Halloweenpartý

Kæru bloggvinir

þá er búið að fagna halloween. Við fórum inn til Ástu og Óla í Gram og grilluðum pylsur. Þar voru aðrir krakkar og svo var farið að sníkja nammi. Þau voru úti í rúman klukkutíma. Löbbuðu út um allt og fengu alveg helling af nammi. Um 9 leytið fór frúin og Ágúst heim, því Ágúst var alveg búin á því. Hann sofnaði nánast áður en hann var kominn upp í. Auður neitaði að fara heim, svo hún fékk að vera aðeins lengur. Hún var alveg búin á því. Ágúst vaknaði svo ekki fyrr en klukkan 7 í morgun og Auður skömmu seinna. Þau eru búin að vera alveg þvílíkt pirruð í dag, eins og alltaf þegar þau hafa fengið nammi. Bæði Auður og Ágúst voru skíthrædd við Óla og Ástu því þau voru með grímur á andlitinu og voru mjög óhugguleg. Við bjuggumst við að þau gætu ekki sofnað og myndi dreyma eitthvað ljótt. En það var víst bara húsbóndinn á heimilinu sem fékk martröð.

Það er búið að vera óvenju hlýtt að undanförnu og þurrt. Þeir eru eitthvað að tala um að það fari að kólna og vera meiri bleytutíð. Það hlýtur að fara að kólna eitthvað allavega

Ágúst fór með dagmömmunni í heimsókn í leikskólann á fimmtudaginn. Hann kom fljótt auga á gamla vinkonu sína og fór í stærstú rennibrautina og renndi sér niður. Hann hafði engan áhuga á að koma heim aftur. Hann var svo hjá dagmömmunni á föstudaginn og það var síðasti dagurinn. Dagmamman var hálf klökk yfir þessu öllu. Hann er mjög spenntur yfir að fara í leikskólann á morgun. Það er ekki víst það verði eins skemmtilegt, þegar nýjabrumið fer af þessu. Hann fær alveg örugglega ekki eins mikið knús og kossa eins og hjá dagmömmunni.  Hann fékk USB lykil með öllum myndum á. Það var mjög fyndið að sjá myndir af honum þegar hann byrjaði hjá henni. Maður er fljótur að gleyma, hvernig þessi börn líta út þegar þau eru lítil.

Auður fór heim með vinkonu sinni á föstudaginn. Hún keyrði með skólarútunni heim til hennar og svo sóttum við hana. það er þægilegt að þurfa ekki að keyra nema aðra leiðina. Það er allt að fyllast af jóladóti í búðum hérna og börnin eru farin að spá í, hvað þeim langar í. Manni finnst nú ekkert sérstaklega jólalegt, svo jólastemmingin er ekki alveg mætt.

Ágúst er búin að vera mikið að spá í, hvar han Bragi er. Hann segir reyndar hann heiti Brian. Við erum auðvitað búin að útskýra að hann sé farin með Gunnu í flugvélina. Það er nú sennilega ekki auðvelt að skilja það.

Í morgun drifum við okkur svo að koma tjaldvagninum í geymslu og fórum að labba inn í Gram.

Ætli maður reyni svo ekki að taka því rólega restina af deginum.

Kveðja

Tisetgengið


Fastir liðir eins og venjulega

Kæru bloggvinir

þá er allt komið í fastar skorður eftir fríið. Það er búið að vera nóg að gera í félagslífinu. Á föstudaginn komu Gunna og Bragi í heimsókn. Þau voru dregin í vinakvöldverð á föstudaginn. Það var mjög fínt eins og venjulega. Börnin skemmta sér allavega alltaf konunglega.

Í gær var svo farið með fólkið í verslunarleiðangur og við náðum að kaupa smávegis líka. Það var afsláttur af jólaservíettum og ýmsu jóladóti. Það var því verslað smávegis fyrir jólin. Það verður nú sennilega ekki farið í að missa sig í jólainnkaupum. VIð erum ekki vön því. Það er orðið svo dýrt að senda póst að það verður sennilega ekki farið út í að senda jólakort með póstinum í ár.

Í dag var svo farið í göngutúr með fjölskylduna og hundinn. Það var fínt að viðra börnin og alla hina. Börnin okkar hafa mikla þörf fyrir að komast út og hreyfa sig á hverjum degi, svo við sleppum ekkert við það. Það var verið að breyta klukkunni í nótt, svo það má búast við að maður verði eitthvað hálfslæptur næstu daga. Þetta er alltaf frekar pirrandi. Allavega fyrir börnin. Þau sváfu nú reyndar óvenju lengi í morgun.

Auður fór í Halloween partý í gær hjá vinkonu sinni. Hún var voða fín og mjög ánægð með þetta. Hún kom ekki heim fyrr en kl. 19:30 og var orðin ansi þreytt. En þetta var víst mjög skemmtilegt. Mamma vinkonu hennar hafði staðið allan daginn og gert einhvern mat handa þeim. D'ottir hennar á erfitt með að vera í margmenni og því vildi mamma hennar halda lítið partý fyrir hana, af því hún gat ekki verið með í partýinu í skólanum. Hún var orðin ansi þreytt þegar frúin sótti barnið í gær.

Næstu helgi er svo annað halloween partý, sem er fyrir bæði börn og fullorðna. Það er eitthvað verið að spá í að fara í það. Allavega þarf maður að finna sér einhvern búning.

Börnin hafa verið voða ánægð með að hafa svona mikla athygli. Hundurinn fær líka mun meiri athygli en venjulega af því Bragi fer út að reykja reglulega og talar við hann. Það verða örugglega allir með fráhvörf hérna næstu daga.

Jæja ætli sé ekki best að fara að hugsa um börn og búmenni

Kveðja

Tisetgengið


Haustfrí

Kæru bloggvinir

þá er fríið víst að renna sitt skeið. Það hefur ýmislegt verið brallað. Þau systkin verða eflaust fegin að komast aftur í venjulega ramma. Þau eru orðin frekar þreytt á hvort öðru. Það er komið haust í loftið og laufin á trjánum farin að gulna og fjúka um. Það sést vel hér fyrir framan.

Það er búið að kaupa vetrarbúnað á fjölskylduna, eina sem vantar eru kuldaskór á frúna. En það hlýtur að finnast einhvers staðar. Auður virðist því miður ætla að erfa fótastærð foreldra sinna og er strax komin í stór númer af skóm. Vonandi að hún taki þetta bara fljótt út og þetta endi ekki ein og hjá mömmu hennar. Það er ekkert sérstaklega gaman að vera svona stórfættur þegar maður er kvenmaður. Sérstaklega ekki þegar maður vill vera pæja eins og hún. Hún var búin að suða lengi um að fá göt í eyrun og það var látið verða úr því í vikunni. Hún stóð sig mjög vel og grét bara smávegis, en hún varð sennilega mest hrædd við lætin í gatabyssunni. Hún hefur ekkert verið að fikta í þessu og er bara voða ánægð. Þessir lokkar eiga að vera í næstu 6-8 vikur og svo má hún fá aðra lokka í. Þetta er víst orðið mikið minna vesen en í gamla daga. Það verður nú eitthvað þegar hún fær að ráða hvaða lokka hún vil hafa. Frúin hefur aldrei haft göt í eyrunum, svo hún er ekki mjög klár í þessu. Kannski pabbinn verði gerður að sérfræðingi í þessum efnum.

Við fórum á Víkingasafnið í Ribe. Við höfum aldrei prófað það, en heyrt töluvert mikið um það. Það var mjög skemmtilegt. Það voru íslenskir hestar, kýr og kind. Svo var slátrað bæði gæs og hænum fyrir framan áhorfendur. Börnunum þótti þetta mjög spennandi, en þau vorkenndu líka pínu dýrunum.

Á föstudaginn fórum við svo til Odense. Við fórum á mjög skemmtilegt safn sem tengist H. C. Andersen bókunum. Þar var lesið upp ævintýri og börnin gátu klætt sig eins og prinsessur og hermenn. Þau fengu svo líka voða fína andlitsmálningu. Þeim þótti þetta nú ekki leiðilegt. Við gistum svo hjá vinum okkar í Odense, af því það átti að halda upp á afmæli Sigvalda í gær. En hann varð svo bara veikur og fékk hita og gubbupest. Það varð því ekkert úr afmælishaldi. Stóru strákarnir horfðu á fótbolta í staðinn. Þau tala töluvert við nágranna sinn, sem er einstæður eldri maður. Hann heilsar okkur alltaf og kallar okkur mojnfólkið, af því við komum frá Suður-Jótlandi, þar sem maður segir alltaf mojn þegar maður kemur og fer. Það gera þeir ekki á Fjóni.

Á föstudaginn er svo von á góðum gestum. Gunna og Bragi ætla að kíkja í stutta helgarheimsókn. Það verður nú ekki leiðilegt að fá það sómafólk í heimsókn. Það er búið að senda þau í leiðangur að finna hangikjöt og ýmislegt góðgæti til jólanna. Það er um að gera að vera séður í þessum málum. Það verða sennilega ekki fleiri heimsóknir fyrir jól. Og jólin eru nú aldrei alveg þau sömu, nema maður fái hangikjöt. Hamborgarahrygginn getum við keypt í Þýskalandi.

Í morgun var skorið út grasker. Það var mest pabbinn sem stóð fyrir því. Börnin misstu fljótlega þolinmæðina. En þetta er alltaf spennandi í byrjun.

Jæja best að fara að safna kröftum fyrir komandi vinnuviku. Það verður nóg að gera eins og venjulega. Það er orðið svo mikið að gera í félagsmálunum eftir að Auður byrjaði í skóla. Þetta er að verða full vinna. Hún er búin að eignast tvær góðar vinkonur og þá þarf að skipuleggja heimsóknir til þeirra og öfugt.

Kveðja

Tisetgengið


Haustfrí

Kæru bloggvinir

þá erum við komin í haustfrí í eina viku. Það verður nú eflaust ekkert erfitt að fá dagana til að líða. í gær var tekið hraustlega til í kofanum. Það hefur ekki verið gert of mikið af því. Í dag var svo farið í verslunarleiðangur. Það þurfti að kaupa kuldaskó fyrir börnin. Við fengum þessa fínu skó á helmings afslætti og frúin fékk úlpu. Nú vantar hana bara kuldaskó. Það var ekkert svoleiðis í þessari búð sem við vorum í. Það er nú oft dálítið skrýtið, hvenær og har er hægt að kaupa það sem manni vantar. En maður lærir að fylgjast með hvenær hlutirnir eru til sölu.

Auður hefur verið algjörlega uppgefin eftir síðustu viku. Það var þema í skólanum um hreyfingu og mataræði. Hún hefur verið að hlaupa flesta daga og á föstudaginn hljóp hún 5 km. Þau hafa líka talað mikið um hvað er hollt og óhollt að borða. Hún spyr mikið um það þegar við erum að borða. Það er auðvitað mjög fínt að hún pæli í því, hvað hún sé að borða. Annars er hún nú örugglega mjög frábrugðin jafnöldrum sínum af því hún borðar mikið grænmeti og ávexti. Hún vill auðvitað líka fá sykur og óhollustu. Þar er Ágúst algjör andstæða. Það er mjög fátt sem hann vill borða af sætindum. Maður gæti alveg hugsað sér að fá eitthvað af þessari matvendni. En hann er mjög duglegur að borða allan mat og líka grænmeti og svoleiðis.

Það spáir rigningu mest alla næstu viku. Bóndinn er orðinn óþolinmóður eftir að geta slegið blettinn. Það hefur verið frekar breytilegt veður undanfarið. Það hlýtur að koma dagur í næstu viku þar sem er hægt að slá. Það ætti nú að fara að hægja á grassprettunni núna. Það er einn af fáum kostum þess að það komi haust. Laufin eru farin að gulna, og eitthvað er farið að fjúka af trjánum. Það er farið að skyggja fyrr á kvöldin og er dimmara á morgnana. Klukkan verður færð fram síðast í þessum mánuði. Það er nú alltaf sama ruglið. Börnin ruglast í svefnrútínunum og maður fær ekkert út úr þessu nema vandræði.

Ágúst er alveg að tapa sér úr ákveðni þessa dagana. Hann er greinilega að eldast og þroskast. Hann hefur verið að finna út úr því að hann geti sagt að honum sé illt í maganum og komast hjá því að gera eitthvað sem hann vill ekki. Hann þarf líka alltaf að pissa þegar hann á að borða, allavega ef hann vill ekki það sem er í matinn. En þetta er nú víst allt saman eðlilegt.

Við fórum á flóamarkað í gær og gerðum rosa góð kaup. Fengum dót fyrir börnin og leikjatölvu fyrir smápening. Það vantar reyndar einhvern kapal í tölvuna, en það er hægt að panta það á netinu, eins og allt annað. Það verður spennandi hvort krakkarnir finna út úr að nota hana. Börn eru nú yfirleitt dugleg við svoleiðis. Það er annars orðið vinsælast að spila á spjaldtölvur núna. En það fylgir einhver söngleikur með, svo sennilega vill Auður prófa það. Hún er rosa dugleg að syngja og læra texta. Og það smitar af á Ágúst. Hann apar allt eftir systir sinni.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á

Kveðja

Tisetgengið


Lokauppskera

Kæru bloggvinir

Við ákváðum að eyða deginum í að bjarga rabarbaranum í hús og náðum bara metuppskeru. Við náðum 6,5 kg og það hefur aldrei verið svo mikið. Við héldum að það væri ekkert undir gulrótargrösunum, en það kom alveg slatti undan. Það hefur ekki verið góð uppskera almennt, út af því hvernig veðrið hefur verið. En nú er þetta allavega komið í hús. Bóndinn er búin að fá loforð fyrir fleiri hindberjarunnum, sem hann sækir á miðvikudaginn. Það varð því að stækka það beð í morgun. Svo ættu haustverkin utandyra að verða búin. Það er svo búið að skera niður rabarbara og hreinsa gulrætur. Þetta er mjög skemmtilegt, þó þetta sé auðvitað hellings vinna.

Í gær var basar í skólanum hennar Auðar. Við fórum að hjálpa til. Það var mjög fínt. Svo komu Óli og Guðný í heimsókn. Þau eru búin að gera nokkrar tilraunir, en bíllinn hefur alltaf bilað. En í þetta skiptið heppnaðist þetta. Stelpurnar voru rosa góðar að leika sér. Það gengur orðið betur og betur hjá þeim. Strákarnir eru ekki alveg eins duglegir að leika saman. En það kemur nú vonandi með aldrinum. Þær voru um 3 ára þegar þær fóru að leika saman. Og það gekk ekkert vel til að byrja með.

Í morgun fór Auður svo að leika við Ágústu vinkonu sína og hefur ekki sést síðan. Það verður nú sennilega að fara að tékka á henni. Hún hefur örugglega lítið borðað nema sælgæti og það er sjaldan sem það fer mjög vel í hana. Hún kom heim rétt í þessu til að fá leyfi til að fara með Ágústu vinkonu sinni heim. Hun er mikil félagsvera og það má gjarnan vera mikið að gera. En hún hefur ekki skilning á að maður þarf líka að slaka á, svo þá verðum við stundum að vera vondu foreldrarnir og skipa henni að vera heima.

Það er búið að vera mikill faraldur af mýflugum. Þær bíta aðallega á nóttinni og Ágúst greyið hefur verið mjög illa haldinn af bitum. Hann var stokkbólginn æa eyranu um daginn. Nú er bara mánuður þar til hann fer í leikskóla. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur. 

Í næstu viku er frí í skóla og hjá dagmömmu, svo við verðum að finna upp á einhverju sniðugu að gera. Það kostar venjulega allt mjög mikið á þessum tíma, en það hlýtur að vera hægt að finna eitthvað að gera.

Jæja ætli frúin þurfi ekki að fara að róa sig niður og slaka á, svo hún hafi einhverja orku í vinnuna næstu viku.

Kveðja

Tisetgengið


Afmælishöld

Kæru bloggvinir

þá er enn og aftur komin sunnudagur. Maður er alltaf jafn hissa á, hvað tíminn flýgur áfram. Það verður bráðum ekki komist hjá því að það sé að koma vetur. Það hefur reyndar verið mjög fínt veður undanfarið, svona smá sumarauki. Við fengum nú ekki svo mikið sumar, svo við eigum það alveg skilið. Við erum búin að bjarga mest öllum tómötunum í hús. Þetta varð alveg ágætis uppskera þegar upp var staðið. Við fengum helling af eplum gefins, svo það voru góð ráð dýr. Við sáum ekki fram á að ná að borða þetta allt áður en það eyðilagðist. Það var því ráðist í að gera eplamarmelaði og eplaköku hér í gær. Frúin átti plómur í frystinum og þessu var blandað saman við eplin. Úr þessu varð þetta fína marmelaði. Danir eru mikið í að gera alls konar marmelaði og þetta er ekkert mál. Frúin hefur alltaf haldið að það þyrfti nánast háskólagráðu í þetta. En núna er bara að ráðast í að prófa sig áfram. Eplakakan varð líka alveg rosalega góð. Bóndinn sá um að baka hana.

Á föstudaginn var okkur boðið í tvöfalt 50 ára afmæli hjá fólki sem við þekkjum eiginlega ekki neitt. Bóndinn hafði aldrei hitt þau. En af því við erum komin inn undir í þetta kristna samfélag, þá er okkur greinilega boðið í margt. Það var mjög fyndið að það var ekkert af fjölskyldum fólksins í veislunni. Fyrir utan foreldra þeirra og börn. Annars var þetta mest allt fólk úr trúarsöfnuðinum sem þau eru í. Bóndanum fannst nú pínu kjánalegt að mæta í afmæli hjá fólki sem hann hafði ekki séð. En sem betur fer hafði frúin hitt þau, svo þetta var ekki alveg eins kjánalegt. Það var boðið upp á smurbrauð og rúgbrauðstertu. Það verður víst ekki mikið meira suðurjóskt. Þetta bragðaðist allt saman ágætlega. Þetta var haldið út í bílskúr hjá fólkinu. Það er mjög algengt hér, að halda veislur í bílskúrnum.

Í gær var svo verið að gera húsverkin. Það er ótrúlegt, miðað við að maður er nú alltaf að taka eitthvað til. Og samt finnst manni maður aldrei ná að gera allt. En svona er þetta víst bara. Gott að maður þarf ekki að slátra skepnum og gera slátur líka. Veit ekki hvenær það ætti að vera tími í það.

Nú styttist í að Ágúst byrji í leikskóla. Það verður nú skrýtið. Það kostar allavega meiri tíma á morgnana að koma honum inn til Gram, í staðinn fyrir að labba með hann hérna fyrir hornið. En þetta reddast nú örugglega allt. Maður þarf bara að venja sig við það. Auður vildi endilega fara að labba sjálf í strætóinn á morgnana, en við erum nu eitthvað treg við það. Hún kemur sjálf heim á daginn, en þá er heldur ekki svo mikil umferð í kringum vélaverkstæðið, þar sem þau biða eftir strætó. En það er mjög gott að hún vill sjálf prófa. Hún er almennt orðin meira frökk, eftir hún byrjaði í skólanum. Það er samt greinilegur munur á þeim systkinum, hann veður  að fólki og blaðrar við það, hvort sem hann þekkir það eða ekki, á meðan hún er meira feimin. Það mætti halda þau ættu sitthvora foreldrana. Hlutirnir eru bara oft mikið auðveldari fyrir börn sem eru ófeimin. Kannski nær þetta að eldast af henni.

I dag er svo planið að fara í sirkus. Eða frúin og börnin fara. Það er bankinn þeirra sem er að bjóða. Það er nú alveg ótrúlega léleg þjónusta í bankanum, en gott ef börnin geta notið þess einu sinni á ári að komast í sirkus. Það er nú líka alveg fyndið, hvað Danir eru mikið eftir á með alla bankaþjónustu. Frúin fékk ávísun í pósti um daginn. Hún hafði sagt upp tryggingu og fékk pening til baka. Hún hélt því í bankann sinn og ætlaði að fá að leysa út ávísunina. En nei, það var ekki hægt. Ávísunin varð að fara í póst í sérstakt umslag. Hún var svo send í aðalbankann og svo kom þetta inn á reikninginn eftir nokkra daga. Það er heldur ekki hægt að millifæra pening í netbankanum um helgar og á kvöldin. Um daginn ætlaði bóndinn að fara í bankann og leggja inn pening sem hann hafði fengið í afmælisgjöf. En það var bara hægt í ákveðnu útibúi 35 km héðan. Það er skiljanlegt að það séu gerðar ráðstafanir til að sporna við bankaránum og hafa ekki mikinn pening í bönkunum, en þetta er nú kannski einum of.

Jæja best að fara að gera sig kláran fyrir sirkusinn

Kveðja

Tisetgengið


Haustannir

Kæru bloggvinir

það fer víst ekkert milli mála að það er farið að hausta hér hjá okkur. Ekki ef maður kíkir út um gluggann allavega. Það hefur verið rigning og rok mestalla vikuna. En í gær var rosa fallegt veður og sólin skein. Við fórum í sumarbúðir með sunnudagaskólanum hennar Auðar. Börnin nutu þess í botn. Þau hlupu um allt og léku sér. Það er rosalega gaman að sjá. Auður hefur breyst alveg rosalega mikið. Hún hefur alltaf verið mjög hlédræg og nánast hrædd við börn sem hún þekkti ekki. En í gær hljóp hún um allt og lék við mörg börn. Hún var að eltast við strákana og fannst það mjög spennandi. Það er ekkert smá gaman að sjá. Ágúst hefur alltaf átt auðvelt með þetta, svo við erum aldrei neitt sérstaklega stressuð yfir honum.

Í morgun var svo farið á bændabýli, ekki langt hér frá. Það var opið hús og ekkert smá mikið af fólki. Krökkunum fannst þetta mjög spennandi. Það var hægt að prófa traktora og klappa kúnum. Svo var hægt að hoppa í hálminum og ýmislegt fleira. Veðrið var nokkuð gott. Rigndi ekki neitt mjög mikið. Nema þegar við fórum út úr bílnum. En það var fljótt að ganga yfir.

Það er ennþá heilmikil spretta í grasinu, svo það hefur þurft að sæta lagi til að ná að slá blettinn. En það hafðist í gær.

Það er svolitið skrýtið að vera ekki að fara í sund á laugardögum. Við höfum farið í sund á laugardögum síðan Auður var 3 mánaða gömul. Nú fara þau í sund á fimmtudögum. Auður átti að fara að æfa sig í stóru lauginni með byrjendum, en það var ekki pláss í því liði. Þess vegna er hún með bróðir sínum í leikhóp. Síðasta fimmtudag voru þau bæði alveg út úr kortinu, og fylgdust ekkert með. En vonandi lagast þetta næst. Annars þarf maður að breyta þessu eitthvað.

Auður á eitthvað erfitt með að fylgjast með í skólanum og er eitthvað að fá hin börnin til að vera óþekk líka. Það er víst sérstaklega hún og einn strákur sem eiga erfitt með að fylgjast með. Þessi strákur var með henni í mæðrahóp þegar þau voru lítil. Þau hafa kannski planlagt þetta þá. Vonandi læra þau að haga sér betur. Auður er alveg ótrúlega fljót að læra söngtexta og rímur. Það er örugglega hægt að kenna henni allt ef maður setur það í söngva. Ágúst apar svo allt upp eftir henni. Hún fór að leika við vinkonu sína í dag. Aumingja vinkona hennar var í heimsókn hjá pabba sínum hérna á móti í gær og hún er vön að leika við Auði þegar hún er hér. En í gær vorum við ekkert heima, svo hún var alveg eyðilögð. En sem betur fer náðu þær að leika saman í dag. Það er frábært að þær séu ennþá svona góðar vinkonur þó þær séu ekki í sama skóla.

Jæja best að fara að slaka á fyrir átök næstu viku.

Kveðja

Tisetgengið

Þa


Enn ein veðurskiptin

Kæru bloggvinir

það er nóg að gera að fylgjast með veðrinu hér í  landi. Það skiptir um í hverri viku. Síðustu viku hefur verið mjög milt veður og hiti. En þeir eru nú  að lofa meira hausti á næstunni. Við fórum í  gær og sóttum nokkrar hindberjaplöntur og settum þær niður hér fyrir framan. Við fengum líka jarðaberjaplöntur sem á eftir að koma í jörðina. En það á að vinna í því í næstu viku.

Það hefur verið nóg að gera í flóttamannamálum hér í vikunni. Það hafa komið fleiri þúsund flóttamenn og það sem er skrýtnast,er að Danir virðast alls ekki hafa búist við þessu. Það eru mjög skiptar skoðanir á því, hvort það eigi að taka við öllu þessu fólki. Sumir hrækja á það, þegar það kemur yfir landamærin og aðrir hafa aðeins meiri samúð með þeim. Margir þeirra vilja halda áfram til Svíþjóðar, þar sem þeir eiga einhverja fjölskyldu. Það hafa margir verið brjálaðir yfir því að þetta fólk vilji setja fram einhverjar kröfur. En ég held nú að ef ég væri búin að missa mann og börn, og kæmi til algjörlega ókunnugs lands, þá myndi ég vilja komast þangað sem ég ætti einhverja fjölskyldu. En straumurinn af fólki er eitthvað að minnka í bili. Maður veit ekki hversu lengi það verður hlé.

Ágúst hefur verið eitthvað voðalega mikið í mótþróa síðustu daga. Það er sennilega eitthvað sem fylgir aldrinum. Þegar annað þeirra er öfugsnúið, þá verður hitt það líka.

Við fórum á foreldrafund í skólanum hennar Auðar í vikunni. Kennarinn var eitthvað  að kvarta yfir því að  hún ætti erfitt með að sitja kyrr og hlusta og hún væri að trufla hina. Við erum að reyna að finna út, hvað er hægt að gera. Hún hefur nú alltaf átt erfitt með að sitja kyrr, svo þetta kemur nú ekki neitt á óvart. En það skiptir  auðvitað  máli að   hún  geti setið kyrr og hlustað á kennarann. Það  verður nóg   að  gera á næstunni. Næstu  helgi  er   útilega með þeim  sem við erum með í vinakvöldverð einu sinni í mánuði og þá er líka opið hús á bóndabæjum hér í kring. Það er alltaf vinsælt að skoða svoleiðis.

Í dag er svo verið að fara í afmæliskaffi hjá Ástu, hún á afmæli á morgun og bóndinn heimtaði afmæliskaffi.

Síðustu helgina í þessum mánuði er búið að bjóða börnunum í sirkus. Bankinn þeirra bíður börnunum, en bara einum fullorðnum. Þegar þau eru orðin 8 ára mega þau ekki hafa fullorðinn með. Ætli þau eigi ekki bara að fara ein. Það er nú frekar kjánalegt. En þangað til Auður verður 8 ára, getur maður allavega farið með. Það er mikill spenningur fyrir því.

Jæja ætli sé ekki best að fara að koma sér í afmæli

kveðja frá Tiset


Haust

Kæru bloggvinir

þá er haustið víst mætt á svæðið. Það er hressilegt rok og í gær var ausandi rigning. Á föstudaginn rigndi svo mikið sums staðar að það varð að loka vegum. Þeir eru nú samt að lofa einhverju betra í næstu viku. En það finnst alveg að það er komið haust í loftið.

Við erum enn að fá nýja tómata á hverjum degi. Gulræturnar eru víst líka farnar að kíkja upp og rabarbarinn er í fullum gangi. Það getur því endað með því að það verði einhver uppskera í ár. Maður hafði smá áhyggjur af þessu á tímabili. Það er allavega gott að maður hefur ekki lífsviðurværi sitt af grænmetisuppskeru í ár. Það væri ekki mikið upp úr því að hafa. Bændurnir eru nú ekkert mikið að kvarta. Ekki þeir sem við höfum hitt allavega.

Annars er hér allt við það sama. Auður hefur verið eitthvað voðalega pirruð undanfarið. Við erum ekki alveg að skilja af hverju. Það er töluvert álag á henni að vera byrjuð í skólanum, og svo er hún auðvitað lika pirruð á að hafa ekki herbergi út af fyrir sig. Við erum að reyna að breyta. Tókum alsherjar hreingerningu í herberginu í morgun og fórum upp á loft með helling af dóti. Auður leikur sér nánast aldrei með dótið sitt, svo það er ástæðulaust að láta það taka allt plássið í herberginu. Nú er bara dót frá Ágústi. Hann er duglegri að leika sér. Það verður spennandi að sjá hvort þetta á eftir að breyta einhverju. Samstarfskona frúarinnar ætlar að gefa henni gamalt skrifborð, sem hún ætlaði að henda og við vonum að það hjálpi að hún geti haft sitt dót í friði. Þá getur hún farið inn í herbergi og slakað á og verið í friði. Auður er búin að vera að leika mikið við vinkonu sína hérna á móti. Í gær voru þær eins og hundur og köttur, en í dag eru þær búnar að vera bestu vinkonur. Það er ómögulegt að segja hvað ræður þvi, hvernig þeim kemur saman. En gott þegar þær ná að njóta hvors annars. Þær eru voða góðar saman þegar vel gengur.

Jæja það er víst ekki mikið annað að frétta héðan

Kveðja

Tisetgengið

 

 


fastir liðir eins og venjulega

Kæru bloggvinir

hér er allt að færast í réttar horfur eftir frí. Sumarið stoppaði ekkert lengi. Enda hefðum við sennilega ekki höndlað það. En það er svo sem ágætis veður. Það hefur allavega hlýnað, svo að gróðurinn hefur náð sér betur á strik. Tómatarnir eru allir að þroskast og eplin eru líka að verða klár, svo einhver uppskera verður hjá okkur. Við höfum verið svo heppin að fá helling af nýjum kartöflum hjá bónusömmu barnanna. Það er algjörlega ómissandi að fá smá nýjar kartöflur á sumrin. Ætli við reynum ekki að henda niður nokkrum næsta sumar.

Auður er mjög ánægð í skólanum og þetta hefur gengið betur en við þorðum að vona. Við heyrum frá fólki sem er tengt skólanum að hún virðist glöð og sé alltaf að leika með börnunum. Ef maður spyr hana þegar hún kemur heim, þá segist hún ekki hafa verið að leika við neinn. Hún er mikið að spá og spekulera og spyr ýmissa undarlegra spurninga. Hún er nú samt mjög þreytt og oft pirruð þegar hún kemur heim á daginn. Það er oftast merki um að hún sé að prófa eitthvað nýtt sem reynir á hana. En það er nú ósköp eðlilegt. Bróðir hennar apar allt upp eftir henni, bæði gott og slæmt. Hann er fljótur að læra lögin sem hún er að syngja. Hún syngur mjög mikið. Hann er orðinn mjög duglegur að vera ekki með bleiu. Það gerast ennþá slys, en það er voða sjaldan. Hann er mjög stoltur af þessu og foreldrarnir auðvitað líka. Það er líka töluverður sparnaður af því að þurfa ekki að kaupa bleiur, nema til að hafa á nóttinni. Hann er að verða sá elsti hjá dagmömmunni. Jafnaldra hans er að byrja í leikskólanum á þriðjudaginn. Það er verið að stefna að því að hann byrji 1. nóvember. Hann spáir nú ekki mikið í það, Auður er mjög spennt fyrir hans hönd. Hana langar mikið að heimsækja gamla leikskólann sinn.

Auður missti enn eina framtönnina um daginn. Það verður ekkert smá skrýtið þegar hún fær tennur aftur. Hún er búin að vera tannlaus svö lengi. Hún reif þessa síðustu bara úr sjálf. Henni hefur sennilega verið eitthvað illt í henni. Það er örugglega ekkert spennandi að vera með lausar tennur. Við bökuðum bollur í gær og notuðum hveitið sem Auður hafði malað sjálf. Henni þótti þetta mjög spennandi. Við fórum að heimsækja bónusömmu þeirra í gær og þau fengu bæði baunir og epli beint úr garðinum. Þau eru mjög hrifin af þessu öllu. Þau eru líka óskaplega áhugasöm um skorkvikindi. Ágúst kom inn með fulla lúku af einhverjum lirfum og vildi taka þær með heim. Við vorum ekkert gríðarlega spennt. Auður fer á bókasafnið í skólanum í hverri viku og kemur heim með bækur um einhver dýr. Hana langar óskaplega að búa á bóndabæ. Hún hlýtur að hafa þennan dýraáhuga frá pabba sínum. Hún vill líka endilega fara á reiðnámskeið. Já það er ekki slegið slöku við hjá ungfrúnni.

Jæja ætli sé ekki best að reyna að slaka á fyrir átök næstu viku

kveðja

Tisetgengið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband