Færsluflokkur: Bloggar
2.1.2011 | 11:59
Gleðilegt ár
Kæru bloggvinir
gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Það hefur nú heldur hlýnað hérna hjá okkur, það hefur verið hægt að ganga um á bolnum hérna inni. Það hefur ekki verið hægt síðasta mánuðinn. Við vonum að þetta kuldahret sé bara búið.
Bóndinn fór til læknis milli jóla og nýárs þar sem hann var svo slæmur af hósta. Hann var ekki með lungnabólgu, sem betur fer. Hann er allur að koma til. Ungfrúin var drifin til læknis með pabba sínum, hún var komin með lungnabólgu aftur og hefur verið veik milli jóla og nýárs. En hún er nú líka öll að koma til og er tilbúin að fara til dagmömmu á morgun. Stóru börnin hafa verið lasin líka, svo sú eina sem hefur staðið þetta af sér er húsmóðirin já og kötturinn auðvitað. Það hefur því verið lítið um að vera hér milli jóla og nýárs, annað en hósti og snýtingar. Vonandi að þetta sé búið núna.
Bóndinn keypti nokkrar sprengjur fyrir gamlárskvöld. Hann var nú að pæla í að sleppa því og horfa bara á hjá hinum, en ákvað að kaupa eitthvað smá. Við höfum ekki haldið áramót í Tiset áður, svo þetta var nú spennandi að sjá, hversu mikið þeir myndu skjóta upp. Framan af kvöldi var allt með frið og spekt, við fórum út að sprengja korter fyrir miðnætti og vorum með samviskubit, því við vorum þau einu sem vorum að sprengja. Korter eftir miðnætti vorum við svo komin inn og þá byrjuðu einhverjir að sprengja. Þetta var nú hvorki mikið né langvarandi. Svo við höfum sennilega aldrei upplifað jafn róleg áramót, hvað sprengjur varðar. Danir eru nú almennt mjög sprengjuglaðir, en greinilega ekki hér í bænum. Sem betur fer keypti karlinn sjálfur, svo við fengjum smá áramótafýling.
Í dag fara stóru krakkarnir svo heim. Það verður nú tómlegt þegar þau fara. Auður er alveg heilluð af þeim báðum og sérstaklega Ísaki. Hún hermir eftir allri vitleysunni í þeim og borðar næstum bara þegar hann er að mata hana. Það er ágætt að hún kemst til dagmömmunnar sinnar á morgun, svo hún hætti ekki bara að borða í mótmælaskyni.
Við hjónaleysin vorum nú svo myndarleg um daginn að við drifum í að gera rúllupylsu. Eigum nú enga pressu en redduðum þessu með þvingum og kökuformum. Þetta heppnaðist bara alveg ljómandi vel, svo þetta verður örugglega gert aftur. Þetta smakkast 100 sinnum betur en þessi svínarúllupylsa sem fæst hérna.
Jæja best að njóta síðasta frídagsins áður en vinnan kallar aftur
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2010 | 09:19
Jólafriður
Kæru bloggvinir
Hér er bara afslöppun, enda lítið annað hægt að gera. Hér er ískalt, 15 stiga frost og í dag snjóar. Það er voðalega fallegt veður, en gott að maður þarf ekki að komast í vinnu. Við komumst hvorugt í vinnuna á þorláksmessu, það var svo rosalega hált. Þeir reyna ekki einu sinni að salta þegar það er svona kalt, svo það er öruggast að vera heima hjá sér. Við erum búin að njóta jóladaganna í botn með góðum mat og rólegheitum.
Við fengum margar góðar jólagjafir. Auður Elín var mjög hrifin af pökkunum og var dugleg að hjálpa til að opna þá. Hún var nú orðin ansi ringluð þegar við vorum búin að opna. Sem betur fer fáum við nú ekki svo marga pakka. Annars hefði hún nú sennilega verið orðin alveg uppgefin. Hún fékk legokubba frá okkur foreldrunum. Það er nú meira skemmtilegt að rífa þá í sundur en að byggja eitthvað úr þeim. En það kemur. Hún fékk líka hægindastól, og það er voðalega gaman að sitja í honum. Hún er auðvitað líka búin að prófa að standa í honum og hrynja aftur fyrir sig. Jólatréið hefur hún nánast alveg látið vera. Við höfðum reiknað með að það yrði allt tætt af því. Hún hefur smakkað ýmislegt matarkyns í fyrsta skipti.Hún fékk smá skötu á þorláksmessu. Það var nú ekki allir bitarnir sem fóru niður í maga, en eitthvað borðaði hún af því. Hamborgarahryggurinn var líka ágætur, en hangikjötið samt allra best. Hún fékk dúkkuvagn frá ömmu sinni á Hvolsvelli. Hún veit nú alveg hvað á að gera við hann, en samt er skemmtilegast að setja föt í hann og flytja þau svo yfir í dúkkurúmið. Hún er voða hrifin af Helgu og Ísaki og er alltaf eitthvað að væflast í kringum þau. Þegar hún veiktist um daginn var ákveðið að reyna að láta hana sofna sjálfa inn í herbergi. Það gekk rosalega vel, meðan hún var veik. Þá lagðist hún á koddann og sofnaði um leið. Þegar hún fór að hressast gekk það nú ekki alveg upp, svo nú situm við hjá henni í svona 10 mínútur og þá sofnar hún.
Það komu nokkrar jólabækur í hús um jólin, en það hefur nú lítið orðið úr að kíkja í þær. En það er nógur tími. Ef veðrið lagast eitthvað er stefnan tekin á að fara til Árósa milli jóla og nýárs. Nennum ekki að þvælast þangað ef veðrið er leiðilegt. Bóndinn hefur verið lasin um jólin. Honum hefur sennilega slegið niður eftir síðustu veikindi. Sennilega farið of snemma af stað. Hann er nú eitthvað að braggast, svo kannski verður hann tilbúinn fyrir áramótin. Það þarf nú sennilega eitthvað að sprengja, ef ég þekki hann rétt. Við höfum ekki prófað að skjóta upp hér í Tiset, svo það verður nú spennandi.
Það eru komnar inn nokkrar jólamyndir. Þær misheppnuðust nú eitthvað í ár, við vitum eiginlega ekki af hverju.
Njótið þess sem eftir er af jólunum
Jólakveðja
Gummi, Ragga og gengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2010 | 16:08
Kleinur og laufabrauð
Kæru bloggvinir
hér hefur aldeilis verið tekið til hendinni um helgina. Það er búið að steikja kleinur og laufabrauð og gera flatkökur. Við höfum aldrei steikt laufabrauð, en þetta gekk nú stórslysalaust og smakkast bara vel. Þær voru nú ekkert fallegar, en það getur nú ekki verið aðalatriðið.
Í gær kom svo Helga og kærastinn hennar, þau ætla að vera hér yfir jól og áramót. Auður Elín hefur nú verið eitthvað feimin við þau, en er öll að koma til. Hún er voða ánægð með að vera búin að fá systir sína í heimsókn. Þau voru nú alveg búin á því í gær og sváfu eftir kvöldmatinn í gær þangað til í morgun.
Við renndum svo til Þýskalands í dag til að kaupa jólagosið. Það var allt fullt af fólki þar að kaupa jólabjórinn. Við komum nú heim án þess að hafa slíkt með okkur. Svo verður keypt malt og blandað á jólunum. Ekki dónalegt það. Maður er eitthvað svo seinn með margt núna fyrir jólin. Við höfum alveg gleymt að gera ráð fyrir að við höfum ekki sama tíma núna og í fyrra, því það þarf að sinna barninu líka, ofan í allt hitt. Svo næstu jól verður maður sennilega að reyna að vera meira skipulagður. En þetta hefst nú sennilega allt saman eins og venjulega. Við erum nú ekkert að stressa okkur yfir jólaþrifum og slíkri vitleysu. Jólin koma þó það sé ekki allt bónað út úr dyrum.
Auður Elín er að þroskast voða mikið þessa dagana. Hún er t.d. farin að reyna að herma eftir öllu sem maður segir. Hún er búin að fá matarlystina aftur og tekur hraustlega til matar síns. Það er voða gott. Frekar erfitt þegar þessi grey borða lítið. Hún varð 18 mánaða í gær. Það verður að taka myndir af henni í vikunni. Það hefur bara ekki unnist tími til þess um helgina. Hún verður hjá dagmömmunni hálfan daginn núna fram á fimmtudag. Bóndinn er að keyra öðruvísi en hann er vanur og hefur því frí um miðjan daginn. Svo getur Helga passað hana þangað til frúin kemur heim úr vinnunni. Það hefur reyndar verið voða erfitt að komast til og frá vinnu þessa dagana. Það er fljúgandi hálka og þeir eiga ekki salt til að strá á vegina. Þeir reiknuðu ekki með vetri eins og í fyrra. Þannig að þetta verður eitthvað skrautlegt. Bóndinn lenti allavega í veseni á föstudaginn. Það var alveg gler yfir veginn og ekki hægt að keyra nema á mesta lagi 30 km hraða. Það er verið að tala um að lögleiða vetrardekk hérna, en margir eru mjög mikið á móti því. Mikið af því veseni sem er hér þegar það er snjór, er af því fólk er á sumardekkjunum allt árið. Og auðvitað líka af því að þeir kunna ekki að keyra í snjó og hálku.
Bóndinn vinnur þrjá daga í þessari viku og er svo kominn í frí. Frúin vinnur fram að hádegi á þorláksmessu. Það verður ekki leiðilegt að fá smá frí. Þetta er ansi lýjandi að keyra svona langt í vinnu á hverjum degi.
Tengdó sendi skötu með Helgu Rut svo þetta verða alveg ljómandi góð jól, allavega svona matarlega séð.Maður fær bara vatn í munninn við tilhugsunina.
Ef það er einhver þarna úti, sem ekki hefur fengið jólakort, þá sendum við okkar bestu jólaóskir til allra, með von um gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár.
Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2010 | 11:28
Pestarbæli
Kæru bloggvinir
það hefur verið heldur lágt risið á mannskapnum hér í síðustu viku. Bóndinn veiktist síðustu helgi og hefur legið alla vikuna. Ungfrúin veiktist svo á sunnudaginn og hefur legið alla vikuna líka. Frúin hefur verið í slappari kantinum, en komið sér í vinnu alla vikuna, nema fimmtudag ,þá var hún algjörlega raddlaus, svo hún var heima. Við höfum hóstað í kapp við hvort annað. Á miðvikudaginn var okkur alveg hætt að lítast á bóndann og ungfrúnna, svo við fórum til læknis á fimmtudaginn. Þá kom í ljós að þau voru bæði með lungnabólgu, og frúin sennilega með snert af því. Svo öll fjölskyldan fékk sýklalyf og þetta er nú eitthvað að lagast. Auður Elín er allavega hitalaus i dag og bóndinn er eitthvað hressari líka. Við höfum aldrei á ævinni fengið lungnabólgu, en það er kannski ekki skrýtið að maður veikist í þessum kulda sem hefur verið undanfarið. Nú er hins vegar komin hláka. En það á að kólna aftur í næstu viku. Þetta er óttalega breytilegt eitthvað.
Það var nú drifið í í morgun að finna eitthvað jólaskraut fram. Það er nú ekki mikið hægt að skreyta af því að Auður er ansi dugleg að pilla við það. En eitthvað er nú búið að týna fram. Ætli maður reyni ekki að baka eitthvað smotterí næstu helgi. Það verður nú bara eitthvað rólegt. Við höfum nú aldrei verið neitt ofuræst í það. En ágætt að grípa aðeins í það.
Auður Elín er allt í einu farin að vilja drekka sjálf úr glasi og er þetta hin besta skemmtun. Hún drekkur allavega mikið meira en hún er vön. Hún hefur alltaf verið löt við það. Nú vill hún helst drekka í tíma og ótíma. Hún er nú hálfléleg að borða, svo það er gott að hún drekkur. Hún er líka farin að sofa betur á nóttinni aftur. Þetta var ansi strembið hérna síðustu vikuna, þegar hún var vakandi nokkra tíma á hverri nóttu. Hún er annars að breytast voða mikið þessa dagana. Skilur orðið mikið meira og er orðin betri að segja til, hvað hún vill. Það er nú samt ekki alltaf að við skiljum hvað hún vill. Hún er voða dugleg að hjálpa til við að rétta manni hluti, setja í þvottavélina og svoleiðis. Það er nú ekki víst að hún endist lengi við það, en er á meðan er. Við keyptum svona dúkkuvöggu handa henni. Það er nú mest dúkkuföt sem fá að liggja þar, og kannski ein dúkka undir öllu draslinu. En þetta kemur nú allt saman með tímanum.
Annars er nú frekar fátt að frétta hér. Enda vikan farið í að snýta, hrækja og hósta. Vonandi að þetta sé búið núna. Það er stefnt að því að Auður fari til dagmömmu á morgun, hún verður nú örugglega bara fegin. Ekkert skemmtilegt að hanga með okkur hérna heima.
Næstu helgi er svo Helga Rut væntanleg og kærastinn líka, það verður nú ekki leiðinlegt. Bóndinn er svo kannski að vinna þrjá daga í vikunni fyrir jól og svo í fríi milli jóla og nýárs. Þannig að þetta verður ábyggilega mjög fínt bara. Það er búið að panta hamborgarahrygginn, svo jólin klikka örugglega ekki í ár og kaupa kalkún fyrir áramótin. Svo er verið að athuga hvort við getum fengið smá skötu með Helgu. Það væri nú til að toppa þetta.
Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2010 | 14:18
Snjókoma
Kæru bloggvinir
hér hefur snjóað í allan dag, svo það er orðið ansi jólalegt. Það verður fróðlegt að sjá hvort maður komist vandræðalaust í vinnuna á morgun. Við búum sem betur fer við veg sem er ruddur um leið og snjóar af því að sjúkrabílarnir þurfa að geta keyrt. Svo er bara spurningin hvort hinir vegirnir séu ruddir. En það getur nú líka alveg verið að þetta verði allt á bak og burt á morgun. Það er voða erfitt að spá í veðrið þessa dagana. Veðurfræðingarnir eiga voða erfitt með að spá rétt allavega. Þegar þeir segja að það eigi að snjóa, þá gerist ekkert, en svo snjóar þegar þeir segja að það eigi að vera þurrt. Svo þetta er bara eins og að opna jólapakkana að líta út um gluggann á morgnana og sjá hvernig veðrið er.
Við fórum og heilsuðum upp á jólasveininn í Tiset síðasta sunnudag. Hann var nú allavega í rauðum buxum sá. En ekkert gríðarlega upprifinn. Auði fannst hann ekkert sérstaklega áhugaverður, en fékk poka með nammi og ávöxtum í. Hún er nú ekkert æst í sælgæti, sem betur fer, en át ávextina.
Í fyrradag var jólahlaðborð í vinnunni hjá frúnni. Við hittumst bara eftir vinnu heima hjá einum og borðuðum síld og rúgbrauð og svo svínasteik. Þetta var voða huggulegt og enginn dauðadrukkinn, allavega ekki þegar ég fór heim, enda fór ég snemma heim. Ef það hefur gerst eitthvað spennandi hefur það gerst eftir að ég fór heim. Bóndinn fór svo á jólahlaðborð með vinnunni sinni í gær. Þetta var svona jólahlaðborð og keila í keiluhöll í Haderslev. Það var víst alveg ágætt. Frúin komst ekki með af því að barnapían var upptekin. Í morgun var svo brunað í snjónum til Ribe að ná í kalkún á tilboði. Við lentum í því í hitteðfyrra að þeir voru uppseldir rétt fyrir jól, svo við þurftum að keyra út um allt að leita. Við áttum líka hamborgarahrygg í frystinum, en þegar betur var að gáð var hann orðinn frostskemmdur svo það þarf að panta nýjan hjá slátraranum. Það ætti nú að nást fyrir jól. Við eigum hangikjöt í frystinum, það er vacumpakkað, svo það ætti að vera í lagi. Þá vantar okkur bara skötuna. Það verður erfitt að nálgast hana hér. Þeir seldu reyndar saltfisk í Árósum þegar við bjuggum þar, svo kannski er hægt að redda sér á því. Annars höfum við nú bara yfirleitt borðað venjulegan fisk á þorláksmessu.
Í dag var svo farið í að pakka jólagjöfunum sem þarf að senda heim. Það vantar enn eitthvað smotterí, en þeir fara vonandi í póst í vikunni. Gott þegar það verður komið til skila. Maður er nú alltaf hálf stressaður yfir að senda með póstinum. Það er svo oft eitthvað vesen.
Ungfrúin er orðin þrælkvefuð enn einu sinni. Hún sefur hálf illa á nóttinni. Ef þessu fer ekki eitthvað að linna fer maður nú með hana til læknis. Þetta virðist engan endi ætla að taka. Hún er kannski bara ekki byggð fyrir danska rakann. Við hjónaleysin erum drullukvefuð líka. Svo það er svo sem ekki vön á góðu. Við keyptum dúkkuvöggu handa Auði í vikunni. Henni finnst mjög skemmtilegt að fylla hana með dúkkufötum, eða troða sér ofan í hana. En hún lærir nú sennilega fljótlega hvað á að gera við gripinn. Hún var mjög spennt yfir að sjá okkur pakka jólapökkunum áðan. Það verður gaman að sjá hvernig hún bregst við þegar hún fær sjálf pakka um jólin.
Bóndinn ætlaði að fara á fótboltaleik í dag, en af því hann er hálflasinn ákvað hann að vera heima. Enda ekki gaman að standa úti í kulda og snjókomu. Þeir sem eru að spila hljóta að vera vel búnir.
Kveðja úr jólalandi
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2010 | 12:39
Vetrarveður
Kæru bloggvinir
þá er víst komin vetur hérna hjá okkur. Það hefur verið ansi kalt síðustu viku og slydda nokkra daga. Það hefur nú ekki fest snjó hérna hjá okkur. En hérna fyrir norðan okkur og austan hefur snjóað töluvert. Það er alveg ótrúlegt að það hefur verið talað um þetta í mánuð að það kæmi snjór fljótlega og fólk ætti að setja vetrardekk undir bílana og svoleiðis, en það er samt alltaf eins og þetta sé alveg glænýjar fréttir þegar kemur snjór og hálka. Við vonum bara að þetta verði til friðs eins og þetta er núna, bara jólalegt, en ekkert til vandræða. Maður klæðir sig bara í föðurlandið og ullarsokkana og þá er þetta allt í lagi.
Í dag kemur svo jólasveinninn til Tiset, það á nú að skella sér og kíkja á hann. Við fórum til Tønder i gær, það er bær þar sem er búið að byggja upp eins konar jólabæ, með fullt af jóladóti. Það var mjög gaman að skemmtileg stemning. Það var hægt að kaupa allt mögulegt og ómögulegt jólaskraut, en frúin fann nú ekkert venjulegt aðventukerti. Keypti nú samt bara eitthvað öðruvísi kerti. Það voru nánast eintómir Þjóðverjar þarna að versla. Enda vorum við nálægt þýsku landamærunum. Við enduðum svo á að fá okkur heitt kakó og eplaskífur. Það var mjög kalt, en rosalega fallegt veður. Auður sá jólasvein í fyrsta skipti og leist nú bara nokkuð vel á hann, brosti allavega til hans. Það er nú samt ekki mikið gert úr því að láta jólasveinana líta almennilega út. Þessi var bara í rauðum jakka og gallabuxum. Ekki beint jólalegur.
Á föstudaginn fórum við í verslunarleiðangur til Haderslev, það þurfti að versla síðustu jólagjafirnar og jólakjólinn á ungfrúnna. Nú vantar bara jólagjafir fyrir okkur skötuhjúin og krakkana. Það er frábært að geta lokið þessu af svona snemma, þá hefur maður allan desember til að hugsa um eitthvað annað. Við skreytum ekkert strax, finnst betra að bíða aðeins með það og hafa það þá aðeins inn í janúar. Erum þó búin að setja aðventuljósið út í glugga. Danir eru byrjaðir að skreyta og rífa svo allt niður á jóladag. Þeim finnst við nú örugglega verulega undarleg. En við erum nú orðin vön því.
Ungfrúin er dugleg að gera hluti sem hún á ekki að gera. Maður er eitthvað að reyna að virkja þessa óþrjótandi orku sem hún hefur til að láta hana hjálpa til. Það gengur nú misjafnlega. Gestadagmamman er alltaf að hrósa henni, henni finnst svo lítið mál að hafa hana. VIð höldum kannski bara að þegar hún er ekki heima hjá sér, hagi hún sér eins og engill, en þegar heim er komið þurfi hún að fá útrás fyrir óþekktina. Hún hefur verið að vakna á nóttinni þessa vikuna svo hefur hún komið upp í til okkar og verið öll á iði og við nánast ekki sofið. Hún virðist hins vegar alltaf vera gríðarlega morgunhress, þó hún hafi sofið illa. Hún er voða upptekin af tungunni á sér og jóðlar mikið og rúllar tungunni.
Bóndinn ætlar að setja inn myndir af heimasætunni á eftir. Það var verið að reyna að taka myndir af Auði í jólakjólnum, en hún er nú ekki mikið fyrir að sitja kyrr, svo það verður að reyna það betur seinna.
Jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2010 | 11:19
Afslöppun
Kæru bloggvinir
þá er upp runninn bloggdagurinn mildur og góður. Það er fínt haustveður í dag. Það var drifið í að ryksuga bílinn og taka til í morgun, enda ekki vanþörf á. Við nenntum nú ekki að fara að draga fram vatnsslöngur og svoleiðis til að þrífa hann að utan. Skelltum honum bara í gegnum bílaþvottastöðina. Það er hvergi hægt að komast í slöngur á bílaþvottastöðvum hér. Það er allt of dýrt. Svo annað hvort verður maður bara að renna honum í gegnum bílaþvottastöðina eða vera með græjurnar tengdar hérna heima. Það er bara frekar mikið vesen þegar það er farið að frysta. Þeir hafa nú eitthvað verið að tala um snjó, en við höfum sem betur fer ekkert séð af því og vonum að þeir haldi þessu í sér. Ætli maður reyni nú ekki að slappa eitthvað af í dag. Ekki oft sem það gerist á þessum bæ.
Hér er nú annars allt við það sama. Í gær renndi bóndinn til Þýskalands að kaupa sér pepsi. Hann er orðinn eins og Danirnir í bjórnum, verður að eiga pepsi í geymslunni. Það var nú annars planið að renna þangað í dag, en þá var lokað út af einhverjum þýskum helgidegi. Þeir eru voða stífir á að halda öllu lokuðu þegar það eru helgidagar. Það er náttúrlega ekkert mál, nema af því að maður er kannski ekki mikið að pæla í sérstökum þýskum helgidögum. Karlinn keyrði niður á landamæri á öðrum stað en venjulega. Þarna var mikið minna að gera og styttra líka, svo við förum ábyggilega þangað aftur. Sérstaklega þegar vinir okkar sem bjuggu niður við landamæri eru flutt, þá getum við alveg eins notað okkur hina staðina. Við stelpurnar vorum bara heima. Bóndinn þurfti nefnilega að drífa sig svo hann gæti verið heima aftur áður en það byrjaði fótbolti í sjónvarpinu. Nóg að gera. Þeir hafa verið voða virkir við að sýna fótbolta undanfarnar helgar. Og þetta virðist alltaf þurfa að vera á matmálstíma.
Ungfrúin er orðin ansi kvefuð aftur. Hún er nú samt eitthvað hressari í dag en í gær. Hún er farin að babla mikið meira og í ýmsum útgáfum. Hún er farin að segja hæ og takk. En hún er farin að vera mikið betri að gefa til kynna hvað hún vill. Við skiljum hana auðvitað ekki alltaf og þá verður allt brjálað. Dagmamman var að tala um það um daginn að hún og önnur stelpa sem hún passar væru orðnar voða duglegar að leika saman og grallarast eitthvað. Þær verða góðar þegar þær verða aðeins eldri. Dagmamman er annars í fríi næstu viku svo hún fer til gestadagmömmunnar. Sú segist nú alltaf vera rosa glöð að hafa Auði af því hún sé svo auðveld í umgengni. Það sé rosa lítið mál að hafa hana. Annars er nú verið að tala um að hætta með þessar dagmömmur og byggja stóran leikskóla og vöggustofu fyrir þau litlu. En það er nú eflaust einhver bið á því. Auður er aðeins að byrja að borða sjálf með skeið, það getur svo sem vel verið að hún borði með skeið hjá dagmömmunni, en við höfum ekkert heyrt um það. Þetta er voða sport og gengur ágætlega. Hún borðar allavega betur þegar hún fær að gera sjálf.
Seinnipartinn ætlar bóndinn svo að skella sér á fótboltaleik. Það er allt á fullu í þessu núna. Næstu helgi kemur jólasveinninn svo til Tiset, það verður nú að reyna að taka þátt í því. Ekki það að á síðasta ári var jólasveinninn svo slappur að það hefur sjaldan sést annað eins. En vonandi hafa þeir fundið einhvern pínu hressari í ár.
Ungfrúin varð 17 mánaða á fimmtudaginn. Það hefur nú gleymst að taka myndir af henni. En ætli maður reyni ekki að bæta úr því á næstunni. Þetta líður svo hratt að maður gleymir sér bara alveg.
Jæja látum þetta nægja að sinni.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2010 | 14:30
Umhleypingar
Kæru bloggvinir
það er ekkert hægt að finna út úr veðurfarinu hér þessa dagana. Ýmist er kalt og hífandi rok eða skítakuldi. En þetta er víst það sem má búast við á þessum árstíma. Það var svo hvasst einn daginn þegar frúin keyrði heim, að hún hélt að bíllinn myndi fjúka af veginum. Það er alltaf rok í Esbjerg. Veðurfarið þar minnir mann ansi mikið á heimaslóðir.
Annars er allt við það sama hér á bæ. Ungfrúin á bænum heldur áfram að prófa þolinimæði foreldra sinna. Hún er líka farin að lemja. Lærði það víst af stelpu sem hún er með hjá dagmömmunni. Ekki nógu sniðugt. En þessi börn læra víst ýmislegt miður sniðugt hjá dagmömmunni. Það er ægilega skemmtilegt þessa dagana að fá vínber í bolla og labba með þetta út um allt og narta í. Hún rífur sig úr öllum inniskóm og finnst það auðvitað mjög fyndið. Hún er voðalega dugleg að hjálpa til við að tæma uppþvottavélina og þvottavélina. Er nú ekki alveg búin að fatta hvort það sé skítugt eða hreint í, en það er aukaatriði. Hún er voðalega þreytt seinnipartinn. Dagmamman er farin að láta hana labba við hliðina á barnavagninum þegar þær fara eitthvað út, svo hún þreytist nú örugglega eitthvað meira á því. Bóndinn keypti egg af dagmömmunni á föstudaginn. Hún er með nokkrar hænur í bakgarðinum. Samt býr hún mitt í bænum. En það er víst allt leyfilegt hér út á landi. Auður Elín er alveg hætt að fá pela. Virðist ekkert pæla í því. Næst á dagskrá verður víst að kenna henni að sofna ein. Það verður tekið á dagskrá fljótlega.
Í gær var svo farið í smá verslunarleiðangur eftir sundið. Það voru keyptar 5 jólagjafir. Alltaf gott að ljúka því af. Við hjónaleysin ætlum nefnilega að halda jólin í Danaveldi í ár og þess vegna þarf að koma gjöfunum í póst í byrjun desember. Helga Rut ætlar að koma og vera með okkur um jólin, svo það verður nú bara notalegt. Aldrei að vita nema maður skelli sér í messu. Það verður allavega ekki settur upp aðventukrans eða keypt jólastjarna, þar sem ungfrúin kæmist örugglega í þetta og yrði sennilega ekki betri af því. Það verður bara að hengja eitthvað upp í loftið í staðinn. Það er nú smám saman að koma meira jólaskraut í búðir á á verslunargötur. En sem betur fer er ekki allt orðið þakið af þessu. Danir byrja nú oftast snemma. Það verður sennilega erfitt að fá jólatré í ár, það er einhver kreppa í því. Það er verst að maður er búin að saga niður öll jólatrén í bakgarðinum.
Í morgun dreif húsmóðirin sig í mæðrahóp. Við hittumst ennþá, en ekki svo oft lengur, af því við erum allar farnar að vinna aftur. En það er voða gaman að sjá hvernig þessi kríli bara spretta og spretta og þroskast. Það er ein í vinnunni hjá frúnni sem er ennþá að hitta sinn mæðrahóp þó barnið hennar sé orðið 17 ára. Bóndinn er svo farin á fótboltaleik. Það er nú frekar leiðilegt veður, en hann fór vel klæddur svo ætli það reddist ekki. Það má ekki fara með regnhlífar inn á leikvöllinn, sennilega eru þeir hræddir um að maður stingi einhvern með þeim.
Í vikunni héldu Danir upp á Mortens dag. Man nú aldrei út af hverju þeir halda upp á þennan dag. En það hefur eitthvað að gera með biskup sem faldi sig hjá einhverjum öndum. Þess vegna borða þeir alltaf önd í tilefni dagsins. VIð nenntum nú ekki að elda önd í miðri viku en höfðum önd í gær með brúnuðum kartöflum og öllu tilheyrandi. Alveg herramannsmatur. Þetta er smá upphitun fyrir jólin. VIð eigum nú bæði hamborgarahrygg og hangikjöt í frystinum, svo við kvíðum ekki jólunum. Við skelltum okkur í flatkökubakstur í gær. Þetta gekk nú ekki eins vel og síðast. Eldavélahellan hitnaði ekki nógu vel. Það er voðalega erfitt að fá gamaldags hellur sem eru ekki með einhverju innbyggðu kerfi sem kælir plötuna niður um leið og hún hefur hitað mikið í langan tíma. En flatkökurnar heppnuðust nú ágætlega fyrir því. Tók bara lengri tíma.
Jæja held það sé ekki meira til tíðinda hér þessa vikuna.
Kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2010 | 12:24
Frost
Kæru bloggvinir
Þegar maður vaknaði í morgun var hrím á öllu. Það er nú samt rosalega fallegt og gott veður. Sól og bjart. Það var farið í að þétta gluggana í morgun. Vonandi að það blási eitthvað minna inn um þá eftir þessa aðgerð.
Í gærkvöld fórum við hjónaleysin á jólahlaðborð með vinnufélögum bóndans. Við höfum ekki farið á þennan stað áður, en þetta er víst mjög vinsæll staður. Það voru ekki nema 303 gestir. Flestir sátu í stórum sal, og svo sátu nokkrir í minni sölum. Þetta var eins og fuglabjarg. Ekki bætti nú úr skák að það var einhver hljómsveit sem spilaði allt of hátt. Það er ekki í fyrsta skipti sem við upplifum það. Virðist vera einhver tilhneiging hér í sveitinni. Og Danirnir virðast bara sætta sig við þetta. Það var borið fram óhuggulega mikið af mat. VIð sátum og átum frá kl. 19:00 til kl. 22:30. Og það kom stanslaust matur inn. Fyrir utan hávaðann og hitann sem var þarna inni, þá var þetta nú bara mjög fínt. Svo var auðvitað fjöldasöngur. Það er ómissandi á öllum dönskum samkomum. Ungfrúin var í pössun og það gekk ljómandi vel. Svo nú er engin afsökun fyrir að fara af bæ. Stelpan sem var að passa sagði allavega að hún vildi gjarnan passa aftur, svo þetta hefur nú sennilega ekki verið svo slæmt.
Dagmamman er öll önnur eftir að við töluðum við hana. Við vonum að það endist bara. Það er allavega voða munur að tala við hana núna.
Annars er nú allt með frið og spekt hér í Tiset. Allt gengur sinn vanagang.
Bóndinn hefur verið hálf farlama í bakinu eftir að hann fékk brenniofninn yfir sig um daginn. Hann er nú eitthvað að skríða saman aftur. Vinur okkar er búinn að sjóða nýjar lappir undir sílóið, svo það ætti ekki að geta oltið aftur.
Auður Elín var í myndatöku hjá dagmömmunni á föstudaginn. Það er víst gert einu sinni á ári. Hún vildi nú víst ekki brosa. En það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út. Það var líka tekin mynd af hópnum sem er hjá dagmömmunni. Það er líka gaman að eiga mynd af þeim sem hún var með í fyrstu pössuninni.
Stefnan er svo að fara út á eftir og selja happadrættismiða fyrir íþróttafélagið. Þetta er nú ekki alveg uppáhaldið, en sem betur fer þurfum við ekki að fara á marga staði. Þetta snýst um að ljúka þessu af.
Jæja þetta er víst allt of sumt þessa vikuna
kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2010 | 14:44
Vetrartími
Kæru bloggvinir
þá erum við búin að skipta yfir á vetrartíma hér í Danaveldi. Það gerðist í nótt. Núna erum við bara einum tíma á undan Íslandi. Ungfrúin tók nú ekki mikið mark á því og vaknaði bara einum tíma fyrr en venjulega. Það er kl. 5 í staðinn fyrir kl. 6. Frúnni þótti þetta nú fullt snemmt, en það var engu tauti við barnið komið, svo við fórum framúr. Veðrið hefur verið voða undarlegt. Ýmist rigning og rok eða hlýtt og logn. En það hefur nú heldur hlýnað aftur, svo það er hið besta mál. Það var svo fint veður í gær að það var drifið í að setja vetrardekkin undir bílinn. Gott að það er búið. Í dag var svo líka fínt veður, svo það var farið í að hreinsa laufin af blettinum hér fyrir framan. Bóndinn fékk sér einhverja forláta laufsugu, sem er ágætt að hafa svo maður þurfi ekki að raka eins mikið og beygja sig eins mikið niður. Það eru nú enn lauf á sumum trjánum, svo þetta er nú ekkert búið. Það er ekki nóg með að við fáum lauf úr okkar garði, heldur fáum við líka úr skóginum hér fyrir framan. Svo þetta virðist endalaust.
Í morgun kom vinur okkar, sem ætlaði að reyna að tengja nýjan mótor við brenniofninn. Það gekk nú ekki alveg, því það þarf eitthvað að mixa stykki við. Bóndinn ætlar að fara á verkstæði hér á morgun og sjá hvort þeir geta ekki soðið eitthvað saman. Það er vonandi að það gangi og þessi mótor passi við. Þetta er mótor sem vinur okkar notaði á sinn brenniofn, svo þetta ætti að ganga. En maður er nú orðin svo vanur að það sé eitthvað vesen svo maður trúir þessu nú ekki fyrr en þetta fer að keyra.
Ungfrúin er mjög iðin þessa dagana við að prófa ýmislegt miður heppilegt. Það er t.d óskaplega skemmtilegt að príla upp á stóla og reyna að komast upp á eldhúsborð. Hún var eitthvað að gaufa fram við stigann einn morguninn. Það er svo sem ekkert nýtt, svo var liðin smá stund og heyrðist eitthvað lítið í henni svo frúin fór að tékka á henni. Hún var þá búin að príla yfir plötuna sem er fyrir stiganum upp á loft og var komin upp í miðjan stiga. Hún skildi nú ekkert í því hvað mamma hennar var að stressa sig á þessu. En hún hefur allavega ekki reynt þetta aftur. Það er voða sport að vinka og segja bæbæ, en það er ekki endilega þegar maður er að kveðja hana. Henni finnst voða gaman að fletta upp um sig peysunni og ganga um þannig. Það er líka alveg ofsalega gaman að fá að stripplast. Hún hleypur fram á gang og pissar á gólfið og hlær svo alveg ógurlega. Hún er farin að vera voða spennt fyrir að fara í sund. Hleypur alveg þegar hún er að fara í búningsklefana. Hún er orðin mikið betri af kvefinu, sem betur fer.
Næstu helgi er svo jólahlaðborð í vinnunni hjá bóndanum. Það er búið að fá stelpu í Tiset til að passa. Hún hefur gert það áður, svo það verður örugglega ekkert vandamál. Auði finnst líka yfirleitt fínt að prófa eitthvað nýtt og hitta nýtt fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)