Síðbúinn jólasnjór

Kæru bloggvinir

þá kom jólasnjórinn loksins til okkar. Börnin voru mjög sátt við þetta og Ágúst var ekkert smá spenntur að fá að fara með snjóhanskana í leikskólann. Það var dregin fram snjóþota og engu til sparað. Síðan hefur þetta nú að mestu rignt í burtu. Þeir eru að spá einhverjum umhleypingum á næstunni, svo þetta er spennandi. Það er nú alltaf ágætt með smá snjó, svona til að birta upp daginn. Það hefur verið mjög mikil grámygla hér í vetur og sjaldan heiðskírt. En það er óttalegt vesen ef það fer að snjóa mikið og skafa.

Það var ansi erfitt að komast í gang aftur eftir frí. Börnin voru víst bara fegin að komast aftur í fasta ramma. En þau eru búin að vera voða þreytt og Ágúst hefur verið frekar lítill í sér. Þegar frúin sótti hann á föstudaginn var hann hvergi sjáanlegur. Hann fannst inni í eldhúsi. Þá voru einhverjir gaurar búnir að skrúfa frá vatni og það var vatn út um allt gólf. Og enginn af starfsfólkinu hafði tekið eftir því. Það má auðvitað ekki hafa lokað inn í eldhús. Það á allt að vera svo frjálst. Sonurinn stóð þarna á miðju eldhúsgólfi, blautur upp fyrir haus og skildi ekkert í þessu. En það er svo sem ekki mikið hægt að skamma barnið, það er auðvitað á ábyrgð starfsfólksins að koma í veg fyrir svona lagað. Þær tóku þessu nú bara vel. Það eru óvanalega mörg börn á deildinni hjá Ágústi, en það er verið að bæta við fólki og þeim er skift upp í minni hópa, svo þau séu ekki alltaf svona mörg saman. En það er alltaf verið að spara, svo það er ekkert allt of mikið af starfsfólki.

Auður var mjög ánægð að komast í skólann aftur. Hún saknaði kennarans síns svo mikið og auðvitað líka krakkanna. Hún pælir voða mikið í bókstöfum og tölum þessa dagana. Þetta er smám saman að síast inn. Við höfum lengi verið að leita að nýrri kúlusæng handa henni. Þetta er glæpsamlega dýrt að kaupa nýtt, en við vorum svo heppin að detta niður á eina notaða í Horsens. Það er 1 1/2 akstur héðan. Það var því lagt af stað snemma í gærmorgun og fjárfest í einu svona stykki. Þetta á nú að endast í nokkur ár. Þetta hjálpar henni allavega rosalega mikið til að slaka á, svo við myndum ekki vilja vera án þess.

Okkur var svo boðið í mat hjá aukaömmunni í gærkvöldi. Hún bauð upp á rauðrófusúpu. Það höfum við aldrei smakkað, en þetta var alveg fínasti matur. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Í morgun fórum við mæðginin út að drullumalla í slabbinu. Það þykir honum hin besta skemmtun. Hann er rosa duglegur að dunda sér úti og finna sér eitthvað að gera. Hún var það líka á hans aldri, svo hefur þetta breyst. Hún vill mjög gjarnan fá að sitja inni og horfa á sjónvarpið, eða spila á spjaldtölvuna. Hún vill meina að allir í bekknum eigi eina slíka og það sé bráðnauðsynlegt fyrir hana að eiga svoleiðis. Við erum nú eitthvað treg að kaupa svona tæki fyrir hana. Við erum alveg hrikalega leiðilegir foreldrar.

Í dag er svo stefnt á að fara í afmæli hjá Eydísi, dóttur Óla og Ástu, vina okkar hér í Gram. Hún er að fara til USA á morgun, svo það er ekki seinna vænna en að halda smá partý. Hún er búin að vera í skóla úti í heilt ár og ætlar að vera lengur.

Jæja ætli þetta sé ekki komið nóg af ævintýrum í bili.

kveðja

Ragnhildur og restin af genginu


Gleðilegt nýtt ár

Kæru bloggvinir

Gleðilegt ár og þökkum fyrir samfylgdina á síðasta ári. Það hefur verið mjög mildur vetur, en svo síðustu daga hefur verið frekar mikið rok og það gerir það að verkum að það verður kaldara. Í morgun var svo hrikalega kalt, bæði frost og hífandi rok. Það er ekkert verið að venja mann við þetta neitt, bara skella á kulda. Af því það er ekki svo mikil einangrun i húsinu, þá blæs hressilega í gegn hérna á svona dögum. En þá er bara að klæða sig vel. Bóndinn hefur verið á stuttbuxum í allt haust, en er kominn í síðbuxur núna. Hann er orðinn betri af kvefinu, en ekki alveg góður. En þetta hlýtur að knalára þetta á næstu dögum. Við hin höfum sloppið hingað til, börnin eru smá kvefuð, en ekkert meira en við er að búast. Við vonum þau sleppi við að verða veik. Það gerist sem betur fer mjög sjaldan.

Vinkona hennar Auðar átti að gista hérna milli jóla og nýárs, en þegar á hólminn var kominn vildi hún það ekki og frúin keyrði hana heim úm kl. 22. Auður var auðvitað mjög leið yfir þessu, en það er ekkert við því að gera. Við fórum til Odense milli jóla og nýárs, þau sögðu sömu sögu af vinkonu Arndísar. Arndís gistir oft hjá henni, en hin getur ekki gert það sama. Okkur grunar að vinkonu hennar Auðar finnist við of ströng. Við viljum nefnilega að þær fari í rúmið og fari að sofa þegar við segjum það. Hún er örugglega ekki vön því heiman frá. Það virðist vera nokkuð algengt að börnin bara ráði sér sjálf með margt. Við höfum nú ekki hugsað okkur að breyta okkar reglum. Við verðum bara að reyna að finna einhverja vinkonu sem treystir sér til að sofa hérna. Auði hlakkar mikið til að fara í skólann á morgun og hitta kennarann og vini sína. Það er um að gera að gleðjast yfir því. Þegar hún verður eldri, hlakkar hana örugglega ekki eins mikið til að fara í skólann. Allavega ekki til að læra neitt.

Ágúst hefur suðað mikið um að fá að heimsækja dagmömmuna sína og hann fékk það milli jóla og nýárs. Það voru miklir fagnaðarfundir. Hann er nú samt alveg á því að fara í leikskólann á morgun. VIð sjáum til þegar á hólminn er kominn, hvernig það gengur. Hann leikur mest við eina stelpu sem hann var með hjá dagmömmunni, en er líka stundum að tala um einhverja stráka sem hann leikur við.

Bóndinn hefur aldrei verið svona rólegur yfir áramótunum. Það lá við að maður hefði áhyggjur. Hann fór ekki að kaupa sér sprengjur fyrr en á gamlársdag. VIð puðruðum þessu upp um 8 leytið, svo börnin gætu verið með. Auður var eitthvað stressuð í byrjun, en fannst þetta svo rosalega gaman. Það fengu að vaka lengi og borða nammi og snakk. Það var greinilegt næsta daga, því þau voru með rosalega timburmenn. Bæði af sælgætisáti og að hafa farið seinna að sofa. Bóndinn svaf mest allt kvöldið í sófanum og rétt eftir miðnætti skriðum við í bólið. Þetta er náttúrlega engin ending. Ágúst hefur verið að vakna milli 6 og 7 á morgnana, en síðustu daga hefur hann getað sfotið til rúmlega 7. Í fyrramálið er alveg öruggt að það verður ómögulegt að fá hann framúr.

Jæja ætli sé ekki best að fara að safna kröftum fyrir nýja vinnuviku.

kveðja

Tisetgengið


Gleðileg jól

Kæru bloggvinir

Gleðileg jól allir sem einn. Hér hafa jólin verið rauð og frekar hlýtt í veðri miðað við árstíma. Það rignir mikið þessa dagana og er frekar dimmt yfir. En við höfum nú farið út flesta daga að viðra okkur. Bóndinn er búinn að liggja í flensu yfir jólin. Óskaplega mikið fjör. Hann er eitthvað að skríða saman núna, en er enn frekar slappur. Við erum búin að borða mikinn og góðan mat. Fengum rosalega góðan hamborgarahrygg í Þýskalandi og svo komu Bragi og Gunna með hangikjöt í haust. Þetta varð því ákfalega vel heppnað. Ekki hægt að kvarta yfir því.

Börnin hafa verið rosalega spennt yfir öllu þessu jólastússi og voru alveg rosalega ánægð með jólagjafirnar. Þau hafa nú eitthvað verið svekkt yfir því að það komi ekki fleiri jólasveinar. En eru nú eitthvað að átta sig á þessu öllu saman.

Þau hafa ekkert verið neitt óþekk fyrr en í gær. Það voru sennilega timburmenn eftir þetta allt saman. Þau fengu helling af dóti og hafa átt erfitt með að einbeita sér að einhverju einu. En það kemur sennielga þegar það fer eitthvað að róast.Þau hafa nú eitthvað verið pirruð á hvort öðru, en ekkert meira en hægt er að búast við. Þau eru ekki vön að vera svona mikið saman.

Við erum í frii milli jóla og nýárs og sennilega verða allir orðnir endurnærðir eftir allt þetta frí. Við vonum það allavega.

Í morgun dreif frúin sig út með Ágúst og hann drullumallaði einhvern helling. Honum þykir það ekki leiðilegt. Það var nú ekki mikið að gera á leikvellinum, enda virðast börnin sjaldan vera úti við.

Við erum að plana að vinkona hennar Auðar fái að gista hérna eina nótt milli jóla og nýárs. Auður gisti hjá þeim fyrir jól og það var mikill spenningur yfir því. Það var víst ekkert mál. Við vonum að vinkona hennar sé tilbúin í að gista hérna í staðinn. Hún er ansi oft hérna þegar hún er í heimsókn hjá pabba sínum, sem býr hérna á móti. Hún er meira hér en hjá honum. Honum finnst það nú sennilega bara þægilegt og það er ekkert mál fyrir okkur. Þá hefur Auður einhvern að leika við. Það eru ekki önnur börn á hennar aldri hér í kring.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á

Jólakveðja

Tisetgengið


Þá mega jólin koma

Kæru bloggvinir

þá mega jólin bara fara að koma. Við erum að verða klár. Það er alltaf eitthvað eftir. VIð eigum eftir að kaupa jólatré. Það eru flestir búnir að hafa jólatré lengi og henda því bráðum út, en við tökum það ekki inn fyrr en rétt fyrir jól og hendum því út á þrettándanum. Veðrið er nú ekkert jólalegt, það er gráveður hér flesta daga. Danirnir eru að væla yfir því að fá ekki snjó, en svo er nú bókað að ef það kæmi snjór þá væri það líka ómögulegt.

Það er búið að vera nóg að gera hjá börnunum í alls konar jólahátíðarhöldum í skóla og leikskóla. Það hefur auðvitað fylgt því heilmikið sælgætisát, sem er ekki til að bæta geðheilsuna. VIð fórum á jólaball í morgun í sunnudagaskólanum hjá Auði. Það var mjög fínt. Okkur finnst nú samt mjög skrýtið að þeir syngja allaf jólalög sem enginn kann og svo labba allir kringum jólatréð og halda á blöðum. En svona er þetta misjafnt. Maður saknar voða mikið íslensku jólaballanna.a

Óli og Guðný komu í heimsókn í gær. Við höfum ekkert hist lengi. Það hafa verið veikindi hjá börnunum og svo er bara alltaf nóg að gera. Auður og Arndís voru mjög ánægðar að hittast aftur og léku sér allan tímann. Emil og Ágúst eru eitthvað að reyna að finna út úr þessu, en eru sennilega of ólíkir og of ungir til að byrja að leika af einhverju viti.

Við vorum að uppgötva að við höfum ekki hugsað fyrir því að fá skötu. En það er erfitt að fá svoleiðis sent með pósti. Væri allavega ekki gott ef það týndist í póstinum. En ætli við lifum ekki af. Erum búin að fá hamborgarahrygg og hangikjöt.

Í gær var dagurinn tekinn snemma og við vorum mætt til Þýskalands fyrir kl. 8. Börnin og bóndinn voru að fara í klippingu. Það opnar kl. 8 og það er alltaf komin röð. Það kostar bara 1200 kr að klippa fullorðna og 1000 fyrir börn. Það versta er að maður er svo lélegur í þýsku að maður á erfitt með að gera sig skiljanlegan og þær vilja ekki tala önnur tungumál. En þetta reddast einhvern veginn.

Frúin á eftir að vinna tvo daga og Ágúst fer í leikskólann. Auður og bóndinn verða heima. Alveg ágætt að börnin fái pásu frá hvort öðru fyrir jólafríið. Þau eru nú oft ansi pirruð á hvort öðru.

Auður fékk kartöflu í skóinn í morgun, hún var nú ekki sátt. En við reyndum að útskýra fyrir henni hvernig stæði á þessu. Hún hefur átt voða erfitt með sig í dag. Það er voðalegur spenningur í þeim báðum.rt

Jæja ætli sé ekki rétt að fara að slaka á, fyrir næstu átök

Bestu jólakveðjur til lesenda okkar. Við setjum inn mynd á facebook, í staðinn fyrir jólakort. Það er ekki fyrir hvítan mann að senda jólakort á þessum síðustu og verstu.

Kveðjur frá Tiset

 


Allt klárt fyrir jólin

Kæru bloggvinir

þá mega jólin koma, við erum að verða tilbúin. Það er líka að fara að kólna í veðri, svo ætli þetta fari ekki bara að skella á, allt saman.

Við kláruðum jólagjafainnkaupin í gær, og sendum smá pakka til Íslands í dag. Þetta er orðið svo óhuggulega dýrt að við sjáum okkur ekki fært að senda jólakort í ár. Það verður að henda inn eins og einni facebookmynd og kveðju. Það er auðvitað ekki eins skemmtilegt, en það verður að hafa það. Við renndum til Þýskalands í gær og keyptm jóla- og áramótamatinn. Vorum svo heppin að lenda á tilboði á kalkún, hann er annart frekar dýr hérna í Danmörku. Flestir Danir borða önd á jólunum. En við ætlum nú bara að halda okkur við hamborgarahrygginn og kalkún á áramótunum.

Næstu helgi er svo stefnt á að öll fjölskyldan fari í klippingu, ekki bara út af því að það eru að koma jól, en líka af því að það er orðin ansi mikil þörf á því.

Hér hefur verið mikill spenningur eftir að jólasveinarnir fóru að koma hingað í sveitina. Þau eru nú hálfhrædd um að hann sé ennþá upp í glugganum þegar þau vakna á morgnana. Auður skilur þetta auðvitað betur og er tilbúin að kíkja í skóinn á hverjum morgni. Ágúst er eitthvað meira smeykur. En auðvitað kokhraustur þegar hún sér til.

Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn, það var veislumatur. Önd og brúnaðar kartöflur. Og risalamand í eftirrétt. Svo gerðu börnin jólasmákökur og það var farið í pakkaleik. Auður sópaði að sér pökkum, en við hin fengum eitthvað minna. Hún var auðvitað mjög sátt við þetta. Það voru þreytt börn sem fóru í bólið þann daginn.

Á morgun er bekkurinn hennar Auðar að fara að hlusta á gospeltónlist í Aabenraa. Hún er voða spennt. Þau verða ekkert að læra í skólanum á morgun. Fara bara í heljarinnar túr. Hún er meira að segja búin að ákveða að fara í buxum á morgun, annars er hún alltaf í sokkabuxum og kjól. Hún heldur sennilega að það sé betra að vera við öllu búin, því þau eiga að fara eitthvað út í skóg líka. Hún hefur miklar áhyggjur af því að við erum ekki enn búin að ná í jólatré. Flestir Danir eru búnir að því og henda því svo út á jóladag. Við erum að reyna að útskýra fyrir henni að við tökun það seinna inn og höfum það lengur. Svo reiknar hún líka með að við dönsum kringum jólatréð og syngjum, eins og Danir gera. VIð verðum að sjá til, hvað við gerum í því.

Jæja best að fara að safna kröftum fyrir næstu vinnuviku.

Kveðja

Tisetgengið


Jólabakstur

Kæru bloggvinir

þá er aftur kominn sunnudagur og manni finnst bara nýbúið að vera sunnudagur. Það virðist vera að þið fáið allan veturinn í augnablikinu. Hér er ennþá bara rigning og rok. Það er ekki frost en ansi kalt, af þvi það er svo mikill raki.

Það var ráðist í að baka eitthvað smotterí í gær, aðallega til að fá jólalykt í húsið. Börnin og bóndinn voru dugleg að skreyta piparkökurnar. Auður er mikið að pæla í jólunum og öllu sem þeim fylgja. Ágúst skilur nú ekki eins mikið af þessu. En apar allt eftir systir sinni. Það var skellt í tvær sortir í gær og kannski maður reyni að baka eitthvað smá meira næstu helgi. Þetta er annars ekkert sem við stressum okkur yfir á þessu heimili og heldur ekki jólahreingerningunni. Jólin koma fyrir því. Það skiptir mestu máli að reyna að gera eitthvað fyrir börnin.

Frúin var svo bráðheppin að þegar hún keyrði heim úr vinnunni á mánudaginn, um 5 leytið, þá bilaði bíllinn. Það var einhver lega í kúplingunni sem gaf sig. Hún þurfti að bíða í klukkutíma eftir að það kæmi maður sem gat aðstoðað hana við að koma bílnum heim. Hún var því ekki komin fyrr en kl. 8 um kvöldið. Ekki tók svo betra við því verkstæðismaðurinn sem við erum vön að nota er kominn með brjósklos í bakið og getur ekki unnið. Það tók því 3 daga að fá þetta gert. Og af því þetta er franskur bíll, þá er auðvitað sparað í þessu eins og öðru og það þurti að rífa gírkassann úr bílnum til að geta skipt um þessa einu legu. Þetta varð því töluvert kostnaðarsamt. Og til að toppa þetta allt saman, þá er hann vanur að geta lánað okkur bíl, meðan okkar bíll er í viðgerð, en neinei, hann var búinn að lána hann út í 2 vikur. Er hægt að vera meira óheppin? Sem betur fer gat frúin fengið lánaðan bílinn hjá aukaömmunni og komist í vinnuna þessa 3 daga. Annars hefði hún orðið að vera heima. VIð ætlum rétt að vona að það komi ekki eitthvað annað upp á á næstunni. Það er ekki víst að það verði hægt að fjármagna fleiri viðgerðir á næstunni. Það getur tekið á taugarnar að vera svona háður þessum bílum. Ef við byggjum í stærri bæ, gæti maður kannski tekið lest eða eitthvað. Það er búið að skera svo mikið niður í almenningssamgöngum að það er meiriháttar mál, ef maður þarf að nota svoleiðis.

En nóg af væli. Við erum þó ekki á kafi í snjó og ófærð. Þið megið alveg hafa snjóinn fyrir okkur. Börnin yrðu örugglega ánægð að fá smá, en við getum alveg sleppt því.

Ágúst fór í heimsókn til gömlu dagmömmunnar á föstudaginn, hann er alveg á því að hann vilji fara að vera hjá henni aftur. Vill ekkert fara í leikskólann aftur. Enda alveg dekraður í klessu hjá dagmömmunni. Það er ekki víst það yrði svoleiðis alla daga. Það verður spennandi hvort hann fæst til að fara af stað á morgun.

Jæja ætli sé ekki best að fara að safna kröftum fyrir næstu vinnuviku.

Kveðja úr Baunalandi


Jólaskraut

Kæru bloggvinir

það hefur nú verið eitthvað óákveðið veðrið hjá okkur í vikunni. Það byrjaði með frosti, en svo kom aftur hlýindi. Það er mjög mikill raki, svo það er frekar hrollkalt, þó það sé ekki frost. Það hefur verið hiti á daginn, en niður undir frostmarki á nóttinni. Frúin dreif í að fá vetrardekkin undir bílinn í vikunni. Það er sennilega öruggast, þó það sé ekki komin hávetur hérna.

A föstudaginn var stíft prógramm. Frúin hætti að vinna snemma og byrjaði að fara á jólaföndur í skólanum hjá Auði. Það var mjög fínt og við föndruðum eitthvað smá jólaskraut. Svo var farið beint á jólaball í leikskólanum hjá Ágústi. Þar mætti jólasveinn. Í ár var hann í buxum, en skeggið var allt laflaust. Þau voru ekkert hrædd við hann og fengu hjá honum nammipoka. Svo var dansað kringum jólatréð og sungið. Það voru því ansi þreytt börn sem fóru að sofa hér á föstudagskvöldið. Þau hafa verið með hálfgerða timburmenn alla helgina. Það hefur verið mjög erfitt að fara eftir fyrirmælum og nánast ómögulegt. Í gær var farið í að setja upp jólaskraut úti og inni. Það er nú hellingur eftir. En þa er nauðsynlegt að hafa aðventuljós og aðventuskreytingar á fyrsta sunnudegi í aðventu. Í ár var farið í að gera öðruvísi aðventukrans. Frúin hefur nú ekkert sérstaklega græna fingur, en útkoman varð bara alveg prýðileg, þó ég segi sjálf frá. Svo fórum við út í skóg í gær að finna hnetur og köngla, til að gera meira skraut. Þetta var allt svo rennandi blautt að það varð að henda þessu í ofninn þegar við komum heim. Þetta er nú eitthvað að þorna. Kannski við gerum einhverja skreytingu í viðbót. Börnin eru vön að gera í leikskólanum, svo maður er ekki vanur að þurfa að standa í þessu sjálfur. Ágúst gerði reyndar litla skreytingu í leikskólanum, en okkur fannst það ekki alveg nóg.

Svo verður mánuðurinn sennilega notaður til að skreyta meira og gera fínt. Það er mjög gaman að gera þetta svona smám saman og börnin njóta þess líka. Þau eru mjög spennt fyrir þessu öllu. Eiginlega í fyrsta skipti sem þau eru svona upptekin af þessu. Allavega Auður Elín og þegar hún er það, þá verður Ágúst Ægir það líka.

Hann er orðinn mjög sáttur við að vera á leikskólanum, en hefur ekki ennþá alveg náð að sleppa því að pissa á sig. En það er nú sennilega líka af því að hann kannski er að leika sér, langt frá klósettinu og nær ekki að komast í tæka tíð. Hann er voða frakkur og ekkert feiminn við að spyrja leikskólakennarana um hjálp. Auður var mun lélegri við það. Hann er mjög mikið að reyna að komast upp með allt. Það tilheyrir sennilega þessum aldri.

Auður lék við Ágústu vinkonu sína í gær, af því hún er hjá pabba sínum um helgina og þær eru aftur að leika saman núna. Börnin sváfu til kl.  í morgun. Það hefur örugglega ekki gerst áður. Þau voru reyndar búin að vakna fyrr í morgun og sofnuðu svo aftur. En þetta setti alla dagskránna úr gír. Það eru vön að fá annaðhvort snakk, eða einhverja ávexti um helgar, áður en þau borða morgunmatinn, en það var ekki tími í það í morgun. Þetta var all slæmt.

Jæja ætli sé ekki best að safna kröftum fyrir næstu vinnuviku.

Kveðja

Tisetgengið

Það er ekki enn búið að ráðast í jólabaksturinn, bóndinn heldur að við höfum aldrei verið svona sein í því eins og núna. Það verður að reyna að ráða bót á því sem fyrst.


Veturinn mættur

Kæru bloggvinir

þá er veturinn víst mættur á svæðið. Það var frost í nótt og hrímuð jörð í morgun. Það var ekki mikil snjókoma hér, en á Sjálandi er allt á kafi og þvílíkt umferðavesen. Trén velta út á vegina og loka öllu. En við höfum sloppið nokkuð vel í þetta skiptið.

Það er búið að vera nóg að gera um helgina. Ungi maðurinn á heimilinu hélt upp á 3 ára afmælið sitt. Systir hans var búin að vera meira spennt en hann, en þegar dagurinn rann upp var ungi maðurinn líka mjög spenntur. Þeim var hent út að leika sér í morgun. Það gekk ágætlega. Þeim gengur yfirleitt betur að leika sér úti en inni. Það er sennilega auðveldara að halda friðinn þegar það er meira pláss. Það komu nokkrir gestir í kaffi í dag og Ágúst fékk mikið af góðum gjöfum. Hann er ennþá á þeim aldri að honum finnst.  mjög gaman að fá pakka, hvort sem það eru föt eða dót. Hann fékk helling af bílum og strákadóti. Það verður gaman að fylgjast með hversu lengi hann leikur sér með þetta. Gunnþóra kom í veisluna með stelpurnar sínar. Það er alltaf mjög fyndið að Maja og Auður hittast ekki oft, en þegar þær hittast, oft með hálfs árs millibili, þá leika þær sér rosalega vel saman. Verst að þær búa svona langt frá hvor annarri.

Það verður bráðum að fara að huga að því að henda upp jólaskrauti. Það er nú samt alveg spurning um að bíða fram í næsta mánuð. Annars verður maður nú bara þreyttur á að horfa á þetta. Það er ekki mikið byrjað að skreyta hérna, nema í búðunum. Börnin eru farin að tala um að jólasveinarnir komi fljótlega. Það var planið að Ágúst létinu jólasveinninn hafa snuddurnar sínar þessi jólin, en hann er nú voða lítill í sér eftir hann byrjaði í leikskólanum, svo kannski bíðum við aðeins. Hann hefur annars verið mjög duglegur að byrja í leikskóla, en er mjög þreyttur og lítill í sér þegar hann kemur heim. Konurnar á leikskólanum eru alveg hissa á því hvað hann er duglegur.

Systir hans talar oft um að hún vilji fara aftur á leikskólann, en henni myndi nú samt fljótlega fara að leiðast. Hún spáir mikið í bókstafi og tölur þessa dagana. Þetta er nú eitthvað að vefjast fyrir henni ennþá, en það hlýtur að koma. Hún saknar mikið stórusystur sinnar þessa dagana. Það er erfitt að skilja að hún geti ekki bara skroppið í heimsókn.

Jæja best að fara að safna kröftum fyrir nýja vinnuviku

Kveðja

Tisetgengið


Laufrok

Kæru bloggvinir

hér er enn óvenju hlýtt miðað við árstíma. Laufin fara smátt og smátt og svo kemur hressilegt rok og þá hverfur restin af laufunum. Það er ekki mikið eftir á trjánum núna.

Ágúst hefur verið í leikskólanum alla síðustu viku og algjörlega búinn á því þegar hann kemur heim. Hann gefur sér ekki alltaf tíma til að sofa eftir hádegið og sennilega hafa fóstrurnar ekki tíma til að sitja hjá þeim, þangað til þeu eru sofnuð. Hann er mjög ánægður, allavega ennþá. Þetta er nú allt svo nýtt ennþá. Það verður kannski ekki eins gaman þegar þetta verður orðin hversdagskostur.

Það er búið að vera nóg að gera í félagslífinu um helgina. Á föstudaginn var vinakvöldverður. Það var sérstaklega gert mikið fyrir krakkana og þeim fannst þetta mjög skemmtilegt. Ágúst er algjört sjarmatröll og veður inn í alla. Auður er líka orðin mikið minna feimin eftir hún byrjaði í skólanum. Þeir sem hitta hana í skólanum og eru í vinakvölmatnum segja hún sé glöð alla daga og komi hlaupandi á móti þeim þegar þau koma í skólann. Það er auðvitað vleikoða gaman. Við vorum í foreldraviðtali líka í síðustu viku. Hún er orðin betri að hlusta og fylgjast með. Enda búið að setja hana fyrir framan kennarann. Hún er eitthvað að ruglast á tölunum og bókstöfunum og við verðum að reyna að æfa hana í því. Hún hefur mikla umhyggju fyrir bekkjarfélögunum og spáir mikið í því. Hún vill helst teikna mynd og fara með á hverjum degi og gefa einhverjum. Hún fékk gömul bréfsefni og umslög frá einum vinnufélaga frúarinnar. Það var mikið ævintýri og hún hefur mjög gaman af því að skrifa eitthvað á þetta.

Í gær var svo leikdagur hjá bekknum hennar í íþróttasal hérna rétt hjá. Það voru leikir bæði fyrir fullorðna og börn. Þetta var mikið fjör. Auður og bekkjarsystur hennar eru byrjaðar að vilja leika hjá hver annarri, svo það er nóg að gera. Börnin hérna eru mjög virk au í öllu mögulegu eftir skóla, svo það getur verið erfitt að finna daga sem þau geta hist.

Ágúst er mikið að reyna á þolrif foreldranna þessa dagana. Hann vill auðvitað ráða öllu og telur ekki að hann eigi að gegna. Hann getur blaðrað alveg endalaust nema hann sé stoppaður af. Hann skilur ekkert í því að fólk geti ekki bara hlustað á hann allan daginn. Auður hefur aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af böngsum en nú er hún æst í að hafa bangsa með í sér í skólann. Vinkonur hennar gera það líka.  Ágúst hefur hins vegar frá byrjun verið mikið meira hrifin af ákveðnum böngsum.

Allar búðir eru að fyllast af jóladóti. Það er nú pínu erfitt að komast í jólaskap þegar það er ennþá 10 stiga hiti hérna á daginn. Í dag var skellt í rabarbarasultu. Það tilheyrir einhvern veginn þessum árstíma. Bóndinn dreif í að gera hjónabandsælu. VIð erum að vonast til að geta keypt smá lambakjöt fljótlega. Það er ansi sjaldan maður kemst í almennilegt kjöt. Það er líka svo rosalega dýrt.

Við sjáum okkur ekki fært að senda jólakort með póstinum í ár þar sem verðið er orðið glæpsamlegt. Það verður að notast við rafrænar kveðjur í ár. Því miður. Það er voða leiðilegt að geta ekki haldið í þessa hefð. En það kostar yfir 200 kr, bara að senda eitt bréf, svo það er fljótt að safnast saman.

En jæja best að fara að stilla til friðar, áður en börnin bíta höfuðið af hvort öðru.

kveðja

Tisetgengið


Veðraskifti

Kæru bloggvinir

það hafa verið ansi mikil veðraskifti hér um helgina. Í gær var mígandi rigning og í nótt var hífandi rok. Í dag er svo sól, logn og fallegt veður. Það er nú ekkert mjög hlýtt nema þegar maður stendur í sólinni. Við fórum til Ribe í morgun og gáfum geitunum að borða. Þær eru mjög ágengar og hoppa upp á mann og heimta að borða. Þær eru nú mjög sætar, en Ágústi stóð nú ekki á sama. Þarna eru líka litir hestr, þeir mega ekki fá neitt að borða. En það er hægt að kíkja á þá fyrir því.

Í gær fórum í heimsókn til Evu. Þar er alltaf heimtað franskbrauð. Börnin eru ekki vön að fá það, svo þeim finnst það mjög gott. Hún er voða dugleg að gera mat úr öllu mögulegu. Hún hirti helling af hálfónýtum eplum og var að gera mauk úr því. Við fengum restar af því heim og gerðum eplagraut. Það var ekkert smá gott.

Ágúst er búinn að vera í leikskólanum alla vikuna. Hann hefur eitthvað gleymt að fara á klósettið og hefur orðið leiður þegar hann vaknar eftir hádegisblundinn. Þau sofa öll í litlu herbergi. Hann er ekki alveg ´búin að finna út úr því að hann þarf að fara fram og tala við fóstrurnar þegar hann vaknar. Annars hefur hann ekkert átt í neinum vandræðum og finnst þetta mjög spennandi.

Frúin fór í leiðangur í frystikistuna í gær og fann síðasta pokann af sviðum. Þau voru soðin í gær og á að gæða sér á þeim í kvöld. Svo fann hún líka einhverja nautasteik. Við áttum nú ekki von á neinu, því okkur finnst nautakjöt almennt ekkert spennandi. En þetta var algjör veislumáltíð. Börnin höfðu meira að segja orð á því að það væri gott að fá svona veislumat. Þau eru nú ekki vön að segja mikið um matinn. Nema þegar þeim finnst hann ekkert spennandi.

Auður er voða ámægð í skólanum, við erum að fara í fyrsta foreldraviðtalið í næstu viku. Það er spennandi að vita hvað kemur út úr því. Við vitum að ungfrúin hefur átt erfitt með að einbeita sér og hefur eitthvað verið að trufla. En við vonum það sé orðið betra. Hún þekkir oriði marga bókstafi, en það vefst eitthvað fyrir henni ennþá að greina alveg á milli þeirra.

Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan í bili

kveðja

Tisetgengið 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband