Færsluflokkur: Bloggar
27.3.2011 | 12:25
Moldvarpan gengin aftur
Kæru bloggvinir
hér er vorið alltaf að reyna að brjótast fram. Það er oft sól, en það er nú ennþá ansi kalt, svona ef maður stendur ekki í sólinni. Góða veðrið var notað í gær til að hreinsa laufblöð úr innkeyrslunni. Það gleymdist greinilega í haust og þess vegna var heil kerrufylli af laufum núna. Svo núna vantar bara möl í innkeyrsluna og þá verður þetta mjög fínt. En það borgar sig nú ekki að gera það fyrr en við erum búin að taka ræturnar úr garðinum hér á bak við.
Bóndinn sá sér til mikillar hrellingar að það voru komnar nýjar moldvorpuhrúgur í garðinn í gær. Það var strax farið með gildru og nú vonum við að við verðum jafn heppin og síðast. Þetta á örugglega eftir að vera vandamál í allt sumar.
Á föstudaginn var rennt í Bilka. Það var tilboð á hægindastólum og frúin fékk smá aur endurgreitt frá skattinum, svo það var ákveðið að nota hann í þetta. Gömlu stólarnir voru alveg orðnir ónýtir, svo nú vonum við að þessir endist betur. Það er nú frekar mikið vesen að komast í Bilka. Af því það er ekki hérna nálægt. Við þurfum að keyra í minnst 45 mínútur að komast í slíka búð. Svo það er ekki gert nema það séu einhver rosa tilboð. Við ákváðum að fara í Bilka í Sönderborg frekar en í Kolding. Af því að það er mun rólegra og skemmtilegra að fara til Sönderborg. Það er skrýtið með þá borg. Við höfum aldrei búið þar, en Gummi var að vinna þar. Samt finnst manni alltaf svo vinalegt að koma þangað. Það sama á við um Árósa. Þó manni myndi aldrei langa að flytja þangað aftur, þá er það eitthvað við borgina sem gerir, að manni finnst maður vera kominn heim.
Danir voru að breyta klukkunni í nótt og það fór alveg fram hjá okkur. Bóndinn fór að kaupa rúnstykki í morgun og sá þá að klukkan í símanum passaði ekki við klukkurnar hérna heima. Síminn skiptir sjálfkrafa á sumartíma. Svo við komum bara alveg af fjöllum. Það var eitthvað verið að tala um þetta í gærkvöldi, en frúin gleymdi að breyta klukkunni í gær. Þetta þýðir að við erum núna 2 tímum á undan ykkur á Fróni. Þetta er svo sem ágætt af því að það er bjartara lengur á kvöldin, en börnin ruglast alveg í ríminu. Það verður spennandi að sjá hvort ungfrúin getur sofnað í kvöld.
Í morgun var svo ráðist í stórframkvæmdir hér inni. Við fengum gefins fataskáp frá vinnufélaga Gumma. Við héldum nú fyrst að hann kæmist ekki fyrir inn í svefnherberginu okkar, svo planið var að setja hann inn í herbergi hjá Auði. En svo kom í ljós að hann passaði alveg í okkar herbergi. Svo nú er loksins búið að koma öllum fötum og ýmsu öðru inn í skáp. Frúin er hæstánægð með þetta. Eina vandamálið er að skápurinn er frekar ljótur, með dökkum hurðum. En við erum að pæla í að taka þær af aftur og mála þær í ljósari lit. Þá er þetta mjög fínn og vandaður skápur.
Auður Elín hefur tekið upp á því síðustu vikurnar að vakna um miðja nótt. Fyrstu næturnar fékk hún að koma upp í til okkar. En svo var það orðið frekar erfitt af því hún er öll á fleygiferð og sparkar í pabba sinn. Svo fann pabbi hennar upp á því að gefa henni að drekka þegar hún vaknar og þá sofnar hún yfirleitt strax aftur. Hún mætti nú alveg hætta þessu alveg, en það gerist sennilega ekki. Hún á að fara til læknis aftur á mánudaginn af því hún er alltaf með vökva í eyrunum. Hún er nú eitthvað að róast í skapinu, verður ekki alltaf alveg brjáluð þegar henni er bannað eitthvað. Nú er hún bara rosa sjálfstæð og vill alls ekki að maður hjálpi, sem getur verið smá vesen, af því hún getur ekki allt sjálf. Henni hefur alltaf fundist voða gaman að róta í hárinu á sér, sérstaklega þegar hún er þreytt. Núna finnst henni svo líka mjög gaman að róta í annarra hári.
Við keyptum svona grjónastól inn í herbergið hennar. Svo nú er pínu auðveldara að sitja inni hjá henni og syngja með henni. Við keyptum söngvabók heima, sem er með geisladisk, og svo getur maður sungið með. Ansi sniðugt. Hún er orðin aðeins betri að dunda við eitthvað og leika sér með dót. Það er voða munur. Hún þroskast voða mikið þessa dagana. Henni gengur þó eitthvað illa að tala skiljanlega. En það hlýtur að koma.
Jæja best að fara að halla sér áður en ungfrúin vaknar af fegrunarblundinum.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2011 | 14:01
Dauði moldvörpunnar
Kæru bloggvinir
þá er nú sennilega komið vor í Danmörku. Það hefur verið hið besta veður um helgina. Það er enn pínu kalt, en mjög gott veður. Við erum búin að vera úti í gær og í dag. Það er nóg að gera í að hreinsa til eftir veturinn. Moldvarpan sem gerði okkur lífið leitt, lét lífið í gildrunni í vikunni. Hún gerði nú fyrst smá grín að okkur því hún gróf holu á bak við gildruna, en varð svo að láta í minni pokann. Vonandi að það hafi bara verið ein. Þeim finnst víst voða gott að koma í svona nýja garða af því það er svo auðvelt að grafa sig í gegnum jarðveginn. Gamla konan hér við hliðina er þvílíkt að taka til í sínum garði. Það er allt annað að sjá hann núna. Hún er líka búin að planta trjám í gatið sem er hérna á milli okkar. Hérna megin er búið að hreinsa lauf og grafa klóakbrunninn niður, ásamt ýmsu öðru.
Frúin fékk æðiskast í morgun og henti spýtum og drasli út úr herberginu hérna uppi. Þetta var búið að þreyta hana lengi. Það var ekki hægt að fara inn í herbergið án þess að vera í stórhættu með að stíga á naglaspýtu eða eitthvað álíka. En nú er hægt að ganga um þarna uppi án þess að eiga slíkt á hættu. Vantar bara að laga gatið í gólfinu.
Bóndinn er búin að tala við nágrannann og biðja hann að hjálpa okkur að rífa upp trjáræturnar hér á bak við. Spurning hvenær hann hefur tíma í það. Hann reyndi að selja bóndanun reiðhjól. Hafði verið á uppboði að kaupa hjól handa elsta syninum og endaði með að kaupa eitthvað partý með 12 hjólum. Hann vildi endilega selja bóndanum eitt. Það gæti verið að frúin kíki á það. Hennar hjól er orðið ansi lasburða, enda orðið yfir 20 ára. Það er nú samt mest bóndanum sem finnst það orðið eitthvað hallærislegt, frúin er nokkið sátt við það og kann vel við það. Við sjáum hvað setur.
Auður er ansi ákveðin þessa dagana, það er ekki margt sem við fáum að hjálpa henni við. Hún þarf helst að gera allt sjálf og þegar það hentar henni. Hún getur orðið alveg brjáluð ef hlutirnir ganga ekki upp eins og hún vill. Það er voða barátta að fá hana til að borða, hún þykist ráða því líka. Maður verður að hugga sig við að þetta sé bara tímabil. sem gengur yfir.
Á föstudaginn var svo farið í leiðangur og keypt sólhúsgögn. Það stendur til að gera smá verönd hér fyrir framan í sumar og þá vantaði húsgögn. Við höfum aldrei átt svona fínar mublur. Borðið sem við áttum eyðilagðist síðasta sumar. Enda ekki neitt merkilegt borð. Það verður ekki dónalegt að sitja út í sólinni í sumar í nýja settinu.
Jæja best að láta þetta duga að sinni
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2011 | 11:34
Niðurrif og moldvörpuslagur
Kæru bloggvinir
jæja þá held ég nú barasta að vorið sé að koma. Það hefur verið mjög gott veður í gær og í dag og á víst að vera eitthvað áfram. Við vorum búin að segja frá því að það væri moldvarpa í garðinum. Nema hvað að hún gerði 4 holur og svo ekkert meir, svo við héldum að hún væri bara farin. En nei, svo komu allt í einu 4 holur í viðbót. Svo í morgun var farið í að setja upp gildru fyrir kvikindið. Það er nú meira en að segja það. Þetta er svona járnapparat sem á að klemma hana, en það þarf að finna göngin sem hún er búin að grafa, maka mold á gildruna og setja svo fötu yfir, svo hún fatti ekki neitt. Svo er bara að bíða og vona. Bóndinn var búin að grafa hálfa leið til Kína áður en við fundum göngin.
Í gær voru svo borin inn 2 tonn af trépillum. Bóndinn var búin að bera inn 1 tonn sjálfur. Maður kemst að því við svona burð að maður er ekki í neinu formi. Eftir þetta var greinilega kominn mikill vorhugur í bóndann því hann ákvað að rífa niður helminginn af bílskýlinu. Það þurfti að gera það svo það sé hægt að komast á bak við hús með traktor. Það á nefnilega að rífa upp ræturnar af trjánum þarna á bak við og plægja, svo það sé hægt að gera kartöflugarð. Frúin var búin að ímynda sér að niðurrifið yrði eitthvað rosa mikið mál. En nei, bóndinn barði í burðarstólpana og svo hrundi allt draslið niður. Það voru tvö lög af þakplötum. Undirlagið hefur greinilega verið orðið lélegt, svo þá hefur bara verið skellt öðru lagi af plötum ofan á það. Auði fannst þetta mjög fyndið, sérstaklega af því það voru svo mikil læti í þakplötunum. Frúin var einmitt að gera grín að því að það verður ekki gott þegar það verður búið að rífa allt sem rífa þarf hér á bæ. Hvar á bóndinn þá að fá útrás fyrir reiðina? Nú þarf svo bara að plata gamla nágranna okkar til að koma og hjálpa til við að rífa upp ræturnar. Og svo þurfa þær auðvitað að fara á haugana. Við erum örugglega búin að fara yfir 100 ferðir á haugana síðan við fluttum hingað. Draslið er endalaust.
Auður var voða kvefuð í byrjun vikunnar. Það rann endalaust úr nefinu á henni og hún hóstaði aðeins. Hún er orðin mikið betri núna. Hóstar samt aðeins ennþá. Við drifum okkur í sund í gær en gátum ekki verið lengi. Það var biluð einhver dæla í lauginni, svo hún var ekki eins heit og venjulega. En sem betur fer voru sturturnar allavega heitar. Hennar uppáhaldsiðja þessa dagana er að reyna að klæða sig sjálf í útifötin. Það gengur nú ekki alveg upp, en fínt að hún reynir. Hún er nú eitthvað að róast og verður ekki alveg brjáluð þegar henni er bannað eitthvað. Hún fór í klippingu á föstudaginn, með pabba sínum. Það þykir mjög undarlegt að ég hleypi pabbanum með barnið í klippingu. Konurnar hér treysta yfirleitt ekki mönnunum sínum fyrir svoleiðis verkefnum. En þetta gekk nú vel hjá honum og barnið er komið óskaddað út úr þessu. Allt annað að sjá barnið. Frúin fer svo í klippingu á þriðjudaginn. Hlakka ekkert smá til.
Það er loksins búið að setja inn nýjar myndir, bæði af barninu og niðurrifinu.
Jæja látum þetta duga í bili
kveðja
Ragga, Gummi og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2011 | 12:23
Bolludagur
Kæru bloggvinir
þá er runninn upp bolludagur í Baunalandi. Það voru bakaðar bollur í gær og heppnuðust bara alveg ljómandi. Urðu reyndar dálítið stórar, en mjög fínar annars. Það er búið að gæða sér á nokkum slíkum í gær og í morgun. Auður smakkaði bollur í fyrsta skipti. Hún var nú svo sem ekkert ofur hrifin, en borðaði nú hálfa með rjóma. Hún er ekki vön að fá mikið sætabrauð svo hún er nú ekkert æst í þetta, vill endilega smakka en svo verður nú ekki mikið meira úr því. Hún á víst ábyggilega eftir að bæta sér upp sykurtapið þegar hún verður eldri.
Það hefur verið hrollkalt hér alla vikuna. Ekki verið mikið frost, en það er næstum verra þegar það er smá hiti og svona mikill raki eins og hefur verið. En það er allavega góður hiti á húsinu, svo það er nú allavega til bóta. Þeir eru nú alltaf að lofa hlýrra veðri en það virðist eitthvað ætla láta standa á sér.
Það hefur nú ekki borið mikið til tíðinda hérna hjá okkur í vikunni. Auður Elín fór með dagmömmunni og sló köttinn úr tunnunni á föstudaginn. Þetta er gert á hverju ári í annarri matvörubúðinni inn í Gram. Dagmamman átti að hugsa um 5 börn, en Auður Elín og jafnaldra hennar stungu af og voru farnar að spássera inn í búð áður en við var litið. Þær eru ansi uppátækjasamar. Eða svo segir dagmamman. Henni veitti nú víst ekki af því að komast aðeins í frí. Hún er voða þreytt eitthvað þessa dagana. Það er sjaldan að hún segir eitthvað jákvætt allavega. En sálfræðingurinn er að reyna að beita á hana sálfræði og vera ofurjákvæð og sjá hvort maður fái hana ekki á þá bylgjulengd. Ef ekki verður að reyna að tala við hana um þetta aftur. Hún er aðallega eitthvað pirruð á að við tölum íslensku við Auði. En við erum búin að reyna að útskýra þetta fyrir henni, greinilega án árangurs. Auður Elín virðist skilja allt, bæði hérna heima og hjá dagmömmunni svo spurningin er hvað vandamálið er. Sennilega snýst þetta mest um, að það er lítið af útlendingum hérna, svo margir eru óvanir því að börn alist upp við tvö tungumál.
Frúin er ein heima með Auði. Bóndinn og vinnufélagar hans fóru á fótboltaleik í Esbjerg áðan. Þetta er fyrsti leikurinn á þessu leiktímabili, svo þeir ákváðu að skella sér. Annars fara þeir bara á leiki sem eru spilaðir hér á heimaslóðum. Síðan á að slá köttinn úr tunnunni hér í Tiset á eftir. Frúin er enn að velta fyrir sér, hvort hún eigi að mæta. Hún á það auðvitað á hættu að enginn yrði á hana. Það er allavega frekar kjánalegt að mæta ef maður þekkir engan. Við sjáum til. Það eru enn 45 mínútur til stefnu. Ætli það verði ekki ofan á að maður kíki á þetta, svona Auðar vegna.
Það er annars skapast hálfgert neyðarástand hér á heimilinu vegna þess að frúin hefur ekki komist í klippingu síðan í nóvember. Hún var of sein að panta tíma fyrir jól. Svo pantaði hún tíma í febrúar, en honum var aflýst því pabbi hárgreiðslukonunnar dó. Nú, svo var hún búin að fá tíma á föstudaginn og þá fattaði hún það að hún er að fara á námskeið og kemur seint heim, svo ekki gengur það. Auður Elín fór í klippingu fyrir jól, en er orðin alveg kafloðin aftur, svo hún þarf virkilega á því að halda að fá snyrtingu. Þetta lítur alls ekki vel út. Það er ekki gott að vita hvernig þetta endar! Sennilega endar þetta með því að frúin fer yfirum. Það eru auðvitað fleiri en ein hárgreiðslukona í Gram, en ég nenni ekki að prófa einhverja aðra, nema brýna nauðsyn beri til.
Það voru teknar nokkrar myndir af Auði í gær, reyni að fá bóndann til að henda þeim inn hér í vikunni. Hef ekki þolinmæði til að gera það sjálf.
Jæja læt þetta nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2011 | 13:10
Kominn aftur í kuldann
Kæru bloggvinir
þá er maður aftur kominn í kuldann hér í Danaveldi. Aðdáendur síðunnar eru beðnir velvirðingar á því að það hefur ekki verið skrifað blogg síðustu vikurnar. En það komst ekki í verk meðan við vorum heima. Það var nóg að gera í að heimsækja fólk og passa að Auður Elín rústaði ekki neinu.
Það voru ansi mikil viðbrigði að koma úr milda veðrinu á Íslandi hingað í kuldann. Það hefur snjóað meðan við vorum á Íslandi, en það er nú að mestu horfið aftur. Maður er nú enn bara að jafna sig á ferðalaginu. Ungfrúin var mjög ánægð með alla athyglina sem hún fékk. Hún var nú líka mjög dugleg bæði í lestinni og í fluginu. Hún var vakandi í lestinni og þurfti auðvitað að bralla ýmislegt. Hún svaf hins vegar alla leiðina í flugvélinni. Á leiðinni heim vorum við svo heppin að vélin var ekki full svo við fengum 3 sæti fyrir okkur ein. En á leiðinni út aftur var vélin alveg smekkfull svo það var mjög þröngt. En sem betur fer svaf Auður þetta allt af sér. Það er ekki auðvelt að hafa ofan af fyrir litlu barni í 3 tíma, þegar það er ekkert hægt að hreyfa sig. Við tókum frí í vinnunni á mánudaginn og það var mjög notalegt. Síðan hefur þetta nú smám saman verið að komast í rétt horf.
Auði fannst nú bara fínt að komast til dagmömmunnar aftur. Dagmamman vill meina að hún sé farin að tala íslensku. Hún er farin að segja fleiri orð, en það er nú óvíst hvort þau eru íslensk eða dönsk. Við sögðum við hana að við skildum heldur ekkert hvað hún væri að segja, svo þetta væri allavega ekki íslenska. Hún er farin að segja já og kinka kolli. Sem betur fer er hún ekki farin að segja nei, það verður örugglega notað mikið þegar það kemur. Auður er mjög sjálfstæð og vill ekki fá of mikla hjálp við hlutina. Það getur valdið smá árekstrum hér heima. Við ætluðum nú að fara í sund meðan við værum heima, en af því Auður fékk gat á hausinn gátum við það ekki. Það verður að bíða betri tíma.
Í morgun var okkur boðið í morgunmat hjá fyrrverandi vinnufélaga frúarinnar. Það var mjög fínt. Þau eiga hund og það þykir Auði nú ekki leiðilegt. Hún hefur verið algjörlega mömmusjúk síðan við komum til Danmerkur aftur. Það tók nú smá tíma að fá hita í kofann aftur eftir að við höfðum kynt í lágmarki meðan við vorum í burtu. Moldvarpan hefur verið dugleg að grafa meðan við vorum í burtu. Það eru komnar 4 holur í viðbót. Kötturinn var undir eftirliti nágranna okkar. Hún vældi í tvo daga eftir við komum heim. Sennilega verið svona glöð að sjá okkur. Henni hefur nú eflaust verið dálítið kalt hérna úti í skúr.
Það gleymdist alveg að taka myndir á Íslandi. Ungfrúin er orðin 20 mánaða og engar myndir hafa verið teknar af því. Það verður að reyna að bæta úr þessu.
Þeir segja að það eigi að fara að vora hérna hjá okkur núna. Það er vonandi. VIð fengum bæði kartöflur, rófufræ og rabarbarafræ með okkur frá Íslandi. Nú vantar bara að gera kartöflugarð. En það er nú fullsnemmt að fara að gera það núna. En þetta líður svo hratt að það verður kominn tími til þess fyrr en maður veit af.
Kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2011 | 12:46
Styttist í heimferð
Kæru bloggvinir
þá er aftur runninn upp sunnudagur. Það hefur nú bara verið milt og fínt veður þessa vikuna, svo þetta skiptir nú ansi oft. En meðan það snjóar ekki, og það er ekki hálka, þá kvörtum við ekki.
Ungfrúin hefur verið eitthvað óhress svo hún var drifin til læknis á miðvikudaginn. Hún er með vökva í eyrunum, sem getur alveg skýrt af hverju hún sefur ekki almennilega á nóttinni. Hún fékk einhver lyf og hefur sofið betur síðan, svo nú vonum við að þetta sé komið í lag. Hún er annars bara alveg á útopnu. Það er eins og hún vakni suma daga og sé harðákveðin í að rífa allt og tæta. Svo er hún rólegri aðra daga.Henni finnst voða gaman að máta skónna okkar og reyna að labba í þeim. Það er nú pínu erfitt. Við hjónaleysin fórum út að borða og í keilu, með íþróttafélaginu í gær og hún var í pössun á meðan. Henni finnst ekkert mál að vera í pössun og hagar sér víst alveg eins og engill. Það er mjög fínt.
Í dag var svo farið í byggingarvöruverslun og keyptar nýjar hurðar í svefnherbergin. En þær passa ekki alveg, svo bóndinn verður að reyna að mixa þetta eitthvað saman. Ferlega pirrandi. En við vonum að þetta reddist. Svo var líka keypt moldvörpugildra. Það er komin moldvörpuhola í fína blettinn og það verður að reyna að farga þeim, áður en þetta verður algjör plága. Ótrúlegt hvað svona lítil dýr geta gert mikinn skaða.
Annað kvöld heldur frúin svo annan fyrirlestur um Ísland. Það verður nú eflaust skrautlegt.
Hinn margumtalaði pillubrenniofn kom í vikunni. Það voru nú einhverjir byrjunarerfiðleikar, en nú virðist þetta keyra eins og það á að gera. Nú vantar okkur bara að panta meiri trépillur. Það er að minnsta kosti orðið sæmilega heitt í kofanum.
Í kvöld verða svo étin svið, það eru nokkrir hausar eftir í kistunni, en þeir eru ekki sviðnir, svo þeir verða aðeins að bíða betri tíma.
Við erum annars bara farin að hlakka til að koma heim. Það verður nú eitthvað fróðlegt að hafa ungfrúnna í bæði lest og flugvél í 6 tíma. Við erum að vonast til að hún sofi eitthvað, en það kemur allt í ljós.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2011 | 12:32
Enn eitt kuldakastið
Kæru bloggvinir
hér hefur kólnað hressilega aftur, en það er búið að vera mjög fallegt veður, sól og bjart. Svo það er nú ekki alslæmt.
Hér er annars allt við það sama. Á föstudaginn var ákveðið að slá þessu upp í kæruleysi og fara út að borða. Við fórum á Kínastað í Ribe. Það var voða gaman. Alltaf gott að fá eitthvað gott að borða. Í gær var svo farið í ungbarnasund og meðan ungfrúin svaf á sínu græna, voru settir upp leslampar í svefnberberginu. 'Eg held aldrei að maður hafi haft svona fína lampa. Bóndinn á margar bækur eftir ólesnar af því hann hefur ekki haft neitt ljós. Svo var settur háfurinn á viftuna í eldhúsinu. Þetta kemur allt hægt og sígandi. Seinnipartinn fórum við svo út að labba, gengum framhjá húsi formannsins í íþróttafélaginu og fórum að tala við hann. Hann var að höggva eldivið. Þetta varð nú heldur betur ferð til fjár. Bóndinn fór að tala við hann um hvort hann gæti hjálpað til við að gera trépall hérna úti í garði. Þá stakk formaðurinn upp á að við fengjum granístein í staðinn. Hann vinnur hjá ofnafyrirtæki sem hafði pantað helling af granítflísum, sem þeir þurfa ekki að nota meira. Svo við megum fá þær og hann ætlar að hjálpa til við að leggja þær. Ekki dónalegt það.
Maðurinn sem við héldum fyrirlestur hjá um daginn, kom hér síðasta sunnudag. Hann hrósaði okkur mikið fyrir síðasta fyrirlestur og vildi panta okkur í annan. Nú eru það Lionsmenn hérna inn í Gram. Svona 10-15 stykki. Frúin gat ómögulega sagt nei. Svo þetta fer nú bara að verða hálfgerð aukabúgrein hjá okkur ef svona heldur áfram.
Í morgun var frúin svo með mömmuhóp. Við erum 4 sem hittumst, svona annan hvern mánuð. Ein af þeim á von á tvíburum í júní. Hún á strák sem er tveimur mánuðum yngri en Auður, svo það verður fjör hjá þeim. Allavega meira en nóg að gera. Það er ekki mjög algengt að það fæðist tvíburar hérna, nema það sé með glasafrjóvgun. En það eru víst tvíburar í fjölskyldunni hennar, svo það skýrir nú ýmislegt. Krökkunum finnst voða gaman að hittast, og þau eru farin að geta leikið meira saman. Auði finnst allavega ekki leiðilegt að hafa einhvern að leika við. Bóndinn fór nú bara til Þýskalands að kaupa gos á meðan þær voru hérna. Fannst það víst meira spennandi en að hlusta á eitthvað kerlingavæl.
Annars er allt að verða vitlaust hérna út af handboltanum. Danir eru að keppa um gullið í kvöld. Það verða nú ekkert smá læti ef þeir vinna.
Jæja best að nota tímann og leggja sig. Ungfrúin sefur ekki neitt sérstaklega vel á nóttinni núna, þannig að maður er hálf lúinn.
kveðja
Ragga, Gummi og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2011 | 11:19
Stígvélaða dóttirin
Kæru bloggvinir
þá er víst kominn bloggdagur. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt. Hér hefur heldur hlýnað undanfarið, en í staðinn fyrir snjó og hálku höfum við oft þoku á morgnana og seinnipartinn. En það er nú betra en snjór og hálka. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvernig þetta þróast. En vonandi samt að við fáum ekki meiri vetur.
Hér gengur lífið annars sinn vanagang. Ungfrúin fékk hita á föstudaginn og var heima þann daginn, hún hefur svo bara verið með 1 og tvær kommur í gær og í dag, svo þetta hefur sem betur fer ekki verið neitt alvarlegt. Hún hóstar töluvert á nóttinni og er með hor. Við reiknum því með að þetta sé bara smá kvef og við lendum ekki í lungnabólgu aftur. Hún hefur verið óþekk hjá dagmömmunni líka þessa vikuna. Dagmamman skildi nú bara ekkert í þessu. Auður og önnur stelpa þarna hjá dagmömmunni eru á svipuðum aldri og álíka uppátækjasamar, svo þær bralla ýmislegt saman. Hérna heima er skemmtilegast að príla upp á eldhúsborð. Frúin var að máta á hana regngalla í gær og þá fann hún gúmmístígvél. Það var ekki lítið gaman að reyna að klæða sig sjálf í þau og þramma á þeim út um allt. Það er náttúrlega fínt að hún reynir að læra að bjarga sér. Hún mátaði regngallann og var voða spennt yfir þessu. Vildi ekki fara úr honum aftur. Veit nú ekki hversu mikiið börnin fara út í rigningu, en hún verður að eiga regngalla barnið. Svo þarf víst að fjárfesta í nýjum gúmmístígvélum. Þeim fyrstu, því við höfum fengið hin notuð. Engin ástæða að kaupa rándýr stígvél sem verða notuð 2-3 sinnum. Sérstaklega ekki þar sem það er ekkert mál að fá nánast ónotuð stígvél fyrir lítinn eða engann pening. Hún er voða hrifin af að skoða bækur, svo frúin fór í svona notað og nýtt búð í gær og fékk 6 bækur fyrir 200 kall. Það vakti mikla hrifningu.
Bóndinn fór með formanninum í íþróttafélaginu á fund hjá öðru íþróttafélagi hér í nágrenninu, á föstudaginn. Það var góður matur. Svo var einhver kona að kenna þeim hvernig þeir ættu að vinna betur saman. Bóndanum fannst þetta nú hálf kjánalegt. Hann ætlaði nú annars að hætta í félaginu, en á síðasta fundi var formaðurinn alveg að gefast upp, svo bóndanum fannst hann ekki geta hætt. Það hættir líka kona sem hefur farið eitthvað í taugarnar á honum, svo hann situr þarna næstu tvö árin. Það er, ef það verður áfram grundvöllur fyrir að hafa íþróttafélag í bænum. Borgarafélagið í bænum vill ekki heyra á það minnst að sameinast, enginn veit eiginlega af hverju. Það er verið að spara í sveitafélaginu, þannig að umhirða á fótboltavellinum er látin mæta afgangi. Það þýðir að það er ekki hægt að þjálfa fótbolta eða slíkt hérna á svæðinu. En þetta kemur nú allt í ljós.
Það eru komnar nokkrar nýjar myndir af ungfrúnni, þar sem hún varð 19 mánaða í vikunni.
Nágrannakona okkar sem ekki hefur mátt heyra á það minnst að hreyfa við trjánum hjá sér, er allt í einu búin að láta fella mörg risastór eplatré sem héngu yfir í okkar garð. Bóndinn tók allt í einu eftir þessu. Svo það er aldrei að vita nema að hún fáist til að taka eitthvað meira af hekkinu sem er á milli garðanna. Það væri ekki leiðilegt.
Jæja best að fara að hætta þessu
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2011 | 11:30
Íslandsferð
Kæru bloggvinir
hér heldur hlákan áfram. Það hefur verið skaplegt veður alla vikuna og það munar rosalega miklu þegar þarf að keyra svona langt í vinnu. Vonum bara að þetta haldist áfram.
Annars er hér helst til tíðinda að við hjónaleysin fórum í vikunni og frúin hélt langa tölu um frónið fagra. Þetta heppnaðist víst alveg ágætlega og þetta var hið almennilegasta fólk. Það var svo kaffi og rjómaterta á eftir. Auður Elín var bara í pössun á meðan. Það var ekkert mál. Gátum ekki verið að draga hana þarna upp eftir því þetta var akkurat á háttatíma hjá henni. Okkur finnst ólíklegt að við verðum beðin um þetta aftur, en ef svo ólíklega skyldi vilja til, þá erum við í þjálfun.
Nú svo er búið að versla flugmiða heim á klakann. Stefnan er tekin á að koma 11 feb og vera til 20 feb. Það er vetrarfrí í skólunum hérna á þessum tíma. Þannig að þeir sem vilja kíkja á okkur verða að fara að gera sig klára. Við verðum sennilega helminginn af tímanum fyrir austan og svo hinn helminginn á Suðurnesjunum. Það er ólíklegt að við flækjumst mikið í heimsóknir með litla skæruliðann, en ykkur er auðvitað velkomið að kíkja á okkur. Það er ekki alveg á hreinu hvar við verðum á Suðurnesjunum. En það kemur fljótlega í ljós. Það verður fróðlegt að sjá hvernig ungfrúin bregst við þessu ferðalagi. Síðast þegar við komum, var hún 6 mánaða og svaf bara, bæði í lestinni og í fluginu. Á ekki von á að hún verði alveg svo slök núna. Það verður að hafa helling af afþreyingarefni fyrir hana og þá hlýtur þetta að ganga. Hún er algjör skæruliði og er algjörlega óstöðvandi í að rífa og tæta. Hún er þó aðeins farin að geta setið kyrr og horft á skrípó. Finnst líka mjög gaman að sjá hunda í sjónvarpinu. Kattargreyið fær alveg orðið að vera í friði. Hún skrækir bara alltaf þegar hún sér hana, en pínir hana ekkert lengur.
Hún er alveg að fara með foreldra sína í uppátækjum og ákveðni. Það er ansi oft sem hún rekur upp skaðræðisöskur, ef henni þóknast ekki eitthvað. Hún virðist haga sér óskaplega vel hjá dagmömmunni, svo við fáum greinilega bara margfaldan skammt þegar hún kemur heim.
Annars hefur vikan nú bara verið fastir liðir eins og venjulega.
Jæja það er best að fara að slappa af, eigið góðan sunnudag
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2011 | 14:21
Hláka
Kæru bloggvinir
Hér er ennþá hlýtt veður, snjórinn er næstum alveg farinn og við söknum hans nú ekkert sérstaklega. Það gæti nú samt verið að við fengjum annað kuldakast, en við vonum það besta.
Hér hefur ýmislegt verið brallað. Það er búið að pakka niður öllu jólaskrautinu, frúnni finnst það nú alltaf ágætt þegar það er farið, en það vantar að vísu birtuna sem kemur af jólaljósunum. En það er nú heldur farið að birta hér á daginn, svo það hjálpar nú til. Ungbarnasundið byrjaði aftur í gær og Auði fannst það nú ekki leiðilegt. Hún er algjör brjálæðingur og hendir sér út í laug og líkar best ef það er eitthvað verið að djöflast með hana. Hún er allt í einu orðin æst í að opna alla skápa og skúffur. Hefur eiginlega alveg látið þetta eiga sig. Þetta er nú frekar hvimleitt, sérstaklega þegar hún kemst í ruslatunnuna. En vonandi vex hún nú frá þessu. Hún hefur verið voða þreytt þessa vikuna, hefur eflaust þótt erfitt að komast í rútínu aftur, eins og okkur fullorðna fólkinu. Hún er orðin duglegri að borða, en er alveg afleit að sofna á kvöldin. Spennir sig alla og vill alls ekki gefa eftir. Hún er eflaust bara að prófa þolrifin í foreldrum sínum. Hún er búin að finna upp á nýjum leik. Það gengur út á að sitja í sófanum með tvær körfur, með ýmsu smádóti, og flytja hlutina frá einni körfu í aðra. Hún er líka vitlaus í allar dýrabækur, sem betur fer á hún nokkrar. Hún segir voff, voff þegar hún sér hunda og öf öf þegar hún sér grísi. Henni finnst líka óskaplega gaman að troða sér ofan í dúkkuvaginn sinn og standa þar. Vandamálið er svo bara að vagninn stendur ekki kyrr og hún flaug á hausinn í vikunni, en hún lætur sér nú ekki segjast og heldur áfram uppteknum hætti. Skilur ekkert í að foreldrar hennar séu svona stressaðir og tæpir á taugum.Henni finnst ægilega sniðugt að leika sér með síma, ef hún finnur svoleiðis, þá setur hún hann upp að eyranu og segir halló.
Í dag dreif frúin sig svo á útsölu inn í Gram. Það var allt kjaftfullt og biðröð í að máta og borga, en hún keypti allavega buxur og 2 boli. Hún átti ekki nema einar buxur, svo það var komin tími á að endurnýja þær. Svo dreif hún sig í að skipta um rennilás á tveimur jökkum frá bóndanum. Að vísu komst hún að því þegar hún var búin að sauma annan rennilásinn á, að það var brotin í honum tönn, svo það þarf að rekja það allt upp aftur. Ef það er eitthvað sem fer í geðið á mér, þá er það eitthvað svona. Maður þarf að manna sig upp í þetta í nokkra daga og svo heldur maður að þetta sé búið, en nei, þá þarf að byrja upp á nýtt. Hinn jakkinn gekk svo stórslysalaust fyrir sig sem betur fer.
Meðan frúin froðufelldi yfir saumaskapnum kom bóndi hér úr nágrenninu við. Hann hefur verið einn af fáum hér í Tiset sem hefur talað við okkur af fyrra bragði. En erindið var nú að biðja okkur að koma og segja frá Íslandi á einhverjum bændafundi í næstu viku. Frúin gat ómögulega sagt nei, af því hann hefur verið svo almennilegur við okkur. En hrifin af því var hún nú ekki. Þetta eru nú sem betur fer ekki nema 9 manns, svo þetta hlýtur að reddast. Svo maður lætur nú plata sig út í ýmislegt.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
kveðja
Ragga, Gummi og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)