. Þetta er smám saman að síast inn. Við höfum lengi verið að leita að nýrri kúlusæng handa henni. Þetta er glæpsamlega dýrt að kaupa nýtt, en við vorum svo heppin að detta niður á eina notaða í Horsens. Það er 1 1/2 akstur héðan. Það var því lagt af stað snemma í gærmorgun og fjárfest í einu svona stykki. Þetta á nú að endast í nokkur ár. Þetta hjálpar henni allavega rosalega mikið til að slaka á, svo við myndum ekki vilja vera án þess.

Okkur var svo boðið í mat hjá aukaömmunni í gærkvöldi. Hún bauð upp á rauðrófusúpu. Það höfum við aldrei smakkað, en þetta var alveg fínasti matur. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Í morgun fórum við mæðginin út að drullumalla í slabbinu. Það þykir honum hin besta skemmtun. Hann er rosa duglegur að dunda sér úti og finna sér eitthvað að gera. Hún var það líka á hans aldri, svo hefur þetta breyst. Hún vill mjög gjarnan fá að sitja inni og horfa á sjónvarpið, eða spila á spjaldtölvuna. Hún vill meina að allir í bekknum eigi eina slíka og það sé bráðnauðsynlegt fyrir hana að eiga svoleiðis. Við erum nú eitthvað treg að kaupa svona tæki fyrir hana. Við erum alveg hrikalega leiðilegir foreldrar.

Í dag er svo stefnt á að fara í afmæli hjá Eydísi, dóttur Óla og Ástu, vina okkar hér í Gram. Hún er að fara til USA á morgun, svo það er ekki seinna vænna en að halda smá partý. Hún er búin að vera í skóla úti í heilt ár og ætlar að vera lengur.

Jæja ætli þetta sé ekki komið nóg af ævintýrum í bili.

kveðja

Ragnhildur og restin af genginu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband