Færsluflokkur: Bloggar

Sólin aftur mætt

Kæru bloggvinir

Þá er aftur komin sól og blíða hérna hjá okkur. Við getum ekki kvartað yfir öðru en að núna er auðvitað allt of heitt, svo maður er alveg að kafna. En það er frábært að hafa svona gott veður og við erum búin að vera mikið úti síðustu daga. Við erum búin að hafa langa helgi, og það er nú alltaf mjög gott.

Á fimmtudaginn fórum við til Árósa að heimsækja vin okkar. Hann er orðin voðalega heilsulítill, og læknarnir virðast ekki vilja ekki gera neitt fyrir hann af því hann er orðinn fullorðinn og mjög þungur. Þeim finnst sennilega of dýrt að gera eitthvað fyrir hann. Én maður fer nú allavega aldrei svangur frá honum. Félagi hans kaupir í matinn fyrir hann, svo það er hugsað vel um mann.

Á föstudaginn var svo ráðist í að slá garðinn. Sláttuvélin okkar tók upp á því að bila, en sem betur fer voru nokkrir dagar eftir af ábyrgðinni, svo hún er bún að vera í viðgerð í rúma viku. Það getur víst tekið hátt í 2 vikur að gera við hana. Sennilega ekki af því það sé svo mikið að, en hlutirnir taka bara svo langan tíma hérna. En vonandi geta þeir gert við hana. En það var allt komið á kaf í grasi bæði hér fyrir framan og á bak við. Svo við fengum lánaða bæði sláttuvél og sláttutraktor. Bóndanum fannst ekki leiðilegt að fá að keyra svona sláttutraktor. Það þurfti svo að raka allt grasið saman, þetta var orðið svo mikið. Frúin er nú ekki tilbúin í að kaupa svona sláttutraktor, fyrr en það er búið að slétta túnið hér á bak við. Annars eyðileggst hann bara. Það er verið að spá í að fá einhvern með traktor og fræsara, sem getur rennt yfir blettinn, svo þetta sléttist betur. En það verður látið bíða þar til í haust. Við erum of sein að sá grasfræi, svo það er betra að bíða.

Í gær var okkur fullorðna fólkinu svo boðið í fertugsafmæli hjá vinafólki okkar. Það viðraði nú betur til tjaldhátíðar. Það var eiginlega of heitt. En það var tekið fram að börn væru ekki velkomin, svo Elli var heima með Auði. Hann stóð sig nú mjög vel, en var mjög fegin þegar við komum heim og tókum við. Auður er orðin alveg ástfangin af honum og hann má ekkert fara, þá verður hún voða leið. Henni finnst frábært að hafa einhvern að vesenast í. Það er líka voða notalegt að hafa einhvern sem getur haft ofan af fyrir barninu meðan maður er að elda og þrífa og svoleiðis.

Nú eru feðgarnir svo að setja upp sjónvarpsinnréttinguna sem við keyptum í IKEA um daginn. Það verður spennandi að fá hana upp. Alltaf gaman að bæta og breyta. Það er nú alltaf verið að pæla í að taka video og myndir af ungfrúnni, en oftast þegar við ætlum að taka myndir þá eru vélarnar batteríslausar. Sérstaklega videovélin. Við verðum að reyna að kaupa nýtt batterí.

Nýjasta æðið hjá ungfrúnni er að segja "hvad er det" eða hvað er þetta, þegar hún sér eitthvað nýtt. Það er voða krúttlegt. Annars bablar hún bara eitthvað á hálfgerðri rússnesku.

Jæja best að fara að fylgjast með uppsetningunni á skápunum, svo þetta fari nú allt rétt fram.

Kveðja

Gummi, Ragga, Elli og Auður Elín


Koppaæfingar

Kæru bloggvinir

hér hefur verið hálf kalt undanfarið. Það er allavega ennþá kveikt á kyndingunni, sem er óvanalegt á þessum tíma. Við höfum yfirleitt slökkt á kyndingunni í apríl. En vorið er eitthvað að láta bíða eftir sér. En þeir lofa nú meiri hita í næstu viku.

Hér er annars allt með frið og spekt. Framundan er stutt vinnuvika. Það er náttúrlega uppstigningardagur á fimmtudag og margir taka sér frí á föstudaginn. Skólar eru lokaðir og dagmömmur og leikskólar hafa líka flestir lokað. Maður hefur nú svo sem ekkert á móti því að fá extra frídag. Verst hvað vikan eftir svona stutta viku verður þá löng. En það er ekkert við því að gera. Bara um að gera að njóta þess að hafa smá frí.

Elli er að koma á morgun og ætlar að vera í nokkrar vikur. Það verður fínt að fá hann. Kannski er hægt að lokka hann til að hjálpa pabba sínum eitthvað utandyra. Það er ekki eins og það sé mikil hætta á að hann verði atvinnulaus.

Í gær fórum við í partý hjá dagmömmunni. Hún hélt upp á 25 ára starfsafmæli sem dagmamma hjá bænum. Við reiknuðum með að þetta yrði haldið innandyra, þar sem það mígrigndi. En nei, eins og venja er hér í Danaveldi, þá var búið að slá upp tjaldi úti í garði og svo sat maður þar í skítakulda og vosbúð og fékk sér að borða. Auði fannst þetta voða skrýtið. Hún hitti tvær af stelpunum sem eru hjá dagmömmunni og fannst þetta mjög merkilegt. Við stoppuðum nú ekki lengi, það var svo hráslagalegt. En hinir gestirnir létu þetta nú ekki mikið á sig fá. Enda voru flestir þeirra komnir vel í glas, um hábjartan dag. Maður er nú kannski voðalega gamaldags, en ég kann nú ekki við þetta sull, svona um miðjan dag og sérstaklega ekki þar sem eru lítil börn.

Frúin fór með Auði til háls-, nef- og eyrnalæknis í vikunni. Hún er með vökva í eyrunum og of stóra nefkirtla. Svo hann ætlar að fjarlægja þá og setja rör í eyrun. Það er svo sem ekkert skrýtið að hún eigi erfitt með að sofna á kvöldin út af þessu. Það verður nú örugglega ekki skemmtilegt að horfa á þegar Auður verður svæfð, en allavega gott þegar þetta verður búið. Vökvi í eyrum getur vist líka seinkað málþroska, svo það er kannski ekkert skrýtið að hún sé eitthvað pínu sein í þessu. Hún er oft að reyna að segja manni eitthvað voða merkilegt, en það er nú misjafnt, hvort maður skilji það. En með bendingum og handapati komumst við nú yfirleitt að því hvað hún er að biðja um.

Í morgun fórum við svo í smá hjólatúr. Við rétt náðum inn áður en fór að rigna aftur. Auði finnst rosa sport að fara út að hjóla með okkur. Eftir hjólatúrinn fórum við upp á loft að taka til og fundum kopp. Við tókum hann með okkur niður. Þegar Auður vaknaði eftir hádegislúrinn sá hún koppinn og settist á hann. Við héldum nú hún væri bara eitthvað að leika sér. En stuttu seinna var hún búin að gera í bleiuna. Það er greinilegt að foreldrarnir eru ekki alveg með á nótunum. Það er nú ekki ólíklegt að þegar hún á að fara að nota hann, að það sé ekkert spennandi.

Bóndinn er að fara á fótboltaleik á eftir. Síðasta leikinn á þessu tímabili. Vonandi að hann hangi þurr á meðan.

Það væri nú skemmtilegt að fá kvittanir ef einhver er ennþá að lesa þetta! :)

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Allt að gerast heima og heiman

Kæru bloggvinir

það eru nú ekki skemmtilegar fréttirnar sem maður hefur heyrt heiman frá Íslandi í morgun. Hugur okkar er hjá öllum sem eru með skepnur i þessu öskumistri. Þetta var nú sennilega ekki alveg það sem var mest þörf á heima á Íslandi núna.

Hér hefur annars verið ansi viðburðaríkur morgunn. Við hjónaleysin ákváðum að bregða okkur í smá hjólatúr. Frúin er ekki enn búin að fá nýtt hjól, en fór á því gamla. Á bakaleiðinni var svo ákveðið að koma við á íþróttasvæðinu og leyfa Auði að leika sér. Þegar við komum þangað sáum við svo að það var búið að brjótast inn í húsið sem er niður á svæðinu . Það var ekki búið að taka neitt nema kassa af bjór. Enda svo sem engin verðmæti þarna inni. Við hringdum í formanninn í íþróttafélaginu og hann bað okkur að hringja í lögregluna. Við gerðum það og biðum svo eftir þeim. VIð áttum nú ekki von á að lögreglan nennti að keyra út fyrir eitthvað svona smotterí, en þeir mættu á svæðið eftir smátíma. En af því að íþróttasvæðið stendur út í skógi fyrir utan bæinn, þá gekk eitthvað illa að finna þetta, svo frúin hjólaði á móti þeim. Sem betur fer var hún með hjólahjálm! Þetta var bara eins og í amerískri bíómynd.

Á finntudaginn fórum við til svæðanuddara sem var búið að mæla með fyrir Auði. Okkur leist nú ekki alveg á blikuna þegar við komum á staðinn. Þetta var allt voðalega dularfullt. Svæðanuddarinn var ekki minna dularfull. Þetta var eldri kona með frekar dularfullt augnaráð. Hún nuddaði fæturnar á Auði, og Auður sat alveg grafkyrr. Sem gerist mjög sjaldan. Konan sagði margt undarlegt. En sagði að það væri best að við nudduðum á henni fæturna á kvöldin áður en hún færi að sofa. Svo ætluðum við að borga henni, en þá vildi hún ekki taka nema tæpar 1000 kr fyrir. Sagðist bara vilja hjálpa börnum, ekki græða á þeim. Við getum nú ekki sagt að það gangi betur að fá barnið í háttinn á kvöldin. Og hún vill alls ekki láta okkur nudda á sér fæturna. En ætli við prófum ekki að fara til konunnar aftur og sjáum hvort það hjálpar eitthvað.

Á föstudaginn fórum við á stóran dýra-  og flóamarkað. Auði fannst rosa spennandi að sjá öll dýrin og fór líka á hestbak í fyrsta skipti. Það var ofsalega gaman. Við keyptum nú bara eitthvað smotterí. Enda ætluðum við nú svo sem ekki að kaupa neitt sérstakt.

Það gengur voðalega hægt að koma rabarbaraplöntunum til, svo við erum að pæla í að kaupa kannski bara tilbúnar plöntur líka. En við sjáum til. En kartöflugrösin rjúka upp og rófurnar og gulræturnar eru líka allar að koma til. Það er búið að rigna hressilega í dag, svo það gæti ekki verið betra fyrir gróðurinn. Við fórum í gær og ætluðum að ná í smá meiri hestaskít, en fengum fulla kerru. Við erum því búin að gefa nágrannanum smávegis, og svo verðum við að reyna að plægja restina niður í garðinn hjá okkur.

Bóndinn reynir svo að setja inn nýjar myndir á eftir. Auður er á einhverju mótþróastigi og vill alls ekki láta taka af sér myndir. Hún er voða mikið að reyna á þolrifin í okkur foreldrunum núna. En það hlýtur að ganga yfir eins og venjulega.

Kveðja

Gummi, Ragga, og Auður Elín


Rok og aftur rok

Kæru bloggvinir

hér er rok og skýjað. Það hefur verið ansi mikið rok í vor. Maður er nú að verða pínu þreyttur á þessu. Við vitum ekki alveg hvað veldur þessu en vonum að þetta verði ekki svona í allt sumar. Það hefur nánast ekki rignt hér í mánuð eða meira, svo það er allt orðið mjög þurrt. En það kom smá gusa gær. Það mætti nú alveg koma smá meira.

Það er búið að taka hressilega til í kössunum uppi á lofti. Það er búið að henda helling og svo á eitthvað að fara á flóamarkað hjá borgarahreyfingunni um hvítasunnuhelgina. Alltaf gott að hreinsa aðeins til. Maður rekst alltaf á hluti sem maður skilur ekkert í að maður sé að geyma. Frúin hefur nú tilhneigingu til að geyma ýmislegt miður gáfulegt. En hún stóð sig nokkuð vel í að henda í dag. Enda undir strangri handleiðslu.

Annars hefur nú allt gengið sinn vanagang. Frúin sendi bóndann með hjólin á verkstæði, svo það væri hægt að gera þau klár fyrir sumarið. En hann fékk þau skilaboð frá hjólasmiðnum að það borgaði sig ekki að gera við hjól frúarinnar. Frúin er nú ekki sátt, það er ekki nema rúmlega 20 ára! Svo nú verður maður að fara að kíkja eftir nýju hjóli. Frúin er mjög sérvitur í þessu samhengi, svo þetta verður nú ekkert létt verk. En vonandi að þetta takist fyrir haustið.

Það er búið að opna bakarí í Gram eftir næstum heilt ár. Gamli bakarinn varð að hætta af heilsufarslegum ástæðum. Um síðustu helgi opnaði svo bakari hér úr nágrenninu, útibú í Gram. Frúin fór að sækja sunnudagsrúnstykkin og það var biðröð út á götu og fólk í sínu fínasta pússi að kaupa rúnstykki. Það er mikil hefð fyrir að kaupa rúnstykki um helgar hér, svo fólk hefur verið orðið mjög þurfandi. Þetta er mjög flott bakarí og mun flottara en það sem var fyrir. Það var hálf subbulegt. Svo nú er málið bara að mæta snemma á sunnudagsmorgnum til að þurfa ekki að bíða úti á götu og leggja bílnum langt í burtu.

Auður Elín er að þroskast mjög mikið þessa dagana. Hún er auðvitað ekki hætt að vera uppátækjasöm. Við höldum að dagmömmurnar séu farnar að líkja henni við Emil í Kattholti. Dagmömmurnar rífast um að hafa hana, þegar dagmamman okkar er í fríi. Það er nú ágætt að hún er svona vinsæl. Þær segja að það sé ekkert mál að hafa hana. Hún er mjög dugleg að aðlagast nýjum aðstæðum. Hún er voða dugleg að hjálpa til, bæði við að týna saman dót, sækja mat úr frystikistunni og ýmislegt fleira. Hún verður bara pirruð ef maður leyfir henni ekki hjálpa til.

Í gær fórum við á opið hús hjá gluggafyrirtæki. Við verðum að reyna að skipta út einhverjum gluggum hér í sumar. Það er ekki hægt að hafa þetta einn vetur enn. Það er algjör frumskógur að finna eitthvað út úr þessum gluggaframleiðendum hér. Í bakaleiðinni ætluðum við að borða nesti, en það var svo hvasst að við hrökkluðumst inn í bíl. Við fundum svo flóamarkað á leiðinni heim og keyptum smádót fyrir Auði og nokkrar bækur.

Svo er bóndinn að pæla í að fá mann sem við þekkjum til að koma og fræsa upp lóðina hér á bak við og reyna að slétta hana eitthvað út. Þetta er eins og mýri hér á bak við.  Þegar rætunar voru teknar um daginn kom upp alls konar rusl. Það er með ólíkindum hvað er mikið drasl í lóðinni. Þetta hefur greinilega verið notað sem ruslahaugur. Þetta er nú frekar þreytandi. Sérstaklega þegar maður er alltaf að finna glerbrot út um allt. Sem betur fer hefur Auður alveg látið þau eiga sig hingað til.

Jæja best að láta þetta duga í bili

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 

 


Enn skín sólin

 

Kæru bloggvinir

hér skín enn sól í heiði. En um helgina hefur verið svo mikið rok að maður nennir eiginlega ekki að vera úti, er bara orðin hálfkvefaður á þessum blæstri. Við flúðum niður á íþróttasvæði í gær og þar var meira logn af því það er í skjóli frá skóginum. Við erum alveg hætt að skilja í þessu roki. Eftir að frúin skrifaði bloggið síðasta sunnudag kom nágranninn og gróf upp allar ræturnar hérna á bak við. Garðurinn lítur út eins og eftir sprengingu. Við keyrðum svo allar ræturnar á haugana í gær. Þetta eru nú sennilega síðustu ræturnar sem við förum með. Það eru ekki mörg tré eftir sem við ætlum að fjarlægja.

Í morgun fórum við á svona stóran útimarkað hérna rétt hjá. Það er venjulega fullt af dýrum, bæði stórum og smáum. En það var ekkert í dag, svo þetta var nú hálfgerð fýluferð. Bóndinn keypti sér þó öxi og eitthvað arfajárn svo maður þurfi ekki að vera á fjórum fötum að reita illgresi. Það er allt að koma upp í grænmetisgarðinum og maður sér dagamun núna. Það hefur verið upp í 20 stiga hiti á daginn síðustu viku, en svo hefur verið frost á næturnar. Þetta hlýtur allt að rjúka upp þegar við losnum við næturfrostið. Það er voða gaman að fylgjast með þessu koma upp. Við verðum að reyna að muna að taka mynd af fína grænmetisgarðinum, svona til að monta okkur pínu.

Auður hristi af sér hitavelluna á sunnudaginn og var orðin hress á mánudaginn. Hún var voða hissa á að sjá gömlu dagmömmuna sína. Dagmamman hefur verið alveg eiturhress síðan hún kom úr fríi. Hún hefur sennilega bara verið orðið svona þurfandi fyrir afslöppun. Hún hefur nú víst bara haft 2 í pössun mestalla vikuna. Við fórum í síðasta skipti í sund í gær. Svo er ekkert aftur fyrr en í haust. En maður getur auðvitað farið sjálfur. Það er bara dýrt að borga sig í sund svona venjulega. Þegar maður er í ungbarnasundi er þetta ódýrt af því við erum svo mörg.
Auður er farin að segja meira og í gær sagði hún lesa bók, eða eitthvað í þá áttina. Henni finnst það mjög skemmtilegt. Henni finnst líka mjög skemmtilegt að leika í húsinu sínu úti í garði. Við týndum steina og skeljar um daginn og hún gaufast með þetta fram og aftur. Það er spurning að gefa henni sviðakjamma líka og þá er þetta orðið eins og í gamla daga.
Hún fer með pabba sínum á fimmtudögum hér niður á leiksvæði. Íþróttafélagið er farið að bjóða upp á leiki fyrir börn frá 3ja ára. Hún nennir nú ekki að vera með í skipulögðum leikjum, enda skilur hún það nú sennilega ekki enn. En henni finnst rosa gaman að leika sér í leiktækjunum.

Jæja ætli við segjum þetta ekki gott í bili

Kveðja úr rokinu

Gummi, Ragga og Auður Elín


Sól og rok

Kæru bloggvinir

hér skín ennþá sól í heiði. Það hefur þó verið ansi mikið rok, sérstaklega núna um helgina. En ef miðað er við veðrið í Reykjavík núna, þá erum við bara sátt. Bara vonandi að við fáum gott sumar. Okkur finnst við alveg eiga það skilið eftir síðustu tvo vetur.

Annars gengur hér allt sinn vanagang. Allt komið í samt horf eftir páskafrí. Auður er búin að vera hjá gestadagmömmu af því hin hefur verið í fríi. Hún er voðalega almennileg. Hún býr svolítið fyrir utan bæinn og er með kindur, hesta og ýmisleg smádýr. Þetta þykir Auði nú ekki leiðilegt. Hún er víst búin að vera ansi mikið úti við síðustu vikuna. Við vorum eitthvað að nefna við dagmömmuna að Auður ætti svo erfitt með að slaka á á kvöldin, svo hún benti okkur á að tala við svæðanuddara. Það getur vel verið að við athugum það. Auður hefur alltaf átt mjög erfitt með að slaka á, svo það væri mjög gott ef það væri hægt að gera eitthvað við því. Við erum líka búin að panta tíma hjá eyrnalækni, en við fengum ekki tíma fyrr en um miðjan júní. Hún er orðin kvefuð aftur og er með smá hitavellu í dag. En við vonum nú að þetta sé ekkert alvarlegt. Hún hefur verið voða svekkt hér í morgun af því hún hefur ekki mátt fara út. Er alltaf að koma með skóna sína og jakkann.

Hún er annars orðin mun duglegri að sitja og láta lesa fyrir sig, eða syngja. Hún er farin að vera mjög dugleg að kubba. Hún er heldur ekki alveg jafn öfugsnúin og hún hefur verið. Það er hægt að banna henni hluti núna, án þess að það verði allt brjálað. Hún er farin að hafa skoðanir á hvaða skó hún á að fara í og hvaða jakka. Okkur finnst þetta nú fullsnemmt, en bara gaman að þessu. Hún bablar og bablar, segir nei og hristir hausinn í tíma og ótíma. Það er ekki alltaf hægt að taka mark á hvað hún segir. Hún segir nei þegar hún meinar já. Hún virðist skilja allt sem er sagt við hana, en stundum þarf að segja hlutina oftar en einu sinni, svo hún gegni. En það er nú víst alveg eðlilegt.

Það er ekkert farið að koma upp úr kartöflugarðinum, enda bara vika síðan þetta var sett niður. Við settum niður jarðarberjaplöntur í gær. Spennandi að sjá hvort maður nær að borða eitthvað af þeim, áður en fuglarnir ná berjunum.

Svo er nú alltaf verið að bíða eftir að fá hjálp til að taka ræturnar hér úr bakgarðinum, sá sem ætlar að hjálpa, kom við hérna áðan og ætlar að koma eftir hádegið, en það getur nú breyst. Það væri voða gott að losna við þetta svo við getum farið að setja möl í innkeyrsluna. Það er ansi mikill sandburður hér inn og út meðan þetta er allt svona bert.

Það er svo loksins búið að skipta um krana í eldhúsvaskinum. Við keyptum einhvern draslkrana þegar við keyptum innréttinguna, af því við höfðum ekki efni á almennilegum. En nú er kominn alvöru krani, enginn smámunur. Bóndinn ætlaði nú að setja hann í sjálfur, en lenti í tómu basli svo það varð að kalla til fagmenn.

Jæja best að fara að leggja sig meðan ungfrúin sefur.

kveðja úr sólinni

Gummi, Ragga og Auður Elín


Gleðilega páska

Kæru bloggvinir

gleðilega páska. Hér skín sólin. En það er pínu rok. Það er búið að vera algjörlega biluð blíða hér alla síðustu viku. Reyndar hefur verið töluvert rok síðustu daga, en samt mjög fínt. Við erum búin að vera mikið úti við og ýmislegt brallað.

Hér er búið að setja upp loftlista þar sem vantaði, sækja hrossaskít og pæla upp kartöfluagarðinn. Það er búið að setja niður kartöflur, rófur, gulrætur, lauk og eitthvað fleira. Svo er eftir að setja niður jarðarber, rabarbara og maís. Það verður spennandi að sjá hvort þetta kemur upp. Svo er búið að hreinsa til í innkeyrslunni og gera klárt fyrir að fá möl. Þannig að maður hefur nú ekki setið auðum höndum síðustu dagana. En það eru nú víst margvísleg verkefni sem bíða.

Ungfrúin fór til læknis á mánudaginn. Hún vildi nú meina að hún væri stálhraust, en ef við vildum, gætum við farið með hana vil háls- nef og eyrnalæknis. Auður er algjörlega á útopnu þessa dagana. Hún er alltaf að prófa eitthvað nýtt og ekki alltaf jafn hættulítið. Hún er orðin aðeins betri til að sofna á kvöldin en vaknar oft 1-2 sinnum á nóttinni. Vonandi að þetta gangi bara yfir.

Frúin fór í 40 ára afmæli á föstudaginn hjá fyrrverandi vinnufélaga sínum. Það var boðið út að borða á veitingarstað og svo heim til afmælisbarnsins á eftir. Það var rosalega gaman. Í gær var svo farið út að sjó með nesti. Það blés eiginlega of mikið, en við létum okkur hafa það. Í dag er svo bóndinn að vinna í að setja upp ný leiktæki á leiksvæði íþróttafélagsins. Það á nú örugglega eftir að taka allan daginn. Danir eru nú ekki þeir hraðvirkustu. 

Það eru komin 3 ný albúm með myndum af kartöflugarðinum og heimasætunni. Endilega kíkið á það.

Jæja best að láta þetta nægja í bili.

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Kartöflugarður

Kæru bloggvinir

hér er búin að vera bongóblíða í allan dag. Við fórum í morgun og stungum upp kartöflugarð. Við gerðum nú ekkert stóran garð, til að byrja með. En það er bara hægt að stækka hann ef við verðum alveg æst í að rækta grænmeti. Það eru einhverjir búnir að setja niður kartöflur, en við erum ekki tilbúin ennþá, svo þetta verður eitthvað seinna. Við erum búin að fá vilyrði fyrir hrossaskít til að setja í kartöflugarðinn. Við þurfum bara að sækja hann. Svo það verður reynt að vinna í að koma þessu niður núna um páskana.

Frúin er komin í páskafrí en bóndinn þarf að vinna næstu þrjá daga. Hann er reyndar heima frá kl. 9 á morgnana til kl. 3 á daginn, svo það er nú næstum eins og að vera í fríi.

Í gær renndum við til Árósa til að fara í IKEA. Við vorum búin að velja okkur svona sjónvarpsskáp, en svo þegar við komum á staðinn sáum við að það myndi ekki ganga af því sjónvarpið stóð svo neðarlega. Þá varð nú að leita að einhverju öðru og við fundum einn sem við höldum verði mjög fínn. Og ekki skemmdi fyrir að hann kostaði helmingi minna. En ekki það að við náðum nú að eyða meiri pening þarna inni.  Það reynir töluvert á þolrifin að fara í IKEA, sérstaklega þegar maður er með barn sem ekki nennir að sitja kyrr í vagni á meðan maður er að reyna að finna það sem vantar. Þetta heppnaðist samt allt saman en tók 2 og hálfan tíma. Maður skilur ekki hvað þetta getur tekið langan tíma. Svo fórum við að heimsækja vin okkar í Árósum og fengum að borða þar.

Á föstudaginn var rennt eftir lambakjöti hjá vinnufélaga frúarinnar. Þar var sauðburður í fullum gangi. Það er orðið ansi langt síðan maður kom inn í fjárhús. Auði fannst rollurnar nú vera full háværar. Enda var að koma matmálstími hjá þeim og þær jörmuðu hver i kapp við aðra. Við vorum nú bara heppin að fá einn skrokk. Það er svo ekki slátrað aftur fyrr en í haust.

Auður er að fara til læknis í fyrramálið, það á að tékka á eyrunum og lungunum. Við vonum að þetta sé í lagi allt saman. Læknirinn sem hún er vön að fara til, er í fríi svo við förum til annars læknis. En það er ágætt að heyra hvort hún segir það sama og hin. Frúin þarf svo að fara með bílinn á verkstæði í fyrramálið. Það er eitt og annað smálegt sem þarf að kíkja á. Maður vonar að þetta verði ekki einhver milljónareikningur.

Annars er nú stefnan tekin á að klára ýmis smáverkefni hér í páskafríinu. Bæði úti og inni. Frúin er allavega búin að panta að það verði reynt að klára ýmislegt smotterí hérna inni.

Jæja best að fara að elda matinn

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 


Flatkökubakstur

Kæru bloggvinir

þá er aftur komin bongóblíða. Það hefur verið hífandi rok mestalla vikuna, en svo hefur verið voða fínt veður í gær og í dag. Það er svo gott að fólk er farið að sjást úti við. Góða veðrið í gær var nýtt til at þrífa bílinn að innan og í dag var svo farið með hann í bílaþvottastöðina. Maður getur þá farið að láta sjá sig á honum núna. Það er byrjað að vinna í veginum sem frúin keyrir í vinnuna. Henni til mikillar ánægju. Þeir eru búnir að rista allt malbikið ofan af og nú keyrir maður á þvottabretti mest alla leiðina. Og má bara keyra á 70 í staðinn fyrir 90. Ekki alveg heppilegt fyrir svona þolinmótt fólk eins og frúnna. Og til at bæta gráu ofan á svart eru þeir ekkert að vinna í þessu, svo það er ómögulegt að segja hvað þetta tekur langan tíma.

Auði finnst voða gaman að vera úti í góða veðrinu. Hún er voða ánægð með nýja húsið sitt úti í garði. Reynir að stinga af á morgnana, svo hún geti kíkt á húsið sitt. Við þurfum að reyna að útbúa einhvers konar sæti og borð fyrir hana þarna inni. Við erum líka búin að setja upp rólurnar, svo þetta er orðið mjög sumarlegt. Í gær fórum við að gefa hestunum gulrætur. Hesturinn var greinilega eitthvað æstur því hann nartaði aðeins í puttann á Auði. Sem betur fer kom nú ekkert alvarlegt fyrir, hann reif bara smá af nöglinni af. Hún fór auðvitað að gráta, en var nú fljót að jafna sig eins og venjulega. Svo nú verður það ekki gert aftur.
Það hafa verið mikil slagsmál hér á hverju kvöldi að fá hana til að sofa. Hún berst á hæl og hnakka. Lemur höndunum í rimlana á rúminu, til að reyna að halda sér vakandi. Þetta fór svo endanlega út í tóma vitleysu núna síðast í vikunni. Við vorum búin að berjast við hana í klukkutíma og lokuðum hurðinni og létum hana eiga sig. En þá klifraði hún upp úr rimlarúminu og kom og bankaði á hurðina inn í stofu. Algjör villimaður. Við skiljum ekki alveg hvernig hún kemst upp úr rimlarúminu, en nú þýðir ekkert að skilja hana eina eftir í rúminu. Við erum svo farin að reyna að svæfa hana aðeins seinna. Af því þetta byrjaði allt þegar við breyttum klukkunni síðustu helgi. Það gengur pínulítið betur, svo vonandi lagast þetta.
Hún er næstum alveg hætt að hósta, og er öll að koma til. Meira að segja farin að borða meira. Svo vonandi fáum við ekki fleiri pestir á þessu ári.

Í morgun var svo drifið í að baka flatkökur, þetta heppnaðist ágætlega. Við erum farin að hallast að því að hellan sem við erum með sé ástæðan fyrir að þær verða stundum pínu seigar. Við þurfum að kaupa plötu sem ekki kælir sig niður með ákveðnu millibili. Það getur nú reynst erfitt að fá svoleiðis. En við verðum að reyna.

Dagmamman hennar Auðar fer í 3 vikna frí núna eftir helgi, svo Auður á að vera hjá annarri, sem hún er vön að vera hjá þegar dagmamman okkar er í fríi. Okkar dagmamma hlýtur að verða eitthvað hressari eftir 3 vikna frí. Hún hefur verið ansi þreytt síðustu vikurnar.

Bóndinn er svo að fara á fótboltaleik á eftir. Það viðrar nú ekki illa til þess.

Jæja best að nýta góða veðrið og setjast út í sólina.

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Bongóblíða

Kæru bloggvinir

það er ekki hægt að segja annað en að það hafi verið bongóblíða hér í gær. Yfir 20 stiga hiti og sól. Maður vissi bara ekki alveg hvernig maður átti að vera. Svitnaði bara við að hugsa. Það er svo heldur kaldara í dag. Þetta var víst bara sýnishorn. Þeir eru eitthvað að spá rigningu í næstu viku. Enda er nú fullsnemmt að hafa 20 stiga hita, svona að staðaldri.

Á föstudaginn var rennt eftir vinnu og keyptur notaður barnavagn handa ungfrúnni. Hinn var orðinn of stuttur, svo ef hún á að geta sofið úti var ekki um annað að ræða en að skaffa annan vagn. Frúin hafði nú ekki hugmynd um að þeir fengjust í mismunandi lengdum. Og skilur heldur ekki alveg tilganginn. En það hlýtur að vera einhver mjög gáfuleg skýring á þessu. Það getur verið erfitt að finna góða vagna notaða, af því þeir seljast um leið og þeir eru auglýstir. En núna heppnaðist þetta.

Blíðviðrið í gær var notað til að þrífa gluggana að utan og innan. Maður fékk bara sjokk að líta út um gluggann, það var allt svo skýrt og bjart eitthvað. Svo var labbað niður á leiksvæði með ungfrúnna. Það á að fara að kaupa ný leiktæki svo það verður kannski til þess að þetta verði notað eitthvað meira. Henni finnst voða gaman að labba þarna um og vesenast eitthvað. Bóndinn dró fram stuttbuxurnar í blíðunni. Hann komst svo að því að hann vantaði nýjar stuttbuxur fyrir sumarið svo það var farið í það í dag að kaupa svoleiðis. Svo nú er hann víst bara alveg klár fyrir sumarið. Í leðinni var keypt lítið plasthús fyrir Auði. Dagmamman er með svoleiðis og hún er voða hrifin af að leika sér í því. Það verður bráðum komin heill skemmtigarður hérna á bak við.

Auður Elín var heima fyrstu 3 dagana í vikunni, með hita og ljótan hósta. Hún er eitthvað að lagast en hóstar ennþá. Frúin er líka farin að hósta. En bóndinn hefur sloppið ennþá. Auður Elín er alveg að gera foreldrana gráhærða þessa dagana. Hún vill gera allt sjálf og það má ekkert hjálpa. Hún er voða léleg að borða, sennilega bæði af því hún hefur verið lasin og af því hún vill gera allt sjálf. En þetta hlýtur að lagast fljótlega. Frúin er að fara með Auði til læknis á morgun og vonandi getur hún fundið eitthvað út úr af hverju barnið er alltaf með kvef. Eftir hún fékk lungnabólguna fyrir jól hefur hún nánast verið kvefuð. Dagmamman heldur að hún sé með of stóra hálskirtla, svo það verður látið tékka á þvi á morgun.

Moldvarpan sem var farin að grafa í garðinum er sennilega farin í frí. Hún hefur allavega ekkert grafið neitt meira og gildran er tóm, svo sennilega hefur hún farið eitthvert annað. Það er nú líka eins gott fyrir hana. Bóndinn verður ekki glaður ef hún kemur aftur.

Jæja best að slappa aðeins af, áður en Auður Elín vaknar af miðdagsblundinum

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband